Heimsljós
veftímarit um þróunar- og mannúðarmál
10. árg. 327. tbl.
31. maí 2017
Skrifað undir samkomulag í Næróbí:
Áframhaldandi stuðningur Íslands við jarðhitanýtingu í Afríku í samstarfi við Umhverfisstofnun SÞ
Frá undirritun samningsins, t.f.v. María Erla Marelsdóttir skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins, Meseret Zemedkun framkvæmdastjóri ARGEo og Erik Solheim framkvæmdastjóri UN Environment.

Ákveðið hefur verið að verja rúmlega eitt hundrað milljónum króna úr jarðhitaverkefni utanríkisráðuneytisins og Norræna þróunarsjóðsins (NDF) í áframhaldandi stuðning við jarðhitanýtingu í austanverðri Afríku á næstu tveimur árum. Skrifað var undir samkomulag þessa efnis í síðustu viku. Erik Solheim framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UN Environment) og María Erla Marelsdóttir skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins skrifuðu undir samninginn.

"Í orkunni er fólginn kjarninn í umbreytingu Afríku. Hún er nauðsynleg fyrir iðnað, menntun, heilsu og önnur svið samfélagsins. Með þessu samstarfi koma Íslendingar til með að veita bestu þekkingu til Afríkuríkja og stuðla að því að þau geti þróað jarðhitaauðlindir  til að mæta orkuþörf  sinni," sagði Erik Solheim yfirmaður Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna  við undirritun samkomulagsins í höfuðstöðvum stofnunarinnar í Næróbí í Kenía.

"Við höfum átt gott samstarf við Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna. Kenía er leiðandi þjóð í jarðhitamálum Afríku og með þessu samkomulagi getur jarðhitaþróun orðið að veruleika í öðrum löndum í þessum heimshluta," sagði María Erla Marelsdóttir skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins.

Svæðaverkefni Íslands og NDF að ljúka
Svæðaverkefni um jarðhitaleit og jarðhitanýtingu í Afríku, sem Íslendingar hafa leitt um árabil í samvinnu við Norræna þróunarsjóðinn (NDF) og Alþjóðabankann, lýkur um næstkomandi áramót. Verkefnið hefur miðað að því að aðstoða lönd í sigdalnum í Austur Afríku við rannsóknir og mannauðsuppbyggingu á sviði jarðhitanýtingar með það að markmiði að auka möguleika þjóðanna til framleiðslu sjálfbærrar og hreinnar orku. Með nýja samningnum við Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna verður haldið áfram stuðningi við sjálfbæra þróun jarðhitanýtingar í Afríku með aðkomu íslenskrar sérþekkingar.

Öndvegissetur rís í Kenía
Fjárhagslegi stuðningurinn frá jarðhitaverkefni Íslands og NDF verður nýttur til að ljúka yfirborðsrannsóknum í aðildarríkjum verkefnisins og ennfremur verður veittur áfram stofnanastuðningur við uppbyggingu á öndvegissetri um jarðhita í Afríku.  Ákvörðun um slíkt rannsóknar- og fræðasetur var tekin af afrísku aðildarþjóðunum á síðasta ári og setrið kemur til með að rísa í Kenía. Stýrihópur hefur starfað um nokkurt skeið undir forystu fulltrúa Afríkusambandsins.

Öndvegissetrinu er ætlað að verða ein meginstoð sjálfbærrar jarðhitaþróunar í álfunni. Því er ætlað að byggja upp getu ungra vísindamanna á þessu sviði en einnig ná til verkfræðinga, bormanna, tæknimanna og þeirra sem sérhæfa sig í fjármálum og rekstri.

Mikil orkuþörf og mikil vannýtt orka í álfunni
Samkvæmt mánaðarritinu Atlas of Africa Energy Resources, sem Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna og Afríski þróunarbankinn gefa út sameiginlega, er orkunotkun í Afríku sú minnsta í heiminum. Miðað við höfðatölu íbúa álfunnar hefur hún nánast verið óbreytt frá árinu 2000. Núverandi orkuframleiðsla í Afríku er engan veginn nægjanleg til að mæta eftirspurn. Þriðjungur allra íbúa hefur ekki ennþá aðgang að raforku og 53% íbúanna reiða sig á jarðefnaeldsneyti til eldunar, upphitunar og þurrkunar. Hins vegar býr álfan yfir mikilli ónýttri orku, meðal annars vatnsorku, vindorku, sól og lífrænu eldsneyti, auk jarðvarmans.

Talið er að Afríka búi yfir rúmlega 20 gígavatta jarðhitaauðlindum en þessi endurnýjanlegi og hreini orkugjafi er nýttur beint í orkuframleiðslu til að mæta vaxandi orkuþörf álfunnar. Kenía framleiðir nú þegar 600 megavött af raforku með jarðhita.

Aukin skilvirkni og aðrar innri aðgerðir ekki síður mikilvæg en aukning hlutafjár
Jim Young Kim forseti Alþjóðabankans og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tók á dögunum þátt í árlegum samráðsfundi ráðherra kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í Alþjóðabankanum með Jim Young Kim forseta bankans.

Mikilvægi fjárhagslegrar styrkingar Alþjóðabankans var ofarlega á baugi, en ljóst þykir að þörfin fyrir aðstoð og fjármagn hefur nær aldrei verið meiri. Lagði utanríkisráðherra áherslu á mikilvægi þess að bankinn kanni allar leiðir til fjármagnsaukningar þar sem aukin skilvirkni og aðrar innri aðgerðir væru ekki síður mikilvæg en aukning hlutafjár. Hann lagði einnig áherslu á að með styrkingu bankans þyrfti jafnframt að efla starf hans á sviði kynjajafnréttis.

Aukin samhæfing þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar var einnig til umræðu og hlutverk bankans í því samhengi. Ljóst er að samstarf Alþjóðabankans og Sameinuðu þjóðanna hefur aukist umtalsvert á síðastliðnum misserum, enda kallar breytt landslag á breytta starfshætti og aukna samvinnu allra aðila sem starfa á þessum vettvangi. Í því samhengi lagði utanríkisráðherra áherslu á mikilvægi þess að Alþjóðabankinn nýtti skilgreinda styrkleika sína, s.s. sérfræðiþekkingu, rannsóknar- og greiningarvinnu og vogarafl hans til að koma mörgum aðilum að borðinu. Þá væri lykilatriði að vinna að uppbyggingu viðnámsþróttar og að koma í veg fyrir neyð.

Í lok fundar bauð Guðlaugur Þór forseta bankans og ráðherrum kjördæmisríkjanna til fundar á Íslandi að ári, en Norðurlöndin skiptast á að halda hinn árlega samráðsfund.

Alþjóðabankinn er ein af fjórum áherslustofnunum í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands.

Nánar á vef utanríkisráðuneytisins.
Samnorrænt átak samþykkt á sumarfundi forsætisráðherra Norðurlandanna:
Norræn nálgun Heimsmarkmiðanna
Mikil fækkun sárafátækra á síðustu árum:
Fátæktarklukka á vefnum telur þá sem lyfta sér upp úr sárafátækt
Sárafátækum í heiminum fækkar ört. Frá árinu 1990 hefur þeim sem búa við sárafátækt fækkað um rúmlega helming. Þrátt fyrir þessar framfarir býr fimmti hver íbúi margra þróunarríkja við sárafátækt sem er tekjuleg viðmiðun og var á síðasta ári breytt úr 1,25 bandarískum dölum upp í 1,90 - eða sem svarar til rúmlega 200 króna íslenskra á dag, 6000 króna mánaðarlauna.

Guterres fordæmir árásir á heilbrigðisstofnanir og hjúkrunarfólk
Ljósmynd: AFP

Antonio Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna greindi frá því á dögunum að í vopnuðum átökum hefðu árásir á sjúkrahús og heilsugæslustöðvar færst í aukana. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hélt fund í síðustu viku um vernd óbreyttra borgara á átakasvæðum. Guterres hvatti í opnunarávarpi sínu vígasveitir til þess að hlífa óbreyttum borgurum og takmarka skaða almennings.

Fram kom í máli hans að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefði gögn sem sýndu að í 20 þjóðríkjum voru á síðasta ári gerðar árásir á sjúkrastofnanir og heilbrigðisstarfsfólk, m.a. sjúkrahús, sjúkrabíla og lækna.  Slíkum árásum hefði fjölgað verulega í Sýrlandi og í Afganistan.

Í Sýrlandi hafa verið gerðar að minnsta kosti 400 árásir á heilbrigðisstarfsfólk eða sjúkrahús á síðustu sex árum. Þar væri helmingur sjúkrahúsa ýmist ekki í rekstri eða aðeins að takmörkuðu leyti og tveir af hverjum þremur heilbrigðisstarfsmönnum væru flúnir úr landi. Svipaða sögu væri að segja frá Suður-Súdan þar sem minna en helmingur heilsugæslustöðva á átakasvæðum væri opinn almenningi.

 Alls hafa á fyrri hluta þessa árs verið gerðar 88 árásir á heilbrigðisstofnanir og hjúkrunarfólk á fjórtán átakasvæðum. Áttatíu hafa fallið í þessum árásum og svipaður fjöldi særst.

 "Ég hvet deilendur til að taka ákveðin skref til að takmarka skaðann gagnvart almenningi í hernaðaraðgerðum eins og þeim ber skylda til samkvæmt alþjóðalögum", sagði Guterres.
Þjóðir heims vanbúnar undir faraldra

"Fjölmargir faraldrar, ótal sjúkdómstilvik, þúsundir tapaðra mannslífa og milljarða króna tekjutap þjóða - allt á fáeinum árum þessarar nýju aldar, á aðeins rúmlega sautján árum - og samt sem áður eru fjárfestingar í heiminum til að bregðast við faröldrum ennþá af skornum skammti. Við vitum að heimurinn kemur til með að standa frammi fyrir heimsfaraldri í náinni framtíð."

Á þessa leið hefjast formálsorð nýrrar skýrslu þar sem vakin er athygli á því að þrátt fyrir framfarir sem hafi orðið með Zika og Ebólu faröldrunum á síðustu árum leiði könnun á vegum undirstofnunar Alþjóðabankans í ljós að flestar þjóðir eru ekki í stakk búnar til að mæta faraldri. Þar segir ennfremur að alþjóðasamfélagið hafi lagt lítið fé af mörkum til að fjármagna aðgerðir til að bregðast við þegar næsti heimsfaraldur gýs upp.

Fátækar þjóðir eru sérstaklega berskjaldaðar gagnvart faröldrum eins og bent er á í skýrslunni.

Skýrslan nefnist " Frá ógn og vanrækslu í fjárfestingu heilbrigðisöryggis: Fjármögnun heimsfaraldurs á landsvísu" (From Panic and Neglect to Investing in Health Security: Financing Pandemic Preparedness at a National Level)  gefin út af Working Group on Financing Preparedness (IWG). Í henni er að finna tólf tillögur um nauðsynlega fjárfestingu þjóða til að bregðast við heilsuvá á borð við faraldra. Í skýrslunni kemur fram að 37 þjóðir hafi svarað svokallaðari Joint External Evaluation (JEE) matskönnun um viðbrögð en beðið sé svara frá 162 þjóðum.

Í nýlegri handbók frá embætti landlæknis, sóttvarnalækni, ríkislögreglustjóranum og almannavarnadeild Landspítala um heilbrigðisþjónustu og almannavarnir segir:

"Faraldrar hafa farið um heiminn öldum saman. Allt frá 16. öld hafa heimsfaraldrar inflúensu riðið yfir heiminn að minnsta kosti tvisvar til þrisvar á öld. Á 20. öldinni riðu þrír heimsfaraldrar inflúensu yfir. Sá fyrsti geisaði 1918 og var afar mannskæður. Hann var nefndur spánska veikin en talið er að 50-100 milljón manns hafi látið lífið af hans völdum, en talið er að um 60% Reykvíkinga hafi veikst og allt að 500 manns hafi látist á landinu öllu. Hinir tveir heimsfaraldrarnir riðu yfir 1957 og 1968 en ollu mun minna manntjóni. Áður óþekktar sýkingar af völdum nýrra eða breyttra veira geta greinst og smitað manna á milli, dæmi um slíkt er heilkenni alvarlegrar bráðrar lungnabólgu (HABL/SARS), sem greindist fyrst árið 2003. Veikin orsakast af nýjum stofni kórónaveiru sem hefur ekki verið þekktur til að valda sýkingum í mönnum. Ekki er hægt að segja fyrir um hvenær næsti heimsfaraldur inflúensu verður eða sýkingar af völdum nýrra eða breyttra sýkingavalda fara að berast manna á milli. Nýjar óvæntar farsóttir og atvik geta því komið upp og náð útbreiðslu, óháð eðli og uppruna farsóttarinnar."

Sex barna einstæð móðir í eigin rekstri

Florence Luanda Maheshe stóð allt í einu uppi slypp og snauð, vonlítil einstæð móðir eftir að flóttamannabúðunum sem hún hélt fyrir í var lokað. Fyrir tilstilli UN Women fékk hún von og kraft á ný og hóf eigin rekstur. Í dag sér hún fyrir níu manna fjölskyldu.

Þannig hefst frásögn á vef UN Women. Þar segir:

Óeirðir höfðu brotist út í þorpi hennar Ufamundu í Austur-Kongó. Eiginmaður hennar hafði yfirgefið hana stuttu áður svo hún flúði ein ásamt sex börnum þeirra í flóttamannabúðir nálægt höfuðborginni Goma. Þegar búðunum var lokað stóð hún uppi ein án alls stuðnings."Á flóttanum frá þorpinu okkar yfir í flóttamannabúðirnar urðum við fyrir hrottalegu ofbeldi. Á leiðinni mættum við flokki vopnaðra hermanna sem nauðguðu dóttur minni, hún var 18 ára. Mánuði síðar þegar við komum í búðirnar var annarri dóttur minni nauðgað er hún safnaði eldiviði í skóginum sem umkringir búðirnar. Hún var 14 ára," segir Florence.

"Lífið í flóttamannabúðunum var aldrei auðvelt. Mér reyndist mjög erfitt að fæða alla þessa munna, sex unglinga og sjálfa mig. Dætrum mínum tveimur sem hafði verið nauðgað, voru þá orðnar óléttar. Þetta var hræðilega erfiður tími," segir Florence. Brátt lærði hún að vefa körfur sem hún seldi einu sinni í viku á markaði búðanna. Þannig náði hún að koma mat á borðið, sem dugði þó aldrei öllum. Að endingu fór svo að yfirvöld ákváðu að loka flóttamannabúðunum. "Á þeim tímapunkti fylltist ég algjöru vonleysi. Eftir að hafa flúið átökin heima með öll börnin mín, horft upp á kynferðislegt ofbeldi gagnvart dætrum mínum og horft í hungruð augu barna minna þá gat ég ekki meir. En einmitt þá bauðst mér sú aðstoð sem bjargaði lífum okkar!"

Fyrir tilstilli UN Women var Florence úthlutaður landskiki þar sem hún gat ræktað korn. Andvirði fyrstu uppskerunnar voru um 15 þúsund íslenskra króna sem gerði henni kleift að senda dætur sínar í skóla og kaupa efni í fleiri körfur. Áður en langt um leið veittu samtökin Florence lán til að auka umsvifin í körfugerðinni auk þess sem hún fékk stærra ræktunarland, í ljósi þess hve vel ræktunin gekk. Í dag gengur kornræktin og reksturinn eins og í sögu, hún selur núorðið 500 kílóa poka af korni og fær um 30 þúsund krónur fyrir hvern."Nú get ég brauðfætt alla munnana á mínu heimili. Börnin mín og barnabörn fá tvær heitar máltíðir á dag og ég get sent öll börnin mín í skóla. Mig óraði aldrei fyrir því að komast á þennan stað í lífinu. Við erum glöð og horfum björtum augum til framtíðar."

Þú getur styrkt konur eins og Florence með því að gerast mánaðarlegur styrktaraðili UN Women.
Dagur rauða nefsins 9. júní

Fyrsti skets dags rauða nefsins er nú kominn í loftið en þar leika strákarnir í Sturla Atlas leikstjóra auglýsingar fyrir rauða nefið hjá UNICEF og hönnuði nefsins. 

Sturla Atlas hefur síðustu misseri hannað ilmvötn, vatnsflöskur, flíspeysur og buff. Með þeim er Katrín Halldóra Sigurðardóttir sem hefur gert garðinn frægan sem Ellý Vilhjálms í Borgarleikhúsinu. Smelltu á myndina  til að horfa á sketsinn.  
 
Í sketsinum má meðal annars sjá Ragnar Kjartansson, Halldóru Geirharðsdóttur, Aron Can, Sveppa og Kristbjörgu Kjeld ásamt öllum helstu stjörnum Íslands pósa með rautt nef.

Saga Garðarsdóttir og Dóra Jóhannsdóttir eru grínstjórar dags rauða nefsins en um er að ræða langstærsta viðburð ársins hjá UNICEF á Íslandi. Hann nær hámarki í nokkurra klukkustunda beinni útsendingu á RÚV föstudaginn 9. júní. Í þættinum verða sýndir ótal sketsar sem Dóra og Saga ásamt fjölda listamanna eiga heiðurinn af en vel yfir 100 manns koma fram í þeim. Það er Tjarnargatan sem framleiðir grínefnið.
 
Með degi rauða nefsins vill UNICEF skemmta fólki og vekja um leið athygli á að heimsforeldrar og UNICEF berjast saman fyrir betri heimi fyrir öll börn. Grínistar, leikarar, tónlistarmenn og fjölmiðlafólk búa saman til ógleymanlegt kvöld og skora á áhorfendur að hjálpa börnum og gerast heimsforeldrar UNICEF.


Erfitt ástand í Suður-Súdan
SOS Barnaþorpin hafa brugðist við versnandi ástandi í Suður-Súdan meðal annars með neyðaraðstoð til fjölskyldna og opnun á barnvænu svæði í höfuðborg landsins, Juba, að því er fram kemur á vef samtakanna.

Þar segir:
"Barnvæna svæðið í Juba gefur 120 börnum tækifæri á að leika sér, læra, fá áfallahjálp og hitta önnur börn. Þá eru SOS einnig að aðstoða 140 börn við að ganga í skóla, meðal annars með því að borga skólagjöld. Þá veita samtökin almenna neyðaraðstoð og reka heilsugæslustöðvar fyrir vannærð börn.

"Ástandið í Suður-Súdan er að versna. Matarverð er að hækka og þurrkarnir eru slæmir. Vannæring barna verður sífellt stærra vandamál," segir Alberto Fait, framkvæmdastjóri SOS Barnaþorpanna í Suður-Súdan.
Neyðarverkefni SOS í landinu hefur nú verið í gangi undanfarið ár og mun halda áfram á meðan þörf er á. Samtökin munu þó einnig bæta við Fjölskyldueflingarverkefni í Juba en 120 barnafjölskyldur fá þar hjálp til sjálfshjálpar. Þá verða settir upp nokkrir vatnsbrunnar sem tryggja yfir tíu þúsund manns hreint drykkjarvatn.

Suður-Súdan hefur átt í miklum erfiðleikum vegna þurrkanna sem hafa herjað á Austur-Afríku. Mataróöryggi er mikið og vannæring verða sífellt stærra vandamál. Talið er að tólf milljónir manna hafi flúið landið vegna ástandsins."


Áhugavert

Voices of Experience: A Conversation with Former Treasury Under Secretaries for International Affairs/ CGDev
-
Water transition, eftir Katja Dombrowski/ D+C
-
'Trump's aid budget is breathtakingly cruel - cuts like these will kill people', eftir Jeremy Konyndyk/ TheGuardian
-
-

-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-

-
-
-
-
-
-
-


-
Aldrei upp­lifað aðra eins högg­bylgju/ Mbl.is

-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-

-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
Leonard ætlar að berjast fyrir valdeflingu kvenna í Malaví
Allir sem koma til Malaví sjá á augabragði að kynjajafnrétti á langt í land. Konur strita daginn langan, vakna snemma og sofna seint, sækja eldivið, vatn, halda heimili, sjá um börn og sjúka og yrkja jörðina, svo fátt eitt sé nefnt af skyldustörfum stúlkna og kvenna. Á síðustu árum má merkja breytingar og einstaka karlar eru orðnir meðvitaðir um þessa rótgrónu mismunun sem er dragbítur á alla þróun í samfélaginu.

Meðal þeirra nema sem útskrifuðust frá Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna hér  á landi fyrr í þessum mánuði var Leonard Chimbali frá Malaví. Hann starfar í stjórnsýslunni í höfuðborginni Lilongve en lokaverkefni hans var að rannsaka valdeflingu kvenna í sveitum gegnum frumkvöðlastarf í landbúnaði í Machinga héraði. Hann var beðinn um að segja frá sjálfum sér og lokaverkefninu. Horfið á myndbandið - Leonard er sannarlega He for She!

Fundur með framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptamiðstöðvarinnar

María Erla Marelsdóttir, skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu og Högni S. Kristjánsson sendiherra og fastafulltrúi Íslands í Genf áttu í dag fund með frú Arancha Gonzáles Laya, framkævmdastjóra Alþjóðaviðskiptamiðstöðvarinnar (International Trade Centre, ITC) í Genf.

ITC er sameiginleg stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og Sameinuðu þjóðanna og er eina alþjóðlega þróunarstofnunin sem leggur sérstaka áherslu á alþjóðavæðingu lítilla og meðalstórra fyrirtækja. 

ITC gerir fyrirtækjum á mörkuðum í þróunarríkjum að verða samkeppnishæfari og tengjast alþjóðamörkuðum á sviði viðskipta og fjárfestinga og stuðla þannig að vexti og sköpun atvinnutækifæra, sérstaklega fyrir konur, ungt fólk og fátæk samfélög.

Auk Maríu Erlu og Arancha González eru einnig á myndini  Högni S. Kristjánsson sendiherra og fastafulltrúi Íslands í Genf, Edda Björk Ragnarsdóttir og Ragnhildur Arnórsdóttir, Vanessa Erogbogbo og Zeynep Ozgen

Félags- og efnahagsleg afkoma kvenkyns sölumanna á fiskimarkaðnum í Panyimur, Úganda

- eftir Karl Fannar Sævarsson starfsnema hjá European Center for Development Policy Management. 

Markaðurinn í Panyimur. Ljósm. gunnisal
(Grein þessi er samantekt úr rannsókn sem sneri að afkomu kvenkyns sölumanna á Panyimur fiskimarkaðnum í Úganda)

Við norðanvert Albert vatn í Úganda er markaður sem kenndur er við sýsluna sem hann er staðsettur í, Panyimur. Á markaðsdögum, sem eru vanalega á fimmtudögum, er mikið líf á markaðnum enda kemur fólk langt að til að versla varning þar. Uppistaða þess sem selt er á markaðnum er saltaður, sólþurrkaður og reyktur fiskur sem að mestu hefur verið veiddur í Albert vatni. Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ) endurbætti markaðinn, þar sem ÞSSÍ útvegaði meðal annars skýli til að selja varning, sólarorkuþyljur og hreinlætisaðstöðu. Verkefni þetta var hluti af stærra verkefni sem kallaðist Quality Assurance for Fish Marketing Project (QAFMP) og stóð frá 2009 til 2014. Markmið QAFMP var að bæta innviði nokkurra fiskimannasamfélaga vítt og breytt um Úganda, nánari upplýsingar um QAFMP má finna á heimasíðu ICEIDA.

Flestir sölumenn á markaðnum eru konur, en eins og víða um Afríku eru konur meginþorri þess vinnuafls sem sér um verkun og endursölu á fiski sem veiddur er af artisanal veiðimönnum í Úganda. Í rannsókninni sem þessi grein byggir á var athygli beint að þeim konum sem vinna á markaðnum og hafa lifibrauð sitt af því selja fisk. Til að mæla áhrif markaðarins á líf þessara kvenna var litið til menntunarstigs barna þeirra og samanburður gerður á menntunarstigi almennt í Úganda. Bætt menntun og hátt menntunarstig eru ein af grunnforsendum fyrir bættri félagslegri og efnahaglegri aðstöðu fólks. Til að undirstrika mikilvægi menntunar má nefna að bætt menntun var markmið númer tvö í Þúsaldarmarkmiðunum og er markmið númer fjögur í Heimsmarkmiðunum.

"Flestar konurnar sögðu að markaðurinn væri sérlega mikilvægur fyrir efnahagslega velferð þeirra og að án hans væru fá  tækifæri í boði," segir í grein Karls Fannars.
Í rannsókninni var stuðst við eigindlegar rannsóknaraðferðir. Farið var tvisvar á vettvang og viðtöl tekin við 20 konur. Einnig voru tekin viðtöl við umsjónarmenn markaðarins og opinbera starfsmenn sýslunnar. Viðtölin voru svo kóðuð með svokallaðri opinni kóðun þar sem vísar voru greindir sem mynda þemu. Niðurstöður voru svo túlkaðar út frá þeim þemum sem fundust í viðtölunum.

Þær konur sem vinna á markaðnum hafa ólíkan bakgrunn, þær eru á mismunandi aldri, hafa ólíkan efnahagslegan bakgrunn og koma frá mismunandi svæðum í Norð-Vestur Úganda. Sumar koma jafnvel frá Kongó (DRC) til að selja fisk sem veiddur hefur verið af fiskimönnum frá Kongó, en landamæri Úganda og Kongó þvera Albert vatn endilangt. Fjölbreytni þeirra sem versla á markaðnum er jafnvel ennþá meiri, og er fiskur seldur til Kongó, Suður Súdan og jafnvel alla leið til Mið-Afríkulýðveldisins. Vegna þess fjölbreytileika sem finna má á markaðnum er mikla dýnamík þar að finna.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru að þær konur sem rætt var við áttu færri börn en meðalkona í Úganda. Að auki var skólasókn á meðal barna kvennanna hærri en gengur og gerist í Úganda. Álykta má að ástæða þess að tíðni barneigna sé minni á meðal kvenna sem vinna á markaðnum er að þær eru efnahagslega sjálfstæðar, með sjálfstæða innkomu. Að auki eyða þær miklum tíma á ytra sviði samfélagsins sem takmarkar veru þeirra innan veggja heimilisins. Flestar konurnar sögðu að markaðurinn væri sérlega mikilvægur fyrir efnahagslega velferð þeirra og að án hans væru fá  tækifæri í boði.

Þrátt fyrir þau auknu lífsgæði sem enduruppgerður markaðurinn veitir þessum konum, standa þær frammi fyrir mörgum áskorunum. Konurnar töluðu oftar en ekki um að eiginmenn þeirra mættu leggja meira til heimilisins, bæði efnahagslega og í verki. Góð tengsl og sambönd við aðra á markaðnum eru mikilvæg fyrir aðgengi kvennanna að markaðnum. Vegna þessa eiga konur sem sækja á markaðinn frá svæðum sem eru lengra frá, sérstaklega frá Kongó, á hættu að vera jaðarsettar. Mikilvægt er að góð og sanngjörn stjórnun eigi sér stað til að jafnt aðgengi sé fyrir alla sem vilja selja varning á markaðnum.

Til að sjá alla greinina, þá má nálgast hana hér..

facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105