|
 |
Heimsljós
veftímarit um þróunar- og mannúðarmál
|
10. árg. 329. tbl.
|
14. júní 2017
|
|
Vilji til þess að sameinast um aðgerðir til að bæta ástand heimshafanna:
Rödd Íslands sterk á hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York
"Íslendingar lögðu fram viljayfirlýsingu um að draga úr plastmengun í sjó með skipulögðu átaki, að auka þekkingu á afleiðingu súrnunar sjávar og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á næstu árum með fjölþættum aðgerðum sem muni meðal annars stuðla að minni losun frá samgöngum og sjávarútvegi," segir Jóhann Sigurjónsson sérstakur erindreki um málefni hafsins hjá utanríkisráðuneytinu sem sótti hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York.
Jóhann segir að einnig hafi verið kynnt viljayfirlýsing um að ljúka kortlagningu hafsbotnsins innan íslenskrar efnahagslögsögu og koma á nýtingaráætlunum fyrir mikilvægustu fiskistofnana við landið, hvorutveggja til að stuðla að vernd og sjálfbærri nýtingu auðlindanna í hafinu í kringum Ísland. "Þá er Ísland meðal þjóða sem hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um að stefna að því að banna örplast í snyrtivörum, en örplast er meðal mengunarefna sem geta haft neikvæð áhrif á lífríki hafsins," segir hann.
 |
|
 |
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra á hafráðstefnu SÞ. |
Ráðstefnan fór fram dagana 5.-9. júní og fjallaði í raun um 14. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem snýr að málefnum hafsins, bæði vernd og sjálfbærri nýtingu auðlinda hafsins. Ráðstefnan var afar fjölsótt þar sem fyrir mörgum sendinefndum ríkja fóru þjóðarleiðtogar og ráðherrar, en ráðstefnan var haldin í höfuðstöðvum SÞ í New York undir forystu forseta allsherjarþings SÞ, Peter Thomson frá Fiji eyjum, en forsetar ráðstefnunnar voru Isabella Lövin þróunarmálaráðherra Svíþjóðar og
Semi Koroilavesau sjávarútvegsráðherra Fiji.
Að sögn Jóhanns Sigurjónssonar samanstóð þessi fimm daga ráðstefna af almennri umræðu og sjö þemamálstofum, þar sem fjallað var um helstu hafáherslur Heimsmarkmiða SÞ: mengun heimshafanna, stjórn og verndun strandsvæða, súrnun sjávar, sjálfbærar fiskveiðar, stöðu smáeyríkja, vísindi og tæknilausnir og miðlun þekkingar, og framkvæmd Hafréttarsáttmála SÞ.
Þá hafa ríki Sameinuðu þjóðanna að sögn Jóhanns sameinast um ákall um aðgerðir til að bæta ástand heimshafanna, treysta samstarf og efla rannsóknir, vöktun hafsins og miðlun þekkingar og reynslu. Að síðustu lögðu þátttakendur ráðstefnunnar fram 1328 viljayfirlýsingar um aðgerðir, sem snúa að hreinna hafi, minni mengun, verndun lífríkis og sjálfbærum fiskveiðum.
 "Ástand heimshafanna og lífríki sjávar skiptir Ísland afar miklu máli í bráð og lengd," segir Jóhann. "Þess vegna var ákveðið að taka virkan þátt í ráðstefnunni og það hefur verið unnið að undirbúningi hennar síðustu misserin í samstarfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, umhverfis- og auðlindaráðuneytis undir forystu utanríkisráðuneytisins, bæði fastanefndarinnar í New York og í ráðuneytinu heima í Reykjavík."
Þessi þrjú ráðuneyti skipuðu sendinefnd Íslands undir forystu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þorgerður Katrín stýrði ásamt fulltrúa Perú málstofu um hafvísindi og tækni í sjávarútvegi, en auk þess átti íslenska sendinefndin sérstakt framlag í málstofu um súrnun hafsins þar sem Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra talaði.
Málstofa um bláa hagkerfið
Ísland stóð fyrir málstofu í samvinnu við Færeyjar og Norrænu ráðherranefndina um bláa hagkerfið. Málstofan var ein í röð þriggja um það efni, var sú síðasta í röðinni og bar heitið "Realising the Blue Bioeconomy in Small Island States: Building on Governance and Innovation. Henni var stjórnað af Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sjávarútvegsráðherra. Aðalniðurstaða málstofunnar var tilkynning um samstarf smárra eyríkja á svið bláa lífhagkerfisins, Small Island Blue Bioeconomy Forum, sem haldið verður í tengslum við "Our Oceans" ráðstefnuna á Möltu í október. Þar verða kynnt dæmi um þá möguleika sem liggja í blá lífhagkerfinu og þá erfiðleikar sem smá eyríki eiga sameiginleg. Þetta verður gert með því að lítil eyríki úr suðri og norðri koma með raunveruleg dæmi um verkefni eða fyrirtæki.
Þá tóku fulltrúar Íslands þátt í málstofu um sjálfbærar fiskveiðar, og um hafréttarmál. Jafnframt því tók íslenska sendinefndin þátt í fjölda hliðarviðburða um málefni hafsins. Því má segja að íslensk rödd hafi verið óvenju áberandi á þessari miklu ráðstefnu.
"Íslenska sendinefndin lagði áherslu á að mikilvægt væri að þjóðir heims tækju höndum saman til að bæta ástand heimshafanna með átaki í baráttunni gegn plastmengun og annarri mengun, eftirfylgni við Parísarsamkomulagið með tilliti til losunar gróðurhúsalofttegunda og síðast en ekki síst með því að tileinka sér ábyrga fiskveiðistjórnun, sem í dag væri mjög vel mögulegt á grundvelli vísinda og tækni, eins og dæmin sanna. Stjórnmálamenn þyrftu líka að styðja við vísindin, jafnvel þegar ráðgjöfin væri ekki svo auðveld í framkvæmd. Íslendingar væru reiðubúnir til að miðla af reynslu sinni í þessum efnum og gerðu það m.a. með starfsemi Sjávarútvegsskóla Háskóla SÞ, sem rekinn væri á Íslandi."
Fulltrúar skólans sóttu einnig ráðstefnuna og kynntu starfsemi hans.
|
Ríkisstjórn Kanada samþykkir femíníska stefnu í þróunarsamvinnu:
Framlögum verður að mestu ráðstafað í þágu kvenna og stúlkna
 |
|
 |
Smellið á myndina til að horfa á kynningarmynd. |
Samkvæmt nýrri femínískri stefnu stjórnvalda í Kanada í þróunarmálum verða 95% af öllum opinberum framlögum ráðstafað í þágu kynjajafnréttis kvenna og stúlkna, árið 2022. Ríkisstjórnin ákveður með öðrum orðum að setja fimmta Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í öndvegi. Samkvæmt hugmyndafræðinni er stuðningur við konur, stuðningur við alla, eins og kanadíska stórblaðið The Star orðaði það.
Í frétt blaðsins segir að þetta sé róttæk ný sýn í þróunarsamvinnu Kanada sem kynroðalaust tali fyrir femíniskum áherslum sem leið til að útrýma fátækt í heiminum með því að styðja við bakið á konum í fátækum þjóðum veraldarinnar.
 Í tilkynningu frá stjórnvöldum segir að ríkisstjórn Kanada hafi samþykkt femíníska stefnu í alþjóðlegri þróunarsamvinnu til að stuðla að jafnrétti kynjanna og styrkja allar konur og stúlkur.
Marie-Claude Bibeau þróunarmálaráðherra Kanada segir það mat ríkisstjórnar Kanada að þetta sé árangursríkasta leiðin til að draga úr fátækt og byggja upp heim þar sem ríkir meiri friðsæld og velsæld.
Á sérstakri vefsíðu um nýju stefnuna segir að þegar konur og stúlkur fái jöfn tækifæri til að ná árangri geti þær orðið kyndilberar mikilla breytinga, styrkt efnahaginn, stuðlað að friði og samvinnu, og aukið lífsgæði fyrir fjölskyldur þeirra og samfélög.
Fjögur áherslusvið nýju stefnunnar eru þessi:
- takast á við kynbundið ofbeldi;
- styðja staðbundin samtök og hreyfingar sem tala fyrir réttindum kvenna;
- bæta færni opinberra stofnana í almannaþágu; og
- hjálpa til við að byggja upp sterkan grundvöll sönnunargagna til stuðnings jafnréttisaðgerðum.
Eftir fimm ár verði 95% framlaga Kanada til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu ráðstafað til verkefna sem tengjast kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna og stúlkna. Helmingur framlaganna fari til þjóða í sunnanverðri Afríku og framlög til heilbrigðismála og kyn- og frjósemismála verði tvöfaldaður.
 Þótt Kanada sé fyrsta þjóðin sem ákveður að einblína á konur í alþjóðlegri þróunarsamvinnu má geta þess að Svíar kynntu femíníska stefnu í öllum utanríkismálum sínum árið 2015.
Samkvæmt fimmta Heimsmarkmiðinu á að tryggja jafnrétti kynjanna og efla völd allra kvenna og stúlkna. Í undirmarkmiðum segir meðal annars: Öll mismunun gagnvart konum og stúlkum verði afnumin alls staðar; allir skaðlegir siðir, eins og barnahjónabönd, snemmbúin og þvinguð hjónabönd og sköddun kynfæra kvenna, verði afnumdir; og ólaunuð umönnunar- og heimilisstörf verði viðurkennd og metin með því að tryggja opinbera félagsþjónustu, innviði og stefnumörkun á sviði félagslegrar verndar og að ýtt verði undir sameiginlega ábyrgð innan heimilis og fjölskyldu eins og við á í hverju landi.
Canada's new foreign aid policy puts focus on women, rights/ Devex
|
Kanslari Þýskalands á leiðtogafundi með þjóðhöfðingjum Afríku:
Brýnt að draga úr fátækt og stríðsátökum í álfunni
 |
|
Tvennt bar hæst í ávarpi Angelu Merker Þýskalandskanslara í sérstökum leiðtogafundi með þjóðhöfðingum Afríku á mánudaginn: annars vegar að draga úr fátækt og hins vegar að fækka átökum í álfunni. Þýskalandskanslari efndi til leiðtogafundarins með þjóðhöfðingjum Afríku í aðdraganda leiðtogafundar G20 ríkjahópsins í næsta mánuði þar sem Þjóðverjar eru í forsæti.
Merkel hefur lagt áherslu á mikilvægi þess að berjast gegn fátækt í Afríku til þess að forðast straum flóttafólks til Evrópu. Hún hefur samkvæmt frétt Deutsche Welle gert tengslin við Afríkuþjóðir að áhersluatriði þann tíma sem Þjóðverjar fara með forsæti í G20 ríkjahópnum.
Fundurinn á mánudag var haldinn í Berlín og hann sóttu meðal annars þjóðhöfingjar frá Gíneu, Egyptalandi, Fílabeinsströndinni, Malí, Gana, Túnesíu og Rúanda. Tilgangur fundarins var meðal annars að ræða svokallaðan "
samning við Afríku" sem felur í sér samstarfsverkefni G20 ríkjanna og þeirra Afríkuþjóða sem hafa skuldbundið sig til efnahagslegra umbóta með einkafjárfestum í því skyni að auka atvinnu og örva viðskipti.
 "Jákvæð þróun í heiminum verður ekki nema allar álfurnar séu þátttakendur," sagði Merkel á Berlínarfundinum "Við þurfum framtak sem ekki talar um Afríku heldur með Afríku," sagði hún.
Kanslarinn gerði ólíka aldurssamsetningu Afríku og Evrópu að umtalsefni, benti á að meðalaldur í Þýskalandi væri 43 ár en í Níger og Malí væri meðalaldur íbúanna 15 ár. "Ef við gefum ekki unga fólkinu tækifæri, ef við fjárfestum ekki í menntun og hæfileikum þeirra, ef við styrkjum ekki stöðu stúlkna og ungra kvenna, munu markmið okkar í þróunarsamvinnu ekki nást," sagði Merkel.
Fjármálaráðherra Þýskalands tilkynnti á fundinum um samstarfssamninga við Túnis, Fílabeinsströndina og Gana um 300 milljóna evru fjárfestingaráform til stuðnings afrísku þjóðunum.
|
Dagur
rauða nefsins: Hátt í tvö þúsund nýir Heimsforeldrar
 |
|
 |
Sigríður Thorlacius í Dakar, höfuðborg Bangladess - áhrifaríkt kvikmyndabrot. |
Dagur rauða nefsins hjá UNICEF á Íslandi náði hámarki síðastliðið föstudagskvöld í rúmlega þriggja klukkustunda skemmti- og söfnunarþætti í beinni útsendingu á RÚV. Meginmarkmið átaksins var að gleðja landsmenn, fræða þá um baráttu UNICEF í þágu barna um allan heim og bjóða þeim að gerast
heimsforeldrar
.
Átakið gekk framar öllum vonum, að því er fram kemur á vef UNICEF á Íslandi. Rúmlega 1850 manns gengu til liðs við heimsforeldra UNICEF og mikill fjöldi núverandi heimsforeldra hækkuðu mánaðarlegt framlag sitt. Auk þess söfnuðust um 5,5 milljónir í stökum framlögum frá einstaklingum og fyrirtækjum. Miðað við reynslu fyrri ára má áætla að heildarvirði söfnunarinnar sé um 220 milljónir, segir á vefnum.
Þar segir ennfremur:
"Heimsforeldrar eru hjartað í lífsnauðsynlegu starfi UNICEF um allan heim og eru nú orðnir tæplega 28.000 talsins á Íslandi. UNICEF starfar í yfir 190 löndum og heimsforeldrar eru hlutfallslega hvergi fleiri í heiminum en á Íslandi. Skráningar halda áfram eftir dag rauða nefsins á
https://unicef.is/skraning.
"Við gætum ekki verið ánægðari með niðurstöðuna sem er framar okkar björtustu vonum. Við bjóðum alla nýja heimsforeldra UNICEF hjartanlega velkomna og erum þakklát og hrærð yfir því hversu stór hluti þjóðarinnar leggur baráttu UNICEF lið," segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.
Á vef UNICEF segir að landsmenn hafi brugðist við sláandi umfjöllun um starf UNICEF víða um heim. "Í forgrunni var ferð söngkonunnar Sigríðar Thorlacius til Bangladess þar sem hún kynnti sér aðstæður barna. Þar hitti hún meðal annars götubörn, sem búa við afar hættulegar aðstæður, og börn sem vinna mikla erfiðisvinnu, en varð einnig vitni að því hvernig UNICEF ásamt heimsforeldrum beita sér af alefli á hverjum degi fyrir bættum lífskjörum barna þar í landi," segir í fréttinni.
|
Norræni dagurinn í Kampala
Áttunda árið í röð fögnuðu Norðurlandaþjóðirnar sameiginlega þjóðhátíðardegi í Kampala á dögunum. Noregur, Danmörk, Svíþjóð og Ísland eiga öll þjóðhátíðardaga í maí og júní og hafa því tekið þann kostinn að láta af sér vita og gleðjast með vinum í Úganda á sameiginlegri hátíð.
 Þá hafa sendiráðin jafnan sameinast um að senda frá sér blaðagrein sem tekur á einhverju sem þau telja til framfara horfa í Úganda. Að þessu sinni var umræðuefni upplýsinga- og tjáningarfrelsi. Sama þema var í ræðu kvöldsins þar sem Sam Kutesa utanríkisráðherra var heiðursgestur.
Talsvert stór hópur Norðurlandabúa er í Úganda og einnig fólk sem kemur að þróunarsamvinnu, viðskiptum, félagasamtökum og hefðbundinni utanríkisþjónustu. Gestalistinn var því langur, um 500 manns.
Að sögn Stefáns Jóns Hafstein forstöðumanns íslenska sendiráðsins í Úganda hefur sú hefð skapast að ríkin sameinast ekki bara um eitt málefni sem þau vilja leggja áherslu á heldur hafa þau líka kappkostað að bjóða upp á mat og drykk frá heimalöndum sem er ákaflega vel þokkað.
Á myndinni eru t.f.v. Mogens Petersen sendiherra Dana, Stefán Jón Hafstein forstöðumaður íslenska sendiráðsins, Urban Andersson sendiherra Svía og Susan Eckey sendiherra Noregs.
|
Á dögunum var leikurinn "Upplifun flóttamannsins" prófaður með nemendum níunda bekkjar Salaskóla í Kópavogi. Markmið leiksins er að auka þekkingu ungs fólks á aðstæðum flóttafólks. Áhersla er lögð á verklegar æfingar svo þátttakendur geti sett sig í spor annarra.
Fara í hlutverk flóttafólks
Í leiknum fara nemendur í hlutverk flóttafólks og þurfa að fara yfir stríðssvæði þar sem leynist fjöldi jarðsprengja. Þátttakendur velja fjóra hluti eða einstaklinga sem eru þeim kærir til að taka með sér. Ferðin er þó ekki hættulaus því ef rekist er á jarðsprengju þá missir viðkomandi einn af þeim hlutum eða einstaklingum sem valdir voru. Að því loknu fara hóparnir í umræðu með leiðbeinanda og ræða upplifanir sínar og það varnarleysi sem fólgið er í að missa það sem er þeim kærast. Ýmsar spurningar vöknuðu upp í samræðunum til dæmis: "Hvað er nauðsynlegt að taka
 með sér á flótta?", "Hvað skilur fólk eftir þegar það flýr?", "Má skjóta hvern sem er í stríði?", "Hverjir eru það sem hljóta sérstaka vernd?", "Er algengt að börn týnist í stríði?". Í þessum umræðum leggja leiðbeinendur sérstaka áherslu á alþjóðleg mannúðarlög sem eru lög sem gilda í stríði.
Nemendur í Salaskóla tóku leiknum vel og bentu á ýmislegt sem betur má fara í framkvæmdinni. Fram kemur á vef Rauða krossins að það sé gott fyrir félagið að fá ungt fólk með sér í að prófa leiki í fyrsta sinn til að laga það sem þarf. "Nemendurnir voru opnir og jákvæðir með spurningar sem sýna hvað þau eru vel upplýst og þroskuð í vangaveltum sínum," segir í fréttinni.
Leikurinn verður hluti af Mannúðarfræðslu sem grunnskólar í Kópavogi hafa möguleika á að bjóða upp á sem valgrein í tíunda bekk í samstarfi við Rauða krossinn í Kópavogi. Kársnesskóli hefur nú þegar tekið upp áfangann og boðið upp á sem valgrein og hafa nú þegar þrír aðrir skólar í Kópavogi sýnt áhuga á gera slíkt hið sama í haust. Stefnt er að því að bjóða öllum skólum í Kópavogi samstarf árið 2018.
|
|
Jafningjarýni DAC um Ísland kynnt samtímis á mánudag í París og Reykjavík
Næstkomandi mánudag, 19. júní, verða birtar á sama tíma í París og á Íslandi, niðurstöður fyrstu jafningjarýni Þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD-DAC) á alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Rýnin nær yfir tímabilið 2013-2016 og felur í sér úttekt á helstu þáttum alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands, s.s. laga- og stofnanaumgjörð, stefnumótun og framkvæmd.
Fundurinn hefst kl. 12.00. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Charlotte Petri Gornitzka, formaður DAC kynna niðurstöður rýniskýrslunnar og svara fyrirspurnum.
Áhugafólk um þróunarsamvinnu er hvatt til þess að koma á fundinn sem haldinn er í Safnahúsinu við Hverfisgötu.
Vinsamlegas tilkynnið þátttöku á netfangið ama@mfa.is eða hakið við á viðburði á Facebooksíðu alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands.
Takið daginn frá!
|
|
Malavískur rappari á Secret Solstice hátíðinni
|
Nýjasta lagið frá Tay Grin.
|
Malavíski hiphop listamaðurinn Tay Grin er einn af fjölmörgum tónlistar-mönnum sem koma fram á sumarsólstöðuhátíðinni Secret Solstice í Reykjavík síðar í vikunni en hátíðin hefst á morgun og stendur yfir helgina. Tay Grin verður á sviðinu kl. 17:00 á laugardag, 17. júní.
Tay Grin, sem heitir fullu nafni Limbani Kalilani, er vinsælasti tónlistarmaðurinn í Malaví um þessar mundir. Auk tónlistarinnar hefur hann vakið athygli í heimalandi sínu og víðar fyrir að leggja baráttunni fyrir kynjajafnrétti lið og hann er fulltrúi UN Women í HeForShe herferðinni
.
|
|
-
|
Dancing for a better future/ DW |
-
-
-
-
-
-
-
-
- The 11th International Conference on Community-Based Adaptation (CBA11)/ IIED - Fistula, a preventable birth injury, afflicts most vulnerable women and girls/ UNFPA - Legg ned ambassadene i Afrika/ Bistandsaktuelt - Global opinion leaders show increased use of social media for information on development, eftir ZUBEDAH ROBINSON/ Alþjóðabankablogg - Secret aid worker: charities have been gagged in the UK election - this is why/ TheGuardian - Why foreign aid is critical to U.S. national security, eftir Mike Mullen og James Jones/ Politico - WFP Uganda Country Brief/ WFP - Five surprising ways people's diets have changed over the past 50 years - A Scientific Method for the SDGs, eftir ANNE-SOPHIE STEVANCE og DAVID MCCOLLUM/ Project-Syndicate - Stepping up nontraditional financing for health, eftir Musa Okwonga/ Devex - Slår et slag for superpappaen/ Bistandsaktuelt - Each day war forces thousands of families to flee their homes - #SignAndPass - Education for catching up , eftir Susanne Sawadogo/ D+C - Prepare better today for tomorrow's natural disasters - It's possible, eftir EDE IJJASZ-VASQUEZ/ Alþjóðabankablogg - COLONIAL LEGACY: No land in sight, eftir Henning Melber/ D+C - Corruption and Development: Counting Results not Receipts/ Devex - Helping poor countries "rich" in natural resources: A 12-step program for donors, eftir Ian Gary/ PoliticsOfPoverty - Global opinion leaders show increased use of social media for information on development, eftir Zubedah Robinson/ ALþjóðabankablogg - Don't ignore young people - we're key to fighting climate change, eftir Daisy Kendrick/ TheGuardian - The galvanized world response to Trump's Paris Agreement decision, eftir Nathan Hultman/ Brookings - Twitter chat: are we doing enough for refugees?/ ODI
|
|
Fréttir og fréttaskýringar
|
|
|
|
|
Frumkvöðlakonur í sjálfbærri orku funda í Gabon -fjármögnun í brennidepli
 |
|
 |
Kvikmyndabrot þar sem hluti þátttakenda á fundinum kynnir sig. |
- eftir Erlu Hlín Hjálmarsdóttur Jafnréttisskólanum og Hildigunni Engilbertsdóttur utanríkisráðuneyti
Utanríkisráðuneytið, Jafnréttisskóli Háskóla SÞ (UNU-GEST) og Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UN Environment) skipulögðu vinnufund fyrir frumkvöðlakonur sem starfa við sjálfbæra orku í Afríku, sem haldinn er þessa dagana í Libreville í Gabon. Aðrir samstarfsaðilar eru Stofnun SÞ um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) og Pan-afríska bandalagið um loftslagsréttindi (PACJA). Þema fundarins er Afríka 2030: nýting tækifæra fyrir konur í sjálfbærri orku - leiðir til að ná Heimsmark
miðum SÞ og markmiðum Afríkusambandsins
2063
. Fundurinn er haldinn í tengslum við árlegan fund afrískra umhverfisráðherra (AMCEN) og er markmið vinnufundarins að móta tillögur sem lagðar verða fyrir umhverfisráðherra álfunnar til samþykktar.
Á fundinum koma saman frumkvöðlar alls staðar að úr álfunni, auk sérfræðinga og fulltrúa alþjóðastofnana, en sérstök áhersla er á þrjá málaflokka: (1) orkustefna sem hefur sjálfbærni og jafnrétti að leiðarljósi, (2) aðgangur að fjármagni og markaði fyrir frumkvöðlakonur í allri virðiskeðjunni, og (3) getuuppbygging, hæfni og valdefling. Vinnufundinn sækja rúmlega 100 þátttakendur frá 24 Afríkulöndum, en Hildigunnur Engilbertsdóttir sækir fundinn fyrir hönd utanríkisráðuneytisins og Erla Hlín Hjálmarsdóttir fyrir hönd Jafnréttisskólans.
Ljóst er að orkumál eru ákaflega knýjandi í Afríku, sem hefur setið eftir ef miðað er við aðra heimshluta. Aðgangur að sjálfbærri orku og þátttaka kvenna tengist beint Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem snúa að kynjajafnrétti, hreinni orku og umhverfismálum, en tengjast einnig öðrum markmiðum þar sem aðgangur að sjálfbærri orku er gjarnan grunnforsenda fyrir árangri á öðrum sviðum. Til að ná árangri á sviði þróunar er því mikilvægt að leita leiða til að nýta kraft kvenna innan álfunnar.
 |
|
 |
Phemelo Charity Segoe frá Suður Afríku. |
Þátttakendur vinnustofunnar leiða mörg áhugaverð verkefni í ólíkum svæðm Afríku og hafa vandamál tengd fjármögnun verið í brennideplinum. Sem dæmi má nefna að Phemelo Charity Segoe frá Suður Afríku starfar fyrir fyrirtækið Rethaka sem nýtir sólarrafhlöður á endurunnar skólatöskur barna. Hún telur helstu áskoranir sem hún standi frammi fyrir vera sjálfbærni fjármögnunar fyrirtækisins, en töskurnar eru of dýrar til að lágtekjufjölskyldur hafi bolmagn til að kaupa þær og þarf fyrirtækið því að reiða sig á fjármögnun frá gjafastofnunum - og ríkjum.
Energia er alþjóðlegt netverk um jafnréttismál og sjálfbæra orku. Sheila Oparaocha sem starfar fyrir Energia í Kenía bendir réttilega á að ekki er hægt að leita einhliða lausna fyrir flókinn vanda. Þegar öllu er á botninn hvolft þurfi að lokum að stóla á markaði og ná sjálfbærni í orkulaunsum. Með hennar eigin orðum: "Afríka mun ekki þróast með ókeypis fjármagni." Þegar upp er staðið þurfa lítil orkufyrirtæki - hvort sem þau eru rekin af körlum eða konum - að standa undir rekstrinum. Diana Mbogo frá Tansaníu er gott dæmi um þetta. Hún rekur nú lítið orkufyrirtæki sem nefnist Millennium Engineers en það þjónar þörfum kvenna og sinnir fjölbreytilegum verkfræðilegum verkefnum. M.a. framleiðir fyrirtækið hverfla fyrir vindorku úr staðbundnum hráefnum, en þess má geta að Diana var útnefnd frumkvöðull ársins í Tansaníu úr röðum námsmanna á síðasta ári. Hún gagnrýnir að hafa lítinn sem engan stuðning fengið þegar hún var að koma fyrirtækinu á laggirnar. Nú þegar fyrirtækið hefur sannað sig, standa fjármálastofnanir í röðum að bjóða henni lán og annan stuðning, loks þegar hún þarf ekki lengur á því að halda.
Þátttakendur vinnufundar hafa nú þegar vakið athygli hjá háttsettum fulltrúum Afríkulanda sem sækja AMCEN. Hadijatou Jallow, umhverfisráðherra og framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Síerra Leóne, sem er jafnframt formaður Félags afrískra kvenráðherra og leiðtoga í umhverfismálum hefur setið vaktina með frumkvöðlakonunum og tekið virkan þátt í fundinum. Sömuleiðis funduðu tveir ráðherrar frá Gabón með frumkvöðlakonunum, Estelle Ondo umhverfisráðherra og Biendi Maganga ráðherra lítilla fyrirtækja. Seinni dagur vinnustofunnar er helgaður vinnufundum um sértæk málefni og er markmiðið að koma efnisatriðum inn í ályktun umhverfisráðherra Afríku þegar árlegum fundi þeirra lýkur nú í lok vikunnar. Því er ákaflega dýrmætt að hafa pólitískan stuðning meðal þátttakenda ráðherrafundarins.
Af vinnufundinum að dæma er ljóst að frumkvöðlakonur í orkugeiranum víða í Afríku standa frammi fyrir margvíslegum áskorunum. Hins vegar er einnig ljóst að mörg sóknarfæri eru til staðar, sér í lagi ef að auður og framlag kvenna er nýtt til fullnustu, sem er gunnforsenda fyrir því að þróun Afríku komist á skrið á sviði orkumála
|
|
 |
|
|
|
UM HEIMSLJÓS
Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda.
Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is
.
Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.
|
ISSN 1670-8105 |
|
|