Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
9. árg. 306. tbl.
23. nóvember 2016
Stefna stjórnvalda í Úganda í flóttamannamálum vekur aðdáun og athygli:
Flóttafólk velkomið og fær tækifæri til að koma undir sig fótunum í nýju landi

Þúsundir flóttamanna koma daglega yfir landamærin frá Suður-Súdan til Úganda þar sem þeir eru boðnir velkomnir. Í myndbandinu eru svipmyndir frá flóttamannasamfélögum og rætt við Titus Jogo fulltrúa stjórnvalda á staðnum og Stefán Jón Hafstein forstöðumann sendiráðs Íslands í Úganda.
Síðustu vikur hafa að meðtaltali 3.500 flóttamenn frá Suður-Súdan komið daglega í mótttökustöðvarnar í BidiBidi í norðurhluta Úganda. Á hverjum degi koma margar rútur frá landamærastöðvum fullar af fólki, einkum þó konum og börnum, sem flýja grimmdarverkin í heimalandinu sem færðust mjög í aukana í júlí þegar vopnahlé stríðandi fylkinga rann út í sandinn.

Flestir koma nánast allslausir, með eina eða tvær litlar töskur, og sumir með hænu eða tvær eða geit. Frá því í águstmánuði hafa komið tæplega 200 þúsund flóttamenn. Þeir eru allir boðnir velkomnir af stjórnvöldum sem hafa þá stefnu í málefnum flóttamanna að veita þeim nánast öll réttindi til jafns við heimamenn ef ríkisfang er undanskilið.

Þessi stefna hefur bæði vakið athygli og aðdáun: fulltrúar Alþjóðbankans og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna eru meðal þeirra sem hafa hrósað stjórnvöldum í Úganda fyrir örlæti sitt í garð flóttafólks. Mikill fjöldi Sameinuðu þjóða stofnana og alþjóðastofnana eru að stöfum á svæðinu en björgunarstarfinu er stýrt af fulltrúum frá skrifstofu forsætisráðherra Úganda.

Flóttamannasamfélög, ekki flóttamannabúðir
Titus Jogo yfirmaður stjórnvalda á vettvangi segir í meðfylgjandi kvikmyndabroti að flóttafólk sé ekki sett í búðir heldur byggðir, það fái landspildu til umráða og réttindi eins og ferðafrelsi, aðgengi að vatns- og salernisaðstöðu, menntun og heilusgæslu, atvinnuréttindi og kosningarétt og kjörgengi innan héraðsins. Skýringuna á þessum jákvæðu mótttökum segir hann vera reynslu Úgandabúa: þeir þekki margir hverjir af eigin raun þá stöðu að vera flóttafólk og það hafi mótað stefnu stjórnvalda.

Landspildan sem flóttafólk fær úthlutað nemur 90 fermetrum, það fær tækifæri til að koma sér upp smáhýsi og hefja ræktun á matjurtum - með öðrum orðum: að koma undir sig fótunum og verða að mestu sjálfbjarga.

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, bauð Stefáni Jóni Hafstein forstöðumanni íslenska sendiráðsins í Úganda að kynna sér aðstæður á vettvangi. Hann segir að stjórnvöld í Úganda sýni flóttafólkinu skilning og samstöðu. Hann bendir á að velviljinn komi líka fram í því að alþjóðasamfélagið komi með stuðning sem gagnast heimamönnum, héraðsstjórnum og íbúum héraðanna sem hýsa flóttafólkið. Stefán Jón nefnir líka alvarleika borgarastríðsins í Suður-Súdan, segir engar friðarlíkur sjáanlegar á næstunni og það komi til með að ýta undir flóttamannastrauminn til Úganda.

Íslensk stjórnvöld styðja alþjóðasamtök á vettvangi eins og UNICEF og Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (WFP)  með kjarnaframlögum auk þess sem Rauði krossinn og Hjálparstarf kirkjunnar hafa nýlega fengið samtals 30 milljónir króna til stuðnings flóttafólki frá Suður-Súdan í Úganda, eins og lesa má á öðrum stað í Heimsljósi.

Afríku blæðir í hjartastað, eftir Egil Bjarnason/ Fréttatíminn
Security Council 'deeply alarmed' over escalation of ethnic violence in South Sudan/ UNNewsCentre
Who can stop the threat of genocide in South Sudan?/ IRIN
Unicef brokers release of 145 child soldiers in South Sudan, says 16,000 still in armed forces/ IBTimes
In Plain Sight: The World's Refugee Crisis As Seen From Space/ MediumCom
Some 3,500 people fleeing South Sudan each day due to ongoing conflict - UN refugee agency
S. Sudan Humanitarian Crisis Worsening as Famine Looms/ VOA
"We did not believe we would survive": Killings, rape and looting in Juba/ Amnesty International
Mörg munaðarlaus börn meðal flóttamanna frá Suður-Súdan:
"Foreldrar mínir voru drepnir af skæruliðum"

Fyrir þremur mánuðum var Bidibidi lítið þorp í norðurhluta Úganda. Nú er hér fjórða fjölmennasta samfélag flóttafólks í heiminum. Með rútum sem þessum koma stríðshrjáðir íbúar Suður-Súdan í móttökustöðina í Yumbe héraði. Þeir flýja borgarastríðið, einhverjar grimmilegustu þjóðernishreinsanir síðari ára. Meðal þeirra eru fjölmörg börn sem hafa misst föður eða móður, eða báða foreldra.

Jura Scovia er sautján ára, hún er nýkomin í mótttökustöðina í Bidibidi. Spurningunni um það hvort hún hafi komið með foreldrum sínum svarar hún:

"Foreldrar mínir voru drepnir af skæruliðum."

Jura lýsir því hvernig hún og bróðir hennar földu sig í trjágróðri í tíu daga á leið að landamærunum til Úganda því enga hjálp hafi verið að hafa heima í þorpinu þeirra. Svöng og sorgmædd eru þau komin hingað til Bidibidi, munaðarlaus, allslaus. Fulltrúi Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, hlustar á frásögn stúlkunnar en systkinunum verður síðan komið í hendur samtakanna World Vision sem sérhæfa sig í tilvikum sem þessum og leita að fósturforeldrum. Sextíu og fimm prósent allra flóttamanna frá Suður-Súdan eru börn yngri en átján ára, mörg þeirra hafa orðið viðskila við foreldra sína í átökunum og enn fleiri koma til Úganda vegna þess að foreldrarnir eru látnir. Við erum að tala um þúsundir barna.

UNICEF leggur áherslu á að koma upp skólum í flóttamannasamfélögunum í Úganda og hjálpa börnum að vinna úr sorg og áföllum gegnum leik, umræður um frið, með því að teikna... og síðast en ekki síst með söng. Í meðfylgjandi myndbandi er rætt við Dorothy Birungi frá UNICEF í Úganda.

Funding shortfall for UN emergency response fund could have 'devastating impact'/ SÞ
Explosive Hazards in South Sudan Put Residents at Risk/ VOA
Three months ago, it was a tiny Ugandan village. Now it's the world's fourth-largest refugee camp/ WashingtonPost
Why Uganda is a model for dealing with refugees/ Economist
UN warns of growing food crisis in South Sudan in 2017/ Xinhuanet
South Sudanese civilians fear the U.N. can't protect them from a massacre/ WashingtonPost
WFP Delivers Food To 52,000 People Cut Off From Aid In South Sudan/ WFP
UN warns that South Sudan risks spiraling into a genocide/ AP
Children in South Sudan call for end to conflict/ CCTV
85 milljónum króna úthlutað til borgara-samtaka vegna mannúðarverkefna

Tveir styrkir renna til neyðaraðstoðar við flóttafólk frá Suður-Súdan í Úganda.

Utanríkisráðuneytið hefur úthlutað 85 milljónum króna til íslenskra borgarasamtaka vegna mannúðaraðstoðar. Mannúðaraðstoð felur í sér björgun mannslífa, vernd óbreyttra borgara, útvegun nauðþurfta og annarrar aðstoðar sem auðveldar afturhvarf til eðlilegs lífs í kjölfar hamfara. Hana ber ætíð að veita með ábyrgum og samhæfðum hætti samkvæmt alþjóðlegum viðmiðunum og grundvallarreglum um mannúð, óhlutdrægni, hlutleysi og sjálfstæði.
 
Íslensk stjórnvöld reiða sig meðal annars á borgarasamtök til að koma mannúðaraðstoð sinni til skila og er styrkjum vegna mannúðaraðstoðar ætlað að svara alþjóðlegum neyðarköllum allt árið um kring. Þrettán umsóknir bárust að þessu sinni um styrki til mannúðarverkefna frá fimm borgarasamtökum að heildarupphæð rúmlega 183 milljónum króna.
 
Úthlutunin nær til fimm verkefna, þrjú til aðstoðar flóttafólks, eitt vegna stríðsátaka í Sýrlandi og eitt vegna náttúruhamfara á Haítí eins og sjá má í eftirfarandi yfirliti um styrkina.
  • 20 milljónir - Hjálparstarf kirkjunnar vegna mannúðaraðstoðar í kjölfar fellibylsins Matthíasar á Haítí.
  • 20 milljónir - Rauði krossinn á Íslandi vegna stuðnings við flóttafólk frá Suður-Súdan í Úganda.
  • 20 milljónir - Rauði krossinn á Íslandi vegna björgunar flóttafólks og farenda á Miðjarðarhafi.
  • 15 milljónir - SOS Barnaþorpin á Íslandi vegna neyðaraðstoðar í Sýrlandi.
  • 10 milljónir - Hjálparstarf kirkjunnar vegna neyðaraðastoðar við flóttafólk frá Suður-Súdan í Úganda.
Nánari upplýsingar um samstarf utanríkisráðuneytisins við borgarasamtök á sviði þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar, þ. á m. verklagsreglur, stefnumið og umsóknareyðublöð, má finna á vef alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands (ICEIDA).
Allt gert til að koma í veg fyrir mænusóttarfaraldur í Nígeríu 
 
Sjálfboðaliðinn Aisha Bulama bólusetur barn í Borno í Nígeríu. Hún segist glöð og stolt af því að tilheyra bólusetningarhópnum.

Umfangsmikið bólusetningarátak gegn mænusótt stendur nú yfir í Nígeríu eftir að þrjú tilvik af veikinni greindust í norðausturhluta landsins þar sem mörg hundruð þúsund börn er í lífshættu vegna vannæringar. Yfir 40 milljón börn verða bólusett til að hindra að mænusóttarfaraldur brjótist út, enda hafði ekkert tilfelli komið upp í Afríku í tvö ár þegar þetta gerðist og í sjónmáli er að útrýma þessum skæða sjúkdómi á heimsvísu, segir í frétt frá UNICEF á Íslandi.
 
Um leið og börnin í Borno-héraði í Nígeríu eru bólusett eru þau skimuð fyrir vannæringu og vísað í meðferð við henni ef þörf krefur. Í gegnum bólusetningarátakið er þannig hægt að ná til barna sem eru vannærð og veita þeim hjálp.
 
Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi vegna vannærðra barna í Nígeríu og nágrannaríkjunum er enn í fullum gangi og hægt er að styrkja hana með því að senda sms-ið BARN í númerið 1900 (1.000 kr). Einnig er hægt að styrkja neyðarsöfnunina hér eða með því að leggja inn á neyðarreikninginn: 701-26-102050 (kt. 481203-2950).
 
Ómetanlegur stuðningur
 
Yfir 12 milljónir króna hafa safnast í neyðarsöfnuninni hér á landi."Mörg þúsund manns hafa stutt söfnunina og það er okkur mjög mikilvægt að finna þennan mikla stuðning. Þetta er ómetanlegt, enda er neyðin á svæðinu gríðarleg og þörf á að stórauka aðgerðir UNICEF. Í húfi eru raunveruleg líf, raunveruleg börn og raunverulegur möguleiki á að koma í veg fyrir að þau láti lífið," segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Síðastliðna mánuði hafa 131.349 börn fengið meðferð gegn vannæringu í norðausturhluta Nígeríu, þar sem ástandið er verst. Auk þess hafa börn annars staðar í landinu fengið hjálp, sem og í nágrannaríkjunum.
 
Árangri í baráttu við mænusótt ógnað
 
Mænusóttartilfellin sem upp komu nýverið bætast ofan á einstaklega erfiða stöðu á svæðinu. Sums staðar í Borno-héraði í Nígeríu eru allt að 15% barna alvarlega bráðavannærð.
 
Þar sem margir flóttamenn eru á ferð yfir landamærin er hætta á að mænusótt breiðist út til nágrannaríkjanna og því mikilvægt að hafa hraðar hendur á til að hemja útbreiðslu veikinnar. Bólusetningarnar fara af þessum einnig fram í Níger, Tsjad, Kamerún og Mið-Afríkulýðveldinu.
 
"Við gerum allt sem við getum ásamt samstarfsaðilum okkar til að koma í veg fyrir að veikin breiðist út. Umfang viðbragðanna sýnir alvarleika aðstæðnanna," segir Bergsteinn Jónsson.
 
Gríðarlegur árangur hefur náðst í baráttunni gegn mænusótt á heimsvísu og Nígería er eina landið í Afríku þar sem ekki hefur tekist að útrýma sjúkdómnum. Ríki er talið laust við hann þegar engin tilfelli hafa greinst þar í þrjú ár. Í Nígeríu hafði náðst tímamótaárangur og ekki orðið vart við mænusótt í tvö ár þegar tilfellin þrjú komu upp í norðausturhluta landsins. Mikið kappsmál er því að hindra frekari útbreiðslu sjúkdómsins, samhliða því að meðhöndla börn gegn vannæringu.
 
Nánari upplýsingar um ástandið í Nígeríu
Kynslóð barna hefur horfið, dáið/ Mbl.is
Boko Haram's forgotten victims return to a humanitarian disaster/ TheGuardian
Alþjóðlegi klóttsettdagurinn:
Kenna þarf fólki að nota almenn-ingssalerni, segir íbúi í Kikondo

Alþjóðlegi klósettdagurinn var haldinn síðastliðinn laugardag, 19. nóvember. Í tilefni dagsins birtum við á Fésbókarsíðu alþjólegrar þróunarsamvinnu Íslands meðfylgjandi myndband frá þorpinu Kikondo í Úganda sem hefur nýlga fengið almenningssalerni byggt fyrir íslenskt þróunarfé.

Á alþjóðlega klósettdeginum er athyglinni jafnan beint að þeim jarðarbúum sem hafa ekki greiðan aðgang að salernisaðstöðu og þeim sem neyðast til að ganga örna sinna á úti á víðavangi. Fyrrnefndi hópurinn telur 2,4 milljarða og sá síðarnefndi 1 milljarð.

Aðgengi að viðunandi salernisaðstöðu er fyrst og fremst heilbrigðismál eins og sést best á því að þar sem þessi málaflokkur er óviðunandi glímir fólk við margs konar sjúkdóma, auk þess sem efnahagsleg áhrif eru gífurleg vegna minni framleiðni sökum veikinda. Þau kalla líka á lyf sem margir hafa ekki efni á.

Samkvæmt 6. Heimsmarkmiðinu á eigi síðar en árið 2030 að vera búið að tryggja öllum jafnan aðgang að fullnægjandi salernis- og hreinlætisaðstöðu "og endir verði bundinn á að menn þurfi að ganga örna sinna utan dyra, þar sem sérstakri athygli er beint að þörfum kvenna og stúlkna og þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu," eins og segir orðrétt í einu af undirmarkmiðunum.

Fyrir íslenskt þróunarfé er í öllum þremur samstarfsríkjum okkar, Malaví, Mósambík og Úganda, verið að styðja héruð í vatns- og salernismálum. Í Úganda hafa á síðustu misserum verið byggð almenningssalerni í fiskimannaþorpum í Buikwe héraði og við marga grunnskóla. Í þorpinu Kikondo lýsa íbúar því í meðfylgjandi myndbandi hversu mikilvægt það er að fá almenningssalernin því áður hafi fólk gert þarfir sínar hvar sem er. Eins og ein kvennanna lýsir ástandinu þarf engu að síður að kenna fólki að nota almenningssalerni og ganga snyrtilega um þau; bæta þurfi hreinlætið mikið og það vanti sápu.

Addressing the urban sanitation crisis: Time for a radical shift, eftir Martin Gambrill/ Alþjóðabankablogg
Helping children survive and thrive: How toilets play a part, eftir Claire Chase/ Alþjóabankablogg
On World Toilet Day, UN spotlights impact of sanitation on peoples' livelihoods/ UN
6 key challenges to achieving universal access to sanitation by 2030/ Devex
Verkefni íslenska sendiráðsins og héraðsstjórnarinnar í Mangochi:
Ráðherra sveitarstjórnarmála í Malaví heimsækir Mangochihérað

Ágústa Gísladóttir forstöðumaður sendiráðsins flutti ávarp við slit formlegrar dagskrá og sagði frá helstu áherslum Íslands í þróunarsamvinnu.
Á dögunum heimsótti ráðherra sveitarstjórna- og þróunarmála í Malaví Mangochihérað, gagngert til að kynna sér þau verkefni sem héraðsstjórnin vinnur að í samvinnu við íslenska sendiráðið. Ráðherrann heimsótti nýju fæðingardeildina í Mangochibæ og eina af fjórum minni fæðingardeildum í dreifbýli. Auk þess heimsótti hann tvo grunnskóla og vatnsból.

Heimsóknin hófst á skrifstofu héraðsstjórans í Mangochi, þar sem þróunarstjóri héraðssins og Guðmundur Rúnar Árnason verkefnisstjóri sögðu ráðherranum frá verkefnum undanfarinna ára og undirbúningi fyrir framhaldið. Að því búnu var nýja fæðingardeildin í Mangochibæ skoðuð. Allmargir slógust í för eins og myndirnar bera með sér, sums staðar með söng og trumbuslætti.

Að loknum heimsóknum og lokafundi, þar sem ráðherrann, formaður héraðsstjórnarinnar og Ágústa Gísladóttir, forstöðumaður sendiráðsins í Lilongwe fluttu ávörp, lauk formlegri heimsókn. Ráðherrann lýsti mikilli ánægju með það sem hann hafði séð og þau verkefni sem unnið hefur verið að með stuðningi Íslands. Í ræðu hans kom m.a. fram, að umfang þessara verkefna er talsvert meira en hann hafði gert sér grein fyrir.

Í lok formlegrar dagskrár bauð ráðherrann starfsfólk sendiráðsins að koma með sér til TA Nankumba og vera viðstödd athöfn þar sem höfðinginn í Nankumba var hækkaður í tign, í Senior Chief Nankumba. Þar var mikið fjölmenni samankomið og áhugavert að fylgjast með. Höfðingjanum voru færðar góðar gjafir, ný rúmdýna, geit og ýmislegt fleira.

Líflegar móttökur við nýju fæðingardeildina í Mangochibæ
Sveitarstjórnarráðherrann, Kondwani Nankhumwa og Ágústa Gísladóttir, forstöðumaður sendiráðsins í Lilongwe skemmtu sér greinilega vel. Með þeim á myndinni eru m.a. héraðslæknirinn í Mangochi, William Wayne Peno og héraðsstjórinn, James Manyetera.
Guðmundur Rúnar ræðir sveitarstjórnarmál við formann héraðsstjórnarinnar, Omar Magombo og samstarfsmann hans.
Ójöfnuður í námstækifærum:
Þróunarríkin hundrað árum eftir þróuðum ríkjum í menntun

Líkurnar á því að barn sem fæðist í þróunarríki - stórum hluta Asíu, Suður-Ameríku, Afríku og hluta af Miðausturlöndum - eigi kost á vandaðri menntun eru miklu minni en hjá barni sem fæðist í þróuðu ríkjum heimsins - í Evrópu, Japan, enskumælandi hlutum Norður-Ameríku og Eyjaálfu. Rebecca Winthrop sem stýrir alþjóðlega menntasetrinu hjá bandarísku Brookingsstofnuninni heldur því fram í nýrri grein að munurinn á þessum tveimur heimum hvað menntun áhærir sé 100 ár, ein öld.

Ójöfnuður innan þróunarríkjanna skýrir þennan mun að mestu leyti, segir Rebecca. "Í Afríku tekst aðeins þriðjungi barna að komast upp í framhaldsskóla - eða svipað hlutfall og bandarískra barna fyrir rúmum hundrað árum. Þegar horft er á getu barna í lestri og stærðfræði sést að kunnátta barna í þróunarríkjunum er svipuð og 8% þeirra lökustu í þróuuðu ríkjunum. Og það sem er líkast til verst er að miðað við hraða breytinganna tekur það nemendur í þróunarríkjunum meira en hundrað ár að komast á þann stað sem nemendur þróuðu ríkjanna eru núna," segir hún.


How Can We "Leapfrog" Educational Outcomes?, eftir Rebecca Winthrop/ SSIR
Rethinking Education in a Changing World, eftir Rebecca Winthrop og Eileen McGivney/ SSIR
Stjórnvöld í Kenía fresta lokun Dadaab búðanna um hálft ár

Stjórnvöld í Kenía hafa ákveðið að fresta fyrirhugaðri lokun Dadaab flóttamanna-búðanna um hálft ár og gefa þá skýringu að staða öryggismála í Sómalíu sé viðkvæm. Búðunum - þeim fjölmennustu í heiminum - verður því lokað í maí á næsta ári. Áður höfðu stjórnvöld sagt að búðunum yrði lokað 30. nóvember.

Að mati kenískra stjórnvölda stafar öryggisógn af búðunum. Því er haldið fram að íslamskir öfgasinnar hafa komið sér fyrir í Dadaab og notið búðirnar til þess að skipuleggja hryðjuverkaárásir í Kenía.

Íbúar Dadaab eru 350 þúsund, þorri þeirra flóttafólk frá Sómalíu.

Frétt Aljazeera
Sendir nauðugir til Sómalíu/ Mbl.is
NOWHERE ELSE TO GOFORCED RETURNS OF SOMALI REFUGEES FROM DADAAB REFUGEE CAMP, KENYA/ AmnestyInternational
Konum í blæðir í Mosul -
Neyðarsöfnun UN Women

Í ljósi skelfilegs ástands í Mosul efnir UN Women á Íslandi til sms-neyðarsöfnunar fyrir konur á flótta í Írak. UN Women hvetur alla til að senda sms-ið KONUR í 1900 (1490 kr.) og veita konu á flótta sæmdarsett sem inniheldur dömubindi, sápu og vasaljós.
 
Yfir 600 þúsund konur og stelpur hafa lent í átökum í Mosul og nágrenni. Þær sárvantar neyðaraðstoð og þeim fer fjölgandi með hverjum deginum, að því er fram kemur í frétt frá UN Women á Íslandi. Þar segir að konur í Mosul og nærliggjandi svæðum hafi verið innilokaðar og einangraðar síðastliðin tvö ár eftir að vígasveitir sem kenna sig við íslamskt ríki náðu borginni yfir á sitt vald. "Þær hafa þurft að þola gróft ofbeldi, verið teknar sem gíslar og kynlífsþrælar og giftar hermönnum vígasveitanna en margar hafa horfið sporlaust. Þær skortir mat og aðrar nauðsynjavörur og flýja nú borgina."

 
"Konur í Mosul eru í hræðilegri stöðu og eiga ekkert. Þær hafa verið innilokaðar heima hjá sér undanfarin tvö ár og hvorki mátt eiga né nota síma, snjallsíma, internet, horfa á sjónvarp né eiga í samskiptum við umheiminn á nokkurn hátt. Þær hafa verið sviptar lífsviðurværi sínu, reisn sinni og valdi yfir eigin lífi. Neyðin er gríðarleg og nú er mikilvægara en nokkru sinni að að hlúa að þessum hópi. UN Women vinnur að því að veita konum og stúlkum á svæðinu aftur rödd, lífsviðurværi, tilgang og aðstoða þær við að koma undir sig fótunum á ný. Nýlega settum við á fót griðastaði í búðum á Ninewa-svæðinu þar sem konur hljóta vernd og öryggi, áfallahjálp í kjölfar kynferðisofbeldis, sálrænan stuðning en fyrsta skrefið er að veita þeim sæmdarsett með helstu nauðsynjum sem gera konum kleift að halda í virðingu sína. Aftur á móti skortir fjármagn til að geta brugðist við neyðinni og haldið því áfram," segir Inga Dóra Pétursdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi sem efnir til neyðarsöfnunar fyrir konur á flótta í Mosul og kring.
 
Nú um miðjan október réðust íraskar öryggissveitir ásamt hersveitum Kúrda inn í Mosúl með það að markmiði að ná borginni úr höndum vígasveita íslamska ríkisins. Hörð átök geysa í borginni og sem hafa gert það að verkum að íbúar borgarinnar flýja. Fólk hefur flúið meðal annars til Ninewa svæðisins suðaustur af Mosul þar sem unnið er að uppsetningu búða fyrir flóttafólk sem fjölgar óðum. UN Women samhæfir aðgerðir á svæðinu og tryggir að veitt sé kvenmiðuð neyðaraðstoð þar sem tekið er tillit til þarfa kvenna á svæðinu. Konurnar eiga ekkert og sárvantar nauðsynjar. Neyðin í Mosul er gríðarleg og virðist eingöngu vera að aukast.

UN Women hvetur almenning til að senda sms-ið KONUR í 1900 (1490 kr.) og veita konu á flótta sæmdarsett sem inniheldur dömubindi, sápu og vasaljós.
#Konumblæðir 

Mannréttindadagur barna - nýr fræðsluvefur Barnaheilla
 
Klárir krakkar - um Barnasáttmálann/ Barnaheill

Á sunnudag var alþjóðlegur dagur barna og afmælisdagur Barnasáttmálans. Alþingi ákvað síðastliðið vor að þessi dagur yrði helgaður fræðslu í skólum landsins um mannréttindi barna. Barnaheill - Save the Children á Íslandi - setti af þessu tilefni upp sérstakt vefsvæði í samvinnu við innanríkisráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytið sem helgað þessari fræðslu. Þar sem skólar voru lokaðir á sunnudag var þess vænst að fræðan færi fram á föstudag.

Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna (UNDP) minnir á þá staðreynd að á hverjum degi deyja 16 þúsund börn undir fimm ára aldri, flest vegna sjúkdóma sem hægt er að meðhöndla, en einnig vegna skorts á mat, vatni og aðgengi að heilbrigðisþjónustu. UNDP minnir líka á þær miklu framfarir sem orðið hafa á síðustu áratugum þegar litið er til barnadauða í heiminum. Árið1990 létust 13 milljónir barna fyrir fimm ára aldur eða 9% allra barna í heiminum. Á árinu 2015 létust 5,9 milljónir barna eða 4,3% allra barna í heiminum.

Samkvæmt Heimsmarkmiðunum er ætlunin að binda enda á dauða nýbura og barna undir fimm ára aldri fyrir árið 2030. Þá er stefnt að því að öll lönd lækki dánartíðni nýbura að minnsta kosti niður í 12 af hverjum 1.000 fæðingum lifandi barna og dánartíðni barna undir 5 ára aldri að minnsta kosti niður í 25 af hverjum 1.000 fæðingum lifandi barna.
  
Áhugavert

Like it or not, immigration to the West will rise, predicts Joel Budd/ Economist
-
State impunity is back in fashion - we need the international court more than ever, eftir Kofi Annan/ KofiAnnanFoundation
-
Masked meanings: Deciphering Ghana's campaign parables/ BBC
-
Solar: The Clean, Game-Changer Fuel / Alþjóðabankinn
Solar: The Clean, Game-Changer Fuel / Alþjóðabankinn

Flutti til Afríku til að láta æskudrauminn rætast/ Stundin
-
How do you solve a problem like over-age enrolment?, eftir Peter Darvas/ Alþjóðabankablogg
-
The Most Influential Images of All Time/ TIME
-
The next phase of forest action, eftir Julia Bucknall/ Alþjóðabankablogg
-
Scaling up just 15 Nordic solutions can reduce 4 Gt of global emissions/ GreenToScale
-
Engaging the private sector in advancing gender equality at work, eftir Helen Clark
-
Creating waves for small-scale fisheries, eftir Dave Steinback/ IIED
-
How changing drug patent rules will affect developing nations/ TheConversation
-
Cash on Delivery for Energy, eftir William Savedoff/ CGDev
-
DevExplains: What is human-centered design - and why does it matter?
DevExplains: What is human-centered design - and why does it matter?
-
The relevance and importance of promoting health in national SDG responses, keynote address at the 9th Global conference on health promotion, eftir Margaret Chan/ WHO
-
What will the world actually look like at 1.5°C of warming?, eftir Richard Betts/ TheConversation
-
AidChoice: Give the People Who Pay for Aid a Voice in Spending It, eftir Oven Barder og Theodore Talbot/ CGDev
-
Tackling drug-resistant infections a priority, eftir Tim Evans/ Alþjóðabankablogg
-
ODI Fellowship Scheme/ ODI
-
Towards a humanitarian's handbook for cities in crisis, eftir Andrew Meaux/ IIED
-
Displaced persons: Ignored people, eftir Florina Miesen/ D+C
-
"Now actions must speak louder than words" European NGOs react on future European development policy, eftir Helene Debaisieux/ Concorde
-
COP22: Protect Fish Stocks to Build Climate Resilience Along African Coasts, eftir Peter Eigen/ AfricaProgressPanel

Fræðigreinar og skýrslur
Ný bók eftir Hilmar Þór Hilmarsson um fjárfestingar í hreinni orku


bók eftir Dr. Hilmar Þór Hilmarsson prófessor við viðskipta- og raunvísindasvið Háskólans á Akureyri er komin út í Bandaríkjunum. Bókin ber titilinn: International Financial Institutions, Climate Change and the Urgency to Facilitate Clean Energy Investment in Developing and Emerging Market Economies.
 
Í bókinni fjallar Hilmar um hvernig alþjóðafjármálastofnanir (t.d. Alþjóðabankinn og svæðabankar) geta stuðlað að aukinni fjárfestingu í hreinni orku í nýmarkaðs- og þróunarríkjum. Á næstu árum og áratugum mun eftirspurn eftir orku að öllum líkindum vaxa mest í nýmarkaðs- og þróunarríkjum. Hreinar orkulindir eru einnig að mestu staðsettar í þessum löndum. Framkvæmdir við nýtingu á hreinum orkulindum, t.d. jarvarma- og vatnsfallsvirkjanir eru frjármagnsferkar og hafa langan endurgreiðslutíma. Áhætta í nýmarkaðs- og þróunarlöndum, þar á meðal stjórnmálaáhætta, er oft mikil og alþjóðafjármálastofnanir geta stuðlað að aukinni fjárfestingu í samvinnu við einkageirann og hið opinbera með lánveitingum og styrkjum, en enn frekar með tryggingum og ábyrgðum, sem þær hafa hingað til verið tregar að veita. Þrátt fyrir þá ógn sem steðjar að heimbyggðinni í loftslagsmálum, og í orku- og umhverfismálum, hafa alþjóðafjármálastofnanir lítið fjárfest í hreinni orku enn sem komið er.

Í bókinni fjallar Hilmar um hvernig alþjóðafjármálastofnanir geta beitt sínum fjármálatækjum og margfaldað hlut sinn í verkefnum á sviði hreinnar orku á næstu árum og áratugum.

Bókina skrifaði Hilmar að mestu leyti þegar hann var gestaprófessor  við Cornell University í Bandaríkjunum haustið 2015.
 

Cabinet minister Priti Patel faces accusations she is 'planning to privatise UK's foreign aid budget'/ TheIndependent

WHO welcomes global health funding for malaria vaccine/ WHO
-
Somalia's first female presidential candidate not scared of Al-Shabaab/ ENCA
-
Tehran smog blamed for hundreds of deaths/ CNN
-
Danmark lover millioner til at booste klimavenlig teknologi i udviklingslande/ GlobalNyt
-
Renewable Energy for Africa - Commission's commitment to facilitate investments/ Europa
-
UNAIDS announces 18.2 million people on antiretroviral therapy, but warns that 15-24 years of age is a highly dangerous time for young women/ UNAIDS
-
Verifying refugees' stories: why is it so difficult?/ TheGuardian
-
With help from Bill Gates, this lab is reinventing its approach to invention/ Devex
-
Rape as an Act of Genocide: From Rwanda to Iraq/ IPS
-
Ban urges financing Africa's 'engines of development' to realize continent's potential/ UN
-
New network brings global resources to clean technology entrepreneurs in developing countries/ Alþjóðabankinn
-
Catholic Church in Rwanda apologizes for role in genocide/ DW
-
'Over 2,000 Nigerians dying in Chinese prisons'/ Guardian, Nígeríu
-
Options Lacking to Help Developing Countries Avoid Debt Crises/ IPS
-
How to end 'epidemic' of child road deaths/ SciDev
-
Ban Ki-moon's UN legacy clouded by cholera/ IRIN
-
EU pledges millions of dollars to rebuild Central African Republic/ CCTV

Africa: World's 1st Malaria Vaccine in the Offing/ AllAfrica
-
HIV-infected man sentenced to two years over ritual sex in Malawi/ DW
-
Making money with plastics/ D+C

Vefur um stöðu borgarasamfélagsins 
Nýlega ýttu alþjóðleg regnhlífarsamtök borgarasamtaka (CIVICUS) úr vör netviðmóti sem gerir notendum kleift að fylgjast með stöðu borgarasamfélagsins í löndum heims.

Samtökin telja verulega vegið að athafnarými borgarasamfélagsins á alþjóðavísu og munu nota viðmótið til að rekja það ferli. Þannig munu gögnin nýtast við eftirfylgni vegna Heimsmarkmiðs 16.10 varðandi aðgengi að upplýsingum og vernd grundvallarréttinda í samræmi við landslöggjöf og alþjóðasamninga - og til málsvarastarfs gagnvart stjórnvöldum. Viðmótið nær einnig utan um jákvæða þróun og því er hægt að nálgast upplýsingar um aðgerðir sem eru til fyrirmyndar.
Nú þegar eru birtar upplýsingar yfir 104 ríki en stefnt er að því að viðmótið nái yfir öll ríki Sameinuðu þjóðanna snemma árið 2017. Upplýsingar eru uppfærðar á hverjum virkum degi og eru fengnar frá ýmsum aðilum, þ. á m. frá borgarasamtökum í viðkomandi ríki. Þannig eiga upplýsingarnar að endurspegla raunverulegt ástand borgarasamfélagsins í hverju landi.

Ferðalag um Mósambík - vatn, klósett og skólar
 
eftir Vilhjálm Wiium forstöðumann sendiráðs Íslands í Mósambík og Önnu Guðrúnu Aradóttur starfsnema í Mapútó

Myndir frá heimsókn Maríu Erlu Marelsdóttur sendiherra og skrifstofustjóra þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins til Mósambík. Myndir: UNICEF 
Heyrt í bíltúr um sveitir Mósambíkur: "Fyrir mig er mjög skrýtið að hugsa til þess að geta ekki fengið mér vatnsglas hvar og hvenær sem ég vil og farið svo á klósettið að pissa þegar ég hef drukkið of mörg. Ég tala nú ekki um þegar maður er þreyttur í skólanum og tekur nokkrar pissupásur til að komast út úr tíma og jafnvel fylla á vatnsflöskuna. Það er þó aftur á móti raunveruleikinn á mörgum stöðum í heiminum að börn og fullorðnir líða skort á vatni og viðunandi salernisaðstöðu með tilheyrandi hreinlætisvandamálum." Þeir sem í bílnum sátu, og voru búnir að heimsækja nokkur mósambísk samfélög þegar þetta var, gátu ekki annað en kinkað kolli.
 
Í byrjun nóvember sótti María Erla Marelsdóttir Mósambík heim. María Erla er skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins og er m.a. sendiherra Íslands í samstarfslöndunum þremur í Afríku, þeim Malaví, Úganda og Mósambík. Sem sendiherra heimsækir hún þessi lönd reglulega. Nú var röðin sem sagt komin að Mósambík.
 
Í Mósambík fundaði hún með ýmsum, t.d. öðrum sendiherrum Norðurlanda í landinu, nokkrum stofnunum Sameinuðu þjóðanna og einnig átti hún fund í mósambíska utanríkisráðuneytinu. En meginástæða heimsóknarinnar var þó að skoða vatns- og salernisverkefni sem Ísland styður í fimm héruðum í Sambesíu-fylki í norðanverðri Mósambík. Um 25% barna í Mósambík búa í þessu fylki en þrátt fyrir það er fylkið eitt það vanþróaðasta í landinu þegar kemur að velferð barna.
 
Heilbrigði og hagsæld
Verkefnið hófst í byrjun árs 2014 og lýkur því í árslok 2017. Megintilgangur þess er að bæta aðgang barna að hreinu vatni og með því bæta heilbrigði, menntun og hagsæld í dreifbýli í Sambesíu-fylki. Mikilvægur þáttur verkefnisins er að gera íbúana meðvitaða um mikilvægi hreinlætis. Á verkefnistímanum verður vatns- og salernisaðstaða bætt í 40 dreifbýlisskólum og hjá samfélögum í kringum þessa skóla. Allt í allt er gert ráð fyrir að 14.000 nemendur njóti góðs af verkefninu og að 48.000 manns hafi betri aðgang að hreinu vatni en áður. Einnig er áætlað að 300.000 manns öðlist aðgang að salernum.
 
Ásamt því að stuðla að hreinlæti og koma þannig í veg fyrir ýmsa sjúkdóma hafa viðunandi salernisaðstaða í skólum og greiður aðgangur að hreinu vatni í þorpum áhrif á mætingu barna og jafnvel kennara í skólann. Mikill tími og líkamlegt álag fylgir því að þurfa að fara langar vegalengdir til að sækja vatn, eitthvað sem leggst aðallega á stúlkur og konur. Einnig hefur sýnt sig að kynjaskipt salerni/kamrahús í skólum eru mikilvæg þegar kemur að mætingu barna, sérstaklega unglingsstúlkna, í skólann.
 
Verkefnið er unnið í gegnum skrifstofu UNICEF í Mósambík, en UNICEF er með margskonar verkefni sem tengjast börnum í nokkrum fylkjum landsins og eru með skrifstofu í hinni fallegu Quelimane, sem er fylkishöfuðborg Sambesíu. Framkvæmd verkefnisins liggur hjá fylkisyfirvöldum og veitir UNICEF þeim margs konar stuðning til að tryggja að allt sé gert á réttan hátt.
 
Fjarlægðir í Mósambík eru miklar. Strandlengja landsins er um 2.700 km að lengd. Til samanburðar má nefna að á Vísindavef Háskóla Íslands er sagt að stysta siglingaleið umhverfis Ísland sé um 1.500 km. Þótt ferðast sé með flugi hluta leiðar tekur nær heilan dag að komast frá höfuðborginni Mapútó til Gilé héraðs í Sambesíu-fylki, þar sem heimsækja átti skóla og samfélög sem njóta góðs af verkefninu. En á endanum komst nú sendiherrann, og fylgdarlið, á leiðarenda.

Við, í sendinefndinni, heimsóttum nokkra skóla þar sem búið er að byggja salernisaðstöðu og einnig nokkur þorp þar sem búið er að koma upp vatnsveitum með handdælum. Það var vel tekið á móti okkur og allir virtust hæstánægðir, enda mikil þörf á aðgengi að hreinu vatni og salernisaðstöðu bæði fyrir fólkið í þorpunum og börnin í skólunum. Heimsóknirnar í skólana og þorpin voru mjög áhugaverðar og lærdómsríkar. Mikilvægt er að fara í slíkar eftirlitsferðir til að fylgjast með framvindu mála, bæði til að sjá árangur en einnig til þess að greina hvað betur mætti fara. Til dæmis vantaði sums staðar upp á samskipti milli aðila sem bersýnilega tefur árangur.
 
Vatnsnefndir sjá um viðhald
Mikilvægt er að efla þátttöku íbúanna sjálfra í hreinlætis- sem og menntamálum. Í þorpunum sem eru búin að fá vatnsveitur hafa verið stofnaðar svokallaðar vatnsnefndir sem sjá um viðhald. Fyrirkomulagið er þannig að hver fjölskylda í þorpinu borgar vissa fjárhæð á mánuði til nefndarinnar og gjaldkerinn heldur utan um peninginn. Peningurinn er svo til dæmis nýttur í að byggja girðingu utan um vatnsveituna/dæluna til þess að verja hana fyrir ágangi geita og barna að leik. Íbúarnir voru almennt ánægðir með vatnsveituna og töldu upp margar ástæður fyrir mikilvægi þess að hafa aðgang að hreinu vatni nær heimilinu sínu.
 
Of fáar kennslukonur
Einn liður verkefnisins er að stuðla að menntun barna. Þrátt fyrir athyglisverðan árangur í aukningu barna í grunnskóla lýkur aðeins helmingur þeirra náminu. Margir detta út á fyrstu fimm árunum, fleiri stelpur en strákar. Ástæðurnar eru ýmsar, til dæmis fátækt, en einnig félags- og menningarleg gildi eins og það að stúlkur giftast oft og eignast börn ungar. Við ræddum það einnig að nauðsynlegt er að stúlkur hafi fyrirmyndir í náminu, en miklu fleiri karlar en konur eru kennarar. Það er því nauðsynlegt að auka hlutfall kvenkyns kennara við skólana. Ástæðan fyrir brottfalli ungra drengja úr námi er oft sú að þeir hætta að mæta í skólann til þess að leita að dýrmætum steinum til að selja, en mikið af gimsteinum er að finna í Gilé. Þeir eru jafnvel sendir af foreldrum sínum til að afla smá auka tekna svo það er ekki síður mikilvægt að hamra á mikilvægi menntunar barna við foreldrana.
 
Við heyrðum dæmi af því að oft gerist það að yngsta barnið er ekki sent í skóla þar sem þau eldri fengu ekki vinnu strax næsta dag og náminu lauk, og sjá foreldrarnir því ekki tilgang í að senda yngsta barnið líka í skóla. Það er aldrei of oft minnst á mikilvægi menntunar og að hún sé grunnurinn að framtíð einstaklinga sem og samfélaga í heild sinni.
 
Við dvöl okkar í Gilé var hluti sendinefndarinnar svo heppinn að fá gistingu í nunnuklaustrinu en nunnurnar sem búa þar reka einnig heimavistarskóla fyrir stúlkur, bæði grunn- og framhaldsskóla - eitthvað sem þær sáu mikla þörf á. Það er pláss fyrir 60 stúlkur en aðeins um 45 pláss eru í notkun og vonast nunnurnar til að geta fyllt plássin. Það er meðal annars boðið upp á úrræði fyrir stúlkur sem koma úr fátækari fjölskyldum að fá styrk frá klaustrinu fyrir skólagjöldum svo foreldrarnir þurfa aðeins að greiða fyrir skólabúningana úr eigin vasa. Stúlkurnar koma allstaðar að úr héraðinu og þær sem við spjölluðum við undu sér vel. Þær fá mikilvægt aðhald við námið, aðgang að bókum og aðstoð við heimanám, sem er eitthvað sem ekki er hlaupið að heiman fyrir. Samkvæmt Systur Simu hefur námið í skólanum þeirra sýnt árangur og margar stúlknanna halda áfram námi eftir veru sína hjá nunnunum.
 
Heimsóknin var gagnleg. Þarna sáum við íslenskt þróunarfé að störfum og getum við verið stolt af afrakstrinum. Þótt hægt sé að benda á eitt og annað sem þarf að laga og gera betur, þá hefur verkefnið gríðarleg áhrif til hins betra fyrir þá sem verkefnið snertir. Enda er vatn undirstaða alls.
 
Þokast áfram í jarðhitaþróun í Austur Afríku

- eftir Davíð Bjarnason verkefnastjóra á þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins
 
Þráinn Friðriksson sérfræðingur í jarðhitamálum hjá Alþjóðabankanum í pallborði á ráðstefnunni.
Alls komu um 500 manns frá 40 löndum saman á sjöttu Argeo jarðhitaráðstefnuni, sem haldin var í Addis Ababa, Eþíópíu 1.-5. nóvember. Þátttakendur voru að mestu sérfræðingar á sviði jarðhitarannsókna og nýtingar. Markmiðið var að kynna nýjar rannsóknir og ræða um tækifæri til jarðhitanýtingar í Austur Afríku sigdalnum og skilgreina leiðir til að hraða þróun orku frá jarðhitaauðlindum. Það var UNEP ásamt stjórnvöldum í Eþíópíu sem höfðu veg og vanda að skipulagi ráðstefnunnar.

Lengi hefur verið talað um möguleika jarðhitans í Austur Afríku, en hingað til hefur einungis Kenía náð að virkja með góðum árangri, en þar eru nú yfir 600 MW af ragmagni framleidd með jarðhita. Kenía hefur þar með skipað sér í framvarðarsveit jarðhitanýtingar í heimunum. Væntingar landa hafa hins vegar verið all miklar, og ljóst er að niðurstöður rannsókna sem framkvæmdar hafa verið á síðustu árum hafa ekki verið í samræmi við þær væntingar. Frá því að fyrsta ARGeo ráðstefnan var haldin árið 2006, hefur hins vegar bæst mikið við þekkingu á eðli jarðhitans í Austur Afríku, og mögulegum svæðum til nýtingar og voru einmitt kynntar niðurstöður fjölda rannsókna á ráðstefnunni. Helst er nú horft til möguleika í austari hluta sigdalsins, varðandi raforkuframleiðslu, landa eins og Eþíópíu, Kenía, Erítreu og Djíbúti, þar sem jarðhitaleit og rannsóknir síðustu ára hafa staðfest að til staðar eru vænleg jarðhitasvæði til raforkunýtingar. Vissar vonir eru einnig bundnar við jarðhita í Tansaníu.

Á ráðstefnunni var formlega stofnuð Afríkudeild samtaka kvenna í jarðhita.
Jarðhiti er að mörgu leyti tæknilega snúið viðfangsefni, og margir óvissuþættir sem fléttast inn í áætlanir landa og á ráðstefnunni komu saman bæði jarðhitasérfræðingar og fjármögnunaraðilar til að ræða leiðir til að yfirstíga þær hindranir sem virðast vera í vegi frekari framþróun jarðhitanýtingar í álfunni. Verkefni Utanríkisráðuneytisins og Norræna þróunarsjóðsins, hefur miðað að því að aðstoða lönd við að klára fyrstu skref jarðhitarannsókna, og fá úr því skorið hvort að líklegt sé að nýtanlega jarðhita megi finna í viðkomandi löndum. Á þessu stigi er fólgin talsverð áhætta og allt eins líklegt að niðurstöður leiði í ljós að ekki sé til staðar nægjanlegur jarðhiti til frekari þróunar. Í þeim tilfellum sem jákvæðar niðurstöður fást, taka svo við tilraunaboranir þar sem verkefni Alþjóðabankans og Afríkusambandsins og fleiri aðila, taka við keflinu og aðstoða lönd við að taka á og lágmarka þá áhættu sem felst í tilraunaborunum.

Á ráðstefnunni voru einnig kynntar niðurstöður frá vinnufundi um jarðhita í vestari hluta sigdalsins, en þar er ljóst að um mun lægri hita er að ræða og varla virkjanlegan til raforku, og því er nú frekar horft til möguleika þeirra landa að nýta jarðhita með beinum hætti, s.s. við þurrkun matvæla, og mögulega orkuframleiðslu í litlum mæli með tvívökavirkjunum. Enn hefur ekki verið sýnt fram á með beinum hætti hagkvæmni slíkrar nýtingar í Afríku, en verkefni UTN og NDF mun á næstunni, í samvinnu við MATÍS, leggja í þróunarverkefni með jarðhitafyrirtæki ríkisins í Kenía, Geothermal Development Company (GDC), um matvælaþurrkun með jarðhita. Vonir standa til að með því verkefni verði hægt að sýna fram á hagkvæmni slíkrar lausnar í Afríku. Byrjað verður með tilraunir í þurrkun á maís, með vonum um að geta gert tilraunir með fleiri afurðir eftir því sem reynslan gefur tilefni til.

Utanríkisráðuneytið og NDF stóðu, í samvinnu við Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, fyrir námskeiði um verkefnastjórnun í jarðhitaverkefnum í tengslum við ráðstefnuna. En nú þegar huga þarf að næstu skrefum í þróun jarðhitans er mikilvægt að sérfræðingar skilji vel ferli í jarðhitaverkefnum, og hvernig bregðast má við óvissu og áhættuþáttum. Leiðbeinendur í námskeiðinu komu bæði frá Íslandi og Kenía, en eitt af markmiðum ráðstefnunnar er einmitt að hvetja til frekara svæðasamstarfs og þess að löndin á svæðinu deili þekkingu sín á milli.

Þá er einnig vert að nefna að á ráðstefnunni var formlega stofnuð Afríkudeild samstaka kvenna í jarðhita (Women in Geothermal), sem eru alþjóðleg samtök sem vilja auka menntun og veg kvenna innan jarðhitageirans. Í tengslum við verkefni sem Jafnréttisskóli SÞ á Íslandi er aðili að, var einnig kvikmyndatökufólk á ráðstefnunni sem vinnur að gerð heimildamyndar um konur í jarðhitageiranum.

Fulltrúar UTN á ráðstefnunni áttu einnig tvíhliðafundi, m.a. með Tanzaníu, Kenía, Djíbútí og UNEP, þar sem fjallað var um samstarf landanna í jarðhitamálum og framgang verkefna.

facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105