Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
10. árg. 315. tbl.
15. febrúar 2017
Ýmist þurrkar eða flóð í samstarfslöndum Íslendinga:
Neyðarástandi lýst yfir í Kenía vegna yfirvofandi hungursneyðar
Síðustu mánuði hafa reglulega birst fréttir um alvarlegar öfgar í veðurfari í sunnanverðri Afríku, flestar tengdar langvarandi þurrkum en einnig fregnir af skyndilegu úrfelli og flóðum í framhaldinu. Í samstarfsríkjum Íslendinga í alþjóðlegri þróunarsamvinnu, Malaví, Mósambík og Úganda, eru ýmist flóð eða þurrkar en hvoru tveggja veldur spjöllum á landi og uppskerubresti.

Þurrkar í Kenía/CGTN
Þurrkar í Kenía/CGTN
Langvarandi þurrkar í stórum hluta Kenía leiddu til þess um síðustu helgi að Uhuru Kenyatta forseti lýsti yfir neyðarástandi. Hátt í þrjár milljónir manna verða við hungurmörk að óbreyttu verði ekki brugðist við með matvælaaðstoð. Forsetinn heitir því að auka slíka aðstoð af hálfu stjórnvalda en hvetur alþjóðasamfélagið til að bregðast við og veita stuðning. Ástandið í grannríkinu, Sómalíu, er einnig mjög alvarlegt og hálf þjóðin sögð búa við uppskerubrest.  Reyndar er sömu sögu að segja um alla austanverða Afríku, þar hafa þurrkar valdið miklum búsifjum á síðustu mánuðum og Reuters fréttaveitan bendir til dæmis á það í frétt í vikunni að matvælaverð í þessum heimshluta hafi stórhækkað vegna þurrka.

Flóð í Malaví
Flóð í Malaví/ljósmynd: Malawi24
Að sögn Ágústu Gísladóttur forstöðumanns sendiráðs Íslands í Lilongve hefur úrkoma í Malaví verið með mesta móti í ár og valdið flóðum og meðfylgjandi vandræðum í 27 héruðum. Um 22 þúsund heimili hafa orðið fyrir skaða af völdum flóða. Hún segir að eftir miklar rigningar í höfuðborginni Lilongve síðastliðinn föstudag hafi komið skyndiflóð í Lingazi ána með hörmulegum afleiðingum. Tvö skólabörn sem lentu í flóðinu á leiðinni í skólann björguðust naumlega með aðstoð þyrlu en að minnsta kosti þrír Malavar drukknuðu. Ágústa segir að aukin flóð á regntímanum á undanförnum árum séu meðal annars rakin til mikillar skógareyðingar í landinu.

Þurrkar í Úganda
Stefán Jón Hafstein forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala segir að Úgandabúar hafi gengið í gegnum erfitt þurrkaskeið undanfarna mánuði og nú sé talið að hátt í ein og hálf milljón manna glími við fæðuskort vegna uppskerubrests.  Hann segir mataraðstoð hafa hafist á afmörkuðum stöðum í norður Úganda.  Það veki miklar áhyggjur að vatnsborð stöðuvatna hafi lækkað mikið og þar með dregið úr möguleikum í að afla vatns og veita á akra. Stefán segir að enn hafi ekki verið lýst yfir neyðarástandi en ljóst sé af umfjöllun fjölmiðla að áhyggjur fari mjög vaxandi. Bregðist rigningar í mars og apríl eins og flest bendi til verði ástandið mjög alvarlegt.

Þurkar og flóð í Mósambík
Eftir mikla þurrkatíð 2015-16 í Mósambík er aðeins að rofa til, að sögn Vilhjálms Wiium forstöðumanns sendiráðs Íslands í Mapútó. Hann segir að uppskera síðasta árs hafi brugðist á mörgum stöðum vegna þurrka og hátt í tvær milljónir manna þiggi nú mataraðstoð vegna þessa. "Eins og oft gerist hér þá er skammt stórra högga á milli. Frá því í desember hefur rignt ágætlega á mörgum stöðum í landinu. En, sumstaðar í suður- og miðhluta landsins hefur rigningin verið töluvert meiri en í meðalári og hefur valdið staðbundnum flóðum því ár hafa flætt yfir bakka sína," segir hann. Vilhjálmur nefnir að einhverjir hafi látist í flóðunum, fólk hafi þurft að flýja heimili sín, ræktarland hafi eyðilagst og skólar og heilsugæslustöðvar hafi skemmst. Þá er óttast að flóðin muni aukast á næstunni. Á sama tíma sé vatnsskortur allra syðst í landinu og allra nyrst hafi rigningin komið mun seinna en í meðalári og hafi verið lítil. Uppskerutímabilið - apríl, maí - nálgist og menn óttist að bæði þurrkar og flóð valdi slakri uppskeru í ár.

Brýnt að gera borgir í sunnanverðri Afríku aðlaðandi fyrir fjárfesta

Borgir í sunnanverðri Afríku eru fjölmennar, ótengdar og kostnaðarsamar, segir í nýrri skýrslu Alþjóðabankans sem ber yfirskriftina: Africa´s Cities: Opening Doors to the World. Í þéttbýliskjörnum í þessum heimshluta búa 472 milljónir manna en samkvæmt mannfjöldaspám er reiknað með að þeir verði tvöfalt fleiri eftir aldarfjórðung. Eins og nafn skýrslunnar gefur til kynna er það álit sérfræðinga bankans að borgirnar geti stuðlað að vexti og "opnað dyrnar" að alþjóðamörkuðum svo fremi að þeim sé vel stjórnað.

Borgarsamfélög í Afríku sunnan Sahara geta orðið uppspretta kröftugra breytinga sem geta aukið framleiðni og efnahagslega samþættingu, segir í skýrslunni. Þar segir að borgir geti stuðlað að vexti og þannig "opnað dyr" alþjóðamarkaða með tvennum hætti, annars vegar með því að skapa aðlaðandi umhverfi alþjóðlegra fjárfesta og hins vegar með því að gæta þess að afstýra hækkun kostnaðar þótt íbúum fjölgi.

Borgir í þessum heimshluta eru að mati skýrsluhöfunda einhverjar þær dýrustu í heiminum fyrir viðskiptalífið, miðað við tekjur, og verða áfram "lokaðar heiminum" nema stjórnvöld fjárfesti í innviðum þéttbýlisstaða. Að mati höfundanna eru stórborgir eins og Lagos í Nígeríu, Dar es Salaam í Tansaníu og Kampala í Úganda fremur óaðlaðandi fyrir fjárfesta og frumkvöðla, sem þýðir að innan borganna er tiltölulega lítið framboð af vöru og þjónustu til sölu á bæði alþjóða- og svæðisbundnum mörkuðum.


Vanfjármögnuð neyðarsvæði:
Stuðningur Neyðarsjóðs SÞ við fórnarlömb Boko Haram í Nígeríu
Af þeim tólf milljörðum íslenskra króna sem Neyðarsjóður Sameinuðu þjóðanna (CERF) hefur fengið til ráðstöfunar á þessu ári verða 2,5 milljarðar nýttir í norðausturhluta Nígeríu þar sem vígasveitir Boko Haram hafa hrellt íbúa með ofbeldisverkum á síðustu árum.

Neyðarsjóðurinn styrkir í ár sérstaklega vanfjármögnuð neyðarsvæði í heiminum eins og áður hefur verið greint frá. Stærsti hluti fjárins rennur til fólksins á þeim svæðum Nígeríu þar sem afleiðingar grimmdarverka liðsmanna Boko Haram lýsa sér meðal annars í gífurlegri vannæringu íbúa. Vígasveitirnar hafa farið um með ránum og morðum, brennt heilu þorpin til grunna og skilið eftir sig sviðna jörð í bókstaflegri merkingu.

Að mati CERF eru engin teikn á lofti um að ástandið í þessum heimshluta sé að batna. Mikil þörf er á mannúðaraðstoð og talið að á þessu ári þurfi 8,5 milljónir íbúa í norðausturhluta Nígeríu, í Borno, Adamawa og Yobe fylkjum, á slíkri aðstoð að halda. Þá telja samtökin að 120 þúsund manns séu við hungurmörk og 5,1 milljón íbúa þurfi á matvælaaðstoð að halda um mitt ár. Ennfremur eru 450 þúsund börn á þessu svæði alvarlega vannærð.

Stuðningur Neyðarsjóðsins nær fyrst og fremst til 2,6 milljóna íbúa í fyrrnefndum fylkjum. Ísland hefur veitt framlög til sjóðsins frá upphafi. Á síðasta ári nam framlag Íslands til CERF 35 milljónum króna.  

Þingmenn á tansaníska þinginu hvöttu ríkisstjórnina í síðustu viku til að þrýsta á stjórnvöld í Þýskalandi að greiða miskabætur vegna grimmdarverka sem framin voru í svokallaðri Maji Maji uppreisn fyrir rúmri öld. Ríkisstjórn Tansaníu hyggst fara fram á miskabætur vegna þeirra tugþúsunda íbúa sem sveltir voru til bana, pyntaðir og drepnir af þýskum hermönnum sem börðu niður uppreisn Maji Maji ættbálksins á árunum 1905 til 1907, að því er fram kemur í frétt Deutsche Welle.

Þjóðverjar réðu yfir Tansaníu frá því seint á nítjándu öldinni fram til 1919. Landið var á þeim tíma nefnt Tanganyika.

Þetta er önnur miskabótakrafa sem þýsk stjórnvöld standa frammi fyrir vegna óhæfuverka þýskra nýlenduherra í Afríku í upphafi tuttugustu aldar. Eins og fram hefur komið í Heimsljósi áður hafa samningaviðræður verið í gangi milli þýskra og namibískra stjórnvalda vegna þjóðarmorða á Nama og Herero ættbálkunum. Í meðfylgjandi myndbandi er fjallað um það mál og rætt fyrir fulltrúa beggja ættbálkanna sem eru ósáttir við að eiga ekki fulltrúa við samningaborðið.

Fokk ofbeldi húfan 2017

Eva María Jónsdóttir og Unnsteinn Manúel Stefánsson eru verndarar UN Women.
UN Women á Íslandi kynnir með stolti nýja Fokk ofbeldi húfu. Húfunni er ætlað að vekja fólk til vitundar um stöðuga ofbeldið sem konur og stelpur þurfa að þola á almennings-svæðum í borgum heimsins.

Ofbeldi gegn konum, stúlkum og börnum í almenningsrýmum er vandamál um allan heim. Konur sem búa á þéttbýlissvæðum eru tvöfalt líklegri til að verða fyrir ofbeldi, sérstaklega í fátækustu löndum heims samkvæmt rannsóknum á vegum Sameinuðu þjóðanna. Meira að segja í öruggustu borgum heims eins og Reykjavík verða konur fyrir ofbeldi af ýmsu tagi fyrir það eitt að vera konur. Víða um heim er slíkt ofbeldi daglegt brauð sem hamlar konum að lifa eðlilegu lífi eins og að ferðast til og frá vinnu, ganga í skóla eða eiga sér félagslíf. Með verkefninu Öruggar borgir (Safe Cities Global Initiative) vinnur UN Women að því að gera borgir heimsins öruggari fyrir konur og stúlkur með sértækum lausnum út frá svæðisbundnum veruleika.

Það er ósk UN Women á Íslandi að landsmenn taki þátt í að auka öryggi kvenna og stúlkna í borgum um allan heim með því að kaupa Fokk ofbeldi húfuna. Ágóðinn rennur til verkefnis UN Women Öruggar borgir en vert er að taka fram að Vodafone styrkti framleiðsluna svo allur ágóði rennur til verkefnisins.

Fokk ofbeldi húfan er ætluð fullorðnum. Orðalagið er vísvitandi ögrandi og ætlað að hreyfa við fólki. Ef orðalagið fer fyrir brjóstið á fólki þá er mikilvægt að muna að ein af hverjum þremur konum verða fyrir ofbeldi á lífsleiðinni.

Fokk ofbeldi húfan fæst í verslun Vodafone í Kringlunni dagana 10. - 24. febrúar og í  vefverslun okkar.

Húfan kostar 4.500 krónur og er aðeins til í takmörkuðu upplagi.

UN Women á Íslandi hvetur alla til að næla sér í húfu og gefa um leið ofbeldi fingurinn!

Brýn þörf á skjótri aðstoð við íbúa Jemen:
Ástandið hríðversnar dag frá degi
Skortur á matvælum í Jemen eykst dag frá degi. Þrjár stofnanir Sameinuðu þjóðanna sendu á mánudag frá sér ákall um skjóta aðstoð til að forða hörmungum. Að mati þeirra hafa átökin í landinu leitt til þess að rúmlega tveir af hverjum þremur íbúum eiga í erfiðleikum með að útvega mat fyrir sjálfa sig.

Fréttaskýring AlJazeera: A look at Yemen's plunge into civil war
Á síðustu sjö mánuðum hefur þeim sem búa við matvælaóöryggi í Jemen fjölgað um þrjár milljónir. Það þýðir að alls eru í landinu rúmlega 17 milljónir íbúa sem eiga erfitt með fæðuöflun, þar af eru 7,3 milljónir við hungurmörk. Samkvæmt fyrstu niðurstöðum af viðamikilli könnun á matvælaástandi þjóðarinnar, svokölluðu "Emergency Food Security and Nutrition Assessment (EFSNA)" mati, hríðversnar matvælaöryggi og næringarástand vegna átakanna í landinu.

Skelfilegt ástandið í landinu sést best á því að tveir af hverjum þremur íbúum þjóðarinnar - sem telur  27,4 milljónir manna - skortir nú aðgang að mat og fær ekki viðhlítandi næringu.

EFSNA matið var unnið sameiginlega af hálfu þriggja Sameinuðu þjóða stofnana, Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ (FAO), Barnahjálp SÞ (UNICEF) og Matvælaáætlun SÞ (WFP) í samvinnu við stjórnvöld í Jemen. Þetta er fyrsta umfangsmikla könnun af þessu tagi, sem gerð hefur verið frá því átök blossuðu upp fyrir hartnær tveimur árum. Hún náði til allra heimila í landinu. 

Landsbankinn verðlaunar framúrskarandi fyrirtæki með sönnum gjöfum UNICEF

Í lok janúar var listi yfir þau 624 fyrirtæki sem hlutu viðurkenningu Creditinfo fyrir framúrskarandi árangur í rekstri kynntur. Þar sem meira en helmingur fyrirtækjanna eiga í viðskiptasambandi við Landsbankann sendi bankinn öllum fyrirtækjunum hamingjuóskir með góðan árangur og gaf í þeirra nafni  sannar gjafir hjá UNICEF fyrir hvorki meira né minna en þrjár milljónir króna. 

"Við erum innilega þakklát fyrir þetta ótrúlega rausnarlega framlag," segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi í frétt á vef samtakanna. 

"Það er gleðilegt til þess að vita að börn vítt og breitt um heiminn fái nú hjálpargögn sem gefin voru í nafni fjölmargra fyrirtækja á Íslandi. Við þökkum Landsbankanum hjartanlega fyrir og óskum fyrirtækjunum öllum sem fengu viðurkenninguna til hamingju með árangurinn."

Sannar gjafir UNICEF eru lífsnauðsynleg hjálpargögn fyrir bágstödd börn og er ætlað að bæta líf barna um allan heim. 

Að sögn Völu Karenar Viðarsdóttur, fjáröflunarfulltrúa hjá UNICEF á Íslandi, voru hjálpargögn af öllum stærðum og gerðum í sendingunni frá Íslandi. " Við höfum aldrei fengið jafnstóra pöntun af sönnum gjöfum og erum hæstánægð með þetta," segir Vala. " Gjöfunum verður nú dreift til barna og fjölskyldna þeirra með milligöngu birgðastöðvar UNICEF. Framtakið hjá Landsbankanum er frábært og mun sannarlega koma í afar góðar þarfir."

Sýrland eða seinni heimsstyrjöldin?            

UNICEF frumsýndi nýverið  áhrifaríkt myndband þar sem tvinnaðar eru saman sögur sýrlensks drengs á flótta og drengs sem flúði í seinni heimstyrjöldinni.  

Myndbandið sýnir glöggt þann viðvarandi vanda sem steðjar að börnum á flótta. 

Í þessari tveggja mínútna löngu mynd skiptast á sögur hins 12 ára gamla Ahmeds frá Damaskus í Sýrlandi og hins 92 ára gamla Harrys frá Berlín í Þýskalandi um hvernig þeir neyddust til þess að flýja heimili sín. Þeir segja frá átakanlegu ferðalagi sínu í leit að öryggi. Þrátt fyrir að 70 ár skilji þá að þá eiga þessar tvær sögur margt sameiginlegt og brugðið er upp myndefni af sýrlensku flóttafólki í bland við sögulegt myndefni úr seinni heimsstyrjöldinni.


Áhugavert

-
-

Dear Warren - Our 2017 Annual Letter, eftir Bill og Melindu Gates/ GatesNotes
-
Land Rights and Global Development/ FA
-
Ending the Use of Child Soldiers/ ChildrenAndArmedConflict
-
CHARTING A PATH TO VALUING THE WORLD'S MOST PRECIOUS RESOURCE, eftir Willem Mak og Richard Damania/ SustainableDevelopment
-
Leading economists agree: closing borders is not the answer to inequality, eftir Ashwini Deshpande/ TheConversation
-
Obsession with ending poverty is where development is going wrong/ TheGuardian
-
GOVERNANCE: Setting the right example, eftir Hans Dembowski/ D+C
-
What Do Europeans Think About Muslim Immigration?/ ChathamHouse
-
Three ways to partner with cities and municipalities to mobilize private capital for infrastructure, eftir Sara Perea Sigrist/ Alþjóðabankablogg
-
Could these five innovations help solve the global water crisis?/ TheGuardian
-
RIP Hans Rosling: The data wizard who helped us visualize a better world/ Humanosphere
-
Nu gör städerna comeback i biståndet/ OmVärlden
-
This is how we let Hans Rosling rest in peace, eftir Peter Fällmar Andersson/ HD
-
Quality of ODA (QuODA)/ CGDev
-
Aid Transparency Index: update on the methodology review/ PublishWhatYouFund
-
All I need is the air that I breathe..., eftir Anna Gueorguieva/ Alþjóðabankablogg
-
Sustaining Your World: How Business Can Help Solve the Planet's Challenges
-
No Hidden Figures: Success Stories Can Help Girls' STEM Careers, eftir Phumzile Mlambo-Ngcuka/ IPS
-
View on Gender: Adapt tech to protect female activists/ SciDev
-
The Day I Became a Woman/ UNFPA
The Day I Became a Woman/ UNFPA
-
Private miljøinvesteringer øker kraftig, eftir Ivar Jørgensen/ Noradbloggið
-
Ten Principles on Identification for Sustainable Development, eftir Alan Gelb ofl./ CGDev
-
Maybe the Trump Administration Just Elevated Development Policy, or Maybe Not, eftir Scott Morris/ CGDev
-
Why Kenya has been unable to end a two-month long doctors' strike, eftir Moses Masika/ TheConversation
-
Myopic in Malta: Europe's short-sighted migration policy with Libya, eftir Melissa Phillips/ IRIN
-
Hidden figures: showing the importance of women in science/ UNESCO
-
World Bank poverty measurement in the Agenda 2030 era/ DevInIt
-
Criminal Finances: Should the UK Be Imposing Public Registers of Beneficial Ownership on Its Ex-Colonies?, eftir Maya Forstater/ CGDev
-
New Deforestation Hot Spots in the World's Largest Tropical Forests/ WRI
-
Presidentdatteren som gir voldsofre et ansikt/ Bistandsaktuelt
-
How long can Ethiopia's state of emergency keep the lid on anger?/ TheGuardian

Drög að stefnu UNICEF 2018-2021 kynnt á stjórnarfundi samtakanna í New York

Stjórnarfundur UNICEF var haldinn dagana 7. og 8. febrúar í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna (SÞ) í New York. Framkvæmdastjórn UNICEF er samansett af 36 aðildarríkjum, kjörin til þriggja ára í senn af efnhags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC). 

Úthlutun sæta í stjórninni er svæðisbundin, en lönd í Afríku fá til dæmis 8 sæti á meðan lönd í Vestur-Evrópu og líkt þenkjandi ríkja (WEOG) fá 12 sæti. Ísland átti síðast sæti í framkvæmdastjórn UNICEF 2010, en fylgist með störfum og tekur þátt í stjórninni sem áheyrnarfulltrúi.

Á fundinum voru m.a. kynnt ný drög að stefnu UNICEF 2018-2021, mat á friðartengdu menntaverkefni (PBEA), staða HIV/Alnæmis verkefnis UNICEF, niðurstöður skýrslu endurskoðenda og staða innleiðingar stofnunarinnar á árangurstengdri fjárhagsáætlun og stjórnun. Flestir dagskrárliðir voru til upplýsingar en Haítí og Botswana kynntu nýja landaáætlun, sem var samþykkt án athugasemda. 

Þá tóku til máls fulltrúar 25 landa og gerðu grein fyrir afstöðu landa sinna til nokkurra málaflokka, s.s. samþættingu og samvirkni stofnana SÞ, aukna samþættingu þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar og ákvörðun framlaga til landa. Fulltrúar nokkurra millitekjuríkja tóku til máls og töluðu fyrir því að nota í auknum mæli margvíða fátæktarvísitölu (MPI) í formúlunni sem ákvarðar framlög til landa. 

Ísland tók undir ræðu Noregs um mat á PBEA verkefninu og árangurstengdri stjórnun og fjárhagsáætlun sem og ræðu Sviss um nýja stefnumörkun UNICEF.

Hildigunnur Engilbertsdóttir, starfsmaður þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins sótti fundinn, ásamt því að sækja fundi með Fastanefnd Íslands, UNDP, UNFPA og UN Women. Hún sótti einnig heils dags vinnufund þar sem aðildarríki og áheyrnarfulltrúar fengu tækifæri til þess að hafa áhrif á nýja stefnu UNICEF. 

Fyrir áhugasama er hægt að horfa á stjórnarfundinn í heild sinni hér

Airbnb veitir flóttafólki húsaskjól

Forráðamenn Airbnb vefsíðunnar hafa tekið upp samstarf við alþjóðlegu björgunarsamtökin - International Rescue Committee (IRC) - um skammtíma gistingu fyrir flóttafólk. Airbnb er því komið í hóp fjölmargra fyrirtækja sem hafa ákveðið að styðja við bakið á flóttafólki sem flýr stríðsátök, að því er segir í frétt Reuters fréttaveitunnar.

Að sögn talsmanna Airbnb er ætlunin að hýsa 100 þúsund manns tímabundið á næstu fimm árum, þeirra á meðal flóttafólk, fólk á vergangi, þá sem lifa af hamfarir og útlent starfsfólk sem vinnur að hjálparstarfi og mannúðarmálum. Fyrirtækið hefur aukin heldur lagt fram 4 milljónir bandarískra dala til IRC.Famine looms in four countries as aid system struggles to cope, experts warn/ TheGuardian
-
Nine countries commit to halve maternal and newborn deaths in health facilities/ WHO
-
Trump's 'global gag' aid rule endangers millions of women and children, Bill Gates warns/ TheGuardian
-
New report warns on 'creative accounting' diverting aid to housing refugees within EU/ Euractiv
-
Figure of the week: The shrinking Lake Chad/ Brookings
-
Secrecy around £1bn aid and security fund raises 'significant concern', say MPs/ Guardian
-
In Kenya, midwives on motorbikes save mothers from perilous journeys/ TheGuardian
-
SOMALIA EMBRACES THE AUDACITY OF CHANGE/ NEWSWEEK
-
Forced evictions dragging down African investment: report / NewVision
-
WMO confirms 2016 as hottest year on record, about 1.1°C above pre-industrial era/ PrevetnionWeb
-
Female genital mutilation: Cultural evolution and the mutilation of women/ Newsweek
-
Nowhere to go: Nigeria's crowded camps fuel disease fears from open defecation/ Reuters
-
German foreign aid is at a record high and rising. Here is how it works/ Devex
-
More strategic focus would improve impact of Poland's foreign aid/ OECD
-
Clashes leave over 100 dead in Congo/ DW
-
Humans causing climate to change 170 times faster than natural forces/ TheGuardian
-
Act now before entire species are lost to global warming, say scientists/ TheGuardian
-
Israeli Development Aid Is Win-Win for Africa - and the Jews/ Forward
-
Welcome to Onitsha: the city with the world's worst air/ TheGuardian 
-
130-page report: UNRWA teachers incite terrorism & antisemitism/ UNWatch
-
Etiopia: Mødredødsfall ble halvert på fire år/ Bistandsaktuelt
-
In Kenya, a mother leads the movement to stop FGM in her community/ UNICEF
-
A Melinda Gates Birth Control Pledge Aims to Serve 120 Million Women/ Allure
-
-

Fundur með Erik Solheim

Davíð Bjarnason, verkefnastjóri jarðhitaverkefnis utanríkisráðuneytisins og Norræna þróunarbankans (NDF) og Hannes Hauksson, sendiráðunautur og teymisstjóri fjármála þróunarsamvinnu áttu á dögunum fund með Erik Solheim, framkvæmdastjóra Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) sem er með höfuðstöðvar í Kenía. Á fundinum var rætt um þróun jarðhitamála í álfunni og fyrirhugað öndvegissetur - þjálfunar og þekkingarmiðstöð um jarðhita - sem áformað er að rísi í Kenía. 

Palestína sem áhersluland í þróunarsamvinnu Íslands
 
eftir Maríu Erlu Marelsdóttur skrifstofustjóra þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins og sendiherra Íslands gagnvart Palestínu

Frá Qalqilya á Vesturbakkanum. Ljósm. MEM
Hinn 15. desember 2011 viðurkenndi Ísland Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967.  Palestína hefur verið skilgreint sem áhersluland Íslands á sviði þróunarsamvinnu frá því tillaga til þingsályktunar um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands var samþykkt á Alþingi 2011. 

Stuðningurinn er í gegnum fjölþjóðastofnanir og borgarasamtök m.a  á sviði jafnréttismála og  félagslegra innviða t.d. heilbrigðis- og menntamála. Hann takmarkast ekki við landamæri Palestínu heldur tekur einnig til palestínskra flóttamanna í nágrannaríkjunum Jórdaníu, Sýrlandi og Líbanon.

Í dag renna framlög Íslands m.a. til Stofnunar SÞ um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women), Barnahjálpar SÞ (UNICEF), Flóttamannastofnunar SÞ fyrir Palestínuflóttamenn (UNRWA), Jafnréttisskóla Háskóla SÞ, Norsku flóttamannahjálparinnar (NRC) og borgarasamtaka.

Stuðningur Íslands við jafnréttismál
Hvað varðar stuðning á sviði jafnréttismála hefur Ísland í gegnum UN Women stutt kvennaathvarfið "The Mehwar Centre" á Vesturbakkanum sem veitir fórnarlömbum ofbeldis vernd og aðstoð. Í athvarfinu fá konur og börn þeirra húsaskjól, læknisaðstoð, félagslega ráðgjöf og sálgæslu, lagalega aðstoð auk aðstoðar við að taka þátt í samfélaginu að nýju. Á hverjum tíma geta 35 konur dvalið í Mehwar. Konurnar komu frá Vesturbakkanum og meirihluti þeirra er undir 25 ára aldri. 

Þá hefur Ísland stutt verkefni á vegum UN Women sem hefur það markmið að draga úr ofbeldi gegn konum og börnum þeirra á hernumdu svæðunum m.a. með innleiðingu alþjóðlegra staðla og verklags sem byggja á virðingu fyrir mannréttindum og afnámi hvers kyns ofbeldis. Það umhverfi sem blasir við fórnarlömbum kynbundins ofbeldis í Palestínu er mjög erfitt. Lagaumhverfið er mjög flókið og ýmis atriði hafa áhrif á gang dómsmála á þessu sviði m.a. takmarkanir á ferðafrelsi bæði fórnarlamba og lögfræðinga þeirra. Í þessu umhverfi vantar sárlega marghliða stuðning við fórnarlömb kynbundins ofbeldis; lagalegan, félagslegan og efnahagslegan.

Ísland hefur einnig stutt Palestínu á sviði jafnréttismála með því að bjóða sérfræðingum frá Palestínu að stunda nám við Jafnréttisskóla Háskóla SÞ. Frá árinu 2010 hafa tuttugu Palestínumenn, karlar og konur, hlotið þjálfun hér á landi. Sérfræðingarnir sem um ræðir starfa flestir hjá alþjóðastofnunum á borð við UNRWA, opinberum stofnunum eða hjá borgarasamtökum. Einnig hefur Ísland stutt borgarasamtökin Women's Centre for Legal Aid and Counselling (WCLAC) sem veitir palestínskum konum m.a. lagalega ráðgjöf.

Stuðningur Íslands við félagslega innviði
Hvað varðar stuðning á sviði félagslegra innviða þá hefur framlag Íslands til UNICEF í Palestínu m.a. runnið til verkefnis á Gasa sem snýr að mæðra- og ungbarnavernd. Verkefnið snýst um að veita fræðslu um umönnun ungbarna og mikilvægi brjóstagjafar, meðal annars með erindum og heimsóknum heilbrigðis­starfsfólks. Mæður og aðrir fjölskyldumeðlimir fá afar mikilvæga fræðslu í umönnun nýbura og mæðranna sjálfra. Heimsóknirnar og fræðslan hefur m.a. haft þau áhrif að oft hefur verið snúið frá blandaðri fæðu brjóstamjólkur og þurrmjólkur yfir í brjóstagjöf eingöngu. Verkefnið er orðið vel þekkt á Gasa og alls staðar er vel tekið á móti heilbrigðisstarfsfólkinu og fjölskyldur ákaflega þakklátar fyrir fræðsluna og stuðninginn. Verkefnið hefur skilað árangri, tölur yfir mæðradauða eru á niðurleið á Gasa og er að hluta til hægt að þakka þessu verkefni.

UNRWA, var komið á fót árið 1948, og veitir samkvæmt umboði SÞ, um 5 milljónum palestínskra flóttamanna félagslega aðstoð, menntun, heilbrigðisþjónustu og húsaskjól. Starfsstöðvar stofnunarinnar eru á Vesturbakkanum, á Gasa, í Líbanon, Jórdaníu og Sýrlandi. Auk beinna fjárframlaga Íslands til UNRWA hafa íslenskir sérfræðingar á vegum Íslensku friðargæslunnar verið sendir til starfa hjá stofnuninni. Átökin í Sýrlandi og langvarandi neyðarástand á Gasa hafa síðustu ár þyngt mjög róðurinn hjá stofnuninni en um hálf milljón Palestínumanna í Sýrlandi hefur flúið til Jórdaníu og Líbanon og kemur í hlut UNRWA að veita þeim brýnustu aðstoð.

Ísland styður einnig borgarasamtökin Palestinian Medical Relief Society (PMRS) sem eru grasrótarsamtök á sviði heilbrigðismála. Frá árinu 2012 hafa íslensk stjórnvöld stutt við heilsugæslustöð og færanlega heilsugæslu PMRS í Qalqilya á Vesturbakkanum sem sinnir 100.000 íbúum, en svæðið er umlukið múrnum sem Ísrael hefur byggt og aðgengi íbúa að heilsugæslu því mjög takmarkað.

Einnig styður Ísland skólastarf í skólum á Vesturbakkanum í gegnum NRC. Um er að ræða sérstakt átak sem NRC stendur fyrir til stuðnings við skólastarf á Vesturbakkanum þar sem mikil truflun hefur orðið vegna versnandi öryggisástands og árása á skóla á svæðinu. Framlag Íslands beinist að stuðningi við þá skóla sem verst standa og styðja við áframhaldandi kennslu og skólastarf m.a. með sérstökum sálrænum stuðningi og kennslugögnum sem tryggja að skólar hafi getu til að bregðast við því ástandi sem skapast í kjölfar árása eða annars neyðarástands sem hefur áhrif á skólahald.

  Þá hafa nokkur verkefni sem borgarasamtök á Íslandi hafa unnið að með samtökum í Palestínu hlotið stuðning m.a. á sviði heilbrigðismála.

facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105