Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
10. árg. 310. tbl.
11. janúar 2017
Samantekt og kortlagning styrkja til íslenskra borgarasamtaka 2012-2016:
Tæplega 100 styrkir á fimm árum - fjárhæðin tæplega 1,3 milljarður
Utanríkisráðuneytið hefur veitt tæplega hundrað styrki til þrettán íslenskra borgarasamtaka á síðustu fimm árum, 2012 til 2016. Heildarupphæð styrkjanna nemur tæplega 1,3 milljarði króna. Meirihluta styrkjanna var ráðstafað til verkefna í Afríku en viðtökuríkin voru alls 29 talsins.

Á meðfylgjandi gagnvirku heimskorti má sjá yfirlit yfir þá styrki sem utanríkisráðuneytið hefur veitt til borgarasamtaka á síðustu fimm árum og hvar í heiminum þeim hefur verið varið. Verkefnin eru 97 talsins. Flest verkefnanna tengjast þróunarsamvinnu, 50, en 45 styrkir hafa runnið til mannúðaraðstoðar. Tvö verkefnanna voru fræðslu- og kynningarverkefni. Þrettán borgarasamtök hafa fengið umrædda styrki og heildarfjárhæð þeirra nemur 1,270 milljónum króna. Með því að smella á myndina má kalla fram ítarlegri upplýsingar um verkefni í hverju landi.

Flest verkefnanna í Afríku
Flest verkefnin sem fengið hafa opinbera styrki hafa verið á vegum Rauða krossins á Íslandi, Hjálparstarfs kirkjunnar og SOS Barnaþorpa. Flest verkefnanna, alls 55 talsins, hafa verið framkvæmd í Afríku sunnan Sahara en 24 voru framkvæmd í Asíu. Ef miðað er við einstök ríki voru flestir styrkir veittir vegna verkefna í Sýrlandi, 12 talsins, en 11 verkefni í Úganda fengu styrk og 9 í Malaví.

Sá eðlismunur er á verkefnum í þessum þremur helstu viðtökuríkjum að öll studd verkefni í Sýrlandi voru vegna mannúðaraðstoðar en tæplega 80% verkefna í Úganda og Malaví voru þróunarsamvinnuverkefni.

Þótt flest verkefnanna hafi verið í ofangreindum þremur ríkjum hafa mestir fjármunir farið til verkefna í Eþíópíu, rúmlega 192 milljónir króna, tæplega 162 milljónum hefur verið varið til mannúðarverkefna borgarasamtaka í Sýrlands, 144 milljónum til verkefna í Malaví og 97 milljónum til verkefna í Úganda.

Fleiri mannúðarverkefni á síðasta ári
Árið 2016 var meira en helmingur styrkja sem utanríkisráðuneytið veitti til borgarasamtaka vegna verkefna í Afríku sunnan Sahara, flest þeirra í Úganda og Eþíópíu. Rúmlega helmingur verkefna borgarasamtaka sem utanríkisráðuneytið styrkti á nýliðinu ári voru vegna mannúðaraðstoðar, eða tólf verkefni af tuttugu. Rúmlega tveimur þriðju hlutum heildarupphæðar styrkja til borgarasamtaka á árinu var varið til mannúðaraðstoðar.

Þróunarsamvinnuverkefni borgarasamtaka sem utanríkisráðuneytis studdi á liðnu ári snéru að menntamálum, vatns-, salernis- og hreinlætismálum, styrkingu félagslegra innviða og eflingu samskiptagetu borgarasamtaka í Afríku sunnan Sahara. Mannúðaraðstoð sem veitt var í gegnum verkefni borgarasamtaka fólst einkum í stuðningi við að bæta aðbúnað fólks.
Stuðningur íslenskra stjórnvalda:
Tæpum 800 milljónum varið til mannúðaraðstoðar 2016
Ljósmynd: I. Prickett/UNHCR

Á árinu 2016 námu heildarframlög Íslands til mannúðaraðstoðar um 770 milljónum króna. Þar af voru 500 milljónir króna af sérstöku framlagi sem samþykkt var í ríkisstjórn haustið 2015 og síðar í fjárlögum á Alþingi 2016 um að verja allt að einum milljarði króna til að bregðast við vaxandi vanda í málefnum flóttamanna í kjölfar átakanna í Sýrlandi. Framlögin til mannúðaraðstoðar skiptast á milli borgarasamtaka, 175 milljónir króna og alþjóðastofnana, 595 milljónir króna.

Lilja Alfreðsdóttir fráfarandi utanríkisráðherra og Ban Ki-moon fráfarandi aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna - meginframlög Íslands til mannúðarmála er ráðstafað á vegum stofnana SÞ.
Utanríkisráðuneytið veitir árlega styrki til íslenskra borgarasamtaka sem starfa á sviði mannúðaraðstoðar. Mannúðaraðstoð felur í sér björgun mannslífa, vernd óbreyttra borgara, útvegun nauðþurfta og annarrar aðstoðar sem auðveldar afturhvarf til eðlilegs lífs í kjölfar hamfara og átaka. Íslensk stjórnvöld reiða sig meðal annars á borgarasamtök til að koma mannúðaraðstoð sinni til skila og er styrkjum vegna mannúðaraðstoðar ætlað að svara alþjóðlegum neyðarköllum allt árið um kring.


Í júní var tæpum 90 milljónum króna veitt sérstaklega til sex verkefna til að bregðast m.a. við flóttamannastraumnum sem átökin í Sýrlandi hafa leitt af sér og í Eþíópíu og Malaví. Þar af voru 50 milljónir hluti af fyrrgreindu 500 milljón króna framlagi. Þau borgarasamtök sem hlutu styrk voru Rauði kross Íslands, Barnaheill, SOS Barnaþorp og Hjálparstarf kirkjunnar.

Í nóvember var svo 85 milljónum króna úthlutað til fimm verkefna á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar, Rauða kross Íslands og SOS Barnaþorpa.  Þau varða aðstoð við flóttamenn frá Sýrlandi, mannúðaraðstoð í Sýrlandi, vegna fellibylsins Matthíasar á Haíti og flóttafólks frá Suður Súdan í Úganda. 

Meginframlög Íslands til mannúðarmála fara til stofnana SÞ sem starfa á sviði mannúðaraðstoðar. Ísland greiðir árlega almenn og eynarmerkt framlög til helstu alþjóðlegu samstarfsstofnana og sjóða á sviði mannúðarmála, m.a. til Samhæfingarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna fyrir mannúðarmál (OCHA), Neyðarsjóðs Sameinuðu þjóðanna (CERF), Matvælaáætlunar SÞ (WFP), Barnahjálpar SÞ (UNICEF) og Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC). 

Þær stofnanir sem fengu framlög á líðandi ári eru; WFP, OCHA, UNICEF, Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR), Flóttamannastofnun SÞ fyrir Palestínuflóttamenn (UNRWA), sérstakir neyðarsjóðir fyrir Líbanon og Sýrland (OCHA Country-Based Pooled Funds) og Stofnun SÞ um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women), auk ICRC. Á árinu fór stærstur hluti af framlögum í mannúðaraðstoð vegna afleiðinga átakanna í Sýrlandi. Einnig voru veitt framlög vegna jarðskjálftans í Ekvador og fellibylsins sem gekk yfir Haítí. 

Þá hefur utanríkisráðherra ákveðið að ráðstafa 52 milljónum í byrjun árs 2017 til mannúðaraðstoðar í Sýrlandi.

Framlög til alþjóðastofnana nánst öll vegna Sýrlands
Framlögin til alþjóðastofnana voru nánast öll vegna Sýrlands, að undanskildum 10 milljónum vegna jarðskjálftanna í Ekvador í apríl.

Framlögin skiptast á milli eftirtaldra alþjóðastofnana:
 • Flóttamannastofnun SÞ (UNHCR) - 325 milljónir kr.
 • Barnahjálp SÞ (UNICEF) - 55 milljónir kr.
 • Flóttamannastofnun SÞ fyrir Palestínuflóttamenn (UNRWA) og neyðarsjóður fyrir Líbanon og Sýrland (CBPF)  - 50 milljónir kr.
 • Matvælaaðstoð SÞ (WFP) - 50 milljónir kr.
 • Samhæfingarskrifstofa SÞ fyrir mannúðarmál (OCHA) - 45 milljónir kr.
 • Neyðarsjóður SÞ (CERF) - 35 milljónir kr.
 • Stofnun SÞ um kynjajafnréttindi og valdeflingu kvenna (UNWOMEN) - 25 milljónir kr.
 • Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) - 10 milljónir kr.
Framlög til borgarasamtaka vegna mannúðaraðstoðar 2016:
 • Rauði kross Íslands - 87,8 milljónir kr.
 • Hjálparstarf kirkjunnar - 40 milljónir kr.
 • SOS Barnaþorpin á Íslandi - 27,5 milljónir kr.
 • Barnaheill (Save the Children) - 19,6 milljónir kr.
Heimsókn í afskekkt og einangrað þorp í Buikwe:
Almenningssalerni og hreint vatn stórbæta lífsgæði íbúanna
Muyubwe er eitt af fiskimannaþorpunum í Buikwehéraði í Úganda sem Íslendingar styðja í þróunarverkefni í samstarfi við héraðsyfirvöld. Þorpið er það afskekktasta í héraðinu, vegurinn endar í útjaðri þorpsins og þramma þarf yfir trjádrumba til þess að komast inn í sjálft þorpið. Íbúarnir eru liðlega fimmtán hundruð talsins og eiga allt undir silfurfiskinum, mukene, sem er sólþurrkaður og fluttur á markað á mótorhjólum.

Vegna mikillar fjarlægðar við næsta byggða ból og afleitar samgöngur hafa margir íbúanna ekki séð annað af heiminum. Sveitarfélagið rekur engan skóla í þessu afskekkta samfélagi og áður en samstarfið við Íslendinga kom til var ekkert hreint vatn, enginn kamar. Samt er þar aðkomufólk í fiskverkun, ung kona eins og Summer Harriet hélt að hún gæti aflað tekna fyrir framhaldsnámi með því að sólþurrka silfurfiskinn, en annað kom á daginn. Rætt er við hana í meðfylgjandi kvikmyndabroti en hún segir farir sínar ekki sléttar í viðskiptum við útgerðina, krafist sé hárra skráningargjalda af verkafólki, konurnar þurfi sjálfar að kaupa netin sem fiskurinn er þurrkaður á - og tekjurnar séu nánast engar. 

Í verkefni Íslendinga og héraðsstjórnarinnar hafa verið reist fimm almenningssalerni í þorpinu og búið er að bora fyrir vatni skammt utan bæjarmarkanna sem leitt verður innan tíðar inn í þorpið. Eftirlitsmaður frá héraðsstjórninni segir breytingarnar ánægjulegar og nefnir að dregið hafi úr vatnsbornum sjúkdómum og einn af íbúum þorpsins lýsir yfir mikilli ánægju með stuðninginn.

Þótt opinberir aðilar bjóði börnunum í þorpinu enga formlega menntun hafa foreldrar sjálfir séð til þess að smáfólkið fái fræðslu. Af litlum efnum hafa þeir sett á fót foreldrarekinn grunnskóla og öll börnin eiga því  kost á menntun í fáeinar klukkustundir á dag. Rétt ofan við þorpið er vatnsbólið þar sem borað hefur verið eftir vatni; þar er fólk að þvo sér og næla sér í vatn þótt enginn sé kraninn. Innan tíðar verður vatnsdreifikerfi leitt inn í þorpið níu kranar með hreinu vatni aðgengilegir fyrir íbúa Muyubwe eins og Árni Helgason verkefnastjóri segir frá í kvikmyndabrotinu.
Samantekt Alþjóðabankans um fréttir ársins:
Metfjöldi flóttamanna í heiminum og gildistaka Parísarsamningsins 

Alþjóðabankinn birti á dögunum lista með tólf grafískum myndum sem bregða ljósi á nokkrar helstu fréttir nýliðins árs. Efst á blaði er metfjöldi flóttamanna í heiminum, næst kemur gildistaka Parísarsamkomulagsins um loftslagsmál, því næst samdráttur í heimsviðskiptum og í fjórða sæti er sú staðreynd að fleira fók hefur aðgengi að farsíma en rafmagni og hreinu vatni.

Af öðrum atriðum sem Alþjóðabankinn telur fréttnæmast frá árinu 2016 er að þriðjungur jarðarbúa er yngri en 20 ára, 600 milljón störf þarf að skapa á næstu tíu árum, þriðjungur íbúa jarðarinnar hafa ekki aðgang að klósetti og flestir sárafátækra í heiminum búa í sunnanverðri Afríku og sunnanverðri Asíu.

Frumbyggjar í Namibíu höfða skaðabótamál gegn Þjóðverjum
Herero ættbálkurinn á póstkorni frá 1904.

Fulltrúar tveggja ættbálka frumbyggja í Namibíu, Ovaherero og Nama, hafa höfðað mál vegna meintra þjóðarmorða nýlendustjórnar Þjóðverja á árunum 1904-1905 og krefjast skaðabóta. Málið er höfðað fyrir dómstól í New York.

Auk kröfunnar um skaðabætur fara fulltrúar ættbálkanna tveggja fram á að fulltrúar þeirra eigi sæti í samningaviðræðum milli stjórnvalda í Þýskalandi og Namibíu. Slíkar viðræður hafa verið í gangi á síðustu árum en hingað til hafa þýsk stjórnvöld ítrekað neitað að viðurkenna þjóðarmorðin og hafnað kröfunni um skaðabætur.

Talið er að 100 þúsund frumbyggjar í Namibíu hafi verið myrtir í útrýmingarherferð Þjóðverja.
Talsverð umræða um málið hefur verið í Þýskalandi á síðustu árum eins og sjá í frétt sem birtist í Heimsljósi árið 2015.

Svíar í forsæti Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna:
Vilja fyrirbyggja átök og tryggja þátttöku kvenna í friðarumleitunum
Svíar ætla að leggja áherslu á að fyrirbyggja átök og tryggja þátttöku kvenna í friðarumleitunum þann tíma sem þeir gegna formennsku í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, segir Margot Wallström utanríkisráðherra Svía í grein sem hún birti á dögunum í Dagens Nyheter. Svíþjóð hreppti sem kunnugt er sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna síðastliðið sumar og fulltrúar Svía gegna formennsku í ráðinu í janúar.

Fram kemur í greininni að Svíar vilja stuðla að uppbyggjandi nýju sambandi milli Antonío Guterres nýs framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og Öryggisráðsins.

Danska utanríkisráðuneytið:
Flóttafólk á gleymdum átaka-svæðum fær stuðning frá Dönum
Ulla Tørnæs utanríkisráðherra Dana 

"Rúmlega 65 milljónir manna í heiminum neyðast til að flýja heimili sín og þurfa á aðstoð okkar að halda. Við heyrum sjaldnast af mörgum þessara átaka. En það dregur ekki úr þörfinni fyrir mannúðaraðstoð. Þvert á móti. Hættan er sú að alþjóðasamfélagið gleymi þeim," sagði Ulla Tørnæs utanríkisráðherra Dana í fréttatilkynningu þegar hún greindi frá ákvörðun dönsku ríkisstjórnarinnar að verja síðasta styrk ársins 2016 til "gleymdra" átakasvæða í heiminum, einkum í Afríku.

Á vef Globalnyt í Danmörku segir að átök víðs vegar í heiminum leiði til þess að milljónir manna fari á vergang en þessa sé sjaldan getið í dönskum og alþjóðlegum fréttamiðlum.

Alls nemur styrkur dönsku ríkisstjórnarinnar 118 milljónum danskra króna, eða um 2 milljörðum íslenskra króna. Fjármununum verður fyrst og fremst ráðstafað til afrískra þjóða eins og Miðafríkulýðveldisins, Suður-Súdan og Búrúndi, auk Jemen á sunnanverðum Arabíuskaganum.

Skyndilokanir afrískra stjórnvalda á Netinu vaxandi áhyggjuefni

Netið verður stöðugt útbreiddara meðal Afríkuþjóða, veitir fólki ný tækifæri til að afla sér þekkingar og nýta kosti fjármálaþjónustu, svo dæmi séu nefnd. Ýmsir fjölmiðlar hafa hins vegar á síðustu vikum vakið athygli á því að ríkisstjórnir allmargra Afríkuþjóða grípa í auknum mæli til þess að loka fyrir Netið tímabundið. Samkvæmt mælingum vöktunarfyrirtækisins Access Now voru tíu slíkar skyndilokanir gerðar á síðasta ári meðal þjóðanna sunnan Sahara.

Eins og sést á myndinni - sem Brooking stofnunin birti - gripu stjórnvöld í Eþíópíu til Netlokana fjórum sinnum á síðasta ári, í tvígang var lokað fyrir Netið í bæði Gambíu og Úganda, einu sinni í Tjad, lýðstjórnarlýðveldinu Kongó, Gabon, Malí, Sambíu og Simbabve.

Þessar aðgerðir beinast fyrst og fremst að því að hindra umfjöllun og skoðanaskipti á samfélagsmiðlum í aðdraganda kosninga eða á tímum pólítískra átaka.

Brookings stofnunin segir að slíkar lokanir hafi ekki aðeins áhrif á upplýsingaflæði til umræddra þjóða heldur hafi einnig í för með sér efnahagslegt tjón - og vísar í skýrslu sem einn af fræðimönnum hennar birti í október síðastliðinum. Þar kom fram að tjónið vegna skyndilokana á Netinu á heimsvísu nam árið 2015 alls tæpum 2,4 milljörðum bandarískra dala. Mest var tjónið í lýðveldinu Kongó, Eþíópíu, Tjad og Úganda.

Kynningarfundur um ráðgjafaverkefni á sviði jarðhita í samstarfi við Alþjóðabankann 

Í morgun efndi þróunarsamvinnuskrifstofa utanríkisráðuneytisins til kynningarfundar um fyrirhugaðan stuðning við jarðhitaverkefni Alþjóðabankans og mögulega aðkomu íslenskra aðila. 

Ísland hefur frá 2005 stutt við starfsemi Energy Sector Management Assistance Programme (ESMAP) við Alþjóðabankann og frá 2009 hefur staða íslensks jarðhitasérfræðings verið kostuð við bankann. Markmiðið hefur verið að styðja við starf bankans í jarðhitaverkefnum og auka hlut þeirra í fjármögnunarverkefnum bankans. 

Nú er svo komið að Alþjóðbankinn er með allmörg jarðhitaverkefni í undirbúningi og framkvæmd víða um heim. Þrátt fyrir að þessi verkefni séu stór í sniðum hefur það sýnt sig að oft á tíðum er þörf fyrir sérhæfða þekkingu í afmarkaðri ráðgjöf í tengslum við framkvæmd þeirra. Því hefur sú hugmynd verið rædd við bankann að Ísland gæti aðstoðað við framkvæmd þessara verkefna með því að leggja til tæknilega aðstoð við tiltekna afmarkaða þætti sem voru kynntir á fundinum í morgun.

 

Afríkukeppnin hefst í vikulokin

Verið er að leggja lokahönd á undirbúning Afríkukeppninnar í knattspyrnu en keppnin hefst í Libreville, höfuðborg Vestur-Afríkuríkisins Gabon, næstkomandi laugardag, 14. janúar. Keppnin fer fram á fjórum íþróttaleikvöngum í borginni en fyrsti leikurinn verður á milli gestgjafanna og landsliðs Gínea Bissá.

Landslið Úganda tekur nú í fyrsta sinn um langt skeið þátt í Afríkukeppninni en liðið var á dögunum valið besta landslið Afríku á árlegri hátíð (GLO CAF) þar sem slíkar viðurkenningar eru veittar. Þá var markvörður liðsins, Denis Onyango, valinn besti knattspyrnumaður álfunnar, þ.e. af þeim sem spila innan Afríku. Af alþjóðlegum stjörnum bar Riyad Mahres frá Alsír sigur úr býtum en hann leikur sem kunnugt er með Englandsmeisturum Leicester.

Þrír leikmenn Leicester taka þátt í Afríkukeppninni en mörg önnur ensk félagslið verða fyrir blóðtöku meðan keppnin stendur yfir, en henni lýkur ekki fyrr en með úrslitaleik 5. febrúar.

Þjóðirnar sextán sem taka þátt í Afríkukeppninni 2017 eru Gabon, Fílabeinsströndin, Gana, Alsír, Túnis, Malí, Búrkína Fasó, Lýðstjórnarlýðveldið Kongó, Kamerún, Senegal, Marokkó, Egyptaland, Tógó, Úganda, Simbabve og Gínea Bissá.

-
-

Frétt um starfsnema mest lesin á Fésbók á liðnu ári

Af 439 fréttum sem birtust á Fésbókarsíðu alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands á nýliðnu ári var vinsælasta fréttin um þá þrjá starfsnema sem valdir voru síðastliðið sumar til fjögurra mánaða dvalar í þremur samstarfsríkjum Íslands í Afríku. "Ása María, Anna Guðrún og Sigrún Björg á leið til samstarfslanda Íslands" en sú frétt kom fyrir augu 3.400 lesenda síðunnar.

Önnur mest lesna frétt ársins 2016 var frá loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna í New York í apríl með fyrirsögninni "Einbeitið ykkur að endurnýjanlegri orku," en setningin var höfð eftir Jeffrey D. Sachs og fól í sér skilaboð til ríkisstjórna í heimnum. 

Þriðja mest lesna fréttin fjallaði um plastpokabann í Úganda, pistill Sigrúnar Bjargar Aðalgeirsdóttur starfsnema í Úganda og fjórða mest lesna fréttin var líka frá Úganda með myndasyrpu frá hátíð sem markaði upphaf formlegs samstarfs Íslands við héraðsyfirvöld í Buikwe héraði.
 
Áhugavert

-
-
-
-
-
-
Five African inventions to watch out for in 2017
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-

Fræðigreinar og skýrslur
Friðarboðskapur í fyrsta ávarpinu
António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sem tók við embætti á nýársdag flutti fyrsta ávarp sitt í gær. "Á þessum nýársdegi bið ég ykkur öll að taka höndum saman með mér um eitt sameiginlegt nýársheit: Setjum frið í öndvegi."

António Guterres var tilefndur aðalframkvæmdastjóri SÞ í október á nýliðnu ári og situr fimm ár í embætti, til 31. desember 2021.


Ten humanitarian stories to look out for in 2017/ IRIN
-
-
Ebola will return in 2017. Here's Why/ UNDispatch
-
Devex Insight: OECD DAC donor data, 1995-2015
-
Ban Ki-moon's Mixed Legacy as UN Secretary-General/ IPS
-
Immunisation and Inequality in 2016/ IPS
-
How "Open Source" Seed Producers from the US to India Are Changing Global Food Production/ OurWorld
-
Decent work and the 2030 Agenda for Sustainable Development/ ILO
-
Hope and employment/ D+C
-
GM malaria vaccine 'milestone'/ BBC
-
Humanitarian headlines of 2016 by the numbers/ IRIN
-
-
-

-
-
-
-
-
-
-
-
-

-
-
-
-
-
-
-

Sannar gjafir fyrir 27 milljónir 

Sannar gjafir Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) voru vinsælli en aldrei fyrr í desember og fjöldi fólks lagði neyðarsöfnunum samtakanna fyrir  Sýrland og  Nígeríu lið á aðventunni, að því er segir á vef UNICEF á Ísalndi.

Alls seldust  sannar gjafir fyrir yfir 27 milljónir króna árið 2016 og er það algjört met. Ríflega 22 milljónir króna söfnuðust auk þess fyrir Sýrland í desember.

Meðfylgjandi mynd birtist með fréttinni á vef UNICEF.

Skólar, leiguhúsnæði og leiðtogar morgundagsins
 
eftir Védísi Ólafsdóttur friðargæsluliða í Jórdaníu

Ljósmyndir: UNRWA
Kennari opnar dyr á kennslustofu til hálfs og smeygir sér inn. Dyrnar opnast aðeins í hálfa gátt af því að skólabekkur er fyrir. Á bekknum sitja þrír drengir, þétt upp við hvern annan. Kennslustofan er ekki stærri en meðal íslensk borðstofa og þar sitja yfir 20 drengir. Skólinn er Quosor skóli í Norður Amman, einn af 171 skóla fyrir börn á aldrinum 6-16 ára sem reknir eru á vegum Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna í Jórdaníu, yfirleitt þekkt sem UNRWA.

UNRWA starfar á Gaza, Vesturbakkanum, Líbanon, Sýrlandi og í Jórdaníu en skráðir palestínskir flóttamenn í Jórdaníu eru 2,2 milljónir eða 42% allra skráðra flóttamanna hjá stofnuninni. UNRWA í Jórdaníu rekur auk grunnskólanna, 25 heilsugæslustöðvar, tvo iðnskóla, einn kennaraskóla og félagsþjónustu sem býður fjármagnsaðstoð fyrir þau sem helst þurfa. Tæplega 7000 manns starfa fyrir stofnunina í Jórdaníu, meirihlutinn í skólakerfinu.

Fjöldi barna í UNRWA skólum í Jórdaníu jafnast á við þriðjung allra Íslendinga. Skólaárið 2016-2017 eru yfir 120 000 börn skráð í skóla stofnunarinnar. Einn vandi menntakerfisins er húsnæðisskortur. Lýsingin á húsnæðinu hér að framan á við um 57 af 171 skóla UNRWA í Jórdaníu. Þeir skólar eru reknir í íbúðarhúsnæði í stað viðeigandi skólabygginga. Vegna mikillar eftirspurnar eftir skólavist og húsnæðisskorts á áttunda áratuguinum var gripið til þess ráðs að reka skóla í íbúðarhúsnæði. Þetta átti að vera tímabundin lausn en nú, 40 árum síðar, starfa skólarnir þar enn. Eftirspurn eftir skólaplássum eykst svo að nú eru skólastofurnar þétt setnar. Yfir 90% af öllum UNRWA skólum í Jórdaníu eru tvísetnir, fyrir og eftir hádegi. Ferðalög í myrkri til og frá skólum að vetrarlagi hafa áhrif á brottfall nemenda og þétt stundaskrá bitnar á tómstundastarfi í skólunum.    

UNRWA í Jórdaníu leggur áherslu á að afla fjár til nýrra skólabygginga, sérstaklega í stað leiguhúsnæðisins. Bygging nýs húsnæðis veltur á að land fáist undir það frá jórdönskum stjórnvöldum. Með bygginu nýrra skóla má lækka rekstrarkostnað skólanna verulega, bæði með því að hafa fleiri nemendur í hverjum bekk í betri aðstöðu og að losna við leigukostnað. Ekki alls fyrir löngu var stofnun nýs skóla fagnað. Jabal Taj skóli er ný skólabygging sem tekur við af leiguhúsnæði á þrem stöðum. Skólinn var fjármagnaður af bandarískum stjórnvöldum á landi sem jórdönsk stjórnvöld veittu. Skólinn er með gott aðgengi og mun framleiða eigið rafmagn með sólarorkustöð á þakinu. Yfir 1300 börn sem áður stunduðu nám í þröngu skólahúsnæði njóta nú viðeigandi skólaumhverfis.

Ásættanlegt vinnuumhverfi er forsenda þess að umbætur geti átt sér stað í menntakerfinu. Á síðustu árum hefur UNRWA lagt ríka áherslur á einstaklingsbundið nám og fjölbreytileika. Unnið er að því að bæta aðgengi að skólabyggingum auk þess sem áhersla er lögð á að hvetja til frumkvæðis og að efla leiðtogahæfni nemenda. Sett hefur verið á fót verkefni sem hvetur til þekkingar nemenda til mannréttinda, sérstaklega í starfi skólaþinga hvers skóla. Í hverjum skóla starfar skólaþing þar sem kosnir fulltrúar hvers bekks sitja.

Málefni skólaþinganna eru margs konar, þau skapa tengsl við skólann sinn, nærsamfélagið og sveitarfélag sitt auk þess sem þau taka á ágreningsmálum samnemenda sinna. Nemendurnir sýna frumkvæði og styrk og eru tákn um það sem koma skal. Þau benda á þarfir fyrir umbætur í skólaumhverfi sínu, líkt og minnkun úrgangs, bætt aðgengi og aðbúnað. Þau hafa nú óskað eftir að sinna ráðgjafarhlutverki í hönnun nýrra skólabygginga. UNRWA í Jórdaníu, sem er skipt upp í fjögur svæði, hefur nú starfandi fjögur svæðisþing, þar sem forsetar hvers skóla á svæðinu starfa saman. Hvert svæðisþing velur sér síðan forseta sem svo starfar í skólaráði UNRWA Jórdaníu.

Síðastliðið haust tókst í fyrsta skipti að setja á fót þing fyrir fulltrúa skólaþinganna frá hverju landi. Í Beirút í Líbanon komu saman fulltrúar allra landanna þar sem UNRWA starfar, þ.e. frá Sýrlandi, Líbanon, Jórdaníu, Gaza og Vesturbakkanum. Öll tala þau sama tungumál en alast upp í gjörólíku umhverfi. Öll eiga þau sögu frá sama landsvæði, þótt minnihluti þeirra hafi heimsótt Palestínu þar sem afar þeirra og ömmur fæddust.

Þrátt fyrir stöðugan skort á húsnæði og takmarkað vinnuumhverfi eykst eftirspurn eftir plássi í UNRWA skólum frá degi til dags. Nemendur skólanna þroskast og vaxa og mörg barnanna blómstra í leiðtogahlutverki í skólaþingunum. Mörg þeirra taka virkan þátt í viðburðum á vegum UNRWA, koma fram og kynna hugmyndir sínar og starf. Það er einstakt tækifæri að fá að starfa með leiðtogum morgundagsins.

facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105