Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
10. árg. 316. tbl.
22. febrúar 2017
Hungursneyð í Suður-Súdan:
Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna með mikinn viðbúnað í landinu
Hungursneyð var í vikunni lýst yfir í Unity-fylki í Suður-Súdan þar sem 100 þúsund manns eiga á hættu að deyja úr hungri. Ein milljón manna til viðbótar er að auki á barmi hungursneyðar. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, er með mikinn viðbúnað í landinu, enda gríðarmörg börn í lífshættu. Hungursneyðin er sú fyrsta sem lýst er yfir í heiminum í tæplega sex ár.

Neyðaraðgerðir UNICEF miða að því að meðhöndla börn gegn vannæringu og koma í veg fyrir að fleiri verði vannærð. UNICEF styður 620 næringarmiðstöðvar vítt og breitt um landið og 50 vannæringarspítala. Mælist 15% barna bráðavannærð er talað um neyðarástand. Ástandið er grafalvarlegt, enda eru á sumum svæðum í Unity-fylki nú allt að 42% barna með bráðavannæringu.

Í forgangi hjá UNICEF er einnig að dreifa hreinu vatni, þar sem vatn er af skornum skammti á þurrkatímabilinu sem nú stendur yfir. Mikilvægt er sömuleiðis að koma í veg fyrir að börn veikist af sjúkdómum og áhersla er því lögð á bólusetningar og almenna heilsugæslu.

Bidibidi - móttaka flóttamanna frá Suður-Súdan/ ICEIDA-Heimsljós
Bidibidi - móttaka flóttamanna frá Suður-Súdan/ ICEIDA-Heimsljós
UNICEF, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) og Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) vöruðu í vikubyrjun við því að tafarlausra aðgerða væri þörf til að koma í veg fyrir að fleiri deyi úr hungri. Stofnanirnar þrjár hefðu þegar hjálpað milljónum manna í landinu. Óheftur aðgangur hjálparstofnana að öllum þeim sem væru í hættu vegna hungursneyðar væri hins vegar lykilatriði, auk þess sem nauðsynlegt væri að stórauka enn við allar neyðaraðgerðir. Um 4,9 milljónir manna búa nú við fæðuóöryggi í Suður-Súdan eða um 40% landsmanna. Búist er við að sú tala hækki enn frekar er nær dregur sumri ef ekki verður brugðist skjótt við.

Neyðaraðgerðir í Nígeríu björguðu ótal börnum
Suður-Súdan er yngsta ríki heims. Það klauf sig frá ríkinu Súdan eftir áratugalanga borgarastyrjöld sem lauk með friðarsamningum árið 2005. Sögulegar kosningar fóru síðan fram árið 2011 þar sem íbúar Suður-Súdan kusu sig frá Súdan. Átök brutust hins vegar út í Suður-Súdan í lok árs 2013 og hafa nú staðið yfir í rúm þrjú ár. Í fyrrasumar hörðnuðu þau enn frekar, með hrikalegum afleiðingum.

Ástæður hungursneyðarinnar nú eru ekki síst stríðsátökin sem hafa hindrað matvælaframleiðslu og búskap hjá almenningi og stökkt fólki á flótta. Verðbólga upp á 800% og afar slæmt efnahagsástand hafa gert illt verra.

"Það gerist ekki á hverjum degi að hungursneyð er lýst yfir í heiminum og í dag er því sorgardagur. Hungursneyð er lýst yfir með svokallaðri Integrated Food Security Phase Classification (IPC). Um algjört efsta stig er að ræða. Formleg yfirlýsing sem þessi þýðir að fólk er þegar farið að svelta til dauða. Það á ekki síst við um börn og yngstu börnin eru alltaf þau sem eru veikust fyrir," segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

"Í nóvember á seinasta ári sendi UNICEF út neyðarákall vegna Nígeríu þar sem ástandið jaðraði við hungursneyð víða í norðausturhluta landsins. Gríðarlega umfangsmiklar neyðaraðgerðir voru settar í gang, meðal annars með hjálp héðan frá Íslandi. Góðu fréttirnar eru þær að staðan er miklu betri í dag. Þarna var ekki lýst yfir hungursneyð og það tókst að bjarga afar mörgum börnum. Nú ríður á að veita neyðarhjálp í Suður-Súdan hratt og örugglega og samstarfsfólk okkar úti er vakið og sofið yfir þeirri miklu ábyrgð," segir Bergsteinn.

Heimsforeldrar gegna lykilhlutverki við neyðaraðgerðir UNICEF og hér á landi eru vel yfir 25.000 heimsforeldrar. Þau sem vilja styðja neyðaraðgerðirnar sérstaklega geta gert það með því að senda sms-ið BARN í númerið 1900 (1.000 kr). Einnig er hægt að leggja inn á neyðarreikning UNICEF á Íslandi, 701-26-102050, kt 481203-2950.

Auðveldara en áður að meta matvælaþörf:
Farsímatæknin flýtir mjög fyrir aðstoð við nauðstadda
Ný tækni og aukin farsímanotkun í þróunarríkjum og á átakasvæðum hefur leitt til þess að hjálparstofnanir, eins og Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP), geta með auðveldari hætti en áður metið þörfina fyrir matvælaaðstoð og þar með hafið fyrr dreifingu á mat til þeirra sem brýnast er að veita slíka aðstoð.

Samtökin settu á laggirnar verkefni árið 2013 með það að markmiði aðbyggja upp kerfi til að safna á rauntíma ýmiss konar fæðutengdum upplýsingum á þeim svæðum í heiminum þar sem matvælaóöryggi er mest. Gaganöflun fór áður þannig fram að fólk var sent á umrædd svæði og skráði niður með heimsóknum á heimili hvernig ástandið var. Í stað þessarar tímafreku kortlagningu er þessum upplýsingum safnað saman á fljótvirkan hátt gegnum farsíma. "Það hefur gert kortlagningu á hungri í heiminum miklu ódýrari, miklu skilvirkari og miklu nákvæmari," segir Anne Poulsen forstöðumaður norrænu skrifstofu Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna í frétt sem birtist á danska vefnum: Verdens Bedste Nyheter.

Anne Poulsen
Anne segir að áður en stofnunin ráðist í aðgerðir við tilteknum hörmungum sé safnað saman svörum við lykilspurningum eins og hverjir búi við hungur, hversu margir þeir séu, hvar þeir búi og hvers vegna þeir svelti - auk spurningarinnar um það hvernig stofnunin geti sem best komið til bjargar. "Í dag getum við safnað þessum gögnum mjög hratt með skilvirkum og ódýrum hætti, með síma- og sms-könnunum, og það gerir okkur kleift að bregðast við skjótt og koma þeim til bjargar sem eru í brýnni neyð sökum matarskorts."
Í úttekt á þessu nýja kerfi á síðasta ári kom í ljós að greining á matarþörf á tilteknu svæði liggi nú fyrir á einni til tveimur vikum sem áður tók sex til átta vikur. Þessi tímasparnaður getur vitaskuld skilið á milli lífs og dauða.

Stórbætir áhættumat
Annar stór kostur við þessa nýju farsímatækni lýsir sér í því að hjálparsamtök fá upplýsingar um aðstæður á átakasvæðum sem ekki voru fáanlegar áður og leiddu til þess að starfsmenn hjálparsamtaka settu sig á stundum í hættulega aðstöðu með því að fara inn á svæði sem voru óörugg. Með farsímatækninni er miklu betur hægt að meta hvort viðkomandi svæði sé þokkalega öruggt eða ekki.

Í fréttinni er vitnað til þess að í ebólufaraldrinum í Vestur-Afríku árið 2014 hafi sms-kannanir verið veigamikill þáttur í því að meta þörfina fyrir matvælaaðstoð. Þá er Malaví tekið sem dæmi en samkvæmt fulltrúum WFP tekur núorðið innan við sólarhring að safna gögnum á tilteknum svæðum og svipaða sögu er að segja frá lýðstjórnarlýðveldinu Kongó þar sem greining á matvælaaðstoð er framkvæmd gegnum farsíma.
Kerfið - sem kallast mVAM - hefur verið tekið í notkun í 28 þjóðríkjum, meðal annars í Sýrlandi, Írak, Malaví og Malí.

Óljósar reglur um innanlandskostnað vegna flóttafólks af opinberum framlögum til þróunarmála 

Í viðamikilli nýrri skýrslu er varað við því að engar nákvæmar leiðbeiningar séu til um það hvernig aðildarríki Evrópusambandsins geta fært til fjármuni af framlögum til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu yfir á kostnað innanlands við að taka á móti flóttafólki.

Að mati skýrsluhöfunda eru framlög til þróunarsamvinnu (ODA) í húfi en aðildarríki ESB hafa skuldbundið sig til að verja 0,7% af þjóðartekjum til málaflokksins. Spurningin snýst um það  hversu stóran hluta framlaganna megi ráðstafa til að hýsa flóttafólk, einkum frá Sýrlandi, sem hefur komið yfir til Evrópuríkja, fremur en að ráðstafa því fé í þróunarríkjunum.

Í frétt EurActiv segir að á ensku kallist framlög sem nýtt eru innanlands "in-donor" en greining frá ECDPM (European Centre for Development Policy Management) sýni að tölfræðilega er lítið samræmi í því hvað aðildarríki Evrópusambandsins telji fram sem innanlandskostnað af heildarframlögum til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu.

Í 263 blaðsíðna skýrslu - Making Waves: Implications of the Irregular Migration and Refugee Situation on Official Development Assistance Spending and Practices in Europe - er bent á að leiðbeiningar OECD um þennan innanlandskostnað séu óljósar og því margar leiðir færar til þess að nýta þær glufur sem eru í regluverkinu.

Höfundar skýrslunnar, Anna Knoll, Andrew Sheriff, hverja til þess að reglur verði samræmdar.

Mikill meirihluti þingmanna sagði já:
Stórt skref stigið í baráttunni gegn barnahjónaböndum í Malaví
Ending child marriage in Malawi - Memory's story/ PlanInternational
Malavíska þingið tók stórt skref í baráttunni gegn barnahjónaböndum á dögunum þegar stjórnarskrárbreyting um hækkun lögræðisaldurs einstaklinga úr 15 árum upp í 18 ár var samþykkt. Breytingin fór í gegn með miklum meirihluta, 131 þingmaður sagði já en aðeins 2 þingmenn voru á móti.

Árið 2015 voru sett lög í landinu sem bönnuðu hjónabönd einstaklinga undir 18 ára aldri en þar sem lögræðisaldurinn var enn 15 ár var auðvelt að komast framhjá þessum lögum og börn gátu enn gengið í hjónaband með leyfi foreldra.

"Umræðan um samfélagsmeinið sem barnahjónabönd eru hefur farið hátt í Malaví undanfarið og þessi stjórnarskrárbreyting er afleiðing vinnu bæði innlendra og erlendra afla sem hafa barist fyrir auknum réttindum barna, og sérstaklega stúlkna," segir Ása María H. Guðmundsdóttir sérfræðingur á skrifstofu sendiráðs Íslands í Lilongve.

Hún segir að Care International sé ein þeirra stofnana sem hafi látið sig málið varða sérstaklega og nefnir sem dæmi að stofnunin hafi verið með herferð ungs fólks í Malaví gegn barnahjónaböndum. "Þessi hópur ungs fólks safnaði meðal annars yfir 42 þúsund undirskriftum fólks frá yfir 30 löndum sem lýstu yfir samstöðu með málstaðnum og færði forsetafrúnni listann með undirskriftunum. Þessi breyting er að flestra dómi mjög mikilvæg fyrir komandi kynslóðir barna í Malaví og þótt vandamálið sé langt í frá úr sögunni þá styrkir þetta réttindastöðu einstaklinga undir átján ára aldri og lokar því lagalega gati sem hægt var að nýta sér til að neyða börn í hjónabönd," segir Ása María.

Nýr forseti er tekinn við völdum í Gambíu, minnsta ríki á meginlandi Afríku. Nýi forsetinn, Adama Barrow, var formlega settur í embætti við hátíðlega athöfn síðastliðinn laugardag við mikinn fögnuð landa sinna. Gambía er aðeins 10 þúsund ferkílómetrar að stærð, eða tæplega tíundi hluti Íslands, en telur engu að síður hartnær tvær milljónir íbúa.

Nýja forsetans bíða mörg verkefni eftir langvarandi einangrun og harðstjórn fráfarandi forseta, Yahya Jammeh, sem hrökklaðist frá völdum fyrir fáeinum vikum. Hann hafði sig ekki á brott fyrr en herir nágrannaríkja voru komnir að landamærunum og hótuðu innrás. Jammeh tapaði í forsetakosningum í desember fyrir Barrow en neitaði að yfirgefa forsetahöllina eftir rúma tvo áratugi á valdastóli. Loksins þegar hann sá sæng sína uppreidda var hann sagður hafa farið með fúlgur fjár úr landi.

Samt birtir til í Gambíu eftir langvarandi myrkur. Þjóðin er vongóð um breytingar. Einræðisherrann skilur eftir sig hagkerfi í molum, tveggja áratuga skjalfest mannréttindabrot og 40% atvinnuleysi ungs fólks. Ofan í kaupið bætast við spár um áhrif loftslagsbreytinga sem gera ráð fyrir að höfuðborgin, Banjul, hverfi í hafið á innan við hálfri öld.

Nýja Gambía

Frá innsetningarhátíðinni á laugardag/ AlJazeera
"Nýja Gambía" var kosningaslagorð Barrows og nú bíður heimurinn eftir því að sjá hvernig og hvenær nýi forsetinn innleiðir fyrirheitin, eins og Molly Anders fréttakona Devex fréttaveitunnar orðar það í nýlegri grein. Hún segir að framlagsríki séu þegar farin að sýna Gambíu áhuga en gamli harðstjórinn lokaði á alla alþjóðlega þróunarsamvinnu á sínum tíma með þeim orðum að þar væri á ferðinni afturgöngur nýlendustefnunnar.

Nýi forsetinn kveðst hafa erft nánast gjaldþrota hagkerfi sem strax þurfi að koma til bjargar. Hann sér fyrir sér beinan fjárlagastuðning frá framlagsríkjum til að afstýra þjóðargjaldþroti. Samkvæmt greininni í Devex eru ekki miklar líkur á því að stuðningur framlagsríkja á sviði þróunarsamvinnu verði beinar greiðslur inn í ríkissjóð Gambíu. Evrópusambandið, Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hétu strax 275 milljónum bandarískra dala í stuðning - rúmlega 30 milljörðum íslenskra króna - þegar óopinber innsetningarhátíð Barrows fór fram í Dakar í Senigal í síðasta mánuði. Hins vegar er þetta fjármagn, að sögn Devex, aðallega verkefnabundið og eyrnamerkt tilteknum afmörkuðum verkefnum eins og flóðavörnum, næringarátaki meðal skólabarna og valdeflingu kvenna, svo dæmi séu nefnd.

Óvíst er með hvaða hætti Bretar koma til með að styðja ný stjórnvöld í Gambíu en þar er jákvæður tónn eins og víðast hvar annars staðar meðal framlagsríkja. Bretar eru samt líkt og margar aðrar rausnarlegar þjóðir í þróunarsamvinnu brenndar af beinum fjárlagastuðningi og því þykir ólíklegt að ríkissjóður Gambíu fá beinar greiðslur frá Bretlandi.

Í fréttaskýringu Devex er líka ítarlega fjallað um viðhorfin í Gambíu til samkynhneigðra og framtíðarspána um hvarf höfuðborgarinnar í hafið.

Mörg þróunarríki í forystu endurnýjanlegrar orku

Fjölmörg þróunarríki eru í forystu þjóða sem leiða orkuskipti í heiminum með áherslu á endurnýjanlega orkugjafa. Þessar þjóðir eru Mexíkó, Kína, Tyrkland, Indland, Víetnam, Brasilía og Suður-Afríka, að því er fram kemur í nýrri skýrslu - og nýjum gagnvirkum vef -  Alþjóðabankans á stöðu þessara mála í heiminum.

Ofangreindar þjóðir hafa samþykkt róttækar stefnur um stuðning við aukið aðgengi að orku, endurnýjanlega orkugjafa og orkunýtingu, segir í RISE (Regulatory Indicators for Sustainable Energy) fyrstu alþjóðlegu kortlagningunni á þessu sviði. Skýrslan nær til þriggja sviða: aðgengi að orku, orkunýtingu og endurnýjanlegum orkugjöfum.

Að mati skýrsluhöfunda er mikið rými fyrir framfarir í hverjum heimshluta og sérstaklega í sunnanverðri Afríku. Skýrslunni er ætlað að styðja við bakið á stjórnvöldum og veita leiðsögn um það hvort fyrir hendi séu stefnumótandi skjöl og regluverk til þess að kynda undir framfarir í átt að endurnýjanlegum orkugjöfum - og sérstaklega benda á atriði sem skortir til að laða að fjárfesta úr einkageiranum.

Með skýrslunni fæst líka samanburður milli þjóða og þróuninni verður fylgt eftir á nýjum gagnvirkum vef - RISE. Því er við að bæta að Ísland er því miður ekki meðal þjóðanna sem listinn nær til.

Strumparnir til liðs við Heimsmarkmiðin 

Strumparnir eru í aðalhlutverki í nýrri herferð sem Sameinuðu þjóðirnar hafa hleypt af stokkunum til að virkja börn, ungmenni og fullorðna í baráttunni fyrir friðsælli, jafnari og heilbrigðari heimi. Herferðinni "Stóru markmið strumpanna"  er ætlað að hvetja alla til að kynna sér og styðja 17 Sjálfbær þróunarmarkmið sem öll 193 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna samþykktu árið 2015 og ganga undir nafninu Heimsmarkmið um sjálfbæra þróun. Upplýsingaskrifstofa SÞ fyrir V-Evrópu (UNRIC) greinir frá

Boðskapur herferðarinnar er skýr: hversu lítil og smá sem við erum ein og sér, getum við sem lið, í sameiningu, þokað Heimsmarkmiðunum áleiðis. Á þennan hátt leita Strumparnir litlu til barna og ungmenna sérstaklega til að leggja áherslu á hlutverk þeirra við að berjast fyrir þeim málefnum sem þeim eru kærust.
"Herferðinni er ætlað að veita börnum og ungu fólki vettvang til að láta rödd sína heyrast," segir Paloma Escudero, upplýsingafulltrúi UNICEF.

Strumpa-liðið munu fylkja sér að baki Heimsmarkmiðunum 17 á Alþjóðadegi hamingjunnar 20. mars í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York þegar herferðin nær hámarki.

Að þessu sinni er Hamingjudagurinn helgaður Sjálfbæru þróunarmarkmiðunum. Leikararnir sem ljá Strumpunum raddir sínar í væntanlegri kvikmynd " Strumparnir: týnda þorpið"  taka þátt í atburðum dagsins. 

Endurnýja samstarfsyfirlýsingu við Rauða krossinn
Utanríkisráðuneytið og Rauði krossinn á Íslandi hafa endurnýjað samstarfsyfirlýsingu um reglubundið framlag utanríkisráðuneytisins við starf Alþjóðaráðs Rauða krossins, svo og um gagnkvæma upplýsingagjöf og samstarf um mannúðarmál. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Sveinn Kristinsson, formaður Rauða krossins, undirrituðu yfirlýsinguna í gær í húsakynnum RKÍ. 

"Samstarf okkar við Rauða krossinn á Íslandi hefur reynst afskaplega vel og þessi yfirlýsing rammar ekki aðeins inn hefðbundin framlög okkar til Alþjóðaráðs Rauða krossins, heldur kveður einnig á um ákveðið faglegt samtal okkar í milli. Það leikur enginn vafi á að skoðanaskipti og samstarf við Rauða krossinn hefur brýnt okkur í málsvörninni á alþjóðavettvangi fyrir virðingu fyrir mannúðarlögum," segir Guðlaugur Þór. 

Samstarfsyfirlýsingin gildir út árið 2019. Hún kveður m.a. á um gerð rammasamnings um framlög stjórnvalda til alþjóðlegrar mannúðaraðstoðar á vegum Rauða krossins, aðstoðar við flóttafólk og hælisleitendur.   

Nánar á vef utanríkisráðuneytis
Áhugavert

-
-
-
A Short History Of Humans And Germs: Humans Get A Clue | Goats & Soda | NPR 
-
-
-
-
-
-
Growing up with War: Children of Syria. The tragedy of kids who have never known peace/ RT
Growing up with War: Children of Syria. The tragedy of kids who have never known peace/ RT
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-

Forsætisráðherra verður í for­svari HeForS­he

Bjarni Bene­dikts­son, for­sæt­is­ráðherra Íslands, verður einn tíu þjóðarleiðtoga í for­svari fyr­ir HeForS­he, kynn­ingar­átak UN Women, þar sem karl­menn um all­an heim eru hvatt­ir til að taka þátt í bar­átt­unni fyr­ir jafn­rétti kynj­anna.

Þetta kom fram í til­kynn­ingu frá rík­is­stjórn­inni, en tveir for­ver­ar Bjarna í embætt­inu, þeir Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son og Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, voru einnig í for­svari fyr­ir átakið.

Á föstudag fór fram árlegur viðburður UN Women á Íslandi gegn kynbundnu ofbeldi - Milljarður rís. Meðal annars var dansað í Hörpu og Hljómahöll.

Darfur og Suður-Súdan 

Afríka 20:20 i samvinnu við MARK - Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna við Háskóla Íslands fjalla um málefni Darfur og Suður-Súdan og efna til málstofu á morgun, 23. febrúar, klukkan 16:15 til 17:30 í Gimli, stofu 301.  

Á málstofunni munu þau Áslaug Arnoldsdóttir hjúkrunarfræðingur og Páll Ásgeir Tryggvason lögfræðingur halda erindi. Erindi Áslaugar nefnist Suður Súdan: ríki á krossgötum - heilbrigðisþjónusta á átakasvæði og Páll Ásgeir segir frá störfum sínum fyrir Sameinuðu þjóðirnar í erindi sem hann nefnir Darfur: Frá þjóðarmorði til uppbyggingar?
Allir velkomnir.


Why are there still famines?/ BBC
-
Four famines mean 20 million may starve in the next six months/ DailyMail
-
Up to 20 million threatened by drought in eastern Africa/ DW

-
-
Famine: what does it really mean and how do aid workers treat it?/ TheGuardian
-
Famine threat looms as children starve in Boko Haram-hit northeast Nigeria/ Reuters
-
How the Syrian refugee crisis affected land use and shared transboundary freshwater resources/ TheBrookings
-
Forgotten victims of terrorism/ Bistandsaktuelt
-
Kenya has cleanest air in the word- report/ Nation
-
Rising sea temperatures are shaping tropical storms in southern Africa/ TheConversation
-
Congo declares end to worst yellow fever epidemic in decades/ Reuters
-
Caught in a trap: fishing communities feel the strain of hunger crisis/ Medium
-
UN wants to negotiate with US, Canada to resettle Rohingya refugees/ NYTimes
-
Three deadly viruses that could spawn the next pandemic/ IRIN
-
Who pays the hidden price for Congo's conflict-free minerals?/ IRIN
-
Life expectancy to break 90 barrier by 2030/ BBC
-
The world's most dangerous U.N. mission/ WashingtonPost
-
Uganda inches closer to oil production by 2020/ TheEastAfrican
-
How SAFE Stoves are Changing People's Lives/ WFP
-
Iceland Shares Land Restoration Expertise with the Needy/ InDepthNews
-
Who really paid up to help Syria?/ BBC
-
Global heat continues, sea ice hits new record lows/ WMO
-
Rwanda: A-Level Results. Girls Outshine Boys in General Performance/ AllAfrica
-
Why doctors in Kenya are sticking to their guns/ TheConversation
-
Alþjóðleg samstaða í þágu félagslegs réttlætis/ UNRIC
-
Uganda moves to expel Burundian refugees/ DW
-
UN Women launches initiative for reforming gender-discriminatory laws/ UNWomen
-
Kenya ruling against the closure of Daadab refugee camp is a strike for humanity/ Oxfam
-
New weapon in the global fight against fake malaria drugs: a cheap scanner/ TheGuardian
-
Life expectancy forecast to exceed 90 years in coming decades/ TheGuardian
-
Bringing about positive change for people on the move/ UN
-
Drought set to worsen in parts of Greater Horn of Africa/ WMO

Tilkynning um styrki til íslenskra borgarasamtaka

Utanríkisráðuneytið vekur athygli á því að umsóknarfrestur fyrir styrkumsóknir frá íslenskum borgarasamtökum vegna fræðslu- og kynningarverkefna um þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð er til og með 15. mars 2017.
Fræðsluverkefnum er ætlað að efla starf borgarasamtakanna, styrkja uppbyggingu þeirra til frambúðar, auka stofnanafærni og efla faglega þekkingu þeirra. Kynningarverkefni eru ætluð til að auka þekkingu almennings á þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð, sem og til kynningar á starfi samtakanna við málaflokkinn.


Aðlögun flóttafólks og innflytjenda
Greining á umbótatækifærum

Opinn fundur verður haldinn í Norræna húsinu næstkomandi mánudag, 27. febrúar, kl. 09:00 til 11:00 þar sem kynnt verður ný skýrsla Alþjóðamálastofnunar. Skýrslan var unnin fyrir innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið, þar sem þjónusta við flóttafólk og innflytjendur er greind.

Hvað finnst flóttafólkinu sjálfu um þann stuðning og þjónustu sem það fékk þegar það kom til landsins? Hvaða áskoranir og möguleikar eru fyrir hendi að mati sérfræðinga sem vinna dagsdaglega við aðlögun flóttafólks? Hvernig taka nágrannalönd okkar á móti flóttafólki? Auk þess að leita svara við þessum spurningum voru skoðaðir möguleikar á umbótum á málefnum útlendinga og innflytjenda almennt með það í huga að auka samþættingu og skilvirkni stjórnsýslunnar.

Dagskrá

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, opnar fundinn.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, flytur opnunarávarp.

Bylgja Árnadóttir og Ásdís A. Arnaldsdóttir, verkefnisstjórar Félagsvísindastofnunar, kynna helstu niðurstöður úr skoðanakönnun meðal flóttafólks á Íslandi og rýnihóparannsókn.

Auður Birna Stefánsdóttir, verkefnisstjóri hjá Alþjóðamálastofnun, kynnir niðurstöður úr eigindlegri rannsókn á umbótatækifærum í þjónustu við flóttafólk frá sjónarhóli sérfræðinga sveitarfélaga og Rauða kross Íslands.

Erna Krístín Blöndal, doktorsnemi í lögfræði og framkvæmdastjóri norrænnar stofnunar um fólksflutninga, og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, dósent í opinberri stjórnsýslu og stefnumótun, kynna tillögur að umbótum til að auka samþættingu og skilvirkni stjórnsýslunnar.

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, flytur lokaávarp.

Alþjóðabankastofnanirnar fimm og samstarf Íslands við bankann
 
- eftir Þórarinnu Söebech teymisstjóra fjölþjóðlegrar þróunarsamvinnu á 
þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins 

Þegar rætt er um Alþjóðabankann er líklegt að flestir sem ekki þekkja til, telji að um sé að ræða eina stofnun. Raunin er þó sú að Alþjóðabankastofnanirnar (World Bank Group) eru fimm talsins, en hver þeirra gegnir sérstöku og afmörkuðu hlutverki í baráttunni gegn fátækt og fyrir bættum lífskjörum á heimsvísu.

Elsta stofnunin er Alþjóðabankinn til enduruppbyggingar og framþróunar (International Bank for Reconstruction and Development, IBRD), en hann var settur á laggirnar árið 1945 með það markmið að stuðla að efnahagslegri endurreisn í Evrópu og Japan eftir hörmungar seinni heimsstyrjaldarinnar. Eftir að því starfi lauk breyttust áherslurnar og veitir IBRD nú lán með niðurgreiddum markaðsvöxtum auk tæknilegrar aðstoðar til millitekjuríkja og burðugri lágtekjuríkja.

Næst, eða árið 1956, var Alþjóðalánastofnunin (International Finance Corporation, IFC) sett á stofn. IFC styður við framþróun einkageirans í þróunarlöndum með lánveitingum til fjárfesta og með hlutafjárkaupum. Ólíkt IBRD og IDA starfar IFC á samkeppnisgrunni við viðskiptabanka sem veita fjármálaþjónustu á alþjóðamörkuðum. Hlutverk IFC er þó fyrst og fremst að einbeita sér að verkefnum sem hafa gildi fyrir efnahags- og félagslega framþróun í hlutaðeigandi landi, sem einkageirinn hefur vanrækt eða talið of áhættusöm.

Árið 1960 var svo Alþjóðaframfarastofnunin (International Development Association, IDA) stofnuð, en hún hefur það hlutverk að aðstoða fátækustu ríki heims í baráttunni gegn örbirgð með styrkjum, lánum og ábyrgðum til þróunarverkefna auk tæknilegrar aðstoðar. Lönd með verga þjóðarframleiðslu á íbúa lægri en 1.215 Bandaríkjadalir eiga rétt á lánum frá IDA, en sem stendur er um 77 ríki að ræða, flest þeirra í Afríku. Lán IDA eru vaxtalaus, án afborgana fyrstu tíu árin og greiðast upp á 25 til 40 árum. Frá miðju ári 2002 urðu þáttaskil í starfi IDA þegar stofnunin hóf að veita aðstoð byggða á styrkjum til þróunarlanda. Þá felst hluti af stuðningi IDA við fátækustu ríkin jafnframt í skuldaniðurfellingu. Ólíkt IBRD, hvers fjármagn kemur frá hlutafé og endurgreiðslum af lánum er starfsemi IDA endurfjármögnuð á þriggja ára fresti. Í desember 2016 lauk samningaviðræðum vegna 18. framlagatímabilsins (IDA18) og voru niðurstöður viðræðnanna afgerandi, en heildarfjármagnið sem mun renna til aðstoðar fátækustu ríkjunum í gegnum stofnunina hefur aldrei verið jafn hátt. Heildarfjármagnið nemur alls 75 milljörðum dala, en það kemur ekki síst til vegna nýjunga í fjármögnun stofnunarinnar, enda haldast framlög gjafaríkja nokkuð svipuð milli tímabila.

Fjölþjóðlega fjárfestingarábyrgðarstofnunin (Multilateral Investment Guarantee Agency - MIGA) var svo sett á laggirnar árið 1966, en hún veitir ábyrgðir vegna fjárfestinga einkaaðila í þróunarlöndum gegn áföllum sem ekki eru viðskiptalegs eðlis (t.d. vegna ófriðar, eignaupptöku eða gjaldeyristakmarkana). Nýjasta stofnunin var svo stofnuð árið 1989, en Alþjóðastofnunin um lausn fjárfestingardeilna (International Center for Settlement of Investment Disputes - ICSID) veitir aðstoð til sáttagerðar og gerðardóma í lausnum fjárfestingardeilna og stuðlar þannig að gagnkvæmu trausti milli ríkja og erlendra fjárfesta.

Samstarf Íslands og Alþjóðabankans í gegnum Kjördæmi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna
Alþjóðabankinn er frábrugðinn stofnunum Sameinuðu þjóðanna að því leyti að atkvæðavægi fer eftir stofnfjáreign. Ríki sem eiga smærri hluti í bankanum mynda kjördæmi og skipar hvert kjördæmi aðalfulltrúa (e. Executive Director) í 25 manna stjórn hans. Stjórnarfulltrúinn talar máli kjördæmislandanna og fer með atkvæði þeirra. Atkvæðinu er ekki hægt að skipta, sem þýðir að mjög náið samstarf fer fram á milli höfuðborga kjördæmislandanna við samræmingu á afstöðu þeirra í málefnum bankans. Norðurlöndin fimm og Eystrasaltsríkin þrjú mynda sameiginlegt kjördæmi og skipta löndin með sér verkum hvað viðvíkur málefnastarfi og stöðum. Ísland er virkur þátttakandi í starfi kjördæmisins, bæði frá Reykjavík og í gegnum starfsmann á skrifstofu kjördæmisins í Alþjóðabankanum. Þá mun Ísland skipa stöðu aðalfulltrúa í stjórninni til tveggja ára frá og með árinu 2019, en síðast skipaði Ísland í stöðuna árin 2003-2006. Þess ber að geta að Ísland er fámennasta aðildarríki bankans sem skipar í stöðu aðalfulltrúa í stjórn hans og felst mikill styrkur í nánu samstarfi við Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin. Sú staðreynd að kjördæmislöndin hafa allflest skapað sér góðan orðstír á alþjóðavettvangi fyrir að vera virk í þróunarstarfi styrkir mjög stöðu ríkjanna innan bankans.

Tvíhliða samstarf Íslands og Alþjóðabankans

Ísland á jafnframt gott og aukið tvíhliða samstarf við bankann þar sem lögð hefur verið áhersla á jarðhita, fiskimál, jafnréttis- og mannréttindamál og veitt eru framlög til sjóða innan bankans á þeim sviðum.

Þannig er Ísland virkur þátttakandi í ESMAP verkefninu (Energy Sector Management Program) sem hefur það hlutverk að veita þróunarríkjum tæknilega ráðgjöf á sviði orkumála og gera þeim kleift að stuðla að hagvexti og draga úr fátækt með áherslu á sjálfbæra nýtingu orkuauðlinda. Samstarf Íslands og ESMAP hefur einkum snúið að nýtingu jarðhita, en auk framlaga hefur Ísland fjármagnað stöðu sérfræðings í jarðhitamálum hjá ESMAP frá árinu 2009. Unnið er að því að auka möguleika íslenskra ráðgjafa og fyrirtækja í verkefnum bankans á sviði jarðhita.

Jafnréttismál eru ávallt ofarlega á baugi í tvíhliða samskiptum Íslands og bankans og til að auka framgang þeirra hefur Ísland veitt framlög til verkefnis um kynjajafnrétti og málefni kvenna (UFGE) en markmið þess er m.a. að auka þekkingu á jafnréttismálum innan bankans og efla samþættingu jafnréttissjónarmiða í verkefnum á hans vegum. Ísland er einnig meðal styrktaraðila að Norrænum sjóði um mannréttindi sem ákveðið var að stofna í júní 2006. Markmið hans er að auka þekkingu á mannréttindum innan bankans og fjölga verkefnum sem stuðla að framgangi þeirra, en sjóðurinn hefur reynst mjög eftirsóttur innan bankans.
Að lokum hefur Ísland lagt ríka áherslu á að bankinn fjármagni í auknum mæli verkefni á sviði fiskimála, en í því skyni var PROFISH verkefnið sett á stofn innan Alþjóðabankans árið 2005 að undirlagi Íslands. Markmið verkefnisins er að styrkja sjálfbæra fiskveiðistjórnun, stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum, byggja upp fiskistofna og auka afrakstur þeirra.

Þrátt fyrir að Alþjóðabankinn sé stærsta þróunarstofnun heims hefur Ísland greiða leið að virkri þátttöku á vettvangi hans. Skýrist það m.a. af reglulegri og beinni aðkomu að stjórnarstarfinu og málefnavinnu í fyrrnefndum samstarfsverkefnum. 
facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105