Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
9. árg. 308. tbl.
7. desember 2016
Langvinn stríð og náttúruhamfarir kalla á 22,2 milljarða dala í mannúðaraðstoð: 
Aldrei verið óskað eftir hærri framlögum til mannúðaraðstoðar 
Aldrei í sögunni hafa Sameinuðu þjóðirnar óskað eftir hærri framlögum til mannúðaraðstoðar vegna stríðsátaka og náttúruhamfara. Á mánudag birtu fulltrúar SÞ tölur um þörfina fyrir framlög á næsta ári, alls 22,2 milljarða dala. Framlögin eiga að nýtast 93 milljónum manna í 33 ríkjum sem búa við átök og afleiðingar náttúruhamfara.

Rúmlega helmingur framlaganna mun renna til stríðshrjáðra íbúa í Sýrlandi, Jemen, Írak og Suður-Súdan, að því er fram kom í máli fulltrúa OCHA, samræmingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum.

Þörfin þrefaldast á fáeinum árum
Frá árinu 2011 hefur þörfin fyrir fjárframlög til mannúðaraðstoðar vaxið jafnt og þétt, frá því að vera tæpir 8 milljarðar bandaríkjadala upp í rúmlega 22 milljarða, sem er því sem næst þreföldun. "Sífellt fleira fólk þarfnast mannúðaraðstoðar, ekki síst vegna þess að átök dragast sífellt á langinn," sagði Stephan O´Brien fulltrúi OCHA.

Nokkur ríki hafa sent út neyðarkall því sem næst árlega síðasta aldarfjórðunginn og sum ríkjanna horfa fram á verra ástand á næsta ári en því sem er að líða. Meðal þessara óstöðugu ríkja eru Afganistan, Búrúndí, Lýðstjórnarlýðveldið Kongó og Sómalía.

Á síðasta ári óskuðu Sameinuðu þjóðirnar eftir örlítið lægri fjárhæð til mannúðaraðstoðar, eða 22,1 milljarð dala. Síðasta dag nóvembermánaðar höfðu Sameinuðu þjóðirnar fengið 51% af því fjármagni.

U.N. launches record $22.2 billion humanitarian appeal for 2017/ UNNewsCentre
Héraðsnálgun í alþjóðlegri þróunarsamvinnu:
Unnið með héraðsstjórn Buikwe við að styrkja grunnþjónustu í fiskimannasamfélögum

Íslendingar hafa á síðustu árum mótað og þróað verklag í alþjóðlegri þróunarsamvinnu sem vakið hefur athygli annarra framlagsríkja. Þetta verklag eða aðferðarfræði kallast héraðsnálgun. Hún felst eins og nafnið gefur til kynna í samstarfi Íslendinga við héraðsstjórnir, þróunaráætlanir héraða í samstarfsríkjunum. Slíkt samstarf hefur gefið góða raun, bæði í Malaví og Úganda - og Stefán Jón Hafstein forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala var á dögunum beðinn um að lýsa fyrirbærinu... á mannamáli.

Þá lýsir Árni Helgason verkefnastjóri í sendiráðinu í Kampala héraðsnálgunarverkefninu í Buikwe héraði en þar styðja íslensk stjórnvöld héraðsstjórnina við að innleiða betri grunnþjónustu í þágu íbúanna. Um er að ræða stuðning við 19 fiskimannasamfélög, öll þau stærstu í héraðinu sem telja um 75% íbúanna, samtals um 60 þúsund manns. Árni lýsir fyrstu tveimur árum samstarfsins sem hófst árið 2014 og felur í sér stuðning við vatns-, salernis- og hreinlætismál annars vegar og stuðning við menntamál í fiskimannasamfélögunum hins vegar. Nánar er fjallað um skólamálin í Buikwe í grein eftir Stefán Jón Hafstein ásamt kvikmyndabroti á öðrum stað í Heimsljósi.

Fjárlagafrumvarpið lagt fram:
Aukin framlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu á næsta ári

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram á Alþingi í gær er stefnt að því að verja 0,25% af vergum þjóðartekjum til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands árið 2017, sem er óbreytt prósenta frá yfirstandandi ári. Hins vegar er stefnt að því að hækka framlögin upp í 0,26% árið 2018 og það hlutfall gildi áfram til ársins 2021.

"Frumvarpið gerir því ráð fyrir að framlög sem teljast til opinberrar þróunaraðstoðar ( e. ODA ) nemi 6,2 milljörðum.kr. árið 2017 og hækki um 9% á milli ára. Munu þá framlögin hafa hækkað um 17% frá árinu 2015 og um 48% frá 2014," eins og segir orðrétt í frumvarpinu.

Um markmið með alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands segir:

"Markmið íslenskra stjórnvalda taka mið af Heimsmarkmiðum S.þ. um sjálfbæra þróun.Yfirmarkmiðið er að draga úr fátækt og stuðla að almennri velferð á grundvelli jafnréttis og sjálfbærrar þróunar með því að:

* Bæta lífsskilyrði og auka tækifæri fátæks fólks með sterkari félagslegum innviðum í samstarfslöndum, með jafnrétti að leiðarljósi.
* Bæta fæðuöryggi og hagþróun á grundvelli jafnaðar og sjálfbærrar auðlindanýtingar í samstarfslöndum.
* Auka viðnámsþrótt og getu samfélaga til endurreisnar með mannúðaraðstoð og starfi í þágu friðar.

Jafnrétti og sjálfbærni er leiðarljós í þróunarsamvinnu Íslands og íslensk stjórnvöld leggja sitt af mörkum til þess að aukin hagsæld samfélaga skili sér til þeirra fátækustu og leiði til jafnaðar. Enn fremur þykir mikilvægt að saman fari íslensk þekking og þarfir fátækustu ríkjanna, á þeirra eigin forsendum. Áhersla er lögð á að efla samlegðaráhrif tvíhliða og fjölþjóðlegrar þróunarsamvinnu og tryggja eignarhald heimamanna til að festa framfarir í sessi."
Annar fundur samstarfsvettvangs um þróunarsamvinnu haldinn í Kenía:
Framkvæmd Heimsmarkmiðanna meginumræðuefni fundarins

Hvað er Global Partnership for Effective Development Cooperation? Myndbandið svarar þeirri spurningu.
Framkvæmd Heimsmarkmiðanna var meginumræðuefni þrjú þúsund fulltrúa frá 150 þjóðríkjum sem sóttu fjögurra daga fund háttsettra fulltrúa á vettvangi alþjóðlegs samstarfs um árangursríka þróunarsamvinnu. Fundinum sem haldinn var í Næróbí í Kenía lauk í gær með útgáfu á svokallaðri Næróbí aðgerðaráætlun. Í henni eru áréttaðar þær fjórar meginstoðir árangursríkrar þróunarsamvinnu, eignarhald, árangur, samstarf og gagnsæi, og ábyrgðarskylda - og mikilvægi þess að ólíkir aðilar starfi samkvæmt þessum grunngildum. Á fundinum var ennfremur undirstrikað mikilvægi jafnréttis kynjanna og valdeflingar kvenna og ungmenna.

María Erla Marelsdóttir skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu á fundinum í Næróbí.

Samstarfsvettvangurinn "Global Partnership for Effective Development Cooperation" var settur á laggirnar árið 2011 á leiðtogafundi um þróunarsamvinnu í Busan, en áður höfðu slíkir fundir verið haldnir í Róm (2003), París (2005) og Accra (2008). Fyrsti fundur samstarfsvettvangsins var haldinn í Mexíkó árið 2014 og annar fundurinn í Kenía í þessari viku.

Á fundinum komu saman fulltrúar ríkja, borgarasamtaka, einkageirans og góðgerðarsamtaka og ræddu hvernig ólíkir aðilar geta með góðri samvinnu unnið að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna með mismunandi hætti.

Því er við að bæta að í vikunni gaf OEDC/DAC út framvinduskýrslu um það hvernig gengur að innleiða megingildi árangursríkrar þróunarsamvinnu fyrir árið 2016.

Kvennasamtök í Kiyindi:
Silfurfiskurinn á meiri virðingu skilið - ekki aðeins fæði fyrir fátæklinga og ferfætlinga

Konur í fiskimannaþorpinu Kiyindi í Buikwe héraði í Úganda stofnuðu samtök árið 2010 í því skyni að auka verðmæti silfurfisksins: mukene. Þær vildu líka auka virðingu fyrir þessum smágerða fiski sem almennt var talinn fóður fyrir fátæklinga og ferfætlinga. Og þær vildu með stofnun samtakanna afla fiskverkakonum aukinna tekna. Í upphafi voru konurnar fimmtán í samtökunum Kiyindi Women Fish Processors Association, nú eru þær áttatíu.

Logose Perus framkvæmdastýra KWFPR segir að samtökin hafi tekið frumkvæði að viðhorfsbreytingu í samfélaginu með því að kynna mukene sem hollustufæði fyrir alla. Samtökin hafi líka staðið fyrir vöruþróun með því að meðhöndla fiskinn með mismunandi hætti og koma afurðum á markað: í duftformi, steiktur sem snakk, framleiddur heitreyktur og loks með hefðbundnu sniði: sólþurrkaður.

Logose segir vandað til vinnslunnar, allur fiskur sé þurrkaður á grindum en ekki á jörðinni með tilheyrandi óþrifnaði. Hún segir að flestar konurnar í samtökunum séu einstæðar mæður, hafi ekki fasta atvinnu og bæti lífsafkomu sína með starfi á vegum samtakanna. Að sögn hennar hafa samtökin náð þó nokkrum árangri í sölu á vörum sínum, nóg til þess að hafa átt þess kost að leggja dálítið fé til hliðar og hugmyndin sé að treysta reksturinn með því að hefja hænsnarækt.

Vilja vernda vatnið
Starf kvennanna í Kiyindi, sem er eitt af stærstu fiskimannasamfélögum í Buikwe, hefur vakið talsverða athygli í Úganda, ekki síst fyrir frumkvæði þeirra að þurrkgrindum fyrir silfurfiskinn sem áður var eingöngu sólþurrkaður á jörðinni. Logose hefur einnig talað ákveðið um gæði matvæla, um mikilvægi þess að konur standi saman í baráttunni fyrir betri lífskjörum og hún vill að gripið verði til aðgerða til verndar Viktoríuvatni og fiskistofnum þess. Þá sér hún fyrir sér að samtökin eignist hugsanlega í framtíðinni bát og þá fyrst geti hugsast að karlar fái inngöngu.

Alnæmisdagurinn: 
Ungar konur og unglingsstúlkur í mestri smithættu vegna HIV 
World AIDS Day 2016: The life-cycle approach to HIV
World AIDS Day 2016: The life-cycle approach to HIV
Knýjandi þörf er fyrir skjóta aðstoð til verndar stúlkum og ungum konum í sunnanverðri Afríku gegn alnæmi því þúsundir þeirra smitast af HIV veirunni í hverri viku.

Samkvæmt tölum sem birtar voru í Windhoek í Namibíu á dögunum þegar UNAIDS gaf út skýrsluna "Fast-Track" smituðust í hverri viku á síðasta ári 7.500 stúlkur og ungar konur á aldrinum 15 til 24 ára í þessum heimshluta. Níu af hverjum tíu unglingum sem smitast af veirunni eru stúlkur og dánartíðnin er há.

Í frétt UNAIDS segir að mörgum unglingsstúlkum sé ókunnugt um að þær beri veiruna og þær leiti því ekki eftir aðstoð eða fái meðferð. Skýringin er sögð sú að stúlkurnar geti ekki sagt foreldrum sínum að þær hafi átt í kynferðislegu sambandi við eldri karlmann.

Á árabilinu frá 2010 til 2015 tókst að fækka nýsmituðum lítillega eða um 6% meðal þjóðanna sunnan Sahara, úr 420 þúsundum niður í 390 þúsund. Ólíklegt þykir hins vegar að markmiðið um að fækka nýsmituðum niður í 100 þúsund fyrir árið 2020 náist.

At last, an HIV prevention tool women can control?/ Devex
UNAIDS announces 18.2 million people on antiretroviral therapy, but warns that 15-24 years of age is a highly dangerous time for young women/ UNAIDS
UN calls for urgent action to protect young women from HIV/Aids in Africa/ TheGuardian
Íslenskur stuðningur við flóttafólk frá Suður-Súdan í Úganda

Um þessar mundir eru tveir sendifulltrúar staddir í Suður-Súdan, þær Elín Jakobína Oddsdóttir og Hólmfríður Garðarsdóttir.
Tvenn íslensk mannúðarsamtök, Rauði kross Íslands og Hjálparstofnun kirkjunnar, fengu á dögunum styrki frá utanríkisráðuneytinu vegna mannúðarverkefna við stríðshrjáða flóttamenn frá Suður-Súdan sem leita skjóls í nágrannaríkinu Úganda. Framlagið til Rauða krossins nemur 20 milljónum króna og framlagið til Hjálparstarfs kirkjunnar 10 milljónum. Íslendingar styðja einnig flóttafólkið í Úganda fjárhagslega með framlögum til alþjóðastofnana eins og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR), Matvælaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (WFP) og Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF).

Bidibidi
Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) sendu nýverið út neyðarkall vegna fjölgunar flóttamanna frá Suður-Súdan yfir landamærin til Úganda en IFRC er samstarfsaðili í verkefninu ásamt Rauða krossinum í Úganda (URCS). Talið er að allt að 300 þúsund manns hafi fallið í átökunum í Suður-Súdan og hátt í tvær milljónir manna eru á flótta vegna þeirra. Framlag Rauða krossins og utanríkisráðuneytisins veitir rúmlega 11 þúsund einstaklingum í flóttamannasamfélögunum í Bidibidi nauðsynlega og lífsbjargandi mannúðaraðstoð. Þar á meðal má nefna aðgang að hreinu vatni og dreifingu hreinlætispakka, aðgang að neyðarskýlum og aðgang að heilsugæslu til að takmarka heilsufarslega áhættuþætti. Í Bidibidi eru um 85% flóttamanna konur og börn og 40% hafa verið skilgreind sem einstaklingar með sérþarfir og alvarlega veikir.

Verkefnið stendur yfir í sex mánuði.
 
Adjumani
Verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar er unnið í samstarfi við skrifstofu Lútherska heimssambandsins í Kampala, höfuðborg Úganda, sem starfar náið með Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna á vettvangi. Markmiðið með verkefninu er að veita flóttafólki öryggi, skjól, aðgang að hreinu vatni og salernisaðstöðu. Markhópurinn telur rúmlega 27 þúsund flóttamenn og 70% af þeim eru börn í flóttamannasamfélögunum í Adjumani héraði. Um ræða styrk í samfjármögnunarsjóð Lútherska heimssambandsins sem er m.a. styrktur af hjálparstofnun finnsku kirkjunnar. Hún er jafnframt framkvæmdaraðili ásamt LWF í Úganda og annast menntunarþáttinn í verkefninu.

Verkefnið er til eins árs.

Vatn er von - jólasöfnun Hjálparstarfsins er hafin

Í Sómalífylki í Eþíópíu valda tíðir þurrkar viðvarandi matarskorti og vannæringu. Vatnsskorturinn leiðir til lélegs ástands bústofnsins en dýralæknaþjónusta er stopul. Afleiðingin er fátækt en vegna hennar er skortur á tækjum og tólum og því eru ræktunaraðferðir í jarðrækt takmarkaðar. Allt leiðir þetta til þess að fæðuöryggi er mjög ábótavant og lífsskilyrði eru slæm.

Hjálparstarf kirkjunnar hefur í níu ár starfað með sjálfsþurftarbændum á svæðinu að því að tryggja aðgengi að hreinu vatni, auka fæðuval og efla völd og áhrif kvenna, samfélaginu öllu til farsældar.

Á vef Hjálparstarfsins segir að starfið hafi borið góðan árangur en svæðið sé stórt og íbúar margir. "Þegar aðstæður hafa breyst til batnaðar í einu þorpi höfum við fært okkur um set og hjálpað fólki til sjálfshjálpar í því næsta. Með frábærum stuðningi frá almenningi á Íslandi höldum við áfram að hjálpa fólkinu í Jijiga til sjálfshjálpar - í hverju þorpinu á fætur öðru," segir í fréttinni.

Hjálparstarfið hefur sent valgreiðslu að upphæð 2.500 krónur í heimabanka landsmanna en einnig er hægt að hringja í söfnunarsíma 907 2003 og leggjast þá 2.500 krónur á næsta símreikning. Framlag að eigin vali er hægt að gefa á framlag.is eða leggja inn á söfnunarreikning: 0334-26-50886 kt. 450670-0499.

Unnsteinn Manúel og Eva María nýir verndarar UN Women

UN Women á Íslandi kynnti nýverið nýja verndara samtakanna; Evu Maríu Jónsdóttur og Unnstein Manúel Stefánsson. Þau taka við af leikkonunni Unni Ösp Stefánsdóttur og Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur, mannfræðiprófessor sem sinnt hafa hlutverki verndara undanfarin ár.

Unnsteinn og Eva María tóku við keflinu í Ljósagöngu UN Women þann 25. nóvember síðastliðinn á alþjóðlegum baráttudegi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi. Yfirskrift göngunnar í ár var konur á flótta þar sem meðal annars var vakin athygli á jólagjöf UN Women í ár sem er sæmdarsett fyrir konur í Írak sem inniheldur helstu nauðsynjar sem gera konum kleift að halda í sjálfsvirðinguna og reisn í þessum skelfilegu aðstæðum.
 
Áhugavert

Forget the Tie. Give a Gift That Matters, eftir Nicholas Kristof/ NYT
-
Mobilising aid through the private sector can yield high poverty reduction returns, eftir Dirk William te Velde/ TheGuardian
-
Can the Sustainable Development Goals deliver on their promise of gender equality and empowerment of women by 2030? / UNWomen
-
#BeatMe | I Am UNbeatable I UNWomen
#BeatMe | I Am UNbeatable I UNWomen

Judit Polgar discusses how she changed gender stereotypes playing chess/ UNWomen
-
How can we improve learning outcomes for refugee and displaced young people under 24?/ TheSolve
-
Understanding "New Power"/ HBR
-
Agenda for Sustainable Development: What are the EU's ambitions?, eftir Christine Hackenesch og Niels Keijzer
-
The War on Terror vs the War on Poverty, eftir William Easterlay/ NYUDRI
-
A first look at Facebook's high-resolution population maps, eftir Talip Kilic/ Alþjóðabankablogg
-
Ending Hunger: What would it cost?/ IIED
-
Watch Justin Trudeau Wipe Away Tears While Listening To A Syrian Refugee Speak/ HuffingtonPost
-
#smilewithme/ Kjarninn
-
FGM is now considered child abuse, but where is the funding?, eftir Jessica Neuwirht/ TheGuardian
-
FGM happened to me in white, midwest America/ TheGuardian
-
Ráðstefna NORAD: Sivilt samfunns rolle i bistanden/ Norad
-
Win a Trip in 2017/ NYT
-
Svaf í runna/ SOS
-
'We got this': Africans call on western donors to trust them on FGM/ TheGuardian
-
The Forgotten Development Goal: Personal Reflections/ GirlsGlobe
-
IPA's Great Holiday Travel Podcast Playlist 2017/ Poverty-Action
-
Pappor på väg åt rätt håll/ OmVärlden
-
Resultatrapportering: Ingen kunst å bekrefte egen fortreffelighet, eftir Pål Dale/ Bistandsaktuelt

Fræðigreinar og skýrslur
Nýtt SOS Barnaþorp í Damaskus

Nýtt barnaþorp á vegum SOS Barnaþorpanna hefur verið opnað í Damaskus í Sýrlandi. Börnin sem eignast heimili í nýja þorpinu eru á öllum aldri en eiga það sameiginlegt að hafa upplifað hörmungar síðustu ár. Í frétt frá SOS Barnaþorpunum á Íslandi glíma börn sem búa við stríðsástand oft við kvíðaraskanir og þunglyndi og því sé mikilvægt að þau fái aðstoð við hæfi í barnaþorpinu.

SOS Barnaþorpin eru sem stendur einu hjálparsamtökin í landinu sem bjóða munaðarlausum og yfirgefnum börnum ný heimili og fjölskyldu. Samtökin sinna einnig neyðaraðstoð í Sýrlandi og áherslan er lögð á aðstoð við börn.



The human cost of Chad's war against Boko Haram/ IRIN
-
Food Assistance Helps Drought-hit Families in Malawi/ WFP
-
Africa Watch: Africa's high hopes for new UN chief/ UN
-
Climate change will stir 'unimaginable' refugee crisis, says military/ TheGuardian
-
More than 190 Governments prepare to take tough decisions to stop biodiversity decline worldwide/ UNEP
-
U.N. Finally Apologizes For Cholera In Haiti ... But Omits One Point/ NPR
-
Etiopien − på randen till inbördeskrig/ OmVärlden
-
Trygd til alle i verden - er det mulig?/ Bistandsaktuelt
-
US and UK explore possibility of aid airdrops in Syria/ TheGuardian
-
A map showing how many foreign languages children study at school in different European countries/ Indy100
-
Boko Haram food crisis demands cooperation and accountability/ IRIN
-
"A NEW GAMBIA IS BORN"/ UNDISPATCH
-
Trudeau's biggest decision you've never heard of/ The Star
-
Disabled people to get more from UK aid, says development minister/ TheGuardian
-
Should Child Marriage Be Talked About In The Classroom?/ NRP
-
No sleep for Congolese mothers trying to save their girls from rape/ TheGuardian
-
Margt smátt - Jólablað Hjálparstarfs kirkjunnar
-
Kenya Campaign Fights Against Sexual, Gender-based Violence/ VOA
Kenya Campaign Fights Against Sexual, Gender-based Violence/ VOA
-
Five west African countries ban 'dirty diesel' from Europe/ TheGuardian
-
Red Cross poll: People more tolerant toward war crimes/ DW
-
UNICEF Goodwill Ambassador David Beckham uses tattoos to show 'brutal reality' of child violence
-
The Gambia bans international calls and internet as voters go to polls/ TheGuardian
-
Health care: from commitments to action/ UN
-

D+C - desemberhefti 2016
-
UNHCR urges governments: People fleeing war to be considered as refugees/ UNHCR
-
Famine and fat: Malawi's double-edged nutrition problem/ DW
-
Harvard research suggests that an entire global generation has lost faith in democracy/ Qz
-
In Yemen's war, trapped families ask: Which child should we save?/ WashingtonPost
-
Regional inequality is a hard problem to solve/ Economist
-
700 millioner mer i bistand til utlandet/ Bistandsaktuelt
-
Prins Póló og Gosar fyrir UNICEF
-
Nigeria's presidency says aid agencies overstating northeast hunger/ Reuters
-
For Africa's disabled, a life of poverty and struggle/ DW
-
Vannært barn eitt hinna "heppnu"/ Mbl.is
-
Fréttaskýring Om Världen: Manlighet (Karlmennska)
-
VERDENS FØRSTE MALARIA-VACCINE PÅ VEJ/ VerdensBedsteNyheter

Ungmennaráð UNICEF á Íslandi stendur fyrir átakinu #30sek

Ungmennaráð UNICEF á Íslandi stendur nú fyrir verkefninu #30sek til að vekja athygli á því að á hálfrar mínútu fresti neyðist barn til að leggja á flótta sökum stríðs, fátæktar eða umhverfisáhrifa. Ungmennaráðið hefur látið gera einstaklega flotta boli sem kaupa má   hér  (það er reyndar kominn biðlisti) og kosta 2.800 krónur. Hver einasta króna rennur í neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn frá Sýrlandi.

Ungmennaráðið bendir á að í meðferð barna á flótta skorti mannúð og ábyrgð. Þessu vilja þau breyta og biðla til samfélagsins að standa saman í því að opna hjörtu okkar og landamæri fyrir flóttafólki.

Þróunarsamvinna byggð á staðreyndum

eftir Stefán Jón Hafstein forstöðumann sendiráðs Íslands í Kampala

Inngangur: Snoturt hjartalag tilheyrir allri þróunarsamvinnu en gerir hana ekki árangursríka. Ekki frekar en hugsjónir, trúboð eða aðrar tegundir af góðvilja. Samvinna byggð á staðreyndum leggur grunn að mögulegum árangri og þjónar kröfunni sem kallast á ensku "evidence based" - um skipulagðar aðgerðir og mælanlegan árangur.

1. Rannsóknavinna: Við undirbúning menntaverkefna sem Ísland styður í tveimur héruðum í Úganda hefur verið leitast við að afla góðra opinberra gagna, en ekki bara það, heldur líka stunda frumrannsóknir, enda skortir oft haldbærar staðreyndir um stöðu mála. Hér verður rakið stuttlega hvernig unnið hefur verið skipulega að rannsóknum til að byggja undir verkefni okkar í Kalangala og Buikwe, en þar er leitast við að bæta gæði menntunar í grunnskólum og gagnfræðaskólum.
Þegar undirbúningur að samstarfi við Buikwe hérað hófst var gerð stöðumatskönnun (e. situation analysis) á héraðinu af írskum ráðgjafa (Dr. Kiernan), sem skilaði ítarlegri greinargerð 2014. Þar var dregin upp dökk mynd af ástandinu í fátækum fiskimannaþorpum og beinlínis sagt að börnin lærðu varla nokkurn skapaðan hlut, jafnvel þótt þau kæmu í skóla, þá sjaldan. Sem dæmi má taka að brottfall barna úr 1.-7. bekk er 70% og allt upp í 90% þar sem verst er.
Myndræn framsetning á brottfalli skólabarna eftir árgöngum í Buikwe árið 2015. P1-P7 jafngildir barnaskóla, S1-S4 jafngilda efri bekkjum grunnskóla og síðan tekur við framhaldsskóli, S5-S6

Í framhaldi var héraðið stutt til að gera stefnumótunaráætlun í menntamálum, sem fól í sér mikla upplýsingaöflun og greiningu á fyrirliggjandi gögnum.
Í Kalangalahéraði dró hins vegar að leiðarlokum eftir 10 ára samstarf við Ísland og ákveðið að ráðast í svokallaða ,,innri greiningu" á verkefninu til að meta hvort ætti að fram halda ákveðnum þáttum - þar sem festa mætti í sessi árangur (mars 2015).

Úgandískur sérfræðingur í mennta- og sveitarstjórnarmálum, Dr. Odoch, var fenginn til verksins ásamt starfsmanni ÞSSÍ, Stefáni Jóni Hafstein. Niðurstaða þeirra var að árangur væri talsverður í skólamálum og þar væri vænlegt að halda áfram áður en samstarfi yrði formlega lokið.
Um miðbik 2015 lágu því fyrir all góðar greiningar á ástandi í báðum héruðum og fjöldi samráðsfunda. Ári síðar voru svo samþykkt ítarleg verkefnaskjöl fyrir stuðning við skóla í Kalangala og Buikwe og gilda næstu fjögur ár hið minnsta.

Rannsóknarspurningar
Meðal þess sem stakk í augun við rýni á Kalangalaverkefninu var að þrátt fyrir að grunnskólabörn sýndu betri árangur á samræmdum prófum, fjölgaði ekkert þeim sem héldu áfram í gagnfræðaskóla (e. secondary) sem þjónar 13-18 ára nemendum (á tveimur skólastigum). Betri einkunnir leiddu ekki til lengra náms.

Þróunarsamvinna byggð á staðreyndum - kvikmyndabroti frá Úganda með meginefni úr pistlinum.
Spurningar leituðu á undirbúningsteymið: Hvað er að baki bættum árangri á prófum í grunnskólum í Kalangala (og myndi verða leiðbeinandi í Buikwe) og hvers vegna halda börnin ekki áfram, þau fáu, sem þó standast lokapróf í barnaskóla (12-13 ára) ? Hvað skýrir hið mikla brottfall almennt?
 
Dr. Odoch var falið að gera sérstaka framhaldsrannsókn í Kalangala (júlí 2015) um þetta efni. Sú rannsókn leiddi í ljós með sannfærandi hætti að umtalsvert batnandi árangur barna í Kalangala frá því að aðstoð við skóla hófst byggði á mörgum samverkandi þáttum, enginn einn var afgerandi. Og ástæðan fyrir því að börnin héldu ekki áfram upp í gagnfræðaskóla var yfirgnæfandi ,,of há skólagjöld" -í landi þar sem grunnmenntun á að vera ókeypis og almenn. Ekki var munur á piltum og stúlkum hvað varðar árangur eða brottfall. Sjá mátti að hugsanlega höfðu skólamáltíðir áhrif á bættar einkunnir.

Skólagjaldaþátturinn var sláandi, því skólarnir rukka foreldra ótæpilega vegna þess að ríkisvaldið leggur alltof litla peninga til þeirra og engin leið að standa undir rekstri af opinberum framlögum. Hér var dreginn fram ,,hinn duldi kostnaður við ókeypis skóla". Auðvitað eru þessi gjöld á allra vitorði, líka stjórnvalda, en greining á þeim og hvernig skólarnir nota þau er mjög í skötulíki.

Rökleiðslan
Þessar staðreyndir höfðu áhrif á undirbúning verkefna í Buikwe og Kalangala og má draga hugsunina saman í þetta: Samkvæmt ábendingu frá mati Dr. Kiernans þarf fyrst og fremst að huga að gæðum menntunar fyrir þau börn sem þó koma í skóla og veita þeim lágmarksfærni - því annars er allt fyrir gíg. Samkvæmt athugun Dr. Odochs virtist margþættur stuðningur bæta frammistöðu (t.d. þjálfun kennara, skólaeftirlit, skólabækur handa öllum, betri aðbúnaður). Og samkvæmt foreldrum eru hin tilfinnanlegu skólagjöld helsti hemillinn á lengri skólagöngu.

Hin hliðin á röksemdafærslunni er nöturleg: Það vinnst ekkert við að minnka brottfall og fjölga nemendum ef skólarnir kenna þeim ekkert. Og í þessu svartholi er engin ein töfralausn - einungis blóð sviti og tár, sem á fagmáli kallast "margþættur stuðningur".

Til lengri tíma litið halda rökin vonandi: Með því að bæta gæði skólastarfsins og sýna fram á að börnin geti lært, og samhliða leitast við að lækka skólagjöld á viðkvæmum ,,brottfallspunktum," má gera sér vonir um lágmarks árangur og aukinn stuðning samfélaganna við menntun.

Það má því segja að staðreyndir málsins hafi verið all vel kortlagðar. Og umfang vandans ógnvekjandi.

2. Bætt um betur
Á hverju byggist "dulinn kostnaður við ókeypis menntun" og hvernig má lækka hann?      
Þegar kom að framkvæmd tveggja fjögurra ára verkefna um miðbik ársins 2016 var ákveðið að gera ítarlegar grunngildarannsóknir (e. baseline) í báðum héruðum - stöðutöku. Ekki bara með því að safna opinberum gögnum með tölulegum gildum, enda lágu þau fyrir þegar, heldur með eigindlegum rannsóknum (e. qualitative). Regnhlífarsamtök í menntamálum í Úganda, FENU, gengust fyrir skoðanakönnunum og gæðamati meðal kennara, foreldra og nemenda þar sem kafað var dýpra í þann raunveruleika sem býr að baki talnabankanum. Þessar niðurstöður segja ekki bara til um raunverulega stöðu þegar verkefnin hefjast, heldur gefa þær færi á samanburði síðar meir með endurtekningu, þannig að breyting á viðhorfum og gæðavitund á verkefnistímanum verði mæld.

Ítargreining
Einnig var ráðist í ítarlega greiningu í hverjum þeirra sjö gagnfræðaskóla sem verkefnið tekur til í Kalangala og Buikwe á því hvers vegna og fyrir hvað skólarnir krefja foreldra um gjöld. Dr. Odoch framkvæmdi þá greiningu sem afhjúpaði þungar byrðar á fátæk heimili, en einnig ógagnsæja stjórnsýslu og fjárreiður. Mikið samráð var haft við skólana, fræðsluyfirvöld á hvorum stað og áreiðanleiki gagna staðfestur. Markmiðið var líka að meta ávinning hvers skóla af framlögum Íslands innan verkefnisins og hvort og þá hvernig skólarnir gætu létt hluta gjaldanna af foreldrum.   Ekki er vitað til að svona vinna hafi verið unnin áður í tengslum við skólaverkefni í Úganda. Úrlausna er nú leitað.

Nemendur spurðir
Samtímis gekkst sendiráðið fyrir sérstakri úttekt á brottfalli nemenda úr gagnfræðaskóla með því að starfsmaður þess, Sigrún Björg Aðalgeirsdóttir, spurði úrtak nemenda sem fallið höfðu úr skóla á síðustu árum út í ástæður þess. Var farið á vettvang með spurningalista. Aftur var ríkt samráð við skólana.   Nemendur staðfestu með svörum sínum það sem áður var vitað, að skólagjöldin voru helsta ástæða brottfalls og svipað hlutfall meðal stúlkna og pilta. Ítarspurningar leiddu hins vegar í ljós meira um viðhorf þeirra og aðstæður og þá kom í ljós munur eftir kynjum. Þar með er komin mun gleggri mynd af því hvað býr að baki þessu mikla brottfalli sem verður í gagnfræðaskóla, þótt gjöldin séu aðal orsakavaldurinn.

Næring og námsgeta
Sendiráðið vinnur nú að undirbúningi enn einnar rannsóknarinnar sem mun ef allt gengur eftir bæta mjög skilning á aðstæðum barnanna. Rannsaka á næringarástand skólabarna á tilteknum aldri og bera saman við lærdómsgetu (e. cognitive ability). Þetta verður gert í Buikwe af prófessor Acham, en hún hefur áður gert frumherjarannsóknir á þessu sviði og birt niðurstöður. Af rannsókninni munum við væntanlega sjá hvort börnin í skólunum séu yfirleitt í viðunandi líkamlegu og andlegu ásigkomulagi til að læra, og einnig, með sambærilegum rannsóknum síðar, hvort staðan hafi batnað með tilkomu skólaeldhúsa og fyrirhugaðra skólagarða.

3. Niðurstöður
Undirbúningur og fyrsta stig framkvæmda hefur því verið lærdómsferli allra sem vinna saman að verkefnunum og beinlínis lagt grunninn að verkefnahönnun með staðreyndum sem við blasa. Munu fjölbreytt rannsóknargögn gera fært að vinna ítarlegt árangursmat síðar meir.

Ný stefnumið fyrir Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna WFP
 
eftir Jón Erling Jónasson fastafulltrúa Íslands hjá stofnunum Sameinuðu þjóðanna í Róm

Nýverið samþykkti framkvæmdastjórn Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (World Food Programme, WFP) ný stefnumið fyrir árin 2017-2021. WFP er stærsta mannúðarstofnun í heimi með höfuðstöðvar í Róm á Ítalíu og skrifstofur í um 80 löndum. Hjá stofnuninni starfa um 11 þúsund manns, langflestir á hamfarasvæðum þar sem fæðuaðstoðar er þörf til fórnarlamba stríðsátaka eða náttúruhamfara. Á hverju ári veitir stofnunin að meðaltali 80 milljón manns fæðuaðstoð sem er að öllu leyti fjármögnuð með frjálsum framlögum frá aðildarríkjunum.

Year One: Reaching Zero Hunger by 2030/ WFP  
Áætluð framlög til verkefna WFP árið 2016 eru um 5,6 milljarðar Bandaríkjadala (dollara) sem eru um 626 milljarðar íslenskrar króna, sem er upphæð nálægt því að vera jöfn öllum ríkisútgjöldum á Íslandi. Bandaríkin hafa alltaf verið stærsta framlagaríkið en frá þeim komu um 40% allra framlaga árið 2015. Norðurlöndin leggja mikla áherslu á samstarfið við WFP, en framlög þeirra það ár námu um 275 milljónum dollara sem voru um 5,4% af heildar framlögum. Borið saman eftir höfðatölu voru framlög hvers íbúa á Norðurlöndunum í dollurum á ári, í Noregi 18, Danmörk 10, Svíþjóð 9, Finnland 6 og Ísland 3, samanborið við Bandaríkin þar sem framlagið er um 6 dollarar.

Rammasamningur við utanríkisráðuneytið
Nýverið var skrifað undir stefnumarkandi rammasamning milli utanríkisráðuneytisins og WFP um framlög Íslands til verkefna stofnunarinnar. Í samningnum skuldbindur Ísland sig til að veita fyrirsjáanleg framlög og gefur um leið stofnuninni svigrúm til þess að beina þeim þangað þar sem mest er þörf á neyðaraðstoð og bjarga þarf mannslífum.

Á næstu fimm árum greiðir Ísland, á grundvelli samningsins, að minnsta kosti 250 milljónir króna í framlög til WFP.

Stefnumið fyrir WFP
Gerð nýrra stefnumiða fyrir WFP voru fyrir margra hluta sakir áhugaverð, en endurskoðunin fór af stað skömmu eftir að SÞ samþykktu nýHeimsmarkmið í september 2015. Stofnunin er því ein af þeim fyrstu innan SÞ sem fer í gegnum slíka heildarendurskoðun eftir að heimsmarkmiðin tóku gildi. Eitt af grundvallar atriðum hinna nýju heimsmarkmiða er að öll markmiðin 17 eru samþætt og órjúfanleg, þau eru hluti af heild þar sem þau styðja við hvort annað og árangur þarf að vera á öllum sviðum.

Þegar WFP lagði fram fyrstu drög að stefnumiðunum í upphafi árs kom í ljós að stofnunin tók hugmyndafræði hinna nýju heimsmarkmiða alvarlega. Fyrstu drög voru harðlega gagnrýnd fyrir að ætla að sveigja WFP frá því að vera mannúðarstofnun, sem bregst við bráða hungursneið og næringarskorti, yfir í stofnun sem veitir þróunaraðstoð ríkjum sem búa við bágt ástand í fæðuöryggismálum.

Norðurlöndin gerðu strax athugasemdir við þessar áherslur í fyrstu drögum að stefnumiðunum, þróunaraðstoðin væri einungis 6,9% af verkefnum WFP þegar mannúðaraðstoðin væri 80,5% (neyðar- og framhaldsaðstoð, 42% + 38,5%), séraðstoð 7,6% (svo sem fjarskipti og flutningar) og að lokum 5% í önnur verkefni.

Alls voru átta útgáfur að stefnumiðunum lagðar fyrir aðildarríkin en þau breyttust smátt og smátt í þá veru sem aðildarríkin voru tilbúin að samþykkja á framkvæmdastjórnarfundi í nóvember sl. Stefnumiðin leggja áherslu á að WFP leggja sitt af mörkum til tveggja heimsmarkmiða, númer 2 um að útrýma hungri, tryggja fæðuöryggi og bætta næringu og stuðla að sjálfbærum landbúnaði og númer 17 um að styrkja framkvæmd og blása lífi í alþjóðlegt samstarf um sjálfbæra þróun.

Við gerð stefnumiðanna kom berlega í ljós að það getur verið grýttur vegur fyrir stofnanir SÞ að aðlaga stefnu sína að heimsmarkmiðunum. Það kom líka á daginn þegar seint í ferlinu yfirstjórn FAO lagðist yfir drögin og gerði sínar athugasemdir. Í þeirra huga var WFP að fara langt út fyrir sitt verksvið og þannig að sælast í fjármuni sem annars færu til FAO. WFP neitaði þessu staðfastlega en afstaða FAO varð samt til þess að stefnumiðin breyttust töluvert á seinni stigum, þar sem tekið var mikið tillit til sjónarmiða þeirra.

Segja má að innrás FAO í umræðuna hafi fært stefnumiðin nær hagsmunum framlagaríkjanna sem líta á WFP sem mannúðarstofnun og veita henni framlög í samræmi við það. Aftur á móti studdu þróunarríkin sjónarmið WFP, hagsmunir þeirra voru að tryggja að áfram væru skrifstofur og verkefni WFP í sem flestum ríkjum. Hreinar línur hvað varðar verksvið stofnana SÞ var ekki mikilvægasta málið fyrir þeim, þau vilja geta valið sér samstarfsaðila og segja ekki nei við þróunarverkefnum WFP.
 
Stefnumið WFP má finna á vef stofnunarinnar.
Chief Kachindamoto

eftir Ásu Maríu H. Guðmundsdóttur starfsnema í Lílongve

Í sendiráðum Íslands í Malaví, Mósambík og Úganda starfa þrír starfsnemar sem líkt og undanfarin ár hafa fallist á beiðni Heimsljóss um pistlaskrif þann tíma sem þeir dvelja í samstarfslöndum Íslendinga.

Í síðustu viku lá leið okkar í sendiráðinu í Lilongwe í dagsferð til Kachindamotobæjar í Dedza héraði. Héraðshöfðingi Dedza, Theresa Kachindamoto, hafði boðið okkur í heimsókn en hún er nýjasti samstarfsaðili okkar hérna í Malaví og ætlar að aðstoða höfðingja í Mangochi að finna leiðir til að takast á við barnahjónabönd sem eru mikið vandamál í héraðinu og í landinu öllu.

Hefur ógilt yfir 1500 barnahjónabönd
Theresa Kachindamoto er yngst tólf systkina og kemur úr fjölskyldu héraðshöfðingja. Þar sem hún var yngst og þar að auki kona bjóst hún ekki við því að verða höfðingi sjálf og reyndi meira að segja sem best hún gat að afþakka stöðuna þegar hún bauðst. Hún hafði unnið sem ritari guðfræðiháskólans í Zomba hátt í 30 ár þegar hún fékk kallið og sagði okkur að hún hefði snúið heim í hérað full efasemda um að hún væri að gera rétt og ekki sannfærð um að nokkur vildi hafa hana sem höfðingja. Henni til mikillar undrunar tók fólkið á móti henni með fagnaðarlátum og eftir að hafa rætt örstutt við guð sagðist hún hafa áttað sig á því að þetta væri það sem hún ætti að gera. Þetta var árið 2003 og síðan þá hefur Kachindamoto komið í veg fyrir eða ógilt yfir 1500 barnahjónabönd, hvort sem það er á milli tveggja barna eða barns og fullorðins einstaklings. Hún hefur einnig barist ötullega á móti skaðlegum vígsluhefðum sem stundaðar eru sums staðar í Malaví og miða að því að undirbúa börn undir hjónaband í gegnum kynlífsathafnir. 

Eins og áður sagði eru barnahjónabönd mikið vandamál í landinu. Ástæðurnar fyrir því eru margvíslegar - fátækt veldur því oft að foreldrar sjá einfaldlega bara hag sinn í að gifta dætur sínar en þannig er munninum færri að fæða og jafnvel fylgir einhver greiðsla frá eiginmanninum tilvonandi; börn sem eignast börn saman eru látin giftast eða gera það af fúsum og frjálsum vilja; trúarbrögð og hefðir þeim tengdar geta hvatt til giftinga o.s.frv. Hver sem ástæðan er þá eru þau skaðleg barninu og samfélaginu í heild en lang oftast leiða þau til þess að börnin hætta í skóla og fara að sinna heimilinu og eignast börn.

Það að ráðast gegn rótgrónum hefðum eins og þeim sem barnahjónabönd byggja oft á er ekki auðvelt og sérstaklega ekki ef það er kona sem er að rísa upp gegn hefðum jafn karllægs samfélags og Kachindamoto stendur frammi fyrir. Hún sagði okkur frá því að þegar hún fyrst tilkynnti það að hún ætlaði sér að stöðva barnahjónabönd og misnotkun á börnum í héraðinu þá mætti hún mikilli mótstöðu og var hreinlega spurð að því hvort hún vildi deyja. Hún glotti óhrædd þegar hún sagði okkur frá þessu en svar hennar var á þann veg að þeir mættu drepa hana þegar hún væri búin með þetta verkefni sem hún ætlar sér að klára og að hún muni þá sitja sátt hjá guði, stolt af sínu ævistarfi. Í malavískum lögum eru hjónabönd einstaklinga undir átján ára aldri bönnuð en vandamálið er að í stjórnarskrá landsins er einstaklingur sagður gjaldgengur í hjónaband þegar hann nær fimmtán ára aldri. Þetta ósamræmi auðveldar fólki að komast framhjá lögum en einnig eru mörg hjónaböndin svokölluð hefðarhjónabönd eða "customary marriages" sem þýðir að þau eru ekki endilega viðurkennd af ríkinu heldur þurfa þau einungis samþykki þorpshöfðingjans. Fjölkvæni er til dæmis þó nokkuð algengt í Malaví en fjölkvænishjónabönd eru alltaf hefðarhjónabönd hér þar sem þau eru bönnuð með lögum.

Hjálög í héraði
Til að ná fram þeim árangri sem raun ber vitni hefur Kachindamoto þurft að vera ákveðin, hörð af sér og staðföst. Hún sagði okkur frá því að hún hafi komið á hjálögum í sínu héraði sem bannar þorpshöfðingjum að gefa leyfi fyrir barnahjónaböndum og hún hefur verið hörð á því að þessum hjálögum skuli fylgt eftir. Fljótlega eftir að hjálögin voru sett á urðu nokkrir þorpshöfðingjar uppvísir að því að hundsa þau - þeir létu múta sér til að leyfa hjónabönd sem samkvæmt lögunum er harðbannað. Kachindamoto kallaði umrædda höfðingja á fund með sér og leysti þá frá störfum sem þorpshöfðingjar fyrir brot sín - hún gerði þeim það strax ljóst að hún ætlaði ekki að sýna neina linkind í þessari baráttu. Hún tekur það þó fram að hún trúi á það að fólk geti bætt sig og þorpshöfðingjarnir óþekku fengu annað tækifæri eftir að hafa ógilt hjónaböndin sem þeir leyfðu og hún var búin að fá staðfestingu frá skólastjórum í þorpunum þeirra þess efnis að stúlkurnar væru mættar aftur í skólann. Í þessari heimsókn okkar til Kachindamoto voru þessir þorpshöfðingjar sem höfðu fengið annað tækifæri einnig viðstaddir. Mæðrahópur í þorpinu setti upp leiksýningu fyrir okkur sem sýndi afleiðingar þess að brjóta hjálögin en leikritið fjallaði einmitt um þorpshöfðingja sem samþykkti að unglingsstúlka mætti giftast náunga sem lofaði henni gulli og grænum skógum fyrir - og höfðinginn átti að sjálfsögðu að fá smá fyrir sinn snúð líka. Til að gera langa sögu stutta þá komst þetta brask hans upp þrátt fyrir það að hann hefði beðið alla um að hafa hljótt um þetta svo Kachindamoto kæmist ekki að því og hann var að sjálfsögðu rekinn með skömm. Ég neita því ekki að það var lúmskt gaman að fylgjast með raunverulegu höfðingjunum á meðan á leiksýningunni stóð en þeir hafa þó lært sína lexíu og fulltrúi þeirra hélt fyrir okkur ræðu eftir sýninguna þar sem hann ræddi brot sín og yfirbót.

Kachindamoto er ótrúlega heillandi kona, ástríða hennar fyrir málefninu var augljós og hreif okkur auðveldlega með þegar hún sagði okkur sögununa sína. Hún trúir því staðfast að menntun spili lykilhlutverk fyrir heiminn allan og þá sérstaklega menntun stúlkna - "Educate a girl and you educate the whole area...you educate the world!" segir hún. Við hlökkum mjög til að fá að vinna meira með henni, og höfðingjunum í Mangochi, að því mikilvæga takmarki að útrýma barnahjónaböndum.

facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105