Heimsljós
veftímarit um þróunar- og mannúðarmál
10. árg. 339. tbl.
11. október 2017
Fjórir skólar Háskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi:
Góður árangur og mikil námsgæði helsta niðurstaða úttektar á skólunum 
Fjórir skólar Háskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi hafa náð góðum árangri og sýnt fram á mikil námsgæði, samkvæmt nýrri óháðri úttekt á árangri skólanna. Um er að ræða fyrstu óháðu úttektina sem fram fer á árangri skólanna og jafnframt umfangsmestu úttekt sem framkvæmd hefur verið í tengslum við alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Úttektin var unnin af alþjóðlega ráðgjafafyrirtækinu NIRAS fyrir utanríkisráðuneytið.

Meginniðurstöður úttektarinnar eru þær að mikil námsgæði og góður árangur hafi náðst með starfi skólanna í þágu þróunarríkja, námið samrýmist stefnu Íslands, Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og stefnu þróunarríkja. Í úttektinni koma fram ýmsar ábendingar sem snúa bæði að skólunum og ráðuneytinu um það hvernig styrkja megi starfið enn frekar. Einnig er fjallað um áhrif mögulegrar sérstakrar stofnunar Háskóla SÞ á Íslandi. Unnið verður úr þeim á næstu vikum í samstarfi ráðuneytisins og skólanna.

Úttektaraðilum var falið í samræmi við ábendingar í þróunarsamvinnuáætlun og jafningjarýni Þróunarsamvinnunefndar OECD um þróunarsamvinnu Íslands, að meta árangur skólanna og sýna fram á hvernig námið á Íslandi hefði stuðlað að uppbyggingu þekkingar í þróunarríkjum. Margvíslegum matsaðferðum var beitt og úttektarhópurinn rýndi meðal annars námið í skólunum hér á landi og fór í vettvangsferðir til átta þróunarríkja.

Tæplega 40 ára saga
Skólarnir fjórir sem um ræðir eru Jarðhitaskólinn sem stofnaður var 1979 og hefur aðstöðu hjá Orkustofnun, Sjávarútvegsskólinn sem stofnaður var 1979 og hefur aðstöðu hjá Hafrannsóknarstofnun, Landgræðsluskólinn sem stofnaður var 2010 og hefur aðstöðu hjá Landbúnaðarháskólanum og Landgræðslu ríkisins og Jafnréttisskólinn sem stofnaður var 2013 og hefur aðstöðu hjá Háskóla Íslands. Allir skólarnir eru að mestu leyti fjármagnaðir af utanríkisráðuneytinu af framlögum til þróunarsamvinnu.

Skólar Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem starfa á Íslandi byggja á sérþekkingu Íslendinga á sviði jarðhita, sjávarútvegs, landgræðslu og jafnréttis. Hlutverk þeirra allra er að stuðla að þekkingaruppbyggingu í þróunarríkjum. Skólarnir fjórir bjóða fimm til sex mánaða námskeið árlega á Íslandi fyrir sérfræðinga í þróunarríkjum. Frá árinu 1979 til ársloka 2016 höfðu 1149 nemar frá 101 landi útskrifast frá skólunum, þar af 30% konur. Fram kemur í skýrslu úttektaraðila að Jarðhitaskólinn og Sjávarútvegsskólinn, elstu skólarnir, bjóði líka með reglubundnum hætti námskeið í samstarfslöndum og hafi um árabil styrkt útskrifaða nemendur til háskólanáms á Íslandi sem skilað hafi góðum árangri.

Skýrsla FAO - State of Food and Agriculture 2017:
Sveitirnar eru ekki fátæktargildrur - umbylting í landbúnaði er lausnin!

Sveitirnar eru lykillinn að hagvexti í flestum þróunarríkjum að mati Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) sem gaf á mánudag út árlega skýrslu sína um stöðu matvæla og landbúnaðar. Skilaboðin eru skýr frá FAO: Heimsmarkmiðin standa og falla með því hvort tekst að koma á verulegum breytingum í sveitum þróunarríkjanna því fólksfjölgun í þeim ríkjum byggist á aukinni landbúnaðarframleiðslu.

Við unga fólkið segir FAO: ekki flýja sveitirnar, þær eru ekki fátæktargildrur - þvert á móti. Samkvæmt skýrslunni koma milljónir ungmenna inn á vinnumarkaðinn á næstu áratugum og skýrsluhöfundar segja að þessar kynslóðir þurfi ekki að flýja landbúnaðarhéruðin og fara á mölina til að forðast fátækt. Miklir möguleikar séu einmitt fólgnir í umbótum í landbúnaði og sækja þurfi aukinn hagvöxt í meiri matvælaframleiðslu og afleidd störf í landbúnaði.

Að mati FAO hefur verið sýnt fram á að breytingar í hagkerfi dreifbýlis geti haft meiriháttar áhrif. Milljónir íbúa í sveitum hafi á síðustu áratugum lyft sér upp úr fátækt með þeim hætti. Í ljósi þess að meirihluti fátækra og hungraðra búi í sveitum, fólksfjölgun sé mikil og borgir stækki ört, muni Heimsmarkmiðin standa eða falla með því hvort tekst að gera nauðsynlegar breytingar í sveitum með aukinni framleiðni og meiri iðnþróun í landbúnaði. Þetta er að mati FAO áskorun sem þróunarríkin standa frammi fyrir til að tryggja nægan mat og atvinnu fyrir borgarana.

Í skýrslunni kemur fram að á árunum 2015 til 2030 fjölgi ungmennum á aldrinum 15-24 ára um 100 milljónir, verði í lok tímabilsins 1,3 milljarðar talsins. Aukningin er nánast öll í sama heimshlutanum, í sunnanverðri Afríku, og að mestu leyti til sveita. Þar hafa hins vegar tækninýjungar verið litlar og að óbreyttu væri fá ný atvinnutækifæri að hafa fyrir unga fólkið sem streymir inn á vinnumarkaðinn.

Hættan er því sú að unga fólkið til sveita leiti ekki tækifæra í landbúnaði heldur taki sig upp, fari til borganna og bætist þar í ört vaxandi hóp fátækra - eða fari í atvinnuleit annað og lendi tímabundið eða varanlega í öðrum ört vaxandi hópi, þ.e. sem farandfólk.

Þetta eru ástæðurnar fyrir skilaboðum FAO um stefnumótun og fjárfestingu í sveitum þróunarríkja til að skapa gróskumikla fjölbreytta matvælaframleiðslu með því að skapa atvinnu í sveitum og gefa fleirum kost á því að blómstra.
Mikil áhersla á fiskeldi í Mósambík:
Fiskeldis- og rannsóknarsetrið CEPAQ verður formlega opnað í lok þessa árs


Íslendingar hafa um árabil stutt við uppbyggingu og þróun á fiskeldis- og rannsóknarsetri  í Chokwe héraði í  Gaza fylki í Mósambík, sem nefnist CEPAQ. Stuðningur við fiskeldi er hluti af verkefnastoð sem Norðmenn og Íslendingar hafa tekið þátt í með stjórnvöldum í Mósambík frá árinu 2008. Metnaðarfyllstu áformin hafa á síðustu árum verið í fiskeldinu og stjórnvöld gera sér vonir um allt að 200 þúsund tonna framleiðslu innan 10 ára. Verið er að undirbúa lagaramma sem gerir fjárfestingar í fiskeldi meira aðlaðandi en áður var, með niðurfellingu tolla og skatta, undanþágu um fjármagnstekjuskatt og heimildir til að flytja fé út úr landinu þrátt fyrir ströng gjaldeyrishöft.

Stöðin hefur verið í þróun frá 2012 en verður formlega opnuð í lok árs 2017. Að sögn Alberto Halare framkvæmdastjóra CEPAQ er lögð mikil áhersla á alþjóðlega samvinnu og bestu tæknilegu ráðgjöf sem fáanleg er við uppbyggingu stöðvarinnar.  Á tilraunatímabilinu voru markmiðin meðal annars þau að finna út hvaða afbrigði tilapíu henti best til eldis í Mósambík, hvaða fóður henti best, tryggja framboð á góðum seiðum til ræktunar á landsvísu ásamt því að veita þjálfun í hagnýtum fiskeldisfræðum. Á ræktunarsvæðinu eru núna alls 39 tjarnir en áður hafði seiðum verið safnað til tilraunaræktunar bæði innanlands og frá Tælandi.

Skortur á þekkingu og reynslu innanlands
Alberto segir að sex sérfræðingar hafi verið þjálfaðir sem komi til með að starfa að uppbyggingu og þróun setursins. Þjálfunin er skipulögð af norskum ráðgjöfum og fór fram í Gaza fylki en einnig í Brasilíu, Tælandi og Egyptalandi. Hann nefnir að einn megin áhættuþátturinn sé skortur á þekkingu  og reynslu innanlands á fiskeldi til að tryggja gæði framleiðslunnar. Einungis örfáar litlar fiskeldisstöðvar eru komnar í gagnið í Mósambík og skortur hefur verið á innlendu fiskeldisfóðri og framboð á eldisseiðum takmarkað. Meðal annars af þessum ástæðum eru núna einungis uppi áform um að rækta tilapíu en ekki margar tegundir eins og upphaflega var ráðgert. Markmiðið er að fá góðan grunnstofn með erfðafræðilega fjölbreytni til að framleiða kynbreytt hágæða seiði sem færu til dreifingar og sölu til annarra fiskræktenda.

Úr myndbandi Mortens Holt.
CEPAQ stöðin er hönnuð með tilliti til loftslags- og umhverfisaðstæðna - og öll öryggismál eru tekin mjög alvarlega: seiðaeldi er ofur viðkvæmt og kallar á vöktun allan sólarhringinn. Hér er ýmiss konar útbúnaður, pumpur, stíflur og varaorkugjafar, til að bregðast við ef flóð eða aðrar náttúruhamfarir verða sem gætu til dæmis leitt til rafmagnsleysis. Alberto segir einnig að stöðin sé hönnuð með það í huga að allar deildir starfi sjálfstætt og miklar öryggisvarnir séu til staðar til að draga úr smithættu milli deilda.  

Skammt frá stöðinni hér í Chokwe héraði eru um 10 þúsund hektarar af söltum jarðvegi. Ríkið mun taka frá sex þúsund hektara af þeim undir fiskeldi en svæðið kallast dauða jörðin eða "terra morta" á portúgölsku. Þar sem jarðvegurinn er saltur hentar svæðið því betur til fiskeldis en til hefðbundinnar ræktunar í landbúnaði. Að sögn Alberto er áformað að hefja þar mikla tilapíuræktun með aðkomu einkafyrirtækja og fjárfesta. Einnig hefur verið rætt um að bjóða rekstur CEPAQ út til einkaaðila en stöðin mun þurfa fjárstuðning næstu fimm til tíu árin ef vel á að takast að þróa tílapíuræktun í Mósambík sem eina af undirstöðum næringar og fæðuöryggis í landinu.  

Myndband gert af Norðmanninum Morten Holt Hoyum sýnir vel framkvæmdasvæðið í Chokwe héraði. 
Styrkur frá utanríkisráðuneytinu til íslenskra samtaka í Höfðaborg:
Einstæðar atvinnulausar mæður í öndvegi hjá Enza í Suður-Afríku

Hjálparsamtökin Enza fengu á dögunum styrk frá utanríkisráðuneytinu vegna langtímaverkefnis samtakanna til valdeflingar og aukinnar atvinnuþátttöku kvenna í fátækrahverfum í Suður-Afríku. Heildarupphæðin nam tæplega 15 milljónum króna.

 

Hjálparsamtökin Enza voru stofnuð árið 2008. Fyrstu árin fór starfsemi samtakanna fram í Mbekweni fátækrahverfinu, 50 km norður af Höfðaborg í Suður-Afríku, en í dag eru samtökin með starfsemi á fimm stöðum í landinu í samvinnu við önnur þarlend samtök. Nafn samtakanna, "Enza", hefur jákvæða tilvísun og merkir að framkvæma eða gera á Zulu og Xhosa, sem eru móðurmál meirihluta landsmanna.

 

Enza er með starfandi stjórnir á Íslandi og í Suður-Afríku. Stofnandi samtakanna er Ruth Gylfadóttir, sem er búsett ásamt fjölskyldu sinni í Cape Town. Systrasamtök Enza eru Suður-afrísku samtökin TCB eða The Clothing Bank en þau samtök vinna að sama markmiði og Enza sem er félags -og fjárhagsleg valdefling fátækra kvenna. Saman reka Enza og TCB fræðslumiðstöðvar. Þar fer fram atvinnuskapandi uppbyggingarstarf fyrir konur sem hafa sökum bágborins efnahags og annarra samfélagsmeina ekki fengið tækifæri til að mennta sig og efla.

 

Starfsstöðvar Enza og TCB eru ýmist í eða mjög nálægt þeim fátækrahverfum sem flestar kvenna landsins búa. Staðarvalið helgast af því að þessi svæði eru þéttbýlust, þar eru fátækrahverfin fjölmennust. 

 

Í fræðslumiðstöðvum Enza og TCB fer fram starfsmenntun sem miðar að því að veita haghöfum brautargengi í rekstri smáfyrirtækja. Starfsmenntun þessi felur meðal annars í sér, tölvukennslu, fjármálalæsi og lífsleikni svo eitthvað sé nefnt. Hlutverk Enza í samstarfinu er meðal annars rekstur og fjáröflun tölvuvera sem eru hluti af fræðslumiðstöðvunum.

 

Að sögn Ruth Gylfadóttur stofnanda samtakanna var upphaflegur kjarnahópur Enza konur sem höfðu neyðst til að gefa frá sér barn til ættleiðingar vegna fátæktar. "Í dag þjóna samtökin konum sem búa við háa glæpatíðni, gríðarlega fátækt, atvinnuleysi og landlæga sjúkdóma á borð við HIV og berkla, en vilja fræðast og auka tækifæri sín til innihaldsríkara lífs og bættra lífsskilyrða. Forgangshópur samtakanna eru einstæðar atvinnulausar mæður," segir hún.

 

Tölvurnar aflvaki kvenna

"Enza-konur sýna takmarkalaust hugrekki og leggja mikið á sig til að brjótast undan oki fátæktar og bjargleysis. Tölvukunnátta og þekking á interneti er gríðarlega mikilvægt vopn í þágu jafnréttis fyrir þær, einkum hvað varðar félags- og fjárhagslega valdeflingu. Fæstar eða engar kvennanna eiga eigin tölvu eða hafa aðgang að interneti heima fyrir. Tölvurnar hjá Enza eru þeim því mikill aflvaki og eru þær óspart nýttar allt árið um kring. Á það jafnt við um rekstur þeirra smáfyrirtækja sem konurnar stofna, sem og í atvinnueflingu og atvinnuleit þeirra," segir Ruth.

 

Hún segir að núna hafi um 720 konur daglegan aðgang að tölvuverum Enza.

 

"Allt frá stofnun hefur Enza haft það að markmiði sínu að færa verkefnið nær, og að lokum alfarið í hendur heimamanna á vettvangi, undir eftirliti íslenskrar stjórnar. Farsælt samstarf Enza og TCB er stór áfangi á þeirri vegferð, en hjá TCB starfa eingöngu heimakonur og menn."

Samkeppni um land og landgæði fer harðnandi

Sameinuðu þjóðirnar sendu nýlega frá sér skýrslu sem kallast Global Land Outlook og fjallar um notkun landgæða í heiminum og framtíð þeirra út frá mörgum hliðum. Vilmundur Hansen fjallar ítarlega um skýrsluna í nýjasta tölublaði Bændablaðsins. Hann segir í grein sinni að í skýrslunni séu landgæði og landnotkun skoðuð út frá mörgum hliðum eins og fjölgun mannkyns, fólksflutningum, loftslagsbreytingum, líffræðilegum fjölbreytileika, þéttbýlismyndun, átökum um fæðu, og orku- og vatnsbúskap.

"Global Land Outlook er viðamikil skýrsla en í samantekt segir að álag á land sé mikið og að það eigi eftir að aukast. Samkeppni um land og landgæði er þegar mikið og fer harðnandi þegar kemur að framleiðslu á matvælum og nýtingu á orku og vatni og öðrum gæðum sem eru nauðsynleg til að viðhalda hringrás lífsins," segir Vilmundur í grein sinni.

Fram kemur að Bændablaðið muni á næstu vikum fjalla um einstaka þætti Global Land Outlook og birta útdrætti úr henni. Í þessu tölublaði birtist hins vegar texti sem er lausleg þýðing á lykilatriðum skýrslunnar.

Alþjóðleg ráðstefna: Feminísk andspyrna gegn uppgangi þjóðernishyggju og popúlisma
Tamara Shefer heldur erindi sitt á ráðstefnunni.

Jafnréttisskólinn var einn af þremur skipuleggjendum alþjóðlegrar ráðstefnu sem haldin var í fyrirlestrasal Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns dagana 4.-6. október 2017 undir yfirskriftinni "femínísk andspyrna gegn uppgangi þjóðernishyggju og popúlísma". 

Hér var um að ræða þriðju ráðstefnu RINGS (The International Research Association of Institutions of Advanced Gender Studies) sem er alþjóðlegt samstarfsnet rannsóknastofnana á sviði kynja- og jafnréttisfræða með þátttakendum frá Afríku, Ástralíu, Karíbahafinu, Evrópu og Norður-Ameríku.  Rannsóknasetrið EDDA, RIKK - rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum og Jafnréttisskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna, sem eru stofnaðilar að RINGS, skipulögðu ráðstefnuna. Frá því að samstarfsnetið var stofnað árið 2014 við Örebru-háskóla hafa verið haldnar tvær ráðstefnur á vegum þess, önnur í Prag árið 2015 og hin í Höfðaborg árið 2016.

Markmið RINGS-ráðstefnunnar í Reykjavík var að kynna femínískar rannsóknir og gagnrýni á uppgang þjóðernisstefnu og popúlisma út frá fjölþjóðlegu sjónarhorni; að miðla kynjafræðilegum rannsóknum sem unnar eru á vegum aðildarstofnanna RINGS um pólitíska strauma og stefnur, samfélagsleg málefni og menningu og að takast á við takmarkanir á samstarfi fræðastofnanna í ólíkum heimshlutum vegna margþættrar mismununar sem m.a. landfræðileg staðsetning felur í sér.

Meðal fyrirlesara voru fræðakonur frá samstarfsháskólum Jafnréttisskólans. Tamara Shefer, prófessor við University of Western Cape í Suður Afríku flutti erindi um andspyrnu ungra kvenna og jafnréttisbaráttu þeirra í Suður Afríku. Lina Abirafeh, forstöðukona Institute for Women's Studies in the Arab World í Lebanese American University fjallaði um jafnréttislöggjöfina í Líbanon og velti upp þeirri spurningu hvort að um raunverulegar framfarir væri að ræða eða hvort að löggjöfin endurspeglaði sýndargjörning [IE1] . Meðal íslenskra fyrirlesara var Erla Hlín Hjálmarsdóttir, rannsóknarstjóri Jafnréttisskólans. en hún fjallaði um þann þátt í starfsemi skólans sem snýr að valdeflingu kvenna í þróunarlöndum og tók dæmi af árangri af verkefnum nemenda í heimalöndum þeirra.

Að sögn Erlu Hlínar hefur þjóðernishyggja og popúlismi ólík birtingarform í mismunandi heimshlutum en ljóst sé að þar sem orðræða sem tengist þessum hreyfingum fær þrifist sé hætta á bakslagi í jafnréttisbaráttu.   

Dagskrá ráðstefnunnar í heild má sjá hér:  RINGS 2017 - Dagskrá.
Ársfundir Alþjóðabankans og Alþjóðgjaldeyrissjóðsins 
Ársfundir Alþjóðabankasamsteypunnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fara fram 13. - 15. október í Washington DC, en þá hittist jafnframt sameiginleg Þróunarnefnd stofnananna. 

Á fundunum verða m.a. til umfjöllunar ný Þróunarskýrsla bankans (World Development Report) um ástand í menntamálum - (sem sagt var frá í síðasta Heimsljósi) og skýrsla um hámörkun fjármögnunar til þróunar með aðkomu einkageirans auk umræðna um endurútreikning á atkvæðavægi, hlutafjáraukningu og framtíðarsýn bankans. 

Ulla Tørnæs þróunarmálaráðherra Danmerkur situr í Þróunarnefndinni fyrir hönd kjördæmis Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Hún situr fund nefndarinnar og flytur sameiginlegt ávarp kjördæmisins. 


Fundur um heimsmarkmiðin 25. október - taktu daginn frá!

Hvaða markmið eru þetta? Af hverju skipta þau máli? 

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eru 17 talsins og hafa 169 undirmarkmið. Þau voru samþykkt af Allsherjarþinginu í september 2015 og ná til ársins 2030. Tilgangur markmiðanna er að útrýma fátækt og hungursneyð, stuðla að friði og auknum jöfnuði, vernda lífriki jarðar og sporna gegn hlýnun jarðar. 

Heimsmarkmiðin snerta okkur öll og það er mikilvægt að allir þekki til þeirra. Ekki er verra ef að sem flestir taka þátt í að uppfylla markmiðin. 

Fræðslufundurinn um Heimsmarkmiðin er haldinn á vegum Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Fundurinn er opinn öllum og hefst klukkan 17:00 í sal Barnaheilla, Háaleitisbraut 13, 4. hæð.

Stelpur taka völdin!
Veggspjald frá vitunarvakningu hér á landi árið 2014.
 
Í dag, 11. október er alþjóðadagur stúlkubarnsins. Í sextíu þjóðríkjum munu stúlkur taka við völdum og setjast í stól þjóðhöfðingja, ráðherra, forstjóra til að sýna völd og getu ungra stúlkna. Myllumerki dagsins er #GirlsTakeover. Í löndum Evrópusambandsins er svokölluð "European Week of Action  for Girls" þar sem valdefling stúlkna er í hávegum höfð og efnt verður til "Girls Summit" í dag í Brussel.

Í tilefni dagsins kom á dögunum út skýrsla Plan International samtakanna: Unlock the Power of Girls Now. Samkvæmt frétt samtakanna vilja stúlkur í heiminum stjórna lífi sínu en ofbeldi og mismunun leiðir til þess að þær upplifa sig bældar og valdlausar.

"Hræðilegar frásagnir stúlkna sýna að reynsla þeirra í nánast öllum tilvikum - gildir þá einu hvort það er á heimili, í skóla, í almenningssamgöngum, eða á samfélagsmiðlum - er sú að þær eru minntar á það að samfélagið lítur á þær sem óæðri strákum," segir Anne-Birgitte Albrectsen framkvæmdastjóri Plan International.


Áhugavert

-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-

-
-
-
-
-
-
-

Leitað að nýjum ungleiðtogum

Sameinuðu þjóðirnar leita að framúrskarandi ungu fólki til að verða "Ungleiðtogar fyrir Heimsmarkmiðin". Samkvæmt frétt UNRIC verður  n æsta mánuðinn tekið við tilnefningum um ungt fólk sem hefur tekið forystu í að berjast fyrir Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun sem felast meðal annars í baráttu gegn fátækt, loftslagsbreytingum og ójöfnuði.

Valdir verða 17 ungleiðtogar fyrir hin jafnmörgu Heimsmarkmið um sjálfbæra þróun og munu þeir vinna við hlið sérstaks erindreka ungs fólks hjá Sameinuðu þjóðunum, Jayathma Wickramanayake.

Ungleiðtogaátakið (The Young Leaders programme) beinir kastljósi að ungu fólki á aldrinum 18 til 30 ára alls staðar að úr heiminum. Hlutverk ungleiðtoganna er að virkja ungt fólk í viðleitni til að ná Heimsmarkmiðunum.  

Fram kemur í frétt UNRIC að 
Edda Hamar, íslensk kona sem alin er upp í Ástralíu, hafi verið meðal fyrstu 17 leiðtoganna sem voru valdir fyrir Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í september 2016. 
"Nýr hópur ungleiðtoga verður valinn árlega þangað til 2030 þega Heimsmarkmiðunum á að vera náð. Opnað hefur verið fyrir tilnefningar og rennur frestur út 3. nóvember 2017. Senda má inn tilnefningu hér en skilyrði er að viðkomandi sé á aldrinum 18 til 30 ára fyrir 31.  desember 2017."Trump Push to Cut U.S. Aid Prompts EU Geopolitical-Risk Warning/ Bloomberg
-
GREEN BIO ENERGY HAS PRODUCED AND SOLD OVER 85,000 ENERGY EFFICIENT COOKSTOVES AND 1,600 TONS OF ECO-FRIENDLY BRIQUETTES/ EEPAFRICA
-
Yemen: Fishing in treacherous waters/ WFP
-
Á svartan lista fyrir að drepa 683 börn 2016/ RUV
-
America gets back as much as it gives in foreign aid/ BaltimoreSun
-
Mapped: How UK foreign aid is spent on climate change/ CarbonBrief
-
Raila Odinga dregur framboð sitt til baka/ RÚV
-
RÍKISSTJÓRNIR EVRÓPU ENDURSENDA NÆRRI 10.000 AFGANI TIL HEIMALANDSINS ÞAR SEM ÞEIR EIGA Í HÆTTU AÐ SÆTA PYNDINGUM EÐA DEYJA/ Amnesty International
-
It's about to get cheaper for over 500 million Africans to roam on their phone networks/ Qz
-
Russia Cuts Foreign Aid for the First Time Since 2012/ TheMoskowTimes
-
Ethiopia: World Bank Assents U.S.$1.3 Billion Finance to Ethiopia/ AllAfrica
-
The World Is Running Out of Much Needed New Antibiotics/ IPS
-
Agenda 2030: Kunskapsbrist sinkar arbetet med de Globala målen/ OmVärlden
-
Praise for the woman who put Liberia back on its feet/ Economist
-

Liberia gears up for an election/ Economist
-
Africa/Global: Tobacco Industry Targets Africa Markets/ AfricaFocus
-
African tourists bring better jobs for women and youth, UNCTAD/ AfricaBusinessCommunities
-
U.N helping thousands of migrants stranded in Libya/ CGTN
-
Disease fears grow as Bangladesh plans giant Rohingya refugee camp/ IRIN
-
Securing land tenure rights vital for the eradication of global hunger/ FAO
-
Kenya drought: various forms of aid provide relief/ DW
-
LABOUR MARKET: Disadvantaged women/ D+C
-
Lungnapest og svartidauði geisa á Madagaskar/ RUV
-
Negotiating the next EU budget: A unique opportunity for EU foreign and development policy/ ECDPM
-
A bright future for Ugandan oil and gas sector, Siemens predicts/ AfricaBusinessCommunities

Alþjóðadagur stúlkubarnsins - Stúlkur í dreifbýli

- eftir Ingu Dóru Pétursdóttur jafnréttisráðgjafa Matvælaáætlunar SÞ (WFP) í Mósambík

Ljósmynd frá Mósambík: Inga Dóra Pétursdóttir.
Þegar ég sóttist eftir starfi jafnréttisráðgjafa hjá Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (World Food Programme, WFP) í Mósambík síðasta vor vissi ég í hreinskilni sagt ekki í hverju starfið fælist. Þegar ég hugsaði um WFP sá ég fyrir mér þyrlur sem dreifðu matarpokum til fólks úr lofti á hamfarasvæðum. Það er vissulega rétt að WFP er leiðandi í matargjöfum á hamfarasvæðum en umboð stofnunarinnar er mun breiðara.

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna hefur tvöfalt hlutverk: að útrýma hungri, tryggja fæðuöryggi og bætta næringu sem og að bjarga mannslífum. WFP gegnir veigamiklu hlutverki í Mósambík þar sem ýmist flóð og þurrkar skella á nánast árlega og meirihluti þjóðarinnar býr við fæðuóöryggi allan ársins hring. Í Mósambík búa 28 milljónir á landsvæði sem er tíu sinnum stærra en Ísland, meirihluti þjóðarinnar býr í dreifbýli og landið er eitt af fátækustu ríkjum heims. Matvælaáætlun SÞ vinnur allan ársins hring að því að bæta fæðuöryggi og næringu þjóðarinnar ásamt því að vera leiðandi í viðbrögðum þegar náttúruhamfarir skella á.

Í stefnuskrá WFP kemur skýrt fram að stofnunin geti ekki uppfyllt hlutverk sitt nema markvisst sé unnið samtímis að jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna. Á heimsvísu er uppskera kvenna um 20-30 prósent minni en uppskera karla þar sem konur hafa ekki sama aðgang að fræjum, verkfærum og áburði. Rannsóknir sýna að með valdeflingu kvenna í dreifbýli væru að minnsta kosti 100-150 milljónir færri hungraðir í heiminum. Þegar hamfarir skella á eru konur og stúlkur í sérstaklega viðkvæmri stöðu, ekki aðeins með tilliti til aðgangs að neyðargögnum, heldur er konur og stúlkur í hættu að verða fyrir ofbeldi, kynferðisofbeldi og misnotkun. Rannsóknir sýna einnig að konur sýna fyrst einkenni næringarskorts ef matarskortur ríkir þar sem konur láta þarfir fjölskyldunnar ganga fyrir sínum eigin.

Inga Dóra Pétursdóttir.
Í tilefni af alþjóðlegum degi stúlkubarnsins, 11. október, ætla ég að draga athyglina að mikilvægi þess að bæta mataröryggi stúlkna og kvenna í Mósambík. Landlæg og langvarandi vannæring meðal kvenna og stúlkna á barneignaaldri ógnar lífi þeirra, ófæddra barna þeirra og viðheldur vítahring vannæringar frá móður til barna hennar.

Frjósemi er há í Mósambík en mæður eignast að meðaltali sex börn um ævina (5,6) og leggja sig í lífshættu við hverja meðgöngu og/eða fæðingu. Áætlað er að 500 af hverjum 100.000 konum og stúlkum láti lífið vegna vandkvæða við barnsburð en líklegt er þó að þær séu mun fleiri en að röng dánarorsök sé gefin upp eða þær láta lífið heima og andlát þeirra hvergi skráð. Helsta ástæða mæðra- og ungbarnadauða er takmarkað aðgengi að heilbrigðisþjónustu og vannæring og/eða blóðleysi mæðra. Barnungar mæður eru í sérstakri hættu við meðgöngu og við fæðingu.

Í Mósambík er tíunda hæsta tíðni barnahjónabanda í heiminum en önnur hver stúlka er gift á barnsaldri. Unglingsstúlkur eru í sérstaklega mikilli hættu á vannæringu en líkamar þeirra breytast geiysihratt á þessum árum og þær þurfa sérstaklega á járni og próteini að halda. Skortur á joði getur meðal annars hamlað andlegum og líkamlegum þroska þeirra. Tæplega helmingur allra stúlkna (40%) sem giftast fyrir 15 ára aldurinn eignast líka sitt fyrsta barn áður en þær verða 15 ára. Líkamar barnungra mæðra keppa við fóstur um næringarefni en vannæring mæðra hamlar gjarnan eðlilegum fósturþroska. Barnungar mæður eru í meiri hættu en aðrar mæður að deyja af barnsförum þar sem líkamar þeirra eru ekki fullþroskaðir og þær eru líka líklegri til að eignast of létt börn eða missa börn sín við fæðingu. Dánartíðni barna undir fimm ára aldri er einnig mun hærri meðal þeirra sem áttu barnunga og vannærða móður. Vítahringur vannæringar er kominn af stað, þar sem stúlkubörn vannærðra mæðra eru líklegri til þess að eignast sjálfar of létt börn og lenda í lífshættu við barnsburð.

Barnahjónabönd og ískyggilega hár ungbarna- og mæðradauði er birtingarmynd ófjafnréttis kynjanna. Til þess að ná árangri verður að vinna heildrænt að samfélagi þar sem allir fá jöfn tækifæri, óháð kyni; samfélagi þar sem hungri er útrýmt og fæðuöryggi ríkir. Þannig björgum við mannslífum. En það eru ekki verkefni einnar stofnunar Sameinuðu þjóðanna heldur verkefni alls alþjóðasamfélagsins. Verkefni WFP í Mósambík á þessu sviði á næstu árum eru til dæmis að standa fyrir viðamikilli vitundarvakningu um mikilvægi bættrar næringar stúlkna, útvega skólamáltíðir til að halda stúlkum í námi lengur, sérstakar næringarlausnir og meðferðir fyrir vannærðar stúlkur og útvega matarpakka á mæðrastöðvum og á fæðingarheimilum.
facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105