Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
10. árg. 318. tbl.
8. mars 2017
Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) falið að ráðstafa 40 milljónum:
Utanríkisráðherra bregst við neyðinni í Suður-Súdan og norðaustur Nígeríu

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur ákveðið að fela Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) að ráðstafa 40 milljónum íslenskra króna, annars vegar til flóttafólks frá Suður-Súdan sem flúið hefur yfir landamærin til Úganda, og hins vegar til vannærðra íbúa Borno og Yobe héraðanna í norðaustur Nígeríu þar sem hryðjuverkasamtökin Boko Haram hafa tvístrað samfélögum. Af þessum 40 milljónum verður 23 milljónum varið til stuðnings flóttafólki frá Suður-Súdan og 17 milljónir fara til norðaustur Nígeríu.

Flestir flóttamenn í Úganda
Ekkert lát er á stríðsátökunum í Suður-Súdan sem hófust árið 2013 og hafa leitt af sér flóðbylgju flóttamanna til nágrannaríkja, einkum Úganda, sem er eitt af þremur samstarfsríkjum Íslendinga í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Yfir landamærin hafa farið yfir 700 þúsund flóttamenn frá upphafi átakanna, þar af rúmlega hálf milljón frá því átökin hörðnuðu um mitt síðasta ár. Úganda er samkvæmt nýjustu tölum orðið það land í Afríku sem hefur tekið á móti flestum flóttamönnum í álfunni. Fjárskortur hamlar mannúðaraðstoð í flóttamannasamfélögunum í norðurhluta Úganda og því hefur utanríkisráðherra ákveðið að bregðast við neyðinni með sérstakri fjárveitingu til WFP í þágu flóttafólksins.

Meðal flóttamanna frá Suður-Súdan sem komnir eru til Úganda/ ICEIDA
Meðal flóttamanna frá Suður-Súdan sem komnir eru til Úganda/ ICEIDA
Hörmungar af völdum Boko Haram
Í norðurhluta Nígeríu hefur ríkt vargöld um langt skeið vegna vígasveita Boko Haram sem hafa hrakið á þriðju milljón manna á flótta. WFP telur að 4,5 milljónir manna hafi þörf fyrir matvælaaðstoð, þar af 2 milljónir íbúa í héruðunum Borno og Yobe sem lengi voru óaðgengileg hjálparstarfsfólki. Framlag Íslands til mannúðaraðstoðar í þessum heimshluta verður fyrst og fremst varið til að styðja við konur og börn í þessum héruðum þar sem hungursneyð er að óbreyttu yfirvofandi.

Uganda now home to a million refugees and asylum-seekers/ WVI
Innheimta á hóflegum vatnsgjöldum:
Fimmtán sjálfbærar vatnsveitur settar upp í Buikwe héraði
Sendiráð Íslands í Kampala og héraðsstjórnin í Buikwe hafa ákveðið að færa dreifingu á vatni í fiskiþorpum í héraðinu í nútímalegra horf með innheimtu á vatnsgjöldum. Jafnframt á að þróa rekstrarumgjörð sem getur axlað ábyrgð á fjárhagslegum og tæknilegum rekstri vatnsveitanna. Lagt er til grundvallar að vatnsgjaldi verði stillt í hóf og verði innan þeirra marka sem íbúar hafa efni á og geta sætt sig við en þó nægilega hátt til að tryggja rekstrartekjur sem þarf til að standa undir rekstrinum.

Í grein sem Árni Helgason verkefnastjóri í sendiráði Íslands í Kampala skrifar í Heimsljós segir hann að innleiðing á vatnsdreifikerfum með gjaldtöku færist í vöxt víða í þróunarríkjum og nokkur slík kerfi séu þegar til staðar í Úganda. "Það er því þegar komin nokkur reynsla á þetta rekstrarform í landinu og ekki ástæða til að ætla annað en að það verði árangursríkt í fiskiþorpunum í Buikwe héraði," skrifar hann.

Sendiráð Íslands í Kampala, héraðsstjórnin í Buikwe, Water Mission Uganda og danska fyrirtækið Grundfos munu standa sameiginlega að því að setja upp 51 AQtap vatnspósta við vatnsveiturnar 15 í fiskiþorpunum í Buikwe. Grundfos mun útvega AQtap tæknibúnaðinn og sérhæfða þjálfun honum tengdum, en WMU mun annast uppsetningu á búnaðinum, margvíslega þjálfun og uppfræðslu á öllum stigum frá grasrótinni upp í héraðsstjórn, að því er fram kemur í greininni. 

Þá segir Árni að framkvæmdir við vatnsdreifikerfin séu þegar hafnar og uppsetning á öllum búnaði verði lokið fyrir sumarlok 2017. Endanleg verkefnislok verði síðan innan tveggja ára og þá væntanlega með 15 sjálfbærum vatnsveitum.

"Mjúki" hluti verkefnisins er flóknari en  sá tæknilegi og mun taka lengri tíma. Í fyrsta lagi þarf að þróa hentugt rekstrarform með héraðsyfirvöldum, sem tryggir gagnsætt tekjustreymi af starfseminni til að standa undir starfseminni og þjálfa væntanlega rekstrararaðila í rekstri og viðhaldi vatnsveitanna. Í öðru lagi þarf að vinna mjög náið með íbúum fiskiþorpanna þannig að allir skilji hugmyndafræðina á bak við gjaldtökuna og að þessi nálgun er sennilega ódýrari kostur fyrir íbúana, þegar til lengri tíma er litið, en "ókeypis vatn" úr ósjálfbærri vatnsveitu, sem drabbast síðan niður og verður ónýt á 1-2 árum.

WMU mun bera hitann og þungann af uppsetningu AQtap vatnspóstanna og jafnframt annast "mjúka" hluta verkefnisins að mestu leyti í nánu samstarfi með sendiráði Íslands í Kampala og héraðsyfirvöldum í Buikwe. WMU mun einnig annast eftirfylgni og tæknilegan stuðning við rekstur og viðhald vatnsveitanna í 2-3 ár.

Miklar vonir eru bundnar við þetta verkefni, og ef vel tekst til, þá má ætla að þessi nálgun við að koma á sjálfbærum vatnsveitum í fátækum samfélögum gæti orðið fyrirmynd að sambærilegri uppbyggingu í vatnsmálum víðar í Buikwe héraði og í Úganda í heild. 

Opinber stuðningur við aðgengi að öruggum fóstureyðingum í þróunarríkjum:
Íslendingar þrefalda framlög til Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA)

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur ákveðið að þrefalda framlag ríkisstjórnar Íslands til mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) og styðja þannig meðal annars við aðgengi að öruggum fóstureyðingum sem er mikilvægt mannréttindamál og snýr ekki síst að rétti kvenna til að ráða yfir eigin líkama. Málaflokkurinn gegnir veigamiklu hlutverki í þróunarsamvinnu okkar. Ísland styður jafnframt heilshugar frumkvæði Hollands, Belgíu, Svíþjóðar og Danmerkur sem kennt er við SHE DECIDES sjóðinn en fyrsti fundur samtakanna fór fram í Brussel í gær og var fulltrúi Íslands á meðal þátttakenda.

Ljóst er að fjárframlög til samtaka og stofnana á sviði mæðra- og ungbarnaverndar, kynfræðslu, aðgengi að getnaðarvörnum og heilbrigðisþjónustu vegna kynsjúkdóma á borð við HIV/alnæmi munu dragast saman á næstu misserum. Að mati íslenskra stjórnvalda er hér um að ræða mikilvægt heilbrigðismál þar sem aðgerðir gegn löglegum og öruggum fóstureyðingum munu ekki leiða til fækkunar fóstureyðinga, heldur leiða til hins gagnstæða, fjölgunar fóstureyðinga sem framkvæmdar eru með vafasömum hætti og leggja þannig líf fjölda kvenna í hættu. Þetta á ekki síst við um fátækustu ríkin þar sem slík grunnþjónusta er víða af afar skornum skammti. 

"Ísland hefur verið í fararbroddi í þessum málum, m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og mun verða áfram. Ég hef ákveðið að þrefalda stuðning okkar til mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) sem íslensk stjórnvöld hafa stutt um árabil, en UNFPA er stærsta og mikilvægasta stofnun SÞ á þessu sviði. Við styðjum frumkvæði Hollendinga og annarra ríkja og teljum að samtakamáttur þessara ríkja verði til þess að efla enn frekar þennan málaflokk. Öll vinna þessi ríki að sama marki og þessari verulegu aukningu á framlögum Íslands til málaflokksins er best varið með því að styrkja enn frekar UNFPA," segir Guðlaugur Þór. 

Framlagið sem um ræðir hækkar úr tæpum 11 milljónum króna í rúmar 32 milljónir. Þessu til viðbótar veita íslensk stjórnvöld stuðning við mæðraheilsu og fjölskylduáætlanir í tvíhliða samstarfslöndum, t.d. í Malaví.

Rannsókn hafin á næringarstöðu og námsárangri barna í Buikwe héraði 
Í síðustu viku fór af stað rannsókn sem skoðar möguleg tengsl næringarstöðu og námsárangurs barna 12 ára og yngri í samstarfsskólum Íslands í Buikwe héraði. Rannsóknin er hluti af viðameira menntaverkefni til fjögurra ára í héraðinu.

Rannsóknir sýna að vannærð börn eiga erfiðara með að læra en önnur börn. Í Buikwe héraði ríkir fátækt og er matarskortur heimila oft eftir því, og í skólum héraðsins hefur skólaaðsókn og námsárangur verið afar slakur. Sendiráð Íslands í Kampala ákvað því að láta rannsaka hvort mögulega megi útskýra lélegan námsárangur barnanna með hungri.

Næringarstaða barnanna verður mæld samkvæmt BMI stuðli þeirra, ásamt spurningalista um tegund og magn fæðu þeirra. Þá er næringarstaðan borin saman við námsárangur sem metinn er eftir að prófað er úr tilteknu efni sem börnunum er kennt á meðan á rannsókninni stendur af kennurum á vegum rannsakenda, ásamt niðurstöðum úr samræmdum prófum.

Sendiráð Íslands vinnur samhliða þessu að verkefnum sem eiga að tryggja fæðuöryggi barna á skólatíma og mun þessi rannsókn á næringarstöðu nemenda varpa skýrara ljósi á þá þörf. Þá er lagt upp með að hægt verði að leggja rannsóknina fyrir sömu börn eftir þrjú ár og sjá þá hvort með auknu fæðuöryggi sé námsárangur betri.

Rannsóknin er í höndum Dr. Hedwig Acham, næringarfræðings við Makerere háskólann í Kampala. Hún hefur áður framkvæmt sambærilegar rannsóknir á næringarstöðu skólabarna í bágstöddum héruðum Úganda. 

Sjónum beint að konum í atvinnulífinu á alþjóðlegum baráttudegi kvenna
"Réttindi kvenna eru mannréttindi en á þessum erfiðu óvissu- og upplausnartímum er gengið á réttindi kvenna og stúlkna og áunninn réttindi afnumin eða takmörkuð. Eina leiðin til að auka áhrif kvenna og stúlkna er að vernda réttindi þeirra og tryggja að þær geti nýtt hæfileika sína til fullnustu," segir Antonío Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi sem birtist meðal annars í Fréttablaðinu í morgun.

Guterres segir að konur hafi hvergi staðið jafnfætis karlmönnum. Sótt sé að lagalegum réttindum kvenna og réttur þeirra til að ráða yfir eigin líkama sé dreginn í efa og grafið undan honum. "Sótt er að konum jafnt í netheimum sem í daglegu lífi. Þegar verst lætur reisa öfgasinnar og hryðjuverkamenn lífssýn sína á undirokun kvenna. Þær sæta kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi, eru þvingaðar í hjónaband og í raun hnepptar í þrældóm," segir hann.

Í lok greinarinnar kveðst Guterres innan Sameinuðu þjóðanna vinna að vegvísi með áfangamarkmiðum til að tryggja jafnrétti kynjanna með það fyrir augum að allir þeir sem við vinnum fyrir eigi sér málsvara. "Fyrri markmiðum hefur ekki verið náð. Nú verðum við að standa við stóru orðin," skrifar hann. "Við skulum heita því á alþjóðlegum baráttudegi kvenna að gera allt sem í okkar valdi stendur til að vinna gegn rótgrónum fordómum, styðja viðleitni og baráttu og efla jafnrétti og valdeflingu kvenna."

Öll störf eru kvennastörf
Jafnréttisstofa efndi í hádeginu til málþings á Grand hótel með yfirskriftinni "Öll störf eru kvennastörf - brjótum upp kynbundið náms- og starfsval" en alþjóðleg einkunnarorð dagsins beina einmitt sjónum að atvinnumálum: "Women in the Changing World of Work: Planet 50-50 by 2030."

"Ekkert í umhverfi barna á að gefa til kynna að stúlkur séu að einhverju leyti síðri en drengir, segir Phumzile Mlambo-Ngcuka yfirmaður UN Women, stofnunar Sameinuðu þjóðanna um jafnrétti og valdeflingu kvenna,  í ávarpi í tilefni dagsins en þar vekur hún sérstaka athygli á ólaunuðum vanmetnum umönnunarstörfum og húsverkum sem konur og stúlkur sinna í miklu meira mæli en karlar.

Una Sighvatsdóttir friðargæsluliði í Afganistan birtir í tilefni dagsins þrjú viðtöl við jafnmargar konur á vinnumarkaði. Brot úr þessum viðtölum er að finna í stiklunni hér að ofan, "On International Women´s Day 2017."

Umhverfismengun veldur fjórðungi dauðsfalla barna í heiminum
Um 1,7 milljón barna undir fimm ára aldri láta lífið í heiminum á hverju ári vegna umhverfismengunar. Þetta kemur fram í skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO, sem kom út á mánudag og RÚV sagði frá.
Í frétt sagði að mengað vatn, skortur á hreinlæti og mengun bæði innan- og utandyra væru meðal ástæðna dauðsfallanna. Tölur sýni að fjórða hvert dauðsfall barna frá eins mánaða til fimm ára aldurs sé vegna mengunar.

"Auk fyrrgreindra þátta hefur WHO vaxandi áhyggjur af mengun af völdum raftækja- og rafmagnsúrgangs. Sé þeim ekki fargað á réttan hátt geta börn orðið berskjölduð fyrir alls kyns úrgangi sem getur skaðað heilsu þeirra. Hvers kyns mengun hefur sérlega slæm áhrif á ung börn. Líkami og líffæri þeirra eru enn að þroskast og þau því viðkvæmari fyrir því sem getur skaðað þau. Þannig eru hvítvoðungar sem búa við óbeinar reykingar og aðra loftmengun líklegri til þess að fá lungnabólgu og í aukinni hættu á að fá varanlega öndunarfærasjúkdóma.  Talið er að yfir 90 prósent mannkyns andi að sér lofti sem brýtur gegn loftgæðaviðmiðum WHO," sagði í frétt RÚV.

Þá kom fram að b andaríska fréttastofan CNN hefði eftir Maria Neira, yfirmanni lýðheilsudeildar WHO, að með því að fjárfesta í bættu neysluvatni og með notkun hreinni orkugjafa batni heilsa fólks um leið. 

Fyrsta jafningjarýni DAC um íslenska þróunarsamvinnu
Í dag var haldinn fundur um fyrstu drög að jafningjarýni um íslenska þróunarsamvinnu á vegum þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (DAC).  Ísland varð fullgilt aðildarríki að DAC árið 2013.

Rýnin hefur verið í vinnslu umliðið ár, en jafningjarýni er fastur liður í störfum nefndarinnar, unnin af fulltrúum tveggja aðildarríkja, að þessu sinni Grikklands og Slóveníu, ásamt starfsmönnum DAC. Fyrir svörum af Íslands hálfu voru Stefán Haukur Jóhannesson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins  ásamt öðrum starfsmönnum raðuneytisins.

Fulltrúar Íslands svöruðu spurningum nefndarinnar og gerðu grein fyrir afstöðu Íslands til þeirra atriða sem bent hefur verið á. Ráðuneytisstjóri sagði að það væri við hæfi að halda fundinn á alþjóðlegum baráttudegi kvenna þar sem jafnrettismál væru eitt af  áherslusviðum Islands á sviði þróunarsamvinnu. Einnig sagði hann  að vilji íslenskra stjórnvalda væri að auka stuðning við fátækustu ríki heims og gera íslenska þróunaraðstoð enn skilvirkari.

Þá þakkaði hann fulltrúum Grikklands og Slóveníu og starfsmönnum DAC fyrir vel unnin drög að skýrslu.

Enginn Afríkuleiðtogi útnefndur til Mo Imbraham verðlaunanna
Einhver eftirsóttasta viðurkenning sem stjórnmálaleiðtogar í Afríku geta vænst að fá er jafnframt sú sem sjaldnast er veitt. Á ellefu árum hefur aðeins fjórum þjóðarleiðtogum í Afríku hlotnast viðurkenning Mo Ibrahim stofnunarinnar fyrir framúrskarandi leiðtogahæfni en verðlaununum fylgir dágóð fjárhæð: rúmur hálfur milljarður íslenskra króna. Niðurstaða stofnunarinnar fyrir árið 2016 var sú að enginn verðskuldaði viðurkenninguna.

Þrír þjóðarleiðtogar í Afríku eru sagðir hafa komið til álita: Ian Khama forseti Botsvana, Macky Sall forseti Senegal og Ellen Johnson Sirleaf forseti Líberíu.

Síðasti þjóðhöfðinginn sem hreppti verðlaunin var Hifikepunye Pohamba, forseti Namibíu, árið 2014, Petro Prires forseti Grænhöfðaeyja hlaut viðurkenninguna árið 2011, Festus Mogae forseti Botsvana fékk verðlaunin 2008 og Joaquim Chissano forseti Mósambík árið 2007. Heiðursverðlaun féllu í skaut Nelsons Mandela árið 2007.
 
Áhugavert

Balancing development priorities/ ODI
-'
A World Without Borders- Richer, Fairer, and More Free, eftir Nathan Smith/ ForiegnAffairs
-
Women are being traded as slaves on WhatsApp - here's how the UN can act, eftir James Cockyne/ KSDK
-
Why gender equity matters in fisheries and aquaculture/ WorldFishCenter
-
Why a Feminist Foreign Policy Is Needed More than Ever/ IPS
-
Why Eritreans leave/ ODI
-
If our foreign aid is to work, we have to stop throwing money around blindly, eftir Björn Lomborg/ Telegraph
-
Global Access to Improved Drinking Water/ NYUDRI
-
The fuzzy math of foreign aid and trade/ PolitiFact
-
What is International Humanitarian Law? And how does it affect EU aid?/ EuropeanCommission
-
How to save 51 billion lives for 68 cents with simple Engineering/ Mark Rober
How to save 51 billion lives for 68 cents with simple Engineering/ Mark Rober
-
Alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands kortlögð/ OCED
-
What is 'Blockchain' and How is it Connected to Fighting Hunger?/ WFP
-

D+C - mars 2017
-
African governments versus social media: Why the uneasy relationship?, eftir Charlotte Grass/ TheConversation
-
Flóttamenn þurfa meiri íslenskukennslu/ Mbl.is
-
Why southern Africa is a low-risk zone for the fatal bird flu, eftir Craeme S. Cummings/ TheConversation
-
Every Girl Counts/ ONE
Every Girl Counts/ ONE
-
New Report Outlines Actions to Leverage Islamic Finance for Development/ Alþjóðabankinn
-
China isn't displacing traditional aid donors in Africa, eftir Haley J. Swedlund/ Qz
-
7 barriers to girls' education you need to know about/ ONE
-
The poorest young women have spent less than a year in school in the bottom ten countries/ GEMReport
-
Verden har over 900 millioner mennesker over 60 år/ Bistandsaktuelt
-
-
-
-
US: Trump's New Refugee Order Renews Old Harms/ HRW
-
As More Aid Flows to Fragile States, a Call for a Better Approach, eftir Sreya Panuganti/ NewSecurityBeat
-
Feminism's new frontier: Localising aid/ AlJazeera


Renewable energy:A world turned upside down/ Economist
-
Months Away From Catastrophe - Severe drought threatens Somalia/ WorldFoodProgram (WFP)
-
Facebook is laying fiber cable in Uganda to boost internet reach and speed/ QZ
-
The hidden threat behind Kenya's worsening drought/ IRIN
-

Somalia: Malnutrition hits record high as drought persists/ ICRCNewsroom
-
WFP Receives European Union Funding To Boost Nutrition In Burundi/ WFP
-
Aid agencies in Mozambique call for support for Cyclone Dineo response/ Reliefweb
-
Can aid come in time to avert famine in Somalia?/ IRIN
-
Somalia drought: More than 100 die from hunger in one region/ BBC
-
Malawi Struggles to Retain Nurses in Public Hospitals/ VOA
-
As Drought Intensifies, WFP Provides Life-Saving Support to Mothers and Children in Somalia/ WFP
-
Tillerson pushes back on White House's proposed cuts to State Department and USAID/ WashingtonPost
-
UN Chief in Somalia on Emergency Visit to Focus on Famine/ VOA
-
Alarm bells ring for charities as Trump pledges to slash foreign aid budget/ CNN
-
Bandaríkin: Efnahags- og þróunaraðstoð skorin niður/ RÚV
-
Ghana is 60: An African success story with tough challenges ahead/ TheConversation
-
Yemenis fight for survival as famine looms/ IRIN
-
Human rights groups condemn new Bangladesh child marriage law/ CNN
-
Drought emergency spirals in Ethiopia amid major aid shortages/ Reuters
-
Drought Threatens To Drive Famine In Somalia As Hunger Kills More Than 100/ NPR
-
Attacks on Afghan hospitals hit children the hardest/ IRIN
-
Dramatic threat to maize harvest/ D+C
-
Africa first ladies urge African governments to give youth opportunities to participate in National building/ CGTN
-
What happens when aid is given as direct cash transfers?/ BBC
-
FAO launches the Small-Scale Family Farming studies in the Near East and North Africa/ FAO
-
-
-

Óskað eftir styrkumsóknum frá borgarasamtökum vegna mannúðarverkefna

Utanríkisráðuneytið óskar eftir styrkumsóknum frá íslenskum borgarasamtökum vegna mannúðarverkefna. Umsóknarfrestur er til og með 18. apríl 2017.

Ákveðið hefur verið að veita allt að 100 milljónum króna til mannúðarverkefna borgarasamtaka. Við úthlutun verður sérstaklega litið til verkefna sem bregðast við neyð fólks á flótta undan átökum, sem og verkefna tengdum ástandinu í Sýrlandi.

Við þessa styrkúthlutun verður farið eftir verklagsreglum utanríkisráðuneytisins um samstarf við borgarasamtök frá 2015. Í reglunum er að finna vinnulag og önnur viðmið sem notuð eru við mat á umsóknum auk skilyrða sem borgarasamtök verða að uppfylla til að geta sótt um styrki. 
 

Staða flóttamannamála í Evrópu og á Íslandi

Íslandsdeild Amnesty International, Rauði krossinn á Íslandi og Mannréttindaskrifstofa Íslands standa að málþingi um stöðu flóttamannamála í Evrópu og á Íslandi, miðvikudaginn 15. mars næstkomandi, í Öskju í Háskóla Íslands, stofu 132, frá kl. 12.00 til 13.00.

Kanadíski lögfræðingurinn og rannsakandinn, Anna Shea er önnur tveggja framsögumanna á málþinginu en erindi hennar sem fram fer á ensku ber heitið, Europe´s Refugee Crisis: A Solution Looking for a Problem? Anna Shea starfar sem rannsakandi og ráðgjafi hjá aðalstöðvum Amnesty International í London. 

Hún er sérstakur gestur Íslandsdeildar Amnesty International. 

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir, lögfræðingur hjá Rauða krossinum á Íslandi heldur erindi um stöð u flóttamannamála á Íslandi, hvað gengur vel og hvað má betur fara.  Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands leiðir málþingið.

Erindin fara fram á ensku.

Vatnsveitur í fiskiþorpum Buikwe héraðs uppfærðar

- eftir Árna Helgason verkefnastjóra í sendiráði Íslands í Kampala

Ísland og Úganda vinna sameiginlega að því að bæta lífskjör og afkomu íbúa í fiskiþorpum í Buikwe héraði í Úganda, með inngripum og uppbyggingu í heilbrigðis- og menntamálum. Sendiráð Íslands í Kampala annast verkefnið fyrir Íslands hönd en héraðsstjórnin í Buikwe fyrir hönd Úganda.

Uppbygging í vatns- og hreinlætismálum eru fyrirferðamiklir þættir í samstarfsverkefni Buikwe og Íslands, en eins og alþjóð veit, þá er aðgangur að ómenguðu neysluvatni og viðunandi hreinlætisaðstöðu grundvallaratriði, sem verða að vera í lagi fyrir heilbrigði fólks og þar með til að stuðla að jákvæðri þróun í þeim þáttum mannlífsins sem áhrif hafa á lífskjör og afkomu.
 
Markhópur verkefnisins eru 19 af 39 fiskiþorpum í þeim fjórum hreppum Buikwe héraðs, sem liggja að Viktoríuvatni og ánni Níl. Um 40.000 manns búa í þessum 19 þorpum eða 75% af öllum íbúum Buikwe héraðs, sem byggja afkomu sína á fiskveiðum og fiskverkun.

Vatnsnámi og hönnun á vatnsveitum er lokið fyrir öll 19 þorpin og framkvæmdir við dreifkerfi eru að hefjast og verður lokið fyrir mitt ár 2017.
 
Stuttur endingartími og ósjálfbær rekstur
Eilíft vandamál við mannvirki sem ætlað er að veita samfélagslega þjónustu er stuttur endingartími og ósjálfbær rekstur. Framkvæmdir eru oftast kostaðar af þróunarframlögum erlendra ríkja eða gjafafé og eignarhald að loknum framkvæmdum gjarnan óljóst. Algengast er að þær eru afhentar samfélaginu til eignar og umsjár, án þess að nauðsynleg tæknikunnátta eða fjármagn til að sinna rekstrinum fylgi með. Niðurstaðan verður því gjarnan sú að mannvirki og tæknibúnaður drabbast niður og hættir að þjóna hlutverkinu mun fyrr en eðlilegt getur talist. Þetta á því miður við um margvísleg mannvirki sem byggð eru fyrir nauðsynlega samfélagslega þjónustu, og þar með eru vatnsveitur.

Þegar vatnsveitur eru byggðar eru þær almennt afhentar samfélaginu til eignar og reksturinn settur undir vatnsnefnd sem kosin er af íbúum þorpsins. Hinir kjörnu fulltrúar búa oftast ekki yfir tækniþekkingu til að reka vatnsveitur, er ætlað að sinna vatnsnefndarstarfinu launalaust og héraðsyfirvöld hafa ekki tæknilegt eða fjárhagslegt bolmagn til að aðstoða. Afleiðingin er síðan að mannvirkin drabbast niður, tækjabúnaður bilar og vatnsveitan hættir að lokum að þjóna sínu hlutverki og vatnsmál samfélagsins eru aftur komin á byrjunarreit.
 
Til að forðast þau örlög sem lýst er hér að ofan fyrir vatnsveiturnar í  samstarfsverkefnii Íslands og Úganda í Buikwe héraði hafa sendiráð Íslands í Kampala og héraðsstjórnin í Buikwe ákveðið að færa dreifingu á vatni í fiskiþorpunum í héraðinu í nútímalegra horf með innheimtu á vatnsgjöldum og þróa rekstrarumgjörð, sem getur axlað ábyrgð á fjárhagslegum og tæknilegum rekstri vatnsveitanna. Þar til grundvallar er lagt að vatnsgjaldi verði stillt í hóf og innan þeirra marka sem íbúar hafa efni á og geta sætt sig við, en þó nægilega hátt til að tryggja rekstrartekjur sem þarf til að standa undir rekstrinum.
 
Innleiðing á vatnsdreifikerfum með gjaldtöku færist í vöxt víða í þróunarríkjum og nokkur slík kerfi eru þegar til staðar í Úganda. Það er því þegar komin nokkur reynsla á þetta rekstrarform í landinu og ekki ástæða til að ætla annað en að það verði árangursríkt í fiskiþorpunum í Buikwe héraði.
 
Danskt hugvit
Tæknibúnaður fyrir vatnsdreifingu með gjaldtöku er þegar fáanlegur frá ýmsum framleiðendum, en búnaðurinn sem verður notaður í Buikwe héraði er frá danska fyrirtækinu Grundfos, sem hefur þróað vatnspósta með rafrænni gjaldtöku undir heitinu nafni AQtap, en þeir eru sérstaklega hannaðir fyrir litlar vatnsveitur í dreifbýli í þróunarlöndum. Eitt slíkt kerfi er þegar í notkun í Buikwe héraði, en það var sett upp af landsskrifstofu Water Mission International í Úganda (WMU), en WMI eru alþjóðleg frjáls félagasamtök sem sérhæfa sig í að byggja vatnsveitur í þróunarlöndum.
 
Sendiráð Íslands í Kampala, héraðsstjórnin í Buikwe, WMU og Grundfos munu standa sameiginlega að því að setja upp 51 AQtap vatnspósta við vatnsveiturnar 15 í fiskiþorpunum í Buikwe. Grundfos mun útvega AQtap tæknibúnaðinn og sérhæfða þjálfun honum tengdum, en WMU mun annast uppsetningu á búnaðinum, margvíslega þjálfun og uppfræðslu á öllum stigum frá grasrótinni upp í héraðsstjórn.  Framkvæmdir við vatnsdreifikerfin eru þegar hafnar og uppsetning á öllum búnaði á að vera lokið fyrir sumarlok 2017. Endanleg verkefnislok verða síðan innan 2ja ára og þá væntanlega með 15 sjálfbærum vatnsveitum.
 
Tæknibúnaður AQtap kerfisins er tiltölulega einfaldur. Um er að ræða vatnspósta með rafrænum búnaði þar sem neytendur geta fengið 20 lítra skammt af hreinu vatni á brúsa fyrir ákveðið gjald. Neytandi greiðir með sérstöku greiðslukorti, sem er forhlaðið með ákveðnum fjölda vatnseininga, sem korthafi fyrirframgreiðir hjá söluaðila vatnsveitunnar. Vatn er eingöngu afhent gegn rafrænni greiðslu og reiðufé eingöngu þegar vatnseiningar eru keyptar og hlaðið inn á neytendakortin. Kerfið heldur rafrænt bókhald um seldar og afhentar vatnseiningar og skilar gögnum inn í miðlægt kerfi á vatnsskrifstofu viðkomandi hrepps (sub-county). 

facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105