Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
10. árg. 324. tbl.
26. apríl 2017
Samstarfssamningur Íslendinga við UN Women í Mósambík:
Aðstoða á mósambísk stjórnvöld við framkvæmd aðgerðaráætlunar um konur, frið og öryggi
Vilhjálmur Wiium forstöðumaður sendiráðs Íslands í Mapútó og Florence Raes staðarfulltrúi UN Women í Mósambík. Ljósmynd: UNWomen

Sendiráð Íslands í Mapútó hefur skrifað undir samstarfssamning við UN Women í Mósambík. Að sögn Vilhjálms Wiium forstöðumanns sendiráðsins beinist samstarfið að því að aðstoða mósambísk stjórnvöld við framkvæmd fyrstu aðgerðaáætlunar sinnar til að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi. 

Sú ályktun viðurkennir sérstöðu kvenna í stríði og mikilvægi hlutverks þeirra í friðaruppbyggingu. "Í Mósambík þar sem borgarastyrjöld ríkti í rúm sextán ár og enn eru róstur öðru hverju skiptir ályktunin og framkvæmd hennar gríðarlega miklu máli," segir Vilhjálmur.

Samstarfsverkefnið nefnist á ensku "Promoting women and girls' effective participation in peace, security and recovery in Mozambique" og jafnréttis-, barna- og félagsmálaráðuneyti Mósambíkur verður helsti samstarfsaðili UN Women.
Lilja Dóra Kolbeinsdóttir verkefnastjóri í sendiráði Íslands segir að meginmarkmið verkefnisins sé að tryggja að ferlar og áætlanir sem stuðla að friði, öryggi og endurreisn í mósambísku samfélagi stuðli að jafnrétti og valdeflingu kvenna og stúlkna sem oft verða útundan í þess háttar ferlum og áætlunum. Verkefnið verður unnið í nokkrum héruðum í fjórum fylkjum Mósambíkur.

"Verkefnið er þannig byggt upp að auðvelt er að stækka það og fjölga fylkjum og héruðum ef viðbótarfjármagn fæst frá öðrum framlagsríkjum. Það má hugsa verkefnið sem frumkvöðlastarf, verkefni sem vísar veg og leggur línur til framtíðar um framkvæmd ályktunar 1325 í Mósambík," segir Lilja Dóra.

Verkefnið samræmist vel áherslum alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands og ýmsum jafnréttis- og mannréttindastefnum  sem Ísland er aðili að. Verkefnið leggur sitt að mörkum til Heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun, ekki síst til markmiðs nr. 5 um jafnrétti kynjanna og markmiðs nr. 16 um frið og réttlæti.

Mozambique, Iceland and UN Women ink deal on women empowerment/ APA
Menntun aldrei mikilvægari en á tímum stríðsátaka:
Um 25 milljónir barna utan skóla á átakasvæðum í heiminum
Malaví meðal þriggja Afríkuríkja sem prófa bóluefni gegn malaríu
Ljósmynd: gunnisal

Fyrsta bóluefnið gegn malaríu verður prófað í þremur Afríkuríkjum á næsta ári, Gana, Kenía og Malaví. Eftir áratugalangar rannsóknir var greint frá því fyrir tveimur árum að tekist hefði að þróa mótefni gegn malaríu (mýrarköldu) og á næsta ári er komið að því að reyna á notagildi RTS,S bóluefnisins. Það gæti bjargað tugþúsundum mannslífa á hverju ári, að mati Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO), en tæplega helmingur jarðarbúa er í áhættuhóp gagnvart malaríusýkingum.

Samkvæmt frétt BBC er þó enn óljóst hversu gagnlegt bóluefnið reynist í fátækustu ríkjum heims. Gefa þarf bóluefnið fjórum sinnum, einu sinni í mánuði í þrjá mánuði og síðan í fjórða sinn átján mánuðum síðar. Bóluefnið styrkir ónæmiskerfið gegn frumdýri sem veldur malaríu og berst með biti moskítóflugunnar.

Á hverju ári deyr um hálf milljón manna af völdum malaríu, rúmlega níu af hverjum tíu í Afríku og mikill meirihluti þeirra börn. Talsvert hefur þó á síðustu árum dregið úr nýgengi sjúkdómsins og samkvæmt gögnum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) fækkaði malaríutilvikum í heiminum um 21% á árunum 2010-2015. Dauðsföllum af völdum malaríu fækkaði um 29% á sama tímabili.

Alþjóðlegi malaríudagurinn var í gær, 25. apríl.

Styrkja þarf Alþjóðabankann fjárhagslega til að hann geti gegnt hlutverki sínu

Á myndinni eru fulltrúar Íslands á fundunum, Þórarinna Söebech, María Erla Marelsdóttir og Emil Breki Hreggviðsson.

Styrkja þarf Alþjóðabankann fjárhagslega til að hann geti gegnt hlutverki sínu, náð settum markmiðum og tekist á við þær áskoranir sem blasa við. Þetta var meðal þess sem fram kom á vorfundum Alþjóðabankans sem haldnir voru í síðustu viku og lauk með fundi þróunarnefndar bankans og Alþjóðagjaldeyris-sjóðsins á laugardag.

Þróunarnefndin mótar meginstefnu bankans og er skipuð ráðherrum 25 landa, en hún fundar tvisvar sinnum á ári. Ráðherrar í kjördæmi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna skiptast á að sitja í nefndinni og Ulla Tørnæs þróunarmálaráðherra Danmerkur, situr í nefndinni þetta árið.  Utanríkisráðherra Íslands mun sitja í nefndinni fyrir hönd kjördæmisins árið 2019.

Á fundi þróunarnefndarinnar var farið yfir þrjú megin málefni: framvindu hvað varðar framtíðarsýn bankans (Forward Look), endurútreikning á hlutafjáreign aðildarríkja (Shareholding Review) og styrkingu bankans (A Stronger World Bank Group for All).

Forseti bankans lýsti yfir ánægju sinni með 18. endurfjármögnun Alþjóðaframfarastofnunarinnar (IDA18) sem er nýlokið, en IDA er sú stofnun bankans sem veitir styrki og lán á hagkvæmum kjörum til fátækustu ríkjanna. Sagði hann niðurstöður samningaviðræðnanna endurspegla sterkan stuðning við fjölþjóðlegt samstarf í þágu sjálfbærrar þróunar. Hann undirstrikaði jafnframt nauðsyn fjárhagslegrar styrkingar bankans (IBRD og IFC) og vísaði þá bæði til mögulegrar hlutafjáraukningar auk innri aðgerða til að losa um fjármagn, s.s. að draga úr rekstrarkostnaði og auka skilvirkni. Að lokum minnti hann á mikilvægi yfirstandandi vinnu við endurútreikning á hlutafjáreign ríkja. Þótt ljóst sé að hlutur sumra ríkja muni dragast saman séu allir sammála um tilganginn, eða að efla rödd þróunarríkja innan bankans.   

Í ræðu sinni ítrekaði fulltrúi kjördæmisins, Ulla Tørnæs, m.a. mikilvægi þess að takast á við loftslagsvandann og tryggja jafnrétti kynjanna, m.a. með stuðningi við kyn- og frjósemisheilbrigði og -réttindi, enda hvort tveggja grundvöllur þess að ná megi Heimsmarkmiðum SÞ um sjálfbæra þróun. 

Meðan á vorfundum Alþjóðabankans stóð áttu fulltrúar Íslands margvíslega tvíhliða fundi og tóku þátt í fjölbreyttum viðburðum. Má þar nefna ráðherrafundum um málefni ungs fólks, mikilvægi félagslegra stuðningsneta, flóttamannavandann og um málefni fátækustu ríkjanna auk funda tengdum starfsemi Alþjóðaframfarastofnunarinnar og aukinni aðkomu einkageirans að uppbyggingu í þróunarríkjum. 

Björgunarfólk verður fyrir aðkasti:
Yfir þúsund flóttamenn hafa farist á Miðjarðarhafi frá áramótum
  


Rúmlega eitt þúsund flóttamenn hafa drukknað á Miðjarðarhafinu það sem af er þessu ári. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) hefur frá áramótum skráð 1,073 einstaklinga sem ýmist hafa drukknað eða er saknað á sjóleiðinni hættulegu á milli Líbíu og Ítalíu. Á síðasta ári var komið undir lok maímánaðar þegar dauðsföllin voru komin yfir þúsund.

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) segir að börn í þessum hópi séu að minnsta kosti 150 en líkast til séu börnin miklu fleiri sem hafa drukknað því algengt sé að dauðsföll foreldralausra barna séu ekki skráð. Breska dagblaðið Independent segir að hættan í þessum ferðum sé svo mikil að hælisleitendur á óöruggum bátkoppum skrifi símanúmer á björgunarvesti til að tryggja að aðstandendur fái að vita um örlög þeirra finnist sjórekið lík.

Blaðið segir að 8,300 flóttamönnum hafi verið bjargað um páskahelgina og þeir hafi greint frá því að um eitt hundrað einstaklingar með þeim í för hafi dáið á leiðinni. Margir bátanna séu yfirfullir og fólk drukkni, kafni eða svelti til bana á leiðinni yfir hafið.

Batnandi veður og orðrómur um að líbanska landhelgisgæslan grípi senn til aðgerða gegn smyglurum í Líbíu leiða til þess að smyglarar hvetja nú sífellt fleiri til að leggja í hættuförina yfir hafið, segir í frétt Independent.

Blaðið segir líka frá því að nokkur borgarasamtök hafi vegna þess hræðilega ástands sem skapast hefur sent björgunarskip með heilbrigðisstarfsfólk og vistir á vettvang til viðbótar við aðgerðir Evrópusambandsins. Borgarasamtökunum hafi verið vel tekið af evrópskum stjórnvöldum en þau sæti gagnrýni frá öfga hægrisinnum og öðrum hópum sem ásaki þau um leynilegt samstarf við smyglara. 

Fulltrúi Lækna án landamæra sem eru með tvö skip á Miðjarðarhafi segir ásakanirnar byggðar á sandi. "Þetta eru fáránlegar ásakanir settar fram til að draga athyglina frá raunverulega vandanum," hefur blaðið eftir Stefano Argenziano hjá Læknum án landamæra.
Flóttamannavandinn alvarlegur en ekki óyfirstíganlegur, að mati fræðimanna

Flóttamannavandinn er til umfjöllunar í nýrri skýrslu frá fræðasetrinu Central for Global Development og alþjóðlegu flóttamannanefndinni (International Rescue Committee). Þar eru settar fram tillögur til að mæta þeim áskorunum sem við blasa í veröldinni þar sem 65 milljónir manna hafa flúið heimili sín og eru ýmist á vergangi innanlands eða hafa stöðu flóttamanna en síðarnefndi hópurinn telur 21 milljón. 

Skýrsluhöfundar segja vandann alvarlegan en ekki óyfirstíganlegan. Með sameiginlegu átaki alþjóðasamfélagsins sé unnt að bregðast við þeirri ógn sem við blasir. Höfundarnir benda á að flóttamenn séu einungis 0,3% mannkyns og að þeir dreifist landfræðilega ekki á marga staða.

Þorri flóttamanna í þróunarríkjum
Fram kemur í skýrslunni að 88% flóttamanna séu í lágtekju- og meðaltekjuríkjum. Straumur flóttamanna inn í fátæk ríki ógni þróun og stöðugleika í þessum löndum, bæði með svæðisbundum afleiðingum og alþjóðlegum. Hins vegar megi með góðri stjórnun koma því þannig fyrir að gistiríkið njóti ávinnings af komu flóttafólk.

Átök og hörmungar hafa leitt til þess að 21 milljón manna hafa leitað hælis utan föðurlandsins þar af 5 milljónir manna sem flúið hafa Sýrland frá því borgarastyrjöldin hófst árið 2011. Í skýrslunni segir að um það bil 76% flóttamanna séu ekki í flóttamannabúðum sem leiði til þess að erfiðara en ella er að hafa upp á þeim og bregðast við þörfum þeirra. 

Þá séu sífellt fleiri á flótta í langan tíma. Það sjáist á því að flóttamenn eru að jafnaði 10 ár fjarri heimilum sínum og þeir sem hafa verið flóttamenn lengur en fimm ár snúi ekki heim fyrr en að 21 ári liðnu að meðaltali.

Sérfræðingar Center for Global Development leggja til að ríkisstjórnir heims, þróunar- og mannúðarsamtök, einkageirinn og borgarasamtök  taki höndum saman undir forystu þeirra þjóðríkja sem hýsa flesta flóttamenn og vinni að sjálfbærri lausn fyrir flóttafólkið og samfélögin þar sem þeir búa. Sérfræðingarnir leggja til þrjár meginreglur og tíu tilmæli fyrir stjórnmálamenn til að byggja upp árangursríka samninga í þágu þeirra þjóða sem hýsa þorra flóttamanna.

Salernisaðstaða sem alþjóðleg réttindi

Mannréttindavaktin (Human Right Watch) hvatti ráðherra og aðra fulltrúa á alþjóðlegri ráðstefnu um vatns- og salernismál í síðustu viku til að beina sjónum að hindrunum sem torvelda rétt fólks til að ganga örna sinna í næði og með mannlegri reisn. 

Mannréttindavaktin gaf í liðinni viku út skýrsluna: Going to the Toilet When You Want: Sanitation as a Human Right (Að fara á klósettið þegar þú þarft: Salernisaðstaða sem mannréttindi).

Þetta 46 blaðsíðna rit samtakanna byggir á rúmlega tíu ára skýrslugerð um margvíslega misnotkun, mismunun og vandkvæði sem fólk upplifir við það að framkvæma þá einföldu athöfn að létta á sér við öruggar aðstæður með reisn. Samkvæmt nýjustu tölum frá 2015 bjuggu 2,4 milljarðar manna við ófullnægjandi salernisaðstöðu. Um milljarður manna hafði ekki um annað að velja en að ganga örna sinna úti á víðavangi með tilheyrandi hættu á heilsufarskvillum fyrir allt samfélagið eins og vannæringu, vaxtarhömlun og niðurgangspestum, svo dæmi séu nefnd.

Hvernig fólk stýrir líkamsstarfsemi sinni er kjarninn í mannlegri reisn," segir Amanda Klasing hjá Mannréttindavaktinni í frétt samtakanna. "Fyrir utan það hvað fólki er misboðið felur skert aðgengi að salernisaðstöðu í sér að önnur mannréttindi skerðast líka eins og heilsa og kynjajafnrétti," segir hún.

Rétturinn til að hafa aðgang að salerni byggir á réttinum til að njóta viðunandi lífsgæða og felur í sér að allir eiga að njóta salernisaðstöðu sem veitir nauðsynlegt næði og tryggir reisn, er aðgengileg fötluðum sem ófötluðum, örugg, hrein og bæði félagslega og menningarlega ásættanleg. Fjölmargir fá hins vegar ekki notið þessara mannréttinda eins og tölurnar hér að ofan sýna glöggt.

Mesta mannúðarógnin í Jemen

Sameinuðu þjóðirnar og ríkisstjórnir Svíþjóðar og Sviss efndu í gær til ráðstefnu í Genf til að vekja athygli á hrikalegri mannúðarógn sem við blasir í Jemen. Í þessu fátæka ríki Mið-Austurlanda þar sem geisar borgarastríð þurfa um 75% íbúa, eða tæplega 20 milljónir manna, á nauðsynlegri mannúðaraðstoð að halda og 25% íbúanna eru á barmi hungursneyðar, 7 milljónir. Af þeim eru tvær milljónir barna alvarlega vannærðar.

Ráðstefnunni í Genf var ætlað að tryggja fjármögnun hjálparstarfs en alþjóðastofnunum og hjálparsamtökum hefur reynst erfitt að fá fjármagn vegna hörmunganna í Jemen þrátt fyrir að vandinn sé síður en svo nýr af nálinni. Fram kom á ráðstefnunni í gær að einungis hafði náðst að safna 15% af þeim 2,1 milljarði bandaríkjadala sem Samræmingarskrifstofa mannúðarmála SÞ (OCHA) hafði óskað eftir til mannúðaraðstoðar. Á ráðstefnunni í gær voru gefin fyrirheit um framlög sem nema rúmum einum milljarði dala.

Neyðarsjóður Sameinuðu þjóðanna (UNCERF), sem Íslendingar styrkja fjárhagslega, lagði í gær til 25 milljónir dala til mannúðaraðstoðar í Jemen.

Frétt Sjónvarpsins í gærkvöldi

Yemen: We must act now to prevent a humanitarian catastrophe/ OCHA

Ræddu farsælt samstarf Íslands og UN Women

María Erla Marelsdóttir skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins átti fund um síðustu helgi með Lakhsmi Puri aðstoðarframkvæmdastjóra UN Women. Þær ræddu um farsælt samstarf Íslands og UN Women, en stofnunin er ein af fjórum áherslustofnunum í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. 

Puri undirstrikaði mikilvægi framlags Íslands í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna, ekki síst hvað varðar áherslu Íslands á mikilvægi þess að karlar og drengir taki þátt í baráttunni. Auk þess hrósaði hún Íslandi fyrir mikilvæg skref til að útrýma kynbundnum launamun.

Áhugavert

Official development assistance : a reform in the interest of the poorest countries?/ Ideas4Development
-
For Faster Education Progress, We Need to Know What Kids Know, eftir Barbara Bruns and Eric Hanushek/ CGDev
-
This time the uprising in Zimbabwe is different - but will it bring regime change?, eftir Brian Raftopoulos/ TheConversation
-
Every data point has a human story, eftir RAKA BANERJEE/ Alþjóðabankablogg
-
The End of Foreign Aid As We Know It/ FP
-
The UN's role in China's African development agenda/ ChinaFile
-
Development Beyond the Numbers, eftir SELIM JAHAN/ Project-Syndicate
-
Sport for peace and development: Zambia shows how it can be done, eftir Iain Lindsey ofl./ TheConversation
-
HUMAN-MADE CATASTROPHES: Dangerous hunger, eftir Hans Dembowsk/ D+C
-
Should Theresa May Ditch the Aid Target?, eftir Over Barder/ CGDev
-
Don't Fear Refugees - Why They Pose Little Threat to National Security, eftir Alex Ballfrass ofl./ ForeignAffairs
-
World Immunization Week, 24-30 April 2017/ WHO
-
Getting books into the hands of kids who need them/ R4D
-
The salary gap between expat and local aid workers - it's complicated/ TheGuardian
-
Unequal opportunity, unequal growth, eftir ROY VAN DER WEIDE/ Alþjóðabankablogg
-
The "Big Bond": How to Maintain African Growth While Reducing the Fiscal Burden on Donors, eftir Nancy Birdsall og Ngozi Okonjo-Iweala/ CGDev
-
Internship - World Food Programme Nordic Office, August 7th 2017- February 9th 2018
-
Conference: 'Boosting youth employment in Africa: what works and why?' 30 May in The Hague/ Include
-
Urban risks: where are the top five biggest blind spots?, eftir David Satterthwaite/ IIED
-
Foreign Aid Should Be Part of an "America First" Policy/ NationalInterest
-
Toward Water and Sanitation for All: Featuring Matt Damon, co-founder of Water.org/ Alþjóðabankinn
-
Matt Damon: 'Children are drinking water so dirty it looks like chocolate milk'/ TheGuardian
-
'Completely ABSURD' Fury as Britain plans to KEEP sending foreign aid to North Korea/ Express
-
Remittances to developing countries decline for an unprecedented 2nd year in a row, eftir Dilip Ratha/ Alþjóðabankablogg
-
Secret aid worker: we've lost our humanity to jargon and statistics/ TheGuardian
-
The Nyau cult: unmasking one of Africa's secret societies/ DW
-
How big is Airbnb's business in Africa?/ HowWeMadeItInAfrica
-
No One is Left Behind, eftir Kakoli Ghosh/ IPS
-
Who will protect our girls?/ Africa Renewal


Hungry in a world of plenty: millions on the brink of famine/ Oxfam
-
Starvation looms for 20 million, UN agricultural advisory group told at opening session/ UNNewsCentre
-
Uganda becomes East Africa's saviour amid drought and war/ CGTN
-
It may take years to free all kidnapped Chibok girls - Nigeria Defence Minister/ CGTN
-
Kenya: Nairobi Ranked As Leading Destination for Multinationals/ AllAfrica
-
54 survive Lake Malawi tragedy, 20 still missing/ Malawi24
-
To solve Africa's health crises, we need to enlist women and girls/ WEF
-
China pledges to boost healthcare in Africa/ CGTN
-
Fortune 500 companies are still hesitant about settling in Africa/ Qz
-
The great urban racket: Exploitation and short-sightedness in Africa's slums/ Economist
-
Captive IS fighters face extrajudicial killings on fringes of Mosul conflict/ IRIN
-
Mediterranean rescuers accuse Europe of 'leaving migrants to drown'/ CNN
-
Cabinet split opens up over foreign aid spending/Telegraph
-
Status of declaration on indigenous peoples' rights in spotlight as UN forum opens in New York/ UNNewsCentre
-
Philanthropist Bill Gates Sounds Warning on Cuts to Development Aid/ VOA
-
Luxembourg an exemplar on providing development aid/ WORT
-
Forsetaskipti fram undan í Angóla/ RUV
-
UNFPA assess extent and impact of US cuts/ Devex
-
Rich countries criticized for using aid money to host refugees instead of tackling poverty/ Reuters
-
Luxembourg an exemplar on providing development aid/ WORT
-
A tale of two droughts: one killed 260,000 people, the other none. Why?/ TheGuardian
-
Malawi and China sign MOU to promote traditional medicine, healers/ CGTN
-
Drought drives Kenyan pastoralists into Uganda/ DW
-
Namibia's president is flirting with racial quotas and expropriation/ TheEconomist
-
Mission to pursue African warlord Kony is declared over/ AP
-
Ugandan feminist academic in court, remanded in prison/ DW

Vonin enn til staðar
Ljósmynd: Jónína Einarsdóttir

Andreas Papp, yfirmaður neyðaraðstoðar SOS Barnaþorpanna á heimsvísu, hélt fyrirlestur þann 19. apríl síðastliðinn í Háskóla Íslands sem bar yfirheitið "Is there a hope for a traumatized generation? The war in Syria and how it affects children."

Andreas hefur yfir tveggja áratuga starfsreynslu á sviði neyðaraðstoðar, þar á meðal starfaði hann í tíu ár hjá Læknum án landamæra. Í marsmánuði var hann staddur í Sýrlandi til að skoða aðstæður og fylgjast með neyðaraðgerðum SOS í Aleppo og Damaskus.

Á fyrirlestrinum kom fram að Andreas hafi aldrei séð aðra eins eyðileggingu og í Aleppo. Ekkert rennandi vatn er í austurhluta borgarinnar en SOS Barnaþorpin hafa komið upp vatnstönkum fyrir almenning. Þá eru 14 skólar gjöreyðilagðir í austurhluta borgarinnar sem Andreas segir mjög mikilvægt að endurreisa svo börnin komist aftur í skóla.

Hann sagði vonina þó vera til staðar. Það þyrfti þó að hjálpa sýrlenskum börnum, þá sér í lagi með áfallaaðstoð og menntun.


MOOC námskeið - Landgræðsla til sjálfbærrar þróunar með aðkomu viðskiptalífsins

Kynningarmyndband um námskeiðið
Kynningarmyndband um námskeiðið
Landgræðsluskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna hefur, ásamt samstarfsaðilum, þróað netnámskeið um þau tækifæri sem landgræðsla skapar til að stuðla að sjálfbærri þróun. Námskeiðið nefnist Landscape Restoration for Sustainable Development: a Business Approach .  Það gefur heildstæða þekkingu á landhnignun og landgræðslu bæði út frá sjónarhóli náttúruvísinda annars vegar og viðskipta- og atvinnulífs hins vegar. Í námskeiðinu er útskýrt hvernig landgræðsla bætir landgæði og frjósemi lands sem skilar  sér í fjárhagslegum og samfélagslegum ávinningi og styður þannig við afkomu og velferð einstaklinga og samfélaga. Námskeiðið er sérstaklega sniðið að nemendum og sérfræðingum í viðskiptum og stjórnun en er í boði fyrir alla sem hafa áhuga á að viðhalda og endurheimta landgæði.

Námskeiðið er svokallað MOOC-námskeið (Massive Open Online Course) sem fer alfarið fram á netinu og er opið öllum án endurgjalds. Það er því hægt að ná til mikils fjölda fólks í einu og gefa  breiðum hópi einstaklinga tækifæri til að mennta sig óháð staðsetningu og efnahag. Jafnframt skapar þessi gerð námskeiða sóknarfæri til að vekja athygli á aðkallandi málefnum samtímans.

Landeyðing og hnignun landgæða er eitt af þeim málefnum sem takast þarf á við til að tryggja sjálfbæra þróun. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 15 er tileinkað þessu málefni, en það lýtur að því að stöðva landeyðingu, vernda, endurheimta og stuðla að sjálfbærri nýtingu landvistkerfa. Landeyðing hefur víðtæk neikvæð áhrif á afkomu einstaklinga og samfélaga. Hún dregur úr tækifærum fólks til að lifa af landinu og hefur neikvæð áhrif á heilsu fólks þar sem henni fylgja oft slæm loft- og vatnsgæði og mengun.  Með landgræðslu er hægt að endurheimta gæði landsins, sem til framtíðar getur skapað atvinnu- og viðskiptatækifæri og bætt afkomu og heilsufar fólks. Landgræðsla bindur einnig kolefni í jarðvegi og gróðri og dregur því úr styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Það er því margvíslegur ávinningur af því að græða upp land og hindra landhnignun. Mikilvægt er að miðla þessari þekkingu til þeirra sem geta stuðlað að landbótum í sínum störfum. Þess vegna er MOOC-námskeiðið sniðið að nemendum og sérfræðingum í viðskipta- og atvinnulífinu, til að virkja þann kraft sem þar er til sjálfbærrar þróunar.

MOOC-námskeiðið er þróað í samstarfi ENABLE verkefnisins sem styrkt er af Erasmus+ menntaáætlun Evrópusambandsins. Auk Landgræðsluskólans eru það Rotterdam School of Management, Commonland, Estoril Conferences og Spanish National Research Council sem standa að ENABLE verkefninu. Við þróun og gerð námskeiðsins átti Landgræðsluskólinn einnig mjög gott samstarf við sérfræðinga Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslu ríkisins, sem miðla í námskeiðinu af þekkingu sem þessar stofnanir búa yfir. ENABLE hópurinn mun halda áfram að þróa námsefni bæði fyrir vefumhverfi og hefðbundnari kennslu á komandi misserum.

MOOC-námskeiðið verður aðgengilegt á vef Coursera þann 1. maí. 

Harðnandi átök í Afganistan

- eftir Unu Sighvatsdóttur friðargæsluliða og upplýsingafulltrúa hjá Nató í Afganistan

Á föstudaginn var, þann 21. apríl, frömdu Talíbanar sína mannskæðustu árás gegn afganska hernum frá upphafi stríðsins árið 2001. Yfir 140 hermenn voru stráfelldir í óvæntri innrás á herstöðina Shaheen í norðurhluta landsins, þar sem þeir ýmist sátu yfir hádegismat eða bænastund, óvopnaðir. Rétt rúmri viku áður, 13. apríl, varpaði Bandaríkjaher öflugustu sprengju vopnabúrs síns, að kjarnorkuvopnum undanskildum, á neðanjarðarherbúðir ISIS-K hryðjuverkasamtakanna í austurhluta Afganistan og er þetta í fyrsta skipti sem gripið er til þess vopns. Það var 6 vikum eftir að ISIS lýstu yfir ábyrgð á stríðsglæp sem framinn var 6. mars, með blóðugri hryðjuverkaárás á Sardar Dauda Khan hersjúkrahúsið í miðborg Kabúl, en fram að því var ekki talið að ISIS hefðu nægilega fótfestu í Afganistan til að framkvæma svo flókna árás.

Þessi snarpa röð alvarlegra atburða á stuttu tímabili vormánaða ber með sér teikn á lofti um versnandi ástand í Afganistan, 16 árum eftir að harðstjórn Talíbana var felld með innrás Bandaríkjahers. Ábyrgð öryggismála landsins hvílir nú að öllu leyti á herðum Afgana sjálfra, eftir að alþjóðalið NATO dró sig formlega út úr vopnuðum átökum í landinu í árslok 2014, en sú byrði er þung fyrir tiltölulega nýstofnað her- og lögreglulið. Afganistan reiðir sig því enn mjög á einarðan stuðning NATO ríkja. Markmið núverandi verkefnis alþjóðaliðsins er fyrst og fremst að veita afgönskum stjórnvöldum, her og lögreglu ráðgjöf, þjálfun og stuðning. Yfirlýst lokatakmark er að Afganistan verði sjálfbært samfélag og sjálfráða um eigin framtíð þar sem stöðugleiki ríkir og almenningur hefur traust á grunnstoðum samfélagssáttmálans.

Friður í Afganistan er lykill að stöðugleika í heimshlutanum öllum, en því miður virðist enn langt í land með að það markmið náist. NATO vinnur því leynt og ljóst að því að hjálpa afgönskum her- og lögreglumönnum að öðlast sjálfstraust til þess að takast á við þær miklu áskoranir sem bíða þeirra, því meðal viðvarandi vandamála í átökunum er að hermennirnir einfaldlega leggi niður vopn og flýi af hólmi þegar vígamenn Talíbana nálgast.
Una að störfum við að mynda afganska hermenn í þjálfun í Herat og Helmand héröðum. Ljósmyndir: Kay Nissen 

Myndar þjálfun hermanna
Undirrituð hefur meðal annars unnið að því að mynda og segja frá þjálfun afganskra hermanna á vetrarmánuðum, nú síðast í Helmand héraði. Þar hafa átökin í landinu verið einna hörðust, sem meðal annars má rekja til þess að Helmand er helsta framleiðslusvæði ópíums í heiminum. Því fylgdu blendnar tilfinningar að ræða við ungu mennina sem fylla 215. sveit afganska hersins í Helmand. Flestir eru á þrítugsaldri, eða yngri. Þeir virtust trúa á málstaðinn og hafa metnað fyrir að standa sig vel, en þeir hafa ekki mikið val um annað. Á æfingasvæði, þar sem útskriftarverkefnið var að finna og grafa upp heimatilbúnar sprengjur (IEDs), hitti ég pilt sem beitti fyrir sig þýsku þegar hann sá mig. Hann hafði flúið land og dvalið um nokkurra mánaða skeið í Bæjaralandi, þar til honum var neitað um hæli og snúið aftur til heimalandsins, líkt og þúsundum afganskra flóttamanna í Evrópu á síðasta ári. Við heimkomuna sá hann þann kost vænstan að ganga í herinn og sagðist vonast til að gera gagn þar. Hann var málglaður og félagar hans grínuðust með það við mig að einhvern daginn myndi hann slá í gegn í Hollywood.  

Líkurnar eru þó því miður ekki með honum, eða hinum ungu mönnunum. Að lokinni þjálfun verða þeir sendir út á vígvelli Helmand í sumar. Yfir 6700 afganskir hermenn létust í átökum árið 2016 og hefur mannfallið aldrei verið meira, eða ríflega þrefalt allt mannfall Bandaríkjahers samanlagt frá innrásinni 2001.

Engu að síður hafa afganskar öryggissveitir jafnt og þétt náð framförum, sem sýna að þjálfun og ráðgjöf alþjóðaliðsins skilar árangri. Ný kynslóð ungra Afgana sem er mun hæfari í stjórnunarstöðum en fyrirrennarar þeirra vekur góða von um framtíðarárangur, þótt í of mörgum tilfellum flækist eldri kynslóðin enn fyrir og haldi aftur af þeim. Og það eru ekki aðeins Afganir sem læra af samstarfinu við NATO. Ég hef lagt mig eftir því að spyrja líka ráðgjafana úr alþjóðaliðinu hvort þeir persónulega dragi einhvern lærdóm af verkefninu í Afganistan og flestir hafa svipaða sögu að segja: Þeir hafi lært að þeirra nálgun að heiman er ekki endilega alltaf sú eina rétta í þessum aðstæðum, að í sumum tilfellum vilji Afganir gera hlutina með öðrum hætti og vænlegast til árangurs sé að hlusta og leyfa þeim að gera það.

Þannig má kannski segja að alþjóðalið NATO nálgist verkefnið í Afganistan af aukinni auðmýkt, enda hefur sýnt sig undanfarin 16 ár að það er engin einföld lausn til við þeirri gríðarflóknu stöðu sem uppi er eftir áratugi stríðs í landinu. Vonin er auðvitað sú að NATO geti á endanum dregið sig með öllu út og skilið þannig við Afganistan að það standi á eigin fótum til framtíðar. Með ráðstefnunum í Varsjá og Brussel á síðasta ári hefur alþjóðasamfélagið ítrekað skuldbindingu sína til þess að styðja áfram við þróunarstarf í Afganistan næstu árin, til þess að það megi verða að veruleika.

Mikilvægi kvenna í friðaruppbyggingu

- eftir 
Lilju Dóru Kolbeinsdóttur verkefnastjóra í sendiráði Íslands í Mapútó


Þann 20. apríl síðastliðinn undirritaði Ísland samstarfssamning við UN Women í Mósambík uppá 2.5 milljón bandaríkjadali til fjögurra ára (2017-2020). Beinist verkefnið að því að aðstoða mósambísk stjórnvöld við framkvæmd fyrstu aðgerðaáætlunar sinnar til að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi. 

Sú ályktun viðurkennir sérstöðu kvenna í stríði og mikilvægi hlutverks þeirra í friðaruppbyggingu. Í Mósambík þar sem borgarastyrjöld ríkti í rúm sextán ár og enn eru róstur öðru hverju skiptir ályktunin og framkvæmd hennar gríðarlega miklu máli. Verkefninu var hleypt af stokkunum við hátíðlega athöfn þar sem rúmlega hundrað manns tóku þátt frá hinum ýmsu hagaðilum. Lögreglukórinn tók lagið eftir ræðuhöld og undirritun samstarfssamningsins.   

Helsti samstarfsaðili UN Women er Jafnréttis-, barna- og félagsmálaráðuneyti í Mósambík sem fer með málefnið að hálfu stjórnvalda. Vegna eðli verkefnisins eru verkþættir sem beinast að þjálfun og  samstarfi við innanríkis- og varnarmálaráðuneyti (lögreglu og her) landsins.  Hefur verkefnið fengið mikla fjölmiðlaumfjöllun og þakka framkvæmdastýra UN Women í Mósambík og ráðherra jafnréttismála þennan góða stuðning Íslands við málefnið.

Meginmarkmið verkefnisins er að tryggja að ferlar og áætlanir sem stuðla að friði, öryggi og endurreisn í mósambísku samfélagi leggi sitt að mörkum til jafnréttis og valdeflingar kvenna og stúlkna, en oft verða þær útundan í þess háttar ferlum og áætlunum. Verkefnið verður unnið í fjórum til fimm héruðum í fjórum fylkjum í mið og norður Mósambík, Manica, Tete, Sofala og Zambézia. Er verkefnið byggt þannig upp að auðvelt er að stækka það og fjölga fylkjum og héruðum ef viðbótarfjármagn fæst frá öðrum gjafaríkjum. Má hugsa verkefnið sem frumkvöðlastarf, verkefni sem vísar veg og leggur línur til framtíðar um framkvæmd aðgerðaráætlunar ályktunar 1325 í Mósambík.

Markmið (e. outcome) verkefnisins eru þrjú: öryggi, líkamleg og andleg heilsa kvenna og stúlkna bætt og mannréttindi þeirra varin; félags- og efnahagsleg endurreisn í þágu kvenna og stúlkna aukin á fyrrum átakasvæðum og hvetjandi umhverfi fyrir sjálfbæra framkvæmd á skuldbindingum á Konur, friður og öryggi styrkist. Helstu afurðir (e.outputs) eru eftirfarandi:

Afurð 1.1: Konur og stúlkur sem orðið hafa fyrir ofbeldi hafi aðgang að fjölþættri aðstoð, þar á meðal viðeigandi vernd, heilbrigðis-, sálfélagslegri og lögfræðiþjónustu á flóttamanna- og endurreisnarsvæðum
Afurð 2.1: Konur og stúlkur hafi betra aðgengi að efnahagslegum tækifærum í tengslum við endurreisn frá átökum
Afurð 2.2: Konur og stúlkur hafi aukin tækifæri til að taka með virkum hætti þátt í hindrun og úrlausn átaka
Afurð 3.1: Geta ráðuneytis jafnréttismála til að samræma, hafa eftirlit með framkvæmd aðgerðaáætlunar um 1325 og gera grein fyrir framvindu aukin
Afurð 3.2: Aukin innlend kunnátta og geta til að innleiða og skapa þekkingu á sviðinu Konur, friður og öryggi
 
Verkefnið hefst strax í þessari viku og lýkur í árslok 2020. Á fyrstu sex mánuðum verður safnað bakgrunnsupplýsingum, grunngildi mælikvarða ákvörðuð og nákvæmt umfang verkefnisins ákveðið ásamt sértækum markmiðum mælikvarða. Þar er gert ráð fyrir að UN Women njóti aðstoðar Eduardo Mondlane háskólans í Mósambík og Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi (UNU-GEST).

Verkefnið samræmist vel áherslum þróunarsamvinnuáætlunar og hinum ýmsu jafnréttis- og mannréttindastefnum Íslands almennt. Verkefnið leggur sitt að mörkum til Heimsmarkmiða um sjálfbæra þróun, ekki síst til markmiðs nr. 5 um jafnrétti kynjanna og markmiðs nr. 16 um frið og réttlæti.
facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105