Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
9. árg. 300. tbl.
21. september 2016
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hafið í New York:
Heimsmarkmiðin - samstillt átak allra til umbreytinga á heiminum
Samantekt BBC um flóttamannavandann sem verður áberandi umræðuefni á allsherjarþingi SÞ.
Samantekt BBC um flóttamannavandann sem verður áberandi umræðuefni á allsherjarþingi SÞ.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna verða í brennidepli á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem hófst síðdegis í gær og stendur yfir í heila viku. Lilja Alfreðsdóttir ávarpaði leiðtogafundinn fyrir hönd Íslands í gær en þjóðarleiðtogar frá öllum heimshornum eru komnir til New York á 71. allsherjarþing SÞ. Umræður hófust  síðdegis í gær og það er enginn hörgull  á erfiðum alþjóðlegum viðfangsefnum en flóttamannavandinn í heiminum, hryðjuverk, loftslagsmál og kjarnorkuvá eru meðal umræðuefna sem verða efst á baugi.

What They Took With Them / Flóttamannastofnun SÞ
What They Took With Them / Flóttamannastofnun SÞ
Alls eru samankomnir á þessum árlega umræðuvettvangi Sameinuðu þjóðanna rúmlega 140 háttsettir fulltrúar þjóða og ríkisstjóra. Heimsmarkmiðin sem samþykkt voru á síðasta ári og tóku við af þúsaldarmarkmiðunum í upphafi þessa árs eru þema þingsins með undirtitlinum:  samstillt átak allra til umbreytinga í heiminum.

Flóttamannavandinn verður áberandi í umræðunni fyrstu daga þingsins en á mánudag var haldinn fyrsti leiðtogafundur sögunnar þar sem eingöngu var fjallað um málefni flótta- og farandfólks. Samkvæmt frétt Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (UNRIC) var markmiðið að fylkja þjóðum heims um mannúðleg og samhæfð viðbrögð við umfangsmiklum fólksflutningum sem hafa ekki verið meiri í sjö áratugi. Á fundinum var samþykkt svokölluð New York yfirlýsing þar sem ríki heims lýsa yfir pólitískum vilja sínum til að vernda réttindi flóttamanna og farandfólks, að bjarga mannslífum og deila ábyrgðinni á hinum miklu fólksflutningum samtímans um víða veröld.

Lilja minnti á flutninga norræna manna til Íslands
 
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra sagði í ræðu sinni sinni á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um flótta- og farandfólk í New York á mánudag að ekki væri hægt að takast á við mikinn fjölda flótta- og farandfólks í heiminum í dag, án þess að grafast fyrir um rætur vandans. Þetta kemur fram í frétt á vef Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna.
 
 "Þar sem ójöfnuður er rót vandans, verðum við að auka jöfnuð. Við verðum að uppræta örbirgð í heiminum og fjölga tækifærum. Á sama tíma verðum við að tryggja fullnægjandi og réttlátan ramma utan um flutninga fólks bæði lagalega og í reynd," sagði Lilja.  Hún sagði að fólksflutningar í stórum stíl væru ekki slæmir í eðli sínu og minnti á að mörg samfélög nútímans hefðu orðið til við umfangsmikla þjóðflutninga.

"Ég stend hér sem utanríkisráðherra Íslands vegna þess að fyrir ellefu hundruð árum, lögðu hópur norrænna karla og kvenna í hættulega langferð í leit að betra lífi. Ísland, algjörlega óbyggð eyja, varð nýtt heimili þeirra."

Sameinuðu þjóðirnar í herferð gegn útlendingahatri
Sameinuðu þjóðirnar hafa ýtt úr vör nýrri herferð sem ber heitið: Saman - virðing, öryggi og sæmd fyrir alla. "Ef við tökum höndum saman getum við brugðist við vaxandi útlendingahatri og breytt ótta í von. Ég hvet veraldarleiðtoga til þess að ganga til liðs við herferðina og skuldbinda sig til að verja réttindi og sæmd allra þeirra sem eru þvingaðir til að flýja heimili sín i leit að betra lífi," sagði Ban Ki-moon aðalframkvæmdastjóri  SÞ þegar hann tilkynnti um átakið.

Hægt er að fylgjast með umræðum á allsherjarþinginu á vef


Tæplega 80 milljónir til þróunarsamvinnu-verkefna íslenskra borgarasamtaka

Stúlkubarn í fátækrahverfi Kampala. Ljósmynd: gunnisal

Utanríkisráðuneytið veitti í þessum mánuði fimm styrki til þróunarsamvinnuverkefna á vegum íslenskra borgarasamtaka. Alls nema styrkirnir tæplega 80 milljónum króna en hæstu styrkirnir fóru til Rauða krossins á Íslandi vegna langtímaverkefnis til aðstoðar við geðfatlaða í Hvíta-Rússlandi, 31,4 milljónir króna til tveggja ára, og til Hjálparstarfs kirkjunnar sem hlaut 26,4 milljóna króna styrk til þriggja ára vegna langtímaverkefnis til valdeflingar ungs fólks í fátækrahverfum Kampala, höfuðborgar Úganda.

Úthlutanir styrkja voru eftirfarandi:
  • 31,4 milljónir til tveggja ára - Rauði krossinn á Íslandi vegna aðstoðar við geðfatlaða í Hvíta-Rússlandi 2017-2018.
  • 26,4 milljónir til þriggja ára - Hjálparstarf kirkjunnar vegna valdeflingar ungs fólks í fátækrahverfum Kampala í Úganda.
  • 12,2 milljónir - Samband íslenskra kristniboðsfélaga vegna menntaverkefnis í Kenía.
  •  7,4 milljónir - Rauði krossinn á Íslandi vegna uppbyggingar í upplýsinga- og samskiptatækni 10 landsfélaga Rauða krossins í lágtekjuríkjum Afríku.
  • 1,8 milljónir - Alnæmisbörn vegna vatnsverkefnis verkmenntaskóla CLF (Candle Light Foundation) í Úganda.
Styrkir utanríkisráðuneytis til borgarasamtaka vegna þróunarsamvinnuverkefna eru unnir samkvæmt stefnumiði um slíkt samstarf og verklagsreglum ráðuneytisins. Umsóknarfrestur fyrir verkefni íslenskra borgarasamtaka á sviði þróunarsamvinnuverkefna er 1. júní ár hvert.
Fjárfesting í menntun í síbreytilegum heimi:
Við blasir að börn í fátækum ríkjum verði föst í viðjum fátæktar vegna menntunarskorts

Söngkonan Shakira talar fyrir menntun ungs fólks/ EducationCommittment
Söngkonan Shakira talar fyrir menntun ungs fólks/ EducationCommittment
Tvö af hverjum þremur börnum í lágtekjuríkjum koma ekki til með að tileinka sér grunnfærni í námi fyrir árið 2030 þrátt fyrir metnaðarfull markmið um að sérhvert barn eigi kost á skólagöngu og námi, segir í nýrri skýrslu sem kom út á mánudaginn og nefnist: Fjárfesting í menntun í síbreytilegum heimi.

Skýrsluhöfundar segja að brýnt sé að ríkisstjórnir auki fjárfestingu í menntun því ella blasi við að börn í lágtekjuríkjum verði föst í viðjum fátæktar og skilin eftir án þeirrar færni og þekkingar sem þarf til að þau geti lagt sitt af mörkum til samfélagsins á fullorðinsaldri.

Anthony Lake framkvæmdastjóri Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) sagði í tilefni af útgáfu skýrslunnar að hvert og eitt barn hvarvetna í heiminum ætti ekki aðeins rétt á sæti í skólastofu heldur rétt á gæðakennslu.

Skýrslan sýnir að rúmlega 1,5 milljarður fullorðinna komi til með að hafa enga aðra menntun en grunnskólanám árið 2030.  UNICEF tekur undir tillögur skýrsluhöfunda um úrbætur og kallar eftir hækkun framlaga til menntamála úr 3% í 5% til að bregðast við því sem mætti kalla alþjóðlega menntakreppu.
Meðal þess sem fram kemur í skýrslunni er að helmingur yngri barna í grunnskólum nær ekki tökum á undirstöðuatriðum í námi og fjórðungur barna í efri bekkjum grunnskóla. Það þýðir að 330 milljónir barna á grunnskólaaldri fara út úr skóla án þess að kunna skil á einföldustu atriðum. Að mati skýrsluhöfunda eykst vandinn í hlutfalli við mannfjölgun í lág- og millitekjuríkjum en spár gera ráð fyrir því að 1,4 milljarðar grunnskólabarna verði á skólabekk árið 2030. Þá segir í skýrslunni að helmingi fleiri stelpur en strákar komi aldrei til með að hefja skólagöngu.

Miklar breytingar á danskri þróunarsamvinnu:
Þjóðir Vestur-Afríku í forgrunni en dregið úr stuðningi við þjóðir í Asíu og Suður-Ameríku 

Fátækar þjóðir í Vestur-Afríku koma til með að vera í forgangi í danskri þróunarsamvinnu í tíð ríkisstjórnar Venstre flokksins sem tók við völdum fyrr á árinu. Þróunarsamvinna Dana hefur ekki í annan tíma breyst meira, segir GlobalNyt. Aðrar samstarfsþjóðir Dana í Afríku bera skarðan hlut frá borði og Asíuþjóðir og þjóðir Suður-Ameríku fá nánast ekkert.

Friður og stöðugleiki eru leiðarstef í danskri þróunarsamvinnu og baráttan gegn ofbeldisverkum öfgasamtaka er í forgrunni á átakasvæðum þar sem óstöðugleiki ríkir eins og í Sýrlandi, Írak, Afganistan, Sahel svæðinu í Afríku og á Horni Afríku. Danska ríkisstjórnin ætlar á næsta ári sérstaklega að beina sjónum að ástandinu á Sahel svæðinu og verja 855 milljónum danskra króna (tæpum 16 milljörðum ísl. kr.) til samstarfslanda í þessum heimshluta, þ.e. til Malí, Níger og Burkina Fasó.

Þá verður ráðstafað 250 milljónum danskra króna (4,4 milljörðum ísl. kr.) vegna Palestínu og litlu minna til samstarfsverkefnis sem nefnist "Dansk-Arabiske Partnerskabsprogram". Ennfremur verður áfram mikill stuðningur í mannúðarmálum við Suður-Súdan, fyrst og fremst í gegnum dönsk borgarasamtök.  Nánar má lesa um áhersluatriði Dana í þróunarsamvinnu í nýútkominni stefnu stjórnvalda: Priorities 2017-2020.
Flótta- og farandfólk ferðast í miklum mæli með leynd til Evrópu


Flóttafólki sem kemur sjóleiðina að ströndum Evrópuríkja á Miðjarðarhafi hefur fækkað mjög frá síðasta ári. Það sem af er ári telst bátafólk vera um 300 þúsund samanborið við 1,1 milljón á sama tíma í fyrra. Samkvæmt nýrri úttekt bresku fræðastofnunarinnar Overseas Development Institute (ODI) eru sjófarendur meðal flóttamanna sýnilegasti hlutinn en skýrslan varpar ljósi á aðrar og minna áberandi leiðir sem flótta- og farandfólk velur á leið sinni til Evrópu. Úttektin leiðir í ljós að milljörðum evra af opinberu fé er varið í varnir gegn fólkinu en jafnframt að þær varnir skili litlum árangri.

Með annars vegar samanburði á opinberum tölum um komur flótta- og farandfólks til Ítalíu og Grikklands á síðustu tveimur árum og hins vegar tölum um hælisleitendur í ríkjum Evrópubandalagsins kemur mikið misræmi í ljós. Í skýrslunni segir að á árinu 2014 hafi verið skráð 1,1 milljón innflytjenda en hælisumsóknir hafi verið 1,7 milljónir talsins. Það bendi til þess að 600 þúsund manns hafi komist yfir til Evrópu með leynilegum hætti.

Skýrsluhöfundar telja misræmið jafnvel enn meira á þessu ári og reikna megi með að í lok árs verði hælisumsóknir 890 þúsund en skráðar komur flótta- og farandfólks um 330 þúsund. Þá segir að þegar horft sé til lengri tíma, síðustu sjö ára, komi á daginn að meirihluti hælisleitenda fari með leynilegum hætti til Evrópu, fari landveg í farangursgeymslum bíla, fljúgi til Evrópulanda með fölsuð skilríki eða komi með lögmæta vegabréfsáritun og sæki um hæli.

Meðal þess sem ODI ráðleggur ríkisstjórnum Evrópuríkja er að auðvelda og fjölga löglegum leiðum til að eiga þess kost að fylgjast betur með og stýra flæði flótta- og farandfólks inn í álfuna.

Helstu atriði úttektarinnar eru settar fram á myndrænan hátt í meðfylgjandi myndbandi.

Tíunda útskrift Landgræðsluskólans:
Ellefu sérfræðingar útskrifast úr Landgræðsluskóla Háskóla SÞ

Árlegu sex mánaða námi við Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna lauk í síðustu viku þegar 11 sérfræðingar frá sjö löndum í Afríku og Mið-Asíu útskrifuðust við hátíðlega athöfn á starfsstöð Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti í Reykjavík. Nemarnir komu að þessu sinni frá Kirgistan og Mongólíu í Mið-Asíu og Gana, Malaví, Níger, Lesótó og Úganda í Afríku, fimm konur og sex karlar. Þetta var í tíunda sinn sem útskrifaðir voru sérfræðingar úr  Landgræðsluskólanum og er heildarfjöldi útskrifaðra kominn í 87 og er kynjaskiptingin nánast jöfn eða 48% konur og 52% karlar.

Það var ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, Stefán Haukur Jóhannesson, og rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, Björn Þorsteinsson, sem afhentu nemunum útskriftarskírteinin og flutt voru nokkur ávörp. Í ávarpi ráðuneytisstjóra var komið inn á mikilvægi landgræðslu og sjálfbærrar landnýtingar til að tryggja fæðuöryggi og draga úr áhrifum loftslagsbreytinga. Nýr landgræðslustjóri, Árni Bragason, sem jafnframt er formaður stjórnar Landgræðsluskólans, ávarpaði útskriftarhóp í fyrsta skiptið en hann tók við embætti í maí sl. Einnig fluttu tveir nemar skólans ræðu fyrir hönd hópsins, þau Zhyrgalbek Kozhomberdiev frá Kirgistan og Mariama Boubou Diallo Oumarou frá Níger (sjá mynd).

Meginmarkmið Landgræðsluskóla HSþ er að aðstoða þróunarlönd sem glíma við mikla landhnignun að stuðla að sjálfbærri landnýtingu og græða upp illa farið land. 
Það er gert með því að bjóða hingað til lands sérfræðingum frá samstarfsstofnunum Landgræðsluskólans á sex mánaða námskeið í landgræðslu, sjálfbærri landnýtingu og endurheimt vistkerfa. Námið byggir upp þekkingu innan viðkomandi stofnana og landa með þjálfun starfsfólksins sem hingað kemur, sem deilir síðan reynslu sinni og þekkingu þegar heim er komið.

Landgræðsla og sjálfbær landnýting er mikilvægur hluti af sjálfbærri þróun og heimsmarkmiðum SÞ sem samþykkt voru á síðasta ári. Landgræðsluskólinn vinnur í anda þeirra markmiða en eitt þeirra (nr. 15) snýr að því að stöðva landeyðingu, græða upp illa farið land og stuðla að sjálfbærri nýtingu landvistkerfa.  Ef okkur jarðarbúum tekst að ná þessu markmiði munum við einnig auka fæðuöryggi og minnka þar með hungur og fátækt, stuðla að betri heilsu og tryggara aðgengi að hreinu vatni og draga úr áhrifum loftslagsbreytinga. Með því að vinna að markmiði nr. 15 vinnum við því að mörgum öðrum Heimsmarkmiðum SÞ.

Hafdís Hanna Ægisdóttir er forstöðumaður Landgræðsluskóla HSþ og við skólann starfa auk hennar Berglind Orradóttir og Halldóra Traustadóttir. Þar að auki kemur fjöldi manns að kennslu við skólann, og eru helstu kennarar prófessorar og sérfræðingar við Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslu ríkisins.


Alþingi samþykkir Parísarsamninginn

"Fullgilding Íslands á Parísarsamningnum undirstrikar okkar vilja til að halda áfram að skipa okkur áfram meðal þeirra ríkja sem vilja sýna metnað í aðgerðum vegna loftslagsmála. Þetta þýðir það að samningurinn er að leggja grunninn að stefnumörkun til framtíðar og verður vegvísir í mörgum málaflokkum, bæði fyrir stjórnvöld, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga," sagði Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra í viðtali við fréttastofu RÚV á mánudag en þá hafði Alþingi samþykkt þingsályktunartillögu hennar um að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samkomulagið sem náðist á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna fyrir tæpu ári. Utanríkisráðherra gengur frá fullgildingunni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í dag.

Samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum á Alþingi á mánudag að heimila fullgildingu Parísarsamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál. Samningurinn öðlast gildi þegar að minnsta kosti 55 ríki með 55% af heimslosun hafa fullgilt hann og Ísland varð með atkvæðagreiðslunni á mánudag í hópi 28 ríkja sem þegar hafa fullgilt samninginn, þeirra á meðal Bandaríkin og Kína.
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði samninginn fyrir Íslands hönd í New York í apríl síðastliðnum, en hann skuldbindur ríki heims til að vinna saman að því að bregðast við loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra. 


Lilja talaði við Ban Ki-moon á kóresku!

"Þegar ég bjó í Suður-Kóreu var Ban Ki-moon rísandi stjarna í heimi þarlendra embættismanna. Hann átti síðar eftir að verða sendiherra, utanríkisráðherra og að lokum framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Í árslok lætur hann af því embætti eftir 10 ára farsælt starf. Það var mér sannur heiður að funda með honum í höfuðstöðvum samtakanna í New York og ég stóðst ekki mátið og reyndi að spjalla aðeins á kóresku. Hann gladdist og svaraði í sömu mynt, en færði sig fljótlega yfir í ensku. Líklega er það til marks um að ég sé orðin nokkuð ryðguð í þessu framandi en fallega tungumáli :)," skrifaði Lilja Alfreðsdóttir í Fésbókarfærslu í vikubyrjun um fund sinn með Ban Ki-moon aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

Lilja bætti við að fundurinn hefði verið góður. "Við ræddum ýmis mál en sérstakar þakkir vildi hann færa Íslendingum fyrir að tala fyrir jafnréttismálum og leggja SÞ lið í því mikilvæga verkefni."

Því er við að bæta að Ban Ki-moon flytur aðalræðu á þingi Arctic Circle - Hringborði Norðurslóða - sem haldið verður í Reykjavík í næsta mánuði,  7.-9.október. Þetta verður önnur heimsókn Ban Ki-moon til Íslands en hann ræddi við íslenska ráðamenn og flutti fyrirlestur í hátíðarsal Háskóla Íslands sumarið 2013.


Óskað eftir styrkumsóknum vegna mannúðarverkefna

Utanríkisráðuneytið óskar eftir styrkumsóknum frá íslenskum borgarasamtökum vegna mannúðaraðstoðar. Til ráðstöfunar að þessu sinni verða allt að 75 milljónir króna. Umsóknarfrestur er til og með 15. október 2016.

Farið verður eftir verklagsreglum utanríkisráðuneytisins um samstarf við borgarasamtök frá 2015 við úthlutun styrkja. Í reglunum er að finna vinnulag og önnur viðmið sem notuð eru við mat á umsóknum auk skilyrða sem borgarasamtök verða að uppfylla til að geta sótt um styrki. Horft er til gæða og árangurs verkefna. Litið er á skilvirkni og kröfur gerðar um vönduð og fagleg vinnubrögð, sem eru lykilatriði við ákvarðanatöku um framlög. Verklagsreglurnar byggjast m.a. á alþjóðlegri stefnu og starfsaðferðum við styrkveitingar úr opinberum sjóðum og stefnumiðum ráðuneytisins í samstarfi við íslensk borgarasamtök í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð 2015-2019. 

Einungis verður tekið við umsóknum sem skilað er inn á þar til gerðum eyðublöðum og sendar eru á netfangið borgarasamtok.styrkir@mfa.is fyrir kl. 23:59 þann 15. október 2016. 

Áhugavert

Which Countries Have the Best Migration Policies?, eftir Owen Barder ofl./ CGDev
-
Towards a 'Challenge-Driven' International Relations Education?, eftir Daniel Clausen/ GlobalPolicy
-
Melinda Gates: The U.N. Must Focus on Gender Equality/ TIME
-
Mobile app raises awareness of Global Goals, connects people who want to make a difference/ SÞ
-
On the road to sustainable growth: measuring access for rural populations, eftir Edie Purdie/ Alþjóðabankablogg
-
#YesAllGirls: Malala talks about the refugee crisis/ MalalaFund
-
Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna og Heimsmarkmið 2, eftir Rut Einarsdóttur/ Félag Sameinuðu þjóðanna
-
Automation will end the dream of rapid economic growth for poorer countries, eftir Andrew Norton/ TheGuardian
-
Heimsmarkmiðin röppuð/ FlocabularyYT
Heimsmarkmiðin röppuð/ FlocabularyYT
-
The hidden failure of Europe's migration policy billions/ IRIN
-
Global Action Report 2016/ DiplomaticCourier
-
Educational resources from the world´s leading experts on sustainable development/ SDGacademy
-
There's no magic wand - creating jobs won't simply solve the world's problems, eftir Deborah Doane/ TheGuardian
-
Norden og de nye aktører på bistandsmarkedet/ GlobalNyt
-
Only seven people in the world speak this Kenyan language-and now they are trying to save it/ Qz
-
Forced displacement, poverty and financing: Seven facts you need to know/ DevInIt
-
Our commitment matters: Let's invest together to reach the Global Goals, eftir Gayle Smith/USAid
-
Using the Data Revolution to Solve the Malnutrition Crisis, eftir Stephan B. Tanda/ HuffingtonPost
-
59 Organizations Fighting Food Loss and Waste/ FoodTank
-
Before the raid: behind the scenes at Uganda's gay pride - in pictures/ TheGuardian

Fræðigreinar og skýrslur
Fréttir og fréttaskýringar

Samningur SÞ um réttindi fatlaðra fullgiltur/ RUV
-
Edda Hamar valin í hóp leiðtoga sjálfbærrar þróunar/ UNRIC
-
Infographic: Migrant domestic workers - Facts everyone should know/ UNWomen
-
Með mannúð að leiðarljósi - ítarleg fréttaskýring Mbl.is um mótttöku flóttamanna og viðhorf stjórnmálaflokka/ Mbl.is
-
Árás á bílalest í Sýrlandi/ UNICEF
-
For The Goals To Work, People Need To Know About Them/ GlobalGoals.org
-
'15 Years Behind Bars in Eritrea' - HRW wants EU and allies to act/ AfricaNews
-
As the EU cracks, Africa is pinning its hopes on a single passport/ TheGuardian
-
Ethiopia's Unrest Sparked by Unequal Development Record, eftir Jon Abbink/ GlobalObservatory
-
Nearly Two-Thirds of Refugee Children Attend No School, U.N. Says/ NYTimes
-
Behind the headlines: daily life for Red Crescent workers in Syria/ TheGuardian
-
Úganda: Agriculture: A Driver of Growth and Poverty Reduction/ Alþjóðabankinn
-
UN Commission: New investments in global health workforce will create jobs and drive economic growth
-
Regional powers back studies on impact of Ethiopia's Nile dam/ Reuters
-
A fitful start for Priti Patel's DfID/ Devex
-
President Jin Visits Iceland, Sweden and Norway, September 8-14, 2016/ EUWeb
-
My fury at our wasted foreign aid: International development secretary Priti Patel pledges a major overhaul of the £12billion budget/ DailyMail
-
Live Q&A: $114bn a year needed for water and toilets - where will it come from?
-
Fuel 'too dirty' for Europe sold to Africa/ BBC
-
#REFUGEESWELCOME: HELPING THE HELPERS/ UNDP
-
Ending Global Hunger Through Private Sector, Civil Society and Government Collaboration, eftir Raymond C. Offenheiser/ DiplomatiaCourier
-
Delivering change: beyond investing in girls/ ODI
-
Health care in Rwanda: An African trailblazer/ Economist
-
Filmstjerne for utviklingsmål/ Bistandsaktuelt
-
Southern Africa's Working-Age Population Presents Potential for Growth/ Alþjóðabankinn

-
Mozambique: some progress in torture prevention, but significant challenges remain - UN experts/ UNHCR
-
A Nuanced but Firm Political Approach for DR Congo's Decisive Autumn/ Crisisgroup
-
Burkina Faso: Preserving the Religious Balance/ Crisisgroup
-
In the Tracks of Boko Haram in Cameroon/ Crisisgroup
-
Indigenous people need control over digital tech/ SciDev
-
"Heima er þar sem hjartað slær"/ UNRIC
-
FAO launches the first electronic voucher scheme in Mozambique/ FAO
-
Global Fund sees new donors, persistent gaps
-
Milljónir vannærðar í Sómalíu/ RUV
-
Higher education access targets 'set to be missed' in the developing world/ TimesHigherEducation

Svíar hækka framlög til þróunarsamvinnu

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi sænsku ríkisstjórnarinnar verða framlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu hækkuð á næsta ári úr 0,98% af þjóðartekjum upp í 0,99%. Vegna hækkandi þjóðartekna milli ára er hækkunin meiri í sænskum krónum eða 2,8 milljarðar eða hartnær 40 milljarðar íslenskra króna. Heildarframlögin á næsta ári nema 46,1 milljarði sænskra króna - 570 milljörðum í íslenskum krónum.

Alþjóðlegur dagur friðar í dag

Þetta með vatnið og klósettin - tölum um Mósambík

- eftir Vilhjálm Wiium forstöðumann sendiráðs Íslands í Mapútó

Frá Sambesíufylki þar sem ICEIDA og UNICEF starfa saman að verkefni um betri aðgang að vatni og salernisaðstöðu. Ljósmynd: gunnisal
Æ, alltaf er nú gott að bursta í sér tennurnar á morgnana, sturta niður morgunverkunum og tala nú ekki um að fara í sturtu. Sum okkar nota smávegis af heitu vatni til að skafa óþarfa hár af andlitinu. Ó, og fyrsti kaffi- eða tebollinn, sá rennur nú ævinlega ljúft niður. Smávegis vatn úr krananum fer í hraðsuðuketilinn eða kaffivélina og fyrr en varir situr maður með bollann við eldhúsborðið. Lífið er ljúft.
 
En í Mósambík kannski ekki.
 
Í dag er smávegis af íslensku þróunarfé varið til vatns- og salernismála í Sambesíu-fylki í norðanverðri Mósambík. Þar er veitt 3,5 milljónum bandaríkjadala á fjögurra ára tímabili til verkefnis sem hefur að markmiði að bæta heilsu, menntun og almenna velferð í dreifbýli og dreifbýlisskólum innan þess svæðis. Verkefnið er unnið í samstarfi við Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (Unicef) og er heildarkostnaður 8,1 milljón dala. Borið saman við aðstæður við upphaf verkefnisins, þá er planið að 300 þúsund manns til viðbótar séu í þokkalegum málum hvað varðar salerni, að 48 þúsund manns til viðbótar fái aðgang að betrumbættri vatnsuppsprettu og að 14 þúsund nemendur í 40 skólum hafi aðgang að betrumbættri vatnsuppsprettu og salernisaðstöðu.
 
En, hver er stóra myndin í Mósambík? Ættum við að gefa í eða er þetta bara fínt? Kannski er þetta bara óþarfi?
 
Samkvæmt Hagstofu Mósambíkur er íbúafjöldi landsins rúmlega 26,4 milljónir manna á yfirstandandi ári. Talan er reyndar ágiskun, uppreiknuð frá manntali sem gert var 2007. Haldið er að hrein fjölgun fólks í landinu frá í fyrra hafi verið u.þ.b. 695 þúsund manns. Tvöfaldur íbúafjöldi Íslands og ríflega það. Og við skulum átta okkur á því að hér er að sáralitlu leyti um innflytjendur að ræða sem fara á vinnumarkaðinn og leggja sitt af mörkum til að halda hjólum atvinnulífsins gangandi. Nei, nei, hér er fyrst og fremst um að ræða ungabörn sem fæðst hafa á árinu. Í Mósambík eru nær 45% mannfjöldans undir 15 ára aldri. Sem þýðir að af þeim 26,4 milljónum sem í landinu búa í dag eru börn 11,8 milljónir. Hellingur þeirra svosum vinnur á ökrum landsins eða við eldamennsku undir stjórn móður sinnar, nú eða að líta eftir geitum eða yngri systkinum. Og mörg þessara barna, fyrst og fremst stúlkur, bera ábyrgð á að sækja vatn. Vatn til drykkjar, eldamennsku og þrifa. Ef börnin vinna mikið fer auðvitað lítið fyrir skólagöngu.
 
Rétt innan við 68% íbúa Mósambíkur búa í dreifbýli. Næstum því 18 milljónir. Átján milljónir. Til samanburðar þá búa milli 16 og 17 milljónir í Danmörku, Noregi og Finnlandi samtals. Eins og við þá þarf þetta fólk á vatni að halda. Hvaðan kemur það vatn? Hversu hreint skyldi það vera? Jú, nýlegar tölur gefa til kynna að 37% íbúa í mósambísku dreifbýli hafi aðgang að "betrumbættri vatnsuppsprettu." Betrumbætt í þessu samhengi þýðir að uppspretta vatnsins er að öllum líkindum varin gegn utanaðkomandi mengun. Þótt ýmiskonar mengun geti komist í vatn er hér fyrst og fremst verið að spá í saurmengun. U.þ.b. 7 milljónir manna í dreifbýli í Mósambík hafa samkvæmt þessu aðgang að þess háttar vatni. En, þetta segir okkur líka að vatnsuppsprettur sem ríflega 11 mllljónir manna nota eru líklegar til að vera saurmengaðar a.m.k. hluta úr ári. Þetta jafngildir því að allir íbúar Danmerkur og allir íbúar Noregs og allir íbúar Íslands notuðu vatn sem gæti verið saurmengað.
 
Að neyta saurmengaðs vatns getur leitt til margs konar sjúkdóma, sumra mjög hættulegra. Kólera er þar ofarlega á blaði. Bráðhættulegur sjúkdómur. Niðurgangspestir þykja okkur Íslendingum ekki mikið mál að eiga við. En til að komast fyrir þess háttar pestir þarf aðgang að hreinu vatni. Annars þornar fólk hreinlega upp og deyr.
 
Ef við skoðum klósettmál í mósambísku dreifbýli, þá þyrmir eiginlega yfir mann. Í klósettmálum er líka talað um "betrumbætta" salernisaðstöðu. Betrumbætt salernisaðstaða er skilgreind sem sú sem heldur mannasaur frá snertingu við fólk. Þannig að þegar fólk er búið að létta á sér þá lendir saurinn í einhvers konar einangrun. Dæmi eru skólpræsakerfi og rotþrær. Í dreifbýli í Mósambík hafa 10% aðgang að betrumbættri salernisaðstöðu. Fyrirgefiði, ég skrökva, talan er víst 10,1%. Sem þýðir jú að 89,9% hafa ekki aðgang. Það jafngildir 16,2 milljónum manna. Noregur, Danmörk og Finnland.
 
Við skulum reyna að skilja þetta. Saur frá 16 milljónum manna er líklegur til að geta komist í snertingu við fólk og þar með valdið allskyns sjúkdómum.  Til að bæta gráu ofan á svart eru 11 milljónir af þessu fólki ekki með aðgang að betrumbættri vatnsuppsprettu. Reynið að ímynda ykkur ástandið á regntímanum. Og í Mósambík rignir þegar það rignir. Rigningin bylur á jörðinni og þynnir út og kemur hreyfingu á saur frá 16 milljónum manna. Hvað verður um saurinn? Jú, hann rennur auðvitað af stað með vatninu, út í árfarvegi og blandast út í óvörðu vatnsuppspretturnar. Sömu vatnsuppspretturnar og 11 milljónir manna sækja sér vatn úr til drykkjar, eldamennsku og þrifa. Fólk drekkur saurblandað vatn, eldar matinn upp úr saurblönduðu vatni og þrifur síðan diskana úr saurblönduðu vatni.
 
Þarf ekki að gera eitthvað í þessu? Ættum við ekki að gefa í?
 
Vangaveltur um vald og valdleysi

Ljósmynd frá Malaví: Ása María.
- eftir Ásu Maríu H. Guðmundsdóttur starfsnema í Malaví

Í sendiráðum Íslands í Malaví, Mósambík og Úganda starfa þrír starfsnemar sem líkt og undanfarin ár hafa fallist á beiðni Heimsljóss um pistlaskrif þann tíma sem þeir dvelja í samstarfslöndum Íslendinga. 

Um daginn sat ég á spjalli hér í Lilongwe, sem er nú vart í frásögur færandi nema hvað að allt í einu var ég farin að reyna að svara því hvenær ég ætlaði nú eiginlega að gifta mig og eignast börn og þetta er eitthvað sem ég veit að margar kynsystur mínar þekkja mjög vel. Þetta er ekki í fyrsta skiptið og sennilega ekki það síðasta sem ég fæ þessar spurningar og mér tókst nú nokkuð vandræðalaust að útskýra áætlanaleysi mitt í þessum efnum og koma því til skila að framtíðin væri enn óráðin. En þrátt fyrir það að hafa fengið þessar spurningar áður og margoft ranghvolft augunum yfir því að þurfa yfir höfuð að vera að svara þeim, þá horfðu þær öðruvísi á mig í þetta skiptið einfaldlega vegna þess hvar ég er stödd í heiminum. Ég áttaði mig á því hversu heppin ég er að geta bara ekki vitað svarið, að geta ákveðið það sjálf hvort eða hvenær ég ætla að gera þessa hluti. Ég áttaði mig á að ég get neitað því að svara þessum spurningum og að enginn getur krafið mig um neitt hvað mitt eigið líf og líkama varðar. Ég segi heppin vegna þess að þrátt fyrir það að það séu mannréttindi að hafa vald yfir eigin líkama og að sjálfsákvörðunarréttur einstaklingsins eigi að vera sjálfsagður hlutur þá er raunin einungis sú fyrir minnihluta mannkyns. Valdleysi yfir eigin lífi og líkama er eitthvað sem milljónir manna standa frammi fyrir á hverjum degi og þar eru konur í miklum meirihluta fórnarlamba. Þessi svipting á mannréttindum finnst í samfélögum út um allan heim og þó svo að brotin séu oft augljósust í þróunarlöndum, þá er þetta líka stórt vandamál í hinum vestræna heimi.
 
Í mörgum tilfellum er þetta valdleysi stofnanavætt og í formi laga sem færa ríkinu stjórnartaumana yfir lífi kvenna; fóstureyðingalög í Írlandi eru gott dæmi um þetta en þar má kona ekki gangast undir fóstureyðingu nema að líf hennar liggi við - þrátt fyrir að óléttan sé afleiðing nauðgunar eða sifjaspells. Það er einnig algengt að lög gefi karlmönnum ákvarðanaréttinn en í a.m.k. 18 löndum í heiminum mega konur ekki fá sér vinnu nema með samþykki eiginmanna sinna og á mörgum stöðum er löglegt að neita konu um getnaðarvarnir ef hún hefur ekki samþykki frá eiginmanni sínum [1] . Stofnanavædd mismunun skilar sér einnig í því að erfiðara er fyrir konur að eignast land og aðrar eignir, komast í launaða vinnu og sækja sér menntun en það gerir þær enn viðkvæmari fyrir hvers konar kúgun. Möguleikar kvenna til að hafa áhrif á lagasetningu sem varða líf þeirra með beinum hætti eru einnig skertir en í samantekt um sjálfbæru markmið Sameinuðu þjóðanna kemur fram að fyrri part ársins 2016 skipuðu konur einungis 23% þingsæta í heiminum og að munurinn sé lítill á milli þróaðra landa og þróunarlanda. [2] Menningarlegar og trúarlegar venjur grafa líka oft undan rétti konunnar til þess að taka eigin ákvarðanir; heiðursmorð, umskurður, barnabrúðkaup, þvinguð hjónabönd, kynbundið ofbeldi og nauðgunarmenning eru einungis brot af því sem nefna mætti í þessu samhengi.
 
Konur í Malaví hafa í mjög mörgum tilfellum lítið vald yfir sínu eigin lífi og það er mikið til vegna samfélagslegra viðhorfa og venja. Barnabrúðkaup eru mjög algeng en tæplega helmingur malavískra stúlkna eru giftar áður en þær ná 18 ára aldri. Einn fylgifiskur þess er að þær eignast í flestum tilfellum börn mjög ungar sem oftast verður til þess að þær hætta í skóla og fara að sjá um heimilið. Hverskyns hjátrú og trúarathafnir eru einnig algengir örlagavaldar í lífi kvenna í Malaví en sem dæmi má nefna nýlega umfjöllun m.a. íslenskra fjölmiðla um svokallaðar "hýenur", fullorðna karlmenn sem eru fengnir til að stunda kynlíf með ungum stúlkum og ekkjum í þeim tilgangi að hreinsa þær.
 
Ég segi að ég sé heppin að fá að njóta þeirra mannréttinda að taka mínar eigin ákvarðanir um mína eigin framtíð vegna þess að raunveruleikinn er sá að ég er í minnihluta þeirra sem hafa það frelsi.


facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105