Heimsljós
veftímarit um þróunar- og mannúðarmál
10. árg. 332. tbl.
5. júlí 2017
40. ráðstefna FAO í Róm:
Hungur í heiminum hefur aukist á síðustu tveimur árum
Baráttan gegn hungri í heiminum hefur síðasta aldarfjórðunginn leitt til þess að sífellt færri búa við sult. Þetta framfaraskeið er á enda. Hungrið í heiminum hefur aukist á síðustu tveimur árum. Á ráðstefnu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) sem hófst í Rómaborg í gær kom fram að matvælaskorturinn í heiminum er sá mesti frá dögum síðari heimsstyrjaldarinnar.

"Ég vildi að ég gæti sagt einhverjar góðar fréttir hér í dag um baráttuna gegn hungri... en því miður er það ekki raunin," sagði Jose Graziano da Silva framkvæmdastjóri FAO við opnun ráðstefnunnar í gær.

Nítján þjóðir búa samkvæmt skilgreiningu FAO við alvarlegan matarskort sem bæði er tilkominn vegna átaka og loftslagsbreytinga. Meðal þjóðanna eru Suður-Súdan, norðausturhluti Nígeríu, Sómalía og Jemen en í síðastnefnda landinu eru 20 milljónir manna við hungurmörk. Þótt nýlega hafi því verið lýst yfir að hungursneyð ríki ekki lengur í Suður-Súdan eru milljónir manna í landinu sem hafa ekki ofan í sig.

Um 60% hungraðra í heiminum búa á átakasvæðum eða heimshlutum þar sem loftslagsbreytingar hafa gert óskunda. Graziano da Silva sagðist í ávarpi sínu að ástæða væri til þess að óttast að þetta fólk færi á vergang og talan yfir flóttafólki í heiminum myndi þá tvöfaldast.

Um eitt þúsund þátttakendur er á ráðstefnu FAO sem haldin er annað hvert ár. Þetta 40. ráðstefnan og þar eru á dagskrá ýmiss stefnumótandi málefni sem tengjast alþjóðlegu matvælaöryggi. 

Viðkvæmt umræðuefni rætt á fundi Afríkusambandsins:
Mannfjöldinn í Afríku og leiðir til að draga úr barneignum í álfunni
 
Helstu umræðuefni fulltrúa Afríkusambandsins á fundi í Addis Ababa í vikubyrjun tengdust ungu fólki og íbúafjölda álfunnar, spám um mannfjölgun, nýtingu mannaflans og síðast en ekki síst með hvaða hætti unnt sé að draga úr fæðingartíðni. 

Í frétt Deutsche Welle segir að margir óttist íbúafjölgun álfunnar en hafni engu að síður öllum takmörkunum á barneignum. Eins og fram kom í síðasta Heimsljósi sýna mannfjöldaspár að í 26 Afríkuríkjum verða íbúarnir tvöfalt fleiri árið 2050 en þeir eru í dag.

"Markmiðið er að draga úr fæðingum," segir Kaffa Rékiatou Christian Jackou ráðherra frá Níger og segir markmiðið að í hverju ríki séu sterkir einstaklingar, ábyrgir og virkir í atvinnulífinu. Jackou fer fyrir ráðuneyti mannfjölgunar í Níger en hvergi í heiminum er fæðingartíðnin jafn mikil eða 7,6 börn að jafnaði á hverja konu.
Hann segir að mannfjöldi ætti í sjálfu sér ekki að vera vandamál nema því aðeins að efnahagsleg tækifæri skorti í viðkomandi ríki. Í fréttinni segir að allt sem lýtur að því að hafa áhrif á fæðingartíðni sé viðkvæmt umræðuefni í Afríku, álfu þar sem ríkidæmi er víða skilgreint á grundvelli fjölda barna.

Afríkusambandið vill hins vegar taka á þessu viðkvæma málefni og ræddi það í þaula á fundinum síðastliðinn mánudag með áherslu á unga fólkið í álfunni, 226 milljónir ungamenna á aldrinum 15 til 24 ára.

Samkvæmt mannfjöldaspá Sameinuðu þjóðanna fjórfaldast íbúafjöldi Afríku því sem næst fram að næstu aldamótum. Þá verða íbúarnir alls 4,5 milljarðar talsins borið saman við 1,2 milljarð í dag. Nígería er nefnd sem dæmi um fjölgun íbúa. Þar búa núna um 180 milljónir en verða 800 milljónir í lok aldarinnar. Mörgum þykir óvissa ríkja um að allt þetta fólk komi til með að hafa í sig og á.

Ekki til umræðu að breyta reglum um opinbera þróunarsamvinnu vegna öryggismála, segir formaður DAC

Breska ríkisstjórnin vill breyta reglum um opinbera þróunarsamvinnu hvað öryggismál áhrærir en Charlotte Petri Gornitzka formaður DAC - þróunarsamvinnunefndar OCED - segir slíkt ekki til umræðu. Samkvæmt frétt Devex fréttaveitunnar var reglum um opinbera þróunarsamvinnu (ODA) síðast breytt varðandi öryggismál árið 2016 og þá féllust fulltrúar 30 aðildarríkja DAC á tillögur um að heimila að fleiri þættir tengdir öryggismálum falli undir ODA skilgreiningar, meðal annars útgjöld tengd baráttunni gegn ofbeldisfullri öfgahyggju.

Breski íhaldsflokkurinn hvatti að sögn Devex mjög til þessara breytinga og hét því í aðdraganda kosninganna í Bretlandi á dögunum að rýmka þessar reglur enn frekar. Charlotta Petri Gornitzka formaður DAC sagði hins vegar í samtali við Devex að önnur mál væru í forgangi hjá DAC, meðal annars innanlandskostnaður vegna flóttamanna og aðkoma einkageirans. Krafa Breta væri ekki til umræðu.

"Við viljum ekki taka nýjar ákvarðanir á hverju ári. Það væri veikleiki í sjálfu sér," sagði hún í samtali við Devex. Sjálf var hún mótfallinn breytingunum í fyrra en þá var hún fulltrúi Svía og framkvæmdastjóri SIDA, sænsku þróunarsamvinnustofnunarinnar.

Charlotta Petri var hér á Íslandi fyrir nokkru þegar hún kynnti fyrstu jafningjarýni DAC á íslenskri þróunarsamvinnu. Myndin af henni hér til hliðar var tekin í Safnahúsinu við Hverfisgötu þegar DAC skýrslan var kynnt.

SEforALL með vinnustofu í Kröflu:
Verkefni með Landsvirkjun þar sem áhersla verður lögð á kynjajafnrétti

Þátttakendur við Kröflu. Ljósmynd: Landsvirkjun
Í Kröflustöð var í síðustu viku haldin vinnustofa á vegum SEforALL (Sustainable Energy for All - Endurnýjanleg orka fyrir alla). Um er að ræða samtök á vegum Sameinuðu þjóðanna sem stofnuð voru í kjölfar loftslagsfundarins í París í desember 2015. Samtökin hafa að markmiði að tryggja aðgengi mannkyns að orku, tvöfalda hlut endurnýjanlegrar orku í orkuvinnslu í heiminum og tvöfalda framfarir í orkunýtingu fyrir árið 2030. Rachel Kyte framkvæmdastjóri SEforALL og fulltrúi aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna sótti vinnustofuna ásamt á fjórða tug fundargesta víðsvegar að úr heiminum.

Samkvæmt frétt Landvirkjunar fóru Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri og Stella Marta Jónsdóttir forstöðumaður verkefnastofu á ráðstefnu samtakanna í New York í síðasta mánuði og þar tók Ragna þátt í pallborðsumræðum. Hún kynnti endurnýjanlega orkuvinnslu Íslendinga, orkuskipti síðustu áratuga og þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í orku- og loftslagsmálum. "Niðurstaða ráðstefnunnar var að setja á fót hraðal - verkefni sem ætlað væri að styðja við kynjajafnrétti, samfélagsþátttöku og eflingu kvenna í orkugeiranum í heiminum. Fundurinn, sem Landsvirkjun hýsir í Kröflu í dag og á morgun, er framhald á undirbúningi hraðalsins," segir í fréttinni.

Markmið SEforALL falla vel að þeim áherslum Landsvirkjunar sem kynntar voru á  opnum fundi um samfélagslega ábyrgð í vor, að því er segir í fréttinni. "Fyrirtækið mun leggja áherslu á þrjú Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna; verndun jarðarinnar (loftslagsmál), sjálfbæra orku og jafnrétti kynjanna. Vinna SEforALL í hraðlinum, sem stefnt er á að taka muni formlega til starfa í lok árs, mun m.a. miða að því að auka áherslu á kynjajafnrétti, samfélagsþátttöku og valdeflingu kvenna , auk þess að kortleggja hagsmunaaðila og mynda bandalög í þeim tilgangi að stuðla að kerfisbreytingum.

SEforALL hefur einnig að markmiði að bæta aðgengi almennings í þróunarríkjunum að rafmagni og auka þátttöku kvenna í því að finna endurnýjanlegar orkulausnir. Þá er markmiðið að samhæfa vinnu hagsmunaaðila á sviði orku- og jafnréttismála og tryggja fjármögnun frá opinberum aðilum og einkaaðilum til verkefna sem tengjast endurnýjanlegri orkuvinnslu."

Stjórnarfundur UN Women í New York:
Árið 2030 er síðasti söludagur fyrir misrétti kynjanna

Hildigunnur Engilbertsdóttir flytur ávarp fyrir Íslands hönd á stjórnarfundinum.
Hildigunnur Engilbertsdóttir fulltrúi utanríkisráðuneytisins á stjórnarfundi UN Women í síðustu viku sagði Ísland leggja áherslu á að auka vægi kjarnaframlaga og mikilvægi þess að ná til karla og drengja til þess að ná fram raunverulegum samfélagsbreytingum. Stjórnarfundurinn var haldinn dagana 27.-28. júní 2017 í aðalstöðvum Sameinuðu Þjóðanna (SÞ) í New York.

Framkvæmdarstjórn UN Women er samansett at 41 aðildarríki, kjörin til þriggja ára í senn af efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu Þjóðanna (ECOSOC). Úthlutun sæta í stjórninni er svæðisbundin, en lönd í Afríku fá til dæmis tíu sæti á meðan lönd í Vestur-Evrópu og líkt þenkjandi íkja (WEOG) fá fimm sæti. Að sögn Hildigunnar átti Ísland síðast sæti í framkvæmdastjórn UN Women 2015 en samkvæmt nýrri formúlu um skiptingu sæta Vesturlandahópsins í stjórn UN Women er Íslandi tryggt eitt sæti á næstu sex árum. Fastanefnd Íslands í New York tekur þátt í starfi óformlegs vinahóps líkt þenkjandi ríkja á vettvangi SÞ sem styðja starf UN Women.

Hildigunnur segir að íslensk stjórnvöld hafi meðal annars veitt kjarnaframlög til UN Women og þegar þau hafi verið skoðuð miðað við höfðatölu hafi komið í ljós að Ísland var fjórða stærsta gjafaríki stofnunarinnar árið 2015.

"Á fundinum voru meðal annars kynnt ný drög að stefnu UN Women 2018-2021, farið yfir hverju var áorkað á tímabili undangenginnar stefnu 2014-2017, kynntar niðurstöður mats á stefnumótandi samstarfi UN Women við aðrar stofnanir sem og ársskýrslu um innri endurskoðun og rannsóknir," segir Hildigunnur og bætir við að einnig hafi verið flutt samantekt um verkefni UN Women í Sómalíu. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður þar í landi hafi UN Women unnið ötullega að því að auka hlutfall kvenna á þingi.

Starfsemi í 74 löndum
Í ræðu framkvæmdastýru UN Women, Phumzile Mlambo-Ngcuka, kom fram að UN Women er með starfsemi í 74 löndum þar sem aðallega er unnið að því að auka efnahagsleg áhrif og mátt kvenna en einnig að breytingum í stefnumótun ríkja sem og lagaumhverfi. Af niðurstöðum á því sviði má nefna að 72 lög í 61 landi voru samþykkt eða breytt árið 2016 með aðstoð UN Women, en 1,6 miljarður kvenna og stúlkna búa á því svæði. Phumzile lagði einnig áherslu á þatttöku einkageirans í baráttunni fyrir kynjajafnrétti og nefndi þar sérstaklega áhrif farsímavæðingar á atvinnuþátttöku kvenna. "Sem dæmi um þetta fjallaði Phumzile um verkefni UN Women í Rúanda sem hefur tengt saman þrjú þúsund kvenkyns bændur og samvinnufélög í gegnum farsíma og gerir þeim þar af leiðandi kleift að sækja upplýsingar til að mynda um markaðsverð á ýmsum vörum," segir Hildigunnur.

Á stjórnarfundinum tóku til máls fulltrúar 42 landa og gerðu grein fyrir afstöðu landa sinna til nokkurra málaflokka.

"Phumzile, sem nýlega var endurskipuð framkvæmdastýra UN Women, lokaði fundinum með því að lýsa því yfir að síðasti söludagur fyrir misrétti kynjanna yrði að vera árið 2030 og hvatti stjórnarmeðlimi til að láta kynjajafnrétti sig varða á öllum sviðum lífsins, ekki bara á stjórnarfundum," segir Hildigunnur. 

Ólík úrræði fyrir börn

SOS Barnaþorpin hafa þróað starf sitt í gegnum árin með það í huga að hjálpa sem flestum börnum á sem bestan hátt. Samtökin leggja mikla áherslu á aðstoð við foreldralaus börn en einnig þau sem eru í hættu á að verða það.

Í frétt frá SOS barnaþorpunum á Íslandi segir:

"Þar sem samtökin starfa í 134 löndum er mikilvægt að vera sveigjanleg en þó einnig staðföst í þeim ólíku nálgunum sem samtökin standa frammi fyrir þegar kemur að umönnun barna. Barnaþorpin eru þó grunnstarfsemi samtakanna og í dag búa yfir 85 þúsund börn í barnaþorpum um heim allan."

Nánar á vef SOS Barnaþorpanna á Íslandi
Söngkona frá Tógó í rokkbúðum í Reykjavík:
Snortin yfir öryggi og frelsi íslensku stelpnanna í samskiptum og sköpun

Mirlinda rokkbúðastýra í Tógó með íslensku hljómsveitinni Chicken Darkness sem hún vann og fylgdist með í rokkbúðunum í Hraunbergi alla síðastliðna viku.

Mirlinda söngkona frá Tógó og rokkbúðastýra í Togo dvaldi síðastliðna viku í rokkbúðunum í Reykjavík hjá 13 - 16 ára stúlkum með styrk frá utanríkisráðuneytinu. Að sögn Aldísar Lóu Leifsdóttur hjá Sól í Tógó kom hún hingað til þess að deila reynslu sinni af stelpu rokkbúðunum í Togó og "taka inn strauma og stefnur í stelpu rokkbúðunum sem voru haldnar í Tónlistarskóla Sigursveins vikuna 26. - 30 júní," eins og hún orðar það. Til stóð að Modestine, gítarleikari og kennari, kæmi líka en vegabréfsáritun fékkst ekki fyrir hana. Að sögn Aldísar Lóu er unnið að því að fá Modestine í rokkbúðirnar í október í staðinn.

"Mirlinda var snortin yfir því hvað íslensku stelpurnar voru öruggar og frjálsar bæði í samskiptum og sköpun. Hún segir líka unaðslegt að sjá hvað þær voru óhræddar við sautján sjálfboðaliða og tónlistarkonur sem stjórnuðu rokkbúðunum í Hraunbergi," segir Aldís Lóa.

"Mirlinda segir samskipti á milli kynslóða einkennast af ójöfnuði í Tógó þar sem unglingum og börnum beri að sýna hinum eldri skilyrðislausa virðingu og hlýðni hvað sem tautar og raular og það hefti unga fólkið til þess að tjá sig og skapa. Sjálf hafi hún alist upp við það sem barn að mega ekki horfa í augun á móður sinni þegar hún yrti á hana. Uppeldið og skólakerfið í Tógó er gegnsýrt af þessu viðhorfi, að beygja sig fyrir yfirboðaranum, en sem betur fer er þetta að breytast hægt og rólega. Hún hlakkar til þess að fara heim og halda stelpu rokkbúðirnar í ágúst í Kpalime og leggja áherslu á það við tónlistarkennarana í búðunum að þær sem leiðbeina og stúkurnar sjálfar sem taka þátt séu jafnar og beri að virða og sýna hlýhug til hvor annarrar. Hún segist sjá fyrir sér að sumar stúlknanna í Tógó sem eiga eftir að sækja rokkbúðirnar í ágúst eigi eftir að geta skapað eigin músík en aðrar muni styðja sig við músík sem þær þekkja af YouTube. Hún ætlar sannarlega að hvetja þær til þess að skapa eigið efni," segir Aldís Lóa.

Á síðasta ári sóttu 30 stúlkur rokkbúðirnar hjá Mirlindu í Kpalime og vilja þær allar koma aftur í ár. Mirlinda telur það vera kost að fá sömu stúlkur aftur af því að þær kynntust á síðasta ári kvennarýminu og frelsinu sem fylgir því að vinna innan þess og geti því gengið ferskar til verks núna þegar þær koma í annað sinn. Aldís Lóa segir að Mirlinda hafi fjölgað plássum í búðirnar um 10 þannig að í ár komi 40 stúlkur.

"Vinsældir stúlkna rokkbúðanna í Togó er sannarlega miklar og ef efni væru til þá væri hægt að hafa fleiri búðir á ári. Fljótlega í haust verður aftur ráðist í hljóðfærasöfnun á Íslandi til þess að mæta þörfum búðanna í Tógó. En hljóðfæraskortur er aðal fyrirstaðan útbreiðslu stelpurrokksins," segir Aldís Lóa. 
Hæsta framlagið frá Íslandi - óháð höfðatölu!


Samkvæmt nýútkominni ársskýrslu UN Women 2016, sendir landsnefnd UN Women á Íslandi hæsta fjárframlag til verkefna UN Women allra landsnefnda, óháð höfðatölu.

Landsnefndir UN Women eru fimmtán talsins og starfa víðs vegar um heiminn. Undanfarin tvö ár hefur íslenska landsnefndin sent annað hæsta framlag landsnefnda, á eftir Ástralíu. Í ár trónir hins vegar sú íslenska á toppnum.

"Starfsemi landsnefndarinnar hefur vaxið ört á undanförnum árum. Síðasta ár var engin undantekning og jukust framlög landsnefndarinnar um 41% á milli áranna 2015 og 2016. Um helmingur af heildarframlagi landsnefndarinnar rann til verkefna sem miða að því bæta lífsgæði og öryggi kvenna á flótta. Þá hafa aldrei fleiri styrkt samtökin með mánaðarlegu framlagi og aldrei áður hafa jafn margir karlmenn tilheyrt þeim hópi," segir Hanna Eiríksdóttir, starfandi framkvæmdastýra UN Women á Íslandi.

"Það er því rík meðvitund og velvild landsmanna sem gerir UN Women á Íslandi kleift að senda hæsta framlagið fyrir árið 2016. Þessar gleðifregnir sýna svart á hvítu að almenningi hér á landi er svo sannarlega umhugað um hag og bága stöðu kvenna víða um heim og beita sér fyrir því að bæta stöðu kvenna og jafna hlut kynja, með því að styrkja verkefni UN Women með sínu mánaðarlegu framlagi. Fyrir þennan stuðning erum við starfsfólk og stjórn landsnefndarinnar gríðarlega þakklát," segir Hanna.


 "Þeim er fjandans sama um þetta fólk"

Ógnaröld ríkir í Suður-Súdan og flóttafólk, aðallega konur og börn flýja yfir til Úganda. Áheitaráðstefna SÞ og ríkisstjórnar Úganda vegna flóttamannavandans varð ekki jafn árangursrík og vonir stóðu til. Fyrirheit voru gefin um 360 milljónir dollara, sem hrökkva skammt. Íslendingar lofuðu ekki sérstöku framlagi, en Stefán Jón Hafstein, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala, sat ráðstefnuna og ræddi flóttamannavandann á Morgunvaktinni á Rás 1 í vikunni.

Á vef RÚV segir: " Málefni flóttafólks eru meðal stærstu vandamála heimsins. Þrjú helstu gistiríki flóttafólks eru Tyrkland, Pakistan og Úganda. Ekkert ríki Afríku fær fleira flóttafólk eins og Úganda. Líklega verða flóttamenn þar um ein og hálf milljón talsins fyrir árslok. Stefán Jón Hafstein segir að það kosti um 800 milljónir dollara á ári að reka þau samfélög flóttafólks sem orðið hafa til í Norður-Úganda. Flóttamannasamfélögin þekja sem svarar áttföldu höfuðborgarsvæði Íslands.  Vel hefur verið staðið að verki og hafa Úgandamenn hlotið lof fyrir. Hugsanlega eru Úgandamenn fórnarlömb velgengninnar - að hafa ekki kvartað nógu mikið. En vandinn er nú orðinn yfirþyrmandi og áfram streymir fólk  yfir ógreinileg landamærin frá Suður-Súdan, þar sem hörmungar ríkja.  Í Úganda vantar alla innviði til að taka við þessu fólki, konum og börnum að meirihluta. Þegar hafa matarskammtar verið minnkaðir um helming. Við það eykst spennan, og óánægja heimafólksins með áganginn kraumar undir.

En flóttamannastraumurinn stöðvast ekki á meðan ógnarástand varir í Suður-Súdan. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur sagt að vandinn í Suður-Súdan, sem er af mannavöldum, sé sá mesti sem átt hefur verið við í Afríku frá stríðinu í Rúanda. "Í Suður-Súdan eru klíkur sem eru að ræna landið. Helmingur landsmanna sveltur. Það virðist vera algjör fyrirlitning á samborgurunum frá hinum ráðandi herrum. Þeim er bara fjandans sama um allt þetta fólk. Þeir ætla að ræna landið." Suður-Súdan fékk sjálfstæði 2013 og síðan hefur ríkt þar ógnaröld. Tekist er á um olíulindir og aðrar auðlindir. "Ráðandi klíkur eru að þurrka það upp," eins og Stefán Jón orðaði það á Morgunvaktinni.

Óðinn Jónsson fréttamaður tók myndina af Stefáni Jóni.


Áhugavert
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-


Raids on Uganda show South Sudan's war spilling across its borders/ Reuters
-
What's at Stake at the G20 Summit/ CFR
-
Europe's risky experiment: Can aid be used to deter migration?/ Devex
-
Aid reform: Cash, World Bank stand out as localisation stalls/ IRIN
-
Sudanese Doctors Urge Measures Against Cholera Outbreak/ VOA
-
Knap en kvart milliard ekstra til civilsamfundet/ GlobalNyt
-
Funding Climate Resilience Benefits All Nations - Yes, the U.S. Too/ IPS
-
New country classifications by income level: 2017-2018/ Alþjóðabankinn
-
A million bottles a minute: world's plastic binge 'as dangerous as climate change'/ TheGuardian
-

D+C, júlí 2017
-
Putting the Spotlight on Women Migrant Workers/ IPS
-
Top 300 Cooperatives Generate 2.5 Trillion Dollars in Annual Turnover/ IPS
-
Poor-quality medicine: A global pandemic/ Devex
-
'Address African Rural Youth Unemployment Now or They Will Migrate'/ IPS
-
Ending Child Marriage Could Add Trillions to World Economy/ IPS
-
Taking the fight against Boko Haram to the airwaves/ IRIN
-

New Partnership Aims to Help Countries Achieve a Water-Secure World for All/ Alþjóðabankinn
-
Two cheers for UN transparency/ IRIN
-
The Billion Dollar Cost Of Child Marriage/ NPR
-
WHO declares an end to the Ebola outbreak in the Democratic Republic of the Congo/ WHO
-
World Bank Launches First-Ever Pandemic Bonds to Support $500 Million Pandemic Emergency Financing Facility/ Alþjóðabankinn
-
Låneskandalen i Mosambik verre enn fryktet/ Bistandsaktuelt
-
Germany to boost green energy in Africa - but will it work?/ DW
-
FACT FILE: Climate change, food security, and adaptation/ IRIN
-
They fled Boko Haram and famine - and then they were forced back/ WashingtonPost
-
Universities in global south aim to end reliance on western experts/ ClimateChangeNews
-
Young Africans: 'We need respect and equality'/ DW
-
France extends helping hand to refugees in Tanzania/ CGTN
-
Burundi on the brink, looking back on two years of terror/ FIDH
-
Africa's presidents keep going abroad for medical treatment rather than fixing healthcare at home/ Qz
-
400 tons of life-saving health supplies arrive in Yemen/ WHO
-
Mangler 130 milliarder nødhjelpskroner/ Bistandsaktuelt
-
Agriculture ministers urged to address African rural youth unemployment/ FAO
-
Mozambique Police 'Beef Up Security' to Protect Bald Men Amid 'Ritual Attacks'/ AllAfrica
-
ETHNIC TENSIONS: Roots of violence/ D+C
-
China has overtaken the US and UK as the top destination for anglophone African students/ Qz
-
Uganda civil servants face strict dress code/ BBC

Heimsókn í skóla - minning frá Malaví 

- eftir Evu Harðardóttur doktorsnema við Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Þrátt fyrir að hafa lagt af stað löngu fyrir sólarupprás virðast nær allir borgarbúar hafa vaknað á undan okkur. Ógrynni af fólki, ýmist hjólandi eða gangandi, með fangið fullt af pinklum og pökkum, gengur á undan eða við hlið bílsins sem ég sit í. Við silumst áfram, stýrumst bæði af mönnum og dýrum sem teppa göturnar. Glugginn er opinn og ég anda að mér morgunlyktinni sem mér er farið að þykja undarlega vænt um. Minningar um reykjarlykt og ryk í bland við morgunsöng nágrannakvenna minna eiga eftir að lifa með mér um ókomna tíð.

Ég er á ferðalagi með norska sendiherranum og leið okkar liggur í lítið þorp rétt utan við höfuðborg Malaví. Þar ætlum við að heimsækja grunnskóla og ná tali af kennurum og skólastjóra. Skólinn var nýlega valinn til þátttöku í verkefni sem snýr að því að efla menntun stúlkna í landinu. Reyndar verða hátt í 300 skólar með í verkefninu en í þessum tiltekna skóla er ætlunin að hefja verkefnið formlega innan fárra vikna - að viðstaddri Ernu Solberg nýkjörnum forsætisráðherra Noregs. Sendiherrann er þar af leiðandi helst upptekinn af því að mæla tímann sem það tekur að keyra frá borginni, leggja mat á holóttan og illfæran veginn að skólanum og finna út úr því hvar hægt væri að gera pissustopp á leiðinni - ef til þess kæmi að forsætisráðherranum yrði mál.

Ég er hins vegar í öðrum þönkum. Sokkin djúpt í hugsanir sem verða sífellt ágengari. Ég er búin að starfa á skrifstofu UNICEF í Malaví í rétt tæpa fjóra mánuði og hef þegar kynnst því hversu slæmt ástandið er fyrir börn og ungmenni í landinu, sér í lagi stúlkur. Tölur og staðreyndir sem ég las um áður en ég steig upp í flugvél raungerðust fyrir augum mér strax á leiðinni heim frá flugvellinum og urðu enn áþreifanlegri á fyrstu vikum mínum í starfi. Hér eru fleiri en 100 börn að meðaltali í bekk, skólastofur fáar og að hruni komnar, engar bækur eða skrifföng, kennarar alltof fáir, lítils metnir og nær ólaunaðir. Mikill meirihluti stúlkna í Malaví fellur frá námi áður en þær ná 10 ára aldri. Einungis tæp 30% stúlkna ná að ljúka átta ára skólagöngu. Flestar eru giftar nauðugar og ófrískar fyrir 18 ára aldur. Nýleg skýrsla frá UNICEF um ofbeldi gegn börnum í Malaví sýnir að börn eru síst örugg í skólum landsins. Kennarar beita enn líkamlegu ofbeldi og margar stúlkur verða fyrir kynferðislegri áreitni á leið í skólann eða í nágrenni hans.

Við erum komin út fyrir borgarmörkin og þjótum nú áfram á malbikuðum þjóðveginum. Frá veginum má greina aragrúa af litlum húsaþyrpingum, ýmist hlaðin múrsteinshús með bárujárnsþaki eða hringlaga leirkofar með stráþökum. Blaktandi fánar, húsdýr á vappi og fólk að sinna morgunverkunum. Landið er hrjóstrugt enda fá tré orðin eftir sökum mikilla skógareyðingar.  Þrátt fyrir ýmis lög og reglur sem takmarka skógarhögg er erfitt fyrir íbúa Malaví að ná sér í eldivið annan en þann sem fellur til af trjám. Ástandið er hins vegar grafalvarlegt sem birtist meðal annars í því að náttúruhamfarir á borð við flóð og þurrka verða sífellt skæðari  og afdrifaríkari fyrir fleira fólk.

"Þetta snýst um að forgangsraða" sagði yfirmaður minn við mig í síðustu viku þegar ég kom inn á skrifstofu til hans og lýsti því yfir að vandinn væri bara hreinlega of stór til þess að það væri hægt að finna skynsamlegar og varanlegar lausnir. Hvar byrjum við þegar rót vandans er allt í senn kerfislæg, efnahagsleg, félagsleg, menningarleg og ekki síst pólitísk? Forgangsröðun! Hugsa ég þegar við leggjum bílnum og norski sendiherrann hrópar ánægður: "What a lovely mountain view". Já, fjöllin í þessum hluta Malaví eru svo sannarlega falleg og það eru börnin sem taka á móti okkur með hrópum og köllum líka. Ég dreg andann djúpt og einbeiti mér að verkefninu. Skólinn samanstendur af gamalli byggingu sem rúmar fjórar skólastofur og skrifstofu skólastjórans, einni nýlegri skólastofu sem var byggð fyrir nokkrum árum fyrir tilstuðlan bandarískrar þróunarsamvinnu, bambusskýli þar sem krakkar á aldrinum 10 til 12 ára halda til og stóru tréi sem þjónar hlutverki skólastofu fyrir yngri börnin. Forgangsröðun, hugsa ég og hripa niður lýsingu á staðháttum.

Ég er búin að fara í nokkrar skólaheimsóknir nú þegar og er farin að kannast við rútínuna. Fyrst göngum við inn á skrifstofu skólastjórans þar sem hann býður okkur sæti á trébekkjum og bendir okkur á handskrifuð blöð sem hanga uppi á veggjum með ýmsum tölum úr skólastarfinu. Hér eru tæplega 2000 nemendur skráðir og 8 starfandi kennarar; þar af 6 með kennsluréttindi. Forgangsröðun, hugsa ég og tek mynd af upplýsingunum á veggnum. Skólastjórinn segir að nemendum hafi fjölgað eftir að nýja skólastofan kom og þess vegna vanti ennþá fleiri hús sem og salernisaðstöðu. Við skólann eru nú 4 salerni fyrir bæði kynin, stúlkur veigra sér hins vegar við að nota klósettin sökum þess að þau snúa beint að skólanum. Forgangsröðun, hugsa ég og bý til sérstakt minnisblað í símanum mínum um staðsetningu salerna. Þá deilir skólinn vatnsbrunni með kirkjunni og vatnið því oft af skornum skammti.

Smellið á myndina til að sjá kvikmyndabrotið.
Menntamálaráðuneytið hefur ekki sent skólanum bækur eða skrifföng í þrjú ár. Á síðasta ári fékk skólinn um það bil 20,000 íslenskar krónur í viðhaldsstyrk. Skólastjórinn ákvað að nota féð til að kaupa skólabækur á svörtum markaði fyrst enginn sending barst frá ráðuneytinu. Hann réttir mér eina bók og opnar fyrstu síðuna: "This book is not for sale" les hann af blaðsíðunni og hlær. Mér er ekki hlátur í huga en hlæ honum til samlætis enda varla annað hægt þegar aðstæður eru þessar. Forgangsröðun, hugsa ég og ákveð símtal upp í ráðuneyti um leið og ég kem til baka. Fæstir kennaranna fengu útborgað um síðustu mánaðarmót eða þarsíðustu og margir eru í annarri vinnu - sem oft gengur fyrir kennslunni, að sögn skólastjórans. Skólastjórinn leggur til að byggja fleiri kennarahús á skólalóðinni - þá kæmu þeir kannski oftar til vinnu segir hann. Nú þurfa flestir að leigja sér húsnæði í þorpinu og leigan er ekki ódýr. Forgangsröðun, hugsa ég og skrifa niður athugasemdir skólastjórans.

Skólastjórinn vill sýna okkur nýju skólastofuna og notagildi hennar. Við göngum því þvert yfir lóðina í átt að nýju skólastofunni. Ég fæ smá kvíðahnút í magann því ég kannast líka orðið við þessar aðstæður. Hér hefur alltof mörgum börnum verið komið fyrir inni í nýlegri en afskaplega hrörlegri skólastofu. Þau sitja í mannlegri hrúgu á steingólfinu. Um það bil 150 líkamar 6 til 8 ára barna í rými sem er líklega hugsað fyrir um það bil 40 nemendur. Inni fyrir stendur kennarinn, snýr baki í börnin, skrifar á töfluna og snýr sér svo öðru hvoru við til að láta börnin endurtaka einstök orð sem hann kallar yfir hópinn. Börnin eru hvorki með bækur né skriffæri. Í stofunni er ekkert sem minnir á líflega og skapandi skólastofu, engar myndir á veggjum, engir litir, form, kubbar, leir eða annar efniviður. Í stofunni er gamalt kennaraborð, þrír stólar og krítartafla. Forgangsröðun, hugsa ég og brosi afsakandi til kennarans þegar við komum í dyragættina. Skólastjórinn vill sýna okkur nýju skólastofuna og notagildi hennar. Við göngum því þvert yfir lóðina í átt að nýju skólastofunni. Ég fæ smá kvíðahnút í magann því ég kannast líka orðið við þessar aðstæður. Hér hefur alltof mörgum börnum verið komið fyrir inni í nýlegri en afskaplega hrörlegri skólastofu. Þau sitja í mannlegri hrúgu á steingólfinu. Um það bil 150 líkamar 6 til 8 ára barna í rými sem er líklega hugsað fyrir um það bil 40 nemendur. Inni fyrir stendur kennarinn, snýr baki í börnin, skrifar á töfluna og snýr sér svo öðru hvoru við til að láta börnin endurtaka einstök orð sem hann kallar yfir hópinn. Börnin eru hvorki með bækur né skriffæri. Í stofunni er ekkert sem minnir á líflega og skapandi skólastofu, engar myndir á veggjum, engir litir, form, kubbar, leir eða annar efniviður. Í stofunni er gamalt kennaraborð, þrír stólar og krítartafla. Forgangsröðun, hugsa ég og brosi afsakandi til kennarans þegar við komum í dyragættina.

"Good morning" segi ég og lít yfir hópinn. Á sama augnabliki sprettur mannlega hrúgan samtaka á fætur og æpir fullum hálsi - langt yfir hávaðamörk: "Good morning madam, how are you?" Í fyrstu skólaheimsókninni minni brá mér óneitanlega við þessar móttökur þar sem ég vissi ekki hvernig ætti að bregðast við þessu herópi. En nú er ég undirbúin og hrópa hátt á móti: "I am fine thank you, please sit down". Þau setjast aftur í hrúgu, klessast saman og mæna á kennarann sem heldur einhæfri kennslunni áfram. Forgangsröðun, hugsa ég enn og aftur.

Í lok þessarar heimsóknar, sem var að mörgu leyti eins og margar aðrar fyrri og síðari skólaheimsóknir mínar í sveitum Malaví, gerðist hins vegar dálítið merkilegt. Ég sat á skólalóðinni og hugsaði í vonleysi mínu um ómögulegustu forgangsröðun í heimi. Þá sé ég hvar kennari, kona á mínum aldri, kemur út úr einni skólastofunni með um það bil 100 börn á eftir sér. Hún gengur með þau yfir á stórt opið svæði og skiptir þeim þar í nokkra hringi. Þau klappa og stappa á leiðinni og syngja lag sem þau virðast flest kunna. Börnin mynda hringina þannig að innri hringurinn snýr að ytri og þau horfast í augu. Þau halda áfram að syngja og ganga í hringi - í sitt hvora áttina. Kennarinn klappar og börnin stöðva - finna sér félaga og ræða eitthvað á sínu tungumáli við þann sem þau lentu á móti. Þau brosa, hlægja og nota handahreyfingar til að tala saman. "Kokkurinn" hugsa ég og brosi út að eyrum. Þau eru að dansa kokkinn og síðan eru þau að ræða eitthvað við félaga sinn. Við klapp kennarans halda þau áfram að ganga í hring, dansa og klappa þangað til að þau stöðva að nýju og ræða málin við nýjan félaga. Á einu augnabliki breytist vonleysi mitt og vantrú í gleði og tiltrú á skólastarfi og kennslu - óháð aðstæðum. Á þessu litla augnabliki varð ég vitni að umhyggju, virðingu, samvinnu og góðri kennslu. Rétti barna til að vera til, njóta, læra og taka þátt í samfélagi jafningja.

Forgangsröðun, hugsaði ég og smellti af þeim mynd.

facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105