Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
10. árg. 326. tbl.
24. maí 2017
Áherslur utanríkisráðherra í þróunarsamvinnu:
Sérþekking Íslendinga og samvinna við einkafyrirtæki og atvinnulíf
 
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra leggur áherslu á tvennt í  þróunarsamvinnu. "Annars vegar að við vinnum á þeim vettvangi þar sem við höfum meira og betra fram að færa en aðrir. Þannig nýtist sérþekking Íslendinga best í aðstoð og samvinnu við þróunarríkin. Á þetta einkum við um sérþekkingu í fiskveiðum og sjávarútvegi annars vegar og nýtingu jarðvarma hins vegar. Þegar er komin góð reynsla á starf okkar á þessum sviðum í þróunarlöndunum sem hvetur okkur til dáða frekar. Munum við starfa að þessu ýmist tvíhliða með samstarfsríkjum og í samvinnu við viðkomandi fjölþjóðastofnanir, eins og Matvæla- og landbúnaðarstofnunina og Alþjóðabankann. Hins vegar er mikil þörf á því að skoða alla möguleika á samvinnu við einkafyrirtæki og atvinnulífið um þróunarverkefni þar sem það er hægt, auk áframhaldandi góðrar samvinnu við frjáls félagasamtök."

Ráðherra sagði á Alþingi þegar hann gaf þinginu skýrslu um utanríkismál að ljóst væri að opinbert fjármagn nægi ekki til að ná heimsmarkmiðunum. "Einkafjármagn þarf til," sagði hann. "Flest helstu framlagaríki og fjölþjóðastofnanir í þróunarsamvinnu hafa nú innan sinna vébanda virkar starfseiningar sem sinna samvinnu við atvinnulífið og einkafyrirtæki. Huga þarf að myndun slíkrar einingar í þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins sem eigi gott samstarf við viðskiptaþjónustu ráðuneytisins og Íslandsstofu og njóti þekkingar þessara aðila og sambanda þeirra við atvinnulífið."

Heimsmarkmiðin leiðarljós
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru leiðarljós í þróunarsamvinnu Íslands. Í skýrslu ráðherra kom fram að hin metnaðarfullu markmið, sem eru 17 talsins, beinist hvort tveggja að innanlandsstarfi og starfi Íslands á alþjóðavettvangi. "Íslensk stjórnvöld hafa það að yfirmarkmiði að draga úr fátækt og hungri og stuðla að almennri velferð á grundvelli kynjajafnréttis, mannréttinda og sjálfbærrar þróunar. Heimsmarkmiðin eru einnig leiðarljós að meginmarkmiðum þróunarsamvinnunnar: Að bæta lífsskilyrði og auka tækifæri fólks með sterkari félagslegum innviðum, með jafnrétti að leiðarljósi, að bæta fæðuöryggi og örva hagþróun á grundvelli jafnaðar og sjálfbærrar auðlindanýtingar, að auka viðnámsþrótt samfélaga og flýta endurreisn með aukinni samhæfingu mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu."

Ný þróunarsamvinnuáætlun
Í skýrslunni var greint frá því að unnið sé að mótun nýrrar stefnu stjórnvalda á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu fyrir tímabilið 2017-2021, sem lögð verði fyrir Alþingi, ásamt aðgerðaráætlun fyrir árin 2017-2018. Þá kom einnig fram að framkvæmd hafi verið fyrsta jafningjarýni um íslenska þróunarsamvinnu á vegum þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (DAC). Jafningjarýni er fastur liður í störfum nefndarinnar, unnin af fulltrúum tveggja aðildarríkja, ásamt starfsmönnum DAC.
Í skýrslunni segir ennfremur:

"Á síðustu árum hefur þróunarsamvinna Íslands haft þrjú áherslusvið: Uppbygging félagslegra innviða, bætt stjórnarfar og endurreisn og sjálfbær nýting náttúruauðlinda. Tvö málefni hafa verið þverlæg: Jafnrétti kynjanna og umhverfismál. Starfað hefur verið í Afríku í Malaví, Mósambík og Úganda, og auk í Afganistan og Palestínu þar sem stuðningi var beint í gegnum fjölþjóðastofnanir og borgarasamtök. Fjölþjóðlegar áherslustofnanir hafa verið eftirfarandi: Alþjóðabankinn, Stofnun SÞ um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women), Barnahjálp SÞ (UNICEF) og Háskólar Sameinuðu þjóðanna (HSÞ) og í mannúðaraðstoð: Matvælaáætlun SÞ (WFP), Neyðarsjóður SÞ (CERF) og Samræmingarskrifstofa SÞ í mannúðarmálum (OCHA).

Íslenska friðargæslan
Árið 2016 voru 15 ár liðin frá stofnun Íslensku friðargæslunnar sem starfar samkvæmt lögum 73/2007. Umfangsmesta verkefni Friðargæslunnar var þátttaka í aðgerðum alþjóðasamfélagsins (ISAF) í Afganistan 2002-2014. Á síðasta ári voru 20 einstaklingar í verkefnum á vegum Friðargæslunnar, þar af tólf konur og átta karlar. "Miklar breytingar og þróun hafa átt sér stað í hinu alþjóðlega umhverfi og er mikilvægt að starf Friðargæslunnar taki mið af því og þjóni áfram framgangi utanríkisstefnunnar. 

Neyðar- og mannúðaraðstoð 
Ísland hefur lagt umtalsvert fé til mannúðarstarfs á síðustu misserum. Þörfin fyrir mannúðaraðstoð hefur aldrei verið meiri en í dag, enda hefur aldrei verið jafnmikill fjöldi fólks í heiminum á flótta, flestir vegna langvarandi stríðsátaka, ofbeldis og ofsókna. Um síðustu áramót var áætlað að 65 milljónir manna væru á flótta í heiminum. Þessi mikla fjölgun flóttafólks síðustu ár hefur m.a. átt þátt í að auka straum þess til Evrópu yfir Miðjarðarhafið. Eina leiðin til að stöðva þennan straum flóttafólks, sem langflest er frá óstöðugum svæðum í Mið-Austurlöndum, Afríku og Mið-Asíu, er að binda enda á drifkraftana sem knýr fólkið áfram, hvort sem það er stríð, hungursneyð eða almenn fátækt. Heimsmarkmiðin byggja á þeirri forsendu að friður og sjálfbær þróun séu órjúfanlega tengd, enda er 16. markmiðið helgað friðarmálum og réttarríkinu."

Markmið í þróunarmálum
Samkvæmt skýrslunni eru þrjú meginmarkmið í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands:

1: Bæta lífsskilyrði og auka tækifæri fólks með sterkari félagslegum innviðum, með jafnrétti að leiðarljósi.
2: Bæta fæðuöryggi og örva hagþróun á grundvelli jafnaðar og sjálfbærrar auðlindanýtingar m.a. með nýtingu á íslenskri sérþekkingu.
3: Auka viðnámsþrótt samfélaga og flýta endurreisn með aukinni samhæfingu mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu.

Átján nemendur útskrifast frá Jafnréttisskólanum - fjölmennasti hópurinn frá upphafi


Í gær útskrifuðust átján nemendur með diplómagráðu í alþjóðlegum jafnréttisfræðum frá Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Þetta er fjölmennasti hópur nemenda sem skólinn útskrifar. Nemendurnir komu frá 12 löndum, Afganistan, Eþíópíu, Írak, Jamaíka, Líbanon, Malaví, Mósambík, Nígeríu, Palestínu, Sómalíu, Túnis og Úganda. Á þeim níu árum sem Jafnréttisskólinn hefur starfað hefur hann útskrifað 86 nemendur.

 

Stefán Haukur Jóhannesson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins flutti ávarp við útskriftina í gær og sagði að ef fram færi sem horfi verði jafnrétti kynjanna náð árið 2133. "Við verðum að gera betur en svo," sagði hann. "Við þurfum að ná til fleiri aðila og haghafa, þar á meðal karlmanna, til að hraða jafnrétti kynjanna. Með því að vinna samhent að verkefninu náum við betri, fljótari og varanlegri lausnum", sagði Stefán Haukur og vakti athygli á árangri Íslands á sviði jafnréttismála á alþjóðlegum vettvangi, m.a. í gegnum Rakarastofu-ráðstefnur þar sem karlmönnum gefst færi á að ræða og skiptast á skoðunum um jafnréttismál.

Stefán Haukur nefndi í ávarpi sínu að skólar Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi kynnu að vera smáir í alþjóðlegum samanburði og sagði þá hafa verið og halda áfram að vera stoðir alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands.

 

Caroline Kalagala Kanyago segir frá lokaverkefni sínu.

Markmið Jafnréttisskólans er að veita sérfræðingum frá þróunarríkjum, átakasvæðum og fyrrverandi átakasvæðum þjálfun á sérsviði sínu og gera þeim betur kleift að vinna að jafnri stöðu karla og kvenna í heimalöndum sínum. Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands og Eliza Jean Reid forsetafrú ávörpuðu einnig útskriftarnemana, auk Irmu Erlingsdóttur forstöðumanns Jafnréttisskólans og Caroline Kalagala Kanyago frá Úganda sem talaði fyrir hönd útskriftarnema.

 

Eliza afhenti verðlaun Vigdísar Finnbogadóttur fyrir framúrskarandi lokaverkefni nemenda. Að þessu sinni hlaut Yeshiwas Degu Belay verðlaunin fyrir rannsókn á þátttöku kvenna í eþíópískum friðargæsluverkefnum.

Upplýsingar um lokaverkefni útskriftarnema má finna á vef skólans. 

Verkefni UNICEF og ICEIDA í Mósambík:
Verkefnið í Sambesíu komið á fulla ferð eftir tafir á síðasta ári


Eftir nokkrar tafir á framkvæmdum á síðasta ári í Sambesíufylki í Mósambík er verkefni UNICEF sem Íslendingar styðja myndarlega komið á fulla ferð að nýju í sex héruðum: Gurué, Gilé, Milange, Molumbo, Mulevala og Pebane. Í meðfylgjandi kvikmyndabroti er rætt við Americo Muianga verkefnisstjóra UNICEF í Mósambík en hann var tekinn tali í Mapútó, höfuðborg Mósambík, í síðustu viku.

Íslensk stjórnvöld ákváðu árið 2014 að taka þátt í metnaðarfullu verkefni Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, í Mósambík, sem þá var að hefjast í Sambesíufylki. Íslendingar hafa síðan verið stærsti einstaki veitandinn sem styður verkefnið og utanríkisráðuneytið leggur til eina milljón bandarískra dala árlega. Sjálft verkefnið snýr að vatni, salernisaðstöðu og hreinlæti, og nær bæði til þorpa í Sambesíu og skóla, alls sex héraða. Mikið og náið samstarf er við heimafólk, bæði fylkisstjórn og héraðsstjórnir.

Americo Muianga verkefnastjóri segir að frá árinu 2014 hafi verið reist 182 vatnsból í héruðunum sex sem þjóni rúmlega 44 þúsund íbúum, bæði í þorpum og skólum. Hann segir að byggð hafi verið 46 náðhús við skóla en um er að ræða staðlaða kynskipta salernisaðstöðu og skólarnir sem fengu slíka aðstöðu eru því 23 talsins, alls 80 þúsund nemendur og kennarar.

Americo segir að þjálfun og fræðsla til heimamanna sé veigamikill verkefnisþáttur og lögð áhersla á sjálfbærni þeirra mannvirkja sem reist er í þágu íbúanna, einnig sé veitt fræðsla um meðferð á handpumpum vatnsbólanna og viðhaldi þeirra, auk þess sem héraðsstjórnir fái sérstaka þjálfun í að reka slíkar vatnsveitur.

Skærurnar í héraðinu á síðasta ári leiddu til þess að stöðva þurfti framkvæmdir um skeið, óheimilt var að ferðast um Sambesíufylki og framkvæmdum og eftirliti því áfátt á þeim tíma. Verkefnið er þar af leiðandi talsvert á eftir áætlun. Stríðandi fylkingar í landinu hafa hins vegar slíðrað sverðin, í gildi er vopnahlé og öruggt talið að ferðast um á þessum slóðum. Flóð settu einnig strik í reikninginn á síðasta ári en Americo segir að þess verði freistað að vinna upp töfina og nú sé unnið að öllum verkþáttum samkvæmt áætlun.

Landgræðsluskólinn í útrás:
Námskeiðahald í Úganda um loftslagsbreytingar og landnýtingu 
UN Women á Íslandi hvetur almenning til að taka þátt í að uppræta barnahjónabönd í Malaví

Ljósmynd frá Malaví: gunnisal
"Önnur hver stúlka í Malaví hefur verið gift fyrir 18 ára aldur og ein af hverjum átta hefur verið gift fyrir 15 ára aldur. Algengt er að allt niður í 12 ára gamlar stúlkur eigi barn auk þess sem algengt er að 15 ára gamlar stelpur séu orðnar tveggja barna mæður. Tíðni barnahjónabanda í Malaví er með þeim hærri í heiminum. Auk þess sem mæðradauði táningsstúlkna er gríðarlegt vandamál í Malaví," segir Hanna Eiríksdóttir, starfandi framkvæmdastýra UN Women á Íslandi. UN Women á Íslandi hvetur almenning til að taka þátt í að uppræta barnahjónabönd í Malaví með því að senda sms-ið KONUR í 1900 (1.000 kr.)

Í frétt frá UN Women segir: "Nú í febrúar 2017 var veigamikið jafnréttisskref stigið til fulls í Malaví þegar lögræðisaldur var hækkaður úr 15 í 18 ár. En árið 2015 var lagabreyting sem kveður á um hækkun giftingaraldurs stelpna og stráka úr 15 í 18 ár samþykkt og fyrir vikið barnabrúðkaup bönnuð. Síðastliðin tvö ár hefur því verið auðvelt að komast framhjá lögunum þar sem lögræðisaldurinn var enn 15 ár."

UN Women ásamt öðrum stofnunum gegndu lykilhlutverki í að tala eindregið fyrir þessu nauðsynlega skrefi. "Lagabreytingin er stór sigur en nú er gríðarlega mikilvægt að veita almenningi, kennurum og foreldrum í Malaví fræðslu og vekja til vitundar um alvarlegar afleiðingar þessa skaðlega siðar og framfylgja lögum," segir Hanna. UN Women veitir 300 héraðshöfðingjum í Malaví fjárhagslega og tæknilega aðstoð við að binda endi á barnahjónabönd. UN Women styrkir bæði héraðs- og þorpshöfðingja til að leiða baráttuna gegn barnahjónaböndum og tryggja að nýlegum lagabreytingum sé framfylgt alls staðar í bæjum og til sveita. Undanfarin sex ár hefur til að mynda einn héraðshöfðinginn látið ógilda 1500 barnahjónabönd.

Rannsóknir sýna að þessi óhugnanlegi siður hefur varanleg og skaðleg áhrif á stöðu og heilsu ungra stúlkna. Oftast hætta þær námi, missa af tækifærinu til að verða sjálfstæðar konur og koma sér út úr fátækt. Samkvæmt Alþjóða heilbrigðisstofnuninni eru barnungar stelpur í hjónabandi líklegri til að verða fyrir heimilisofbeldi, eiga á hættu að fá lífshættulega fylgikvilla á meðgöngu og eignast oft og tíðum barnungar börn. Þessi óhugnanlegi siður viðheldur bæði fátækt og ofbeldi.

"Góðir hlutir gerast hægt en með fræðslu og vitundarvakningu má útrýma þessum skaðlega og óhugnanlega sið en til þess þarf aukið fjármagn", segir Hanna og hvetur almenning til að leggja átakinu lið með því að senda sms-ið KONUR í 1900 og gefa 1000 krónur.

Þeir sem geta ekki sent sms úr símanum sínum geta lagt 1.000 kr. inn á reikning 0101-05-268086 kt. 551090-2489.

Umsóknarfrestur um þróunarsamvinnuverkefni til 1. júní

Utanríkisráðuneytið vekur athygli á  því að samkvæmt verklagsreglum um samstarf við borgarasamtök frá árinu 2015 er umsóknarfrestur fyrir þróunarsamvinnuverkefni til miðnættis 1. júní ár hvert. Umsóknir skulu vera á íslensku og skilað á þar til gerðum eyðublöðum á netfangið borgarasamtok.styrkir@mfa.is. Fylgiskjöl mega vera á íslensku eða ensku. 

Ráðuneytið hefur á síðustu misserum veitt styrki til langtímaþróunarsamvinnuverkefna og eru því að þessu sinni allt að 62 milljónir króna til úthlutunar. Allar frekari upplýsingar má finna á vef alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands, 
Dagur rauða nefsins nálgast

Dagur rauða nefsins nálgast óðfluga en hann verður haldinn hátíðlegur þann 9. júní næstkomandi. Dagur rauða nefsins er langstærsti viðburður UNICEF á Íslandi. Hann nær hámarki í beinni útsendingu á RÚV föstudaginn 9. júní þar sem grínistar, leikarar, tónlistarmenn og fjölmiðlafólk búa til ógleymanlegt kvöld og skora á áhorfendur að hjálpa börnum og gerast heimsforeldrar UNICEF.

Með átakinu vill UNICEF skemmta fólki og vekja um leið athygli á að heimsforeldrar og UNICEF berjast saman fyrir betri heimi fyrir öll börn. "Þetta verður skemmtun sem sannarlega skiptir máli," segir á vef UNICEF.

"Rauða nefið táknar gleði og hlátur, nokkuð sem ætti að vera stór hluti af lífi allra barna. Í rauninni ættu allir að hafa rautt nef. Það er gaman að gefa og hláturinn getur lengt lífið ... í bókstaflegri merkingu," segir þar ennfremur.


Norræni loftslagssjóðurinn höfðar til einkageirans
Norræni loftslagssjóðurinn auglýsir síðar á árinu eftir tillögum að verkefnum sjöunda árið í röð. Að þessu sinni er þemað "Climate as business - Testing innovative green business concepts" Sérstök áhersla er lögð á að reyna að ná enn betur til einkageirans. Opið verður fyrir tillögur á tímabilinu 28. ágúst til 29. september 2017.
 
Norræni loftslagssjóðurinn (e. Nordic Climate Facility) er vistaður hjá Norræna þróunarsjóðnum (NDF) og veitir styrki til verkefna sem vinna að takmörkun áhrifa loftslagsbreytinga. Sjóðurinn tengir aðila á Norðurlöndunum og í þróunarríkjum, t.d. með upplýsingaskiptum um tæknilega þekkingu og nýsköpun á sviði loftslagsbreytinga. Markmið sjóðsins er að auka getu þróunarríkjanna til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga, aðlaga að áhrifum þeirra og vinna að sjálfbærri þróun og útrýmingu fátæktar.


  Sjá nánari upplýsingar um sjóðinn, umsóknarferlið og hverjir geta sótt um.

Áhugavert

Making everyone count: A clock to track world poverty in real time, eftir Homi Kharas and Wolfgang Fengler/ Brookings
-
Please, Can You Help Me Understand IDA's New Private Sector Window?, eftir Charles Kenny/ CGDev
-
Traffickers and smugglers exploit record rise in unaccompanied child refugees, eftir Kate Hodal/ TheGuardian
-
Building Bridges to end FGM
-
OFFICIAL DEVELOPMENT ASSISTANCE: A matter of enlightened self-interest/ D+C
-
'International development' is a loaded term. It's time for a rethink/ TheGuardian
-
'They call him the millionaire': the refugee who turned his camp into a business empire/ TheGuardian
-
Do we need a common knowledge platform on SDG interactions?/ Deliver2030
-
GIRLS HIT BY FOOD CRISIS EAT LEAST AND LAST/ PlanInternational
-
What is happening with USAID's business forecasts?, eftir Lisa Cornish og Arnau Rovira/ Devex
-
UK party pledges and aid: #ODIdeas
-
Aid Flows in Somalia: Analysis of aid flow data, April 2017/ ReliefWeb
-
How do you get girls to school in the least educated country on Earth?, eftir Jill Filipovic/ TheGuardian
-
Taking the Politics Out of Development, eftir Keyu Jin/ Project-Syndicate
-
Secret aid worker: why don't we practise what we preach about gender inequality?/ TheGuardian
-
European Development Days 2017 Teaser
European Development Days 2017 Teaser
-
US Already $26 Billion Short of "Fair Share" Standard for Development Aid/ CGDev
-
A Sound Choice for USAID Administrator, eftir Scott Morris/ CGDev
-
As Trump Alights in Israel, Palestinians are Descending into Darkness, eftir Nathan Thrall/ CrisisGroup
-
How to stop the global inequality machine, eftir Jason Hickel/ TheGuardian
-
Mapping Africa's energy infrastructure: open data lights the way, eftir CHRISTOPHER JAMES ARDERNE/ Alþjóðabankablogg
-
'Even if we can't go back, we'll rebuild Syria': refugee's futures in Jordan, eftir Sara Pantuliana/ ODI
-
HERE COME'S THE SUN: Solar energy is really our only answer for long-term sustainable energy/ Qz
-
Toward a Global Treaty on Plastic Waste, eftir Nils Simon og Lili Fuhr/ ProjectSyndicate
-
SUPPORTING CIVIL SOCIETY: Making democratic principles tangible/ D+C
-
Working to stop unsafe abortion for school girls/ IPPF
-
Secret aid worker: 'resettling refugees was the bane of our lives'/ TheGuardian
-
Mesmerizing maps show the global flow of refugees over the last 15 years/ UKBusinessInsider
-
Figures of the week: Infrastructure quality in Africa is stagnating/ Brookings
-
INDABA 2017 showcases the best of African tourism/ DW
-
Science and International Development Policy, eftir ANNE-MARIE SLAUGHTER og KATE HIMES/ Project-Syndicate


-
-
-
-

-
-
-
-
-
Björguðu 5.000 flóttamönnum á tveimur dögum/ RÚV
-
Five-fold increase in number of refugee and migrant children traveling alone since 2010 - UNICEF
-
Valdefling kvenna í Tansaníu/ Mbl.is
-
-
-
THE U.N., SEXUAL EXPLOITATION AND JOSEPH KONY'S SECRET HIDEOUT: THE AFRICAN CIVIL WAR YOU'VE NEVER HEARD OF/ Newsweek
-
Foreign aid is being cut, but business will keep fighting poverty/ TheGuardian
-
108 million people in food crisis countries face severe acute food insecurity - situation worsening/ FAO
-
WATER AND SANITATION: "Every farmer must have an improved latrine"/ D+C
-
Cholera outbreak in war-torn Yemen spreading at 'unprecedented' speed, UN warns/ UN
-
Drought is the new normal/ D+C
-
Southern Africa: UN, Mozambique host first-ever forum to fight trafficking of people with albinism/ UNNewsCengtre
-
GLOBALISATION: Shaking up the rural world/ D+C
-
Armyworms: The hungry caterpillar threatening a global food crisis/ TheGuardian
-
A country 'on its knees': Cholera takes hold in war-weary Yemen/ IRIN
-
Drought crisis in the Horn of Africa/ DW
-
IN SENEGAL, A NEW APPROACH TO NUTRITION DROPS CHILDHOOD STUNTING/ Alþjóðabankinn
-
Central African Republic rebels turn on each other as violence flares/ IRIN
-
Hunger Across Africa/ VOA
-
Africans traveled a little more freely across Africa last year/ Qz
-
What is famine, and how can we stop it?/ Oxfam
-
One of Africa's most stable democracies is quietly drifting into authoritarian rule/ Qz
-
Líkamspartar albínóa ganga kaupum og sölum/ RUV
-
Don't panic: the Ebola virus is back/ Qz
-
UNHCR's priorities for the next UK Government/ UNHCR
-
West Africa loses over $2 billion to illegal fishing because governments don't talk to each other/ Qz
-
Europe: 24,600 refugee children 'in limbo' at risk of mental distress, UNICEF warns/ UNNewsCentre
-
Private education is growing faster than public education in Africa/ Qz
-
One year after humanitarian summit, UN stresses reforms to put people 'at heart' of decision-making/ UN

Endurfundir eftir þrjú ár

Mikil fagnaðarlæti brutust út í Abuja í Nígeríu um helgina þegar liðsmenn vígasamtakanna Boko Haram slepptu úr haldi 82 stúlkum í skiptum fyrir fimm liðsmenn samtakanna sem höfðu verið hnepptir í svartholið. Stúlkunum var rænt fyrir þremur árum úr skóla í bænum Chibok. Af þeim 276 stúlkum sem liðsmenn Boko Haram höfðu á brott með sér eru enn um eitt hundrað á valdi mannræningjanna og engin vitneskja um dvalarstað þeirra.

Ránið á stelpunum í Chibok vakti heimsathygli og margir muna eftir slagorðinu: Bring Our Girls Back.Kyngreining starfsemi WFP í Jemen

- eftir  Guðrúnu Margréti Guðmundsdóttur jafnréttisráðgjafa hjá Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna

Ljósmynd: Mohammed Hamoud_IRIN
Í þessari grein hyggst ég segja frá áhugaverðasta og jafnframt erfiðasta verkefninu sem ég vann á meðan ég starfaði sem jafnréttisráðgjafi á Svæðisskrifstofu Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (Sþ) (e. World Food Programme (UN WFP)) í Kairó, frá nóvember 2016 til maí 2017, en ég var þar í láni frá Íslensku friðargæslunni (e. stand by partner). Verkefni þetta fólst í því að kynjagreina starfsemi WFP í hinu stríðshrjáða Jemen og kanna hvernig kynjabreytan (kynjamisrétti) hefur áhrif á mataröryggi og næringu (e. Food and nutrition security (FNS)) landsmanna og þar með hvort WFP þjóni öllum jafnt; konum, körlum, stelpum og strákum. Undir eðlilegum kringumstæðum hefði það komið í hlut landsskrifstofunnar að sinna því verki eins og skýrt er kveðið á um í jafnréttisstefnu WFP (Gender Policy 2015 - 2020) en sökum ástandsins var ég fengin í verkið. Nánar tiltekið til að vinna forvinnuna fyrir kynjaða aðgerðaráætlun landsskrifstofunnar í Jemen (e. Country Office Gender Action Plan).
 
Ég fékk þetta verkefni í hendur eftir að hafa unnið þar í hálfan annan mánuð. Ég var hæstánægð, því mér fannst ég loks hafa fengið  tækifæri til að láta ljós mitt skína. Fram að þessu hafði mér fundist ég hafa lítið fram að færa, enda nýgræðingur, reynslulaus á sviði mannúðarmála og með afar takmarkaða þekkingu á WFP, en kynjafræðina þóttist ég kunna!
 
Eftir að hafa viðað að mér bunkum af lesefni um ástand mannúðarmála í Jemen, og um yfirgripsmika starfsemi WFP síðustu árin fóru að renna á mig tvær grímur og nýendurheimta sjálfsöryggið fór veg allrar veraldar. Ég áttaði mig á því að til að geta kynjagreint ástandið yrði ég að skilja og hafa vit á ýmsum þáttum. Allt frá flutningamálum (e. logistics), skilgreiningum á ólíkum stigum neyðarástands (Phases 3, 4 and 5) svo og mataróöryggi (FNS) og vannæringu (e. malnutrition), að ógleymdri hugtaka- og skammstöfunarsúpu sem ég var tilneydd til að hafa á takteinum (s.s. EMOP, PRRO, FSN, IPC, VAM, EFSNA, GAM, SAM, MAM, GIH!). En nóg af hugarangist og sjálfsvorkunn þarna á fyrstu vikunum í Kairó. Ný skyldi ég reyna að gera gagn á nýja vinnustaðnum.
 
Guðrún Margrét Guðmundsdóttir.
Jemen: Versti staður að vera kona
Óhætt er að fullyrða að ástandið í Jemen sé hörmulegt enda landið á barmi hungursneyðar samkvæmt Sþ (e. Phase 5, Famine). Ástandið fer síversnandi og hefur áhrif á alla landsmenn og tækifæra þeirra til að afla lífsviðurværis (e. Livelihood). Þó er ástandið verst hjá kynsystrum mínum sem að auki þurfa að þola afturhaldssamt feðraveldi í menningu sem byggir á íhalds- og kvenfjandsamlegri túlkun á Íslam. Jemen er versti staður heims til að vera kona samkvæmt Gender Global Index, árið 2015 í 144. sæti af 144 sætum alls, staða sem Jemen hefur haldið óbreyttri um árabil. Börn, minnihlutahópar, innflytjendur og flóttamenn eiga einnig undir högg að sækja.
 
Allt frá því að allsherjar stríðsátök brutust út í Jemen við innrás Sádí Arabíu og bandalagsins í mars 2015 hefur ástandið hríðversnað en þar áður hafði þegar ríkt neyðarástand, m.a. vegna viðvarandi fátæktar og vanþróunar, svæðisbundinna átaka, veiks réttarkerfis og margs konar mannréttindabrota. Jemen var þegar í 8. sæti yfir þau lönd sem ríkir mesta mataróöryggi heims samkvæmt Global Hunger Index. Í október 2015 þótti WFP ljóst að breyta yrði áherslum í neyðaraðstoð eingöngu (Emergency Operation (EMOP)). Nú yrði að leggja kapp á að bjarga mannslífum og lífsviðurværi (e. Objective 1) og ekki lengur möguleiki að sinna öðrum verkefnum.
 
Í dag er talið að af 27.4 milljónum landsmanna búi 17.1 milljón við mataróöryggi og þar af 7.3 milljónir við alvarlegt mataróöryggi (e. severe food insecurity) og vannæring á meðal barna ein sú mesta í heiminum. Alls 3.3 milljónir landsmanna þjást af vannæringu og er stærstur hluti þeirra konur og börn. Segja má að Jemen sé í lamasessi. Fjöldi stofnana lokaðar og þjónusta við borgarana nær engin. Skólar og spítalar lokaðir og fáir dómstólar virkir. Innflutningur matar og nauðsynja gengur erfiðlega, bæði vegna hruns gjaldmiðilsins og eyðileggingar á helstu samgönguæðum, einkum hafna sem hafa verið eyðilagðar af stríðandi fylkingum. Þær gera WFP og annarra stofnana lífið leitt og koma í veg fyrir að þær geti sinnst skyldum sínum, m.a. með að stöðva bílalestir með mat og nauðsynjar, handtaka starfsmenn Sþ og koma í veg fyrir að Jemenar geti sótt sér aðstoð. Sífellt fleiri Jemenar þrauka vegna mannúðaraðstoðar með hagkerfi í molum og skert tækifæri til að  afla sér lífsviðurværis. Yfir tvær milljónir manna eru nú á vergangi innan landmæra Jemen (e. Internally displaced people (IDPs)) og eiga konur á hættu að vera hlunnfarnar, einkum einstæðar mæður sem hafa enga vernd karlkyns ættingja (eiginmanns, föður, bróður) og þær konur sem tilheyra minnihlutahópum og búa í bráðabirgðaflóttamannabúðum.
 
Ástandið bitnar illa á konum eins og gefur að skilja í ljósi landlægrar kvenfyrirlitningar. Fullyrt er að tíðni kynferðisbrota á konum hafi aukist eftir að stríðsátök hófust fyrir rúmum tveimur árum. Einnig giftingar á stúlkubörnum og fjölkvæni. Konur hafa enn takmarkaðri möguleika á að afla sér lífsviðurværis og lágt hlutfall auðlinda í þeirra eigu, sem skýrir varnarleysi þeirra þegar kemur að vannæringu. Í jemensku stjórnarskrá eru konur ekki lögráða þær eru skilgreindar sem "systur karlmanna" (e. sisters of men) en ekki sjálfstæðar persónur. Eins og gefur að skilja hefur það áhrif á allt lífshlaup þeirra og hamlar frelsi að öllu leyti en til að komast á milli staða, sækja um nám eða vinnu eða leita sér læknisaðstoðar þarf nákominn ættingi að vera með í för eða samþykkja.
 
Ljóst er að verkefnið neyddi mig til þess að læra heil ósköp á stuttum tíma og brátt jókst sjálfstraustið þegar hlutir skýrðust. Ég áttaði mig loks á hlutverki hinnar risavöxnu maskínu Sþ og þá einkum umboðsstofnunar minnar WFP til að berjast gegn hungri í heimum. Í því samhengi skipti ég og mitt viðkvæma egó engu.
 
facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105