Heimsljós
veftímarit um þróunar- og mannúðarmál
10. árg. 331. tbl.
28. júní 2017
Fjársöfnun til flóttamanna í Úganda mun minni en vænst hafði verið 
-matarskammtar til flóttamanna skornir niður um helming

Ant_nio Guterres a_alframkv_mdastj_ri S_ heilsar upp _ fl_ttaf_lk _ Bidibidi.
António Guterres aðalframkvæmdastjóri SÞ heilsar upp á flóttafólk/ UN
"Áheitaráðstefna SÞ og ríkisstjórnar Úganda vegna stigvaxandi flóttamannavanda í landinu leiddi ekki til þess árangurs sem vænst hafði verið," segir Stefán Jón Hafstein forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala. Hann segir að fyrir ráðstefnuna í síðustu viku hafði verið gefið út að vonast væri eftir tveimur milljörðum dollara í áheit en niðurstaðan varð nær 360  milljónum dollara .  "Þetta er varla helmingur þess sem talin er þörf á, aðeins í ár.  Evrópuríkin voru lang öflugust í áheitum með nær 300 milljónir dollara samtals. Danmörk, Noregur, Svíþjóð og Finnland lögðu mikið af mörkum," segir hann.
 
Ráðstefnan hófst fyrri daginn á ferð margra fyrirmenna til flóttamannasamfélaganna, en síðari dagurinn byrjaði á persónulegum sögum ungra og aldinna sem leitað hafa hælis í Úganda. Stefán segir að það hafi verið áhrifaríkar sögur sem varpað hafi ljósi á að bak við þessar háu tölur séu einstaklingar með vonir og þrár um betra og öruggara líf en það sem bjóðist í heimalandi þeirra. 

Úganda er gistiríki fleiri flóttamanna en nokkurt ríki Afríku og er þriðja í röðinni á heimsvísu á eftir Tyrklandi og Pakistan. Heildarfjöldi flóttamanna í landinu nálgast 1,3 milljónir og stefnir í 1,5 milljónir í árslok. Innan grannríkisins Suður-Súdan er talið að 2-4 milljónir manna séu uppflosnaðar.  Úganda er griðarstaður fyrir flóttamenn frá Suður-Súdan, þaðan koma langflestir, en einnig koma til landsins flóttamenn frá Kongó, Búrúndi, Eritreu og Sómalíu. Um 80% flóttamanna frá Suður-Súdan eru konur og börn.  Meira en sex hundruð þúsund manns hafa bæst í hópinn á innan við einu ári.

"Svonefnt Solidarity Summit átti að draga athygli heimsbyggðarinnar að þessum mikla vanda, undirrót hans og því að Úganda hefur að margra mati rekið mjög framsækna flóttamannastefnu. Úganda hefur ,"opnað dyr" og veitir flóttamönnum margvísleg réttindi sem væru þeir innfæddir, ferðafrelsi, atvinnuréttindi og margvísleg önnur "fríðindi" sem leitt hafa til þess að ekki er talað um "flóttamannabúðir" heldur "samfélög" þar sem vonast er til að flóttamenn og heimamenn nái að búa í samlyndi. Úganda hefur uppskorið talsvert hrós fyrir," segir Stefán Jón.

Markmið náðist ekki
Alþjóðlegur stuðningur og skuldbinding er fjarri því að sögn Stefáns Jóns að vera nægjanleg og hlýtur að vera SÞ og Úganda vonbrigði. Áheitafé kemur ekki allt í einu og  ljóst er eftir ráðstefnuna að það sem lofað var nær ekki að greiða fyrir þarfir upp á 800-900 milljónir dollara í ár.  Hann segir að Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) sé þegar byrjuð að skera niður matarskammta til flóttamanna um 50%.

"Fjárþörf til samfélaganna er því gríðarleg ennþá og vaxandi straumur flóttamanna enn. Talið er 2000 manns komi yfir frá Suður-Súdan daglega að jafnaði.  Skýr merki eru um aukna spennu milli flóttamana innbyrðis og í samskiptum við heimamenn. Sú jákvæða mynd sem dregin er af framsækinni flóttamannastefnu Úganda er í hættu vegna innbyrðis streitu og álags í heimahéruðum."

Stefán Jón segir enga pólitíska lausn á undirrót vandans í Suður Súdan. Antonio Gueterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna brýndi alþjóðasamfélagið með beinskeyttum hætti að leita friðar í landinu. "Ákall um "friðsamlega" lausn hefur nú hljómað í fjögur ár á meðan blóðsúthellingar stigmagnast og kreppan er nú sú stærsta í Afríku síðan fjöldamorðin í Rúanda, 1994, að mati Guterres," segir Stefán Jón.

Hann kveðst óttast að ástandið gæti farið úr óstöðugu í verulega slæmt í Úganda á stuttum tíma. Forseti Úganda og aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hafi hins vegar lýst ráðstefnunni sem "góðri byrjun."

Íslendingar leggja sitt af mörkum í baráttunni við ungbarnadauða:
Brýnt að draga úr heimafæðingum til að lækka dánartíðni nýbura
Tæplega sextán þúsund ung börn deyja á hverjum degi víðs vegar um heiminn, samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum. Helmingur barnanna eru nýburar.

Fréttaveitan Voice of America segir að rannsókn á vegum Sameinuðu þjóðanna á dánartíðni kornabarna hafi leitt í ljós að dánartíðnin hafi verið hæst í Afríku, að jafnaði 28 dauðsföll af hverjum 100 þúsund lifandi fæddum börnum. Ítarlegri greining Sue Grady í Michigan State háskólanum og annarra fræðimanna - sem náði til fjórtán Afríkuþjóða sunnan Sahara - sýndi að dauðsföll kornabarna voru marktækt tengd heimafæðingum þar sem börn fæddust án þess að þjálfað fagfólk kæmi við sögu.

Grady segir í samtali við VOA að margir nýburanna kafni strax eftir fæðingu eða nái aldrei að draga fyrsta andann. Önnur algeng dánarmein eru sýkingar og niðurgangspestir vegna mengaðs vatns. Að mati Grady mætti draga verulega úr dánartíðni nýbura ef fæðingar færu fram á sjúkrahúsum eða heilsugæslustöðvum að viðstöddu þjálfuðu heilbrigðisstarfsfólki. Hún segir að einblína þurfi á hreinlætisaðstæður við fæðingu barna, hreinsa vandlega naflastrenginn og gæta þess sérstaklega að vatnið sem barnið fær sé ómengað.

Börn eldri kvenna og stúlkubörn í meiri áhættu
Markmið rannsóknar Grady og samstarfsfólks hennar hefur það markmið að veita Sameinuðu þjóðunum upplýsingar til grundvallar baráttunni fyrir því að draga úr barnadauða. Á tíma þúsaldarmarkmiðanna, frá 1990 til 2015, tókst að minnka barnadauða um 53%, úr tæplega tólf milljónum árlegum dauðsföllum niður í sex milljónir. Með nýju Heimsmarkmiðunum er stefnt að því "að eigi síðar en árið 2030 verði bundinn endir á dauða nýbura og barna undir 5 ára aldri sem hægt er að koma í veg fyrir og stefni öll lönd að því að lækka dánartíðni nýbura að minnsta kosti niður í 12 af hverjum 1.000 fæðingum lifandi barna og dánartíðni barna undir 5 ára aldri að minnsta kosti niður í 25 af hverjum 1.000 fæðingum lifandi barna," eins og segir í markmiði 3.2.

Rannsókn Michigan háskólans leiddi í ljós að börn eldri mæðra eru í áhættuhópi og deyja fremur fyrsta sólarhringinn eftir fæðingu en börn yngri mæðra og eins sýndi rannsóknin að stúlkubörn eru í meiri áhættu en piltbörn. Ástæðurnar þessa eru ekki kunnar en vilji til að rannsaka þær, segir í frétt VOA.

Áherslur í íslenskri þróunarsamvinnu
Í íslenskri þróunarsamvinnu hefur verið lögð mikil áhersla á þennan þátt í Malaví, fyrst með uppbyggingu sveitasjúkrahússins í Monkey Bay þar sem reist var glæsileg fæðingardeild, og síðar í héraðssamstarfinu við Mangochi þar margar nýjar fæðingardeildir hafa risið í þorpum og ný fæðingardeild við héraðssjúkrahúsið er risin. Hún verður væntanlega tekið í notkun með haustinu. Malaví hefur verið í fremstu röð Afríkuþjóða í baráttunni við barnadauða og náð einstökum árangri, meðal annars með tilstuðlan Íslendinga, og heimafæðingum hefur til dæmis fækkað stórlega.

Indland fjölmennasta ríki heims eftir sjö ár og Nígería þriðja fjölmennasta um miðja öldina:
Íbúafjöldi 26 Afríkuríkja tvöfaldast fram til 2050
 
Árið 2050 er því spáð að jarðarbúar verði um tíu milljarðar. Um næsta aldamót verða þeir orðnir rúmlega ellefu milljarðar. Samkvæmt nýrri mannfjöldaspá Sameinuðu þjóðanna sem kom út í síðustu viku - World Population Prospects: The 2017 Revision - eru jarðarbúar 7,6 milljarðar um þessar mundir en voru 7,4 milljarðar árið 2015. Fjölgunin er langmestu leyti bundin þróunarríkjum því víðast hvar annars staðar í heiminum eignast fólk færri börn en áður.

Í skýrslunni eru sjónum fyrst og fremst beint að þróunarríkjunum þar sem fæðingar eru flestar. Þjóðir heims hafa ákveðið með samþykkt Heimsmarkmiðanna að útrýma fátækt og vernda jörðina. Því blasa við áskoranir um að draga úr barneignum fátækra þjóða en samkvæmt mannfjöldaspám er líklegt að íbúafjöldi 26 ríkja Afríku tvöfaldist fyrir árið 2050, að því er fram kemur í skýrslunni.

"Það bætast við á hverju ári rúmlega 83 milljónir manna og reiknað er með að íbúum jarðarinnar fjölgi áfram þrátt fyrir að þess megi vænta að frjósemi haldi áfram að minnka," segja skýrsluhöfundar.

Indverjar fjölmennastir
Athygli vekur að eftir innan við sjö ár verða íbúar Indlands orðnir fleiri en íbúar Kína. Þetta mun gerast árið 2024 þegar íbúar Indlands verða orðnir 1,4 milljaðar og Kínverjar 1,3 milljarðar.

Þá kemur fram í skýrslunni að helmingur mannfjölgunarinnar fram til ársins 2050 verður bundinn við aðeins níu þjóðir: Indland, Nígeríu, Kongó, Pakistan, Eþíópíu, Tansaníu, Bandaríkin, Úgnda og Indónesíu.  Enn fremur segir í skýrslunni að um miðja öldina verði Nígería þriðja fjölmennasta ríki heims en ekki Bandaríkin eins og nú er.

Samkvæmt skýrslunni dregur talsvert úr barneignum í fátækustu ríkjum Afríku. Á árunum 2000 til 2005 áttu konur í álfunni að meðaltali 5,1 barn en meðaltalið var komið niður í 4,7 börn á árabilinu 2010 til 2015. Til samanburðar eignuðust konur í Evrópu að meðaltali 1,6 börn á sama tíma.

Þessi þróun leiðir eðlilega af sér fjölgun í elstu aldurshópunum. Fram kemur í skýrslunni að reiknað er með að sextugir og eldri verði tvöfalt fleiri árið 2050 miðað við í dag og þrefalt fleiri árið 2100, eða 3,1 milljarður á móti 962 milljónum í dag.

Þótt meðalaldur íbúa Afríku verði fyrirsjáanlega á næstu áratugum í lægri kantinum verður engu að síður mikil fjölgun meðal eldri kynslóða í áflunni. Frá þessu ári og fram til ársins 2050 er reiknað með að aldraðir verði orðnir 9% íbúafjöldans borið saman við 5% í dag. Og þeir verða í lok aldarinnar orðnir 20% íbúanna.

World Population Prospects 2017/ ESA
Breytir viðhorfum Vesturlandabúa til Afríku - vefsíðan "Everyday Africa"
Afríka hefur löngum verið einsleit í augum Vesturlandabúa. Tilhneiging er til þess að tala um Afríku sem eitt og sama landið, eina heild, fólkið, menninguna, landsvæðin, stríðin eitt og sama stríðið. Everyday Africa er Instagram síða sem virðist vera að breyta ímynd Afríku á Vesturlöndum.

Anna Gyða Sigurgísladóttir dagskrárgerðarmaður á RÚV sagði á dögunum frá Everyday Africa í þættinum Lestinni á Rás 1. "Everyday Africa samanstendur af ljósmyndurum sem koma víðs vegar að úr álfunni og taka myndir af hversdagslífi í ríkjum hennar. Stofendur síðunnar, ljósmyndarinn Peter DiCampo, og blaðamaðurinn Austin Merrill, hyggjast sýna Afríku í nýju ljósi - sýna hana í því ljósi sem fréttamiðlar gera ekki, og geta ekki. Á  Instagram síðunni, sem þrjúhundruð fjörtíu og fimm þúsund fylgjendur skoða reglulega, er nú að finna hátt í fjögur þúsund myndir," sagði Anna Gyða í þættinum.

Í Lestinni er vitnað í Chimamanda Ngozi Adichie sem segir að ef við segjum eina sögu af fólki, aftur og aftur og aftur, þá verði fólkið óhjákvæmilega að þeirri einu sögu, og að það sé mikilvægt að tala um völd er við tölum um einsleitar frásagnir. "Einsleita sagan býr til staðalmyndir, og vandamálið við staðalmyndir er ekki að þær séu ekki sannar, heldur að þær séu ófullkomnar. Þær gera eina sögu að einu sögunni," segir Adichie í fyrirlestri sínum (sjá myndbandið hér að ofan).

Nánar á RÚV
Versti kólerufaraldur sögunnar í Jemen
Frétt AlJazeera um kólerufaraldurinn í Jemen
Frétt AlJazeera um kólerufaraldurinn í Jemen

Kólerufaraldurinn í Jemen er sá versti í sögunni. Sjúkdómurinn breiðist hratt út og skráð tilfelli eru komin yfir 200 þúsund. Fimm þúsund ný tilvik eru skráð daglega.

Á innan við tveimur mánuðum hefur faraldurinn náð til nánast allra héraða í þessu stríðshrjáða landi. Þegar hafa rúmlega 1300 látist úr sjúkdómum, fjórðungur látinna eru börn, og dánartölur hækka dag hvern.

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) keppast við ásamt fjölmörgum öðrum samtökum að því að hefta útbreiðslu plágunnar, unnið er myrkranna á milli til að ná til fólks og lögð áhersla á hreint vatn, viðunandi salernisaðstöðu og lyfjagjöf. Bráðabjörgunarsveitir eru að störfum og fara hús úr húsi til að veita meðal annars upplýsingar um sjúkdóminn og varnir gegn honum.

Samkvæmt frétt frá UNICEF er kólerufaraldurinn bein afleiðing tveggja ára vopnaðra átaka í landinu. Á fimmtándu milljón manna hefur ekki lengur aðgang að heilbrigðisþjónustu, hreinu vatni og salernisaðstöðu, en skortur á öllum þessum þáttum kyndir undir útbreiðslu kólerunnar. Þá hefur aukin vannæring barna í för með að ónæmiskerfi þeirra verður veikara. Í fréttinni segir að um þrjátíu þúsund innlendir heilbrigðisstarfsmenn berjist gegn sjúkdómnum og hafi verið án launa í tíu mánuði.

UNICEF hvetur ekki aðeins stjórnvöld í Jemen til að greiða fólkinu umsamin laun heldur hvetur alla hlutaðeigendur til þess að slíðra vopnin og koma á friði.

Barnahjónabönd dýru verði keypt


Á hverju ári giftast 15 milljónir stúlkna áður en þær ná 18 ára aldri. Barnahjónabönd hafa margar skaðlegar afleiðingar eins og brotthvarf úr skóla, snemmbúnar þunganir, heimilisofbeldi og ungbarnadauða.  Fjölmarg samtök og alþjóðastofnanir berjast gegn barnahjónaböndum og Alþjóðabankinn efndi til ráðstefnu í gær um efnahagslegar afleiðingar barnahjónabanda undir yfirskriftinni: Dýru verði keypt? (At What Cost?)

Kristín Friðsemd Sveinsdóttir skrifaði BA ritgerð um barnahjónabönd í fyrra og sagði meðal annars í inngangi:

"Hin ýmsu hjálparsamtök hafa verið ötul í baráttunni gegn barnahjónaböndum síðustu ár enda geta þau haft skaðleg áhrif, sérstaklega á stúlkubörn. Áhrifin eru bæði af félagslegum, andlegum, efnahagslegum og heilsufarslegum toga. Hvernig stendur á því að það sé enn við lýði víðsvegar um heiminn að börn séu gift löngu áður en þau eru andlega og líkamlega tilbúin til þess? Hvaða afleiðingar hefur þessi hefð og hvað er hægt að gera? Þetta eru spurningar sem leitast er við að svara í ritgerðinni.

Mikilvægt er að skilja þær margþættu ástæður sem liggja að baki barnahjónaböndum sem geta verið pólitískar, menningarlegar og efnahagslegar. Etnógrafískar rannsóknaraðferðir mannfræðinnar geta komið að góðu gagni við það. Hjálparsamtök hafa hinsvegar fengið gagnrýni á sig fyrir að einfalda vandamálið sem og að horfa á barnahjónabönd út frá vestrænu sjónarhorni. Mikilvægt er að átta sig á því hversu ólíkar hjúskaparhefðir eru í mismunandi samfélögum og á ólíkum tímabilum og að hugmyndir um barnæskuna geti sömuleiðis verið fjölbreyttar. 

Fyrsta skrefið til þess að uppræta barnahjónabönd er að setja reglugerðir gegn þeim en einnig skiptir máli að efla fræðslu almennings sem og leiðtoga samfélaga og löggæsluaðila. Eins er mikilvægt að bæta skráningu fæðinga og giftinga í þróunarlöndum þar sem barnahjónabönd eru algengust. Barnahjónabönd verða þó líklegast aldrei upprætt að fullnustu fyrr en ráðist hefur verið á rót vandans sem er fátækt og misrétti."

-
-

Hægt að styðja 235 malavískar stelpur fyrir íslenskt söfnunarfé

Hægt verður að styðja 235 malavískar stelpur fyrir fé sem safnaðist á "Bjór & bindi" viðburðinum á Kex Hostel í síðustu viku. Alls söfnuðust tæpar 120 þúsundir króna á viðburðinum en þar komu fram rappararnir Tay Grin frá Malaví og Tiny og Gísli Pálmi frá Íslandi ásamt tónlistarkonunni Hildi. Mesta athygli fjölmiðla vakti dans Elísar Reid forsetafrúar með malavíska rapparanum og rapp bresku sendiherrahjónanna, Michaels og Sawako Nevin.

Tay Grin er He for She-leiðtogi og ferðast um heim­inn til að vekja at­hygli á málstaðnum.

Tónleikarnir á Kex voru haldnir til þess að safna fé til kaupa á marg­nota dömu­bind­um fyr­ir stúlk­ur í Mala­ví til að þær geti mætt í skóla meðan á blæðing­um stend­ur og flosni síður upp úr námi.

Guðlaug­ur Þór Þórðar­son ut­an­rík­is­ráðherra og Elísa Reid for­setafrú­ ávörpuðu gesti . Michael Nevin sendiherra kynnti Malaví og sagði meðal annars frá þróunarsamvinnu Íslands og Malaví. Sjálfur var hann þar um árabil sem sendiherra Breta.

Áhugavert
-

-
-
-
-
-
-
-


Despite Signs of Hope, Millions Across Africa Remain at Risk of Starvation/ VOA
-
Cash Offers Precious Choices for Refugees in Uganda/ Europa
-
Gambia: The business of human trafficking - Talk to Al Jazeera
Gambia: The business of human trafficking - Talk to Al Jazeera
-
-
-
-
-
-
-
UNU-GEST receives two grants from Icelandic Gender Equality Fund/ Jafnréttisskóli Háskóla SÞ
-
Millions could escape poverty by finishing secondary education, says UN cultural agency/ UN
-

World needs to pre-empt devastating drought impacts through better preparedness/ FAO
-
The world's youngest nation has canceled independence day for the second year in a row/ Qz
-
Gínea-Bissá: Theatre sheds light on conflicts/D+C
-
5 Surprising Facts About The Refugee Crisis/ NPR
-
Europeans back allocation of asylum seekers proportionally, study finds/ TheGuardian

Is the UN tackling sex abuse by peacekeepers in CAR?/ AlJazzera
-

Sjávarútvegsskólinn og Heimsmarkmiðin

-
eftir Stefán Úlfarsson starfsmann Sjávarútvegsskólans


'The ocean and us' - BBC Earth, United Nations Ocean Conference   

Hafráðstefna Sameinuðu þjóðanna, sem nýlega var haldin í New York, gæti markað  straumhvörf í sambúð manns og sjávar. Vonir standa til þess að héðan í frá munum við nálgast viðfangsefni hafsins út frá langtímahagsmunum alls mannkyns, ekki hvað síst þróunarlanda. Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna ætlar að leggja sitt af mörkum til að svo verði.
 
Ráðstefnan var tileinkuð Fjórtánda Heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna (SÞ) sem snýr að verndun og sjálfbærri nýtingu hafsins. Markmið voru reifuð í málstofum og kynntu þátttakendur síðan viljayfirlýsingar um framlag sitt til þeirra.
 
Mikið er í húfi -- við þurfum jú heilbrigt haf til að tempra veðurkerfin á Jörðinni; til að framleiða lungann af því súrefni er við öndum að okkur; og til að tryggja umtalsverðum hluta jarðarbúa atvinnu, matvæli og næringu.
 
Það gefur auga leið að ef við sláum slöku við er kemur að verndun og sjálfbærri nýtingu hafsins mun reynast erfitt að ná mörgum af hinum Heimsmarkmiðunum sextán, svo sem eins og markmiðunum um útrýmingu fátæktar, ekkert hungur, góða heilsu, góða atvinnu o.s.frv.  
 
Sjávarútvegsskóli Háskóla SÞ tók virkan þátt í málstofum Hafráðstefnunnar. Héldu starfsmenn hans m.a. á lofti mikilvægi þess að byggja upp þekkingu og færni innan stofnana sjávarútvegs þróunarlanda til að styðja við sjálfbæra nýtingu þeirra á auðlindum hafs og vatna.
 
Á ráðstefnunni kynntu þeir tvær viljayfirlýsingar skólans sem tengjast þessari áherslu:
 
Fjallar sú fyrri um "rannsóknir og menntun til stuðnings fjórtánda Heimsmarkmiði SÞ, sjálfbærum veiðum og bláa lífhagkerfinu í smáum þróunar-eyríkjum";
en sú seinni um "rannsóknir og menntun til að bæta lífskjör, fæðuöryggi og hollustu matvæla í strandhéruðum Afríku".
 
Í báðum tilvikum skuldbindur skólinn sig til þess, á næstu fimm árum, að bjóða fjórum nemendum á ári frá viðkomandi löndum að taka þátt í sex-mánaða námskeiði á Íslandi svo og til þess að halda a.m.k. þrjú örnámskeið sérhönnuðum fyrir aðstæður landanna.
 
Hægt er að kynna sér viljayfirlýsingarnar betur, bæði á vef Sjávarútvegsskólans ( hér) og á vef Sameinuðu þjóðanna ( hér).

facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105