Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
10. árg. 321. tbl.
29. mars 2017
Ríkisstjórnin samþykkir tillögu forsætisráðherra:
Sérstök verkefnastjórn fimm ráðuneyta og Hagstofunnar skipuð vegna Heimsmarkmiðanna

Skipuð verður verkefnastjórn til þess að halda utan um greiningu, innleiðingu og kynningu á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Ríkisstjórnin samþykkti tillögu forsætisráðherra þessa efnis á fundi í síðustu viku.

Að verkefnastjórninni standa forsætisráðuneytið, utanríkisráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið, velferðarráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið og Hagstofa Íslands. Til að tryggja aðkomu allra ráðuneyta verður jafnframt myndaður sérstakur tengiliðahópur verkefnastjórnar og þeirra ráðuneyta sem ekki eiga þar fulltrúa.

Meginhlutverk verkefnastjórnar er að ljúka við greiningarvinnu og rita stöðuskýrslu þar sem meðal annars verða lagðar fram tillögur að forgangsröðun markmiða til ríkisstjórnar. Samkvæmt frétt á vef forsætisráðuneytisins skal verkefnastjórn jafnframt gera tillögur um framtíðarskipulag og verklag í tengslum við innleiðingu markmiðanna hér á landi. Þá skal hún sérstaklega horfa til þess hvernig samhæfa megi innleiðingu Heimsmarkmiðanna og stefnu og áætlanagerð Stjórnarráðsins í samræmi við ný lög um opinber fjármál. 

Einnig mun verkefnastjórnin huga að því hvernig vinna megi að innleiðingu markmiða í samstarfi við háskólasamfélagið, atvinnulífið og samfélagið í heild sinni og hafa yfirsýn yfir og sinna alþjóðlegu samstarfi um Heimsmarkmiðin. 

Ríkisstjórnin samþykkti að verja fimmtán milljónum króna í verkefnið af ráðstöfunarfé sínu.

Búið að þróa bóluefni gegn niðurgangspestum!
Ódýrt og hitaþolið bóluefni sem gæti bjargað milljónum barna

Á hverjum degi látast um 1300 börn vegna niðurgangspesta. Samtökin Læknar án landamæra tilkynntu í vikunni að komið sé fram á sjónarsviðið nýtt bóluefni sem sýnt hafi gildi sitt. "Bóluefnið breytir öllu," er haft eftir Michaela Serafini, lyfjafræðingi samtakanna í frétt Lækna án landamæra.

Í fréttinni kemur fram að þegar ung börn deyja sé það í mörgum tilvikum vegna niðurgangspesta sem er önnur helsta dánarorsök barna í heiminum. Nú sé hins vegar búið að þróa nýtt bóluefni sem geti komið í veg fyrir þúsundir slíkra ótímabærra dauðsfalla.

Samkvæmt frétt samtakanna er það niðurstaða tilrauna í Níger með bóluefnið að það breyti öllu. Bóluefnið - BRV-PV - vinnur gegn banvænni rótavírus sýkingu sem er meginástæðan fyrir því að í börnum þróast alvarleg niðurgangspest.

Bóluefnið er ódýrt og hitaþolið, segir í frétt Lækna án landamæra. Þar segir að bóluefnið sé ódýrara en önnur bóluefni á markaðnum og það þolir aukin heldur mikinn hita í marga mánuði, sem er augljós kostur í mörgum þróunarríkja. Flest dauðsföll barna af völdum niðurgangspesta verða einmitt í sunnanverðri Afríku og Suður-Asíu. "Við teljum að nýja bólefnið gegn rótavírus verndi þau börn sem mesta þörf hafa fyrir bóluefnið," er haft eftir Micaelu.

Samkvæmt fréttinni er beðið eftir grænu ljósi frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO). Hver skammtur kostar um 300 krónur íslenskar og því ættu lágtekjuríki að ráða við að kaupa bóluefnið og þar með afstýra þúsundum dauðsfalla ungra barna. Betri fréttir er nú varla hægt að segja!

Úganda komið að þolmörkum vegna flóttamannastraumsins
Ríkisstjórn Úganda og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) sendu á dögunum út sameiginlegt ákall til alþjóðasamfélagsins um að bregðast skjótt við og styðja myndarlega við þær þúsundir flóttamanna frá Suður-Súdan sem koma daglega yfir landamærin til Úganda á flótta frá grimmdarverkum og matarskorti.

Nú þegar eru í Úganda rúmlega 800 þúsund flóttamenn frá Suður-Súdan. Flestir þeirra, 572 þúsund, hafa komið inn í landið frá því í júlí á síðasta ári þegar átök blossuðu upp að nýju. Með sama áframhaldi verða flóttamennirnir komnir yfir eina milljón um mitt ár. Á fyrstu mánuðum þessa árs hafa 172 þúsund íbúar Suður-Súdan komið yfir til Úganda, að meðaltali 2,800 dag hvern í marsmánuði.

"Úganda heldur áfram að hafa landamærin opin," segir Ruhakana Rugunda forsætisráðherra Úganda í fréttatilkynningu frá Flóttamannastofnun SÞ. "Hins vegar leiðir þessi mikli straumur flóttafólks til gríðarlegs álags á opinbera þjónustu og staðbundna innviði. Við höldum áfram að taka vel á móti nágrönnum okkar sem búa við neyð en við hvetjum alþjóðasamfélagið til að bregðast í skyndi við þessum aðstæðum sem stefna í það að verða óviðráðanlegar."

Að mati Filippo Grandi framkvæmdastjóra UNHCR er komið að þolmörkum. Úganda geti eitt og sér ekki leyst mesta flóttamannavanda Afríku upp á eigin spýtur. "Með áhugaleysi alþjóðasamfélagsins á þjáningu Suður-Súdana er verið að bregðast hluta af bágstaddasta fólkinu í heiminum þegar það þarf sárlega á aðstoð okkar að halda," segir Grandi.

Íslensk stjórnvöld styðja flóttafólk frá Suður-Súdan með framlögum til Flóttamannastofnunar SÞ og beinum framlögum til íslenskra borgarasamtaka sem starfa í flóttamannasamfélögum í norðurhluta Úganda. 

Þróunarskýrsla Sameinuðu þjóðanna kynnt fyrir fullu húsi í Hannesarholti:
Þörf á vitundarvakningu um þjóð-félagshópa sem lenda utangarðs
Dr. Selim Jahan aðalritstjóri skýrslunnar.

Þrátt fyrir að lífskjör hafi almennt batnað síðustu ár hefur sú þróun ekki verið jöfn og einstaklingar, hópar og heil samfélög hafa orðið útundan. Brýn þörf er á vitundarvakningu um hvað veldur jaðarsetningu svo hægt sé að leiðrétta þá kerfisbundnu mismunun sem á sér stað. Skortur á umburðarlyndi í samfélögum og aukin eigna- og valdatengsl ákveðinna hópa koma í veg fyrir bætt lífskjör jaðarsettra hópa. Loftslagsbreytingar, ójöfnuður, farsóttir, fólksflutningar, átök og ofbeldi eru helstu áskoranir samtímans.

Þetta eru helstu niðurstöður þróunarskýrslu Sameinuðu þjóðanna, Human Developing Report 2016, en dr. Selim Jahan aðalritstjóri skýrslunnar kynnti hana á fjölmennum fundi í Hannesarholti síðastliðinn föstudag. Þetta er annað árið í röð sem Selim kemur hingað til lands til að kynna þetta metnaðarfulla verk Þróunarstofnunar SÞ, UNDP, sem unnið er af níu manna teymi undir hans stjórn.

Í erindi hans kom fram að undanfarin 25 ár hafa miklar framfarir orðið og lífskjör í heiminum batnað umtalsvert. Meðal annars má nefna að fólk lifir að meðaltali lengur, fleiri börn ganga í skóla, dregið hefur verulega úr barnadauða, fleiri hafa aðgang að grunnþjónustu líkt og heilsugæslu og hreinu vatni, og dregið hefur verulega úr fjölda tilvika HIV, malaríu og berkla. Selim sagði að þrátt fyrir þessar framfarir hafi þróun lífskjara ekki verið jöfn og samfélagshópar, bæði smærri hópar innan samfélaga og heilu samfélögin, hafi orðið útundan.

Jaðarsettir hópar
Skýrslan í ár fjallar einkum um þá þjóðfélagshópa sem af ýmsum ástæðum hafa lent utangarðs, eru skilgreindir sem jaðarsettir hópar, og skýrsluhöfundar segja að mæti sérstökum hindrunum sem komi í veg fyrir bætt lífskjör. Í skýrslunni er lögð áhersla á að til þess að tryggja að þróun nái til allra sé brýn þörf á vitundarvakningu um orsakir jaðarsetningar.

Það sem helst hindrar að jaðarhópar nái jafnrétti er: 1) skortur á umburðarlyndi gagnvart  trú, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum, kyni eða þjóðerni; 2) aukin eigna- og valdatengsl ákveðinna hópa ýtir undir hugmyndir um að lífsgildi tiltekins hóps séu öðrum æðri; 3) veik samningsstaða eða takmarkaðir möguleikar á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri á opinberum vettvangi og þar með hafa áhrif á löggjöf og stefnumótun; og 4) þröng skilgreining sjálfsmyndar. Á sama tíma og þörf er á samstilltu átaki og samstarfi virðast sjálfsmyndir þjóða þrengjast. Brexit er nýlegt dæmi um hvernig þjóðernishyggja ryður sér til rúms þar sem  einstaklingar finna til einangrunar í kjölfar alþjóðlegra breytinga.

Skýrsluhöfundar benda ennfremur á að árangur lífskjaraþróunar sé ekki einungis metinn af árangri stjórnvalda í hverju landi fyrir sig heldur einnig af uppbyggingu og vinnu á alþjóðavettvangi. Gallar hnattvæðingar og alþjóðlegra áhrifa megi einkum rekja til þriggja þátta. Í fyrsta lagi hafi afleiðing ójafnrar dreifingar auðs þar sem 1% mannkyns á 46% af auðæfum veraldar ýtt undir velmegun ákveðinna hópa og skilið aðra eftir í fátækt og viðkvæmri stöðu. Í öðru lagi hafi hnattvæðingin skert afkomumöguleika þeirra sem eftir sitja og í þriðja lagi búa þessir hópar oft við langvarandi átök.

Niðurstaða skýrslunnar er þó sú að þróun og bætt lífskjör fyrir alla sé raunhæft markmið en til þess þurfi m.a. að skilgreina og ná til þeirra sem orðið hafa útundan í lífskjaraþróun, nýta þau stefnumið sem þegar eru til staðar, jafna stöðu kynjanna, innleiða Heimsmarkmiðin og aðra alþjóðasamninga og vinna að endurbótum á alþjóðastofnunum og þeim kerfum sem þær vinna eftir.

Human Developing Report - Human Development for Everyone
Mæðradauði horfinn?!

Líkast til hefur ekki áður með einni mynd verið sýnt betur fram á árangur af íslenskri þróunarsamvinnu. Myndin hér til hliðar birtist á Fésbókinni um helgina og margir deildu henni áfram því tölurnar um lækkun mæðradauða á Monkey Bay svæðinu í Malaví eru einu orði sagt stórkostlegar. Eins og flestir lesenda Heimsljóss vita tóku Íslendingar að sér í byrjun aldar að reisa svæðissjúkrahús við Apaflóa sem afhent var malavískum stjórnvöldum árið 2012. Einn af lokaáföngum verksins var að reisa fæðingardeild en áður hafði m.a. verið opnuð skurðdeild sem sinnti keisaraskurðum fyrir nánast allt héraðið.

Samkvæmt súluritinu á myndinni létust 128 konur af barnsförum áður en fæðingardeildin opnaði, miðað við 100 þúsund fæðingar, en strax næsta ár er þessi tala komin niður í 59. Frá júlí 2014 til 2015 dró áfram úr mæðradauða, þá létust 45 konur, en á síðasta tólf mánaða tímabili, frá júlí 2015 til 2016 lést engin kona!

Samhliða uppbyggingu fæðingardeildarinnar í Monkey Bay og fleiri slíkum deildum við minni heilsugæslustöðvar í Mangochi héraði, sem reistar voru fyrir íslenskt þróunarfé, var reynt að stemma stigu við heimafæðingum þar sem ómenntaðar yfirsetukonur tóku á móti börnum úti í sveitum. Verðandi mæður voru hvattar til að koma á fæðingardeildir sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva - og samkvæmt upplýsingum frá Mangochi voru konur fljótar að átta sig á örygginu sem fylgdi því að fæða á fæðingardeild.
 
Stærsti nemendahópurinn til þessa í Landgræðsluskólanum

Um miðjan mars hóf nýr hópur nám í árlegu 6-mánaða námi í landgræðslu og sjálfbærri landnýtingu við Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

Hópurinn í ár er sá stærsti frá upphafi og hafa nemendur aldrei komið frá jafn mörgum löndum en alls telur hópurinn 14 manns frá átta löndum. Að þessu sinni koma nemarnir frá Eþíópíu, Ghana, Lesótó, Malaví, Mongólíu, Níger, Úganda og Úsbekistan. Mestur hluti kennslunnar fer fram í húsakynnum Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti en nemarnir dvelja einnig drjúgan hluta sumarsins í höfuðstöðvum Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti á Rangárvöllum.

Nemar Landgræðsluskólans eru öll starfsmenn samstarfsstofnanna Landgræðsluskólans í sínum heimalöndum þar sem þau vinna að landgræðslu, landvernd og/eða stjórnun og eftirliti landnýtingar. Samstarfsstofnanir Landgræðsluskólans eru einkum ráðuneyti, umhverfisstofnanir og héraðsstjórnir, en einnig háskólar og aðrar rannsóknastofnanir. Náminu líkur með kynningu á rannsóknaverkefnum sem nemarnir vinna að á meðan þau dvelja hér á landi. Útskrift hópsins í ár fer fram um miðjan september. 

Að Landgræðsluskólanum standa Landbúnaðarháskóli Íslands, Landgræðsla ríkisins, Háskóli Sameinuðu þjóðanna og utanríkisráðuneytið, en skólinn er hluti af alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands.

Frekari upplýsingar eru á vef skólans.
Afríka: Þrisvar sinnum fleiri með farsíma en aðgang að salerni
Þótt hreint neysluvatn og viðunandi salernisaðstaða séu lykillinn að góðri heilsu og efnahagslegri velferð eru þessir þættir ekki í forgangi stjórnvalda í Afríku til þess að mæta brýnum þörfum milljóna manna.

Þetta segir Mike Muller sérfræðingur í vatnsmálum í viðtali við IPS fréttaveituna þar sem hann segir Afríkuþjóðirnar hafa vilja til þess að reisa innlendar vatnsveitur en hafi á hinn bóginn ekki efnahagslega burði til þess að byggja upp nauðsynlega innviði og koma vatni og salernisaðstöðu til allra íbúa.
Þjóðirnar sunnan Sahara í Afríku nota minna en 5% af vatnsauðlindum sínum en uppbygging vatnsbóla og salernisaðstöðu er kostnaðarsöm fyrir flestar þjóðirnar. Í grein IPS segir að World Water Council, alþjóðasamtök um vatn, telji að verja þurfi árlega 650 milljörðum bandarískra dala fram til ársins 2030 til þess að byggja upp nauðsynlega innviði til að tryggja öllum jarðarbúum ómengað neysluvatn.

Könnun Afrobarometer frá því í fyrra sýndi að þrisvar sinnum fleiri Afríkubúar hafa aðgang að farsíma en salerni - og segir sína sögu um áherslurnar í álfunni. Aðeins 30% íbúanna höfðu aðgang að salerni, 63% aðgang að vatnsbóli en 93% aðgang að farsímaþjónustu.

Fram kemur í grein IPS að ríkisstjórnir þurfi að fjárfesta í vatnsverkefnum til að tryggja öllum aðgengi að hreinu neysluvatni en 800 milljónir jarðarbúa búa við þau skertu lífsgæði að þurfa að neyta mengaðs vatns en afleiðingarnar sjást í þeirri óhugnanlega háu tölu að 3,5 milljónir dauðsfalla má rekja árlega til vatnsborinna sjúkdóma.

Á alþjóðlega vatnsdeginum í síðustu viku benti World Water Council á að vatn væri nauðsynlegur þáttur í allri félagslegri og efnahagslegri þróun á því sem næst öllum sviðum, meðal annars væri vatn forsenda matvælaframleiðslu og lykilþáttur í stöðugri orkuframleiðslu. Þá var bent á að engin fjárfesting væri ábatasamari, fyrir hverja krónu sem fjárfest væri í vatni kæmu rúmlega fjórar á móti í minnkandi kostnaði við heilbrigðisþjónustu. 

Loftslagsbreytingar: Fjórðungur barna býr við vatnsskort árið 2040

Árið 2040 kemur eitt af hverjum fjórum börnum í heiminum til með að búa þar sem vatn verður af skornum skammti vegna loftslagsbreytinga, segir í nýrri skýrslu frá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) sem kom út á alþjóðlegum degi vatnsins fyrr í mánuðinum.

Innan tveggja áratuga verða samkvæmt úttekt UNICEF um 600 milljónir barna í heimshlutum þar sem sárlega skortir vatnsauðlindir og barist verður um hvern dropa. Þá munu þeir fátækustu og bágstöddustu líða mest, segir í skýrslunni sem heitir: Þyrstir eftir framtíð: Vatn og börn á tímum loftslagsbreytinga - Thirsting for a Future: Water and Children in a Changing Climate.

Þurrkar og átök magna banvænan vatnsskort í Eþíópíu, Nígeríu, Sómaliu, Suður-Súdan og Jemen. UNICEF óttast að rúmlega 9 milljónir manna verði án ómengaðs drykkjarvatns í Eþíópíu einni á þessu ári. Þá segir í skýrslunni að hartnær 1,4 milljónir barna séu við dauðans dyr vegna bráðavannæringar í Suður-Súdan, Nígeríu, Sómalíu og Jemen.

Samkvæmt skýrslunni er skortur á vatni áhyggjuefni í 36 löndum. Ennfremur segir að loftslagsbreytingar með hlýnun jarðar, hækkun yfirborðs sjávar, fleiri flóð og þurrkar, bráðnun jökla og fleiri þættir hafi allir áhrif á gæði og framboð á vatni.

Tíu sjónvarpsþættir um Heimsmarkmiðin og Parísarsamninginn

Um eða upp úr næstu áramótum verða sýndir íslenskir fræðsluþættir á RÚV um Heimsmarkmiðin og Parísarsamninginn. Ríkisstjórnin samþykkti á föstudag að veita Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi styrk til framleiðslu þáttanna sem bæði verða gerðir fyrir sjónvarp og samfélagsmiðla og fjalla um þessa metnaðarfullu alþjóðasáttmála, annars vegar Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og hins vegar Parísarsamninginn um skuldbindingar í loftslagsmálum til ársins 2030.
 
Félag Sameinuðu þjóðanna hefur í samvinnu við Sagafilm ehf. ákveðið að framleiða þættina.

Að sögn Þrastar Freys Gylfasonar formanns stjórnar félagsins verður þróunar- og rannsóknarvinna við þáttaröðina unnin í samstarfi við stjórnvöld, en einnig verður leitað eftir góðu samstarfi við atvinnulífið, við fyrirtæki, einstaklinga, sveitarstjórnir, félög og stofnanir. "Vönduð þróunar- og rannsóknarvinna er mikilvæg til þess að gera þættina bæði trúverðuga og áhugaverða. Við viljum leita til helstu sérfræðinga á ólíkum sviðum, m.a. til greiningar á tækifærum sem í markmiðunum felast út frá hugviti og tækniþróun. Myndræn framsetning þáttanna er mikilvægur þáttur sem við hugum að," segir Þröstur Freyr í samtali við Heimsljós.

Samhliða undirbúningsferlinu verða að sögn Þrastar Freys til gögn sem nýta má í kynningu þáttanna eða afmarkaðri hluta. Góð tengsl séu mikilvæg við stjórnvöld, sveitarfélög og skóla á öllum stigum. "Við Íslendingar líkt og aðrar þjóðir heims þurfum vitundarvakningu til að taka á sameiginlegum viðfangsefnum. Verkefnin verða best leyst í samvinnu stjórnmála, atvinnulífs og samfélagsins alls. Í þessu verkefni felast mikil kynningartækifæri fyrir málefnið með sjónvarpsþáttaröð í RÚV, en allt efni verður jafnframt unnið með notkun á samfélagsmiðlum í huga. Við viljum setja þættina fram á upplýsandi og skemmtilegan hátt svo þeir verði áhorfendum skýrir og skiljanlegir," segir hann.

Brosað gegnum tárin

Á hamingjuvoginni  - World Happiness Report - sem kynnt var fyrir skömmu kom í ljós að óhamingjan var útbreidd í Afríku, álfu sem telur 16% mannkyns. Alls voru 155 þjóðir á lista  sem unnin var upp úr greiningu á skoðanakönnun sem mældi hamingjustig þjóða. Í ljós kom að þar voru 44 Afríkuþjóðir í mínus, þ.e. þær voru undir meðaltali í atriðum sem lúta að velferð og hamingju, eins og til dæmis frelsi, góðri stjórnsýslu, lýðheilsu og tekjujöfnuði, svo dæmi séu tekin.

Vefritið Quartz bendir hins vegar á að þótt fólk lifi undir fátæktarmörkum eða við harðstjórn þýði það ekki endilega að það sama fólk horfi dökkum augum á framtíðina. Blaðið bendir á að í Afríkukafla hamingjuskýrslunnar sé sérstaklega tekið fram að Afríkubúar séu "einstaklega" vongóðir og  sýni mikla þrautseigju gagnvart slæmum aðstæðum eins og afleitum innviðum, vatnsskorti, matarskorti, rafmagnsskorti - og almennt vondum kjörum.


OECD: Alþjóðleg ráðstefna um þróun í byrjun apríl
 
Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) efnir í byrjun aprílmánaðar til alþjóðlegrar ráðstefnu um þróunarmál - OECD Global Forum on Development. 

Fjármögnun Heimsmarkmiðanna verður meginviðfangsefni ráðstefnunnar og sjónum einkum beint að einkageiranum því eins og segir í kynningartexta fyrir ráðstefnuna er ljóst að ríkisstjórnir og opinberar lánastofnanir hafi ekki burði til þess að fjármagna Heimsmarkmiðin. Samstarf við einkageirann þurfi að koma til en talið er að fjárfesta þurfi fyrir 3,3 til 4,5 trilljónir Bandaríkjadala árlega til að ná settu marki árið 2030 í samræmi við Heimsmarkmiðin.


Kolin á útleið
Áhugavert

Konur á flótta eru dýrmætur mannauður/ UNWomen
-
Lövin: Alliansen bedriver oansvarig sandlådepolitik i Riksdagen/ OmVärlden
-
Vefsíðan: MissingMigrants
-
Equal Pay for Men and Women? Iceland Wants Employers to Prove It/ NYT
-
Secret aid worker: when your crisis isn't cool enough to attract the right people
-
Doctors Around the World Rally for New Surgery to Counter Female Genital Mutilation/ TIME
-
What's in a bag? How airtight post-harvest storage in Zambia can help achieve Zero Hunger/ WFP
-
Sultkatastrofens unevnelige årsak, eftir HARALD KRYVI/ BT
-
Incentivizing equality: Investment-led development as a win-win for all, eftir Cecile Fruman/ Alþjóðabankablogg
-
New wine in an old bottle? The German 'Marshall Plan with Africa', Julia Leninger/ INCLUDE
-
Natural Disaster, Poverty, and Development, eftir Yasuyuki Sawada/ ScienceDirect
-
Quiz: Women in the world of work/ UNWomen
-
5 ways education can end poverty/ GlobalPartnership
-
WHY IS THERE A FOOD CRISIS IN EAST AFRICA?/ PlanInternational
-
Innovation transforms education for refugee students in Africa/ UNHCR
-

Africa Renewal - Special Edition on Youth/ SÞ
-
How Music and Theatre are Educating Young People in Uganda/ GirlGlobes
-
Beyond Aid: How the private sector can drive change in global development, eftir DARIN KINGSTON og MALIA BACHESTA/ Impactalpha
-
Grand Challenges Conference 2016, ræða Priti Patel þróunarmálaráðherra Breta/ Breska ríkisstjórnin
-
Green Must Be Fair/ GreenEconomy
Green Must Be Fair/ GreenEconomy
-
Should schools should teach national values over global ones?
Should schools teach global values?/ GlobalPartnership
-
In Senegal, food security and women's empowerment go hand in hand, eftir Louise Cord/ Alþjóðabankablogg
-
Co-creating partnerships to achieve the Global Goals, eftir Juergen Nagler/ UNDP
-
Opinion: Get smart or decline - The stark choice for emerging cities, eftir Luis Alberto Moreno/ Devex

Auglýst eftir sérfræðingi á sviði fiskimála 

Hjá Alþjóðabankanum er laus til umsóknar staða sérfræðings á sviði fiskimála (Senior Fisheries Specialist) með aðsetur í Accra, Ghana. Sérfræðingurinn mun tilheyra umhverfis- og auðlindadeild Alþjóðabankans sem vinnur að því að auka sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda í gegnum verkefni bankans í þróunarríkjum. Sérfræðingurinn mun starfa að fiskiverkefnum bankans í nokkrum löndum Vestur-Afríku, m.a. Nígeríu, Ghana, Líberíu og Síerra Leóne. Verksvið sérfræðingsins snýr að stefnumótun, ráðgjöf, greiningarvinnu, undirbúningi og framkvæmd verkefna á sviði fiskimála í samstarfi við stjórnvöld og aðra samstarfsaðila.

Alþjóðabankinn tekur ákvörðun um ráðningu, en ráðið verður til tveggja ára, frá og með 1. september 2017, með möguleika á framlengingu. Sérfræðingurinn verður starfsmaður Alþjóðabankans og um launakjör fer samkvæmt reglum stofnunarinnar.

Umsóknafrestur er til og með 2. apríl 2017. Umsókn og ferilskrá á ensku skal senda utanríkisráðuneytinu í tölvupósti á netfangið wbg@mfa.is. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.

Nánari upplýsingar um starfið og hæfniskröfur er að finna á vefsíðu utanríkisráðuneytisins og  hjá Þórarinnu Söebech í síma 545 7422 eða á netfanginu mimi@mfa.is


Africa has worst hunger crisis in 70 years amid budget cuts/ WashingtonPost
-
Local aid agencies: still waiting for a bigger share of the funding cake/ IRIN
-
Humanitarian crisis In Yemen is worst in the world - Oxfam report
Humanitarian crisis In Yemen is worst in the world - Oxfam report
-
Half of all health facilities in war-torn Yemen now closed; medicines urgently needed - UN
-
Patel to defend aid budget as famine crisis spreads/ TheGuardian
-
Cape Town only has about 100 days of water left/ Qz
-
MPs criticise cuts to aid projects based on negative media coverage/ TheGuardian
-
African tech start-ups pitch poverty solutions/ SciDev
-
South Sudan attack 'could delay aid deliveries'/ BBC
-
"Regeringen fokuserar alltid på resultat"/ DN

Seven dead in worst attack on aid workers since South Sudan war began/ TheGuardian
-
Malawi should invest in community based protection systems to stop attacks on people with albinism - UN/ OHCHR
-
Why there's no need to panic on UN peacekeeping cuts/ IRIN
-
Denmark gave far less development aid than promised/ CPHPost
-
Finnskt smáforrit visar veginn til sjálfbærni/ UNRIC
-
Drougth and War Heighten Threat of Not Just 1 Famine, but 4/ NYT
-
Cholera: how African countries are failing to do even the basics/ TheConversation
-
UN appalled at killing of aid workers in South Sudan/ SÞ
-
Africa: Worst humanitarian crisis hits as Trump slashes foreign aid/ AP
-
Brexit as an opportunity for Africa?/ DW
-
South African Anti-Apartheid Leader Kathrada Dies/ VOA
-
East Africa's Oil Ambitions Tested by Pipeline Machinations/ Bloomberg
-
Climate change: 'human fingerprint' found on global extreme weather/ TheGuardian
-
Malawi showcase success in women's economic empowerment at UN CSW61/ NyasaTimes
-
Focus on famine in Africa and Syrian crisis -Finland channels over EUR 61 million in humanitarian aid/ Finnska ríkisstjórnin
-
Norge øker støtten til sultkatastrofene til 673 millioner kroner/ Norska ríkisstjórnin
-
Nations pledge to cut women's unpaid work and close the gender pay gap/ TheGuardian
-
Le Pen visit to Chad causes outcry/ DW
-
Meningitis outbreak in Nigeria kills 269 people/ Reuters
-
Ex-Ivory Coast first lady Simone Gbagbo acquitted of war crimes/ DW

Úttektir á þróunarsamstarfi

- eftir Davíð Bjarnason teymisstjóra árangurs og eftirlits

Í takt við hefðbundið verklag í þróunarsamvinnu eru reglulega framkvæmdar úttektir á verkefnum í þróunarsamstarfi Íslands. Þær eru mikilvægar til að meta hvort og hvernig aðstoð skilaði sér til framfara, t.d. í menntun, vatnsöflun, heilbrigðisþjónustu, hreinni orku og bættri nýtingu  fiskafla. Vel unnar úttektir veita einnig mikilvæga leiðsögn um hvernig bæta megi áherslur og framkvæmd í þróunarsamvinnu.

Eftir sameiningu Þróunarsamvinnustofnunar við þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins (ÞSS), hefur verið unnið að því að sameina og samþætta verklag við úttektir, og innan ÞSS starfar teymi sem sérstaklega sinnir úttektum. Úttektamál voru eðlilega eitt af þeim málum sem rýnihópur DAC lagði áherslu á í rýni sinni á íslenskri þróunarsamvinnu og í takt við það hefur nú verið sett saman stefna ÞSS í úttektarmálum.

Segja má að markmið úttekta séu þríþætt: að sýna fram á árangur, að standa skil á framkvæmd verkefna og fjármunum sem í þau er varið gagnvart skattgreiðendum og öðrum hlutaðeigandi, og að draga lærdóm til framtíðar, bæði hvað varðar innleiðingu verkefna en einnig með tilliti til stefnumótunar í málaflokknum. Úttektir eru þannig tæki sem við höfum til að safna gögnum og þekkingu um hvernig við náum sem bestum árangri í starfi okkar. Sú gagnrýni heyrist reyndar nokkuð oft að stofnunum gangi illa að draga lærdóm af úttektum og ráðleggingar þeirra skili sér ekki sem skyldi inn í starf og stefnumótun. Því er það mikilvægt hlutverk úttektateyma að fylgja eftir ráðleggingum og vinna náið með þeim er sjá um framkvæmd og tryggja þannig að þessi vinna skili sér í starfið.

Almenna reglan er sú að úttektir eru framkvæmdar af óháðum utanaðkomandi ráðgjöfum, sem valdir eru til verksins í samkeppnisferli. Slík nálgun skilar okkur óháðum niðurstöðum og njóta þannig trausts allra hlutaðeigandi. Áhersla er lögð á að fá reynda úttektarsérfræðinga til starfa, enda skilar slík áhersla sér í gæðum úttekta og auknum ávinningi og þekkingu sem af þeim hlýst fyrir íslenskt þróunarsamstarf.

Úttekt á skólum Háskóla Sameinuðu þjóðanna
Á árinu 2017 eru fjölmargar úttektir á dagskrá hjá ÞSS sem spanna ólík svið þróunarsamstarfsins. Fyrst má þar nefna fyrstu óháðu úttektina á skólum Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Hér er um að ræða víðtækt úttektarverkefni sem framkvæmt er af sænska ráðgjafafyrirtækinu NIRAS-Indevelop, sem mikla reynslu hefur af úttektum á mennta- og þjálfunarverkefnum í þróunarsamvinnu. Úttektinni er ætlað að skoða þann árangur sem náðst hefur í tengslum við starf skólanna fjögurra, og hvernig menntun sérfræðinga á viðkomandi sviðum hefur skilað sér í framförum og breytingum í viðkomandi málaflokkum í löndunum. Nokkur lönd verða skoðuð sérstaklega og tekin verða ítarleg viðtöl við fyrrum nemendur í Kenía, Úganda, Malaví, Gana, Eþíópíu, Víetnam og El Salvador. Í síðastliðinni viku hélt ráðgjafateymið einnig vinnufund með fulltrúum allra skólanna og starfsfólki UTN um árangursstjórnun í þróunarsamstarfi, en mikilvægur liður í úttektarvinnunni er að þróa sameiginlegan árangursramma fyrir starfsemina til næstu ára. Starf skóla HSÞ á Íslandi er mikilvægur og stór liður í þróunarsamstarfi Íslands, og því er beðið með eftirvæntingu eftir niðurstöðum úttektarinnar.

Aðrar úttektir á árinu
Nú nýlega hófst einnig lokaúttekt á Fiskgæðaverkefni í Úganda, en það verkefni var framkvæmt á árunum 2009-2016 í samstarfi við stjórnvöld í Úganda. Úttektin mun skoða árangur verkefnisins í fiskisamfélögum í Úganda, m.a. með tilliti til þess að hvaða marki verkefnið náði þeim markmiðum að auka gæði og verðmæti afla og bæta lífsgæði íbúa í fiskiþorpum.

Á næstu vikum fer einnig af stað úttekt á árangri við innleiðingu jafnréttisstefnu í þróunarsamvinnu 2013-2016. Jafnréttismál eru áherslumál í þróunarsamvinnu Íslands, bæði sem þverlægt málefni en einnig sem sértækt markmið. Hér er um að ræða fyrstu þverlægu úttektina sem framkvæmd er í tengslum við þróunarsamstarf Íslands, og mun verða skoðað upp að hvaða marki áherslur um jafnrétti kynjanna hafa skilað sér í tvíhliða og marghliða þróunarsamstarfi. Margar erlendar úttektir hafa á síðustu árum leitt í ljós að samþætting jafnréttismála hefur ekki skilað sér sem skyldi í þróunarsamstarfi. Mikilvægur þáttur í þessari úttekt er því einnig að skilgreina leiðir til úrbóta og benda á mögulegar sértækar aðgerðir í  jafnréttismálum innan þess þróunarsamstarfs sem Ísland er aðili að. Við lok úttektarinnar mun ráðgjafinn halda námskeið fyrir starfsfólk ÞSS og samstarfsaðila í þróunarsamvinnu um samþættingu jafnréttismála í þróunarsamvinnu með tilvísun í niðurstöður og ráðleggingar úttektarinnar.

Aðrar úttektir sem einnig er vert að nefna hér eru annars vegar úttekt á samstarfi við borgarasamtök, en þar verður litið til verkefna sem Hjálparstarf kirkjunnar og Rauði Kross Íslands hafa staðið að fyrir íslenskt þróunarfé. Í þeirri úttekt verður sjónum einnig beint að því hvaða virðisauki felst í samstarfi við félagasamtök í þróunarsamstarfi og hvernig megi gera slíkt samstarf enn skilvirkara. Hins vegar er á dagskrá síðar á árinu úttekt á héraðssamstarfi í Malaví 2012-2017 sem og í Kalangala héraði í Úganda frá 2005 til 2016.

Úttektarskýrslur eru birtar á vef þróunarsamvinnuskrifstofu.
facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105