Heimsljós
veftímarit um þróunar- og mannúðarmál
10. árg. 341. tbl.
8. nóvember 2017
Global Nutrition Report 2017:
Næring í öndvegi þróunarsamvinnu og baráttunnar gegn fátækt 

Leitun er að þeirri þjóð sem ekki glímir við vanda sem tengist næringu, ýmist vannæringu eða offitu, segir í árlegri alþjóðlegri skýrslu um næringu - The Global Nutrition Report 2017. Á alþjóðlegri ráðstefnu í Mílanó um síðustu helgi, þar sem skýrslan var lögð fram, var samþykkt að setja næringu bæði í öndvegi í baráttunni gegn fátækt og í allri alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Þá voru þjóðir heims hvattar til þess að leggja fram fjármagn til að útrýma vannæringu og staðhæft að slíkt myndi stuðla að öllum Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Eins og áður hefur komið fram hefur hungruðum í heiminum fjölgað í fyrsta sinn um langt árabil. Vannærðum fjölgaði úr 777 milljónum í 815 milljónir milli áranna 2015 og 2016 sem sagt er sýna hversu brýnt sé að stemma stigu við þeirri óheillaþróun. Í skýrslunni er reyndar bent á að ofþyngd og offita breiðist líka út nánast meðal allra þjóða. Fram kemur að hvorki meira né minna en 2 milljarðar af þeim 7 milljörðum sem búa á jarðarkringlunni séu ýmist of þungir eða glíma við offitu, þar af 41 milljón barna bæði í hátekju- og lágtekjuríkjum. Meðal annars er nefnt að 10 milljónir barna í Afríku séu of þungar.

Skýrslan byggir á viðamiklum rannsóknum í 140 þjóðríkjum. Skýrsluhöfundar skilgreindu sérstaklega þrjú mikilvæg atriði í tengslum við vannæringu sem hafa alvarlegar afleiðingar: 1) vaxtarhömlun barna (stunting); 2) blóðleysi kvenna á barneignaaldri; og 3) yfirþyngd fullorðinna kvenna. Skýrsluhöfundar komust að þeirri niðurstöðu að meðal 88% þjóðanna væru tvö af  þessum þremur atriðum í alvarlegum ólestri sem þyrfti að bregðast við hið fyrsta.

Góðu fréttirnar eru þær að vannæring barna er á undanhaldi á heimsvísu en hins vegar eru framfarirnar ekki nægilegar til þess að raunhæft sé að ná Heimsmarkmiði 2.2. þar sem segir: "Eigi síðar en árið 2030 verði vannæringu í hvaða mynd sem er útrýmt, þar á meðal verði árið 2025 búið að ná alþjóðlegum markmiðum um að stöðva kyrking í vexti og uppdráttarsýki barna undir 5 ára aldri, og hugað verði að næringarþörfum unglingsstúlkna, þungaðra kvenna, kvenna með börn á brjósti og aldraðra."

Til marks um alvarleika vannæringar kemur fram í skýrslunni að helmingur allra dauðsfalla barna yngri en fimm ára megi rekja til hennar. Auk þess rænir vannæring á barnsaldri börn eðlilegum líkamlegum og andlegum þroska með tilheyrandi námserfiðleikum og lakari tekjumöguleikum til framtíðar, að því ógleymdu að vannæring veikir ónæmiskerfið með þekktum afleiðingum.

Að mati Kofi Annans fyrrverandi aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna sem sótti ráðstefnuna í Mílanó er vannæring á heimsvísu ógn við bæði líkamlega og andlega vellíðan þeirrar kynslóðar sem nú vex úr grasi og þær kynslóðir sem á eftir koma. "Það er ákaflega brýnt að lagðir verði fram fjármunir til að bregðast við þessum vanda þannig að fólk, samfélög og þjóðir geti nýtt getu sína til fulls," sagði Kofi Annan.

Framlagsríki, alþjóðastofnanir og borgarasamtök gáfu vilyrði um fjárstuðning á Mílanófundinum fyrir 3,4 milljörðum bandarískra dala, þar á meðal 640 milljóna dala skuldbindingu til nýrra verkefna í því skyni að bæta næringu fólks. 

Neyðaraðstoð og þróunarsamvinna:
Samstarfsverkefni Alþjóðabankans og Sameinuðu þjóðanna að hefjast á fjórum átakasvæðum
Sífellt fleira fólk undir fátæktarmörkum býr í óstöðugum ríkjum þar sem blóðug átök leiða til fólksflótta. Vegna þessarar óheillaþróunar hefur Alþjóðabankinn ákveðið að tvöfalda framlög sín til óstöðugra ríkja. Bankinn hefur tekið upp samstarf við Sameinuðu þjóðirnar með það að markmiði að samtvinna neyðaraðstoð og þróunarsamvinnu.

Greint er frá þessu í nýjasta tölublaði danska utanríkisráðuneytisins um alþjóða- og þróunarmál en blaðið sem hét Udvikling hefur nú fengið heitið 360°.

Franck Bousquet. Ljósmynd: 360°
"Ef við gerum ekki neitt annað en það sem við gerum venjulega munum við sjá á næstu árum að 60% fátækra í heiminum eiga heima í óstöðugum ríkjum," segir Franck Bousquet nýr forstöðumaður þeirrar deildar Alþjóðabankans sem fer með málefni óstöðugra ríkja þar sem stríðsátök og ofbeldi er daglegt brauð.

Á næstu þremur árum áformar Alþjóðabankinn að tvöfalda framlög til verkefna í óstöðugum ríkjum, hækka framlögin úr sjö milljörðum bandarískra dala upp í fjórtán milljarða. Auk Bankans eru fulltrúar annarra stofnana á vettvangi og áhersla verður lögð á einskonar viðvörunarkerfi til að freista þess að afstýra ofbeldisfullum átökum. Tvær Sameinuðu þjóða stofnanir verða helstu samstarfsaðilar bankans, Þróunaráætlun SÞ (UNDP) og Flóttamannastofnun SÞ (UNHCR) auk staðbundinna samtaka.

Af fyrrnefndum fjórtán milljörðum verða tveir nýttir til að styðja þróunarríki sem hafa tekið við tugþúsundum flóttamanna á síðustu misserum.

"Eins og flestir vita búa 90% flóttamanna í nágrannaríkjum, sem eru þróunarríki," segir Franck Bousquet í viðtalinu við 360°.

Frá árinu 2010 hefur orðið mikil fjölgun stríðsátaka í heiminum og átökin orðið langvinnari. Fram kemur í fréttinni að tveir milljarðar manna búi á óstöðugum átakasvæðum og rúmlega tuttugu milljónir séu á flótta, fleiri en frá dögum síðari heimsstyrjaldar. Víða sé matarskortur og gistiríkin sem taka á móti flóttafólki frá stríðshrjáðum svæðum eigi í erfiðleikum með að taka við fólki, ekki síst þar sem flóttafólk fær aðgang að vinnumarkaði og annarri þjónustu sveitarfélaga.

Samstarf Alþjóðabankans og Sameinuðu þjóðanna þar sem neyðaraðstoð og langtíma þróunarsamvinna samtvinnast hefst í fjórum ríkjum, Sómalíu, Súdan, Jemen og Nígeríu.

Fundur háttsettra embættismanna í París:
Nýjar viðmiðunarreglur samþykktar á DAC fundi um innanlandskostnað vegna flóttamanna

Þróunarsamvinnunefnd OECD, DAC, samþykkti í síðustu viku á fundi háttsettra embættismanna í París nýjar viðmiðunarreglur um það hvaða kostnað vegna flóttamanna framlagsríki geta talið fram sem framlög til þróunarsamvinnu. María Erla Marelsdóttir skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu og Pálína Björk Matthíasdóttir sendiráðsritari í sendiráði Íslands í París tóku þátt í fundinum fyrir Íslands hönd.

Í DAC nefndinni eiga sæti fulltrúar þrjátíu framlagsríkja og hlutverk DAC er meðal annars að setja reglur um það hvaða kostnað má flokka sem framlög til þróunarsamvinnu (ODA). DAC nefndin starfar allan ársins hring og vinnur meðal annars að jafningjarýni eins og þeirri sem birt var fyrr á þessu ári um íslenska þróunarsamvinnu. Fundir háttsettra embættismanna eru að jafnaði haldnir á tveggja ára fresti og breytingar á reglum þurfa samþykki allra fulltrúanna.

Miklar umræður hafa verið síðustu misserin innan DAC og meðal framlagsríkja um það hvaða kostnað megi telja til framlaga til þróunarmála og hvað ekki, bæði í þróunarríkjunum þar sem 86% flóttamanna hafa leitað skjóls frá hörmungum heima fyrir, en ekki hvað síst í þróuðu ríkjunum, framlagsríkjunum sjálfum. Á fundinum í París var samþykktur ítarlegur listi yfir þann kostnað sem telja má fram sem ODA-kostnað. Þar gilda fyrri viðmið um að stuðning við flóttafólk fyrsta árið í gistiríki, frá því umsókn berst, megi reikna sem framlög til þróunarsamvinnu. Hins vegar voru tekin af öll tvímæli um að kostnaður við landamæraeftirlit, miðstöðva hælisleitenda, flutning hælisleitenda til upprunalands og allur kostnaður vegna þeirra flóttamanna eða hælisleitenda sem fá synjun eða er "í bið" eftir að fara til annars lands, fellur EKKI undir framlög til þróunarsamvinnu.

Á Parísarfundinum var ennfremur rætt um viðbrögð við flóttamannavandanum og hvernig ber að tryggja að smáríki sem eru þróunarríki fái nægilegan stuðning til þess að ná Heimsmarkmiðum SÞ. Þá voru samþykkt skjöl um framtíðarsýn og hlutverk nefndarinnar.

Skýrsla Save The Children:
Lungnabólga banvænasti sjúkdómurinn sem leggst á börn
Tvö börn deyja af völdum lungnabólgu á hverri mínútu, segir í nýrri skýrslu alþjóðasamtakanna Save the Children. Þegar umreiknað er yfir heilt ár kemur í ljós að lungnabólga - "gleymdi barnamorðinginn" eins og hún er stundum kölluð - hefur leitt til dauðsfalla rúmlega einnar milljónar barna, meira en nokkur annar sjúkdómur og meira en malaría, mislingar og niðurgangspestir samanlagt.

Það sem gerir þessar tölur skelfilegri en ella er sú staðreynd að lungnabólgu má með litlum tilkostnaði lækna með sýklalyfi eins og Amoxicillin sem kostar innan við 50 krónur íslenskar.

Í skýrslu Save the Children - Fight For Breath -  kemur fram að sérfræðingar telja að lungnabólga greinist árlega hjá um það bil 120 milljónum barna. Af þeim fái um 40 milljónir barna enga meðferð og sjúkdómurinn leggst svo þungt á 14 milljónir barna að þau liggja milli heims og helju. Flest barnanna sem látast af völdum sjúkdómsins eru innan við tveggja ára.

Flest dauðsföllin verða í lágtekjuríkjum eins og Pakistan, Angóla, Eþíópíu, Afganistan, Tjad og Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó, en meðal tveggja aðeins efnaðri þjóða og fjölmennari deyja þó flest börn úr lungnabólgu: á Indlandi og Nígeríu.

Útgáfa skýrslunnar í síðustu viku markaði upphaf alþjóðlegrar herferðar Save The Children og vitundarvakningar um lungnabólgu sem ætlað er að bjarga þúsundum barna.

Börn í meirihluta þeirra Róhingja sem koma í flóttamannabúðir í Bangladess

Helle Thorning-Schmidt framkvæmdastjóri Save the Children International í flóttamannabúðunum. Ljósmynd: Barnaheill.
"Helle Thorning-Schmidt framkvæmdastjóri Barnaheilla - Save the Children International hélt fyrir stuttu til Bangladess til að kynna sér ástandið í flóttamannabúðum Róhingja sem flúið hafa ofsóknir og grimmdarverk gegn þeim í Mjanmar. Nærri 600 þúsund Róhingjar hafa komið í búðirnar síðan í ágúst. Þetta er mesti flóttamannavandi í heimi frá því þjóðarmorðin áttu sér stað í Rúanda árið 1994," segir í frétt á vef Barnaheilla, Save the Children á Íslandi.

Þar segir ennfremur:
"Meira en helmingur þeirra sem komið hafa í flóttamannabúðirnar eru börn. "Það eru börn alls staðar, að leika sér í drullunni, berfætt og fáklædd. Fjölskyldur hafa komið allslausar og búa í frumstæðum skýlum. Allar aðstæður eru mjög bágbornar og gróðrarstía fyrir alvarlega smitsjúkdóma. Skortur er á hreinu vatni og fólk hefur enga möguleika á að sjá sér fyrir nauðþurftum og er því algjörlega háð utanaðkomandi aðstoð. Í það minnsta 50.000 börn þjást af vannæringu. Mörg börn eru ein á ferð og í mikilli þörf fyrir vernd.

Barnaheill - Save the Children reka öflugt starf í Bangladess sem hefur auðveldað hraða uppbyggingu hjálparstarfs. Á tveggja mánaða tímabili hefur starfsmönnum í flóttamannabúðunum fjölgað úr 15 í 150."

Ill meðferð á börnum opinberuð í tölfræðigögnum UNICEF
Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) vekur athygli á útbreiddu ofbeldi í garð barna hvarvetna í heiminum í nýrri skýrslu þar sem megin niðurstöðurnar eru þær að þrjú börn af hverjum fjórum hafa upplifað ofbeldi. 

Aðrar athyglisverðar niðurstöður eru þessar:

 • Um það bil 300 milljónir barna í heiminum á aldrinum, tveggja til fjögurra ára, eru beitt líkamlegum refsingum eða hreytt í þau ónotum af foreldrum eða öðrum sem treyst hefur verið fyrir börnunum.
 • Tæplega 130 milljónir nemenda, 13 til 15 ára hafa orðið fyrir einelti.
 • Á hverri sjöundu mínútu er unglingur myrtur. Árið 2015 létust 82 þúsund unglingar vegna ofbeldisverka.
 • Yfir 700 milljónir barna á skólaaldri, 6-17 ára, búa í löndum þar sem líkamleg refsing er ekki bönnuð.
 • Fimmtán milljónir stúlkna hafa við nítján ára aldur upplifað kynferðislega nauðung, meðal annars nauðgun - í flestum tilvikum af geranda sem þær þekkja.
 • Samkvæmt gögnum UNICEF frá 30 þjóðríkjum hefur aðeins 1% stúlkna leitað til fagaðila eftir kynferðislegt ofbeldi.


Að mati UNICEF dregur ofbeldi í garð barna, fyrir utan ónauðsynlegan sársauka og þjáningu sem það veldur, úr sjálfsöryggi þeirra og truflar eðlilegt þroskaferli. Tölfræðin sem dregin er saman í skýrslu samtakanna sýnir að börn verða fyrir ofbeldi á öllum tímum bernskunnar, á ólíkum stöðum, og oftast af hendi þeirra sem þau treysta og hafa samskipti við dag hvern. Litið er á ofbeldi í hvaða formi sem því er beitt sem brot á réttindum barna. UNICEF segir að fyrsta skrefið til þess að útrýma ofbeldi gegn börnum sé með því að draga fram tölfræðilegar staðreyndir.


Loftslagsráðstefna í Bonn til að fylgja eftir Parísarsamkomulagi

Þjóðir heims komu saman til loftslagsráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna í Bonn í Þýskalandi í gær.  Markmiðið er að finna leiðir til að ná þeim markmiðum sem samið var um  í Parísar-samkomulaginu um loftslagsmál. 

Á vef upplýsingaskrifstofu SÞ segir að ráðstefnan sem kölluð er COP23 sé tækifæri fyrir þjóðir heims til að sýna metnað sinn í loftslagsmálum og staðfestu í að standa við gefin loforð. 

 "Parísarsamkomulagið náðist á einum af þeim augnablikum þegar besti hluti mannkynsins náði að koma sér saman um samkomulag sem var þýðingarmikið fyrir framtíðina. Fundurinn í Bonn snýst um hvernig við höldum áleiðis til að standa við loforðin," segir Patricia Espinosa, forstjóri Loftslagsstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC).  

Parísarsamkomulagið var samþykkt af 196 aðilum að Rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál í desember 2015. Þar setja aðilar sér það mark að aukning hitastigs jarðar haldist innan tveggja gráða á selsíus og leitast við að takmarka hlýnunina við 1.5 gráður. 

Viku áður en ráðstefnan hófst tilkynnti Alþjóðaveðurfræðistofnunin (WMO) að magn koltvíserings í andrúmsloftinu hefði aldrei aukist jafn hratt og árið 2016. 

Þá gaf Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna út  árlega skýrslu þar sem mat er lagt á hve stórt bil er á milli fyrirheita um niðurskurð losunar kolvtvíserings í Parísar-samkomulaginu og raunverulegs niðurskurðar.  Þar er komist að þeirri niðurstöðu að  "bilið valdi áhyggjum." Jafnvel þótt staðið væri við allar landsáætlanir eða fyrirheit einstakra ríkja um niðurskurð, myndi losunin valda að minnsta kosti þriggja gráðu hækkun hitastigs jarðar fyrir lok þessarar aldar. 

  "Einu ári eftir að Parísar-samkomulagið tók gildi, stöndum við frammi fyrir því  enn einu sinni að við höfum ekki gert næstum nógu mikið til að forða hundruð milljónum manna frá ömurlegri framtíð, segir Erik Solheim, forstjóri UNEP, Umhverfisstofnunar SÞ.  

Fiji-eyjar sitja í forsæti ráðstefnunnar í Bonn sem hófst í gær og stendur til 17. nóvember. Oddvitar ríkja og ríkisstjórna, ásamt António Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna taka þátt í síðustu dögum ráðstefnunnar, 15.og 16. nóvember.

Fermingarbörn safna fyrir vatni

Börn í fermingarfræðslu ganga í hús um land allt vikuna 6.-10. nóvember með söfnunarbauk Hjálparstarfs kirkjunnar í hönd og safna fyrir vatnsverkefnum í Eþíópíu. 

Áður en börnin fara af stað fræðast þau um verkefnin og um gildi samhjálpar og náungakærleiks. Prestar, annað starfsfólk kirkna, foreldrar og síðast en ekki síst börnin sjálf leggja á sig mikla vinnu við söfnunina og er framlag þeirra ómetanlegt, segir í frétt á vef Hjálparstarfsins.
Neyðarsöfnun fyrir konur í Zaatari flóttamannabúðunum hafin á vegum UN Women

Landsnefnd UN Women á Íslandi hefur hafið neyðarsöfnun fyrir konur í Zaatari flóttamannabúðunum. Þú getur hjálpað konu á flótta með því að senda sms-ið KONUR í 1900 (1.490 kr.)  #konuráflótta  

Meira um Zaatari flóttamannabúðirnar í Jórdaníu á öðrum stað í Heimsljósi.

Börn fá orðið á alþjóðadegi barna
Á alþjóðadegi barna, 20. nóvember, munu börn um allan heim fá orðið í fjölmiðlum, stjórnmálum, íþróttum og listum, í þeim tilgangi að tala fyrir menntun, réttindum og öryggi allra barna. Dagurinn, sem haldinn er 20. nóvember ár hvert, er einnig afmælisdagur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í tilefni dagsins fá fyrstu Réttindaskólar UNICEF á Íslandi viðurkenningu, en það eru Flataskóli og Laugarnesskóli ásamt frístundaheimilunum Dalheimum, Laugaseli og Krakkakoti. Í samstarfi við UNICEF leggja þessir skólar og frístundaheimili Barnasáttmálann til grundvallar í öllu sínu í starfi.

UNICEF á Íslandi hvetur fjölmiðla, skóla, foreldra og ráðamenn til að gefa börnum orðið alla daga, og vill nýta alþjóðadag barna til þess að minna á það. UNICEF á Íslandi vill að 20. nóvember fái börn tækifæri til að tjá skoðanir sínar, og tala fyrir réttindum sínum og annarra barna heima hjá sér, í skólanum og úti í samfélaginu. 

"Nú þegar kosningar eru nýafstaðnar þykir okkur mikilvægt að hlustað sé eftir skoðunum barna" segir Steinunn Jakobsdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi. "Börn eru ekki með kosningarétt, en eru hins vegar sá þjóðfélagshópur sem treystir hvað mest á vilja stjórnvalda til að tryggja menntun þeirra og öryggi."

Börn fá orðið um allan heim
Í aðdraganda 20. nóvember mun UNICEF gefa börnum um allan heim orðið svo þau geti talað fyrir réttindum sínum og annarra barna, því þrátt fyrir miklar framfarir undanfarinna áratuga er staðan í heiminum enn sú að:
 • 385 milljón börn búa við mikla fátækt
 • 264 milljón börn og ungmenni eru utan skóla
 • 5,6 milljón börn undir fimm ára aldri létust á síðasta ári af fyrirbyggjanlegum orsökum
Alþjóðlega munu þekktir leikarar, íþróttafólk og þjóðarleiðtogar taka þátt í deginum. Sem dæmi má nefna að:

David Beckham, góðgerðarsendiherra UNICEF, mun spyrja börn út í skoðanir þeirra á stöðu heimsmála í stuttmynd sem gefin verður út á alþjóðadegi barna.

Börn munu taka yfir verkefni ríkisstjórna, borgarstjóra, íþróttafólks og leikfangafyrirtækja á borð við Lego;
Leikkonurnar Dafne Keen (Logan) og Isabela Moner (Transformers: the Last Knight), ásamt Nickelodeon munu stýra samkomu 150 barna í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York.

Hér á Íslandi má búast við skemmtilegum uppákomum í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum sem fylgjast má með undir myllumerkinu #börnfáorðið. Ungmennaráð UNICEF á Íslandi er einnig að vinna að myndböndum með nokkrum börnum þar sem þau velta fyrir sér framtíðinni og verður spennandi að fylgjast með. 

UNICEF á Íslandi hlakkar til að fagna alþjóðadegi barna og hvetur alla til að taka þátt!

Kynningarmyndband um alþjóðadag barna má sjá  hér
#börnfáorðið


Stríð & hungur

Vopnuðum átökum fjölgar og þau verða sífellt flóknari. Átök torvelda baráttuna um útrýmingu hungurs fyrir árið 2030. Átök eru líka meginástæða hungurs í heiminum því rúmlega helmingur allra þeirra sem eru á barmi hungursneyðar er fólk á átakasvæðum, milljónir íbúa í Sómalíu, Suður-Súdan og Jemen. Á sama tíma kyndir hungrið undir átök - og leiðir til langvarandi misklíðar og deilna um land, búfénað og aðrar eigur.

Eitthvað á þessa leið hefst kynning á athyglisverðu málþingi norrænunar skrifstofu Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna sem haldið verður í Kaupmannahöfn 16. nóvember næstkomandi með yfirskriftinni "Átök & hungur" og fjallar um tengslin á milli hungurs, átaka, flóttafólks og friðar. Meðal sérfræðinga í pallborði eru fulltrúar dönsku kirkjunnar, Alþjóðastofnunar Dana (DIIS), Alþjóðastofnunar um fólksflutninga (IOM) og Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP)

Umræðurnar fara fram á ensku - þessu er sérstaklega beint til ykkar sem eigið leið um Kaupmannahöfn um þetta leyti og aðra þá sem hafa tök á því að fara á málstofuna.

Skráning hér

Áhugavert

-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-


Future in doubt, British aid minister deals further blow to May/ Reuters
-
What's The Meaning Of The World Bank's New Poverty Lines?/ NPR
-

360° - nýtt nafn á þróunartímariti Dana, 4/2017
-
Kínverjar segja nei takk- Vesturlönd í rusli/ Norrænt fréttabréf UNRIC
-
"People are dying every day" - CAR refugees fleeing war suffer in Congo/ IRIN
-
Uganda MPs reject 'bribe' linked to age-limit bill/ Nation
-
Drone, meet the humanitarian cluster approach/ Devex
-
Red Cross: $6 Million Meant to Fight Ebola Was Stolen Through Fraud/ TIME
-
Thousands of Rohingyas cross into Bangladesh overnight; child malnutrition soars in camps - UN
-
A tiny African island nation will run on 100% renewable energy in less than a decade/ Qz
-
'I have to help my family' -The growing danger of child labour in Rohingya refugee camps/ IRIN
-
Millions of girls forced into sex yet only 1 in 100 seek help - U.N./ Reuters
-
The hype by big business about a fast-growing African middle class has been misleading/ Qz
-
How the Russian Revolution shaped African history/ DW
-
US ramps up military strikes in Somalia - Human rights groups concerned there will be a rise in civilian casualties/ IRIN
-
Skuggahliðar rafbílavæðingarinnar/ Bændablaðið
-
Tuberculosis world's top infectious killer; UN health agency calls for political action to stop spread/ UNNewsCentre
-
-Sudan: RAPID APPRAISAL - Tonga, Panyikang county/ WFP
-
UN human rights office moves to tackle sexual harassment/ Devex
-
The World Bank is Open in Order to End Extreme Poverty, eftir Elisa Liberatori Prati/ Alþjóðabankablogg
-
The EU's financial instruments for access to energy in sub-Saharan Africa/ ECDPM
-
Red Cross Federation Chief Vows Corruption Crackdown/ VOA
-
Climate change: A catalyst for conflict/ DW
-
UNICEF announces twenty finalists for first ever Climate! Comic! Contest!/ UNICEF
-
Aid workers warn of 'cooling effect' after Oxfam sexual harassment scandal/ Devex
-
It's taken 50 years, but Nigeria is finally compensating victims of the brutal Biafra war/ Qz
-
Innovativt svenskt bistånd ger två miljoner zambier tillgång till el/ SIDA
-
Sweden gives $36m to UN Tanzania/ TheCitizen
-
Paradise Papers: "Transparency Is a Powerful Tool" - viðtal við Kofi Annan/ SuedDeutsche
-
INNOVATIVE CLIMATE DATA - Climate Information & Early Warnings to Save Lives and Build Livelihoods in Uganda/ UNDP
-
UNHCR report exposes the discrimination pervading the life of stateless minorities worldwide/ UNHCR
-
Súkkulaðiframleiðsla drifkraftur eyðingar regnskóga á Fílabeinsströnd Afríku/ Bændablaðið
-
Smart city initiatives in Africa/ Brookings
-
Thousands of Cameroonians seek refuge in Nigeria/ UNHCR
-
-Norge må bli tøffere og tydeligere i Mosambik/ Bistandsaktuelt
-
Rwanda: President Paul Kagame receives the 2017 World Tourism Award/ ThisIsAfrica
-
EU-Horn of Africa migration policy inherently flawed, new report suggests/ DW
-
6 partners helping us to Change the World/ WFP

Sýrlenskar konur á flótta þrá nýtt upphaf

UN Women hefur hrint af stað neyðarsöfnun fyrir konur og stúlkur frá Sýrlandi sem dvelja í Zaatari flóttamannabúðunum í Jórdaníu. Flestar konur í búðunum eru margra barna mæður sem sárlega þurfa vernd, öryggi og stuðning til að koma undir sig fótunum á ný.

Rætt var við Elizu Reid forsetafrú og Evu Maríu Jónsdóttur verndara UN Women í Kastljósi í gærkvöldi. Smeillið á myndina til að horfa á viðtalið.
Fyrir skömmu heimsóttu fulltrúar UN Women á Íslandi Zaatari flóttamannabúðirnar og kynntu sér starfsemi UN Women í búðunum. Eva María Jónsdóttir verndari UN Women á Íslandi og ElizaReid forsetafrú heimsóttu griðastaði UN Women í Zaatari þar sem konur fá hvíld frá stöðugum áhyggjum og ótta.

Vissir þú að:
 • 1 af hverjum 3 konum í Zaatari búðunum hefur verið gift á barnsaldri
 • Konur og stúlkur á flótta eru berskjaldaðar fyrir ofbeldi
 • 1 af hverjum 5 konum í búðunum er fyrirvinna fjölskyldu sinnar
 • Atvinnutækifæri fyrir konur í Zaatari eru sárafá.
Um 80 þúsund Sýrlendingar dvelja í Zaatari eftir að hafa flúið stríðsátök og ofbeldi í heimalandi sínu. Búðirnar eru þær næststærstu í heiminum og jafnframt fjórða fjölmennasta borg Jórdaníu.

Konur og börn eru um  80% íbúa Zaatari og eiga erfitt uppdráttar í búðunum. Flestar konur í Zaatari glíma við áfallastreituröskun, þunglyndi og einangrun. Þær hafa orðið fyrir skelfilegum áföllum; misst börn sín, maka og ástvini. Margar þeirra eru ekkjur og einstæðar margra barna mæður. Það er staðreynd að konur og stúlkur á flótta eiga í meiri hættu á að verða fyrir kynferðislegu áreiti og kynbundnu ofbeldi.

Griðastaðir UN Women í Zaatari
Til að sporna við ofbeldinu og aukningu barnahjónabanda í flóttamannabúðunum starfrækir UN Women þrjá griðastaði fyrir konur og stúlkur. Hver griðastaður samanstendur af níu gámum. Þar eru konur og stúlkur óhultar fyrir ofbeldi, fá atvinnutækifæri, menntun og börnin daggæslu, þar fá konur einnig sálrænan stuðning eftir áföll og ofbeldi. Á griðastöðunum fer einnig fram öflugt fræðslu- og forvarnarstarf þar sem konur og karlmenn á öllum aldri hljóta fræðslu um skaðlegar afleiðingar þess að gifta barnungar stúlkur.

Á griðastöðum UN Women gefst konum einnig kostur á að stunda hagnýtt nám t.d. í ensku, arabísku, mósaík, tölvukennslu, saumi, klæðskurði og hárgreiðslu. Komið hefur verið upp klæðskera- og saumastofum ásamt tölvustofu og hárgreiðslustofum. Á saumastofunni eru ungbarnaföt og burðarrúm saumuð fyrir sjúkrahús búðanna sem dreift er til nýbakaðra mæðra. Þar er smálánasjóður sem konur greiða í og geta sótt í ef þær eða börn þeirra veikjast. Auk þess setti UN Women á laggirnar kven nanefnd sem á sæti í stjórn flóttamannabúðanna - og kemur áhyggjuefnum og sjónarmiðum kvenna á framfæri við yfirvöld Zaatari búðanna.

Færri konur komast að en vilja og hundruð kvenna eru á biðlista eftir aðstoð. Til að starfrækja griðastaði UN Women þarf því fjármagn og þess vegna þurfa konur og stúlkur í Zaatari á hjálp þinni að halda!

Hafðu áhrif!

Sendu sms-ið KONUR í 1900 og veittu konum í Zaatari atvinnu, öruggt skjól og nýtt upphaf. Einnig er hægt að leggja söfnuninni lið með því að leggja inn á bankareikning 0101-05-268086, kt. 551090-2489 ásamt skýringunni Neyð.

facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105