Heimsljós
veftímarit um þróunar- og mannúðarmál
10. árg. 344. tbl.
6. desember 2017
Utanríkisráðuneytið styrkir nýtt verkefni:
Vilja virkja afrískar konur í frumkvöðlastarfi í orkumálum
U tanríkisráðuneytið er styrktaraðili verkefnisins Africa Women Energy Entrepreneur Framework (AWEEF) sem hleypt var af stokkunum í aðdraganda Umhverfisþings Sameinuðu þjóðanna (UN Environment Assembly) sem stendur yfir þessa dagana í Næróbí í Kenía. Verkefnið er leitt af Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP).

Að sögn Péturs Waldorffs frá Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna er verkefnið vettvangur til að virkja afrískar konur í frumkvöðlastarfi sem tengist orkumálum og til að hasla sér völl í ákvarðanatöku um orkumál og sem lykil hagsmunaaðilar í virðiskeðju orku innan álfunnar. "Verkefninu er ætlað að taka á þeim áskorunum og hindrunum sem koma í veg fyrir fulla þátttöku kvenna innan orkugeirans í álfunni. Þannig eru leiddir saman kvenfrumkvöðlar í afríska orkugeiranum, orkustofnanir, ríkisstofnanir, fjármálastofnanir, vísinda- og fræðimenn, einkageirinn, aðilar úr viðskiptalífinu og frjáls félagasamtök," segir Pétur.

Hann bendir á að þótt konur í Afríku gegni lykilhlutverki sem framleiðendur, dreifingaraðilar og neytendur orku bæði i þéttbýli og til sveita í Afríku hafi þær lítil áhrif á ákvarðanatöku í orkumálum álfunnar sem og á þær lausnir sem í boði eru þegar kemur að hreinni og sjálfbærri orkunýtingu. Að sögn Péturs tengir AWEEF þörfina á endurnýjanlegri orku við jafnréttismál og félagslega og efnahagslega þróun með því að auka aðgengi kvenna að ódýrri, sjálfbærri og hreinni orku og með aðkomu kvenna að lausnum í orkumálum. "Með því að taka á þessum samþættu málum á heildstæðan hátt tekur verkefnið til ýmissa Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, þar á meðal til markmiðs nr. 5 um jafnrétti kynjanna, markmiðs 7 um sjálfbæra orku og markmiðs13 um verndun jarðarinnar.

Viðstaddir setningu AWEEF voru Davíð Bjarnason frá þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins, Jón Geir Pétursson frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu auk Péturs Waldorffs frá Jafnréttisskólanum en hann tók einnig þátt í pallborðsumræðum fyrir hönd UNU-GEST á þessum viðburði.

Staðreyndir um orkumál í Afríku:
  • 600 milljón manns hafa ekki aðgang að rafmagni
  • 730 milljón manns notast við eldivið og/eða kol sem megin orkugjafa
  • Um 600 þúsund manns deyja á ári hverju vegna loftmengunar innan afrískra heimila. 60% þeirra eru konur.
  • Miðað við framgang mála í dag mun taka til ársins 2080 að veita öllum íbúum Afríku aðgengi að rafmagni og ekki næst að veita aðgengi að hreinni orku til eldunar fyrr en um miðja 22. öldina.
(Atlas of Energy Resources 2016)


Skýrsla Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um almannatryggingar:
Fjórir milljarðar jarðarbúa án félagslegrar verndar

Þrátt fyrir verulegar framfarir á sviði almannatrygginga í mörgum heimshlutum fer því fjarri að slík félagsleg réttindi séu tryggð fyrir alla jarðarbúa. Samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóðavinnumála-stofnunarinnar (ILO) hefur meirihluti íbúa í heiminum enga félagslega vernd, eða um fjórir milljarðar einstaklinga. Margt er því ógert í baráttunni fyrir félagslegum réttindum, eins og segir í skýrslunni. 

Markmið 1.3 í Heimsmarkmiðunum vísar til almannatrygginga en þar segir orðrétt: "Ráðstafanir verði gerðar til samræmis við aðstæður í hverju landi til að innleiða félagsleg tryggingakerfi og vernd öllum til handa, þar með talin lágmarksframfærsluviðmið, og eigi síðar en árið 2030 verði stuðningur við og vernd fátæks fólks og fólks í viðkvæmri stöðu stóraukinn."

Í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna segir að allir þjóðfélagsþegnar eigi rétt til almannatrygginga (22. gr.) Samkvæmt skýrslu ILO eru þessi mannréttindi þó aðeins í boði fyrir 45% íbúa jarðarinnar. Það er hlutfall þeirra sem hafa viðurkenndan rétt til einhverrar félagslegrar verndar. Ef horft er hins vegar til þeirra sem hafa víðtækar almannatryggingar er einungis verið að vísa til 29% mannkyns. Og það þýðir að mikill meirihluti, 72% eða 5,2 milljarðar manna, hefur alls enga eða mjög takmarkaða félagslega vernd.


"Skortur á félagslegri vernd leiðir til þess að margir eru illa staddir alla ævina ef eitthvað bjátar á eins og fátækt, ójöfnuður eða félagsleg útilokun. Að neita fjórum milljörðum einstaklinga um þessi mannréttindi felur í sér verulega hindrun fyrir efnahagslega og félagslega þróun. Þótt mörg ríki hafi náð langt í að styrkja félagsleg öryggisnet er brýnt að kosta kapps um að tryggja öllum rétt til félagslegrar verndar," sagði Guy Ryder framkvæmdastjóri ILO þegar skýrslan var kynnt á dögunum.
Enginn friður í sjónmáli:
Óðaverðbólga í Suður-Súdan og hálf þjóðin við hungurmörk

Enn eru því miður engin teikn á lofti um frið í Suður-Súdan sem sex árum eftir sjálfstæði er meðal þeirra þjóða heims sem býr við mestan óstöðugleika. Vopnuð átök eru daglegt brauð og hálf þjóðin - um sex milljónir manna - hefur vart til hnífs og skeiðar. 

Hungursneyð var lýst yfir í febrúar á þessu ári en þótt henni hafi verið afstýrt með gífurlegri utanaðkomandi mannúðaraðstoð er matvælaóöryggi áfram útbreitt í landinu.

Um tvær milljónir Suður-Súdana hafa flúið land og svipaður fjöldi er á vergangi innanlands. Í nýju riti Alþjóðabankans um leiðir til þess að koma á efnahagslegum stöðugleika segir að samdráttur í hagkerfinu nemi á einu ári um 11 prósentum vegna átaka, minnkandi olíuframleiðslu og minnkandi landbúnaðarframleiðslu sem hvoru tveggja eru afleiðingar borgarastyrjaldarinnar í landinu. Skuldir þjóðarinnar, verðbólga og markaðsverð á vörum hafa stórhækkað. Almenningur hafi í fæstum tilvikum ráð á því að kaupa í matinn.

Í ritinu  sem heitir - Taming the Tides of High Inflation in South Sudan - segir að fátækt í borgum hafi aukist úr 49% árið 2015 í 70% árið 2016. Með rýrnandi kaupmætti hafi margir launþegar og fólk á vinnumarkaði verið dregið niður í sárustu fátækt. Sömu sögu megi segja af þeim sem rekið hafi eigin fyrirtæki. Skýrsluhöfundar segja að ástandið í fjármálum sé skelfilegt, vangoldin laun opinberra starfsmanna hlaðist upp og ríkisstjórnin stundi seðlaprentun með tilheyrandi óðaverðbólgu.

Nánar
Alþjóðadagur fatlaðra:
Skapa þarf samfélög sem bjóða raunveruleg tækifæri fyrir alla

Ryðja verður burt jafnt áþreifanlegum sem menningarlegum hindrunum til þess að skapa samfélög, sem bjóða upp á raunveruleg tækifæri fyrir alla, alls staðar, sögðu fulltrúar Sameinuðu þjóðanna á alþjóðlegum degi fatlaðra síðastliðinn sunnudag, 3. desember. Upplýsingaskrifstofa SÞ, UNRIC, greindi frá.

"Fólk sem býr við fötlun hefur hlutverki að gegna í viðleitni til að ná Heimsmarkmiðum um sjálfbæra þróun sem tryggja víðtæka þátttöku. Mikilvægt atriði í svokallaðri áætlun 2030 um sjálfbæra þróun er "að engan beri að skilja eftir," segir í frétt UNRIC.

 "Samt sem áður er fólk sem býr við fötlun, of oft útilokað frá því að semja, gera áætlanir og hrinda í framkvæmd stefnumörkun og áætlunum sem hafa áhrif á líf þeirra. Fatlaðir sæta of oft mismunun á vinnumarkaði og hvað varðar aðgang að menntun og annarri þjónustu," sagði António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi. "Við verðum að beisla kraft og kunnáttu þessa hóps til að hanna og þróa viðráðanlegar og frumlegar lausnir til að tryggja jafnrétti fyrir alla," segir Guterres.

Nánar
Sameinuðu þjóðirnar óska eftir rúmum tveimur milljörðum í neyðarhjálp
Sameinuðu þjóðirnar óska eftir 22,5 milljörðum Bandaríkjadala til hjálparstarfa á næsta ári. Samtökin hafa aldrei fyrr óskað eftir jafn háum framlögum til þessa málaflokks, en þetta svarar til sem nemur 2.350 milljarða króna á núgildandi gengi, eins og fram kom í frétt RÚV á dögunum. "Sameinuðu þjóðirnar biðla til allra aflögufærra aðildarríkja um framlög, en markmiðið er að koma brýnustu nauðsynjum til þeirrar 91 milljónar jarðarbúa sem eru í mestri neyð," sagði þar ennfremur.

Að sögn RÚV er um þriðjungur þessara fjármuna, 7,7 milljarðar dala, hugsaður til að lina þjáningar þrautpíndra Sýrlendinga, jafnt innan landamæra Sýrlands sem utan. Hálfur þriðji milljarður til viðbótar er nauðsynlegur til að bjarga lífi þeirra sem verst eru sett í hinu stríðshrjáða Jemen, en Sameinuðu þjóðirnar viðurkenna að markmið þeirra miðist við að samtökin geti einungis hjálpað um helmingi þeirra 20 milljóna Jemena sem þurfa nauðsynlega á aðstoð að halda. Samtals þarf því yfir 10 milljarða dala, ríflega 1.000 milljarða króna, til að sinna brýnustu verkefnum í þessum tveimur löndum.

Þá fer þörfin fyrir neyðarhjálp vaxandi í nokkrum Afríkulöndum, segir RÚV, og er talin þörf á yfir einum milljarði Bandaríkjadala, ríflega eitt hundrað milljörðum króna, til neyðaraðstoðar í hverju landi um sig Kongó, Eþíópíu, Nígeríu, Sómalíu, Súdan og Suður-Súdan. Söfnunarmarkmið yfirstandandi árs var litlu lægra, eða 22,2 milljarðar dala. Um 13 milljarðar höfðu safnast í nóvember, sem er nýtt met. 

Breytingar á viðhorfum í heiminum:
Aðgerðir í loftslagsmálum taldar mikilvægasta málefni samtímans
Góð menntun var langefst á lista í umfangsmestu skoðanakönnun sem gerð hefur verið og lagði grunn að Heimsmarkmiðunum á sínum tíma. Nýlega var gerð sambærileg könnun meðal þjóða heims og þá kom á daginn að miklar viðhorfsbreytingar hafa orðið á skömmum tíma því áhersluatriðið sem var í fyrri könnun í neðsta sæti (16. sæti) er víðast hvar komið upp í efstu sæti og víða einfaldlega í efsta sætið. Það áhersluatriði er "Aðgerðir í loftslagsmálum."

Oft er vísað til Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna sem markmiða þjóða heims, fólksins sem býr á þessari jörð. Ástæðan er sú að við undirbúning áætlunar 2030 (Agenda 2030) sem er annað heiti á Heimsmarkmiðunum var leitað álits hjá milljónum manna og slegin heimsmet í samráði. Alls tóku til dæmis um 10 milljónir manna þátt í stærstu skoðanakönnun sem gerð hefur verið. Hún var framkvæmd á vefnum My World. Þar bar hverjum og einum að forgangsraða atriðum á lista og segja álit sitt á því hvaða atriði hefðu mesta þýðingu fyrir viðkomandi, fjölskyldu og samfélag. Könnunin var á vegum Sameinuðu þjóðanna og leiðarljós í víðtæku samráðsferli við gerð Heimsmarkmiðanna -  sjálfbæru þróunarmarkmiðanna (Sustainable Development Goals).

Eins og margoft hefur komið fram var góð menntun langefst á þessum lista yfir sextán forgangsatriði. Betri heilbrigðisþjónusta, fleiri atvinnutækifæri og heiðarleg, ábyrg stjórnvöld voru í sætunum þar fyrir neðan. Aðgerðir í loftslagsmálum voru neðstar á blaði, í sextánda sæti.

Eins og áður segir var gerð önnur sambærileg könnun á My World vefnum og þá kom í ljós að mikil breyting hafði orðið meðal fólks á skömmum tíma til mikilvægustu málefna samtímans. Aðgerðir í loftslagsmálum er hvarvetna í heiminum orðið eitt það allra mikilvægasta.

Nýr samningur við WoMena um fræðslu til skólastúlkna í Buikwe

The Story of WoMena

Sendiráð Íslands í Kampala hefur endurnýjað samning við dönsku samtökin WoMena um áframhaldandi stuðning við stúlkur í fiskiþorpum Buikwe héraðs í Úganda. Nýi samningurinn er til tveggja ára.

Samtökin hafa það að markmiði að efla kynheilbrigði ungmenna. Samtökin vinna að því að opna umræðu um blæðingar og veita skólastúlkum fræðslu um auðvelda og viðeigandi stjórnun blæðinga. Kynning á álfabikarnum er hluti af þeirri fræðslu.

WoMena segir í frétt um samninginn að margar stúlkur í fiskiþorpum í grennd við Viktoríuvatn ná ekki að ljúka námi vegna hárra skólagjalda. Einnig flosni þær upp frá námi sökum kostnaðar sem er tilkominn vegna blæðinga. Þá skorti stúlkunum upplýsingar um blæðingar og hvaða lausnir standi þeim til boða á því tímabili.

Samkvæmt samningnum koma 35 kennarar til með að fá sérstaka þjálfun á næsta ári á þessu sviði. Þeir munu síðan fræða 1400 stelpur á aldrinum 13-19 ára í fjórum framhaldsskólum um kynþroskaskeiðið, blæðingar og hvernig nota eigi álfabikarinn og endurnýjanleg dömubindi. Ári síðar fá 300 stelpur til viðbótar í 14 grunnskólum fræðslu um þessi mál. Fram kemur í frétt WoMena að bæði stelpur og strákar komi til með að fá að hluta til sömu fræðslu þannig að allir nemendur í skólum viti hvað gerist hjá stelpum þegar þær verða kynþroska. 

Radi-Aid tilnefningar: Ed Sheeran myndbandið í hópi þeirra verstu?

Batman myndband War Child samtakanna í tilnefnd í "Golden Radiator" flokknum.
Í einni af krækjunum í Heimsljósi í síðustu viku var sagt frá því hvaða kvikmyndabrot kæmu helst til álita sem "versta herferðin" í tengslum við hjálparstarf. Með krækjunni fylgdi kvikmyndabrot frá mörgum breskum hjálparsamtökum með tónlistarmanninn Ed Sheeran í aðalhlutverki þar sem hann gaf sig á tal við götubörn í Líbíu og veitti þeim stuðning.

Svokölluð Radi-Aid verðlaun eru veitt af af Saih, samtökum norskra háskólastúdenta sem hvetja hjálparsamtök og aðra sem vinna að baráttunni gegn fátækt til þess að hverfa frá staðalímyndum og fátæktarklámi, eins og það er kallað. Verðlaun er veitt í tveimur flokkum, góðu herferðirnar í "Golden Radiator" og þær vondu í "Rusty Radiator."

Myndbandið með Ed Sheeran þykir sigurstranglegt til verðlauna í ár í Rusty-flokknum, en eins og fram kemur í frétt the Guardian er það að margra mati miður gott með einfeldningslegri áherslu á hvítan bjargvætt þar sem götubörnin njóta engrar lágmarks virðingar. Myndin var framleidd af Comic Relif and the Disasters Emergencies Committee (DEC) og var hluti af fjáröflunarherferð þrettán hjálparsamtaka í Bretlandi, meðal annars Save the Children, Oxfam og Action Aid.

Beathe Øgård forseti Saih segir í The Guardian að bresku kvikmyndirnar frá Líbíu sýni heimamenn sem fórnarlömb og þetta sé alltof einföld, forneskjulega aðferð til að segja frá þróunarstarfi. "Við höfum séð álíka myndir allt frá árinu 1980," segir hún. "Hræðilegt að horfa á þær. Fólk er búið að sjá svona myndir svo oft að þær kalla fram tilfinningu um vonleysi og sýna þróun í neikvæðu ljósi."

Kosning um bestu og verstu herferðirnar lauk í fyrradag og úrslit verða tilkynnt formlega á morgun, fimmtudag. Myndbandið hér að ofan - Batman - er á listanum yfir bestu herferðirnar, framleitt fyrir hollensku samtökin War Child.

Auglýst eftir háskólamenntuðum fulltrúum á sviði þróunar-samvinnu og upplýsingafulltrúa Heimsmarkmiðanna

Utanríkisráðuneytið óskar eftir að ráða háskólamenntaða fulltrúa til starfa á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu s.s. á sviði tvíhliða og fjölþjóðlegrar þróunarsamvinnu,
svæðasamstarfs, samstarfs við atvinnulífið og borgarasamtök auk Heimsmarkmiða SÞ.

Ennfremur óskar ráðuneytið eftir að ráða upplýsingafulltrúa á sviði Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Upplýsingafulltrúinn þróar og vinnur upplýsingaefni til að auka meðvitund og skilning á Heimsmarkmiðunum og hugar sérstaklega að samþættingu þeirra við starfsemi Stjórnarráðsins.

Umsóknarfrestur um stöðurnar er til og með 18. desember 2017. Umsóknir skulu berast á netfangið umsokn@mfa.is, merkt  annars vegar "Háskólamenntaðir fulltrúar á sviði þróunarsamvinnu 2017" og hins vegar "Upplýsingafulltrúi á sviði Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna 2017."

Ráðuneytið hvetur karla jafnt sem konur til að sækja um störfin. Litið verður svo á að umsóknir gildi í sex mánuði frá því að umsóknarfresti lýkur. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvarðanir um ráðningar hafa verið teknar.

Nánari upplýsingar um fulltrúana í alþjóðlegri þróunarsamvinnu veitir Þórarinna Söebech
(thorarinna.soebech@utn.stjr.is), s. 5459900 en Urður Gunnarsdóttir (urdur.gunnarsdottir@utn.stjr.is) veitir upplýsingar um fulltrúa Heimsmarkmiðanna.

Helen Clark á fundi í utanríkisráðuneytinu
Helen Clark fráfarandi yfirmaður Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP) til margra ára og fyrrverandi forsætisráðherra Nýja-Sjálands átti á dögunum óformlegan fund með starfsfólki á þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins, fulltrúum háskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi og fulltrúum Landsnefnda Sameinuðu þjóða stofnana. Helen var hér á landi í tilefni af ársfundi Women Political Leaders.
 
Myndin af Helen Clark og Maríu Erlu Marelsdóttur skrifstofustjóra þróunarsamvinnuskrifstofu var tekin í lok fundarins.

Áhugavert

Róhingjar á flótta - Kjarni vandans, eftir Melkorku Mjöll Kristinsdóttur/ Kjarninn
-
The fight against AIDS is filled with heroes. Learn how you can be one too, eftir Bill Gates/ GatesNotes
-
Opinion: EU-Africa summit ends with empty words/ Leiðari í DW
-
Non-state actors in governance systems: friend or foe?/ ODI
-
Call to Action on Protection from Gender-Based Violence in Emergencies/ CallOnActionGBV
-
Ljósmynd: Elias Willis
Just a few weeks ago I was working in Yemen. Here's what I witnessed, eftir Tatiana Chiarella/ Læknar án landamæra
-
Access to Contraception: A Key Ingredient in Women's Economic Empowerment, eftir Amanda Glassman/ CGDev
-
EU-Africa Summit: Shaping the Future of Migration Today, eftir Anita Käppeli og Ehui Adovor
-
In Focus: Leave No One Behind - End Violence against Women and Girls/ UNWomen
-
Shining the spotlight on 5 neglected emergencies/ UN, Medium
-
Next Week There Is a Chance to Shape Global Migration This Century. Here Is One Way to Seize It, eftir Michael Clemens/ CGDev
-
Business as usual? Partnering with governments in Africa, eftir Marie Balt ofl./ INCLUDE
-
5th December, World Soil Day/ FAO
-
Panorama's Syria allegations show the UK's aid needs greater transparency, eftir Kate Osamor/ TheGuardian
-
A day on the front line with the Rohingya refugees - Fighting malnutrition in Bangladesh/ WFP, Medium
-
New Evidence on the Health Loss but not the Health Gain from WHO's 2009 AIDS Treatment Guidelines, eftir Mead Over/ CGDev
-
The Guardian view on refugees and migrants: solidarity, not fear/ Leiðari í TheGuardian
-
Det er for mye skråsikkerhet i utviklingsbransjen, eftir Nikolai Hegertun/ Bistandsaktuelt
-
Ecological restoration, critical for poverty reduction, eftir JOAQUIM LEVY/ Alþjóðabankablogg

Rannsókn á kynferðislegu ofbeldi í hjálparstarfi

Síðustu vikur hafa einkennst af frásögnum kvenna af kynferðislegri áreitni og nú hefur bandaríski fréttamiðillinn Devex sem sérhæfir sig í fréttum af þróunar- og hjálparstarfi ákveðið að kalla eftir ítarlegri frásögnum um áreitni og ofbeldi á þessu sviði.

Samkvæmt könnun sem Devex vitnar til í frétt þekkja 86% starfsmanna í þróunar- og hjálparstarfi til samstarfsfélaga sem hafa upplifað kynferðislegt ofbeldi í tengslum við vinnu sína.

Myllumerki er #aidtoo.100 days of horror and hope: A timeline of the Rohingya crisis/ UNHCR
-
Government suspends support for foreign aid project in Syria over claims cash is being diverted to extremists/ Telegraph
-
15 000 nye internflyktninger i Afrika - hver dag/ Bistandsaktuelt
-
Africa is the dumping ground for 40% of the world's reported fake medicines/ Qz
-
Bandaríkin hætta þátttöku í sáttmála um flótta- og farandfólk/ Vísir
-
How progress on AIDS shapes the road to universal health coverage, eftir Mandeep Dhaliwal/ UNDP
-
Zimbabwe: Robert Mugabe's legacy/ AmnestyInternational
-
Vatn er von/ Hjálparstarf kirkjunnar
-
Towards a Climate-Smart World: 12 Ways for a Resilient Future/ Alþjóðabankinn
-
From Nepal to Nigeria, UK aid aims to save 500,000 people from slavery/ Reuters
-
Rohingya girls as young as 12 compelled to marry just to get food/ TheGuardian
-
Drones take flight to help end hunger/ WFP
-
Airbnb launches a development roadmap/ Devex
-
Poland ready to step up aid to Africa: PM/ TheNews
-
No home for refugees in Rome - Italy's policies appear designed to deter asylum seekers but most have nowhere else to og/ IRIN
-
Migration crisis dominates discussions at AU-EU Summit/ Devex
-
Refugee orchestra wins standing ovation/ UNHCR
-
Facebook pledges $50M annual match for disaster aid donations/ CBS
-
Ghana's president surprised Macron with a clear rejection of development aid/ Euractiv
-
Tory MP hits back at rightwing foreign aid critics/ TheGuardian
-
Report: Corporate action on SDGs stalling two years on/ EDIE
-
Antalya: South-South Development Expo closes with strengthened cooperation to achieve Global Goals/ UNNewsCentre
-
Advocates welcome DFID pledge on disability, warn of complexities/ Devex
-
Framgångsrikt samarbete med Bill & Melinda Gates Foundation/ SIDA
-
Seriously, that was a joke: Macron defends Africa air-conditioning gag/ France24
-
British royals' complicated relationship with Africa/ CNN
-
Sida satsar 400 miljoner kronor på sexuell hälsa i södra och östra Afrika/ SIDA
-
British aid scheme suspended amid allegations of payments to Syrian jihadis/ TheGuardian
-
'Super beans' raise hopes in hunger-prone parts of Africa/ News24
-
Africa's youth: A ticking time bomb?/ DW
-
Suddenly, Zimbabwe's biggest newspaper can print exactly what it wants. It's harder than it sounds/ WashingtonPost
-
WORLD BANK GROUP YOUTH SUMMIT 2017: TECHNOLOGY AND INNOVATION FOR IMPACT/ Alþjóðabankinn
-
Exclusive: Chemonics battles wave of challenges with $9.5B health supply chain project/ Devex
-
Aid groups warn of looming emergency at Greek asylum centres/ TheGuardian
-
Ethnic violence in Ethiopia leaves deep wounds/ DW
-
UN calls for 'humanitarian pause' in Yemen as conditions in capital deteriorate/ IRIN

Fundur með framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptamiðstöðvarinnar

Sturla Sigurjónsson, ráðuneytisstjóri átti í síðustu viku fund með Arancha González framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptamiðstöðvar innar (International Trade Centre, ITC) sem er sameiginleg stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunari nnar (World Trade Organisation, WTO) og Sameinuðu þjóðanna og er eina alþjóðlega þróunarstofnunin sem leggur sérstaka áherslu á alþjóðavæðingu lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Á fundinum var meðal annars rætt um stöðuna í alþjóðaviðskiptum og jafnréttismál og þróunarsamvinnu.

Íslensk kvikmynd um hælisleitanda sýnd á Sundance

Íslenska kvikmyndin Andið eðlilega í leikstjórn Ísoldar Uggadóttur hefur verið valin til þátttöku í aðalkeppni á hinni virtu  Sundance kvikmyndahátíð í Park City í Bandaríkjunum í janúar. Um er að ræða heimsfrumsýningu myndarinnar. Þetta er í annað skipti sem íslensk mynd er valin í aðalkeppni hátíðarinnar.

Ísold Uggadóttir er leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar. Með aðalhlutverk fara leikkonurnar Kristín Þóra Haraldsdóttir og Babetida Sadjo.

Andið eðlilega fléttar saman sögum tveggja ólíkra kvenna, hælisleitanda frá Gíneu-Bissá og ungrar íslenskrar konu sem hefur störf við vegabréfaskoðun á Keflavíkurflugvelli. Leiðir þeirra liggja saman á örlagastundu í lífi beggja og tengjast þær óvæntum böndum.

Andið eðlilega er fyrsta kvikmynd Ísoldar í fullri lengd. Áður hefur hún leikstýrt stuttmyndunum Góðir gestir, Njálsgata, Clean og Útrás Reykjavík, sem allar voru valdar til sýninga á kvikmyndahátíðum víða um heim og hlutu fjölda viðurkenninga. Ísold lauk meistaranámi í leikstjórn og handritagerð frá Columbia háskóla í New York vorið 2011.

Andið eðlilega verður frumsýnd á Íslandi í febrúar 2018.


Brugðist verði strax við þrælasölu í Líbíu


Um áttatíu þjóðarleiðtogar Afríku- og Evrópuríkja samþykkti í síðustu viku að loknum tveggja daga fundi í Abidjan á Fílabeinsströndinni að flýta aðgerðum til að leysa þúsundir flótta- og farandfólks úr fjötrum í Líbíu. Þar hefur fólkið verið strandaglópar og margir búið við ömurlegar aðstæður. Leiðtogarnir sammæltust líka um það í lok fundarins að herða baráttuna gegn mansali.

Talið er að allt að 700 þúsund flótta- og farandfólk hafist við í búðum í Líbíu og frásagnir síðustu vikna um þrælasölu hafa vakið heimsathygli og hneykslan.


Fyrir hvað stendur CFS?

- eftir Jón Erling Jónasson fastafulltrúa í Róm

Ávarp formanns fæðuöryggisnefndarinnar, Amira Gornass, frá síðastliðnu vori um yfirvofandi hungursneyð í fjórum heimshlutum. 
Hér á vettvangi í Róm, eins og svo víða í Sameinuðu þjóða kerfinu er eins og ekkert hafi merkingu eða tilgang nema það fái skammstöfun. Það á við um Fæðuöryggisnefndina "Committee on World Food Security", sem er nánast aldrei kölluð neitt annað en CFS. Síðan líður tíminn og þeim fækkar sem vita hvað CFS stendur fyrir, nema nánustu aðstandendur. Til upprifjunar og fróðleiks fyrir áhugasama um fæðuöryggismál verður hér farið nokkrum orðum um þessa nefnd, CFS. Í lokin er bent á nokkrar slóðir sem vert er að skoða fyrir þá sem vilja kynna sér betur starf CFS.

Það er margt sérstakt við þessa nefnd sem Fæðuráðstefna FAO í Róm árið 1974 lagði til að stofnuð yrði sem viðbrögð við alvarlegu ástandi sem skapast hafði þá í fæðuöryggismálum í heiminum. Ári síðar stofnaði Aðalráðstefna FAO CFS sem eina af sínum fagnefndum. CFS var ætlað að endurskoða og fylgja eftir stefnum í fæðuöryggismálum þar með talið framleiðslu, aðgengi að og næringu matvæla.

Það er kannski ekki í frásögu færandi að einhver nefnd hafi gleymst eða runnið sitt skeið innan SÞ. CFS varð ein þeirra, hún tapaði mikilvægi sínu og varð ein af þessum nefndum sem ekki þjónaði miklum tilgangi í breyttum heimi. En það sem vert er að segja frá er að aðildarlönd FAO settu árið 2008 af stað heildar endurskoðun á nefndinni og hlutverki hennar. Þessari endurskoðun lauk árið 2009 og hefur CFS síðan starfað með gjörbreyttu sniði og með nýju hlutverki.

Ekki verða hér taldar upp allar þær breytingar sem gerðar voru á nefndinni einungis sagt frá því sem gerir hana sérstaka og vert er að skoða í ljósi stefnu SÞ til 2030 og Heimsmarkmiðanna. Fram til 2009 fundaði CFS aðeins einu sinni á ári og voru aðildarlöndin einu raunverulegu þátttakendurnir. Þessi SÞ nefnd var ekki öðruvísi en aðrar, löndin töluðu þar til allur fundartíminn var nánast liðinn. Það var því oft til málamynda að áheyrnaraðilum sem málið varðar var gefið orðið.

Samráðs- og samstarfsvettvangur um fæðuöryggismál
Mikilvægasta breytingin sem gerð var á nefndinni fólst í því að hún var gerð að raunverulegum samráðs- og samstarfsvettvangi um fæðuöryggismál. Þar sem aðildarlöndin, hagsmunaaðilar, SÞ stofnanir, alþjóðlegar rannsóknastofnanir, fjölþjóða fjármálastofnanir, félagasamtök og einkageirinn taka öll þátt í störfum hennar.

Við endurbæturnar varð til breiðari þátttaka en þekkist annarsstaðar í milliríkjanefndum á vegum SÞ. Reynt var að tryggja að sjónarmið sem flestra hópa heyrðust og að þátttaka þeirra væri á jafnréttisgrunni. Í þessu augnamiði voru sett á fót heildarsamtök frjálsra félagasamtaka annars vegar og einkageirans hins vegar, sem komu fram og töluðu fyrir þeirra hönd í nefndinni. Enn fremur var sérstök ráðgjafanefnd sett á laggirnar til þess að vera framkvæmdaráði CFS til aðstoðar um efnisleg málefni. Þar eiga sæti fulltrúar frá FAO, WFP, IFAD, félagasamtökum, einkageiranum, SÞ stofnunum og nefndum, alþjóðlegum fjármálastofnunum, alþjóðlegum rannsóknastofnunum í landbúnaði og einkarekinna mannúðarfélaga.  

Nefndin í heild sinni fundar í eina viku á hverju ári en milli funda starfar framkvæmdaráð sem í eiga sæti 12 aðildarríki og fundar minnst 6 sinnum á ári. Auk þess eru fjöldi óformlegra vinnuhópa að störfum þar sem allir sem aðild eiga að nefndinni geta tekið þátt á jafnréttisgrunni. Aðalfundur nefndarinnar eru vel sóttir, en í október sl. sóttu um 1.500 fulltrúar fundinn og á meðan á honum stóð voru haldnir um 60 hliðarviðburðir. Á eftir aðildarlöndunum eru fulltrúar félagasamtaka fjölmennastir þar á eftir eru fulltrúar einkageirans en þeim hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár. 

En hver eru svo verkefni þessa umræðuvettvangs og hvernig vinnur hann? Í stuttu máli þá má segja að vettvangurinn vinni að því að ná samstöðu um stefnur og pólitíska leiðsögn í fæðuöryggismálum fyrir aðildarríkin. Þetta er gert m.a. með því að fela hópi óháðra og virtra sérfræðinga að gera ítarlega skýrslu til nefndarinnar um ákveðin málefni. Sérfræðingarnir eiga að grundvalla vinnu sína og ráðleggingar á rannsóknum og gögnum sem aflað hefur verið með vísindalegum hætti. Ráðleggingar sérfæðinganna eru síðan lagðar fyrir óformlegan vinnuhóp nefndarinnar þar sem samið er um ráðleggingar sem síðan eru lagðar fyrir aðalfund CFS. Hér er rétt að endurtaka að í þessu samningaferli standa allir sem eiga aðild að nefndinni að baki endanlegum ráðleggingum. Með öðrum orðum aðildarríkin, félagasamtök og einkageirinn standa að baki niðurstöðunni.

Ekki verður fjölyrt hér hver getur verið ávinningurinn af þessari aðferð til þess að ná samstöðu um leiðir í fæðuöryggismálum aðeins vakin athygli á því að þetta er ekki hefðbundin aðferð innan SÞ og að ekki er allir alltaf jafn sáttir við hana. Það er ekki einfalt mál né auðvelt að ná sameiginlegri niðurstöðu um hvernig hátta skuli fæðuframleiðslu þar sem við borðið sitja, svo tekið sé dæmi, bæði fulltrúar smábænda í fjallahéruðum Suður-Ameríku og fulltrúar einkageirans sem tala máli milliliða á borð við Neslé eða Monsanto sem þróar og selur aðföng fyrir landbúnaðinn.

Fórnarlamb eigin velgengni?
Undanfarin tvö ár hefur nefndin verið mikið í sviðsljósinu í Róm. Erfitt hefur reynst að tryggja fjárframlög til hennar, en hún hefur föst framlög frá SÞ stofnununum í Róm FAO, WFP og IFAD, auk frjálsra framlaga aðildarríkjanna. Einnig má segja að nefndin hafi orðið fórnarlamb eigin velgengni þar sem allt of mörg málefni hafa verið sett í vinnslu inn í nefndina. Það hefur svo valdið því að aðildarlöndin hafa ekki náð að sinna störfum hennar sem skildi. Á sama tíma fékk nefndin byr undir báða vængi þegar skýrsla framkvæmdastjóra SÞ, í aðdraganda samþykktar SÞ um yfirlýsingu um stefnumið til 2030 og Heimsmarkmiðin, tók nefndina sem dæmi um hvernig skuli auka þátttöku, samráð og samvinnu allra aðila máls við að ná Heimsmarkmiðunum.

Enn og aftur urðu tímamót í sögu CFS þegar árið 2015 var ákveðið, að mestu sem viðbrögð við fjárhagsvanda hennar, að fara skyldi fram óháð úttekt á störfum CFS. Þessari úttekt lauk á miðju ári 2016 og síðan þá hefur á vettvangi nefndarinnar verið unnið úr úrbótatillögum úttektaraðilanna. Margt mátti betur fara í störfum nefndarinnar að þeirra mati, en þar bar hæst óljós heildarstefna og ákvarðanaferli við verkefnaval sem hefur ekki tekið mið af tiltækum fjármunum.
Hvaða breytingum starf nefndarinnar tekur verður ekki vitað fyrr en á næsta ári, en eitt er víst, af áhuga aðildarlandanna og annarra meðlima nefndarinnar að dæma, að dagar hennar eru ekki taldir og að mikilvægi hennar kann að aukast takist samstaða um frekari endurbætur. En eitt er víst að verkefnin vantar ekki í heimi þar sem 815 milljón manns búa við fæðuskort og tíundi hver jarðarbúi er undir fátæktarmörkum. Vandi sem einungis verður leystur með samstilltu átaki allra sem aðild eiga að landbúnaði og fæðuframleiðslu. Í heimi sem stendur frammi fyrir loftslagsbreytingum sem kalla á gerbreytingu á fæðukerfum mannsins og umgengni við náttúruna.


facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105