Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
9. árg. 303. tbl.
12. október 2016
Gífurlegar heilsufarslegar framfarir á síðustu árum og Ísland á toppnum!
Lífslíkur hafa aukist um
tíu ár á síðustu 35 árum
Öldruð kona í Víetnam. Ljósmynd: gunnisal
Bættum lífslíkum er ógnað í vaxandi mæli af heilsubresti sem tengist offitu, háum blóðsykri og misnotkun á áfengi og eiturlyfjum. Þetta kemur fram í nýrri viðamikilli alþjóðlegri greiningu á sjúkdómum - New Global Burden of Desease - sem náði til 195 þjóðríkja og 300 sjúkdóma. Greint var frá niðurstöðum í læknaritinu The Lancet og þar kemur fram að umbætur í salernisaðstöðu, bólusetningar, loftgæði innandyra og næring hafi á síðasta aldarfjórðungi stuðlað að því að börn í fátækum ríkjum lifa lengur en áður.

Rannsóknin sýnir að þótt tekjur, menntun og fæðingartíðni sé mikilvæg í heilsufarslegu tilliti ráði aðrir þættir líka miklu. "Við sjáum þjóðir sem sýna meiri framfarir en reikna mætti með miðað við tekjur, menntun og fæðingartíðni. Og við sjáum þjóðir eins og Bandaríkin þar sem heilsufar er verra en ætla mætti miðað við sömu þætti," segir Dr. Christopher Murrey framkvæmdastjóri Health Metrics & Evaluation (IHGME) í Washingtonháskóla í Seattle.

Á heimsvísu hafa lífslíkur aukist úr 62 árum árið 1980 upp í 72 ár árið 2015. Meðalævilengd kvenna er komin í 75 ár en karla 69 ár. Hratt dregur úr barnadauða og dauðsföllum fækkar vegna smitsjúkdóma. Fram kemur í skýrslunni að sérhver þjóð hefur sérstöðu að þessu leyti eins og fækkun sjálfsvíga í Frakklandi, fækkun dauðaslysa í umferðinni í Nígeríu og fækkun á dauðsföllum í tengslum við astma í Indónesíu.

Mæðra- og barnadauði - mikill árangur
Víðast hvar í heiminum eru fæðingar öruggari fyrir mæður og nýbura en nokkru sinni á síðasta aldarfjórðungi. Tölur um konur sem deyja af barnsförum hafa lækkað um 29% frá 1990, úr 282 dauðsföllum af hverjum hundrað þúsund fæddum börnum niður í 196 dauðsföll. Enn eru þó 24 ríki þar sem yfir 400 konur deyja af barnsförum miðað við 100 þúsund fædd börn og hæsta dánartíðnin er 1,074 mæður í Miðafríkulýðveldinu. Í Afganistan og Síerra Leone eru sambærilegar tölur 789 og 696. Samkvæmt Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna á meðaltalið að vera færri en 70 mæður miðað við 100 þúsund lifandi börn árið 2030.

Af einstaka niðurstöðum skýrslunnar má nefna að dauðsföllum af völdum ýmissa sjúkdóma hefur fækkað einstaklega hratt á síðasta áratug. Milli áranna 2005 og 2015 fækkaði dauðsföllum af völdum HIV/alnæmis um 42% og malaríu um 43%. Dauðsföllum vegna fylgikvilla fyrirburafæðinga fækkaði um 30% á sama tíma og dauðsföllum á meðgöngu og fæðingu almennt um 29%.

Þá staðfestir skýrslan að barnadauði er á undanhaldi. Á síðasta ári létust 5,8 milljónir barna yngri en fimm ára eða 52% færri börn en árið 1990. Ungbarnadauði minnkaði um 42% og andvana fædd börn voru 47% færri á síðasta ári en árið 1990.

Ísland heilsusamlegasta þjóð í heimi
Samkvæmt gögnum í fyrrnefndri rannsókn var reiknað út hvaða þjóðir væru heilsusamlegastar og þar höfnuðu fimm þjóðir með 85 stig af 100 mögulegum: Ísland, Singapúr, Svíþjóð, Andorra og Bretland. Ísland reyndist þó við nánari skoðun hafa örlítið forskot á hinar fjórar og hafnaði því í efsta sæti, samkvæmt frétt á WEForum. Skýringarnar eru sagðar vera tvær: reglur stjórnvalda í umhverfismálum og gott framboð af ferskum fiski - smellið á myndina til að sjá listann í heild.

Life expectancy rises 10 years across globe, but more suffer in old age/ TheGuardian
Global, regional, and national comparative risk assessment of 79 behavioral, environmental and occupational, and metabolic risks or clusters of risks, 1990-2015: a systematic analysis for the Global Burden of Disease Study 2015/ HealthData
Global burden of diseases, injuries, and risk factors for young people's health during 1990-2013: a systematic analysis for the Global Burden of Disease Study 2013/ TheLancet
Increase in global life expectancy offset by war, obesity, and substance abuse/ HealthData
Average Worldwide Life Expectancy Increases 10 Years Since 1980, Global Burden Of Disease Study Shows/ KFF
There's a new ranking of the healthiest countries. How is yours doing?/ WEForum
Measuring the health-related Sustainable Development Goals in 188 countries: a baseline analysis from the Global Burden of Disease Study 2015/ TheLancet
Alþjóðabankinn ætlar að auka framlög til að koma í veg fyrir stríð og átök

Fulltrúar Íslands á aðalfundum Alþjóðabankans, t.f.v. Þórarinna Söebech, María Erla Marelsdóttir, Emil Breki Hreggviðsson og Davíð Bjarnason.
Ein af niðurstöðum ársfundar Alþjóðabankans sem haldinn var á dögunum í Washington felst í fyrirheitum um að auka verulega framlög til að koma í veg fyrir stríð og átök. Bankinn hyggst leggja meira fé af mörkum en áður til svonefndra óstöðugra ríkja sem voru áberandi í umræðunni á ársfundinum. "Árið 2030 gæti rúmlega helmingur allra fátækra í heiminum verið með búsetu í óstöðugu ríki," sagði Jim Young Kim framkvæmda-stjóri bankans.

Kim benti á að flóttamannastraumurinn til Evrópu hafi leitt í ljós mikilvægi þess að takast á við rót vandans, stríð og átök. Þótt þetta væru gömul sannindi og ný meðal margra þjóða væri vaxandi skilningur á þessu hvarvetna í heiminum og gæti leitt til öflugri og sveigjanlegri þróunarsamvinnu.

Jim Kim Young framkvæmdastjóri Alþjóðabankans. Ljósmynd: Clarissa Villondo/ WB
Alþjóðabankinn er risastór alþjóðleg þróunarsamvinnustofnun sem hefur það hlutverk að stuðla að efnahagslegri og félagslegri uppbyggingu þróunarríkja. Bankinn starfar með stjórnvöldum hlutaðeigandi ríkja og veitir þeim aðstoð í formi lána, styrkja og ráðgjafar. Bankinn hefur sett sér þá stefnu að sigrast á fátækt í heiminum fyrir árið 2030 og draga úr ójöfnuði í samræmi við heimsmarkmið SÞ. Á næstu þremur árum er til dæmis ætlunin að tvöfalda eyrnamerkt framlög til fátækustu ríkjanna.

Breytt verklag vegna neyðaraðstoðar
Þá er ætlunin að breyta verklagi bankans á þann hátt að hann geti brugðist fljótt og vel við neyðaraðstæðum en hann hefur ekki haft það hlutverk til þessa. Ebólufaraldurinn í vesturhluta Afríku er dæmi um aðstæður sem geta komið upp og kallað á fljótvirkan stuðning Alþjóðabankans. Í mótun eru nýjar verklagsreglur sem draga úr skrifræði og gera bankanum kleift að bregðast við með skjótum hætti. Lögð er áhersla á samstarf við stofnanir SÞ á þessu sviði og að stofnanirnar einbeiti sér að sviðum þar sem þær hafa skýrt umboð. Bankinn er hins vegar ekki að fara að sinna hlutverki Sameinuðu þjóðanna á neyðarsvæðum heldur aðstoða ríkin sjálf við að takast á við farsóttir og áföll.

Að sögn íslensku fulltrúanna á aðalfundinum var framtíðarstefna bankans rædd á fundinum og einnig grunnur að endurútreikningum á hlutum aðildarríkjanna 189, svokölluð Dynamic Formula, sem hefur aukna rödd þróunarríkja og nývaxtarríkja að markmiði. Íslendingar eiga víðtækt samráð við Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin um stefnumótun innan bankans en saman mynda þau eitt af kjördæmum hans. Framlög Íslands til Alþjóðabankans og stofnana hans nema á þessu ári tæplega 780 milljónum króna.

Því er við að bæta að Jim Young King var á dögunum endurráðinn í embætti framkvæmdastjóra bankans til næstu fimm ára.
Jarðhitaskólinn útskrifar 34 sérfræðinga frá 15 þjóðríkjum 
Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna útskrifaði síðastliðinn föstudag 34 sérfræðinga úr sex mánaða námi. Aldrei hafa fleiri sérfræðingar útskrifast í einu frá skólanum. Nemendurnir komu frá 15 löndum og sérfræðingar frá Ungverjalandi voru nú í fyrsta sinn á meðal nema við skólann. Hlutfall kvenna meðal sérfræðinganna var einnig hærra en nokkru sinna áður, eða 41%.

Jarðhitaskólinn hóf göngu sína árið 1979. Hann er nú elsti samfellt starfandi skóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Alls hefur skólinn útskrifað 647 nemendur frá 60 þjóðríkjum.

Frá útskriftinni á föstudag, t.f.v. Lúðvík S. Georgsson förstöðumaður Jarðhitaskólans, Sarantsetseg Lkhagvasuren frá Mongólíu og Stefán Haukur Jóhannesson ráðuneytisstjóri.
Stefán Haukur Jóhannesson ráðuneytisstjóri hrósaði starfi Jarðhitaskólans í ávarpi við útskriftina og nefndi sérstaklega þann árangur sem náðst hefur á sviði jafnréttismála í starfseminni. Hann sagði að jarðhitarannsóknir væru oft taldar karllæg viðfangsefni í samstarfslöndum Jarðhitaskólans en stjórn hans og starfsfólk leggi áherslu á að jafna aðgengi beggja kynja að náminu. Stefán Haukur vakti einnig athygli á þeim árangri sem fyrrverandi nemendur skólans hafa náð og minntist í því samhengi á að í september á þessu ári varð nemandi skólans önnur konan frá Afríku sem útskrifast með doktorsgráðu frá Háskóla Íslands.

Starf Jarðhitaskólans er mikilvægur þáttur í því að vinna að nýlega samþykktum Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Með því að styrkja mannauð í jarðhitageira þróunarríkja stuðlar skólinn aðþví að auka sjálfbært aðgengi fólks í þeim ríkjum að náttúruvænni orku en nú er raunin. Þannig styður starfið einnig við markmið Parísarsamningsins um loftslagsmál, en utanríkisráðherra afhenti Ban Ki-moon aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna fullgildingarskjal Íslands vegna samningsins á fundi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna 22. september síðastliðinn.

Á Íslandi starfa fjórir skólar undir hatti Háskóla Sameinuðu þjóðanna, Jarðhitaskóli, Sjávarútvegsskóli, Landgræðsluskóli og Jafnréttisskóli. Skólarnir fjórir eru hluti af alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands.
Alþjóðadagur stúlkubarnsins í gær: 
Stelpur verja 160 milljónum klukku- tíma á dag umfram stráka í ólaunaða vinnu í þágu fjölskyldunnar
Vatnsberi í Addis. Ljósm. gunnisal
Stelpur á aldrinum 5 til 14 ára verja 40% meiri tíma en strákar á sama aldri í ólaunuð húsverk eða til að sækja vatn og eldivið fyrir fjölskylduna. Munurinn er 160 milljón klukkutímar á dag! Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna sem birt var í aðdraganda Alþjóðadags stúlkubarnsins í dag, 11. október.

Skýrslan ber yfirskriftina: Harnessing the Power of Data for Girls og vísar til mikilvægis tölfræðilegra upplýsinga til að sýna fram á hvað stelpur verja miklum tíma til húsverka eins og að elda og þrífa, annast aðra í fjölskyldunni, að ógleymdum öllum stundunum sem fara í að sækja vatn og eldivið.

Gögnin sýna að þessi óhóflega byrði sem lögð er á stelpur umfram stráka í tengslum við heimilisstörf hefst mjög snemma. Stelpur á aldrinum 5-9 ára verja 30% meiri tíma í þessi störf en strákar - 40 milljónum klukkustundum lengur á dag - og á aldrinum 10-14 ára er munurinn kominn í 50% og klukkustundirnar 120 milljónir á dag umfram strákana.

"Ólaunaða vinnan á heimilinum hefst í barnæsku og eykst jafnt og þétt fram yfir unglingsárin," segir Anju Malhotra hjá UNICEF. "Afleiðingin er sú að stelpur glata mikilvægum tækifærum til að mennta sig, þroskast og einfaldlega að njóta þess að vera börn. Þessi ójafna dreifing á húsverkum milli kynjanna lýsir einnig staðalímyndum og þeirri tvöföldu byrði sem lögð er á stúlkur og konur kynslóð eftir kynslóð."

Í skýrslunni kemur fram að störf stelpna séu oft á tíðum ósýnileg og vanmetin. Þá séu ábyrgðarmikil fullorðinsstörf lögð á herðar ungra stelpna eins og umönnun annarra í fjölskyldunni. Þá er bent á að í sumum löndum felist hætta á kynferðislegu ofbeldi þegar stelpur sækja vatn og eldivið.

Skýrsla Save the Children
Á hverjum sjö sekúndum er stúlka undir fimmtán ára aldri leidd í hjónaband samkvæmt nýrri skýrslu Barnaheilla - Save the Children sem sýnir fram á umfang barnabrúðkaupa og alvarlegra afleiðinga þeirra á líf stúlkna. Allt niður í 10 ára gamlar stúlkur eru þvingaðar í hjónabönd með mönnum sem oft eru mun eldri en þær. Þetta gerist í löndum eins og Afghanistan, Yemen, Indland og Sómalíu, segir í frétt á vef Barnaheilla.

Skýrslan Every Last Girl: Free to live, free to learn, free from harm, var gefin út í gær í tilefni alþjóðadags stúlkubarnsins. Skýrslan flokkar lönd eftir því hvar best eða verst er að vera stúlka og byggir á upplýsingum um barnabrúðir, menntun, þunganir unglingsstúlkna, mæðradauða og fjölda kvenkyns þingmanna. Ísland er ekki í úttektinni þar sem ekki fengust opinberar tölur um barnabrúðkaup hér á landi.

Samkvæmt skýrslunni er best að vera stúlka í Svíþjóð, Finnlandi og Noregi en verst í Miðafríkuríkinu, Tjad og Níger.

Snemmbúin og þvinguð hjónabönd
Í stöðuuppfærslu á Facebook segir Félag Sameinuðu þjóðanna að alþjóðadegi stúlkubarna sé fagnað 11. október ár hvert frá því að Sameinuðu þjóðirnar helguðu daginn réttindum stúlkna í desember 2011. "Stefnt er að því að útrýma mismunun í garð stúlkna og kvenna og tryggja að sömu möguleikar standi báðum kynjum til boða," segir þar.

Síðan segir: "Réttindum kvenna, og þá sérstaklega ungra stúlkna, er víða ábótavant. Yfir 700 milljónir giftra kvenna í heiminum í dag voru neyddar í hjónaband á barnsaldri. Um 250 miljónir þeirra voru giftar fyrir 15 ára aldur. Möguleikar ungra stúlkna til að láta rödd sína heyrast og stuðla að breyttum viðhorfum eru skertir með snemmbúnum og þvinguðum hjónaböndum, ótímabærum þungunum og kynbundnu ofbeldi. Margar þessara stúlkna trúa því að eiginmenn þeirra hafi fullan rétt á að kúga þær, beita þær ofbeldi og stjórna lífi þeirra algjörlega.

Það er í samræmi við Heimsmarkmið nr. 5 sem að Sameinuðu þjóðirnar beita sér fyrir jafnrétti kynjanna og valdeflingu allra kvenna og stúlkna. Tryggja verður að ungar stúlkur fái að njóta þess að vera börn, ganga í skóla og eiga möguleika á að verða seinna meir leiðandi í ákvarðanatöku á öllum stigum í stjórnmálalífi, efnahagslífi og opinberu lífi."

Girls spend 160 million more hours than boys doing household chores everyday - UNICEF
Give girls a voice and let them change their world/ Reuters
End Child Marriage/ Mannréttindavaktin (HRW)
Girls' Rights Gazette 2016/ PlanInternational
Skýrslan Every Last Girl/ SaveTheChildren
Why you should give your sons more chores than your daughters/ WashingtonPost
Action needed to get 370,000 Syrian refugee girls into school says Theirworld/ AWorldAtSchool
It's time to end the term "girl child"/ WhyDev
Girls' Progress = Goals' Progress: What Counts for Girls/ SÞ
Advancing girls' equality for much more than one day/ PlanInternational
Tackling menstrual health taboo in Uganda/ Devex
International Day of the Girl Child: Emma Watson issues impassioned plea on child marriage/ EveningStandard
US ranks lower than Kazakhstan and Algeria on gender equality/ TheGuardian
Einkageirinn og baráttan gegn fátækt:
Dönskum fyrirtækjum boðin þátttaka í alþjóðlegri þróunarsamvinnu

Kristian Jensen ráðherra þróunarmála í dönsku ríkisstjórninni.
Danska ríkisstjórnin hefur sett á laggirnar nýjan sjóð með sjö milljóna króna framlagi (123 milljónir ísl. kr.) sem hefur það markmið að auka þátttöku danskra fyrirtækja í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Hugmyndin er að styðja samstarf danskra fyrirtækja við stofnanir í þróunarríkjum.

Haft er eftir Kristian Jensen utanríkisráðherra í frétt dönsku ríkisstjórnarinnar að án einkageirans verði ekki unnt að ná Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Með úthlutun sjö milljóna í sérstakan sjóð sé ríkisstjórnin að bjóða dönskum fyrirtækjum að taka þátt í vinnu við að skapa betri umgjörð á ýmsum sviðum í þróunarríkjum, svo sem í umhverfismálum, mannréttindum, lífskjörum og fleiru. "Þetta er bæði í þágu þjóðanna sjálfra og dönsku fyrirtækjanna í samkeppni á hlutaðeigandi mörkuðum," segir ráðherrann.

Að mati danska utanríkisráðherrans eru einkaaðilar, þar á meðal bæði alþjóðleg og dönsk fyrirtæki, fjárfestar, góðgerðarsjóðir auðmanna, samtök atvinnurekenda og launþega, sífellt að auka hlutdeild sína í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. "Einkageirinn stendur að baki um það bil 90% allra starfa í þróunarríkjum og hann er þar með mikilvægur í baráttunni gegn fátækt," segir Kristian Jensen.   
Þörf á róttækum breytingum á menntun, segir UNESCO
Heimsmarkmiðin fyrir framhalds- skóla nást að óbreyttu árið 2084

Breyta þarf menntun í grundvallaratriðum ef ætlunin er að ná Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna fyrir árið 2030, að mati Menningar-, mennta- og vísindastofnunar SÞ (UNESCO). Þetta kemur fram í viðamikilli úttektarskýrslu um stöðu menntunar - Global Education Monitoring (GEM) - sem kom út fyrir nokkru. Þar segir að miðað við núverandi þróun blasi við að markmið um grunnmenntun náist árið 2042, markmið um efri bekki grunnskóla árið 2059 og um framhaldsskólanám árið 2084. Síðasta ártalið gefur til kynna að Heimsmarkmiðin myndu nást hálfri öld síðar en stefnt er að.


Undirtitill skýrslunnar er "Education for People and Planet" með tilvísun í eitt helsta áhyggjuefni UNESCO: að menntakerfi gefi umhverfismálum ekki nægilegan gaum. "Þótt í flestum löndum sé menntun besti mælikvarðinn á vitund um loftslagsbreytingar er ekki að finna stafkrók um loftslagsmál eða sjálfbærni í umhverfismálum í námskrám hjá helmingi þjóðanna í veröldinni," segir í skýrslunni. Bent er á að könnun í OECD ríkjunum hafi leitt í ljós að rétt um 40% nemenda á sextánda ári hafi aðeins haft grunnþekkingu á umhverfismálum.

"Þörf er grundvallarbreytingu á því hvernig við hugsum um hlutverk menntunar í alþjóðlegri þróun, vegna þess að það hefur hvetjandi áhrif á velferð einstaklinga og framtíð jarðar okkar," segir Irina Bokova framkvæmdastjóri UNESCO. Hún segir að mikilvægara sé nú en nokkru sinni fyrr að menntun takist á við áskoranir og væntingar samtímans og stuðli að réttum gildum og færni sem muni leiða til leiða sjálfbærni og friðsældar í veröldinni.

Í skýrslunni segir að menntakerfi verði að gæta þess að vernda og virða menningu og tilheyrandi tungumál minnihlutahópa. Bent er á að 40% jarðarbúa fái kennslu á tungumáli sem þeir skilja ekki. Af öðrum tölulegum upplýsingum sem fram koma í skýrslunni má nefna að fjármálalæsi skortir hjá tveimur af hverjum þremur jarðarbúum, 37% fullorðinna í ESB ríkjum hafi sótt fullorðinnafræðslu en aðeins 6% íbúa í fátækustu löndunum.

Nánar
Fréttatilkynning GEM
Close to 69 million new teachers needed to reach 2030 education goals/ UNESCO
Noregur: Eitt prósent þjóðartekna til þróunarsamvinnu

Norðmenn ætla að verja einu prósenti af þjóðartekjum til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu á næsta ári, samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2017. Í frétt norsku ríkisstjórnarinnar segir að ákvörðunin sé söguleg á margan hátt: í tíð ríkisstjórnarinnar hafi verið tvöfölduð framlög til menntunar, mannúðaraðstoð hafi aukist um 50% og stuðningur við lýðheilsu hafi aukist um 600 milljónir norskra króna. Þessu til viðbótar höldum við áfram að styðja við efnhagsþróun, atvinnusköpun, loftslagsmál, umhverfismál og endurnýjanlega orkugjafa, segir
Børge Brende utanríkisráðherra Noregs í tilkynningu frá ríkisstjórninni.

Samkvæmt frumvarpinu verður framlag Noregs til þróunarsamvinnu 33,9 milljarðar norskra króna á næsta ári, eða sem svarar til 490 milljarða íslenskra króna.
Norðmenn hafa í samræmi við tilmæli í alþjóðlegri þróunarsamvinnu um aukna skilvirkni fækkað samstarfsríkjum og samningum um verkefni. Samstarfsríkin eru nú 88 en voru 113 og verkefnum hefur fækkað úr 6000 í 4400.

Af heildarupphæðinni til þróunarsamvinnu verður á næsta ári varið 3,7 milljörðum í aðstoð við flóttafólk í Noregi, eða 10,9%, sem er helmingi lægri fjárhæð en á síðasta ári þegar hælisleitendur voru fleiri en nokkru sinni.

Norge vil levere dobbelt så meget bistand som Danmark i 2017/ GlobalNyt 
 
Næstu endurfjármögnun IDA lýkur fyrir áramót

Þriðja samningafundi um 18. endurfjármögnun Alþjóðaframfarastofnunarinnar (IDA) lauk í gær en ráðgert er að samningaviðræðunum ljúki í desember næstkomandi. Alþjóðaframfarastofnunin er sú stofnun Alþjóðabankans sem veitir styrki og lán á hagstæðum kjörum til fátækustu þróunarríkjanna.

Að sögn Þórarinnu Söebech leiðandi sérfræðings í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu verða áherslur á 18. fjármögnunartímabilinu, sem hefst árið 2017, á jafnrétti kynjanna, loftslagsmál, stjórnarfar og stofnanir, atvinnumál og hagþróun auk  óstöðugra ríkja. "Í þessari fjármögnun er enn fremur að finna nýjungar í fjármögnun stofnunarinnar, en stofnunin gerir ráð fyrir að margfalda fjármagn sitt á tímabilinu miðað við fyrra tímabil, meðal annars í gegnum útgáfu skuldabréfa á almennum markaði. Eitt af því sem Ísland leggur áherslu á í samningaviðræðunum eru umbreytandi aðgerðir í þágu jafnréttis kynjanna og valdeflingar kvenna, enda lykilþáttur í hagvexti og sjálfbærri þróun," segir hún.

Áhugavert

How can we reach an SDG target when we're moving in the wrong direction?, eftir Susan Nicolai/ TheGuardian
-
Editorial: Why the world's poorest really are different/ Leiðari í World&Media
-
HeForShe Equality Story | Ending Child Marriage in Malawi
HeForShe Equality Story | Ending Child Marriage in Malawi

"Beslut om biståndet får inte ske bakom stängda dörrar", eftir Jenny Haraldsson/ Concord
-
Marriage first, love later?/ D+C
-
Loksins fáum við að vera saman/ SOS Barnaþorpin
-
Uganda's 'Queen of Katwe' got her start at this slum chess school/ WashingtonPost
-
Target 4c - What is at stake for monitoring progress on teachers?/ WorldEducationBlog
-
Can agroecology feed the world and save the planet?/ TheGuardian
-
A Photographer Gives Cameras To Child Brides. Their Images Are Amazing/ NPR
-
Að byggja á fyrsta ári Sjálfbæru þróunarmarkmiðanna, eftir David Nabarro/ Stundin
-
Four myths about mental health in development, eftir Jessica MacKenzie/ ODI
-
Building peaceful, just and inclusive societies in an increasingly urbanised world, eftir Patrick Keuleer/ HuffingtonPost
-
-A New Voice for a Complicated World/ Forystugrein í NYT
-
Fögur er hlíðin/ Vísir
-
Do households use improved cook stoves? What are the benefits? An Ethiopian case study, eftir Michael Toman/ Alþjóðabankablogg
-
If Africa had 100 citizens: Afrobarometer animation
If Africa had 100 citizens: Afrobarometer animation

Uenighet om prisens effekt på fredsprosessen, eftir Dana Wanounou og Nina Bull Jørgensen/ Bistandsaktuelt
-
Powering the Sustainable Development Goals in Africa: Rewriting the global rules, eftir Caroline Kende-Robb/ HuffingtonPost
-
Fifty years after a terrible childbirth injury, Kenyan woman gets a new lease on life/ UNFPA
-
Dignity, equality, violence, death and toilets/ WorldMedia
-
How aid workers can stay healthy - a psychologist's guide/ TheGuardian
-
Hoping to extend 'Let Girls Learn' beyond 2017, the Obamas lay out a road map/ WashingtonPost

Fræðigreinar og skýrslur
Ban Ki-moon á kynningarfundi um Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi

Ban Ki-moon aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna kynnti sér starfsemi Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi á sérstökum kynningarfundi í Þjóðminjasafninu á laugardag.

Á fundinum kynnti Hafdís Hanna Ægisdóttir forstöðumaður Landgræðsluskólans skólana fjóra sem starfa hér á landi, en þeir eru Jarðhitaskólinn, Sjávarútvegsskólinn, Landgræðsluskólinn og Jafnréttisskólinn. Nemendur frá skólunum fjórum höfðu stutta framsögu um nám sitt, tveir sem eru hér á landi og tveir gegnum myndbönd sem tekin voru í heimalöndum þeirra.

Eftir kynninguna skoðaði Ban Ki-moon og eiginkona hans, Ban Soon Taek, Þjóðminjasafnið í fylgd Margrétar Hallgrímsdóttur þjóðminjavarðar.

Ljósmyndir:gunnisal

Fréttir og fréttaskýringar

War in Yemen/ CFR
-
Regional integration:Far from united/ D+C
-
Doing Development Differently - why aid has to change and how/ Bistandsdebatten.se
-
Aid reforms could see big increase in private sector subsidies/ TheGuardian
-
EVERY DROUGHT NEED NOT BE A DISASTER - Saving lives, changing lives in Madagascar/ WFP
-
Africa is in the middle of a hotel building boom that still won't be enough for all its tourists/ Qz
-
Outrageous attack on funeral makes international investigation into Yemen even more vital - Zeid
-
Ghana to remove Gandhi statue because of his "alleged racism"/ Reuters
Global Fund pledges $12.9bn to fight Malaria, AIDS & TB/ CCTV
-
Approaches for urban sanitation - which tool to choose?/ WaterAid
-
US fund supports women in energy/ ESI
-
Focus On Haiti - Picking Up The Pieces/ WFP
Focus On Haiti - Picking Up The Pieces/ WFP

Nýjasta hefti Development + Cooperation/ D+C
-
A Million Refugees Could Make a Mosul Victory Look Like Defeat/ TheDailyBeast
-
Merkel pledges support for Niger to fight human traffickers, militants/ Reuters
-
Women, Children and Razor Wire: Inside a Compound for Boko Haram Families/ NYT
-
Africa unites to battle pirates, illegal fishing/ AFP
-
Nigeria doesn't know exactly how much oil it produces, but is pretty sure $17 billion is missing/ Qz
-
Ugandans Risk Suffering From More Poverty, Hunger - UN/ TheMonitor

Óöld í Eþíópíu
Inside Story - What's fuelling protests in Ethiopia? / AlJazeera
Inside Story - What's fuelling protests in Ethiopia? / AlJazeera

Ríkisstjórn Eþíópíu hefur lýst yfir neyðarástandi í landinu næstu sex mánuðina vegna mótmæla tveggja þjóðflokka í landinu gegn stjórnvöldum. Meirihluti þjóðarinnar tilheyrir þeim þjóðflokkum, Oromo og Amhara, en Tigray þjóðflokkurinn hefur farið með völd í landinu síðasta aldarfjórðunginn þrátt fyrir að lítil brot þjóðarinnar tilheyri honum eða rétt um 6%. Uppúr sauð fyrir tíu dögum þegar 55 létust á átökum milli þjóðflokkanna tveggja og lögreglu.


Guterres tekur við af Ban

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ákvað enróma í síðustu viku að António Guterres, fyrrverandi forsætisráðherra Portúgal, verði næsti aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Hann tekur við starfi Ban Ki-moon um næstu áramót. Guterres hefur á síðustu árum verið framkvæmdastjóri Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna síðastliðin tíu ár.
Ráðningarferli aðalframkvæmdastjóra SÞ var nú í fyrsta sinn opið og gagnsætt og samtökin hafa fengið hrós fyrir framkvæmda frá ýmsum eins og fram kemur í frétt CNN.

-
-

Heimsmarkmiðin, flóttafólk og loftslagsbreytingar meðal umræðuefna á fundi utanríkisráðherra með Ban Ki-moon 
 
Lilja Alfreðsdóttir utanríkiisráherra og Ban Ki-moon aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
"Það er sérstaklega ánægjulegt að fá Ban Ki-moon hingað til lands á síðustu mánuðum hans í starfi aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Samþykkt Heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun og framlag hans til baráttunnar gegn loftslagsbreytingum bera glöggt merki um framsýni hans og stjórnvisku. Þá hefur Ban alla tíð verið afar öflugur málsvari jafnréttisbaráttunnar og beitt sér mjög í þeim efnum. Hann hefur verið óþreytandi við að færa starfshætti Sameinuðu þjóðanna, þessarar mikilvægustu alþjóðastofnunar heims, til skilvirkari og betri vegar. Það verður ekki auðvelt að feta í fótspor Ban Ki-moon," segir Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra.

Hún átti fund með Ban Ki-moon um síðustu helgi þar sem ástandið í Sýrlandi og straumur flóttamanna, jafnréttismál, Heimsmarkmiðin, loftslagsbreytingar og málefni norðurslóða og hafsins voru meðal umræðuefna.

Lilja og Ban fögnuðu því að skilyrðum fyrir alþjóðlegri fullgildingu Parísarsamningsins um loftslagsmál hefur nú verið náð og gengur hann í gildi í næsta mánuði. Ísland var á meðal fyrstu 30 ríkjanna sem fullgiltu samninginn og afhenti utanríkisráðherra Ban Ki-moon fullgildingarskjal Íslands í höfuðstöðvum SÞ í síðasta mánuði.

Fleiri konur, meiri friður
Á fundi sínum ræddu Lilja og Ban Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun fram til 2030 sem aðildarríki SÞ settu sér 2015 en aðalframkvæmdastjórinn hefur stutt mjög við gerð þeirra og framkvæmd. Megináherslur Íslands í þróunarsamvinnu; jafnrétti, hafið, endurnýjanleg orka og landgræðsla ríma vel við markmiðin og lagði Lilja áherslu á að til þess að þau yrðu að veruleika væri jöfn aðkoma kvenna og karla lykilatriði. Hún áréttaði einnig virðingu fyrir mannréttindum og mikilvægi ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 1325 um konur, frið og öryggi og sagðist vilja sjá fleiri konur koma að sáttaumleitunum og friðaruppbyggingu á átakasvæðum. "Öll gögn sýna að friður er mun líklegri til að komast á ef konur sitja við samningaborðið og mun líklegra að friður haldist ef konur taka virkan þátt í friðaruppbyggingu. Fleiri konur, meiri friður," segir Lilja.

Þau ræddu einnig mannréttindamál, þar á meðal fullgildingu Íslands á samningi um réttindi fatlaðs fólks sem væri mikið fagnaðarefni. Þau ræddu ýmis málefni SÞ, meðal annars umbætur á starfsemi öryggisráðs SÞ. Ástandið í Sýrlandi og fyrir botni Miðausturlanda var ennfremur til umræðu og greindi utanríkisráðherra frá framlögum Íslands vegna flóttamannavandans, en fyrirséð er að Ísland taki á móti rúmlega 100 flóttamönnum frá Sýrlandi á þessu ári. Þá ræddu þau einnig stöðu mála á Kóreuskaganum.

Áhrif loftslagsbreytinga og norðurslóðir voru megininntak ræðu Ban Ki-moon á Hringborði norðurslóða í Hörpu. Aðalframkvæmdastjórinn sat einnig kynningarfund með fulltrúum Háskóla Sameinuðu þjóðanna á sviði jarðhitanýtingar, sjávarútvegsmála, landgræðslu og jafnréttismála. Þá flutti Ban ávarp á ráðstefnu um arfleifð og áhrif leiðtogafundarins í Höfða, sem haldin var í Háskóla Íslands.

Upplifun af markaðinum 

Markaðsgatan í síðdegissólinni. Ljósmynd: Ása.
- eftir Ásu Maríu H. Guðmundsdóttur starfsnema í Malaví

Í sendiráðum Íslands í Malaví, Mósambík og Úganda starfa þrír starfsnemar sem líkt og undanfarin ár hafa fallist á beiðni Heimsljóss um pistlaskrif þann tíma sem þeir dvelja í samstarfslöndum Íslendinga. 

Hey sister, I have something just for you! Sister, I want to show you something in my shop! Come on sister, you will get a good price! Please sister, sharing is caring!

Um daginn fór ég í sunnudagsferð til Salima sem er niðri við Malavívatn. Á dagskránni var heimsókn í Kuti Wildlife Reserve sem er eins konar mini-safari en þar búa m.a. gíraffi og kameldýr, og einnig skyldi sunnudagurinn nýttur í smá sand, sól og almenna leti við vatnið.

Í Kuti var þurrkurinn og hitinn svakalegur, flest vatnsbólin voru skraufþurr og aðeins stöku sebrahestar og antilópur létu sjá sig en sennilega hafa flestir íbúar þjóðgarðsins verið að bíða af sér heitt hádegið einhversstaðar á skuggsælli stöðum.

Malavívatn og ströndin voru dásamlegt, það var geggjað að rölta í heitum sandinum og horfa á krakkana sprikla og skemmta sér í tæru vatninu. Á leiðinni heim stoppuðum við svo á markaði í Salima og þar biðu bræðurnir tilbúnir að selja bláeygðu systurinni alls konar varning - sérstaklega ætlaðan henni og á alveg sérstaklega góðu verði.

Búðirnar voru margar en þær voru í litlum kofum hver við hliðina á annarri - eiginlega mætti frekar kalla þetta bása en búðir - og þær lágu meðfram veginum þannig að von var á að ökumenn létu freistast á leið sinni framhjá. Systirin þræddi bás eftir bás og skoðaði allt það sem sérstaklega var handa henni og meira til. Fílastyttur, fjársjóðsbox, hálsmen, Jesú á krossinum, vínrekkar, grímur, bílar, flugvélar, hárspennur og hattar - hvað sem hugurinn girntist (innan ákveðinna marka) var að finna í þessum básum og svo sannarlega margt sem var akkúrat fyrir mig.

Ég endaði með að festa augun á mjög fallegu útskornu taflborði og leikmönnum í stíl, litlu fílahálsmeni og kistli úr ilmandi sedrusvið og var alveg staðráðin í að vera dálítið hörð í horn að taka þegar kom að því að prútta. Prútt er ákveðin stemning á svona mörkuðum, ákveðið leikrit sem á að spilast og sem eykur á upplifunina - muzunguarnir fá kannski aðeins hærra byrjunarverð en báðir aðilar verða að vera tilbúnir að ganga frá borði ef rétta verðið næst ekki og hvorugur má vera of gráðugur.

Það versta er að ég er afspyrnu léleg í svona leikjum. Það þurfti ekki meira til en smá blikk, og örlítinn sorgartón í röddina þegar sagt var "Please sister, sharing is caring!" og ég greiddi næstum uppsett verð með glöðu geði. Þegar við spóluðum svo í burtu, á leið heim í loftkældu huggulegheitin okkar, varð mér litið til baka þar sem eyðileg og fámenn markaðsgatan hvarf í rykið og malavíska síðdegissólin brann eldrauð yfir básunum, og allt í einu fannst mér aukaþúsundköllunum vel varið og var bara ánægð með það að vera lélegur prúttari - því það er nefnilega einmitt þannig að "sharing is caring".
 
facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105