Heimsljós
veftímarit um þróunar- og mannúðarmál
10. árg. 336. tbl.
20. september 2017
Útskrift frá Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna:
Nemendafjöldi skólans kominn yfir eitt hundrað á tíu árum
Útskriftarhópurinn ásamt starfsfólki skólans.

Fjórtán nemar útskrifuðust frá Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku eftir sex mánaða nám á Íslandi. Heildarfjöldi nemenda skólans frá upphafi er nú kominn yfir eitt hundrað en skólinn hóf starfsemi árið 2007. Að þessu sinni útskrifuðust nemendur frá átta þjóðríkjum, flestir frá Gana og Mongólíu, þrír frá hvoru landi, tveir frá bæði Úganda og Lesótó, og einn frá Malaví, Eþíópíu, Níger og Úsbekistan, alls tíu karlar og fjórar konur.

Markmið Landgræðsluskólans er að byggja upp færni sérfræðinga frá þróunarlöndum í landgræðslu og sjálfbærri landnýtingu. Þetta er gert með því að þjálfa sérfræðinga sem starfa við landgræðslu- og landnýtingarmál í samstarfslöndum Landgræðsluskólans í Afríku og Mið-Asíu. Allir nemendurnir hafa háskólagráðu sem tengist viðfangsefnum skólans og starfa við stofnanir í heimalandi sínu.

Hafdís Hanna Ægisdóttir forstöðumaður Landgræðsluskólans kvaddi nemendur með ávarpi en einnig tóku til máls við útskriftina Sturla Sigurjónsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, Árni Bragason formaður stjórnar Landgræðsluskólans og landgræðslustjóri, og Björn Þorsteinsson rektor Landbúnaðarháskólans, sem flutti lokaorð. Fyrir hönd nemenda fluttu ávörp þau Badam Ariya frá Mongólíu og Emmanuel Lignule frá Gana.

Heimsmarkmiðin og Parísarsamningurinn
Sturla Sigurjónsson ráðuneytisstjóri sagði meðal annars í ávarpi sínu að nemarnir hefðu á síðustu sex mánuðum fengið tækifæri til að læra af kennurum sínum og samnemendum, en einnig hefðu þeir komið til Íslands með þekkingu og reynslu sem þeir hefðu deilt með öðrum. Hann sagði að útskriftarnemarnir fjórtán væru nú orðnir hluti af miklu stærra tengslaneti fræðimanna, stefnumótandi aðila og sérfræðinga. "Þið deilið öll sameiginlegri sýn og markmiði: að stýra landnýtingu á sjálfbæran hátt þannig að auðlindin nýtist komandi kynslóðum fremur en til skamms tíma; að endurheimta svæði sem áður voru horfin og ónothæf; að breyta viðhorfum til náttúrunnar og hvernig hún samtvinnast inn í öll samfélög," sagði Sturla.

Hann minnti á Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og Parísarsamninginn um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, sem hann sagði viðurkenningu alþjóðasamfélagsins á mikilvægi sjálfbærrar þróunar og baráttunnar gegn lofslagsbreytingum. Samfélög þjóða stæðu sameinuð að þessum sáttmálum og hefðu sett fram forgangsröðun til að starfa eftir. "Á vegferð okkar til að útrýma hungri og fátækt og viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika munum við standa frammi fyrir þeim sem véfengja málstað okkar, efast um þátt mannsins í breytingum á vistkerfum og afneita sameiginlegri ábyrgð okkar til að takast á við þessar áskoranir," sagði Sturla.

Rannsóknarverkefni
Í byrjun mánaðarins stóðu nemendurnir fjórtán fyrir
kynningu á lokaverkefnum sínum í skólanum, rannsóknarverkefnum sem þeir hafa unnið að síðustu mánuði undir leiðsögn fræðimanna frá fjölmörgum stofnunum og háskólum, m.a. Landbúnaðarháskóla Íslands, Landgræðslu ríkisins, Háskóla Íslands, Listaháskólanum og umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, auk tveggja verkfræðistofa, EFLA og Verkís. 

Í meðfylgjandi myndböndum má sjá tvo af nemendum skólans, þau Zalfa Businge frá Úganda og Emmanuel Mwathunga frá Malaví lýsa lokaverkefnum sínum.

Landgræðsluskólinn er samstarfsverkefni utanríkisráðuneytisins, Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslu ríkisins. Skólinn er hluti af framlagi Íslands til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu og einn fjögurra háskóla Sameinuðu þjóðanna sem starfa hér á landi.

Því er við að bæta að tveir nemendur fluttu frumsamið lag við útskriftina: Beatrice Dossah frá Gana og Emmanuel Mwathunga frá Malaví. Lagið og textinn er eftir Beatrice en það var  hluti af hennar verkefnavinnu við Landgræðsluskólann. 

Mannúðaraðstoð við íbúa eyja á Karíbahafi:
Tíu milljónir til neyðarsjóðs SÞ vegna afIeiðinga fellibylsins Irmu
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra veitti á dögunum rúmum 10 milljónum króna til neyðarsjóðs Sameinuðu þjóðanna (Central Emergency Response Fund, CERF) vegna skelfilegra afleiðinga fellibylsins Irmu sem gekk yfir eyjar Karíbahafsins fyrr í mánuðinum. Alþjóðlegar mannúðarstofnanir eins og Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) gera ráð fyrir að sækja fjármagn til CERF til þess að veita nauðsynlega mannúðaraðstoð til þeirra svæða sem verst urðu úti í fellibylnum. 

Tilgangur Neyðarsjóðs SÞ er að tryggja að neyðar- og mannúðaraðstoð berist fórnarlömbum náttúruhamfara og átaka tímanlega og á sem skilvirkastan hátt. Sjóðurinn fjármagnar skyndiviðbrögð, neyðaraðstoð og viðbrögð við hamförum af völdum stríðs eða náttúruhamfara.

Af dæmum um undirfjármagnaða neyð sem sjóðurinn hefur stutt síðustu vikurnar má nefna 45 milljónir Bandaríkjadala framlag til fjögurra mannúðarverkefna í Afganistan, Mið-Afríkulýðveldinu, Tjad og Súdan sem gert er ráð fyrir að veiti lífsbjargandi aðstoð til rúmlega 20 milljóna manna. Þá ákvað CERF nýlega að veita 7 milljónir Bandaríkjadala til aðstoðar við þær þúsundir manna sem nú flýja ofbeldið í Mjanmar.
Svört skýrsla Matvælaáætlunar SÞ um vaxandi hungur í heiminum

Í rúmlega tíu ár hefur hungruðum í heiminum fækkað með ári hverju. Nú fjölgar þeim á ný. Samkvæmt nýrri skýrslu Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) voru 815 milljónir manna undir hungurmörkum á síðasta ári, 38 milljónum fleiri en árið áður. 

Skýringar er fyrst og fremst að finna í auknum stríðsátökum og afleiðingum hamfara vegna loftslagsbreytinga.

Skýrsla WFP - The State of Food Security and Nutrition in the World 2017 - kom út í síðustu viku, sú fyrsta sem gefin er út eftir að Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna voru samþykkt með til dæmis markmiðunum að útrýma fátækt og hungri fyrir árið 2030.

Fram kemur í skýrslunni að 155 milljónir barna búa við vaxtarskerðingu og 52 milljónir barna eru of létt miðað við hæð. Þá er talið að um 41 milljón barna séu í yfirþyngd.
Rýnt í skoðanakannanir:
Meiri þekking á Heimsmarkmiðunum en Þúsaldarmarkmiðunum
Samkvæmt samantekt DevCom samtakanna á skoðanakönnunum víðs vegar um heiminn er almenn vitneskja um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna meiri en var á sínum tíma þegar Þúsaldarmarkmiðin voru í gildi. Viðhorfs- og þekkingarkannanir sem gerðar hafa verið um Heimsmarkmiðin sýna að milli 28 og 45 prósent aðspurðra hafa heyrt Heimsmarkmiðin nefnd.

Í samantektinni segir að vitneskja um Heimsmarkmiðin þurfi ekki endilega að merkja þekkingu á markmiðunum sjálfum. Könnun Glocalities (2016) sem náði til 24 þjóðríkja hafi til dæmis leitt í ljós að aðeins einn af hverjum hundrað hafi þekkt "mjög vel" til Heimsmarkmiðanna og 25% hafi viðurkennt að þekkja aðeins hugtakið. Samkvæmt síðustu mælingu "Eurobarometer" fyrr á þessu ári þekkir aðeins einn af hverjum tíu Evrópubúum til Heimsmarkmiðanna.

Munurinn milli landa er mjög mikill. Samkvæmt könnun Hudson & vanHeerde-Hudson (2016) kváðust 2 af hverjum 10 í Þýskalandi og Frakklandi EKKI þekkja til Heimsmarkmiðanna en 4 af hverjum 10 í Bretlandi og Bandaríkjunum. DevCom segir að tölur sem þessar verði að taka með miklum fyrirvara, ætla megi að margir ofmeti í slíkum könnunum eigin þekkingu á Heimsmarkmiðunum.

Í könnun sem IPSOS gerði árið 2015 og náði til 16 landa kom í ljós að fólk taldi öll sautján Heimsmarkmiðin mikilvæg og stuðningur við þau öll var mikill meðal allra þjóðanna. Þegar spurt var um mikilvægustu markmiðin kom á daginn að fólk setti markmiðin um útrýmingu fátæktar, útrýmingu hungurs og hreint vatn/ salernisaðstöðu á oddinn.

IPSOS spurði líka um það hver ætti að fjármagna Heimsmarkmiðin. Tæplega fjórir af hverjum tíu töldu það vera í verkahring allra ríkisstjórna en aðeins 5% töldu að einkageirinn ætti að greiða fyrir markmiðin.

DevCom segir í samantektinni: "Heimsmarkmiðin eru oft kölluð markmið fólksins. Ríkisstofnanir sem styðja Heimsmarkmiðin þurfa að fá borgarana til liðs við sig, hlusta á þá og hvetja þá til aðgerða."

DevCom (Development Communication Network) eru samtök á vegum OECD.
Konur á flótta:
Femínismi og stefnumótun í málefnum flóttamanna

Hrefna Ragnhildur Jóhannesdóttir fjallar í nýlegri lokaritgerð sinni til BA-gráðu í stjórnmálafræði um stöðu kvenna á flótta og ýmis vandamál sem þær standa frammi fyrir, svo sem kynbundna mismunun og kynferðislegt ofbeldi sem eykst á tímum flótta og átaka. Hún segir að ýmislegt hafi verið reynt til að bæta stöðu kvenkyns flóttamanna og stofnanir á borð við Sameinuðu þjóðirnar hafi viðurkennt að breytinga sé þörf en heimur utanríkis- og öryggismála hafi ætíð verið karllægur.

"Hugsanleg lausn á þessum vanda er femínísk utanríkisstefna, með slíkri stefnu er áhersla lögð á að binda enda á kynbundið ofbeldi og að auka þátttöku kvenna í utanríkismálum en stefnan er umdeild. Íslenska ríkið hefur byggt móttöku kvótaflóttamanna á jafnréttissjónarmiðum og talað fyrir jafnrétti á alþjóðasviðinu en ekki gengið eins langt í þessum málaflokki og til dæmis sænska ríkisstjórnin sem hefur yfirlýsta femíníska stefnu. Markmið beggja ríkja er það sama en stigsmunur er á nálgun þeirra," skrifar Hrefna í útdrætti ritgerðarinnar.

Hrefna segir að íslenska ríkið hafi lagt áherslu á að aðstoða konur og viðkvæmari hópa kvótaflóttamanna þó ekki sé að finna neina heildræna femíníska stefnu í málefnum flóttamanna á Íslandi. Hún nefnir að erfitt sé til dæmis að nálgast upplýsingar um slíkar áherslur í málefnum hælisleitenda hér á landi.

Verkin látin tala
"Ísland hefur lagt áherslu á málefni kvenna og jafnrétti í sinni utanríkisstefnu, tekið á móti flóttamönnum með jafnréttissjónarmið í huga, reynt að efla einstæðar mæður og bjóða hinsegin flóttamönnum öruggara líf þó án þess að vera með heildræna eða yfirlýsta femíníska stefnu. Það má velta því fyrir sér hvort það sé kannski bara betra að láta verkin tala heldur en að tala endilega um femínisma og femíníska stefnu. Það er í það minnsta tilfinningin sem maður fær þegar þessi mál eru rædd á sviði íslenskra stjórnvalda. Það virðast allir sammála um mikilvægi jafnréttis og kvenfrelsis en enginn hefur sérstaka þörf fyrir að hafa um það mörg orð eða ögra hefðbundnum og "viðurkenndum" aðferðum."

Ritgerðina í heild má nálgast hér.

Lýðræði hindrar átök og stuðlar að friði

Lýðræði á undir högg að sækja víða um heim. Mannréttindi, málfrelsi, umburðarlyndi og jafnrétti eru dregin í efa og þar með grafið undan friði og stöðugleika.

Þema  Alþjóðadags lýðræðis, sem haldinn var í síðustru viku á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eru forvarnir gegn átökum og nauðsyn þess að efla lýðræði  til þess að efla frið og stöðugleika. "Á alþjóðalýðræðisdaginn er ástæða til að gaumgæfa stöðu lýðræðis í heiminum í dag," sagði í frétt UNRIC.

Þar segir ennfremur að lýðræði sé jafnt ferli sem markmið og það verði trauðla að veruleika alls staðar og í þágu allra án stuðnings alþjóðasamfélagsins, innlendra stofnana á hverjum stað, borgaralegs samfélags og einstaklinga. António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna bendir á að á þesum degi sé ástæða til að ítreka stuðning við heim þar sem friður, réttlæti, virðing, mannréttindi, umburðarlyndi og samstaða ráði ríkjum.  

 "Gjá á milli fólks er djúp og fer vaxandi  og sama gildir um gjána á milli fólksins og pólitískra stofnana, sem eiga að vera fulltrúar þeirra. Ótti býr í of miklum mæli að baki ákvörðunum. Þetta er ógn við lýðræðið,"  segir Guterres.  
Yfirlýsing frá UNICEF á Íslandi:
Mikilvægi úrbóta á útlendingalögum til að tryggja mannréttindi barna

UNICEF á Íslandi hvetur Alþingi til að sameinast um breytingar á útlendingalögum fyrir kosningar, til að tryggja réttindi allra barna sem leita hingað eftir alþjóðlegri vernd. "Nauðsynlegt er að ráðast í tafarlausar úrbætur á yfirstandandi þingi og tryggja að þeim ákvæðum laganna er varðar réttindi og hagsmuni barna sé framfylgt með fullnægjandi hætti," segir í yfirlýsingunni.

Þar segir ennfremur: "Eitt af yfirlýstum markmiðum nýrra útlendingalaga (nr. 80/2016), sem unnin voru af þverpólitískri nefnd þingmanna og tóku gildi 1. janúar 2017, var að uppfylla með skýrari hætti mannréttindi barna sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi og samræma löggjöf alþjóðlegum skuldbindingum, m.a. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem lögfestur var hér á landi 2013. Síðustu mánuði hefur hins vegar komið í ljós að talsverðir annmarkar eru á framfylgd laganna og nauðsynlegt er að skýra betur inntak þeirra með tilliti til mannréttinda og hagsmuna barna sem sótt hafa um alþjóðlega vernd á Íslandi.

Mál tveggja ungra stúlkna sem synjað hefur verið um vernd og vísa á úr landi hafa hlotið mikla umfjöllun í fjölmiðlum síðustu mánuði. Þó svo að sérstaklega hafi verið rætt opinberlega um mál einstaka barna má ekki gleymast að fleiri börn hér á landi eru í sömu sporum. Tryggja þarf að öll börn njóti mannúðar og mannréttinda.
  • Að mati UNICEF á Íslandi er brýnt að ráðast í eftirfarandi aðgerðir:
  • Gera breytingar á útlendingalögum til að skýra betur réttindi og hagsmuni barna
  • Setja á laggirnar þverpólitíska nefnd til að fylgjast með og bæta framfylgd útlendingalaga
  • Auka stuðning við stofnanir sem koma að framfylgd laganna
Yfirlýsing þessi helst í hendur við alþjóðlegt ákall UNICEF þar sem kallað er eftir aðgerðum til að tryggja öryggi allra barna á flótta og á vergangi.
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hófst í gær

Flestir þjóðarleiðtogar heims er komnir til New York á árlegan fund allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sem hófst í gær. Allsherjarþingið er vettvangur þjóðarleiðtoga til þess að ræða brýnustu málefni samtímans, þingið hefst jafnan þriðja þriðjudag í september og stendur fram í desember.

Þetta er 72. Allsherjarþing SÞ en margir sækja nú þingið í fyrsta sinn, þar á meðal Antonio Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og Donald Trump forseti Bandaríkjanna. Íbúar jarðarinnar eru í brennidepli á allsherjarþinginu eins og sjá má á einkunnarorðunum: 'Focusing on People - Striving for Peace and a Decent Life for All on a Sustainable Planet.

Fyrir fundinn töldu fréttaskýrendur að mesta eftirvæntingin væri bundin við ávarp Bandaríkjaforseta eins og fram kemur í meðfylgjandi fréttaskýringu á myndbandinu. Í ræðunni endurtók Trump það sem hann hafði áður sagt að skrifræði væri of mikið innan Sameinuðu þjóðanna og samtökin hefðu liðið fyrir skrifræði og slælega stjórnun.


Konur í heiminum hafa aldrei átt færri börn að meðaltali


Á heimsvísu fæðir hver kona í dag því sem næst helmingi færri börn en fyrir hálfri öld. Fyrir fimmtíu árum áttu konur að jafnaði 4,5 börn en í dag eiga konur 2,1 barn að meðaltali. Engu að síður fjölgar mannkyninu, fyrst og fremst vegna hárrar fæðingartíðni í mörgum Afríkuríkjum. Önnur skýring er vitskuld sú að með auknum mannfjölda í heiminum eru konur á barneignaaldri fleiri en nokkru sinni og þær eignast börn sem lifa lengur en áður. Karitte Lind Bejer skrifar um þessi mál í pistli á vef Kristilega dagblaðsins í Danmörku.

Áhugavert
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-

Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík fær viðurkenningu PRME
PRME, samráðsvettvangur háskóla sem var stofnaður af Sameinuðu þjóðunum, hefur veitt viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík viðurkenningu fyrir framúrskarandi framgangsskýrslu. Í skýrslunni sýnir deildin fram á árangur sinn í að ná þeim sex markmiðum sem sett eru fram af samtökunum PRME (Principles for Responsible Management Education) og tengjast Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Fram kemur á vef HR að með því að skrifa undir viljayfirlýsingu PRME hafi viðskiptadeild HR skuldbundið sig til að leggja áherslu á kennslu í samfélagsábyrgð og ábyrgri stjórnun og hvetja til þess að atvinnulífið stundi ábyrga viðskiptahætti.


EU röstar ja till att pengar går från bistånd till det militära/ OmVärlden
-
Children Flee, Fight Amid Congo's Growing Kasai Violence/ VOA
-
Presidents of Malawi, Uganda and Zambia call for accelerated action to end child marriage in Africa/ UNWomen
-
Exclusive: Abu Dhabi to launch campaign to reach 'last mile' on preventable disease/ Devex
-
UN and partners launch initiative to reach equal pay for women at work/ UNNewsCentre
-
UNHCR warns CAR displacement at record high, funding among lowest anywhere/ UNHCR
-
De forbudte fødselshjelperne/ Bistandsaktuelt
-
How to achieve Universal Health Coverage? Focus on primary care/ Devex
-
-
-
-
UN report slams Israel for hindering development/ PressTVNews

-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-

-
-
-
-
-
-
-
-

Ný stefna UNICEF til næstu fjögurra ára samþykkt á stjórnarfundi

Á stjórnarfundi Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) í síðustu viku í New York var samþykkt ný stefna UNICEF fyrir 2018-2021. Að sögn Hildigunnar Engilbertsdóttur sem sat fundinn fyrir hönd utanríkisráðuneytisins mun starfsfólk UNICEF nú undirbúa innleiðingu og framkvæmd stefnunnar. "Þótt nýja stefnan boði einhverjar breytingar á starfsskipulagi hjá UNICEF, þá hafa áherslur stofnunarinnar ekki breyst mikið milli ára. Áfram er lögð áhersla á að ná til þeirra barna sem búa við lökustu kjörin. Mannréttindi eru enn höfð að leiðarljósi og kynjajafnrétti og jafnræði eru samþætt öllum markmiðum stefnunnar," segir Hildigunnur.

Stjórnin samþykkti einnig samþætta fjárhagsáætlun UNICEF fyrir 2018-2021. Í skýrslu UNICEF sem fjallar um fjármögnun stefnunnar kemur fram að stefnt er að 21% tekjuvexti á tímabilinu til þess að stofnunin geti framkvæmt stefnuna. Í því skyni mun UNICEF leita allra leiða til að stækka þann hóp sem veitir framlög til UNICEF, þá sérstaklega einkageirann og einstaklinga sem veita framlög til landsnefnda UNICEF. Þess ber að geta að íslenska UNICEF landsnefndin safnaði hlutfallslega hæsta framlagi allra landsnefnda árið 2016.

Íslensk stjórnvöld styðja við ýmis verkefni UNICEF, svo sem verkefni í Sambesíufylki í Mósambík þar sem UNICEF byggir upp vatns-, hreinlætis- og salernisaðstöðu fyrir íbúa í sex héruðum. Einnig má nefna að íslensk stjórnvöld hafa um árabil stutt við verkefni UNICEF í Palestínu, en stjórn UNICEF samþykkti á áðurnefndum stjórnarfundi svæðaáætlun fyrir Palestínu og palestínsk börn og konur í nærliggjandi löndum.

Íslensk stjórnvöld veittu sömuleiðis kjarnaframlag til UNICEF að upphæð 123 miljónir króna árið 2017, en slík framlög gera stofnunum kleift að veita fé til þeirra svæða sem mest þurfa á aðstoð að halda og veita svigrúm þegar bregðast þarf skjótt við. Á síðasta ári notaði UNICEF kjarnaframlög til að m.a. meðhöndla 200 þúsund börn í Afganistan sem þjáðust af bráðri vannæringu og bólusetja meira en eina milljón barna undir eins árs aldri í Úganda.

Áhugasamir geta skoðað gögn um úthlutun UNICEF á kjarnaframlögum á svokallaðri gagnsæisgátt.
Mafalala - litríkt hverfi í Mapútó með mikla sögu

Ivan er ungur leiðsögumaður samtakanna IVERCA sem skipuleggur ferðir um Mafalala í Mapútó, einn elsta óskipulagða bæjarhlutann í höfuðborginni. Samtökin styðja einnig fjárhagslega aðgerðir til að varðveita sögulegar- og menningarlegar minjar í hverfinu. Mafalala er höfuðborg Mapútó, segir Ivan í upphafi ferðar, og vísar til þess að hér hafi draumurinn um sjálfstæði fæðst, hér hafi andspyrnan gegn nýlenduherrunum frá Portúgal verið litrík og kröftug, hér hafi verið vagga mósambískrar menningar, skáld og listamenn á hverju götuhorni, og hér hafi meðal annarra stórmenna fæðst knattspyrnusnillingurinn Eusébio de Silva Ferreira - svarti pardusinn.

Líkt og í öðrum óskipulögðum hverfum blökkumanna í Mapútó á nýlendutímanum máttu íbúarnir ekki byggja hús sín með múrsteinum eða úr öðru varanlegu efni; aðeins með bárujárni og timbri - og Mafalala með sína tuttugu þúsund íbúa ber þess enn merki að þetta er hverfi fátækra þar sem grunnþjónusta er takmörkuð, innviðir óburðugir og atvinnuleysi mikið. En á móti kemur að hér á þjóðarstoltið lögheimili, hér er menningar- og stjórnmálasaga við hvert fótmál, við heimsækjum fæðingarstað skáldkonunnar Noémia de Sousa og heyrum frásagnir af því hvernig Mafalala varð þungamiðja í uppreisn svarta fólksins gegn hvítu nýlenduherrunum í höfuðborginni sem þá hét Lourenço Marques. Hér í Mafalala fæddust tveir fyrstu forsetar þessa nýfrjálsa ríkis, þeir Samora Machel og Joaquim Chissano, hetjur í augum þjóðar sinnar fyrir þátt þeirra í baráttunni fyrir sjálfstæði landsins sem varð að veruleika í september 1975.

Hér í þessu litríka hverfi Mafalala er líka að finna listform sem tvinnar saman tónlist- og dans og kallast Marrabenta; þetta er blanda af þjóðlegum mósambískum töktum, portúgalskri þjóðlagatónlist og vinsælli vestrænni tónlist. Þetta er listform sem þykir lýsa vel þeirri fjölmenningu sem einkennt hefur hverfið frá upphafi og tekið fagnandi fólki með ólíkan bakgrunn.  

Komið með í skoðunarferð um Mafalala - horfið á kvikmyndabrotið með því að smella á myndina.
Næstu ár í þróunarsamvinnu Íslands

Hér fer á eftir kafli úr skýrslunni "Utanríkisþjónusta til framtíðar" þar sem sjónum er beint að þeim tækifærum og áskorunum sem utanríkisþjónustan stendur frammi fyrir á næstu árum og gerðar tillögur um hvernig laga megi starfsemi utanríkisþjónustunnar að verkefnum framtíðarinnar. 

Í jafningjarýni DAC á þróunarsamvinnu Íslands kemur fram að íslensk stjórnvöld hafi náð miklum árangri í rekstri verkefna í samstarfi við atvinnulífið, sér í lagi á sviði nýtingar jarðvarma, og að færa megi þá nálgun á önnur svið þróunarsamvinnu. 
"Næstu ár í þróunarsamvinnu Íslands Ísland hefur ásamt öðrum ríkjum tekið á sig skuldbindingar um að bregðast við þeim miklu áskorunum sem l úta að lofslagsbreytingum, fæðuóöryggi, ófriði, vannæringu, ójöfnuði, flóttamannavanda o.fl. með því að vinna að heimsmarkmiðum SÞ um sjálfbæra þróun bæði innanlands og í alþjóðasamstarfi til ársins 2030.

Heimsmarkmiðin og sjálfbærniáhersla þeirra eru undirstaða þróunarsamvinnunnar og hornsteinn í íslenskri utanríkisstefnu. Það felast tækifæri í því fyrir utanríkisþjónustuna að vinna að heimsmarkmiðunum og leggja þannig íslensk lóð á vogarskálar baráttunnar gegn fátækt og fyrir bættum lífskjörum í fátækustu hlutum heims. Með virkri þátttöku á þessu sviði uppfyllir Ísland pólitískar og siðferðislegar skyldur sínar sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóðanna og mun mögulega verða öðrum þjóðum fyrirmynd hvað varðar árangursríka þróunarsamvinnu og vandað verklag. Fyrirhugað er að utanríkisráðherra leggi fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2018-2022, byggða á heimsmarkmiðum SÞ, ásamt aðgerðaráætlun 2018-2019 þar sem framkvæmd stefnunnar verður útlistuð. Lögð er áhersla á að stefnan og framkvæmdin verði betur samþætt heildstæðri utanríkisstefnu Íslands og samningsgerð við framkvæmdaraðila falli innan gildistíma stefnunnar á hverjum tíma til þess að stuðla að hagvexti í þróunarríkjum.

Heimsmarkmiðin munu ekki nást fyrir 2030 nema með aukinni aðkomu einkageirans enda byggjast efnahagslegar framfarir fyrst og fremst á verðmæta- og atvinnusköpun atvinnulífsins. Það felast mikil tækifæri í að koma íslenskri sérþekkingu á framfæri og fyrir íslenskt atvinnulíf að leggja sitt af mörkum.

Ein af meginniðurstöðum jafningjarýni DAC er sú að þrátt fyrir að Ísland sé lítið framlagaríki í samanburði við önnur lönd hafi okkur tekist að forgangsraða og nýta styrkleika okkar á sviðum þar sem við búum yfir íslenskri sérþekkingu á skilvirkan hátt. Með því að leggja áherslu á þessi svið í þróunarsamvinnu Íslands felast tækifæri fyrir íslenskar stofnanir og fyrirtæki til að leggja sitt af mörkum til málaflokksins og taka þátt í verkefnum alþjóðasamfélagsins.

Íslensk sérþekking og reynsla nýtist fátækum þjóðum
Í starfinu fram undan verður lögð áhersla á að virkja atvinnulífið betur til þátttöku í þróunarstarfi í samræmi við ákall alþjóðasamfélagsins, hvetja til fjárfestinga og viðskipta, og tefla fram íslenskri þekkingu í hin stóru verkefni alþjóðastofnana og á vettvangi skóla Háskóla SÞ. Mikilvægt er að aukin áhersla verði lögð á atvinnulífið í framkvæmd nýrrar þróunarsamvinnustefnu næstu árin og að búið verði svo um hnútana að íslensk sérþekking og reynsla, t.d. hvað varðar nýtingu á jarðvarma og sjálfbærum sjávarútvegi, geti nýst í þágu fátækra þjóða. Í því samhengi er mikilvægt að utanríkisþjónustan efli samstarf sitt við atvinnulífið og skilvirk upplýsingamiðlun til hagsmunaaðila innanlands er lykilatriði í því samhengi. Þessi markmið eru staðfest í nýlegri jafningjarýni DAC á þróunarsamvinnu Íslands þar sem fram kemur að íslensk stjórnvöld hafi náð miklum árangri í rekstri verkefna í samstarfi við atvinnulífið, sér í lagi á sviði nýtingar jarðvarma, og að færa megi þá nálgun á önnur svið þróunarsamvinnu. Því er lögð áhersla að sett verði á fót deild innan þróunarsamvinnuskrifstofu sem sinnir þessum verkefnum í samvinnu við viðskiptaskrifstofu og Íslandsstofu.

Í dag sinna sendiráð Íslands í Afríku nær eingöngu verkefnum á sviði þróunarsamvinnu. Til þess að koma til móts við fyrrgreindar áherslur um að efla enn frekar samskipti við ríki í álfunni er mikilvægt að útvíkka starfsemi þeirra þannig að þau sinni fleiri sviðum, t.d. viðskiptum og stjórnmálum. Jafnframt er mikilvægt að undir þau falli umdæmislönd í Afríku og að kjörræðismönnum verði fjölgað.

Það felast tækifæri í því fyrir Ísland að uppfylla fyrrgreindar skyldur sínar með því að vera ábyrgt gjafaríki sem vinnur eftir bestu starfsvenjum á sviði þróunarsamvinnu. Það að vera ábyrgt og traust gjafaríki hefur stuðlað að alþjóðlegri viðurkenningu fyrir Ísland. Þetta var staðfest í nýlegri jafningjarýni DAC þar sem Ísland er hvatt til að halda áfram á sömu braut og bæta enn frekar. Í rýninni er að finna tilmæli um að gera þróunarsamvinnu Íslands enn skilvirkari og árangursríkari. Í samræmi við alþjóðlegar áherslur í þróunarsamvinnu er talið brýnt að efla upplýsingamiðlun um málaflokkinn. Með öflugri miðlun upplýsinga eykst eignarhald og skilningur almennings á málaflokknum. Þá er talin þörf á að endurskoða lög og reglugerðu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands m.a. til þess að samræma ákvæðin um fjármál þróunarsamvinnu við lög nr. 123/215 um opinber fjármál.

Formennska í kjördæmasamstarfi Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna hjá Alþjóðabankanum
Að lokum ber að geta þess að árið 2019 mun Ísland taka við umfangsmikilli formennsku í kjördæmasamstarfi Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna hjá Alþjóðabankanum og gegna því í tvö ár. Því er lögð áhersla á að sett verði á fót tímabundin deild innan þróunarsamvinnuskrifstofu til þess að sinna þessu umfangsmikla verkefni. Að lokum er lögð áhersla á að styrkja sendiráðið í París og fastanefndina í New York með útsendum fulltrúum á sviði þróunarsamvinnu. Ísland varð aðili að DAC árið 2013 og aðildarríki DAC eru með sérstakan DAC fulltrúa í sendiráðunum í París sem sinna nefndinni. Ísland hefur sinnt DAC frá þróunarsamvinnuskrifstofu en reynslan hefur sýnt að þörf er á því að hafa sérstakan DAC-fulltrúa sem staðsettur er í París þar sem starfið á sér stað. Einnig hefur verkefnum á sviði mannúðaraðstoðar fjölgað og álagið á fastanefndina í Genf aukist og því er ástæða til að huga að fulltrúinn í París sinni einnig verkefnum í Genf. Fastanefndin í New York fer með fyrirsvar gagnvart þeim stofnunum SÞ sem eru áherslustofnanir Íslands á sviði þróunarsamvinnu og ýmsum öðrum stofnunum og nefndum á þessu sviði sem Ísland leggur áherslu á. Fram til þessa hefur þessu að mestu verið sinnt af þróunarsamvinnuskrifstofu þar sem fastanefndin hefur ekki haft nægt bolmagn til þess að sinna málaflokknum sem skyldi. Því er lagt til að styrkja fastanefndina í New York."

facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105