Heimsljós
veftímarit um þróunar- og mannúðarmál
10. árg. 333. tbl.
30. ágúst 2017
Mikil hækkun á framlögum vegna flóttamanna og hælisleitenda:
Rúmir sjö milljarðar á síðasta ári til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu

Endanlegar tölur um framlög til alþjóðlegrar þróunaramvinnu Íslands á síðasta ári liggja nú fyrir. Árið 2016 námu framlögin 7,1 milljarði kr. sem svarar til 0,29% af vergum þjóðartekjum (VÞT). Framlög til flóttamanna og hælisleitenda hækkuðu um tæpa 1,3 milljarða kr. milli ára. Til samanburðar námu framlögin tæplega 5,3 milljörðum kr. á árinu 2015 eða 0,24% af VÞT.

Utanríkisráðuneytið ráðstafaði tæplega 5 milljörðum króna, eða 4.992,3 milljónum (71%), en önnur ráðuneyti rúmlega 2 milljörðum, þ.e. þau ráðuneyti sem hafa umsjón með þeim kostnaði við hælisleitendur og flóttamenn sem talinn er með til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Framlög til nokkurra alþjóðastofnana eru einnig á hendi annarra ráðuneyta en utanríkisráðuneytisins.

Á skífuritinu má sjá hvernig framlög Íslands til þróunarsamvinnu á árinu 2016 skiptust en einnig er ítarlegt yfirlit að finna hér í öðru skjali. 

Kafli um framlög Íslands á síðasta ári
Þróunarsamvinnuskýrsla OECD árið 2017 kemur út í október með tölfræðigögnum um framlög þjóðanna sem eiga aðild að DAC, þróunarsamvinnunefnd OCED. Hins vegar hafa verið birtar á vef samtakanna yfirlitskaflar með bráðabirgðartölum frá einstaka löndum um skiptingu framlaga eftir ýmiss konar skilgreiningum. Þar á meðal er kafli um framlög Íslands á árinu 2016.
Stríðið endalausa:
Flóttamenn í Úganda frá Suður-Súdan komnir yfir eina milljón 
  
Flóttamenn frá Suður-Súdan sem leita skjóls í Úganda eru komnir yfir eina milljón. Hvergi í heiminum er flóttamannavandinn meiri, segir í fréttaskýringu IRIN fréttaveitunnar. Sérfræðingar telja litlar líkur á friði. Stríðið heldur því áfram og örvæntingarfullir flóttamenn streyma yfir landamærin til nágrannaríkja, flestir yfir til Úganda. Þangað koma að jafnaði dag hvern um 1800 flóttamenn.

Þrátt fyrir velvild heimamanna og stuðning alþjóðasamfélagsins til að bregðast við neyð fólksins sem flýr óhugnanlegt ofbeldi skortir mikið á fjármagn til að veita þann stuðning sem þyrfti. Samkvæmt upplýsingum frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur aðeins  tekist að fá fimmtung þess fjár sem til þarf.

Auk Úganda leitar flóttafólk frá Suður-Súdan til Eþíópíu, Kenía, Lýðræðislega lýðveldisins Kongó og Miðafríkulýðveldisins.

Cahora Bassa uppistöðulónið í Mósambík:
Íslenskur stuðningur við rannsóknir og veiðieftirlit samfellt í fjórtán ár

Í meðfylgjandi myndbandi er frásögn í myndum og máli af siglingu á Cahora Bassa lóninu í Tete fylki í norðurhluta Mósambík sem er í raun risavaxið stöðuvatn, hvorki meira né minna en 250 kílómetrar að lengd og breiðast um 40 kílómetrar. Lónið varð til þegar Portúgalar byggðu samnefnda vatnsaflsvirkjun í Zambezi fljótinu um 1970 meðan Mósambík var enn nýlenda þeirra í Afríku. Virkjunin er sú stærsta sinnar tegundar í sunnanverði álfunni og rafmagnið er að mestu leyti flutt til Suður-Afríku.

Íslendingar hafa í þróunarsamvinnu stutt við rannsóknir á fiskistofnum og vistkerfi uppistöðulónsins allt frá árinu 2003. Við erum í vöktunarferð með Claque Jone Maunde yfirmanni Hafrannsóknarstofnunar Mósambík í útibúinu í Songo á bátskænu sem heitir Kapenda eftir smágerða silfurfiskinum sem mest er veitt af í lóninu. Tilapía er líka mikið veidd og í vaxandi mæli koma sportveiðimenn til Cahora Bassa til að egna fyrir tígrisfisk. Annars er talið að um tuttugu fisktegundir lifi í lóninu.

Fyrsti viðkomustaðurinn er í fiskeldisstöð í eigu útlendinga og ræktar tilapíu sem er góður matfiskur og eftirsóttur. Fiskeldi er tiltölulega ný grein í Mósambík en stjórnvöldum er mikið í mun að fiskeldi takist vel, bæði vegna ofveiði í sjó og vötnum, en ekki síður vegna þess að fiskur er hollur næringarríkur matur og ein af undirstöðum fæðuöryggis fjölmennrar fátækrar þjóðar.

Claque segir að verkefnið snúi aðallega að rannsóknum á umhverfisáhrifum við vatnið og veiðieftirliti með hagsmuni samfélaganna við vatnið að leiðarljósi. Markmiðið sé að stýra veiðunum betur og nýta vatnið á sjálfbæran hátt, fyrir íbúana og fyrirtækin sem gera út á silfurfiskinn. Fyrirtæki með leyfi fyrir slíkum veiðum eru um 50 við uppistöðulónið og fer fjölgandi. Við heimsóttum eitt slíkra fyrirtækja í ferðinni: það gerir út níu pramma til veiðanna sem fara fram að næturlagi í niðamyrkri. Ljós eru notuð til að lokka fiskinn í hringnótina og í hverri veiðiferð er kastað nokkrum sinnum yfir nóttina.

Claque segir að rannsóknir á lóninu feli meðal annars í sér söfnun gagna, bæði hvað varðar hefðbundnar fiskveiðar á smábátum, oftast eintrjánungum, og einnig í samvinnu við fyrirtækin sem gera út á smáfiskinn. Gott samstarf er við báða aðila um söfnun sýna sem síðan eru greind á rannsóknarstofunni í Songo og veita upplýsingar um stærð, aldur, kyn fiskanna og svo framvegis. Hann bætir við að fjórum sinnum á ári fari fram bergmálsdýptarmælingar, meðal annars til að meta stofnstærð fiskitegunda í lóninu og sjá hvar einstaka tegundir halda sig. Þessar rannsóknir eru afar mikilvægar til að styrkja stjórnun fiskveiða í lóninu en í núverandi þriðja áfanga verkefnisins milli Íslendinga og Mósambíkana er áhersla lögð á útfærslu og innleiðingu á heildstæðu fiskveiðistjórnunarkerfi.

Að sögn Claque er óvíst að öll fyrirtækin sem gera út á smáfiskinn lifi af. Hann telur hins vegar að kapendan þrauki þrátt fyrir ofveiði, en leggur áherslu á að ná betri tökum á stjórn veiðanna, ekki síst þeirra ólöglegu sem sagðar eru stundaðar í allmiklum mæli.

Milljarður flosnaður upp af völdum loftslagsbreytinga árið 2050?

Ímyndið ykkur ástandið í heiminum þegar einn milljarður manna stendur frammi fyrir ofsafengnum áhrifum loftslagsbreytinga sem leiða til hrikalegra þurrka eða flóða, öfgafulls veðurfars, eyðileggingu náttúruauðlinda - og afleiðingarnar birtast í erfiðum lífsskilyrðum, hungursneyð og sulti.

Þótt þessi sviðsmynd sé ekki enn byggð á vísindalegum spám gætu loftslagsbreytingar leitt til þess að slíkt ástand skapaðist í heiminum fyrir árið 2050, segir í fréttaskýringu IPS fréttaveitunnar. Þá yrði níundi hver jarðarbúi á vergangi.

Spár um fjölda fólks sem flýr vegna breytinga á umhverfi fyrir árið 2050 eru misvísandi, allt frá 25 milljónum manna til eins milljarðs. Notað er hugtakið "environmental migrants" og vísað í fólk sem neyðist til að taka sig upp vegna afleiðinga loftslagsbreytinga og fara á vergang, ýmist innan lands eða utan, tímabundið eða varanlega. Flestar spárnar gera að sögn IPS ráð fyrir að 200 milljónir manna verði í þeim sporum árið 2050.

Samkvæmt öðrum heimildum má reikna með að á hverri sekúndu fari ein manneskja á vergang vegna hamfara. Á grundvelli þess reiknilíkans áætlaði norska flóttamannaráðið (NRC) í skýrslu fyrir nokkrum árum að tæplega 20 milljónir manna myndu flýja hörmungar í 113 þjóðríkjum, þrefalt fleiri en neyðast til að flýja vegna stríðsátaka í heiminum.

Fram kemur í fréttaskýringunni að aldrei í sögunni hafi samtímis verið jafn margar, flóknar og langvarandi hörmungar eins og núna, allt frá Vestur-Afríku til Asíu. Alls hafa um 40 milljónir manna flosnað upp og flóttafólk telur 20 milljónir. Frá síðari heimsstyrjöld hafa viðlíka tölur ekki sést.

Norðmenn upplýstir um Heimsmarkmiðin
Fjallganga að næturlagi var farin öðru sinni á dögunum í Noregi í því augnamiði að upplýsa norsku þjóðina um Heimsmarkmiðin. Það voru NORAD - þróunarsamvinnustofnun Norðmanna - og Ferðafélag Noregs sem stóðu fyrir næturgöngunni til stuðnings Heimsmarkmiðunum. Gífurleg þátttaka var í göngunni eins og sjá má meðfylgjandi mynd.

Þetta er í annað sinn sem efnt er til næturgöngu upp á Gustatoppen í Þelamörk en fimm þúsund manns fóru í þessa fjallgöngu fyrir tveimur árum þegar þjóðir heims höfðu nýverið samþykkt einróma sautján metnaðarfull markmið um betri heim, svokölluð Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Á vef NORAD segir að vinna við markmiðin sé komin af stað en til þess að Heimsmarkmiðin náist þurfi allir að þekkja til þeirra. "Þess vegna förum við saman í göngu, á ný."

Önnur fjallganga er fyrirhuguð en þá verður gengið upp á Keiservarden í Bodø. Sú ganga er dagsett laugardaginn 9. september.

Ray Hilborn gestafyrirlesari Sjávarútvegsskólans í ár

Hinn heimsþekkti sjávarlíffræðingur Ray Hilborn verður gestafyrirlesari Sjávarútvegsskólans í ár.

Hilborn mun m.a. halda tvenna opna fyrirlestra á sal Sjávarútvegshússins Skúlagötu 4, 1. hæð. Þeir eru sérstaklega ætlaðir nemendum Sjávarútvegsskólans en einnig öllu áhugafólki um sjávarútvegsmál.
  • Miðvikudaginn 13. september kl. 9:00 -11:30 fjallar hann um ástand fiskistofna í heiminum og áhrif fiskveiðistjórnunarkerfa á þá.
  • Fimmtudaginn 14. september kl. 9:00 - 11:30 talar hann um mat á ástandi fiskistofna í löndum þar sem fyrirliggjandi gögn eru takmörkuð.
Sjá nánar um  fyrirlestra Ray Hilborn í Sjávarútsegshúsinu.

Auk þessa mun Hilborn flytja fyrirlestur á opnunardagskrá  World Seafood Congress mánudaginn 11. september kl. 8:30.

Rokkbúðir í Tógó:
Sjálfsefling stelpna með tónlist


Um miðjan mánuðinn, dagana 16.-20. ágúst voru Tógórokkbúðirnar fyrir stelpur haldnar í annað sinn. Á Facebook síðu samtakanna Sól í Tógó segir að fjörtíu tógólísur hafi tekið þátt ásamt búðarstýrum sínum í gistibúðum í Kpalime í fjöllunum fyrir norðan Lome.

"Stelpurnar sem eru á aldrinum tíu til tvítugs voru óstöðvandi og fórnuðu röddum sínum og svefni og unnu kraftmikla dagskrá á fimm dögum og fluttu rapp, súkk, reggae, popp, rokk og gospel á lokatónleikum búðanna. Það var byrjað að æfa sjö á morgnanna og spilað fram á kvöld. Í rokkbúðunum fengu stúlkurnar næði og aðstæður til þess að efla tjáningu og sköpunarkrafta sína og láta ljós sitt skína. Í þessum búðum ríkti sérstakur samhugur og var mjög áhugavert að sjá hvað stelpurnar voru duglegar að hvetja hvora aðra og höfðu getu til þess að vinna og starfa saman með sameiginlega hagsmuni og markmið í huga. Talandi um sjálfseflingu stúlkna þá eru rokkbúðirnar í Tógó mjög gott fordæmi þar sem stelpurnar efldust og styrktust við hvert lag sem rann út úr smiðju þeirra. Galdurinn virtist vera að vinna saman og styrkjast saman.

Það sem við lærðum af tógólískum stúlkum í þetta sinn er að við heima á Fróni mættum dansa aðeins meira og vera örlíðið hressari á sviði en orka stelpnanna var óþrjótandi. Sól í Tógó eru himinlifandi yfir ánægjulegu samstarfi við Stelpur Rokka! Mirlindu Kuakuvi og tógólísurnar sem rokka," segir í pistlinum.

Íslenskur verkefnastjóri fiskimála hjá Alþjóðabankanum í Gana
Steinar Ingi Matthíasson.

Ísland fjármagnar stöðu sérfræðings á sviði fiskimála hjá Alþjóðabankanum með aðsetur í Accra, höfuðborg Gana.

Á undanförnum árum hafa íslensk stjórnvöld fjármagnað stöðu sérfræðinga hjá Alþjóðabankanum á sviði jarðhita og fiskimála, og koma þannig sérþekkingu Íslands betur á framfæri innan bankans. Nú starfar íslenskur sérfræðingur, Þráinn Friðriksson, að jarðhitamálum innan orkusjóðs bankans í Washington DC og fyrr á þessu ári var ákveðið að fjármagna stöðu sérfræðings á sviði fiskimála á skrifstofu bankans í Accra, Gana. 

Staðan var auglýst 18. mars sl. og sóttu 11 manns um starfið. Alþjóðabankinn ákvað að ráða Steinar Inga Matthíasson og hélt hann utan í síðustu viku. Steinar Ingi er með mastersgráðu í auðlindafræðum og hefur áralanga reynslu af störfum á sviði fiskimála. Hann starfaði hjá sjávarútvegsráðuneytinu 2003-2015, þar af síðustu fimm árin sem fulltrúi þess í sendiráði Íslands í Brussel, en frá árinu 2015 hefur hann starfað hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.

Steinar mun m.a. starfa að margþættu verkefni bankans um fiskimál í Vestur-Afríku (West-African Regional Fisheries Project - WARFP), sem m.a. felur í sér lán og styrki frá bankanum auk þess sem bankinn veitir löndum á þessu svæði tæknilega aðstoð á ýmsum sviðum fiskimála. 

Verkefnið nær nú til Cabo Verde, Gana, Gíneu Bissá, Líberíu, Máritaníu, Senegal og Síerra Leóne og er ætlað að auka hagrænan ávinning frá auðlindum sjávar með betri fiskveiðistjórnun, minni ólöglegum fiskveiðum og auknum gæðum og virði þeirra sjávarafurða sem veiðast á þessu svæði. Steinar mun einnig koma að uppbyggingu samstarfs við Nígeríu og að nýju verkefni sem ætlað er að ná yfir löndin fyrir austan og sunnan Nígeríu, þ.e. frá Cameroon til Angóla og jafnvel Namibíu.   

Nýr sendiherra Namibíu hjá forseta Íslands

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands átti á dögunum fund með nýjum sendiherra Namibíu, frú Morina Muuondjo, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Á vef forseta kemur fram að þau hafi meðal annars rætt um sögu þróunaraðstoðar í Namibíu og hlutdeild Íslendinga. Namibía var samstarfsland Íslendinga í tvo áratugi í þróunarsamvinnu en samstarfinu lauk árið 2010 í kjölfar efnahagshrunsins hér á landi. Á vef forseta segir að sendiherrann hafi einnig rakið hvernig tekist hefur að byggja upp réttarríki í landinu og virðingu fyrir leikreglum lýðræðis, eftir nýlenduok og átök.

Áhugavert

-
-
-
-
-
-

-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-


The Eritrean children who cross borders and deserts alone/ IRIN
-
CLIMATE FINANCE: African action/ D+C
-
The Tech Revolution That's Changing How We Measure Poverty/ Alþjóðabankinn
-
5 topics to watch at Stockholm World Water Week/ Devex
-
Libería: Verið sterkar og sýnið hugrekki/ UN Women á Íslandi
-
KENYA INNFØRER GRATIS BIND TIL ELEVER/ VerdensBedsteNyheter
-
USAID chief walks a tricky line on climate change/ Devex
-
Dr David Malone Reappointed to 2nd Term as Rector of United Nations University/ UN
-
GENDER: Scapegoating the victims/ D+C
-
Exclusive: Documents reveal largest USAID health project in trouble/ Devex
-
Who is Angola's next president, Joao Lourenco?/ DW
-
Educating Girls, Ending Child Marriage/ Alþjóðabankinn
-
EDUCATION: Bringing girls back/ D+C
-

"Svona ferðir taka mikið á andlega"/ RÚV
-
Sierra Leone grapples with another big tragedy-but the world doesn't seem to care/ Qz
-
Sendifulltrúi í Sómalíu/ Rauði krossinn
-
MEDIA: South Sudan cross-border cooperation/ D+C
-

Why developing countries must improve primary care/ TheEconomist
-
Forget drones-here's the view of Africa from a low-flying motorized paraglider/ Qz
-
Women in the changing world of work: FACTS YOU SHOULD KNOW/ UNWomen
-
The African middle class matters-but not for the reasons you think/ Qz
-

Þróunarmálatímaritið D+C, ágúst 2017
-
How poverty is killing Kenya's children with cancer/ TheConversation
-
TECHNOLOGY: 8 ways African countries are using data to change lives/ ONE
-
Boko Haram is using more children as suicide bombers in Nigeria/ Qz
-
Will Angola's election actually change anything?/ BBC
-
Nigeria: Malnutrition - 10 Million Nigerian Children Risk Mental Deformity in Adulthood/ AllAfrica
-
Cash Aid Could Solve Poverty - But There's A Catch/ NPR
-
-Climate-Smart Poultry Farming Brings Prosperity to Kenya's Smallholders/ Alþjóðabankinn
-
Fighting economic inequality through the food supply chain, eftir HOWARD-YANA SHAPIRO/ WorldAgroforestry

Þögul neyð flóttafólks sem snýr aftur heim til Mósambík

Orlando Aviso er bæjarstjóri í Nkondezi þorpi í Mósambík skammt frá landamærunum að Malaví. Hann er á skrifstofu sinni, skoðar lista yfir mósambíska flóttamenn sem hafa snúið heim frá Malaví eftir rúmlega tveggja ára dvöl í flóttamannabúðum. Frá þessu segir í meðfylgjandi myndbandi frá Mósambík.

Aviso segir að flóttamenn hafi í lok ársins 2016 verið tæplega sex þúsund. Á þessu ári hafa rúmlega 350 bæst í hópinn. Alls er talið að um tíu þúsund íbúar á þessum slóðum hafi árið 2015  leitað skjóls í Malaví eftir að skærur blossuðu upp milli gömlu erkifjendanna Frelimo  og Renamo, samtakanna sem börðust í sextán ára blóðugri borgarastyrjöld. Henni lauk árið 1992 og kostaði eina milljón mannslífa.

Eftir ágreining um úrslit sveitastjórnarkosninga árið 2014 kom aftur til átaka, vígasveitir lögðu undir sig þorp, brenndu hús og flæmdu íbúana á brott. Margar fjölskyldur sáu þann kost vænstan að flýja yfir til nágrannaríkisins Malaví.

Gengur ekki að heimili vísu
Nú þegar fólkið snýr aftur heim til Mósambík - gengur það ekki endilega að heimili vísu. Það býr einhvers staðar og hvergi, eins og einn orðaði það. Í þessum hópi í Nkondezi þorpinu er fólk sem af ýmsum ástæðum getur ekki farið inn á heimili sitt aftur, húsið gæti verið brunnið, yfirtekið af skæruliðum eða óttinn við ofbeldismenn er svo sterkur að heimilisfólkið vill ekki snúa aftur.

Þögul neyð
Margir þessara flóttamanna í eigin landi eru því upp á aðra komnir. Sumir hafa fengi inni hjá ókunnugum gegn því að greiða fyrir gistingu með vinnu, aðrir hafa fengið inni í þessu yfirgefna nunnuklaustri og enn aðrir eru á vergangi. Verst er að þetta er þögul neyð. Engar alþjóðastofnanir eru hér að störfum til að hlynna að fólkinu, sjá fyrir grunnþörfum þess, og opinber stuðningur dugar ekki til framfærslu. Matarskortur er mikill.

Aviso segir mikilvægt að börn fái skólamáltíðir, þau hafi vanist því í Malaví, og verið sé að ýta á stjórnvöld að bregðast við. Sama gildi um hreint vatn, núverandi ástand sé óboðlegt en þar sem flestir flóttamanna hafist við sé ekki annað að hafa en skítugt vatn í nærliggjandi á; við ána er eins og sjá má hópur kvenna og barna við þvotta og böð.

Við bíðum eftir varanlegum friði, segir Aviso. Vopnahlé er í gildi en óttinn er ennþá til staðar. 
facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105