Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
10. árg. 320. tbl.
22. mars 2017
Stjórnvöld í Mósambík gátu ekki  staðið við fjárhagslegar skuldbindingar  í byrjun árs:
Fjörutíu Afríkuþjóðir sýna merki um hættulega skuldsetningu

Mósambíkanar eru fyrsta stóra þjóðin í Afríku á síðustu árum sem ræður ekki við fjárhagslegar skuldbindingar sínar gagnvart alþjóðlegum kröfuhöfum. Liðinn er rúmlega áratugur frá því að margar afrískar þjóðir fengu stórkostlegar skuldaniðurfellingu. Nú sýna tölur um skuldir Afríkuþjóða að margar þeirra stefna aftur í vandræði.

Í síðustu viku hittust fjármálaráðherrar og seðlabankastjórar G20 ríkjanna, áhrifamestu iðn- og nýmarksríkja, á fundi í Þýsklandi. Á þeim fundi var vakin athygli á nýjum og vaxandi skuldavanda margra þróunarríkja og staðhæft að allt að 40 þjóðir í Afríku sýndu merki um mikla skuldsetningu. Fram kom að hagtölur lýsi nú svipuðu ástandi og var í lok áttunda og byrjun níunda áratugarins sem leiddi til skuldakreppu í þróunarríkjunum. Vextir í auðugum iðnríkjum hafa verið lágir en fjárfestar í Afríku hafa sótt sér ávöxtun frá 7-15% og þessi þróun hefur leitt til gífurlegs fjármagnsflæðis frá norðri til suðurs, eins og segir í frétt Deutsche Welle.  Var skuldaafléttingin á sínum tíma aðeins skammgóður vermir?

HIPC ekki varanleg lausn
Blaðið segir að blikur um nýja skuldakreppu þróunarríkja kunni að koma mörgum á óvart því skuldir margra þeirra voru færðar niður fyrir og eftir síðustu aldamót gegnum HIPC átakið, Debt Relief Under the Heavily Indebted Poor Countries. Þá var talið að skuldaafléttingin sem var að frumkvæði Alþjóðabankans, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og G8 ríkjahópsins væri varanleg lausn á skuldavanda þróunarríkjanna. Nú er annað að koma á daginn.

Tölur sem birtar voru á fyrrnefndum fundi sýna hvað HIPC átakið var "ósjálfbært," segir í greininni. Rauð viðvörunarljós blikka í 40 Afríkuríkjum þar af 26 sem fengu á sínum tíma niðurfellingu á stórum hluta skuldanna. Eitt þessara ríkja er Mósambík. Í janúar á þessu ári gátu stjórnvöld ekki lengur greitt afborganir alþjóðlegra lána. Árið 2012 námu skuldirnar 40% af vergri landsframleiðslu en nú er þessi tala komin upp í 130%. Bankar og fjárfestingasjóðir voru ólmir að lána fjármagn til Mósambík fyrir fáeinum árum þegar í ljós komu miklar auðlindir í koli og jarðgasi. Þær fjárfestingar hafa engu skilað.

Þótt Mósambíkanar sé fyrsta þjóðin sem getur ekki lengur staðið í skilum eru aðrar þjóðir í svipuðum sporum, þjóðir eins og Gambía og Gana, en einnig er skuldavandinn sagður gífurlegur í Senegal, Angóla, Kenía og Suður-Afríku.

Þróunarskýrsla Sameinuðu þjóðanna kynnt á fundi í Hannesarholti á föstudag:
Hverjir hafa orðið útundan og hvers vegna? 

Kynningarmyndband um HDR skýrsluna/ UNDP
Á undanförnum áratugum hafa orðið óviðjafnanlegar framfarir þegar horft er til þróunar lífskjara í heiminum. Milljónir manna hafa hins vegar ekki notið góðs af þessari þróun. Hverjir hafa orðið útundan og hvers vegna? Þessar tvær spurningar eru meginviðfangsefni Þróunarskýrslu Sameinuðu þjóðanna, Human Development Report 2016, sem kom út í gær og verður formlega kynnt á Íslandi með fundi í Hannesarholti á föstudag klukkan 16:00.

Dr. Selim Jahan, aðalritstjóri Þróunarskýrslu Sameinuðu þjóðanna árið 2016 (Human Development Report 2016: Human Development for everyone), kynnir helstu niðurstöður skýrslunnar á fundinum og  Stefán Haukur Jóhannesson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, flytur opnunarávarp.

Í pallborði verða  Jónína Einarsdóttir, prófessor við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands og  Engilbert Guðmundsson,    ráðgjafi utanríkisráðuneytisins um þróunarmál.

Fundarstjóri er Þórunn Elísabet Bogadóttir, aðstoðarritstjóri Kjarnans.

Fundurinn fer fram á ensku og er öllum opinn. Hjólastólaaðgengi er í Hannesarholti.

Boðið verður upp á kaffi meðan á fyrirlestri stendur og léttar veitingar að fundi loknum.

Greining á þjóðfélagshópum sem lenda utangarðs
Í þróunarskýrslu Sameinuðu þjóðanna, sem gefin er út af Þróunaráætlun SÞ (UNDP) er að finna greiningu á því hvers vegna ákveðnir hópar eru líklegri en aðrir til að lenda utangarðs. Í skýrslunni er líka að finna athyglisverða greiningu á því hvaða hindranir eru í veginum fyrir sjálfbærri þróun samfélaga fyrir alla og bent er á leiðir sem samfélög geta farið í þeirri viðleitni. Fram koma í skýrslunni stefnumarkandi tillögur fyrir þjóðir heims og horft er til úrræða - einkum hjá alþjóðastofnunum - sem gætu gert baráttuna fyrir því að skilja engan útundan skilvirkari.

Ísland hækkar milli ára
Ísland hækkar verulega á lífskjaralistanum milli ára. Á síðasta ári vorum við í 16. sæti en erum komin í 9. sætið. Samstarfsríki okkar í þróunarsamvinnu, Malaví, Mósambík og Úganda, eru öll í neðri hluta listans. Mósambík er neðst þeirra eins og áður, fellur um eitt sæti niður í 181, Malaví hækkar hins vegar um þrjú sæti og situr í 170. sæti og Úganda stendur í stað milli ára, nr. 163.

Fjórði rammasamningurinn á fáeinum mánuðum:
Fimmtíu milljónir árlega til Neyðarsjóðs Sameinuðu þjóðanna
Utanríkisráðuneytið, fyrir hönd íslenskra stjórnvalda, mun greiða 50 milljónir króna árlega til Neyðarsjóðs Sameinuðu þjóðanna (CERF) samkvæmt nýjum þriggja ára samningi sem skrifað var undir í New York í gær. Einar Gunnarsson sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum og Stephen O'Brien framkvæmdastjóri CERF skrifuðu undir samninginn sem gildir fyrir árin 2017 til 2019.

"Ísland og fleiri framlagsríki eru sammála um nauðsyn þess að framlög til neyðaraðstoðar séu fyrirsjáanlegri en verið hefur. Gerð þessa samnings er liður í því að tryggja það," segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

CERF áherslustofnun 
CERF er ein af áherslustofnunum Íslands fyrir mannúðaraðstoð. Sjóðurinn var stofnaður árið 2006 til að gera Sameinuðu þjóðunum kleift að bregðast annars vegar hraðar við neyðarástandi og hins vegar til að veita nauðsynlega aðstoð til mannúðarverkefna sem hafa ekki náð að laða að sér nægt fjármagn frá framlagsríkjum. Til marks um viðbragðsgetu sjóðsins liðu aðeins tíu klukkustundir frá jarðskjálftanum á Haítí árið 2010 þangað til sjóðurinn var búinn að veita fyrstu greiðslu vegna neyðaraðstoðar. Af dæmum um undirfjármagnaða neyðaraðstoð sem sjóðurinn hefur nýlega stutt við má nefna framlög í þágu flóttamanna í Úganda, Kenía og Tansaníu vegna átaka í nágrannaríkjum, í Suður-Súdan, Kongó og Búrúndí. 

Frá upphafi var markmið sjóðsins að safna 450 milljónum Bandaríkjadölum á ári til að veita í mannúðaraðstoð en markmiðið var nýlega aukið í einn milljarð dala fyrir árið 2018. Gífurleg aukin fjárþörf til mannúðarmála kallar á þá hækkun en verkefni sjóðsins eru meðal annars í Eþíópíu, Nígeríu, Sómalíu, Búrúndí og Mjanmar. 

Utanríkisráðuneytið hefur á síðustu misserum formfest samstarf við fjórar undirstofnanir Sameinuðu þjóðanna með gerð rammasamninga líkt og önnur Norðurlönd hafa þegar gert. Gerðir hafa verið slíkir samningar við Matvælaáætlun SÞ (WFP), Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), Flóttamannastofnun SÞ (UNHCR) og núna við Neyðarsjóðinn. 

Ísland styrkir Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna með þriggja ára samkomulagi um stuðning við flóttamenn

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) hefur birt á íslensku fréttatilkynningu sem stofnunin sendi frá sér fyrr í mánuðinum eftir að skrifað var undir þriggja ára samkomulag milli UNHCR og íslenskra stjórnvalda. Fréttatilkynningin er hér í heild sinni:

Þann 27. febrúar 2017, skrifaði Ísland undir þriggja ára samning við Flóttamannastofnun SÞ (UNHCR) sem einnig telur viðbótarstuðning að lágmarki 50 milljónir ISK, sem er mikilvægur áfangi í samstarfi Íslands og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Stuðningur Íslands við UNHCR hefur aukist talsvert á undanförnum árum og hæsta framlagið frá Íslandi var árið 2016, þegar 2,4 milljónir Bandaríkjadala voru veittir til Sýrlands, en þar með komst Ísland í sjöunda sæti yfir hæstu framlagsríki UNHCR, miðað við höfðatölu.
Mannlegur harmleikur nauðungaflutninga eykst stöðugt í heiminum og yfir 65 milljónir manna hafa neyðst til að flýja heimili sín vegna átaka, stríðs og ofsókna, rúmlega helmingur þeirra börn. 90% flóttamanna heimsins og fólks sem er á vergangi innan landamæra búa í þróunarríkjunum sem telja fjórðung fátækustu landa heims.

Á tímum átaka þurfa flóttamenn og hælisríki mest á stuðningi okkar að halda. Stuðningur Íslendinga og skuldbinding þeirra til þess að hjálpa flóttamönnum og nauðungarfluttum sýnir mikilvægan samhug og merki um ábyrgð gagnvart löndum í stríðshrjáðum hluta heimsins, segir Pia Prytz Phiri, svæðisfulltrúi UNHCR í Norður-Evrópu.

Á síðasta ári jukust ofbeldisfull átök á mörgum svæðum, sérstaklega í Nígeríu, Suður-Súdan, Sýrlandi og Jemen, þar sem flestir flýja innan landanna. Í Suður-Súdan hefur ástandið stigmagnast og þar ríkir nú alvarlegt neyðarástand því rúmlega 1,5 milljón manna hefur neyðst til að flýja landið til að leita öryggis. Í Suður-Súdan ríkir nú mesti flóttamannavandi Afríku og er hann sá þriðji mesti í heiminum öllum, á eftir Sýrlandi og Afganistan; en Suður-Súdan hefur fengið minni athygli og langtum minni fjárframlög.

Meirihluti flóttamannanna, rúmlega 1,1 milljón manna eru í Úganda. 86% þeirra eru konur og börn sem koma uppgefin og alvarlega vannærð eftir að hafa gengið og leynst í skóginum dögum saman. Sidah Hawa og börnin hennar sex komu nýlega til Úganda eftir að hafa gengið í þrjá daga án matar. Hún er nú komin til Palorinya-byggðarinnar þar sem hverri fjölskyldu er úthlutaður jarðarskiki til skjóls.


"Ég óttaðist um öryggi fjölskyldu minnar, svo ég neyddist til að yfirgefa heimili mitt. Ferðin var erfið því ég var ekki með neinn mat og ég þurfti að gefa börnunum hráa kassavarót og vatn"
 Sidah Hawa, 30, sem flúði með börnin sín sex frá Suður-Súdan til Úganda

Þegar flóttamenn koma til Úganda er forgangsatriði UNHCR að bjarga mannslífum og tryggja nauðsynjar með því að útvega mottur, teppi og hreinlætisvörur, og börn eru bólusett gegn mislingum og mænusótt. Síðan úthluta yfirvöld í Úganda þeim landi í nálægum byggðum; brautryðjendastarf sem bætir aðlögun og gefur flóttamönnum og þeim samfélögum sem taka á móti þeim kost á friðsamlegri sambúð. Að auki er flóttamönnunum veitt réttindi og frelsi til þess að vinna, eiga í viðskiptum og ferðast um landið.

Engu að síður geta yfirvöld í Úganda ekki tekist á við vandann hjálparlaust og því er bráðnauðsynlegt að alþjóðasamfélagið styðji við þau. Árið 2016 hlaut mannúðarákall vegna vandans í Suður-Súdan minna en 75% af umbeðnum framlögum. Þess vegna veitir framlag Íslands lífsnauðsynlegan stuðning til flóttamanna eins og Siduh og barna hennar, með því að hjálpa þeim að eiga líf og von með öryggi og reisn í Úganda. Ísland hefur lagt UNHCR til um 4 milljónir Bandaríkjadala frá árinu 2011 og árið 2017 leggur Ísland fram 220,000 Bandaríkjadala til Sýrlands.
Aðgerða þörf til að uppræta
hatursorðræðu og hatursglæpi
Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna hvatti í gær til aðgerða til að uppræta hatursorðræðu og hatursglæpi í tilefni af Alþjóðadegi útrýmingar kynþáttamismununar. Starfsfólk utanríkisráðuneytisins fór í hópmyndatöku í tilefni dagsins eins og sjá má hér að ofan.

"Dagurinn er árleg áminning til okkar allra um að efla starf okkar við að berjast gegn kynþáttahatri, mismunun kynþátta, útlendingahatri, hatursáróðri og hatursorðræðu,"  segir Zeid Ra'ad al Hussein, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna í frétt á vef Upplýsingaskrifstofu SÞ.

"Okkur ber ekki að líta á innflytjendur einvörðungu í neikvæðu ljósi, þó vissulega sé hér á ferðinni alheimsvandi, heldur þvert á móti sem hugsanlega lausn á mörgum áskorunum sem við er að glíma í dag. Nú þegar útlendingahatur fer vaxandi er nauðsynlegt að hafa skýran skilning á staðreyndum," segir Antónío Guterres aðalframkvæmdastjóri SÞ í fréttinni.

"Og hverjar eru staðreyndirnar? Útlendinga- og kynþáttahatur færist vissulega í vöxt og mörg dæmi mætti nefna, svo sem 23% aukningu hatursglæpa í Bretlandi í  kjölfar Brexit og vaxandi andúð í Bandaríkjunum í garð múslima eftir að kosningabaráttan hófst árið 2015. Um alla Evrópu má finna dæmi um aukningu kynþátta- og útlendingahaturs. Í Þýskalandi hefur árásum á farandfólk fjölgað um 42% á milli áranna 2015 og 2016. Fjöldi hatursglæpa þrefaldaðist á Spáni frá 2012 til 2016. Í Finnlandi tvöfaldaðist fjöldi kæra vegna hatursglæpa á milli 2014 og 2015, en þá bárust tilkynningar um 1704 mál. Róma-fólk er allt að þrisvar sinnum oftar spurt um skilríki en aðrir í Evrópu  og kynþáttahatur og hatursáróður fer vaxandi í Búlgaríu svo einhver dæmi séu nefnd."

Alþjóðlegur dagur vatnsins í dag 

Á degi vatnsins í dag er athyglinni beint að sóun á vatni. Fullyrt er að 80% alls neysluvatns renni aftur til náttúrunnar ónotað með mengandi afleiðingum fyrir umhverfið og sóun á mikilvægum auðlindum. Hvatning dagsins: drögum úr vatnssóun og endurnýtum vatnið!

Í tilefni dagsins hefur Menningar- og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) gefið út skýrslu um fráveituvatn sem ber yfirskriftina: Hin vannýtta auðlind. Fjallað er um skýrsluna og dag vatnsins í grein á vef Veðurstofu Íslands í dag.
 
WorldWaterDay
Kynjajafnrétti er keppnis vekur athygli í New York
Inga Dóra Pétursdóttir framkvæmdastýra UN Women á Íslandi fjallaði um það á fundi kvennanefndar SÞ hvernig landsnefnd UN Women á Íslandi, með stuðningi stjórnvalda, hefur unnið með HeForShe hreyfingunni að vitundarvakningu um mikilvægi þess að karlmenn og strákar taki virkan þátt í baráttunni fyrir auknu kynjajafnrétti með ólíkum leiðum. 

Hún sýndi myndbandið  Kynjajafnrétti er keppnis en einnig sýndi hún  myndband Pámars Ragnarssonar, körfuboltaþjálfara í KR sem tók upp á því að eigin frumkvæði að beita sér fyrir kynjajafnrétti í sínu nærumhverfi. "Pálmar er frábær fyrirmynd yngri kynslóðarinnar  en hann vinnur markvisst að því að skapa ungum strákum kvenfyrirmyndir í körfunni með breyttri orðræðu, hvetur strákana til að sækja kvennaleiki og þjálfa þá í að skjóta eins og stelpur," segir í pistli á vef UN Women og þar er því bætt við að myndböndin hafi fengið mikla athygli og lófaklapp.

Fundur kvennanefndar SÞ (CSW61) stendur yfir í New York en meginþemað í ár er efnahagsleg valdefling. Umræðuefnið snýst um það hvernig styðja megi við konur og stúlkur og valdefla þær efnahagslega á öllum sviðum um allan heim út frá ólíkum sjónarhornum. 


Afríkuþjóðir fá megnið af stuðningi IDA

Alþjóðabankinn greindi frá því í vikunni að Afríkuþjóðir fái megnið af fjármagni Alþjóðaframfarastofnunarinnar (IDA) sem hefur það hlutverk að aðstoða fátækustu ríki heims í baráttunni gegn örbirgð með styrkjum, lánum og ábyrgðum til þróunarverkefna auk tæknilegrar aðstoðar. Af 75 milljörðum bandarískra dala sem IDA ráðstafar á næstu þremur árum fara 45% til fátækra óstöðugra ríkja í Afríku.

Af öðrum viðtakendum má nefna smáeyjar í Kyrrahafinu sem er ógnað af loftslagsbreytingum en alls eru ríkin 82 að tölu sem njóta stuðnings IDA fram til ársins 2020.


HeForShe kynningarmyndband utanríkisráðherra
 
"Þú hélst að kynjajafnrétti væri kvennamál. Hugsaðu þig um aftur! Það bætir hag okkar allra, jafnt karla sem kvenna, stráka sem stelpna." Þannig hefst stutt kynningarmynd Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra um rakarastofuhugmyndina sem er samstarfsverkefni milli utanríkisráðuneytisins og UN Women í HeForShe átakinu. Sérstök verkfærakista - Barber Shop Toolkit" var kynnt á dögunum í New York um þessa nýstárlegu leið til að virkja og hvetja stráka og karla til að ræða jafnréttismál.

Leitað að öflugum framkvæmdastjóra fyrir Landsnefnd UN Women
Malaví: Hermönnum falið að gæta skóganna

Stjórnvöld í Malaví beita nú nýjum aðferðum til að draga úr skógaeyðingu í landinu. Herinn hefur verið kvaddur til og hermenn gæta nú helstu skóga landsins allan sólarhringinn. Þeim er heimilt að handtaka skógarhöggsmenn og gera búnað þeirra upptækan.

Í öðrum Afríkuríkjum gæta hermenn skóganna eins og í Suður-Afríku og Botsvana, og sambærileg gæsla er fyrir hendi í Asíu, til dæmis á Indlandi og í Víetnam.
Skógaeyðingin ógnar vatnsbólum höfuðborgarbúa í Lilongve og hefur aukist gríðarlega á síðustu árum.


Áhugavert

World Development Indicators 2017: Sustainable Development Goals/ Alþjóðabankinn
-
Webinar: The Future of DfID/ Devex
-
WORLD HAPPINESS REPORT 2017/ UN
-
Heimsmeistarakeppni til að breyta heiminum/ UNRIC
-
Feeding the world from Nigeria, one fish at a time, eftir STEVE OKELEJI/ Alþjóðabankablogg
-
Universality and the SDGs: transforming development as we know it?, eftir Lawrence Haddad/ DevelopmentHorizons
-
Norway Is the World´s Happiest Country, Survey Finds/ NYTimes
-
How teachers use mobile phones as education tools in refugee camps, eftir Sarah Dryden-Peterson ofl./ Brookings
-
Somali sea hijack is a warning signal: the pirates are down but not out, eftir Christain Buger ofl./ TheConversation
-
Decent work and the 2030 Agenda for Sustainable Development/ ILO
-
Vefurinn International Gender Champions/ GenderChampions
-
Youth employment in fragile countries/ ECDPM
-
Women in the changing world of work: Not just more jobs but better jobs for women, eftir Namida Datta/ Alþjóðabankablogg
-
Why is peacebuilding so difficult to achieve?, eftir Sara Pantuliano/ SustainableGoalsUK
-
On the Trail of Uganda's Arrow Boys, eftir Magnus Tayror/ CrisisGroup
-
2017 OECD Global Anti-Corruption & Integrity Forum/ OECD
-

Flóttamannastraumurinn stærsta áskorunin/ UNRIC - viðtal við Hólfríði Önnu Baldursdóttur
-
Heimsforeldrar á Strumpamynd/ Mbl.is
-
Why have four children when you could have seven? Family planning in Niger/ TheGuardian
-
South Africa is no longer the poster child for providing access to safe water, eftir Mike Muller/ TheConversation
-
Partnerships essential for the UN SDGs to transform lives, eftir Dr Alison Vipond & Brett Cherry/ Háskólinn í Newcastle
-
If we want to innovate, we need to disrupt our relationships and embrace tension, eftir Caroline Cassidy/ Oxfamblogg
-
Trump's budget slashes aid to the poor. What would Jesus do?, eftir David Gibson/ TheCrux
-
Empowering a New Generation of Female Entrepreneurs in Afghanistan, eftir MABRUK KABIR/ Alþjóðabankablogg
-
How manufacturing motorcycles can boost Uganda's economy, eftir Linda Calabrese/ ODI
-
Chart: Where Have Forests Been Lost and Gained?, eftir TARIQ KHOKHAR/ Alþjóðabankablogg
-
Having a Different Conversation about the FY18 Budget Foreign Aid Cuts, eftir Tessie San Martin/ HuffingtonPost

ÁTVR innleiðir Heimsmarkmiðin

ÁTVR hefur fyrst íslenskra fyrirtækja, svo kunnugt sé, innleitt Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun inn í ferla fyrirtækisins eins og sést á sérstakri vefsíðu ÁTVR sem heitir einfaldlega "Heimsmarkmið". Þar eru áhersluatriði fyrirtækisins við öll 17 Heimsmarkmiðin. Einnig er vísað á Heimsmarkmiðin í nýrri ársskýrslu ÁTVR.

Til mikillar fyrirmyndar og eftirbreytni!


South Sudan needs peace as much as food/ IRIN
-
Can better warnings about dangerous crossings stem the tide of African migrants?/ Devex
-
With 20 million people facing starvation, Trump's foreign aid cuts strike fear/ LATimes
-
Trump's planned foreign aid, UN cuts would diminish US influence/ DW
-
Why US Foreign Aid Is Out of Control and What Trump Is Doing to Fix It/ PanamaPost
-
Why is foreign aid an easy cut?/ Devex
-
Kenya vil forby plastposer/ Bistandsaktuelt
-
How Foreign Aid Helps Americans/ GatesNotes
-
Stormwater harvesting could help South Africa manage its water shortages/ TheConversation
-
The top 10 sources of data for international development research/ TheGuardian
-
Gender Disparity at UN: Three Out of 71, Zero out of Nine/ IPS
-
How a gold mine has brought only misery in Liberia/ IRIN
-
Implementing gender parity will be a "battle", the UN chief warns/ UN
-

Fighting famine in war-torn South Sudan/ CBS
-
An inside look into Africa's first eco-city: Zenata, Morocco/ Devex
-
Jordan looks to turn refugee crisis into economic boon/ IRIN
-
Next Steps for 'Power Africa' - Turning Opportunities into Deals/ AllAfrica
-
Cancer rates are soaring in Africa, yet Tanzania's radiotherapy hub stands idle/ TheGuardian
-
Pope Francis Begs Forgiveness for Church's 'Sins and Failings' During Rwandan Genocide/ TheTime
-
The Global Gag Rule: America's Deadly Export/ FP
-
Yemen's silent disaster: A snapshot of life and death in rural Taiz/ IRIN
-

Special Envoy Angelina Jolie renews UNHCR contract, says 'I'm with you for life'/ UNHCR
-
UN urges building more just, equal societies to increase people's happiness and well-being/ UN
-
Sør-Afrika kveler asylhåpet/ Bistandsaktuelt
-
East Africa Summit to Focus on Refugees, Food Concerns/ VOA
-
Kenya is launching the world's first mobile-only government bond/ Qz
-
De fick männen att sluta slåss/ OmVärlden
-
UN agency voices concern about forced return of Nigerian refugees from Cameroon/ UN
-
Trump foreign aid cuts counter global development goals: EU/ AP

Vorball á föstudagskvöld

Árlegt  vorball Afríku 20:20  verður haldið í Iðnó næstkomandi  föstudag 24. mars kl. 21-02

Þar verður tónlist með dægurperlum frá álfunni undir styrkri stjórn DJ Kito og svo mun Cheick Bangoura koma og slá á djembe trommur til að kynda dansgólfið upp. 

Sendiráðið í Lilongve stýrir íslenskum fjárfestingum í Malaví

- eftir Ágústu Gísladóttur forstöðumann sendiráðs Íslands í Lilongve 

Vonandi rekur einhvern í rogastans við þessa fyrirsögn því það er tilgangurinn með þessum pistli.

Ég hef oft lent í vandræðum með að útskýra starfsemi okkar þ.e. tvíhliða alþjóðlega þróunarsamvinnu íslenskra stjórnvalda  sem rekin er af þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins og sendiráðum Íslands í Afríku (hér eftir nefnd ÞSS).  Meirihluti þeirra sem spyrja halda að við, sem vinnum í sendiráðunum, séum að sinna góðgerðarstarfi. Ég vil hinsvegar kalla vinnuna mína "eftirlit með fjárfestingum í Malaví, sem fjármagnaðar eru með íslensku skattfé."

Allt fram á síðasta áratug var mesta áherslan í tvíhliða þróunarsamvinnu á að telja krónurnar sem fóru í verkefnin og afraksturinn, svo sem að telja vatnsbólin sem voru tekin í notkun og telja leshringina sem voru settir upp. Það voru ekki gerðar strangar kröfur á samstarfsaðilana að sýna árangur af þróunarsamstarfinu, en auðvitað var vonast til þess að inngripin breyttu einhverju í lífi haghafanna til hins betra.  Það má segja að þess konar inngrip hafi kallast með réttu þróunaraðstoð eða þróunarhjálp og verið nálægt því að kallast góðgerðarstarf.

Samstarf jafningja
Íslensk þróunarsamvinna hefur smám saman færst frá þróunaraðstoð sem getur haft birtingarmynd sem "yfirlætisleg góðvild" (e. patronizing), yfir í samstarf á jafningja grundvelli. Í landslagi Heimsmarkmiðanna má segja að öll lönd, líka samstarfslönd ÞSS, séu að stuðla að alþjóðlegri þróun, styðja sjálfbærni og draga úr fátækt á staðnum, innanlands, svæðisbundið og á heimsvísu.

Í nútíma tvíhliða þróunarsamvinnu gerir ÞSS miklar kröfur um árangur samstarfsins, að það verði virkilega breyting til batnaðar hjá haghöfunum og því viljum við sjá einskonar "arð" af fjárfestingunum. Auðvitað er Ísland líka að uppfylla pólitískar og siðferðislegar skyldur sínar sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóð­anna.

Sem dæmi má nefna samstarfsverkefni íslenskra stjórnvalda við Mangochi hérað hér í Malaví (sömu lögmál gilda um samstarfið við Buikwe og Kalangala héruð í Úganda).  Gerður var árangurssamningur til fjögurra ára og samþykkt áætlun/verkefnastoð (e. programme) á sviði heilsu-, mennta- og vatns- og salernismála. Verkefnastoðin byggir á þróunaráætlun Mangochi héraðs. Á þriggja mánaða fresti sendir héraðsstjórnin beiðni um framlag (inn á reikning héraðsins) sem byggist á ofangreindri áætlun. Framlögin geta verið sundurgreind eftir málaflokkum.  Héraðið framkvæmir svo þróunarverkefni sín; s.s. útboð og eftirlit með byggingum fæðingardeilda og skólastofa; útboð og kaup á tækjum og tólum, útboð og eftirlit með borun eftir vatni og gerð vatnsbóla, þjálfun starfsfólks ásamt umsjón og eftirliti.  Héraðsyfirvöld skila skýrslu um framkvæmdir á undangengnu þriggja mánaða tímabili og gera skil á fjárreiðum viðfangsefnanna á hverjum tíma, sem sendiráðið setur sem skilyrði fyrir greiðslu á næsta framlagi. Sendiráðið er svo með eigið eftirlit með fjárreiðum og árangri.  Árangur er t.d. metinn í minnkaðri dánartíðni mæðra og ungbarna í héraðinu, betri árangri grunnskólabarna í skólunum sem við styrkjum, og fækkun kóleru tilfella í sveitarfélögum sem hafa betri aðgang að hreinu drykkjarvatni og bættri salernisaðstöðu.
 
Fjárfest í innviðum
Mangochi er þannig að nýta íslenskt þróunarframlag til að fjárfesta í innviðum á sviði heilsu, menntunar, vatns- og salernismála sem og í uppbyggingu mannauðs meðal héraðsstarfsmanna, og samstarfsaðila þeirra í minni sveitarfélögunum og í samfélögunum. 

Það skiptir auðvitað ekki máli hvort við tölum um þróunarsamvinnu eða fjárfestingar, svo fremi að inntakið komist til skila. ÞSS og sendiráðin vinna við að koma íslensku skattfé til skila á sem skilvirkasta hátt til að bæta lífskjör fátæks fólks í samstarfslöndum okkar. Í dag er talið best að gera árangurssamninga og fylgja þeim strangt eftir. Ísland hefur valið, vegna þess að við erum lítil þjóð, að gera oftast samninga á sveitarstjórnarstiginu frekar en við stjórnvöld almennt þ.e. að vera með fjárlaga- eða geirastuðning.

Umræða um þróunarsamvinnu og/eða opinberar fjárfestingar í þróunarlöndum er ekki mikil.  Þegar ég var að undirbúa mig fyrir þennan pistil rakst ég þó á grein á vefgátt The Guardian um þróunarmál  frá því árið 2015 sem ber heitið "Það á að líta á þróunaraðstoð (e. aid) sem erlenda opinbera fjárfestingu, ekki bara góðgerðarstarfsemi."

Höfundar þeirrar greinar voru m.a. að skoða þróunarlandslagið eins og það er núna, ekki síst þátt BRICS (Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður Afríka) landanna, sem eru umfangsmikil í þróunarlöndunum, en taka ekki þátt í alþjóðasamvinnu um skilvirkni þróunarsamvinnu. Þessi lönd koma á ská inn í þróunarumræðuna - og kollvarpa hefðbundnum "norður-suður" vinkli á þróunarmál. BRICS löndin eiga erfitt með að skilgreina sig sem gjafaríki. Er það hugtak kannski líka orðið úrelt?.

Bestu kveðjur frá áhugamanneskju um þróunarumræðu.
 
facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105