Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
9. árg. 309. tbl.
14. desember 2016
OECD rýnir í ástæður aukins ofbeldis:
Vopnuð átök í heiminum færri en mannskæðari

Vopnuðum átökum fækkar í veröldinni en þau eru mannskæðari en áður. Samkvæmt nýútkominni skýrslu Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) hafa ofbeldisverk á síðastliðnum fimmtán árum með einum eða öðrum hætti haft áhrif á 3,34 milljaða manna, eða tæplega helming mannkyns. Í formála skýrslunnar - State of Fragility 2016 - fullyrðir Douglas Frantz aðstoðarframkvæmdastjóri OECD að ofbeldi fari vaxandi í veröldinni og bregðast verði við með endurskoðun á alþjóðlegri þróunarsamvinnu.

Í skýrslunni kemur fram að dauðsföll af völdum vopnaðra átaka séu nú þrefalt fleiri en árið 2003. Gögn sýna að árið 2014 var annað versta árið frá dögum kalda stríðsins þegar litið er á fjölda dauðsfalla á átakasvæðum og árið 2015 það þriðja versta. Í fyrra voru dauðsföll tengd vopnuðum átökum 167 þúsund talsins, þar af 55 þúsund í Sýrlandi.

Í skýrslunni kemur einnig fram að starfsemi ofbeldisfullra öfgasamtaka og hryðjuverkastarfsemi færist í aukana. Douglas Frantz segir að efnahagslegt tjón af völdum ofbeldisverka vaxi að sama skapi, það sé nú metið á 13,6 trilljónir bandarískra dala sem jafngildir 13,6% af þjóðartekjum í heiminum. "Og borgararnir, einkum börn og konur, eru í mestri hættu," segir hann.

Samkvæmt skýrslunni telur OECD að 1,6 milljarður manna, eða um 22% allra jarðarbúa, hafi búfestu á svæðum sem skilgreind eru óstöðug. Á sama tíma og fólki fækki í heiminum sem býr við sárafátækt sé fyrirsjáanleg fjölgun sárafátækra í óstöðugum heimshlutum, úr 480 milljónum á síðasta ári upp í 542 milljónir árið 2035. 

Hvað skýrir aukið ofbeldi?
Skýrsluhöfundar rýna í ástæður þessarar þróunar og hvernig unnt sé að bregðast við henni, en undirheiti skýrslunnar er einmitt "Understanding Violence." Það er mat höfundanna að viðleitni til að auka þróun, frið og öryggi hafi ekki haldið í við það sem þeir kalla "veruleika ofbeldis." Og þeir hvetja til þess að ofbeldisverkum verði gefinn meiri gaumur - og sett verði meira fjármagn til að stemma stigu við því. 

Douglas Franzt minnir á það í inngangi skýrslunnar að alþjóðasamfélagið hafi tekið höndum saman á síðasta ári með sögulegum samþykktum, annars vegar Parísarsamkomulaginu og hins vegar Heimsmarkmiðunum, í því skyni að bæta heiminn. Öll þau áform kunni að vera í hættu vegna þess að fjármagn sem ætti að fara í uppbyggingarstarf yrði nýtt til að leysa bráðavanda sem tengdist fátækt, ofbeldi og óstöðugleika. Slíkt komi til með að hafa í för með sér tafir á aðgerðum gegn loftslagsbreytingum og tafir á framgangi Heimsmarkmiðanna, milljónir manna búi áfram við örbirgð og átök, flóttamannavandinn verði ekki leystur og öfgafull ofbeldisstarfsemi aukist.

Franzt telur nauðsynlegt að brjóta upp þessa banvænu hringrás og til þess þurfi hvorki meira né minna en að hugsa alþjóðlega þróunarsamvinnu upp á nýtt. Það merki að þróa þurfi nýtt fjölvítt líkan til að mæla og fylgjast með óstöðugleika. Markmiðið sé að skilgreina öflin að baki fátækt og átökum, allt frá fjölgun vígasveita í borgum upp í víðtæka spillingu. Aðeins með slíkri greiningu sé unnt að komast að því hvað sé í ólagi og hvernig standa megi að viðgerð.

Miðstöð Sameinuðu þjóðanna á Íslandi:
Stutt við landsfélög SÞ og verkfærakistu í jafnréttismálum

Frá undirrituninni í gær, t.f.v. Inga Dóra Pétursdóttir, UN Women, Þröstur Freyr Gylfason, Félagi SÞ, Stefán Haukur Jóhannesson ráðuneytisstjóri og Bergsteinn Jónsson, UNICEF.
Stefán Haukur Jóhannesson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, undirritaði í gær samning við landsnefnd Barnahjálpar SÞ (UNICEF), landsnefnd UN Women og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi um áframhaldandi stuðning við rekstur Miðstöðvar SÞ á Íslandi. Miðstöðin var opnuð árið 2004 og er mikilvægur samstarfsvettvangur félaganna sem hefur styrkt kynningarstarf, upplýsingagjöf og vitundarvakningu um margþætta starfsemi Sameinuðu þjóðanna.

Þá undirritaði ráðuneytisstjóri samkomulag við Ingu Dóru Pétursdóttur, framkvæmdastýru landsnefndar UN Women, um að ráðast í gerð rafrænnar verkfærakistu til að vinna að jafnrétti kynjanna. Verkfærakistan er hluti átaks til að auka þátttöku karla í baráttunni fyrir jafnrétti. Hún byggist á svokölluðum Rakarastofuráðstefnum sem utanríkisráðuneytið hefur staðið að erlendis síðastliðin tvö ár og vilja Sameinuðu þjóðirnar hvetja fleiri til að standa að slíkum viðburðum. 

Verkfærakistan verður heimasíða með margs konar upplýsingum fyrir stjórnvöld, félagasamtök og fyrirtæki sem vilja nýta sér hugmyndina svo auka megi vitund karla um ávinning allra af jafnrétti og valdeflingu kvenna. Gert er ráð fyrir að hugtakið verði þar útskýrt, umræðuleiðbeiningar verði aðgengilegar um ýmis málefni sem vert er að ræða, t.d. ofbeldi gegn konum, aukna þátttöku kvenna í stjórnmálum og atvinnulífi. Efnið verður meðal annars unnið í samstarfi við þá erlendu sérfræðinga sem komið hafa að rakarastofuráðstefnum ráðuneytisins. UN Women mun hafa umsjón með verkinu. 
Antonio Guterres sver embættiseið og heitir umbótum í starfi SÞ

António Guterres sór í vikubyrjun embættiseið sem níundi aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Hann sagði í ávarpi á allsherjarþingi SÞ að samtökin verði að laga sig að breyttum heimi. Guterees tekur við embættinu af Ban Ki-moon um næstu áramót.

Guterres, sem er 67 ára að aldri, var forsætisráðherra Portúgals frá 1995 til 2002 og flóttamannastjóri Sameinuðu þjóðanna frá 2005 til ársloka 2015.

Guterres lagði mikla áherslu á það í ræðu sinni að friður og öryggi væru kjarni allrar starfsemi Sameinuðu þjóðanna og kvaðst ætla að beita sér fyrir umbótum í starfi Sameinuðu þjóðanna. Hann nefndi sérstaklega að þörf væri á umbótum á sviði upplýsingamiðlunar og samskipta, að veita þyrfti uppljóstrurum vernd, hraða ráðningarferli starfsfólks og vinna gegn íþyngjandi skriffinnsku. Þá hét hann því að beita sér fyrir jafnrétti kynjanna hjá samtökunum, þar á meðal með því að tryggja að jafn margar konur og karlar væru í æðstu stöðum.

Heimsókn í nýjan verkmenntaskóla Kertaljósasamtakanna:
Íslenskur stuðningur við bágstaddar stúlkur  í Úganda
Skammt utan við höfuðborgina Kampala í Úganda reka samtökin Candle Light verkmenntaskóla fyrir unglingsstúlkur, skóla sem íslensk kona. Erla heitin Halldórsdóttir, stofnaði upphaflega árið 2001. Skólinn hefur um árabil notið stuðnings íslenskra stjórnvalda og íslenskra samtaka sem nefnast Alnæmisbörn. Upphaflega var skólinn eingöngu fyrir ungar stúlkur sem misst höfðu foreldra sína úr alnæmi en nú eru í skólanum stúlkur sem hafa átt erfitt uppdráttar af ýmsum ástæðum.

Meðal kennara í matreiðslu er Lawino Florence, 24 ára, fyrrverandi nemandi í skólanum. Hún er fædd og uppalin í Gulu, í norðurhluta Úganda, fjórða í röðinni af sjö systkinum. Hún missti báða foreldra sína úr alnæmi á barnsaldri. Rætt er við Lawino í meðfylgjandi kvikmyndabroti.

Saga Lawino Florence
Þar kemur fram að eftir foreldramissinn flutti Lawino til höfuðborgarinnar Kampala, til móðurbróður síns sem starfaði sem lögregluþjónn.  Hann átti vin sem þekkti til Kertaljósa-samtakanna, Candle Light Foundation. Samtökin buðust til að greiða götu Lawino í skóla. Eins og hún segir sjálf, þá var hún ung að árum með háleita framtíðardrauma. Hún ætlaði að verða læknir eða  sinna einhverjum störfum tengdum heilbrigðismálum. En þegar hún var að ljúka  grunnskólanámi kom strik í reikninginn: Móðurbróðir hennar lést.  Eftir að frændinn féll frá var fátt til bjargar, ekkjan atvinnulaus og hafði fyrir eigin börnum að sjá, og átti þess ekki lengur kost að styðja við bakið á Lawino með greiðslu skólagjalda. Um tíma dimmdi yfir í lífi ungu stúlkunnar en aftur kom ljós inn í líf hennar þegar Candle Light Foundation bauð henni að koma í verkmenntanám í skólanum; þá fór Lawino  á matreiðslubraut og eftir námið hóf hún störf á litlu hóteli í Kampala þar sem hún fór fyrst sem starfsnemi. Launin voru hins vegar ekki ásættanleg, segir hún, og því fékk hún annað starf í mötuneyti, í höfuðstöðvum lögreglunnar í Kampala. Allt segir hún þetta Candle Light að þakka - og hún vilji sýna þakklæti sitt í verki með því að hjálpa öðrum.

Starfið ástríða
Rosette Nabuuma hefur veitt verkmenntaskólanum forstöðu frá upphafi. Hún viðurkennir fúslega að starfið sé henni ástríða. Hún kveðst hafa átt samleið með Candle Light lengi, upphaflega með Erlu Halldórsdóttur  fyrir fimmtán árum þegar þær ákváðu að grípa til aðgerða í þágu bágstaddra stúlkna í Úganda. Hún segir að fyrstu árin hafi verið erfið, sjálf hafi hún verið ung kona en verkefnið hafi verið heillandi og þörfin fyrir stuðning hafi verið mikil meðal ungra stúkna sem sumar hverjar hafi ekki átt annan samanstað en götuna. "Þær urðu hluti af mér, hlutskipti þeirra varð hlutskipti mitt og vandamál þeirra eru vandamálin mín," segir hún.  

Nýlega flutti skólinn í ný húsakynni og aðstæðurnar eru gjörbreyttar frá því sem áður var. Rosette er hæstánægð með breytingarnar og segir að íslensk stjórnvöld hafi veitt skólanum styrki til húsbygginga og skólinn geti ávallt reitt sig á stuðning Alnæmisbarna sem hafi lengi verið ein helsta kjölfestan í rekstri skólans.

Helmingi færri börn láta lífið fyrir fimm ára aldur nú en fyrir aldarfjórðungi:
UNICEF fagnar 70 ára baráttu í þágu barna heimsins
Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) fagnaði 70 ára afmæli á dögunum og þeim mikla árangri sem náðst hefur í þágu barna í heiminum síðastliðna áratugi. Sá árangur sést ef til vill best í þeirri staðreynd að helmingi færri börn láta lífið fyrir fimm ára aldur nú en fyrir 25 árum. Um leið ítreka samtökin ákall sitt um hjálp handa þeim milljónum barna sem eru í hættu vegna átaka, fátæktar og ójöfnuðar.
 
"Sleitulaus vinna UNICEF á mörgum af erfiðustu og fátækustu stöðum heims á þátt í þeim gríðarlegu framförum sem orðið hafa fyrir börn vítt og breitt um veröldina síðastliðna áratugi," segir í frétt frá landsnefnd UNICEF á Íslandi. "Hundruð milljóna barna hafa brotist út úr fátækt og þeim börnum sem ekki ganga í skóla hefur fækkað um 40% síðan 1990."
 
UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, var komið á fót af Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna til að veita stríðshrjáðum börnum í Evrópu, Kína og Miðausturlöndum neyðarhjálp eftir seinni heimsstyrjöldina. Markmiðið var að ná til allra barna í neyð, óháð því hvaða afstöðu landið þeirra hefði haft í styrjöldinni. Samtökin voru fjármögnuð með frjálsum framlögum, stækkuðu fljótt og voru árið 1955 farin að hjálpa börnum í yfir 90 ríkjum.
 
Í dag vinnur UNICEF í yfir 190 ríkjum - nærri öllum ríkjum heims, og eru langstærstu barnahjálparsamtök heims. Markmiðið er sem fyrr að ná til allra barna, enda eiga öll börn sömu réttindi, óháð því hvar þau fæðast og hvar þau búa.

Heimur þar sem börn fá að blómstra
Frá því að UNICEF hóf starfsemi sína fyrir 70 árum hafa samtökin brugðist mörg þúsund sinnum við þegar neyðarástand hefur skapast, svo sem eftir náttúruhamfarir eða vegna stríðsátaka.

"Án alls þess hugrakka fólks sem gerir allt sem það getur til að ná til þeirra barna sem eru mest berskjölduð - og án stuðning frá heimsforeldrum, fyrirtækjum, stjórnvöldum og öllum þeim sem styðja UNICEF um allan heim hefði UNICEF aldrei náð þeim mikla árangri sem við höfum orðið vitni að. Á afmælinu erum við því fyrst og fremst þakklát," segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

UN Women á Íslandi safnar fyrir sæmdarsettum:
Næturfrost í Írak - UN Women dreifir hlýjum teppum
UN Women í Írak dreifði aukalega þrjú þúsund þykkum teppum til kvenna og barna þeirra í flóttamannabúðum austur af Mosul fyrir síðustu helgi. Veður kólnaði snögglega og kvörtuðu konur í búðunum sérstaklega undan næturfrosti. 
 
Enn geisa hörð átök í Mosul, fyrrum helsta vígi vígasveita íslamska ríkisins í Írak. Um miðjan október síðastliðinn réðust íraskar öryggissveitir ásamt hersveitum Kúrda inn í Mosúl með það að markmiði að ná borginni úr höndum ISIS. Nýjustu tölur herma að 85 þúsund manns hafi nú þegar flúið borgina og virðist talan því miður eiga eftir að hækka næstu daga miðað við hið skelfilegt ástand sem ríkir í borginni. "Ég er svo þakklát fyrir teppin, nú get ég hlýjað mér og barnabörnunum mínum á nóttunni," segir ónefnd kona sem lagði á flótta frá Mosul í síðastliðnum mánuði.

Í frétt á vef UN Women segir að samtökin dreifi sæmdarsettum til kvenna og stúlkna í Mosul og nágrenni sem innihalda meðal annars þykk teppi en undanfarna tvo mánuði hefur UN Women nú þegar dreift 20 þúsund sæmdarsettum til kvenna og stelpna, þökk sé meðal annars neyðarsöfnunar landsnefndar UN Women á Íslandi og rausnarlegra framlaga almennings á Íslandi sem studdi dyggilega við átakið. Sæmdarsettin innihalda dömubindi, sápu, tannbursta, tannkrem, hlý teppi, barnaföt, tvo pakka af bleium, uppþvottasápu, handklæði og vasaljós.

Dr. Paulina Chiwangu starfandi svæðisstýra UN Women í Írak segir sæmdarsettin gera konum á flótta í Mosul og kring kleift að viðhalda sjálfsvirðingu sinni og reisn. "Eins verð ég að minnast á að í ljósi þess að alþjóðlegu 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi var að ljúka, þá vil ég minnast allra þeirra kvenna sem misst hafa lífið og fagna innilega öllum þeim konum sem lifðu af gróft ofbeldi vígasveita íslamska ríkisins. Þessar konur eru sannar hetjur. Eins vil ég þakka öllum þeim styrktaraðilum um allan heim sem gera UN Women kleift að dreifa sæmdarsettum áfram í Írak. Neyðin er mikil."

UN Women á Íslandi safnar nú fyrir dreifingu sæmdarsetta í Írak með sölu á jólagjöf UN Women. Jólagjöf UN Women er táknræn gjöf og um leið  jólaskraut sem veitir ljós. Um er að ræða blað sem er brotið í þrennt og myndar eins konar tjald sem stendur. Inni í tjaldinu er stuttur texti um gjöfina, pláss fyrir persónulega kveðju og lítið ljósprik (glowstick) sem veitir birtu. Ljósið táknar þá von og þann kraft sem gjöfin veitir. Ein jólagjöf er andvirði sæmdarsetts fyrir konu á flótta í Írak.

Gjöfin kostar 3.990 krónur og fæst á unwomen.is eða í síma 552-6200.
Beinar peningagreiðslur til fátækra til að bæta lífskjör gefast vel

GIZ: Economic Empowerment Pilot Project for Social Cash Transfer Beneficiaries. 2016
GIZ: Economic Empowerment Pilot Project for Social Cash Transfer Beneficiaries. 2016
Beinar peningagreiðslur til fátækra hafa færst í vöxt sem leið til að bæta lífskjör. Stjórnvöld í mörgum ríkjum hafa komist að þeirri niðurstöðu að árangursrík aðferð og skilvirk sé einfaldlega að láta fátæka fá reiðufé. Stundum er slíkar greiðslur skilyrtar af hálfu stjórnvalda eins og að foreldrar nýti fjármunina til að senda börn í skóla eða krafa sé gerð um bólusetningar. En þess eru líka dæmi að greiðslurnar séu án nokkurra skilyrða.

Andstætt því sem flestir álíta fara þessir peningar ekki til kaupa á sígarettum og áfengi eða í aðrar ónauðsynjar. Í grein í Qartz segir að áratugum saman hafi þær áhyggjur verið áberandi en samkvæmt nýrri skýrslu þar sem fjölmargar rannsóknarniðurstöður eru greindar hafi þvert á móti komið í ljós að þar sem beinar peningagreiðslur til fátækra tíðkist hafi samdráttur mælst í verslun með áfengi og tóbak.

Samantektin um niðurstöður rannsókna birtist nýlega í tímaritsgrein frá háskólanum í Chicago en höfundar hennar eru starfsmenn Alþjóðabankans, þau David Evans og Anna Popova. Þau rýndu nítján rannsóknir þar sem kannað var sérstaklega hvort peningagreiðslur til þeirra efnaminni hefðu áhrif á sölu á áfengi og tóbaki. Engin könnun leiddi í ljós aukna neyslu á áfengi og tóbaki en hins vegar reyndust margar þeirra leiða í ljós samdrátt í sölu á þessum varningi.

David og Anna veltu einnig fyrir sér hugsanlegri skýringu á þessari niðurstöðu. Ein tilgáta þeirra er sú að beinar peningagreiðslur breyti hugsunarhætti fátækra til efnahags. Áður en greiðslurnar komu til sögunnar hafi lítilræðið sem varið var til menntunar og heilsu verið litað vonleysi, en eftir að greiðslurnar hófust hafi foreldrar séð skynsemina í því að fjárfesta tildæmis í menntun barna sinna. Til þess að nýta fjármunina sem best hafi þeir ákveðið að draga úr reykingum og áfengisneyslu.

Þá nefna greinarhöfundar annan þekktan hagfræðilegan þátt sem kallast The Flypaper Effect og felur í sér hagfræðikenningu um breytta hegðun viðtakenda þegar peningar eru látnir af hendi í sérstökum tilgangi. Þá sé tilhneiging til þess bæði hjá fólki og samtökum að nota þá peninga á þann hátt sem ætlast er til, þótt enginn neyði þá til þess. Hjá stjórnvöldum sem veita beinar peningagreiðslur til fátækra heimila er viðkomandi yfirleitt sagt að um sé að ræða stuðning við velferð fjölskyldunnar.

Síðast en ekki síst nefna þau David og Anna skýringuna sem ef til vill er lílklegust, þ.e. að peningagreiðslur til fátækra fjölskyldna fara yfirleitt í gegnum hendurnar á konum. Rannsóknir hafa nefnilega sýnt að þegar konur ráða yfir tekjum heimilanna eru líkurnar meiri en ella á því að þeir peningar séu notaðir til kaupa á mat eða í heilsuvernd barna.

Mikill stuðningur ríkisstjórna við Flóttamannastofnun SÞ

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR)  hefur aldrei fyrr fengið jafn ríkulegan stuðning ríkisstjórna í heiminum, að því er segir í frétt frá stofnuninni. Þegar hafa ríkisstjórnir skuldbundið sig til að greiða 700 milljónir bandaríkjadala til verkefna stofnunarinnar á árinu 2017. Verkefnin eru viðamikil eins og sést á tölum um flóttafólk og fólk án ríkisfangs, tæplega 69 milljónir manna.

Skuldbindingar um framlagsgreiðslur voru samþykktar á fundi framlagsríkja í Genf á dögunum og samkvæmt frétt UNHCR verða framlögin nýtt til stuðnings fólki sem er á flótta vegna langvinnra átaka eins og í Írak, Jemen, Suður-Súdan og á svæðinu í kringum Tjad vatnið í Afríku. Þá rekur stofnunin verkefni í rúmlega 100 þjóðríkjum um allan heim. Fjárþörf Flóttamannastofnunar fyrir allt næsta ár nemur 7.3 milljörðum dala.

Í frétt UNHCR segir að meiri áhersla sé lögð í samstarf við aðrar stofnanir í stefnumörkun fyrir næsta ár og það sé helsta nýlunda í verklaginu. Þar er meðal annars um að ræða samstarf við Alþjóðabankann, Alþjóðavinnumálastofnunina (ILO) og Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD).

"Við hvetjum framlagsríki og stofnanir þeirra til þess að taka höndum saman með okkur til að tryggja að allt fólk á flótta geti fengið vernd og byggt upp örugga framtíð," er haft eftir Filippo Grandi yfirmanni UNHCR í fréttinni.

 "Forgangsverkefni hjá okkur er að bjarga mannslífum og vernda bæði rétt og reisn flóttafólks, fólks sem er á vergangi innan eigin lands, og fólks án ríkisfangs. Það merkir að bjóða hagnýta aðstoð til langs tíma, meðal annars til þeirra þjóða og samfélaga sem hýsir fólkið," bætti hann við.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur á þessu ári sérstaklega vakið athygli á börnum á flótta. Myndbandið hér að ofan fjallar einmitt um börn á flótta og nefnist "Raddir í myrkrinu." Samkvæmt tölum stofnunarinnar voru 112 þúsund foreldralaus börn meðal hælisleitenda á síðasta ári.
Ljósmynd: UNHCR


Samnorrænt átak um Heimsmarkmiðin 
Norðurlandaráð stóð nýlega fyrir umræðum, með þátttöku forsætisráðherra norrænu þjóðanna, um sjálfbæra þróun. Á þingi ráðsins sem haldið var í Kaupmannahöfn var Britt Lundberg frá Álandseyjum kosin forseti Norðurlandaráðs. Hún segir að ráðið muni halda áfram að vinna með sjálfbæra þróun.

 " Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun hafa ætíð verið á dagskrá Norðurlanda. Þau grunngildi sem þau byggja á og rekja má þau til, eru norræn," segir Britt Lundberg í viðtali við Norræna fréttabréf Upplýsingaskrifstofu SÞ, UNRIC.  "Tökum sem dæmi stöðu stúlkna og kvenna, hringrásar-hagkerfið, sjálfbæran landbúnað eða aðgang að hreinu vatni og salerni." 

Norðurlöndin bera af þessum sökum, sérstaka ábyrgð á því að hrinda þeim í framkvæmd, jafnt innan sem utan Norðurlanda.
 
Áhugavert

De 10 mäktigaste i biståndsdebatten - hela listan/ OmVärlden
-
If you want to go far, go together, eftir Neven Mimica/ Linkedin
-
-
UNDP - Building A Better Future
UNDP - Building A Better Future
-
-
-
-
Netherlands Aims to Fight Hunger in Developing Countries/ BorgenProject
-
Should Europe pay to enhance military capabilities in Africa?/ ECDPM
-
-
-
-
-
Edward Snowden writes letter to 10 year old Malawi girl living with albinism
Edward Snowden writes letter to 10 year old Malawi girl living with albinism
-
-
-
-
-
-
-
-

Fræðigreinar og skýrslur
Málefni Búrúndí á málstofu

Afríka 20:20 i samvinnu við MARK - Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna við Háskóla Íslands boðar til málstofu þriðjudaginn 20. desember kl. 16:00-17:30 um málefni Búrúndí. 

Guðrún Sif Friðriksdóttir doktorsnemi í mannfræði heldur erindi sem hún nefnir  Beðið eftir borgarastyrjöld: Ástandið í Búrúndí og orsakir þess. Málstofan verður haldin í  Gimli við Háskóla Íslands, stofu 301 (3. hæð). 
 
Að lokinni umræðu verður farið í Stúdentakjallarann til eiga góða stund fyrir jólin.


UNICEF: One child dies every 10 minutes in Yemen/ AlJazeera
-
Progress on malaria deaths at risk without big boost in funding, UN warns/ TheGuardian
-
Bill Gates and investors worth $170 billion are launching a fund to fight climate change through energy innovation/ Qz
-
Scientists: Africa Must Act Now If It Is to Feed Itself in 2050
-
Financing Green Growth in the Lake Victoria Basin/ NDF
-
China to set date to close ivory factories/ TheGuardian
-
Putting Women Front and Centre in the Development Agenda/ IPS
-
A shock victory for the underdog in Gambia/ Economist
-
UK slashes number of Foreign Office climate change staff/ TheGuardian
-
Kony's killers - are child soldiers accountable when they become men?/ IRIN
-
Malnutrition amongst children in Yemen at an all-time high, warns UNICEF/ UNICEF
-
New WHO data portal to help track progress towards universal health coverage/ WHO
-
Niger Feels Ripple Effect of Boko Haram as Fears of Food Shortage Spread/ NYT
-
East Africa's Largest Solar Plant Starts Operations/ Powermag
-
International aid can turn the tide on orphanages/ NewStatesman
-
Wonder Woman's stint as UN ambassador ends unexpectedly amid outcry/ CBC
-
Norræna fréttabréf Upplýsingaskrifstofu SÞ
-
African Officials Seek Local Value-added Food Products/ VOA
-
Giraffes in process of 'silent extinction,' wildlife group says/ CNN
-
USAID Initiative Empowers Youth Through Vocational Training
-
Kenya: Month Long Campaign Against FGM Kicks Off/ AllAfrica
-
South Sudan expert: Climate of impunity 'a big problem'/ DW
-
Afghanistan's deepening migration crisis/ IRIN
-
Ritröð D+C: International cooperation
-
Mozambique: World Bank Warns of 'Uncertain Outlook'/ AllAfrica
-
Scale up or cut back? Aid sector grapples with growing funding gap/ IRIN
-
New glasses for Malawians for $1/ DW
-
Tanzania suspends U.S.-funded AIDS programs in a new crackdown on gays/ WashingtonPost
-
US, EU Sanction DRC Officials for Undermining Democracy/ VOA
-
Aid groups fall short on disability commitments, advocates say/ Devex
-
EU commissioner defends linking security and aid/ Devex
-
OECD updates anti-corruption standards for private sector aid collaborations/ PublicFinanceInternational

Björgunaraðgerðir á Miðjarðarhafi 

Á morgun, fimmtudaginn 15. desember kl. 8:30, segir Þórir Guðmundsson frá björgunaraðgerðum Rauða krossins á Miðjarðarhafi. Hann og Jóhanna Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur voru í áhöfn björgunarskipsins Responder, sem kom að björgun 1.107 flóttamanna á sjóleiðinni frá Líbíu til Ítalíu.

Fyrirlesturinn er haldinn í húsi Rauða krossins, Efstaleiti 9 í Reykjavík. Skráning hér

Allir eru velkomnir.

Moldin og Heimsmarkmiðin 
 
eftir Berglindi Orradóttur aðstoðarforstöðumann Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna

Mikilvægi moldarinnar/ ELD
Ár hvert er 5. desember tileinkaður moldinni og þá er tækifærið notað til að vekja athygli á mikilvægi hennar. Þrátt fyrir okkar tæknivædda heim þá er afkoma okkar háð vistkerfum jarðar og þar með moldinni. Við fáum fæðu, klæði, orku, hreint vatn og margt fleira frá vistkerfunum. Þessu virðumst við gjörn að gleyma þrátt fyrir að einn af stóru umhverfissamningum Sameinuðu þjóðanna,
Eyðimerkursamningurinn vinni gegn land- og jarðvegseyðingu og hafi gert það frá undirritun samningsins árið 1992. 

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ákvað árið 2013 að tileinka 5. desember ár hvert moldinni og árið 2015 var jafnframt alþjóðlegt ár jarðvegs hjá Sameinuðu þjóðunum. Eitt af 17 Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna er svo tileinkað verndun og sjálfbærri nýtingu landvistkerfa (markmið 15) en þar er moldin í lykilhlutverki. Þetta markmið er hjartans mál Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

Markmið 15: VER NDA, ENDURHEIMTA OG STUÐLA AÐ SJÁLFBÆRRI NÝTINGU LANDVISTKERFA, SJÁLFBÆRRI STJÓRNUN SKÓGA, BERJAST GEGN EYÐIMERKURMYNDUN, STÖÐVA OG SNÚA VIÐ JARÐVEGSEYÐINGU OG SPORNA VIÐ HNIGNUN LÍFFRÆÐILEGS FJÖLBREYTILEIKA

En hvað er svona einstakt við moldina? Jú, hún geymir og miðlar vatni og næringarefnum til plantna og er því afar mikilvæg gróðri, til að mynda matjurtum og fóðurplöntum. Fæðuframleiðsla okkar á þurrlendi byggir því á því að við höfum frjósama mold til ræktunar. Moldin hreinsar einnig vatn og er því mikilvæg til að viðhalda og tryggja góð vatnsgæði. Enn fremur geymir moldin meira kolefni en andrúmsloftið og allur gróður á landi samanlagt. Breytingar á magni þess hefur áhrif á loftslagið. Þannig minnkar kolefnisforðinn í moldinni við landhnignun og jarðvegsrof og eykur á hlýnun jarðar, en um fjórðungur af auknu kolefni í andrúmslofti er vegna landhnignunar og landeyðingar af manna völdum. Landhnignun leiðir einnig til minnkandi frjósemi moldarinnar og skertrar getu til að miðla og geyma vatn og næringarefni. Land sem hefur tapað frjósemi sinni gefur af sér minni afurðir. Árlega tapast  um 12 milljónir hektara af frjósömu landi - rúmlega stærð Íslands - vegna rangra aðferða við ræktun, skógareyðingar og ofnýtingar, svo sem ofbeitar. Jarðvegur myndast mjög hægt og því er mikilvægt að sporna við landeyðingu og minnkaðri frjósemi moldarinnar með landbótum og vistheimt.

Með því að vinna að Heimsmarkmiði 15, stöðva landeyðingu, vernda, endurheimta og stuðla að sjálfbærri nýtingu landvistkerfa, vinnum við einnig að því að ná mörgum hinna Heimsmarkmiðanna, s.s. að útrýma fátækt (1), tryggja fæðuöryggi (2) og nægt hreint vatn (6), draga úr loftslagsbreytingum (13) og vernda hafið (14). Jafnframt stuðlum við að sjálfbærri efnahagslegri hagsæld (8) þar sem stór hluti hagkerfisins byggir á nýtingu náttúruauðlinda eins og moldarinnar. 

Námskeið Jarðhitaskólans til stuðnings Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna

eftir Ingimar G. Haraldsson aðstoðarforstöðumann Jarðhitaskólans

Jarðhitaskólinn er ein af fjölmörgum kennslueiningum innan Háskóla Sameinuðu þjóðanna (HSþ).  Höfuðstöðvarnar eru staðsettar í Tókýó, en kennslustofnanir og -einingar eru dreifðar út um hnöttinn, þar af fjórar á Íslandi:  Jarðhitaskólinn (stofnaður 1978), Sjávarútvegsskólinn (1998), Landgræðsluskólinn (2007/2010) og Jafnréttisskólinn (2009/2013).  Skólinn starfar samkvæmt þríhliða samkomulagi HSþ, utanríkisráðuneytis og Orkustofnunar.  Fjárveitingar til grunnstarfseminnar koma frá íslenska ríkinu í gegnum utanríkisráðuneytið og flokkast undir opinbera þróunaraðstoð, en skólinn hefur frá upphafi verið hýstur innan Orkustofnunar.
 
Efri myndin frá Keníanámskeiðinu í nóvember, tekin í vettvangsferð á Olkaria svæðinu með Mt. Longonot í bakgrunni; neðri myndin hópmynd frá El Salvador námskeiðinu í september. Ljosmyndir: IGH
Starfsemin á Íslandi
Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna var stofnaður á Íslandi í lok árs 1978 með það að markmiði að styðja við rannsóknir og nýtingu á jarðhita í þróunarlöndum.  Þetta skyldi gert með því að bjóða jarðvísindafólki og verkfræðingum frá hlutaðeigandi stofnunum og fyrirtækjum í samstarfslöndum til 6 mánaða sérhæfðs náms á Íslandi undir handleiðslu íslenskra sérfræðinga.  Frá árinu 1979 hefur 6 mánaða námið verið kjarninn í starfsemi skólans og eiga nemendur þess kost að innritast á eina af átta mismunandi sérhæfðum námsbrautum sem keyrðar eru frá apríl til október ár hvert.  Alls hafa 647 sérfræðingar frá 60 löndum útskrifast úr náminu frá upphafi og á skólinn stóran þátt í menntun og eflingu þess mannauðs sem víða vinnur að framgangi jarðhitarannsókna og -nýtingar í þróunarlöndunum.
 
Um aldamótin hófu Jarðhitaskólinn og Háskóli Íslands samstarf um framhaldsmenntun fyrir fyrrverandi 6 mánaða nema, og Háskólinn í Reykjavík bættist síðar við sem samstarfsaðili.  Nemendur sem lokið hafa 6 mánaða þjálfuninni hafa því um langt skeið átt þess kost að sækja um styrk til Jarðhitaskólans til að standa straum af kostnaði við meistaranám á Íslandi við annan hvorn háskólann, og jafnvel doktorsnám við Háskóla Íslands.  Alls hafa 52 lokið MSc námi og 2 hafa varið doktorsverkefni sín við HÍ.
 
Þó starfsemin hafi framan af að mestu farið fram á Íslandi, hefur hún frá árinu 2005 jafnframt færst út til samstarfslandanna í auknum mæli, sér í lagi Kenía og El Salvador.  Eiga námskeið sem haldin hafa verið til stuðnings þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna átt stóran þátt í þeirri þróun.
 
Þúsaldarnámskeiðin í Kenía
Á fundi æðstu ráðamanna aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem haldinn var í Jóhannesarborg árið 2002 tilkynnti ríkisstjórn Íslands aukin framlög til Jarðhitaskólans sem nýta skyldi í vinnuþing og námskeið sem haldin yrðu í þróunarlöndunum til stuðnings þúsaldarmarkmiðunum.  Fyrsti atburðurinn var vinnuþing sem haldið var í Kenía í nóvember 2005 og var markhópurinn aðilar sem höfðu aðkomu að og áttu þátt í ákvarðanatöku vegna jarðhitaverkefna í Afríku.  Á þinginu kom m.a. fram samdóma álit þessara aðila um að mikil þörf væri á styttri námskeiðum á svæðinu þar sem áhersla væri lögð á jarðhitarannsóknir.  Slík námskeið myndu gagnast öllum þeim löndum álfunnar þar sem jarðhita er að finna, enda voru flest löndin enn að rannsaka og meta jarðhitaauðlindir sínar og sum hver voru á byrjunarreit, en jarðhitavirkjanir höfðu þó verið settar upp í Kenía (127 MW) og Eþíópíu (8,5 MW). 
 
Hið fyrsta í röð námskeiða til stuðnings þúsaldarmarkmiðunum í Afríku var haldið í Kenía árið 2006 í samstarfi við helsta raforkufyrirtæki landsins, KenGen.  Námskeiðin urðu árlegur viðburður og þróuðust og efldust eftir því sem árunum fjölgaði.  Árið 2009 bættist jarðhitaþróunarfyrirtæki Kenía (Geothermal Development Company - GDC), sem þá var nýstofnað, við sem samstarfsaðili og hafa námskeiðin síðan þá verið haldin í nánu samstarfi Jarðhitaskólans, KenGen og GDC.  Auk íslenskra sérfræðinga skipa fyrrverandi 6 mánaða nemar Jarðhitaskólans, sem margir hverjir hafa jafnframt að baki framhaldsnám á Íslandi, veigamikinn sess í kennslu og leiðbeiningarstörfum á námskeiðunum. 
 
Á síðustu árum hafa námskeiðin í Kenía staðið yfir í þrjár vikur.  Fyrsta vikan hefur verið helguð vettvangsvinnu á Bogoria svæðinu í Sigdalnum mikla og hafa kenísku samstarfsaðilarnir alfarið séð um þann kafla.  Síðari tvær vikurnar hafa námskeiðin verið haldið við Naivashavatn, í námunda við Olkaria jarðhitasvæðið þar sem mikil uppbygging hefur átt sér stað á síðustu árum, enda svæðið eitt hið gjöfulasta sem um getur.  Þessi kafli námskeiðanna hefur einkennst af fyrirlestrum, verkefnavinnu, vettvangsferðum um Olkaria svæðið og umfjöllun um stöðu jarðhitamála í Afríku.  Frá árinu 2010 hafa á milli 55 og 70 manns tekið þátt í námskeiðunum á hverju ári, um helmingur frá löndum utan Kenía, en hinn helmingurinn frá gestgjafalandinu. 
 
Uppbyggingin hefur verið mjög hröð undanfarið í Kenía og er nú svo komið að landið hefur tekið fram úr Íslandi á hinni alþjóðlegu stigatöflu uppsetts afls jarðhitavirkjana (677 MW á móti 665 MW).  Það er því óumdeilanlegt að Kenía býður upp á besta vettvang sem völ er á fyrir námskeiðin í Afríku.  Kennarar og þekking eru til staðar, en jafnframt fá þátttakendur frá öðrum löndum álfunnar tækifæri til þess að sjá með eigin augum dæmi um það hverju nýting jarðhita getur áorkað.
 
Möguleikar til nýtingar jarðhita í Afríku eru miklir, en misjafnlega er gefið á milli landa.  Þannig er austari grein austur afríska rekbeltisins gjöfulli á jarðhita en sú vestari og það sama má segja um samanburð við greinina sem teygir sig til suðurs frá Tansaníu í gegnum Malavívatn og áfram til Mósambík.  Þá er djúpan lághita að finna víða í norður Afríku og staðbundinn jarðhita kann að vera finna á öðrum svæðum, s.s. í Kamerún.  Möguleikar til raforkuframleiðslu eru því mestir austan til og þá sérstaklega í Kenía og Eþíópíu, en jafnframt horfa lönd á borð við Djibútí, Eritreu, Úganda og Tansaníu til jarðhitans sem uppsprettu raforku.  Á lághitasvæðum kann að vera mögulegt að framleiða raforku með tvívökvatækni, en margvísleg tækifæri liggja jafnframt í beinni nýtingu á borð við þurrkun matvæla, ylrækt, fiskeldi, gerilsneyðingu mjólkur, baðlón og heilsutengda ferðaþjónustu.
 
Þúsaldarnámskeiðin í El Salvador
Í mörgum löndum Rómönsku Ameríku og Karíbahafsins er jarðhita að finna, en nýting til raforkuframleiðslu hefur til þessa verið bundin við einstök lönd Mið-Ameríku og Mexíkó.  Eldfjallaeyjar Antilles eyjabogans í Karíbahafi búa margar hverjar yfir jarðhita sem mögulega má nýta til raforkuframleiðslu og Andes fjallgarður Suður Ameríku hefur að geyma mörg jarðhitasvæði.   Að auki eru enn ónýtt jarðhitasvæði í Mið-Ameríku og Mexíkó.  Vegna möguleikanna sem til staðar eru og þarfar almennings þessara landa fyrir orku varð þetta svæði því fyrir valinu sem vettvangur annarrar námskeiðaraðar til stuðnings þúsaldarmarkmiðunum.
 
Í lok nóvember 2006 var haldið í El Salvador vinnuþing fyrir aðila frá Mið-Ameríku og Mexíkó sem þátt áttu í ákvarðanatöku vegna jarðhitaverkefna í heimalöndum sínum, á svipuðum nótum og námskeiðið í Kenía árið áður.  Vinnuþinginu var síðan fylgt eftir með námskeiðaröð í samstarfi við jarðhitafyrirtækið LaGeo í El Salvador til stuðnings þúsaldarmarkmiðunum og var hið fyrsta helgað forðamati og umhverfismálum, haldið ári eftir vinnuþingið.  Námskeiðin í El Salvador hafa að ýmsu leyti verið frábrugðin námskeiðunum í Afríku vegna annarra þarfa.  Í upphafi var markhópurinn sem fyrr segir lönd Mið-Ameríku og Mexíkó sem þegar voru komin nokkuð á veg með nýtingu jarðhita, enda voru jarðhitavirkjanir þá til staðar í El Salvador (204 MW), Kosta Ríka (163 MW), Níkaragva (83 MW), Gvatemala (44 MW) og Mexíkó (953 MW !).  Námskeiðin voru því styttri en í Kenía (vikulöng, með undantekningum þó) og voru yfirleitt byggð upp með fyrirlestrum.  Umfjöllunarefnið breyttist á milli ára í samræmi við óskir fulltrúa þátttökulanda.  Með árunum hefur þátttaka í námskeiðunum breiðst út til Karíbahafsins og Suður Ameríku og hefur áhugi á jarðhitanýtingu farið vaxandi á svæðinu.  Líkt og í Kenía hafa íslenskir sérfræðingar komið að kennslu, en jafnframt sjá fyrrverandi nemendur Jarðhitaskólans frá svæðinu um stóran hluta hennar.  Fyrirlestrar eru ýmist á ensku eða spænsku, eftir því sem fyrirlesari kýs, en boðið er upp á samtímatúlkun á milli tungumálanna tveggja fyrir þá sem þess þurfa við. 
 
Þar sem innlendar orkulindir smærri eyja Karíbahafsins eru takmarkaðar eru ríkin gjarnan í þeirri stöðu að þurfa að flytja inn kolefnaeldsneyti til að knýja rafstöðvar.  Nokkrar eldfjallaeyjar sitja þó á dýrmætum jarðhitaauði sem mögulega má nýta til raforkuframleiðslu og hafa ríkisstjórnir sumra þessara eyja unnið að því á síðustu árum að gera slíkt að veruleika.  Með þessu eygja íbúar von um lægra raforkuverð til lengri tíma, meiri stöðugleika í orkuverði og mun minni losun koltvísýrings út í andrúmsloftið.  Áhrifin til lengri tíma gætu því mögulega orðið á borð við jákvæð áhrif hitaveituvæðingar á Íslandi.  Eins og gengur tekur þó töluverðan tíma að koma jarðhitaverkefnum á koppinn og er fjármögnun þar oft hár þröskuldur sem þarf að yfirstíga.  Þá eru möguleikar til jarðhitanýtingar i Suður Ameríku töluverðir og víða álitleg jarðhitasvæði að finna.  Í sumum tilfellum skapar mikil hæð svæðanna og fjarlægð frá raforkukerfi þó ákveðin vandamál sem þarf að yfirstíga og eins eru regluverk landanna jarðhitanýtingu mis hliðholl.  Hvað sem því líður hefur aukins áhuga gætt á jarðhitanýtingu í Suður Ameríku á síðustu árum, sem m.a. hefur komið fram í aukinni aðsókn á þúsaldarnámskeiðin. 
 
Vinnuþing í Kína - Vísir sem ekki varð
Árið 2008 var haldið í Kína vinnuþing fyrir stjórnendur í ætt við þingin sem áður höfðu verið haldin í Kenía og El Salvador og var vonin sú að hægt yrði að fylgja því eftir með námskeiðaröð eins og í hinum löndunum, enda jarðhita að finna víða í Asíu og nýtingarmöguleikar miklir.  Hrunið setti þó strik í þau áform þar sem fjárveitingar næstu ára reyndust ekki nægja til þess að þetta yrði að veruleika.  Áhugi á samstarfi við Jarðhitaskólann hefur þó áfram verið mikill í Kína og víðar í Asíu. 
 
Þúsaldarnámskeiðin - Horft til baka
Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna runnu sitt skeið í lok árs 2015, en við tóku markmið sjálfbærrar þróunar - heimsmarkmiðin - sem verða í gildi til ársins 2030.  Áhugi var á að halda námskeiðunum í Kenía og El Salvador áfram, en ljóst var að breyta þyrfti kennimerkingu þeirra við þessi tímamót.  Síðustu þúsaldarnámskeiðin voru því haldin árið 2015.  Sé litið um öxl voru haldin 11 námskeið á árabilinu 2006-2016 í Afríku, þar af eitt í Úganda en hin í Kenía, auk vinnuþingsins 2005.  Þátttakendur voru alls 554 frá 21 Afríkulandi (Algeríu, Búrúndí, Kamerún, Kómóróeyjum, Lýðveldinu Kongó, Djibútí, Egyptalandi, Eritreu, Eþíópíu, Kenía, Marokkó, Mósambík, Níger, Nígeríu, Rúanda, Súdan, Tansaníu, Úganda, Sambíu og Simbabwe) auk Jemen.  Í El Salvador voru haldin 7 námskeið á árabilinu 2007-2015, auk vinnuþingsins 2006.  Þátttakendur voru 411 frá 15 löndum (Bólivíu, Síle, Kólombíu, Kosta Ríka, Dóminiku, El Salvador, Ekvador, Gvatemala, Hondúras, Mexíkó, Montserrat, Skt. Kitts og Nevis, Níkaragva, Perú og Skt. Vinsent og Grenadíneyjum), auk nokkurra þátttakenda frá alþjóðastofnunum.  Að vísu er rétt að halda því til haga að í einhverjum tilfellum hefur sama fólk setið fleiri en eitt námskeið í El Salvador sem kemur til af því að breytt er um umfjöllunarefni frá ári til árs.
 
Ljóst er að með námskeiðunum hefur Jarðhitaskólinn náð til mun fleiri starfandi og upprennandi jarðhitasérfræðinga en mögulegt hefði verið í gegnum 6 mánaða námið á Íslandi.  Námskeiðin hafa nýst til þess að deila mikilvægri þekkingu á milli heimsálfa og kynslóða, þau hafa í mörgum tilfellum verið fyrsti snertiflötur margra við hið alþjóðlega jarðhitasamfélag, tengsl hafa myndast á milli þátttakenda og kennara sem jafnvel hafa orðið kveikja að samstarfi síðar meir, og síðast en ekki síst hafa námskeiðin reynst mikilvægur vettvangur fyrir val á nemum í 6 mánaða námið á Íslandi.  Þannig má segja að forval 6 mánaða nema fari fram í aðdraganda námskeiðanna, en þátttakendur eru síðan teknir í ítarleg viðtöl á meðan á námskeiðunum stendur.  Námskeiðin eru því til þess fallin að bæta val á nemendum inn í 6 mánaða námið og lækka kostnað við valferlið.
 
Sérsniðin námskeið
Í kjölfar velgengni þúsaldarnámskeiðanna í Kenía og El Salvador fór Jarðhitaskólinn að fá fyrirspurnir um möguleikann á því að skipuleggja og halda námskeið í þróunarlöndunum gegn greiðslu.  Opnað var á þennan kost árið 2010 og voru það ár haldin fjögur sérsniðin námskeið:  tvö í Indónesíu sem fjármögnuð voru í gegnum þróunarsjóði og tvö í Kenía sem fjármögnuð voru af jarðhitafyrirtækjunum tveimur sem Jarðhitaskólinn hafði átt farsælt samstarf við vegna þúsaldarnámskeiðanna.  Vegna hraðrar uppbyggingar í Kenía var þörfin fyrir þjálfun mikil og meiri en svo að henni væri annað með þúsaldarnámskeiðunum eða 6 mánaða náminu á Íslandi.  Þessi þáttur starfseminnar - sérsniðnu námskeiðin - hefur síðar vaxið töluvert og hafa nú 59 námskeið, vinnuþing og þjálfunarlotur verið haldin undir þessum formerkjum í fjórum heimsálfum og er lengdin allt frá degi upp í mánuði. 
 
Auk þess að ýta undir hugmyndina um sérsniðnu námskeiðin gerðu þúsaldarnámskeiðin þau möguleg þar sem þróunarvinna hafði þegar farið fram og kennsluefni var að miklu leyti til.  Þvi var hægt að setja saman námskeiðsdagskrár um tiltekið efni að beiðni utanaðkomandi aðila með lítilli fyrirhöfn, kennsluefni var tiltækt og kennarar voru í þjálfun.  Án þúsaldarnámskeiðanna er ólíklegt að þróunin hefði orðið eins og raun ber vitni.
 
Námskeið til stuðnings Heimsmarkmiðunum
Við þau tímamót sem urðu við samþykkt og innleiðingu nýrra Heimsmarkmiða var sú ákvörðun tekin innan Jarðhitaskólans að hefja nýjar námskeiðaraðir í Kenía og El Salvador Heimsmarkmiðunum til stuðnings, enda námskeiðin sérlega vel til þess fallin að styðja við markmið 7 um aðgang allra að áreiðanlegri orku á viðráðanlegu verði og nútímalegu formi (raforka) með sjálfbærni að leiðarljósi.  Að auki styður jarðhitanýting, og þar með námskeiðin, við markmið 13 um bráðaaðgerðir gegn loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra, auk þess sem námskeiðin styðja við fjölmörg önnur markmið, s.s. markmið um vinnu og hagvöxt, markmið um iðnað, nýsköpun og innviði, markmið um útrýmingu fátæktar, markmið um samvinnu, og síðast en ekki síst markmið um kynjajafnrétti.  Jarðhitaskólinn hefur lagt áherslu á tilnefningu kvenna á námskeiðin og konur njóta jafnan forgangs við val á þátttakendum að því tilskildu að þær uppfylli þær kröfur sem almennt eru gerðar til þátttakenda.   
 
Fyrsta "sjálfbærninámskeiðið" var haldið í El Salvador í septemer 2016.  Uppbygging námskeiðsins var mjög í anda fyrri námskeiða í El Salvador, en umfjöllunarefnið var helgað sjálfbærni, stjórnun nýtingar jarðhitaauðlinda út frá umhverfisnálgun og hlutverki jarðhitans í baráttu við loftslagsbreytingar (e. SDG Short Course I on Sustainability and Environmental Management of Geothermal Resource Utilization and the Role of Geothermal in Combatting Climate Change).  Umfjöllunarefnið var mjög við hæfi í ljósi nýju námskeiðaraðarinnar og virtist falla vel í kramið hjá þátttakendum sem að þessu sinni voru 68 talsins frá 14 löndum, sem er metfjöldi á námskeiðunum í El Salvador.  Auk fyrirlestra og vettvangsferðar í jarðhitavirkjanir sem kenndar eru við bæinn Berlin gafst þátttakendum kostur á að skrá sig í eitt af fimm hópverkefnum sem boðið var upp á: 1) Leyfisveitingaferli og umhverfismat; 2) Eftirlit, skýrslugerð og staðfesting á kolefnisútblæstri jarðhitavirkjana; 3) Setning vinnslumarka sjálfbærrar nýtingar; 4) Mat á jarðhitaverkefni út frá sjálfbærniviðmiðum; og 5) Innleiðing umhverfisstjórnunarkerfis í jarðhitafyrirtæki.  Þó svo að umfjöllunarefni næstu námskeiða verði önnur, verður áfram leitast við að styðja sem best við heimsmarkmiðin í útfærslu þeirra.
 
Á síðustu árum hefur Jarðhitaskólinn komið að uppbyggingu diplóma náms í jarðhitafræðum við Háskólann í El Salvador, fyrst í ráðgjafarhlutverki, en í ár sem beinn aðili að þessari námsleið sem kennd er á spænsku og gagnast þ.a.l. nemendum frá Rómönsku Ameríku sérlega vel, ásamt LaGeo og háskólanum.  Námsleiðin er fjármögnuð af norræna þróunarsjóðnum og standa vonir til þess að hægt verði að bjóða upp á hana áfram á komandi árum, þó fjármögnun sé ekki tryggð til framtíðar.  Auk salvadorískra kennara koma íslenskir kennarar á vegum Jarðhitaskólans að.  Framlag Jarðhitaskólans er margþætt, en m.a. er sjálfbærninámskeiðið lagt fram sem hluti af námsskránni.  Nemendur diplóma námsins sóttu því allir námskeiðið sem haldið var í september og er stefnt að sama fyrirkomulagi á næsta ári.
 
Fyrsta námskeið nýrrar námskeiðaraðar í Kenía var haldið í nóvember 2016 og var það byggt á styrkum stoðum fyrri námskeiða með nokkrum skipulagsbreytingum og nýjungum þó.  Sem fyrr var námskeiðið þriggja vikna langt og var fyrsta vikan sem haldin er í nágrenni Bogoriavatns óbreytt frá þúsaldarnámskeiðunum eins og þau hafa verið útfærð síðustu ár.  Á tveimur síðustu vikunum við Naivashavatn var þó meiri áhersla en áður lögð á sjálfbærni, og nýjum fyrirlestrum um borholujarðfræði, forðafræði og verkefnastjórnun var bætt við dagskrána.  Í verkefnavinnunni sem nær yfir þrjá daga fengu þátttakendur nasasjón af jarðhitarannsóknum á lághitasvæðum jafnt sem háhitasvæðum, en fram að því hafði háhitinn verið í fyrirrúmi í verkefnavinnunni.  Með vaxandi vitund um eðlismun jarðhitakerfa í austari og vestari greinum Austur-Afríska rekbeltisins, sem m.a. kom fram í niðurstöðum vinnuþings um jarðfræðilega þróun og jarðeðlisfræði vestari greinar hins mikla Austur-Afríska rekbeltis sem haldið var í Kigali í Rúanda í mars á þessu ári, er tilhlýðilegt að veita þátttakendum aukna innsýn í fyrirkomulag rannsókna á lághitasvæðum, en rannsóknaraðferðirnar geta á stundum verið frábrugðnar eftir þvi hvort um lág- eða háhita er að ræða.  Þá var boðið upp á spurningaleik á lokadegi námskeiðsins með spurningum byggðum á efni námskeiðsins og upplifunum ýmsum, og mæltist hann vel fyrir. 
 
Um nokkurt skeið hafa verið uppi áform um stofnun jarðhitaseturs fyrir Afríkulönd í Kenía þar sem boðið verður upp á margvíslega þjálfun og nám í jarðhitafræðum.  Þar hefur m.a. verið rætt um að Jarðhitaskólinn komi að, en sem stendur er óljóst með útfærsluna.  Þó er líklegt að námskeiðin verði tengd setrinu ef af stofnun þess verður.  Hugmyndin kallast vissulega á við hlutverk Jarðhitaskólans í diplóma náminu við Háskólann í El Salvador og er það vissulega ánægjuleg tilhugsun ef námskeiðin geta stutt við eða jafnvel orðið vísir að varanlegum þekkingarmiðstöðvum í samstarfslöndunum.
 
Hvað sem þessu líður er vonin sú að námskeiðin muni eiga þátt í því að Heimsmarkmiðin verði að veruleika eigi síðar en árið 2030. Sér í lagi er horft til þess að þau u.þ.b. 15% Jarðarbúa sem nú hafa engan aðgang að raforku, muni hafa þann aðgang árið 2030, en jafnframt er horft til áreiðanleika og hagkvæmni raforkuframleiðslu jarðhitavirkjana og þeirra jákvæðu áhrifa sem þær hafa á loftslag og hnattræna hlýnun ef þær eru valkostur við virkjanir sem byggja á notkun kolefnaeldsneytis.  Mörg lönd sem hafa yfir drjúgum jarðhitaauðlindum að ráða hafa enn sem komið er lítið sem ekkert nýtt þær - m.a. vegna þess að þekkingu er ábótavant - og aðrar þjóðir hafa einungis tekið sín fyrstu skref á sviði jarðhitanýtingar.  Starf Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna hér heima og erlendis, sem grundvallast á áratugareynslu Íslendinga af nýtingu jarðhita til margvíslegra nota, er til þess fallið að stuðla að nýtingu þessara auðlinda, þegnum landanna og heimsbyggðinni allri til framdráttar - og þar skipa námskeiðin veigamikinn sess.

Sagan á bak við capulana

eftir Önnu Guðrúnu Aradóttur starfsnema í Mapútó

Ljósmyndir: Annna Guðrún Aradóttir
Í sendiráðum Íslands í Malaví, Mósambík og Úganda starfa þrír starfsnemar sem líkt og undanfarin ár hafa fallist á beiðni Heimsljóss um pistlaskrif þann tíma sem þeir dvelja í samstarfslöndum Íslendinga.

Eitt af því sem einkennir Mósambík er litríkur fatnaður heimamanna sem fer varla fram hjá neinum sem sækir landið heim. Hvert sem litið er sér maður konur sveipaðar í litrík og mynstruð efni, svokölluð capulana, sem þær binda um sig miðja og nota sem einskonar pils, eða sem burðarpoka fyrir börnin sín, höfuðklúta og fleira. Bæði konur og karlar klæðast einnig sérsniðnum fötum úr capulana og það er hægt að gleyma sér alveg í að virða fyrir sér fallega og litríka kjóla, skyrtur, pils og fleira og fleira. En capulana er miklu meira en bara efni, það hefur djúpa félags- og menningarlega merkingu sem er táknræn fyrir Mósambíka og það er jafnvel hægt að segja að það sé partur af sjálfsmynd mósambískra kvenna.
 
Það fer misjöfnum sögum um hvaðan capulana er upprunnið, en svipuð efni má einnig finna í öðrum löndum Afríku og kannast kannski margir við kanga úr Swahili menningu Austur Afríku. Flestum ber einmitt saman um að capulana hafi komið með Portúgölum sem fluttu það inn til Kenýa frá Indlandi á 19. öld. Indverskur vefnaður var mikilvæg tekjulind í viðskiptum á austurströnd Afríku og notuðu Portúgalar litla áprentaða efnisbúta sem verslunarvöru í Mombasa í Kenía. Sagan segir að Swahili konur hafi keypt efnin og bundið þau saman svo úr varð stærri klútur sem þær svo sveipuðu um sig miðja og notuðu sem pils. Það var ódýrara að gera þetta svona en að kaupa efni af þessari stærð. Indverskir og arabískir kaupmenn hafi svo fært viðskipti sín niður til Mósambík þar sem sagan af capulana byrjaði.
 
Upprunalega voru capulana í Mósambík í þremur litum, rauð, hvít eða svört. Hvítur táknaði verndun forfeðranna, svartur táknaði hið illa og rauður táknaði stríð. Fyrstu prentin voru yfirleitt fyrirbæri úr náttúrunni, sól, plöntur eða dýr. Þessar týpur af capulana voru allsráðandi fyrir nýlendutímann en í dag eru þær aðallega notaðar af "curandeiros", einskonar andalæknum og græðurum, og eru dýrari á mörkuðum bæjarins þar sem þau eru álitin vera mikils virði og einnig einstaklega falleg. Í dag má finna capulana í allskyns litum og mynstrum sem eru ólík eftir svæðum og siðum. Þau hafa enn táknræna merkingu og eru notuð við ýmis tækfæri, í vígsluathöfnum, á dansviðburðum og jafnvel til að koma pólitískum skilaboðum áleiðis. Capulana sem gjöf er þýðingarmikið og hefur mikla merkingu bæði fyrir þann sem gefur og þann sem þiggur. Það færir gleði og vináttu og styrkir oft félagslega stöðu viðkomandi. Mæður geyma capulana fyrir dætur sínar sem þær gefa þeim þegar þær giftast og segja þeim þá söguna af hverri flík, hvenær capulanað var gefið upprunalega, hver gaf það og við hvaða tilefni.
 
Capulana geyma þannig sögur og varðveita menningu Mósambíka - sögur sem fylgja kynslóðum og ganga munnlega mann fram af manni. Það eru til orðatiltæki sem eru tengd við capulana og vísa oft til kvenleika (e. womanhood). Valdamikil og félagslega sterk kona er til dæmis sögð "vera í þéttu capulana" og þegar kona stendur frammi fyrir krefjandi áskorun á hún að "binda capulanað vel". Samkvæmt Paulu Chiziane, mósambískum rithöfundi, gefa menn konunum sínum blóm í Evrópu, en í Mósambík fá þær capulana. Ástæðan er sú að blóm fölna og deyja en capulana endast að eilífu.
 
Sjálf lét ég loksins sauma á mig kjól úr capulana um daginn svo jólakjóllinn í ár verður fallega gulur með rauðu mynstri - kjóll sem á eftir að geyma mína sögu frá Mósambík.
 
Heimildir
 
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

Þar sem þetta er síðasta tölublaðið á árinu óskum við lesendum nær og fjær GLEÐILEGRA JÓLA og farsældar á nýju ári.

 

ISSN 1670-8105