Heimsljós
veftímarit um þróunar- og mannúðarmál
10. árg. 342. tbl.
15. nóvember 2017
Breytingar á tvíhliða þróunarsamvinnu:
Mósambík verður áhersluland í þróunarsamvinnu í stað tvíhliða samstarfsríkis
Frá Costa da Sol ströndinni við Maptúó, höfuðborg Mósambíkur. Ljósm. gunnisal

Þróunarsamvinna Íslands við Mósambík mun taka breytingum um næstu áramót þegar Mósambík breytist úr tvíhliða samstarfslandi í áhersluland, en önnur áherslulönd Íslands eru Palestína og Afganistan. Sendiráði Íslands í Mapútó verður lokað en þó er ekki gert ráð fyrir umfangsmiklum samdrætti í heildarframlögum til verkefna í landinu.

Stuðningi við áherslulönd er beint í gegnum fjölþjóðastofnanir, skóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og borgarasamtök og verður sinnt af þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins sem fylgist með að fjármunum sé ráðstafað í samræmi við áætlanir og sinnir reglubundnu eftirliti um framvindu. Fjármagni sem annars hefði verið varið í rekstur sendiráðs í Mapútó verður varið til annarra verkefna á sviði tvíhliða þróunarsamvinnu í samstarfslöndum eða svæðaverkefna. Markmið breytinganna er að auka skilvirkni og bæta árangur af þróunarframlögum Íslands.

Ákvörðun þessi var tekin í kjölfar ítarlegrar greiningarvinnu sem fram fór á árunum 2014-2016 þar sem litið var til ýmissa þátta, með það að augnamiði að þróunarframlög Íslands nýttust sem best. Þar á meðal var litið til umfangs þróunarsamvinnu við landið, fjölda framlagsríkja, mati á mikilvægi þróunarframlaga Íslands og stjórnarfars.

Ísland mun þannig halda áfram stuðningi við Mósambík í gegnum samstarfsverkefni með Barnahjálp SÞ um vatn og salernisaðstöðu og nýtt samstarfsverkefni með UN Women um konur, frið og öryggi. Jafnframt munu sérfræðingar frá Mósambík halda áfram að stunda nám við Jafnréttisskóla Háskóla SÞ og Sjávarútvegsskóla Háskóla SÞ á Íslandi. Því til viðbótar er veittur stuðningur til Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, WFP, í formi framlaga og útsendingu sérfræðinga á sviði mannúðaraðstoðar, en sem stendur eru tveir íslenskir sérfræðingar að störfum fyrir WFP í Mósambík.
Útrýming sárafátæktar á langt í land:
Asíuþjóðir í takt við fyrsta Heimsmarkmiðið en fátækum fjölgar hins vegar í Afríku 
Góðu fréttirnar eru þær að sárafátækum í heiminum heldur áfram að fækka á þessu ári. Reiknað er með að þeim fækki um 38 milljónir á árinu, örlítið meira en árið 2016 þegar þeim fækkaði um 34 milljónir. Vondu fréttirnar eru þær að með sama áframhaldi tekst ekki að útrýma fátækt árið 2030 eins og fyrsta Heimsmarkmiðið kveður á um. Til þess að útrýma fáækt fyrir þann tíma þurfa 90 einstaklingar að lyfta sér upp úr fátækt á hverri mínútu, eða 1,5 á hverri sekúndu. Með sömu þróun og síðustu árin verða enn 9,5 milljónir manna sárafátækir í árslok 2030.

Þannig lýsa þeir Homi Kharas og Wolfgang Fengler horfunum um fyrsta Heimsmarkmiðið, að útrýma fátækt fyrir árið 2030. Þeir skrifuðu á dögunum athyglisverða grein á vef Brookings stofnunarinnar þar sem þeir benda á að þegar Heimsmarkmiðin voru samþykkt af þjóðarleiðtogum heims árið 2015 hafi líka verið kallað eftir tölfræðibyltingu. Þeir segja að sú bylting kristallist í tveimur spurningum þegar horft sé á fyrsta Heimsmarkmiðið, annars vegar spurningunni hversu margir einstaklingar búi núna við sárafátækt - þar sem viðmiðið er 1,90 bandarískir dalir í tekjur á dag; og hins vegar hvort þróunin sé nægilega hröð til þess að markmiðið sé raunhæft.

"Við settum á laggirnar World Poverty Clock í maí á þessu ári til þess að svara þessum tveimur spurningum," segja þeir í greininni. "Markmiðið var að þróa tól til að fylgjast með fyrsta Heimsmarkmiðinu í rauntíma með því að nota tölfræðilegt líkan til að taka mælanleg söguleg gögn fyrir mat á stöðunni frá degi til dags og spám fyrir um framtíðina."

Frá þessu verkefni var sagt í Heimsljósi í vor en auk þess að telja í rauntíma fjölda sárafátækra og hversu vel miðar miðað við lokatakmarkið árið 2030 að útrýma fátækt með öllu er í þessu verkefni upplýsingagrunnur um stöðu allra þjóða fram til ársins 2030.

Ljósmynd: gunnisal
Samstarfsþjóðir Íslands illa á vegi staddar
Þegar litið er til samstarfslanda okkar Íslendinga í alþjóðlegri þróunarsamvinnu kemur í ljós að Malaví á langt í land með að útrýma fátækt fyrir árið 2030. Þar eru 65,7% íbúanna sárafátækir, eða rúmlega 12 milljónir af 18,5 milljónum íbúa. Talan fyrir þróun er mínustala upp á 24.

Staðan er lítið betri í Mósambík. Af tæplega 30 milljónum íbúa eru rúmlega 19 milljónir sárafátæktir eða 64,9%. Litlar líkur eru fyrir því að fyrsta Heimsmarkmiðið náist því mikið vantar upp á til þess að þróunin sé í takt við markmiðið, mínustala upp á 16.

Úganda er líka fjarri því að ná takmarkinu um útrýmingu fátæktar fyrir árið 2030. Af rúmlega 42 milljónum íbúa eru núna rúmlega 13 milljónir sárafátækir og talan um þróunina er mínus 8,7.

Tæplega milljarður enn sárafátækur árið 2030?
Homi Kharas og Wolfgang Fengler segja í grein sinni að hjá þjóðum þar sem sárafátækum fækkar á þessu ári nemi fækkunin 47 milljónum einstaklinga. Hins vegar fjölgi sárafátækum í 30 löndum og 9 milljónir einstaklinga sem áður voru fyrir ofan tekjumarkið lendi fyrir neðan línuna á þessu ári. Fram kemur í greininni að Asíuþjóðir séu á réttum hraða að útrýma sárafáækt - 77 einstaklingar á hverri mínútu - en öfugþróun sé hins vegar í Afríku þar sem sárafátækum kemur til með að fjölga á þessu ári um 2,4 milljónir. Þar skiptir mestu að fjölmennustu ríkin í Afríku, Nígería og Lýðstjórnarlýðveldið Kongó, eru að dragast aftur úr og þar bætast við 9,3 einstaklingar í hóp sárafátækra á hverri mínútu.

Niðurstaða greinarinnar um horfurnar á því að ná fyrsta Heimsmarkmiðinu er því ekki uppörvandi: okkur mun ekki takast að útrýma fátækt fyrir árið 2030. Þá verða enn 438 milljónir sárafátækir, eða 5% jarðarbúa. Asíuþjóðum mun að mestu leyti takast að útrýma fátækt samkvæmt spánni en Afríkuþjóðum mun einungis takast að draga úr fátækt úr 34% í álfunni árið 2017 niður í 23% árið 2030. "Vegna fólksfjölgunar í Afríku verður þó aðeins óveruleg fækkun í einstaklingum talið í álfunni," segir þeir Homi Kharas og Wolfgang Fengler í greininni. Þeir minna þó á að um spá sé að ræða.
Uppbygging grunnþjónustu með íslensku þróunarfé:
Skrifað undir nýjan samstarfssamning við Mangochi hérað í Malaví
Íslendingar munu áfram styðja úrbætur í vatns- og salernismálum í Mangochi. Ljósm. gunnisal

Íslensk stjórnvöld hafa skrifað undir nýjan samstarfssamning við stjórnvöld í Malaví um grunnþjónustu við íbúa Mangochi héraðs til fjögurra ára. Ágústa Gísladóttir forstöðukona sendiráðs Íslands í Lilongve skrifaði undir samninginn fyrir hönd Íslands en Kondwani Nankhumwa ráðherra sveitastjórnarmála og Moses Chimphepo héraðsstjóri í Mangochi fyrir hönd Malaví.

Yfirmarkmið þróunarsamvinnu ríkjanna tveggja er að styðja við viðleitni stjórnvalda í Malaví og héraðsstjórnvalda í Mangochi til að bæta félags- og efnahagsleg lífsskilyrði í héraðinu. Um er að ræða verkefni á ýmsum sviðum grunnþjónustu, svokallaða verkefnastoð, framhaldsáfanga af verkefnastoð sem er að ljúka. Helstu verkþættir eru uppbygging í heilbrigðismálum, með áherslu á mæðra- og ungbarnaheilsu; uppbygging í grunnskólum, með áherslu á stuðning við yngsta aldursstigið; uppbygging í vatns- og salernismálum; bætt atvinnutækifæri og valdefling kvenna og ungmenna; og almennur stuðningur við héraðsskrifstofuna með áherslu á deildir fjármála og eftirlits.

Verkefnastoðin er liður í aðgerðaáætlun Malaví og framkvæmd innan ramma tvíhliða samkomulags ríkisstjórnar Íslands og ríkisstjórnar Malaví á sviði þróunarsamvinnu. Hún leggur jafnframt sinn skerf af mörkum til Heimsmarkmiða um sjálfbæra þróun, ekki síst til markmiðs nr. 3 um heilsu og vellíðan; markmiðs nr. 4 um menntun fyrir alla; markmiðs nr. 5 um jafnrétti kynjanna; og markmiðs nr. 6 um hreint vatn og salernisaðstöðu.

Heiti verkefnastoðarinnar er "Mangochi Basic Services Programme 2017-2021" og samstarfsaðilinn er héraðsstjórn Mangochi héraðs. Verkefninu verður hleypt af stokkunum í desember á þessu ári. Kostnaðaráætlun fyrir Ísland nemur rúmum 16,3 milljónum Bandaríkjadala á fjórum árum.

Megináhersla í tvíhliða þróunarsamvinnu Íslands er að stuðla að bættum lífskjörum með því að styðja við áætlanir stjórnvalda í samstarfslöndunum um að draga úr fátækt. Malaví er í hópi fátækustu ríkja heims og hefur verið eitt helsta samstarfsland Íslands allt frá árinu 1989. Frá byrjun hefur verið lögð áhersla á svæðisbundna nálgun í Malaví og einkum verið starfað í Mangochi héraði. Árið 2012 var fyrst undirritaður samstarfssamningur við ráðuneyti sveitarstjórnarmála og héraðsstjórnvöld í Mangochi um eflingu grunnþjónustu í héraðinu. 
Þjóðflokkar án ríkisfangs:
Veruleikinn birtist þeim í mismunun, útilokun og ofsóknum

Mismunun, útilokun og ofsóknir. Í þessum þremur hugtökum birtist veruleiki þeirra einstaklinga sem eru án ríkisfangs. Í nýrri skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) er dregin upp dökk mynd af stöðu fólks sem hefur ekki ríkisfang. Í skýrslunni er hvatt til tafarlausra aðgerða til að tryggja öllum rétt á ríkisfangi.

Rúmlega 75% þeirra sem eru án ríkisfangs tilheyra minnihlutahópum, segir í skýrslunni. Að mati skýrsluhöfunda er ástæða til að óttast að verði ekki breyting á högum þessa hóps kunni það að leiða til aukinnar gremju sem elur af sér ótta og kyndir undir  óstöðugleika og flótta í í alvarlegustu tilvikum.
Skýrslan er að mestu leyti byggð á rannsóknum sem flestar voru gerðar áður en stærsti hópur ríkisfangslausra hóf að flýja frá Mjanmar yfir til Bangladess. Hér er að sjálfsögðu átt við Róhingja en staða þeirra er birtingarmynd þeirra vandamála sem ríkisfangslausir glíma við, mismunun og langvarandi útilokun vegna skorts á ríkisfangi.

"Fólk án ríkisfangs er einfaldlega að leita réttar síns, sama réttar og allir borgarar eiga að njóta. En ríkisfangslausir minnihlutahópar, eins og Róhingjar, búa við mikla mismunun og kerfisbundna afneitun á réttindum sínum," segir Filippo Grandi framkvæmdastjóri Flóttamannastofnunar SÞ í frétt um skýrsluna.

Skýrslan nefnist "This is our home": Stateless minorities and their search for citizenship" og kemur út á sama tíma og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna ýtir úr vör í þriðja sinn herferðinni #IBelongCampaign sem hefur það markmið að útrýma ríkisfangsleysi. Dæmi í skýrslunni eru einkum frá minnihlutahópum í Makedóníu og Kenía en sjá má á meðfylgjandi myndbandi sögu Makonde fólksins í Kenía. Sá minnihlutahópur kom upphaflega til Kenía frá Mósambík á fjórða áratug síðustu aldar - og var án ríkisfangs þangað til í október í fyrra. Þá var Makonde fólkið skilgreint sem 43. þjóðflokkurinn í Kenía. Í myndbandinu er rætt við Amina Kassim um erfiðleikana sem hún glímdi við meðan hún var án ríkisfangs.

Meirihluti barna utan skóla eru stelpur

Rúmlega 130 milljónir stúlkna fá enga formlega skólagöngu. Að mati hjálparsamtakanna ONE geta stúlkur sem fá haldgóða menntun vænst þess að lifa heilbrigðara og betra lífi með fleiri atvinnutækifæri en þær stúlkur sem fá ekki að fara í skóla.

"Menntun getur einnig gefið stúlkum meiri tækifæri til að berjast fyrir rétti sínum, leggja meira af mörkum til fjölskyldunnar og samfélagins, og efla hagvöxt í heimabyggð og á heimsvísu," eins og segir í nýrri skýrslu samtakanna: Toughest Places for a Girl to Get an Education.

Í inngangi skýrslunnar segir að fyrir utan þær 130 milljónir stelpna sem sækja ekki skóla séu aðrar sem fari í skóla og sitji í skólastofu án þess að kennari láti sjá sig, eða þar sem engar skólabækur er að hafa til að styðja við námið. "Þess vegna er um hálfur milljarður kvenna árið 2017 enn ólæs," segir í skýrslunni sem gefin er út til þess að tryggja að allar stúlkur fái tækifæri til menntunar.

Eins og titillinn gefur til kynna er í skýrslunni að finna lista yfir þær þjóðir sem erfiðast er fyrir stelpur að fara í skóla. Topp tíu listinn lítur svona út: Suður Súdan, Miðafríkulýðveldið, Afganistan, Tjad, Malí, Gínea, Burkina Fasó, Líbería og Eþíópía.

Í þessum löndum eru 57%  líkur á því að stelpur fremur en strákar séu utan skóla á grunnskólaaldri og 83% á framhaldsskólaaldri. Þessi munur sýnir að mati ONE að fátækt er kynbundin.
Að sjá og upplifa
Eins og venjulega eru nemendur Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna búnir að vera önnum kafnir í haust. Fyrir utan námið sjálft sem er mjög  krefjandi þurfa þeir að leggja hart að sér til að aðlagast framandi umhverfi.

En að sjálfsögðu gefst annað slagið stund á milli stríða. Vettvangsferðirnar sem skólinn skipuleggur eru t.d.  kærkomnar til að sjá, upplifa, slaka á og mynda tengsl, eins og skólinn tísti um á dögunum.

Á Flickr-vefnum er að finna margar skemmtilegar myndir úr ferðinni. Ein þeirra er hér að ofan, tekin á Snæfellsnesi.
Matvælastefna leiðir saman hugsjónafólk og athafnafólk á COP23

Hvernig geta Norðurlöndin tekst á við alþjóðlegar áskoranir eins og matarsóun, ósjálfbært mataræði og minnkandi líffræðilegra fjölbreytni? Þessi stóra spurning var lögð til grundvallar á Norræna matvæladeginum sem haldinn var í síðustu viku í tengslum við yfirstandandi loftslagsviðræður í Bonn.

Á þessum 23. fundi Sameinuðu þjóðanna um rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (COP 23) lagði Norræna ráðherranefndin í fyrsta skipti áherslu á matvæli sem lið í alþjóðlegu loftslagsumræðunni.

Á vef um norrænt samstarf segir að skilningur ríki á loftslagstengdum áskorunum. "Á fundinum í ár er megináherslan lögð á gagnlegar og nýstárlegar lausnir í samræmi við Parísarsamninginn, og að vinna í samræmi við markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun."

Ennfremur segir í fréttinni:

"Matvælaframleiðsla og neysla hafa mikil áhrif á loftslagið. Staðreyndin er sú að nær þriðjung losunar gróðurhúsalofttegunda má rekja til matvælakerfis heimsins og gerir það mótun matvælastefnu að algeru forgangsmáli. Um leið hafa loftslagsbreytingar alvarleg áhrif á matvælakerfið sem knýr enn frekar á um að framleiðsla matvæla verði sjálfbær. Matvælakerfi heimsins er beint og óbeint tengt hverju og einu sjálfbærnimarkmiði Sameinuðu þjóðanna sem gerir matvæli að grundvallaratriði í sjálfbærri þróun."

Hungursneyð yfirvofandi í Jemen þrátt fyrir tilslakanir Sáda

Sádi-Arabar og bandamenn ætla að opna að nýju einhverjar hafnir og flugvelli í Jemen sem þeir lokuðu eftir að flugskeyti var skotið frá Jemen að Ríad, höfuðborg Sádi-Arabíu, í síðustu viku. Fyrr í vikunni sagði Mark Lowcock aðstoðarframkvæmdastjóri mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum að mesta hungursneyð í áratugi væri yfirvofandi í Jemen opni hernaðarbandalag Sáda ekki landamæri landsins fyrir neyðaraðstoð. Að mati fulltrúa Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) eru aðeins til vistir í landinu sem duga í rúmlega eitt hundrað daga. Bæði Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið telja að tilslakanir Sáda séu skref í rétt átt en dugi engan veginn.


Neyðarsöfnun UN Women stendur sem hæst
Neyðarsöfnun Landsnefndar UN Women í þágu kvenna í Zaatari flóttamannabúðunum í Jórdaníu stendur nú sem hæst. Birt hafa verið nokkur áhrifamikil kvikmyndabrot úr ferð fulltrúa UN Women með Elizu Reid forsetafrú og Evu Maríu Jónsdóttur verndara samtakanna. Hér er eitt þeirra sem sýnir Elizu Reid hitta 18 ára stúlku, Zaad Alkhair, sem missti bróðir sinn í stríðinu í Sýrlandi. Zaad kenndi sjálfri sér ensku eftir að hún komst í kynni við griðastaði UN Women í Zaatari flóttamannabúðunum.

Kon­ur og börn eru um 80% íbúa í Za­at­ari-flótta­manna­búðunum í Jórdan­íu og eiga þar erfitt upp­drátt­ar. Flest­ar kon­ur í búðunum eru margra barna mæður sem sár­lega þurfa vernd, ör­yggi og stuðning til að koma und­ir sig fót­un­um á ný.

UN Women á Íslandi hef­ur hrint af stað neyðarsöfn­un fyr­ir kon­ur og stúlk­ur frá Sýr­landi sem dvelja í flótta­manna­búðunum að því er fram kem­ur í frétta­til­kynn­ingu frá sam­tök­un­um.

Um 80 þúsund Sýr­lend­ing­ar dvelja í Za­at­ari-búðunum eft­ir að hafa flúið stríðsátök og of­beldi í heimalandi sínu. Búðirn­ar eru þær næst­stærstu í heim­in­um og jafn­framt fjórða fjöl­menn­asta borg Jórdan­íu.


Rétt undir sólinni

Ekki alls fyrir löngu kom út bókin Rétt undir sólinni eftir Halldór Friðrik Þorsteinsson, ferða- og mannlífssögur höfundarins af ferðalagi um Afríku. Í bókakynningu segir:

"Flest látum við okkur dreyma um að ferðast. Heimsækja staðina sem við höfum heyrt nefnda og kannski velt fyrir okkur um stund hvernig gætu litið út, staðir sem hafa framandleg heiti eins og Ouagadougou eða Gondar: hvernig ætli sé að vera þar? Halldór Friðrik Þorsteinsson lét ekki þessar hugsanir nægja, heldur hélt af stað. Í hálft ár ferðaðist hann frá vesturströnd Afríku austur á bóginn og síðan suður að syðsta odda álfunnar. Á leiðinni hitti hann fyrir fjölskrúðuga flóru fólks sem fæst við allt frá frönskukennslu til pálmavínbruggs, frá sölu fórnardýra til leigubílaaksturs. Hann heyrir af vonum og væntingum íbúa þessarar miklu álfu og stendur sjálfur á hæsta tindi hennar og skyggnist yfir.

Heiti bókarinnar, Rétt undir sólinni, er fengið úr frásögn Jóns Indíafara sem sigldi framhjá Afríku á leið sinni austur á bóginn fyrir 400 árum. Þótt þekkingu okkar á löndum heims hafi auðvitað stórfleygt fram frá því að Jón sagði Íslendingum frá furðum heimsins, minnir titillinn á að þrátt fyrir allt skiljum við heiminn best þegar við heyrum sögur sem taka mið af því lífi sem við lifum sjálf. Tónn bókarinnar er geðþekkur, jarðbundinn og yfirlætislaus. Það er hvergi dregin fjöður yfir þau fjölmörgu vandamál sem steðja að íbúum Afríku en við erum líka minnt á að álfan er stór og menningarheimar hennar margir, og þeir eru forvitnilegir og heillandi.

Halldór Friðrik Þorsteinsson er menntaður í heimspeki og viðskiptum og starfaði við verðbréfamiðlun um árabil. Hann hefur á undanförnum árum ferðast vítt og breitt um heiminn, yfir Asíu og Afríku og Suður- og Mið-Ameríku. Rétt undir sólinni er fyrsta bók hans."

Heimsljós birtir á öðrum stað einn kafla úr bókinni.


Áhugavert

New Secretary of State for International Development: the priorities ahead, eftir Elizabeth Stuart ofl./ ODI
-
Fourth Industrial Revolution & Its Dramatic Impact on Society, eftir António Guterres/ IPS
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-

Óskað eftir ráðgjöfum vegna úttektar á héraðsþróunarverkefnum

Utanríkisráðuneytið óskar eftir ráðgjöfum til að framkvæma úttekt á héraðsþróunarverkefnum í Malaví og Úganda. 


Zimbabwe crisis: Army takes over - Mugabe 'detained'/ BBC
-
Iran-Iraq earthquake live blog/ IRIN
-
German newspaper publishes names of 33,000 refugees who died trying to reach Europe/ Independent
-
The mobile phone is still changing the game in Africa/ Qz
-
Tímaritið D+C nóvember 2017
-
Priti Patel fallout erodes public trust and diminishes UK's stature, say critics/ TheGuardian
-
Grace Mugabe has a clear path to Zimbabwe's top job after her husband fired the VP/ Qz
-
Post-crisis restrictions on international banking can blunt growth prospects in developing countries/ Alþjóðabankinn
-
UNHCR chief urges international leaders to tackle conflicts at the root of today's global displacement crisis/ UNHCR
-
Ethnic violence displaces hundreds of thousands of Ethiopians/ IRIN
-
Europe, Africa Ministers Agree to Help Migrants Held in Libya/ VOA
Rejs i Afrika i fem måneder på EU's regning/ GlobalNyt
-
Falska äktenskap, våld och sexhandel i skuggan av flyktinglivet/ OmVärlden
-
The Migration Dilemma/ Fréttasyrpa DW
-
Trafficking laws 'target refugee aid workers in EU'/ TheGuardian
-
Malawi's abandoned child brides pushed into sex work as 'only option'/ Reuters
-
Rural women tackle drought-affected Mozambique's rise in child marriage/ UNWomen
-
How South Sudan refugees are boosting Uganda's economy/ BBC
-
Penny Mordaunt replaces Priti Patel in cabinet reshuffle/ BBC
-
What does Patel's departure mean for the UK aid community?/ Devex
-
"Refugees Are Nothing but Commodities"/ IPS
-
The Weinstein effect: The Global Scourge of Sexual Harassment & Exploitation/ IPS
-
Nigeria, DR Congo, Kenya and Uganda have the world's worst police forces/ Qz
-
Energy Resilience Takes on Renewed Urgency/ Alþjóðabankinn
-
NGOs tell German government: Don't 'instrumentalize' development work/ DW
-
Before High-Level Discussions, US Aims to Strengthen Ties to Africa/ VOA
-
Digital technology can help reinvent basic education in Africa/ Qz

Danadrottning til Gana

Í næstu viku fer Margrét Þórhildur Danadrottning í opinbera heimsókn til Gana. Með í för verður viðskiptasendinefnd í anda stefnu Dana að tengja opinbera þróunarsamvinnu í auknum mæli samstarfi á viðskiptalegum forsendum. Á vef Globalnyt í Danmörku segir að þegar drottningin komi til vesturafríska landsins Gana sé það til marks um náin samskipti landanna. Milli Gana og Danmerkur séu löng söguleg tengsl því fyrstu Danirnir hafi komið upp að Gullströndinni árið 1659, segir í fréttinni beint uppúr tilkynningu frá konungshöllinni. Svæðið var dönsk nýlenda fram til árins 1850 þegar það var selt Bretum - og því eru sögulegu tengslin meiri við Gana en flest önnur ríki álfunnar.

Málefni kvenna í brennidepli á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Bonn

- eftir Erlu Hlín Hjálmarsdóttur rannsóknarstjóra Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna
Þessar konur eru í pallborði á ráðstefnunni, Tara Shine, Rachel Kyte, Sheila Oparocha og Ragna Árnadóttir.

Tengsl milli jafnréttis- og loftslagsmála hafa notið aukinnar athygli á vettvangi loftslagsráðstefna Sþ en sú 23. stendur nú yfir í Bonn í Þýskalandi. Merkilegur áfangi náðist er framkvæmdaáætlun fyrir jafnréttis- og loftslagsmál var samþykkt af þátttökulöndum, en jafnrétti var ekki bara rætt á hinum formlega pólitíska vettvangi. 

Fjölmargir aðilar kynntu starf sitt á markaðstorgi jafnréttis og einnig hafa hliðarviðburðir verið helgaðir þessu málefni. Málefni frumbyggjakvenna komu til umræðu á hliðarviðburði Women's Earth and Climate Action Network (WECAN) International þar sem baráttukonur úr ólíkum heimshlutum ræddu þær áskoranir sem eru til staðar, m.a. loftslagstengdar þjóðernishreinsanir (climate genocide), áhrif alþjóðafyrirtækja, óendurkræfar breytingar á vistkerfum og landréttindi sem eru fyrir borð borin. Skilaboð frummælenda endurspeglast hvað best í tilvitnuninni "ef þú situr ekki við borðið, þá endarðu á matseðlinum", og endurómar skýrt ákall frumbyggjakvenna um að fá rými til að standa vörð um réttindi sín og verndun umhverfisins.

Sustainable Energy for All (SEforALL) sem notið hefur stuðnings Íslands, einblínir á orkumálin með það að markmiði að tryggja aðgengi allra að orku, bæta orkunýtingu og auka hlut endurnýjanlegrar orku. Átaksverkefni SEforALL og fjölmargra aðila sem starfa á sviði jafnréttis- og orkumála var hleypt af stokkunum (People-Centered Accelerator) á loftslagsráðstefnunni. Utanríkisráðuneytið, Jafnréttisskóli Háskóla Sþ og Landsvirkjun eru meðal stofnaðila verkefnisins en Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar var meðal frummælenda á málstofu SEforALL. 

Verkefnið felur í sér samhent átak til að tryggja virkari þátttöku kvenna í orkugeiranum, aðgang kvenna að orku og fjármagni til verkefna á þessu sviði. Parísarsáttmálinn fól m.a. í sér að "skilja engan eftir", sem er metnaðarfullt markmið af hálfu landa heimsins en til þess að slíku markmiði verði náð, er nauðsynlegt að endurhugsa hvernig má veita þeim sem mest eru þurfandi aðgang að nútímalegri orku á viðráðanlegu verði. Svokölluð "orkufátækt" í heiminum er meiriháttar hindrun fyrir þróun og því að Heimsmarkmiðunum verði náð. Til að útrýma henni þarf að tryggja virka þátttöku kvenna, nýta þeirra lausnir og samtakamátt þeirra fjölmörgu aðila sem starfa á þessu sviði.

 
Frásagnir af ferðalagi um álfu margra menningarheima

Heimsljós birtir einn kafla úr bók Halldórs Friðriks Þorsteinssonar þar sem hann drepur niður fæti í Gana á ferð sinn um Afríku. 

Marel í Accra

Höf­uð­borg Gana, Accra, fengi seint feg­urð­ar­verð­laun, ekki frekar en aðrar afrískar borg­ir. Fjöl­skrúð­ugt mann­lífið og strand­lengjan bæta það upp. Ég tékka inn á Palóma­hót­el­ið, snyrti­legt hótel á góðum stað, og rölti um nágrenn­ið. Finn leigu­bíla­þjón­ustu á vegum hót­els­ins og kanna verð á bíl og bíl­stjóra. Umsjón­ar­mað­ur­inn, Alex, er geðug­asti maður í fal­legri síð­erma skyrtu. Í miðjum samn­inga­við­ræðum verður mér litið á skyrtu­brjóst­ið. Þar stendur rauðum stöfum með kunn­ug­legu vöru­merki: Marel Food System. Já, litli heim­ur! Fata­söfnun Rauða kross­ins er greini­lega að skila sér. Ég segi honum í óspurðum fréttum að faðir minn hafi verið fyrsti stjórn­ar­for­maður fyr­ir­tæk­is­ins. Samn­ingar nást. Á rölt­inu um nær­liggj­andi hverfi blasir fátæktin við í sinni ljós­ustu mynd. Hreysi við hreysi, mor­andi mann­líf og allir að sýsla eitt­hvað í sinni litlu ver­öld, sem er full af ærslum og gleði. Svo snýr maður til baka á hót­el­her­bergið þar sem nóttin kostar á við árs­tekjur hjá fólk­inu handan við hornið og spyr sig: Er ekki eitt­hvað bogið við þetta allt sam­an? Eða stóð kannski svarið á skyrtu­brjóst­inu fyrr um dag­inn? Er ekki menntun og þekk­ing ásamt auknum við­skiptum lyk­ill­inn að því að bæta þetta? Í fyll­ingu tím­ans.

Messað yfir mér
Á leið­inni í sunnu­dags­messu klukkan sjö að morgni er kallað til mín yfir göt­una: Hey, Mr. White, whass­up? Í næstu mal­ar­götu eru karl­menn í fót­bolta. Kirkju­bygg­ingin er nýleg og stór. Hvíta­sunnu­söfn­uðir eru í öru­stum vexti í land­inu, með tvær millj­ónir með­lima. Þeir rekja sig til írska trú­boð­ans James McKeown sem kom til Gana 1937 á vegum bresku post­u­la­kirkj­unn­ar. Flokka­drættir gerj­uð­ust, McKeown hélt velli og stofn­aði eigin söfn­uð. Sal­ur­inn er gímald, hér er allt fyrsta flokks, sætin eins og í bíósal, stórir sjón­varps­skjáir og mik­ill hljóm­bún­að­ur. Full kirkja, 500 manns. Ég fæ mér sæti og bók­artitl­inum Svört messa skýtur upp í huga mér. Ég er hvítur hrafn. Prest­ur­inn, Pétur að nafni, kemur fljót­lega aðvíf­andi í tein­óttum jakka­fötum og heilsar upp á mig. Heldur yfir mér tölu um kjarn­ann í trúnni sem ég gríp ekki alveg en skilst þó að hann hafi snúið einum múslíma fyrir skemmstu. Pétur þjón­aði áður í norð­ur­hluta Gana þar sem hann segir að ríki villu­trú og galdr­ar.

− Það hljómar spenn­andi, segi ég. Pétur hvá­ir. Síðan hefst messu­haldið með presti, þremur söngv­urum og sex manna hljóm­sveit sem er í gler­búri til hliðar við alt­ar­is­svið­ið. Byrj­unin er ærandi hall­elú­ja-­söng­ur, fólk hoppar og syng­ur, veifar vasa­klút­um. Pétur prestur leiðir með sker­andi hrópum og kirkju­gestir bylgj­ast í hreyf­ingum fagn­að­ar­ins. Þessu slotar eftir dágóða stund, fólk kemur upp á svið eitt af öðru og segir sögur af veik­indum ætt­ingja sinna og fær við­brögð í sam­úð­arstunum úr sal. Einn segir af getn­aði sem heppn­að­ist óvænt fyrir til­stilli almætt­is­ins. Þá tekur hljóm­sveitin við og hávær múgsefj­un­ar­söng­ur. Pétur prestur stendur afsíðis og virð­ist ekki nenna þessu leng­ur. Fólk fellur í gólf­ið, baðar út hönd­um. Hátal­arar ískra, hljóð­himnur strekkj­ast. Svo lækkar þetta og hefst þá pen­inga­söfnun þar sem fólk kemur dans­andi inn á sviðið og stingur seðlum í stóran söfn­un­ar­kassa á hjól­um.

Þegar búið er að plokka söfn­uð­inn er komið að predikun dags­ins sem fjallar um vænt­ingar eig­in­kon­unnar til eig­in­manns­ins. Að henni lok­inni koma eig­in­kon­ur, hver af annarri og lýsa reynslu sinni. Ein þeirra segir karl­menn vera stöðugt blaðr­andi utan heim­ilis en svo sé ekki hægt að draga stakt orð upp úr þeim þegar þeir eru heima hjá sér. Sú lýs­ing fellur í góðan jarð­veg. Hljóð­nemi gengur um sal­inn og sögur af sam­búð kynj­anna koma á færi­bandi, með reglu­legum hlátra­sköllum úr sal. Eftir þriggja stunda messu held ég heim á hót­el, upp­veðr­aður eins og eftir góða leik­sýn­ingu og fátæktin allt í kringum mig hefur skipt lit­um.

And­ófs­maður
Þegar Gull­ströndin fékk sjálf­stæði fyrst Afr­íku­ríkja 1957 og end­ur­vakti 11. aldar gull­ald­ar­nafn­gift, Gana, voru miklar vonir bundnar við þetta nýfrjálsa ríki. Fyrrum fangi og frels­is­hetja, Kwame Nkrumah, varð for­sæt­is­ráð­herra og naut heims­at­hygli fyrir aðsóps­mikla fram­komu. En hann fór offari, landið sökk í skulda­fen og níu árum eftir sjálf­stæði var það komið á helj­ar­þröm. Nkrumah var steypt af stóli. Við tóku erfið ár þar sem her­inn réð ríkj­um. Árið 1979 kom inn á hið póli­tíska svið flug­maður í hern­um, Jerry Rawl­ings, hálfur Gani, hálfur Skoti. Hann tal­aði máli alþýð­unn­ar, ögraði hernum og stóð fyrir aftöku nokk­urra valda­manna. Rawl­ings stjórn­aði með harðri hendi í 18 ár, bann­aði aðra flokka og sendi and­ófs­menn í fang­elsi. Einn þeirra heitir Kwame Pianim.

Í úthverfi Accra býr Kwame Pianim ásamt hol­lenskri konu sinni. Hann kom til Reykja­víkur árið 1994 á þing frjáls­lyndra stjórn­mála­flokka og kynnt­ist nokkrum Íslend­ing­um, þar á meðal föður mín­um. Þá var Pianim nýlega laus eftir tíu ára fang­els­is­vist, sak­aður um valda­ránstil­raun. Hann situr á móti mér með grá­sprengt hár, virðu­legt yfir­bragð. Mennt­aður í hag­fræði frá Yale og hefur verið áber­andi í stjórn­mála- og við­skipta­lífi Gana und­an­farna ára­tugi. Hann segir að sér hafi verið varpað í fang­elsi vegna stjórn­ar­and­stöðu sem hafi verið fylli­lega lög­mæt. Ég spyr hvernig sú reynsla hafi ver­ið.

− Það var erfitt, fyrsti dag­ur­inn, fyrsta vikan, fyrsti mán­uð­ur­inn, fyrsta árið. Svo aðlag­ast mað­ur. Ég átti góða fjöl­skyldu. Ég sat ekki auðum höndum í fang­els­inu heldur fékk ég leyfi til að rækta græn­meti og fékk styrk frá kaþ­ólsku kirkj­unni til að koma því á legg. Í lokin hafði sú ræktun skilað ríf­lega 100 millj­ónum króna inn á banka­bók fang­els­is­ins. Þá var ég færður um set til Elm­ina sem er við strönd­ina. Ég fékk nunnur til að lána fang­els­inu fyrir bát sem kost­aði 30 millj­ónir og við fórum í útgerð sem borg­aði bát­inn upp á sex mán­uð­um. Við náðum að fæða fang­elsið og afgang­inn seldum við á mark­aði. Fang­els­is­vistin betr­aði mig sem ein­stak­ling, jafn­vel þótt mér blöskr­aði að sitja inni fyrir órétt­mætar sak­ir. Ég kom út betri mað­ur. Ég kynnt­ist því líka hvernig sak­laust fátækt fólk situr inni eftir órétt­láta máls­með­ferð og fær enga lög­fræði­að­stoð. Það er sárt að horfa upp á. 

Und­an­farin ár hefur Pianim verið atkvæða­mik­ill í atvinnu­líf­inu í Gana og beitt sér fyrir ýmiss­konar nýsköp­un. Synir hans starfa í London og annar þeirra var giftur dóttur fjöl­miðla­mó­gúls­ins Róberts Mur­doch.

facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105