Heimsljós
veftímarit um þróunar- og mannúðarmál
10. árg. 338. tbl.
4. október 2017
Þróunarskýrsla Alþjóðabankans fjallar um námsvanda í skólum:
Milljónir skólabarna geta ekki lesið, skrifað eða leyst einföld reiknidæmi

"Milljónir ungmenna í lágtekju- og meðaltekjuríkum standa frammi fyrir þeirri nöturlegu staðreynd að þeir hafa glatað tækifærum og afla því lægri launa á fullorðinsaldri vegna þess að menntunin sem þeim stóð til boða í grunn- og framhaldsskóla gaf þeim ekki möguleika til þess að ná árangri í lífinu."  

Á þessa leið hefst fréttatilkynning Alþjóðabankans um World Development Report 2018, flaggskip bankans sem kom út í síðustu viku, og fjallar eingöngu um námslegan vanda í skólum. "Skólavist án lærdóms felur ekki aðeins í sér glötuð tækifæri til þróunar heldur felur hún einnig í sér gífurlegt óréttlæti gagnvart börnum og ungmennum um heim allan," segir í skýrslunni.

Í Þróunarskýrslu Alþjóðabankans sem nefnist "Learning to Realize Education´s Promise" er því haldið fram að án menntunar hafi sjálft fyrirheitið um að með menntun sé unnt að útrýma sárafátækt og skapa sameiginleg tækifæri og velmegun fyrir alla orðið að engu. "Jafnvel eftir nokkur ár í skóla geta milljónir barna ekki lesið, skrifað eða leyst einföld reiknidæmi," segir í skýrslunni.

Þar er því haldið fram að námslegi vandinn í skólum auki á félagslegan ójöfnuð í stað þess að draga úr honum. Börn sem standi í bernsku höllum fæti vegna fátæktar, ófriðar, kynferðis eða fötlunar verði unglingar án þess að hafa tileinkað sér grundvallar lífsleikni.

Hrópandi óréttlæti
Að mati Jim Yong Kim forseta Alþjóðabankans er námsvandinn bæði af siðferðislegum og efnahagslegum toga. "Þegar allt er eins og það á að vera veitir menntun vilyrði um störf, betri tekjur, góða heilsu og líf án fátæktar. Í samfélögum kyndir menntun undir nýsköpun, styrkir stofnanir og stuðlar að félagslegri samheldni. En þessi ávinningur er háður því að börn læri í skólum, skólaganga án lærdóms er sóun. Og meira en það: óréttlætið er hrópandi. Börnin sem samfélagið bregst mest eru þau sem þurfa sérstaklega á því að halda að fá góða menntun til að ná árangri í lífinu."  

Dæmi eru nefnd í skýrslunni um fákunnáttu barna í þriðja bekk í skólum í Kenía, Tansaníu og Úganda. Þau áttu að lesa setninguna "Hundurinn heitir Puppy" (The name of the dog is Puppy") bæði á ensku og Kiswahili. Tvö börn af hverjum þremur skildu ekki setninguna. Í sveitahéruðum Indlands gátu því sem næst tvö börn af hverjum þremur í þriðja bekk leyst tveggja stafa reiknidæmi eins og "46-17" og í fimmta bekk gat helmingur barnanna ekki svarað rétt. 

Í skýrslunni segir á einum stað að þótt 15 ára unglingum í Brasilíu hafi farið námslega fram þá megi gera því skóna að með sömu þróun og undanfarin ár taki það brasilísk ungmenni 75 ár að ná meðaltali barna meðal ríkari þjóða heims í stærðfræði en í lestri komi það til með að taka 263 ár.

Auk þróunarskýrslu Alþjóðabankans kom út í vikunni fyrsta greining UNESCO á fjórða Heimsmarkmiðinu um menntun fyrir alla með fyrirsögn sem rímar vel við niðurstöður Alþjóðabankans: "More Than One-Half of Children and Adolescents Are Not Learning Worldwide."

Verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar:
Hjálp til sjálfshjálpar með enn fleiri sjálfsþurftarbændum í Eþíópíu
Hjálparstarf kirkjunnar hefur fengið vilyrði utanríkisráðuneytisins fyrir styrk til  þróunarsamvinnuverkefnis til þriggja ára í Kebri Beyahhéraði í Sómalífylki í Eþíópíu. Heildarupphæð styrksins nemur 80,7 milljónum króna. Verkefnið byggir á grunni verkefnis sem Hjálparstarfið hefur starfað að með sárafátækum sjálfsþurftarbændum í Jijigahéraði í Sómalífylki í tíu ár.

Markmið starfsins eru að bæta aðgengi fólksins að fæðu og hreinu vatni og að konur hafi meiri áhrif í samfélaginu og ákvörðunarvald yfir tekjum sem þær afla. Í öllu starfi er sjálfbærni og umhverfisvernd höfð að leiðarljósi.

Vel heppnuðu verkefni með sjálfsþurftarbændum í Jijigahéraði lýkur á árinu 2017. Hjálparstarfið og Lútherska heimssambandið sem er samstarfaðili á vettvangi ákváðu að hefja samskonar samstarf við sjálfsþurftarbændur í nágrannahéraðinu Kebri Beya.

Markmiðið á nýju verkefnasvæði er að tryggja fæðuöryggi með sjálfbærri fæðuöflun, efla völd og áhrif kvenna og auka aðgengi að vatni og bæta hreinlætisaðstöðu. Í heild taka 1.634 fjölskyldur (8.175 manns) í sex þorpskjörnum (kebele) þátt í verkefninu. 

Eþíópía er næstfjölmennasta ríki Afríku með 94,4 milljónir íbúa. Langflestir íbúanna eða 80% búa í dreifbýli. Um 45% þjóðarinnar er yngi en 15 ára og um 65% yngri en 24 ára að aldri. Eþíópía er eitt af fátækustu ríkjum heims, númer 174 af 188 ríkjum á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna (HDI skýrsla, mars 2017). Um 82% þjóðarinnar lifa af landbúnaði.

Ljósmyndir: Hjálparstarf kirkjunnar.
Annað stærsta fylkið
Sómalífylki er næst stærsta fylki Eþíópíu og þekur 144.000 km2. Íbúar fylkisins eru 5.748.998 samkvæmt Hagstofu Eþíópíu en aðeins 14% þeirra búa í þéttbýli. Þurrkar eru tíðir og úrkoma stopul. Sómalífylki er eitt af fjórum fátækustu fylkjum í Eþíópíu. Vatnsskortur er í fylkinu og fæðuöflun ótrygg. 

Kebri Beyahhérað er í Fafansýslu (zone) í Sómalífylki. Í héraðinu búa 214.417 íbúar. Aðeins 61% af íbúunum hafa nægt aðgengi að drykkjarhæfu vatni. 84% íbúanna eru hirðingjar og hálfhirðingjar. 98.8% eru múslímar.

Bændur stunda búfjárrækt og og jarðrækt. Maís, sorghum og hveiti eru helstu korntegundur sem ræktaðar eru en laukur, tómatar og vatnsmelónur það grænmeti sem ræktað er. Framleiðslan er háð regni sem fer þverrandi. Búfé er nautgripir, sauðfé, geitur og kameldýr.   

Íbúar sækja vatn fyrst og fremst í vatnsþrær eða "birkur" sem eru háðar úrkomu. Mikill vatnsskortur er alvarlegasta vandamál íbúanna á þurrkatímum. Vatnsskortur orsakar skort á hreinlætisaðstöðu sem getur haft alvarleg áhrif á heilsufar íbúanna.  Samkvæmt íbúunum eru sjúkdómar af völdum óhreins drykkjarvatns tíðir en ekki eru til opinberar tölur um tíðni þeirra.

Jafnrétti kynjanna er ábótavant í fylkinu. Konur eru háðar eiginmönnum sínum um flest í daglegu lífi. Ójafnréttið má rekja til rótgróinnar menningar á svæðinu mun frekar en til trúarinnar. Konur sjá um að selja framleiðslu á markaði, sjá um eldamennsku, sækja eldivið og sækja vatn ásamt því að sjá um börnin. Þær hafa samt ekki völd til að taka ákvarðanir um land, búfénað eða fjármál. Þær fá ekki tilboð um þjálfun eða fræðslu frá stjórnvöldum og fá ekki sæti  við ákvarðanatökuborðið um sveitarstjórnarmál. Konur hafa ekki aðgengi að fjármagni til að hefa eigin atvinnurekstur.

LWF DWS hefur starfað í Eþíópíu frá árinu 1973. Heimssambandið hefur haft mikla og góða samvinnu við stjórnvöld en fyrst og fremst við fólkið sjálft sem býr við mikla fátækt að því að byggja upp samfélög sem eru sjálfbær, farsæl, þrautseig og réttlát. 

Kristniboðssambandið fær styrk til verkefnisins "Menntun á jaðarsvæðum"
Langtímamarkmið verkefnisins að öll börn á svæðinu gangi í skóla
Meðal verkefna sem hlutu stuðning utanríkisráðuneytisins í haust er "Menntun á jaðarsvæðum" Pókotsýslu í norðvesturhluta Kenía.  

Kristniboðssambandið hefur starfað á svæðinu meira og minna í tæpa fjóra áratugi en eins og vera ber hefur ábyrgð og stjórn færst til heimamanna á þessum tíma. Mikil áhersla hefur verið á skólagöngu og uppbyggingu menntakerfisins í samstarfi við yfirvöld. Samstarfsaðili Kristniboðssambandsins, ELCK (Evangelical Lutheran Church of Kenya) styður nú um eitt hundrað grunnskóla og um tuttugu framhaldsskóla. Yfirvöld reka skólana, þ.e. ráða kennara og greiða þeim laun, en Kristniboðssambandið er meðal þeirra sem  aðstoða við uppbyggingu skólanna sem yfirvöld ráða ekki við nema að mjög litlu leyti. Allir skólarnir eru að sjálfsögðu öllum opnir.

Af þessum skólum hafa um tíu grunnskólar og fimm framhaldsskólar að miklu leyti verið fjármagnaðir frá Íslandi, bæði með beinum stuðningi Kristniboðssambandsins og einstaklinga, annarra samtaka, ÞSSÍ og utanríkisráðuneytisins. Helsti stuðningsaðili ELCK á þessu sviði var Norwegian Lutheran Mission sem rak umfangsmikið þróunarverkefni í sýslunni í áraraðir sem NORAD fjármagnaði.

Verkefni á jaðarsvæðum sem hafa einkennst af þjóðflokkadeilum
Verkefnið "Menntun á jaðarsvæðum" miðar að því að halda þessari uppbyggingu áfram á þeim svæðum sem hafa orðið útundan og eru ekki beint í alfaraleið. Skólarnir eru viðurkenndir og skráðir af yfirvöldum, enda langt í aðra skóla, og stefna yfirvalda skýr, að öll börn njóti menntunar.

Markmið verkefnisins er að koma upp samtals átta einföldum kennslustofum, tveimur við hvern skóla og þar með fjölga þeim börnum á viðkomandi svæðum sem sækja skóla og ljúka grunnskólanámi og þeim fjölgi sem sækja framhaldsskóla. Skólarnir fjórir falla undir jaðarsvæði, þar sem bein samskipti við umheiminn eru lítil eða erfið vegna lélegra og ótryggra samgangna. Tveir skólanna eru í fjalllendi, hinir tveir á heitri, þurri sléttunni sem teygir sig norður eftir Túrkana. Ólæsi er mjög mikið á þessum svæðum. Jaðarsvæðin hafa einkennst af þjóðflokkadeilum og kúaþjófnaði en á liðnum árum hefur tekist að koma á friði sem er forsenda flestra framfara.

Langtímamarkmið er að draga úr ólæsi, ná öllum börnum inn í skóla og með góðum aðbúnaði koma í veg fyrir brottfall, ekki síst stúlkna en brottfall úr skóla er algengara meðal þeirra. Með þessu batnar menntun til muna. Árangurinn verður mælanlegur ef fylgst er með fjölda nemenda, fjölda brottfallinna nemenda og árangri á prófum.

Verkefnið snýr einvörðungu að uppbyggingu skólanna, ekki rekstri. Hann er í höndum yfirvalda sem hafa samþykkt þessa skóla og ætla að senda kennara til að sinna skólastarfinu. Verkefnið er afmarkað og sjálfbært. Framlag utanríkisráðuneytisins er 8 milljónir en heildarfjárhagsáætlunin er upp á 11,6 milljónir króna.  Mismunurinn skiptist milli Kristniboðssambandsins og heimamanna en þeir munu einkum leggja fram vinnu og efnisöflun. Hugsunin þar að baki er að byggja skólastofurnar með heimamönnum, ekki fyrir þá. 

UNICEF á Íslandi:
Neyðarsöfnun fyrir börn Rohingja sem flýja ofbeldisöldu í Mjanmar

Á síðastliðnum vikum hafa yfir 429 þúsund Rohingjar flúið ofbeldisöldu í Rakhine héraði í Mjanmar og leitað skjóls í Bangladess, þar af um 60% börn. Þúsundir til viðbótar koma örmagna í bátum eða fótgangandi yfir landamærin á hverjum einasta degi. UNICEF er á staðnum til að veita lífsnauðsynlega neyðaraðstoð í bráðabirgða flóttamannabúðum sem hafa byggst upp á landamærum Bangladess og Mjanmar.

Neyðin er gífurleg og börn eru í hættu. UNICEF á Íslandi hefur  neyðarsöfnun til að veita þessum börnum hjálp og fjöldi fólks hefur lagt henni lið um helgina. Með því að senda sms-ið UNICEF í númerið 1900 renna 1.500 krónur til neyðaraðgerða UNICEF. Einnig er hægt að styðja neyðarsöfnunina  hér.

Börnin eru hrædd, veik og svöng
"Þörfin er yfirþyrmandi, börnin eru hrædd, veik og svöng og þurfa öryggi og vernd. Við hjá UNICEF á Íslandi höfum þegar ákveðið að senda rúmar fimm milljónir til Bangladess, þökk sé stuðningi heimsforeldra, en ljóst er að mikil þörf er fyrir stórauknar neyðaraðgerðir á svæðinu", segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

UNICEF áætlar að á milli þrjú og fjögur þúsund börn séu alvarlega vannærð. Þau þurfa að fá meðhöndlun tafarlaust. Meira en þúsund börn eru í mjög viðkvæmri stöðu eftir að hafa  orðið viðskila við fjölskyldur sínar og eiga á hættu að vera misnotuð.

Starfsfólk UNICEF dreifir nú hjálpargögnum í Cox's Bazar í Bangladess þangað sem Rohingjar hafa flúið frá Mjanmar á síðustu vikum. Allt kapp er lagt í að ná til vannærða barna og barna sem hafa orðið viðskila við fjölskyldur sínar og koma í veg fyrir útbreiðslu smitsjúkdóma.

UNICEF biðlar til almennings að styðja við neyðaraðgerðir
Rohingjar eru ríkisfangslaus minnihlutahópur múslima sem búa í Rakhine héraði í Mjanmar, rétt við landamæri Bangladess. Þeir hafa í áratugi orðið fyrir mismunun og útskúfun í landinu. Stigvaxandi og öfgafullt ofbeldi gegn Rohingjum síðustu vikur hefur leitt til einnar mestu mannúðarkrísu fyrir börn síðustu ár. Meira en 250.000 börn hafa flúið yfir til Bangladess, en slíkur fjöldi barna á flótta hefur ekki sést þar áður og er meira en ríkisstjórn Bangladess og hjálparstofnanir ráða við án aðstoðar.

Með því að flýja hafa börnin náð að bjarga lífi sínu en ekki bíður þeirra mikið betra. "Bráðabirgða flóttamannabúðirnar sem hafa byggst upp í Cox Bazar eru á einu viðkvæmasta svæði Bangladess þar sem flóð og náttúruhamfarir eru algeng. Hætta er á að smitsjúkdómar breiðist hratt út ef ekki er brugðist við strax. Auk þess er mikill skortur á vatni, mat og öruggu skjóli fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Við biðlum því til almennings að hjálpa okkur að veita þessum börnum þá aðstoð sem þau þurfa" segir Bergsteinn.

UNICEF hefur nú þegar sent yfir 100 tonn af hjálpargögnum til Bangladess, meðal annars vatnshreinsitöflur og hreinlætisvörur, veitt börnum sálræna aðstoð og komið vannærðum og veikum börnum undir læknishendur. Auk þess er UNICEF að undirbúa bólusetningarátak gegn mislingum, rauðum hundum og mænusótt sem ná mun til 150.000 barna.

Hægt er að styðja neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi með því að senda sms-ið UNICEF í nr. 1900 (1500 krónur), gefa með kreditkorti  hér eða leggja inn á reikning 701-26-102050, kt 481203-2950.

Við breytum trú nemendanna á eigin getu
- Fiskifréttir ræða við Tuma Tómasson forstöðumann Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna
Útskriftarhópurinn frá síðastliðnu vori ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra og starfsfólki skólans.

"Við breytum því hvaða sýn þeir hafa, nemarnir okkar," segir Tumi Tómasson skólastjóri Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna í samtali við Fiskifréttir á dögunum. "Þetta er held ég það sem er mikilvægast við námið. Við breytum trú þeirra á sína eigin getu til að framkvæma og breyta hlutum, kyndum aðeins upp í þeim," segir hann í viðtalinu.

Fram kemur í viðtalinu að  verið sé að ljúka úttekt á fjórum skólum Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem starfa hér á landi og að niðurstaðan sé sú að  þeir hafi allir komið vel út.

"Við erum sérstaklega ánægð með þennan árangur. Eðlilega er fullt af hlutum sem við getum bætt, en ef við ættum að segja í einni setningu hvaða áhrif þetta hefur haft á nemana sem koma hingað til Íslands í sex mánaða nám, þá skilgreina þeir sinn starfsferil sem fyrir og eftir Ísland. Þetta verða hreinlega vatnaskil í þeirra þróun sem fagfólk. Og þetta vissum við, en við vissum ekki að það væri svona afgerandi," er haft eftir Tuma.

Skólinn fagnaði sem kunnugt er nýlega tuttugu ára starfsafmæli en 350 nemendur hafa útskrifast frá skólanum á þessum tveimur áratugum.

Ekkert sældarlíf
Tumi segir afstöðu fyrrverandi nema til skólans óneitanlega hlýja sér og samstarfsfólki sínu í skólanum um hjartaræturnar.

"Við erum alveg ofboðslega kát með þetta. Þetta er líka svo skemmtileg vinna. Maður getur alltaf verið góði gæinn, jafnvel þótt við skömmum þau mikið meðan þau eru hérna. Þau eru hérna bara í sex mánuði. Það eru engin próf en nóg af verkefnum."

Hann segir jafnt nemendur sem kennara við skólann leggja mikið á sig til þess að sem mest komi út úr náminu.

"Þetta er ekkert sældarlíf hjá þeim hér á Íslandi um hávetur. Við erum að píska þau áfram og við erum ekkert að gera rosalega vel við þau peningalega. Þau svelta svo sem ekkert en þau eru heldur ekkert að kaupa sér merkjavörur eða fara á skrall. Þau eru bara að vinna. Þetta er bara fólk sem veit hvað það vill og áttar sig á hvað það getur viljað, að það geti sett sér ný markmið. Við erum ekkert að taka við neinum nýstúdentum. Við viljum fá fólk með reynslu."
Ísland leiðir hóp 39 ríkja í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna
Ísland hefur tekið virkan þátt í umræðu á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf um þróun mála á Filippseyjum. Í febrúar síðastliðnum flutti Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ræðu í mannréttindaráðinu, fyrstur íslenskra utanríkisráðherra og vakti máls á stöðu mála í Filippseyjum. Í maí á þessu ári flutti fulltrúi Íslands sérstaka ræðu um ástandið á Filippseyjum þegar Filippseyjar undirgengust svokallaða jafningjarýni mannréttindaráðsins. Þar beindu fjölmörg ríki sérstökum tilmælum til Filippseyja um úrbætur í mannréttindamálum.

Ísland hlaut lof líkt þenkjandi þjóða fyrir ræðuna í maí. Á júnífundi mannréttindaráðsins áréttuðu íslensk stjórnvöld gagnrýni sína á stöðu mannréttinda á Filippseyjum og tóku 32 ríki undir þá ræðu. Nú í september, þegar jafningjarýni Filippseyja var afgreidd formlega, þótti ljóst að ástand mannréttindamála í landinu hefði ekki breyst til batnaðar og að stjórnvöld þar í landi hygðust hundsa þorra tilmæla um breytingar sem til þeirra hefði verið beint.

Í því ljósi var ákveðið að ítreka enn frekar mikilvægi þess að stjórnvöld á Filippseyjum virði almenn mannréttindi þegna sinna og standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Alls tóku 39 ríki undir málflutning Íslands.

Allsherjarþing SÞ: Einar stýrir fundum um mannréttindi og mannúðarmál

Einar Gunnarsson fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York, opnaði á mánudag þriðju nefnd Allsherjarþings SÞ sem fer með mannréttinda- og mannúðarmál. "Við erum stolt af því að stýra þessari mikilvægu nefnd næsta árið sem ræðir allt frá mannréttindum í einstökum ríkjum líkt og Sýrlandi og Norður-Kóreu til þematískra málefna líkt og aðgerðir gegn pyntingum og ofbeldi gegn konum," sagði í Fésbókarfærslu frá fastanefndinni.

Á myndinni eru þeir Einar Gunnarsson t.h. og Þorvarður Atli Þórsson sendiráðsritari.

Útrýmum mansali
Mansal í Kambódíu. Ljósmynd: UNODC/Mattia Insolera

Tími er kominn til að útrýma mansali að sögn António Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.  Allsherjarþingið samþykkti í síðustu viku pólitíska yfirlýsingu um stuðning við aðgerðaáætlun samtakanna.

Fundur Allsherjarþingsins var sóttur af háttsettum fulltrúum aðildarríkjanna og var skorið upp herör gegn því sem Guterres kallaði  "viðurstyggilegan glæp.

Í frétt UNRIC segir að talið sé að fórnarlömb mansals um allan heim séu tugir milljóna og "nú er kominn tími til að sýna samstöðu og útrýma mansali," var haft eftir Guterres.  

Mansal nær til þvingaðrar vinnu eða þrælahalds, kynlífsþrælkunar, notkunar barna í hernaði svo eitthvað sé nefnt. "Mansal tíðkast í öllum heimshornum. Nú þegar milljónir karla, kvenna og barna leita út fyrir landsteina í leit að öryggi, bíða þeirra miskunnarlaus öfl," sagði Guterres. 

Hann sagði að glæpahringir sem stæðu að baki mansali væri vel skipulagðir, vel tækjum búnir og færðu sér í nyt veikar stofnanir. 

Vonir eru bundnar við að árangri verði náð í krafti sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn skipulagðri glæpastarfsemi og spililngu, og ekki síður sáttmála um örugga og skipulagða fólksflutninga sem unnið er að í samræmi við ályktun Allsherjarþingsins á síðasta ári. 


Áhugavert

-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
Meet My School/ UNRWA
Meet My School/ UNRWA
-
-
-
-
-
-
-

Á flótta - hlutverkaleikur

Rauði kross Íslands hefur útbúið hlutverkaleik fyrir ungmenn 15 ára og eldri sem veitir innsýn inn í reynsluheim flóttafólks. Leikurinn kallast "Á flótta." Leikurinn fer fram í Klébergsskóla á Kjalarnesi laugardaginn 4. nóvember kl. 19:00 og tekur um 12 klukkustundir í spilun.

Boðið verður upp á rútu frá Reykjavíkursvæðinu fyrir þátttakendur. Fram kemur í tilkynningu frá Rauða krossi Íslands að pláss sé fyrir 35 þátttakendur - fyrstur kemur, fyrstur fær. Skráning er hér og skráningar þurfa að berast fyrir 20. október.

Leikurinn verður kynntur fyrir forráðamönnum þátttakenda sem eru yngri en átján ára viku fyrir leik. Þeir sem eru yngri en 18 ára þurfa að skila leyfi foreldra fyrir þátttöku. Skráningargjald er 1000,- krónur.

thorsteinn@redcross.is veitir frekari upplýsingar. .


LONDON'S VISION FOR CLEAN ENERGY, CLEAN AIR: A ZERO-CARBON CITY BY 2050/ BreatheLife
-
THE PARTLY-LIT CONTINENT: Sub-Saharan Africa is still in the dark but North Africa will soon be selling power to Europe/ Qz
-
Kenya rocked by electoral reforms protests/ DW
-
DIGITAL FARMING: Technology is helping middle-class Nigerians turn to farming without getting their hands dirty/ Qz
-

Dr. Natalia Kanem Appointed UNFPA Executive Director/ UNFPA
-
Save the Children accuses Britain over selling of arms to Saudi Arabia/ BelfastTelegraph
-
Hurricane response: Caribbean disaster agency comes of age/ IrinNews
-
Some 25 million unsafe abortions occur each year, UN health agency warns/ UN
-
Soldiers in Cameroon shoot dead several independence activists/ DW
-
Uganda Hires PR Firms to Reveal its Best-Kept Tourism Secrets/ Alþjóðabankinn
-
New aid plan needed for South Sudan/ IRIN
-
New beginning for failed state Somalia?/ DW
-
Trump Push to Cut U.S. Aid Prompts EU Geopolitical-Risk Warning/ Bloomberg
-
The UN Is Cutting Food Rations to Kenyan Refugees by 30% Because of Funding/ GlobalCitizen
-
The World Health Organization Just Picked Its New Leaders. Most of Them Are Women/ TIME
-
How to Ensure a Credible, Peaceful Presidential Vote in Kenya/ CrisisGroup
-
State urged to step up aid over global education crisis/ IrishTimes
-
First global pledge to end cholera by 2030/ BBC
-
With hurricane after hurricane, some worry about donor fatigue/ USAToday
-
Explosives hurled at Ugandan opposition MPs' homes/ DW
Unfair cop - why African police forces make violent extremism worse/ IRIN
-
Germany invests in Namibia despite reparation tensions/ SouthAfricanNews
-
UNHCR: Countries Increasingly Using Refugees as Political Football/ VOA
-

D+C, október 2017
-
Switzerland and the World Bank Group Partner to Make Cities Safer for Millions/ ReliefWeb
-
Banvæn pest hefur fellt 21 á Madagaskar/ RÚV
-
Back to war: Cameroon forcibly deporting Nigerian refugees/ IRIN
-
Supermarkets are creating an obesity crisis in African countries, experts warn/ TheGuardian
-
Jeffrey Sachs: 'The US doesn't lead the world any more'/ TheGuardian
-
Researchers Work on Drought-tolerant Maize for Africa/ VOA
-
Ambassadene vil ha student-praktikanter/ Bistandsaktuelt
-
As China has boosted renewable energy it's moved dirty coal production to Africa/ Qz

Fátækt í tölum:  Úganda

- eftir Stefán Jón Hafstein forstöðumann sendiráðs Íslands í Kampala

Ljósmynd frá Gulu: gunnisal
Nýjasta mannfjöldarannsókn Úganda (UBOS, Uganda National Household Survey) sýnir að þurrkar og önnur náttúruöfl skertu lífskjör verulega á síðastu árum og fátækum landsmönnum fjölgaði úr 19% af fólkinu í 27%.  (Miðað við mælingu 2013.) Samkvæmt þessu búa 10 milljónir manna nú við fátækt, sem jafngildir því að hafa innan við 130 krónur á dag til ráðstöfunar. 

Þetta er verulegt hrap og sýnir svo ekki verður um villst að landið býr við óstöðugan efnahag í mörgu tilliti. 75% landsmanna eiga mikið undir akuryrkju, beint sem sjálfsþurftarbændur, eða óbeint í óformlega hagkerfinu. En landbúnaður stendur aðeins undir 23% af landsframleiðslu. Verði skakkaföll af völdum náttúruafla eða markaða sveiflast hagsældartölurnar gríðarlega á stuttum tíma.

Ung láglaunaþjóð
Úgandar eru taldir vera um 38 milljónir manna, en þar af er helmingur undir 15 ára! Á hverju ári bætist við ein milljón barna svo skólakerfi og heilsuþjónusta hafa ekki undan. Aðeins helmingur fullorðinna er í fastri vinnu. Miðgildi mánaðarlauna í landinu er innan við 5000 IKR, mun lægra í sveitum en borgum. Hins vegar eru mánaðarleg útgjöld heimila meiri,  eða um 9-10.000 krónur á mánuði, sem þýðir að fólk þarf að hafa úti allar klær til að afla aukatekna eða aukaafurða með ræktun.

Úgandíska þjóðin er illa nærð. Hitaeininganeysla á dag er kringum 1500 á mann (miðgildi), og sagt að þriðjungur landsmanna stríði við ,,óviðunandi" næringarástand, sem varðar bæði orkuþörf og fjölbreytni í fæðuvali.  Þriðja hvert barn er vaxtarskert.

Óheilnæmt umhverfi
Höfuðborgin Kampala er sögð ein mengaðasta borg heims sem ekki kemur á óvart þeim sem gengur um götur. En malarían er helsta veikindaorsök (27%) og þar á eftir öndunarfærasjúkdómar (18%), meðal annars vegna þess að yfir 90% landsmanna nota eldivið til matargerðar. Skógareyðing í landinu nemur næstum 100 þúsund hekturum á ári. Nýjstu tölur sýna að skógarþekja landsins fór úr 25% frá árinu 1990, niður í 11% 2015, og hefur nú á aðeins tveimur árum minnkað enn og stendur í 9%. Landið verður skóglaust á innan við 20 árum ef svo  heldur áfram.

Tæknibyltingin bíður
Þó svo að 73% heimila hafi aðgang að farsíma er staðan sú að einungis 40% landsmanna búa á svæðum þar sem internet er aðgengilegt. Aðeins 4% landsmanna höfðu notað tölvu síðustu þrjá mánuði þegar könnunin var gerð. Sem er skiljanlegt þegar að því er gætt að innan við 10% landsmanna eru tengd rafkerfinu og aðeins 3% eiga sjónvarpstæki.

Markmið næst ekki
Yfirlýst stefna stjórnvalda er að Úganda komist í flokk meðaltekjuríkja árið 2020. Það mun ekki takast miðað við þessar tölur enda hefur hægt á hagvexti og fátækt aukist verulega.

facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105