Heimsljós
veftímarit um þróunar- og mannúðarmál
10. árg. 328. tbl.
7. júní 2017
Sex verkefni fá styrk frá utanríkisráðuneytinu:
Eitt hundrað milljónum króna úthlutað til þriggja borgarasamtaka vegna mannúðarverkefna
Utanríkisráðuneytið hefur úthlutað ríflega 100 milljónum kr. til þriggja íslenskra borgarasamtaka til mannúðaraðstoðar. Ráðuneytið auglýsti í mars eftir styrkumsóknum og var umsóknarfresturinn til 15. apríl.  Alls bárust þrettán styrkumsóknir frá fjórum borgarasamtökum að heildarupphæð ríflega 270 milljónum króna. 

Eftirfarandi sex styrkir voru samþykktir.
 • Hjálparstarf kirkjunnar - Mannúðaraðstoð í Sómalíu vegna þurrka og ófriðar - 15.000.000 kr.
 • Rauði krossinn á Íslandi - Neyðaraðstoð vegna fæðuskorts og vopnaðra átaka í Jemen - 30.000.000 kr.
 • Rauði krossinn á Íslandi - Barátta gegn kynferðislegu ofbeldi í Suður-Súdan - 15.000.000 kr.
 • Rauði krossinn á Íslandi - Barátta gegn kynferðislegu ofbeldi í Sýrlandi - 15.000.000 kr.
 • Rauði krossinn á Íslandi - Neyðaraðstoð vegna fæðuskorts og yfirvofandi hungursneyðar í Sómalíu - 15.000.000 kr.
 • SOS Barnaþorpin á Íslandi - Neyðaraðstoð í Miðafríkulýðveldinu - 12.000.000 kr.
Þá var úthlutað einum styrk til kynningar- og fræðslustarfa. Félagið Sól í Tógó hlaut 500 þúsund kr. styrk vegna kynningar á rokkbúðum og tónlistarmiðstöð kvenna og stúlkna í Tógó.

Nánar er fjallað um verkefnin á öðrum stöðum í Heimsljósi.
Skýrsla Save the Children - Barnaheilla:
Eitt af hverjum fjórum börnum í heiminum rænt bernskunni
Ljósmynd: Save the Children

Að minnsta kosti 700 milljónir barna í heiminum fá ekki að njóta bernskunnar af ýmsum ástæðum og þau eru í raun svipt því tækifæri að fá að vera börn og um leið þeim réttindum sem því fylgja. Ísland er í áttunda sæti lista um hvar bernsku barna er síst ógnað í heiminum. Í efstu sætunum eru Noregur, Slóvenía og Finnland. Níger er hins vegar í botnsæti listans á eftir Angólu og Malí.

Smellið á myndina til að lesa skýrsluna.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Barnaheilla - Save the Children, Börn án bernsku, eða  End of Childhood Report: Stolen Childhoods sem kom út á alþjóðlegum degi barna fyrir nokkrum dögum. Skýrslan verður gefin út árlega og er arftaki skýrslunnar um stöðu mæðra sem samtökin gáfu út í 16 ár. Í nýju skýrslunni er farið yfir helstu ástæður þess að börn njóta ekki bernskunnar og lögð áhersla á mikilvægi þess að  alþjóðasamfélagið bregðist við, að því er fram kemur í frétt Barnaheilla - Save the Children á Íslandi.
Þar segir að meginástæður þess að börn fái ekki að njóta bernsku sinnar séu vannæring, slæm heilsa og skortur á heilsuvernd, þau búi við stríðsátök, ofbeldi eða barnaþrælkun, fái ekki að ganga í skóla, séu látin giftast á barnsaldri og þunganir ungra stúlkna. "Þessir þættir hafa afdrifarík áhrif á velferð barnanna, ekki einungis þegar þau eru börn heldur alla ævi. Þeir eru því árás á framtíð þeirra," segir í fréttinni.

Í skýrslunni er fjöldi raunverulegra dæma um það harðræði sem mörg börn búa við. Samtökin skoðuðu í fyrsta sinn fjölda barnamorða og komust að því að á hverjum degi eru meira en 200 börn myrt. Flest í Suður-Ameríkuríkjunum Hondúras, Venesúela og El Salvador þar sem ofbeldi hefur færst mjög í vöxt.

Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni er:

 • 185 milljónir barna eru í ánauð vinnuþrælkunar, þar af 85 milljónir við hættuleg störf
 • Á hverju ári eru 40 milljónir stúlkna á aldrinum 15-19 gefnar í hjónaband eða sambúð, þar af 15 milljónir sem eru undir 15 ára aldri
 • 263 milljónir barna ganga ekki í skóla
 • 16 milljónir stúlkna undir 19 ára aldri fæða börn á ári hverju og milljón stúlkur undir 15 ára aldri
 • 6 milljónir barna undir fimm ára aldri deyja árlega
 • Nærri 28 milljónir barna eru á flótta
 • Meira en 75 þúsund börn og ungmenni undir 20 ára aldri voru myrt árið 2015
 • Vannæring hamlar vexti 156 milljón barna undir fimm ára aldri

"Alltof mörg börn í heiminum búa við ömurlegar aðstæður; stríðsátök, eru barnaþrælar, barnabrúðir, þjást og deyja vegna sjúkdóma sem til er lækning við, eru vannærð og án menntunar. Þau eru svipt bernsku sinni og það er óásættanlegt að þau búi ekki við þau réttindi að fá að lifa við öryggi og fá að þroskast og leika sér. Þó svo að sumum sé hjálpað út úr aðstæðunum síðar á lífsleiðinni, fá þau aldrei bernsku sína aftur," segir Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla - Save the Children á Íslandi.

Samtökin standa fyrir undirskriftasöfnun þar sem þrýst er á ríkisstjórnir heimsins að fjárfesta í börnum og tryggja þeim réttindi sín á síðunni  endofchildhood.org

Fjögur verkefni Rauða krossins á Íslandi fá styrk frá ráðuneytinu

Rauði krossinn á Íslandi hlaut styrki frá utanríkisráðuneytinu að upphæð 75 milljónir króna vegna fjögurra mannúðarverkefna. Verkefnin eru í Jemen, Suður-Súdan, Sýrlandi og Sómalíu. Verkefnin eru þessi:

Ljósmyndir: Rauði krossinn
Neyðaraðstoð vegna fæðuskorts og vopnaðra átaka í Jemen (30 milljónir)
Verkefni þessu er ætlað að bregðast við neyðarbeiðni Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC) vegna fæðuskorts og vopnaðra átaka í Jemen. Meginmarkmið verkefnisins er að bregðast við þeim fjölþætta mannúðarvanda sem viðvarandi er í Jemen. Verkefnið felur í sér þverfaglega neyðaraðstoð sem stuðlar að því að efla viðnámsþrótt almennra borgara sem líða fyrir fæðuskort á átakasvæðum. Í nafni alþjóðlegra mannúðarlaga er verkefninu sérstaklega ætlað að svara grunnþörfum og tryggja vernd þeirra sem ekki geta talist beinir þátttakendur í átökunum. 

Markmið verkefnisins eru þannig eftirfarandi:

*Tryggja óbreyttum borgurum vernd gagnvart átökum stríðandi fylkinga, í samræmi við ákvæði alþjóðlegra mannúðarlaga.
*Stuðla að auknu aðgengi að nauðsynlegri og tímanlegri læknisaðstoð og heilbrigðisþjónustu.
*Fólk á vergangi og aðrir íbúar fá grunnþörfum sínum fullnægt, m.a. með dreifingu matvæla.
*Stuðla að sameiningu fjölskyldna sem hafa orðið viðskila vegna átakanna.
*Tryggja að lífsskilyrði og meðhöndlun fanga séu viðunandi og samræmis alþjóðlegum mannúðarlögum.

Neyðaraðstoð vegna fæðuskorts og yfirvofandi hungursneyðar í Sómalíu (15 milljónir)
Verkefni þessu er ætlað að bregðast við neyðarbeiðni Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) vegna fæðuskorts og yfirvofandi hungursneyðar í Sómalíu.

Markmið verkefnisins er tvíþætt:

*Bregðast við brýnni næringarþörf berskjaldaðs fólks, með áherslu á þungaðar konur, konur með börn á brjósti, börn undir 5 ára aldri og fjölskyldur sem misst hafa ráð sín til lífsviðurværis.

*Draga úr heilbrigðisáhættu íbúa til lengri tíma, þar sem áhersla er lögð á að koma í veg fyrir vatnsborna sjúkdóma og hindra útbreiðslu smitsjúkdóma.

Barátta gegn kynferðislegu ofbeldi í Sýrlandi (15 milljónir)
Verkefni þessu er ætlað að bregðast við sérstakri neyðarbeiðni Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC) gegn kynferðislegu ofbeldi í viðvarandi átökum í Sýrlandi. Meginmarkmið verkefnisins er að vinna gegn kynferðislegu ofbeldi í Sýrlandi, með það að augnamiði að:

*Draga úr aukningu kynferðislegs ofbeldis.
*Fyrirbyggja og takmarka langvarandi og alvarlegar afleiðingar kynferðislegs ofbeldis með því að auka og, eftir fremsta megni, tryggja aðgengi fórnarlamba að heilbrigðisþjónustu.
*Auka viðbúnað, sýnileika og afkastagetu heilbrigðisþjónustu svo mögulegt sé að mæta lífsnauðsynlegum þörfum fórnarlamba kynferðislegs ofbeldis.
*Vekja viðeigandi valdhafa, s.s. stjórnvöld og stríðandi fylkingar, til vitundar um ákvæði alþjóðlegra mannúðarlaga, þ.m.t. viðurlög, lögbundna ábyrgð og skyldur þeirra í vopnuðum átökum í samræmi við Genfarsamninga og þá sérstaklega skyldur er varða virðingu og vernd til handa óbreyttum borgurum, með áherslu á kynferðislegt ofbeldi.

Barátta gegn kynferðislegu ofbeldi í Suður-Súdan (15 milljónir)
Verkefni þessu er ætlað að bregðast við sérstakri neyðarbeiðni Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC) gegn kynferðislegu ofbeldi í viðvarandi átökum í Suður-Súdan. Meginmarkmið verkefnisins er að vinna gegn kynferðislegu ofbeldi í Suður-Súdan, með það að augnamiði að:

*Draga úr aukningu kynferðislegs ofbeldis.
*Fyrirbyggja og takmarka langvarandi og alvarlegar afleiðingar kynferðislegs ofbeldis með því að auka og, eftir fremsta megni, tryggja aðgengi fórnarlamba að heilbrigðisþjónustu.
*Auka viðbúnað, sýnileika og afkastagetu heilbrigðisþjónustu svo mögulegt sé að mæta lífsnauðsynlegum þörfum fórnarlamba kynferðislegs ofbeldis.
*Vekja viðeigandi valdhafa, s.s. stjórnvöld og stríðandi fylkingar, til vitundar um ákvæði alþjóðlegra mannúðarlaga, þ.m.t. viðurlög, lögbundna ábyrgð og skyldur þeirra í vopnuðum átökum í samræmi við Genfarsamninga og þá sérstaklega skyldur er varða virðingu og vernd til handa óbreyttum borgurum, með áherslu á kynferðislegt ofbeldi.
Samstarf MATÍS og Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna:
Þekking þróar sjávarútveg
Ljósmynd: Lárus Karl Ingvarsson.

Fyrir nokkru kom út grein í Journal of Food Engineering um áhrif umhverfishita og bið hráefnis við flakavinnslu. Greinin byggir á rannsókn sem unnin var í tengslum við áherslur Íslendinga í þróunarsamvinnu, hvar lagt er upp með að nýta sérþekkingu Íslendinga á sviði fiskvinnslu. Að rannsókninni unnu einkafyrirtæki og opinberir aðilar í sameiningu en slíkt samstarf er liður í því að Íslendingar leggi sitt af mörkum til að mæta heimsmarkmiðunum.

Í grein sem Matís birtir af þessu tilefni segir að samstarf um rannsóknir og þróun í sjávarútvegi sé liður í þróunarsamvinnu Íslendinga. "Með þeim hætti er lagt upp með að nýta sérþekkingu Íslendinga á sviði þar sem Íslendingar standa framarlega svo stuðla megi m.a. að bættu fæðuöryggi á grunni sjálfbærrar auðlinda nýtingar. Slíkt samstarf leiddi nýverið í ljós niðurstöður sem styrkja rökin fyrir mikilvægi vandaðra og agaðra vinnubragða við framleiðslu á fiskflökum," segir í greininni.

Þar segir ennfremur:

Kínverskur nemandi við Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-FTP), Mu Gang, vann að rannsókninni undir handleiðslu íslenskra leiðbeinenda meðan á námsdvöl hans stóð hér á landi. Leiðbeinendur Mu Gang voru dr. Kristín Anna Þórarinsdóttir hjá Marel, Ásbjörn Jónsson og Arnljótur Bjarki Bergsson hjá Matís og var rannsóknin unnin hjá Matís.

Í greininni má sjá niðurstöður sem styrkja rökin fyrir mikilvægi vandaðra og agaðra vinnubragða við framleiðslu á fiskflökum. Markviss kæling gegnir lykilhlutverki við varðveislu gæða. Eins mikilvægt og það er að lágmarka hnjask sem fiskurinn verður fyrir frá veiðum að neyslu er jafnframt mikilvægt að draga úr töfum sem kunna að verða í vinnsluferlinu. Eins og komið hefur fram á  öðrum vettvangi skiptir blóðgun, blæðing (blóðtæming), þvottur og kæling miklu máli um borð í fiskiskipum, sama máli gildir um skilvirkni og viðhald lágs hitastigs við flakavinnslu. 

Þó allt kapp sé lagt á að vanda vel til verka við vinnslu fisks í flök, kann það að koma fyrir að fiskur rati ekki eins hratt í gegnum vinnsluna og ráð er fyrir gert eða að fiskur fari um rými sem er hlýrra en best væri á kosið. Niðurstöður rannsókninnar sýna vel afleiðingar þess ef vikið er frá upplögðu verklagi þ.e. að viðhalda lágu hitastigi í gegnum vinnsluferlið, jafnvel þó frávikið sé skammvinnt. Hár umhverfishiti og tafir við vinnslu leiða til rýrnunar á þyngd og verðmætum afurða. Því er mikilvægt að forðast flöskuhálsa sem leiða til uppsöfnunar fisks í vinnslurásum, sér í lagi við lítt kældar aðstæður. Auk þess er bent á að mikilvægt sé að hitastig afurða við pökkun sé sem næst geymsluhitastigi. 

Þekkingin sem skapaðist með rannsókninni er dæmi um ávexti langs og farsæls samstarfs Matís og  Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki sem og fyrirtæki sem þjónusta íslenskan sjávarútveg, s.s. Marel. Mikil þekking skapast í háskólasamfélaginu og hafa vísindamenn unnið í víðtæku samstarfi að þróun og innleiðingu hennar hjá öflugum ábyrgum sjávarútvegsfyrirtækjum. Samstarf um hagnýtingu þekkingar hefur gert íslenskum fiskiðnaði kleift að taka stórstígum framförum svo eftir hefur verið tekið víða um veröld. Það hefur gert íslenskan sjávarútveg að þeim  þekkingariðnaði sem hann er í dag og býr í haginn fyrir þróun hans til framtíðar.

Marel er í hópi stærstu útflutningsfyrirtækja Íslands og í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu á háþróuðum búnaði og kerfum til fiskvinnslu.

Matís veitir ráðgjöf og þjónustu um allan heim til viðskiptavina s.s. fyrirtækja í sjávarútvegi og landbúnaði.  Matís aðstoðar viðskiptavini við þróun og innleiðingu þekkingar þ.m.t. nýrra ferla fyrir fyrirtæki með hagnýtingu vísinda.

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki vinna að verðmætasköpun með sjálfbærni að leiðarljósi, líffræðilegri, efnahagslegri og samfélagslegri. 

Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna er einn af fjórum skólum Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem hýstur er á Íslandi og hefur að markmiði að efla sérfræðiþekkingu í sjávarútvegi; fiskveiðum og fiskvinnslu í þróunarríkjum.

Hvað vekur minnstu athygli heimsins í mannúðarmálum?

Sameinuðu þjóðirnar óttast fjölgun stríðsglæpa í Miðafríkulýðveldinu/ Euronews
Hvað vekur minnstu athyglina í heiminum þegar kemur að mannúðarmálum? Norræna flóttamannaráðið (NRC) hefur svarið: Þegar Afríkubúar neyðast til að flýja heimili sín. "Sú staðreynd að fæst af þessu fólki birtist við útidyrnar heima hjá okkur gefur okkur engan rétt til þess að loka augunum fyrir þjáningu þeirra og tekur ekki frá okkur þá ábyrgð að styðja við bakið á þeim," segir Jan Egeland framkvæmdastjóri NRC í yfirlýsingu.

Tilefnið er árleg útgáfa á lista yfir vanrækt átakasvæði í veröldinni með flesta flóttamenn í eigin heimalandi.
Miðafríkulýðveldið er í efsta sæti. Þar á eftir koma Lýðstjórnarlýðveldið Kongó (DRC), Súdan, Suður-Súdan, Nígería, Jemen, Palestína, Úkraína, Mjanmar og Sómalía.

The world's most neglected displacement crises
Kynningarmyndband um skýrslu NRC

Að mati Norræna flóttamannaráðsins er það sammerkt átakasvæðum í ofangreindum löndum að þar er lítill pólítískur vilji til þess að koma á friði, fjölmiðlaumfjöllun er í lágmarki, og fjárstuðningur til mannúðarmála er af skornum skammti. "Langvinn átök vígahópa í löndum eins og Miðafríkulýðveldinu og Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó gætu leitt til mikillar fjölgunar í þessum vopnuðu sveitum," segir Richard Skretteberg hjá NRC í samtali við Reuters fréttaveituna og bendir á að slíkt ástand  - þar sem stjórnsýsla sé veikburða, þúsundir á flótta innanlands, lítil vernd og stuðningur fyrir borgara - sé frjósamt ræktunarsvæði fyrir öfgahyggju. 

Styrkur utanríkisráðuneytisins til SOS Barnaþorpanna á Íslandi:
Tólf þúsund stríðshrjáð börn í Miðafríkulýðveldinu fá stuðning
Hjálparstarf kirkjunnar veitir mannúðaraðstoð í Sómalíu vegna þurrka og uppskerubrests

Í júníbyrjun sendi Hjálparstarf kirkjunnar 15,8 milljóna króna framlag til mannúðaraðstoðar í Sómalíu vegna þurrka og langvarandi ófriðar í landinu. Markmiðið er að tryggja 60.600 manns nægan aðgang að fæðu, vatni og hreinlætisaðstöðu. Utanríkisráðuneytið veitti 15 milljóna króna styrk til aðstoðarinnar en það er Hjálparstarf norsku kirkjunnar sem stýrir starfinu á vettvangi.
 
Veðurfyrirbrigðið El Nino hefur nú valdið mestu öfgum í veðurfari í Sómalíu í 50 ár. Stopul úrkoma síðan um mitt ár 2015 hefur leitt til vatnsskorts sem hefur valdið alvarlegum uppskerubresti. Skepnur hafa fallið úr hor og fólkið hefur neyðst til að selja eigur sínar og taka lán til þess að lifa af. Langvarandi ófriður í landinu gerir ástandið enn verra þar sem hann hefur leitt til þess að fólk hefur þurft að flýja heimkynni sín. Nú er talið að um helmingur þjóðarinnar þurfi á mannúðaraðstoð að halda.
 
Hjálparstarf kirkjunnar í Noregi, Finnlandi og Svíþjóð og Lútherska heimssambandið hafa skipulagt heildræna aðstoð í Puntland og Somalíland til loka febrúar 2018. Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna í neyðarbeiðni frá ACT Alliance
The Ocean Conference: Fyrsti leiðtogafundur SÞ um úthöfin

Rúmlega fimm þúsund þátttakendur eru komnir til New York á fyrsta leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna um málefni úthafanna. Átta þjóðarleiðtogar sækja ráðstefnuna, sjö forsætisráðherrar og 77 aðrir ráðherrar. Til marks um umfang ráðstefnunnar eru hliðarviðburðir 150 talsins.

Ráðstefnan snýst öðru fremur um 14. Heimsmarkmiðið: Líf í vatni - Markmið: Vernda og nýta hafið og auðlindir þess á sjálfbæran hátt í því skyni að stuðla að sjálfbærri þróun.

Meðal Íslendinga sem sækja ráðstefnuna má nefna Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sjávarútvegsráðherra, Björt Ólafsdóttur umhverfisráðherra, Jóhann Sigurjónsson sérlegur erindreki í málefnum hafsins hjá utanríkisráðuneytinu, Einar Gunnarsson sendiherra og fastafulltrúa hjá Sameinuðu þjóðunum og Tuma Tómasson yfirmann Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

Ráðstefnan hófst á mánudag og lýkur á föstudag. 


Fundur með framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskipta-miðstöðvarinnar
María Erla Marelsdóttir, skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu og Högni S. Kristjánsson sendiherra og fastafulltrúi Íslands í Genf áttu í síðustu viku fund með frú Arancha Gonzáles Laya, framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptamiðstöðvarinnar (International Trade Centre, ITC) í Genf.

ITC er sameiginleg stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og Sameinuðu þjóðanna og er eina alþjóðlega þróunarstofnunin sem leggur sérstaka áherslu á alþjóðavæðingu lítilla og meðalstórra fyrirtækja. 

ITC gerir fyrirtækjum á mörkuðum í þróunarríkjum að verða samkeppnishæfari og tengjast alþjóðamörkuðum á sviði viðskipta og fjárfestinga og stuðla þannig að vexti og sköpun atvinnutækifæra, sérstaklega fyrir konur, ungt fólk og fátæk samfélög.

Auk Maríu Erlu og Arancha González eru einnig á myndinni Högni S. Kristjánsson sendiherra og fastafulltrúi Íslands í Genf, Edda Björk Ragnarsdóttir og Ragnhildur Arnórsdóttir, Vanessa Erogbogbo og Zeynep Ozgen.


Áhugavert

EU DEV DAYS 7.-8. júní

Why are immigrants less proficient in literacy than native-born adults?, eftir Theodora Xenogiani/ OECD
-
Why are the SDGs important? #EDD16
-
-
-
-
-
-
-
Private donors must not be allowed to distort public policy, eftir Hans Dembowski/ D+C
-
Are We Now Ready for Ebola? efitr Betsy McKay and Nicholas Bariyo/ WSJ
-
4 animations that show what's really going on with our climate/ TED
-
-
-
-
-

Vika rauða nefsins hófst í gær

Fjölmörg fyrirtæki hafa ákveðið að setja upp rauða nefið og sprella með starfsfólki í tilefni af viku rauða nefsins sem hefst í dag. Má þar nefna Vodafone, Kviku, Lindex, Icelandair Hotels, Creditinfo og 66° Norður. Sjálfur dagur rauða nefsins hjá UNICEF er næsta föstudag, 9. júní.

Vika rauða nefsins er skemmti- og góðgerðarvika sem haldin er í fyrsta sinn í ár meðal fyrirtækja hér á landi. Hún er innblásin af góðgerðarvikum framhaldsskólanna, þar sem starfsfólk fyrirtækja mun taka ýmsum fyndnum áskorunum og styðja um leið við baráttu UNICEF fyrir réttindum barna. Markmið viku rauða nefsins er að skapa fjör og góðan móral og fá starfsmenn til að  gerast heimsforeldrar UNICEF - mánaðarlega styrktaraðila sem hjálpa börnum um allan heim.

Vika rauða nefsins nær hámarki föstudaginn 9. júní í nokkurra klukkustunda beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV. Grínistar, leikarar, fjölmiðlafólk og tónlistarmenn munu búa til ógleymanlegt kvöld og skora á áhorfendur að hjálpa börnum og gerast heimsforeldrar UNICEF.

Hægt verður að fylgjast með öllu fjörinu á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #rauttnef og #heimsforeldri.The Relentless March of Drought - That 'Horseman of the Apocalypse/ IPS
-
These are the African cities most vulnerable to climate change/ Qz
-
One in five twins dies under age 5 in sub-Saharan Africa - Lancet/ Reuters
-
-
-
-
-
-
-
-

-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-

Babatunde Osotimehin framkvæmdastjóri UNFPA bráðkvaddur

"Ég harma andlát framkvæmdastjóra UNFPA, Dr Babatunde Osotimehin. Heimurinn hefur misst mikilhæfan leiðtoga sem barðist fyrir velferð allra, sérstaklega kvenna og stúlkna," sagði Antonio Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna þegar sú harmafregn barst á mánudag að Osotimehin væri látinn. Hann var bráðkvaddur á heimili sínu í New York á mánudaginn, 68 ára að aldri.

Babatunde Osotimehin var framkvæmdastjóri Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna, mikilhæfur og litríkur baráttumaður fyrir málsstað sjóðsins, baráttu fyrir heilsu og réttindum kvenna og stúlkna um heim allan. Osotimethin var áður heilbrigðisráðherra í heimalandi sínu, Nígeríu, en hann var læknir að mennt.

UNFPA mourns passing of Executive Director/ UNFPA

Empwr peysa til styrktar konum á flótta

Í slenska barnafatamerkið iglo+indi í samstarfi við landsnefnd UN Women á Íslandi kynna empwr peysuna. Peysan er hönnuð bæði fyrir börn og fullorðna og er þetta í fyrsta sinn sem iglo+indi hanna einnig flík fyrir fullorðna. Prent peysunnar er unnið úr mynstri sprottið frá Kamerún þar sem UN Women starfrækja griðastaði fyrir konur á flótta.

Í frétt frá UN Women segir að aldrei hafi fleiri verið á flótta í heiminum og nú séu um 65 milljónir manna á flótta eða á vergangi þar af helmingur konur. "Þær eru sérstaklega berskjaldaðar fyrir ofbeldi og mansali en oftar en ekki eru atvinnutækifæri kvenna á flótta af skornum skammti," segir í fréttinni.

"UN Women starfrækir griðastaði fyrir konur á flótta víða um heim, þar á meðal í Kamerún, Austur-Kongó, Serbíu, Makedóníu, Jórdaníu og Írak. Þar gefst þeim kostur á að vinna, stunda hagnýtt nám í tungumálum, tölvuvinnslu, klæðskurði og saumaskap, viðskiptaáætlanagerð og bókhaldi. Um leið hljóta þær félagsskap og jafningjastuðning hver af annarri en margar þeirra glíma við félagslega einangrun. Griðastaðirnir eru grundvöllur fjárhagslegrar valdeflingar kvenna þar sem konum býðst einnig að fá smærri lán til eigin reksturs og koma undir sig fótunum til lengri tíma. Á griðastöðunum hljóta konurnar áfallahjálp og sálrænan stuðning auk þess sem þeim er gert kleift að finna kraft, von og gleði á ný," segir á vef UN Women.

Þar kemur fram að ágóði peysunnar renni til styrktar reksturs griðastaða UN Women. "Með þínum stuðningi geta konur á flótta komið undir sig fótunum og fundið öryggi á ný. Empwr peysan fæst í verslunum iglo+indi og á www.igloindi.com, segir í fréttinni.

Rauði krossinn á Íslandi veitir 200 milljónum til nauðstaddra í Suður-Súdan, Sómalíu og Jemen

Ljósmynd frá Sómalíu: Rauði krossinn.
"Ísland fékk í raun umfangsmikla efnahagsaðstoð í kjölfar seinni heimsstyrjaldar sem gerði okkur kleift að brjótast úr fátækt og til vel stæðs samfélags. Við erum því lifandi og gott dæmi um hvernig utanaðkomandi stuðningur skiptir höfuðmáli til að verða sjálfbjarga og geta svo lagt að mörkum til annarra þjóða sem standa í þeim sporum sem við áður gerðum að hluta til," segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi en hún er  nýlega komin frá Sómalíu þar sem hún kynnti sér aðstæður á vettvangi.


"Ástandið er hræðilegt og miklu verra en fólk almennt gerir sér grein fyrir. Börn, þungaðar konur og gamalmenni verða verst úti í svona ástandi og það er hópurinn sem við reynum mest að hlúa að og veita stuðning. Mér fannst verst að horfa á lítil börn, nokkurra mánaða, með alvarlega vannæringu en það var líka huggum harmi gegn að horfa á starfsmenn og sjálfboðaliða Rauða hálfmánans í Sómalíu bjarga lífi þessara barna með jarðhnetumauki og bólusetningum. Við erum að bjarga lífum á hverjum einasta degi og það kostar oft ekki nema þúsund krónur að koma vannærðu barni til heilbrigðis með þessu jarðhnetumauki. Sá sem leggur þannig þúsund krónur til Rauða krossins er að bjarga barni og hver Mannvinur Rauða krossins bjargar meira en tíu börnum. Og það eru einmitt Mannvinir Rauða krossins, almenningur og íslensk stjórnvöld sem hafa gert okkur kleift með okkar framlagi að bjarga þúsundum og kannski tugþúsundum barna. Það er ekki lítið og við getum verið stolt af því." 

Kristín segir jafnframt íslenskan almenning skilja svona aðstæður ágætlega því ekki er langt síðan Ísland taldist fátækt ríki, aðeins nokkrir áratugir.

Hundrað milljónir úr eigin sjóði
Rauði krossinn á Íslandi hefur ákveðið veita allt að 100 milljónum króna af eigin sjóði félagsins til aðgerða Alþjóða Rauða krossins í Suður-Súdan, Sómalíu og Jemen. Áður hefur verið veitt 16,6 milljónum til Jemen og 11 milljónum til Sómalíu vegna fæðuskorts og yfirvofandi hungursneyða í þessum löndum. Auk þess hafa deildir Rauða krossins á Íslandi lagt um 6,7 milljónir til verkefnisins auk tæplegra 4 milljóna króna sem safnast hafa meðal almennings.

Þá hlaut Rauði krossinn nýlega styrki frá utanríkisráðuneytinu að upphæð 45 milljóna króna vegna fæðuóöryggis í Jemen og Sómalíu sem kemur til viðbótar framlagi Rauða krossins og almennings. Rauði krossinn hlaut að auki styrk upp á 15 milljónir króna til að sporna gegn kynferðislegu ofbeldi í Suður-Súdan en þar í landi hafa geisað vopnuð átök sem hafa meðal annars valdið miklu fæðuóöryggi og hungursneyð á afmörkuðu svæði.

Samtals mun Rauði krossinn, utanríkisráðuneytið og íslenskur almenningur leggja tæpar  197  milljónir til neyðaraðstoðar í Suður-Súdan, Sómalíu og Jemen. Sú tala er afar há miðað við verkefni sem Rauði krossinn á Íslandi hefur unnið að á undanförnum árum, enda neyðin afar brýn.

Fyrsta framlagið úr neyðarsjóði til verkefna erlendis frá 2005
Rauði krossinn hefur ekki tekið af neyðarsjóði sínum til erlendra verkefna síðan árið 2005 þegar aðstoð var veitt til Pakistan vegna gríðarmikils jarðskjálfta en fé hefur verið veitt úr honum vegna hamfara innanlands, meðal annars vegna snjóflóða á Flateyri og í Súðavík, jarðskjálfta og eldgosa.

Neyðarsjóðurinn er ætlaður að nýtast sem tryggingarsjóður vegna áfalla sem íslenskt samfélag og Rauði krossinn á Íslandi verða fyrir og geta þannig  brugðist við stóráföllum innan- og utanlands og að fjármagna viðamikil verkefni sem aðalfundur ákveður. "Það er þannig ekki léttvæg ákvörðun sem liggur að baki því að taka af þessum sjóð, sem aðeins er nýttur í ýtrustu neyð líkt og nú er í Suður-Súdan, Sómalíu og Jemen," segir í frétt frá Rauða krossinum.

Ástandið í Suður-Súdan, Sómalíu og Jemen er á öllum stöðum mestmegnis til komið vegna átaka, en þurrkar hafa einnig haft áhrif á fæðuskortinn. Ekki hefur enn verið lýst yfir hungursneyð í löndunum, nema á ákveðnum svæðum í Suður-Súdan, og vonir standa til að alþjóðasamfélagið geti komið í veg fyrir að hungursneyð verði lýst yfir. Rauði krossinn á Íslandi leggur sitt af mörkum til þessa mikilvæga verkefnis, en síðast var lýst yfir hungursneyð árið 2011 og þá í Sómalíu.

Börn án bernsku

eftir Margréti Júlíu Rafnsdóttur verkefnastjóri hjá Barnaheillum - Save the Children á Íslandi


Margrét Júlia Rafnsdóttir.
Að minnsta kosti 700 milljónir barna í heiminum fá ekki að njóta bernskunnar af ýmsum ástæðum og eru í raun svipt því að fá að vera börn og um leið þeim réttindum sem því fylgja. Því má segja að bernskan sé hrifsuð af þeim.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Barnaheilla - Save the Children er nefnist Stolen Childhoods. Þar eru reifaðar helstu ástæður þess að börn njóta ekki bernskunnar og lögð áhersla á mikilvægi þess að alþjóðasamfélagið bregðist við. Samtökin munu árlega héðan í frá gefa út skýrslu um málefnið.

Meginástæður þess að börn fá ekki að njóta bernsku sinnar eru vannæring, slæm heilsa og skortur á heilsuvernd, þau búa við stríðsátök, ofbeldi, eða barnaþrælkun, fá ekki að ganga í skóla, eru látin giftast á barnsaldri og þunganir ungra stúlkna. Þessir þættir hafa afdrifarík áhrif á velferð barnanna, ekki einungis þegar þau eru börn heldur alla ævi. Þeir eru því árás á framtíð þeirra.

Í bernsku eiga börn að njóta öryggis og verndar, þau eiga að fá að ganga í skóla og leika sér. Þau eiga að njóta ástar, umhyggju og stuðnings þeirra fullorðnu svo þau geti þroskast og nýtt hæfileika sína.

Í hartnær heila öld, eða frá stofnun samtakanna árið 1919, hafa Save the Children barist gegn fátækt og mismunun barna. Nú vilja samtökin enn frekar beina sjónum sínum að aðstæðum þeirra barna sem búa við þá mismunun að fá ekki að njóta bernsku sinnar. Það er um fjórðungur barna heimsins.

Stór hluti þessara barna býr í þróunarlöndum og býr við margs konar mismunun vegna uppruna eða stöðu, vegna kyns, tilheyra minnihlutahópi, eða þeirrar stöðu að vera barn á flótta undan átökum og eymd. Um 28 milljónir barna hafa þurft að flýja heimili sín og  vaxandi fjöldi barna býr við stríðsátök og það eitt tvöfaldar líkurnar á að barnið nái ekki fimm ára aldri.  Á árinu 2015 voru meira en 75.000 börn myrt, 59 prósent þeirra voru unglingar á aldrinum 15 til 19 ára. Fyrir hvert þessara morða eru hundruð eða jafnvel þúsundir barna sem búa við ofbeldi. Að búa við ofbeldi eða ótta við ofbeldi ætti ekki að vera hluti af uppvexti neinna barna.

Þrátt fyrir að fjöldi þeirra barna sem eru utan skóla í heiminum hafi lækkað undanfarin ár, eru enn 263 milljónir barna utan skóla. Það skerðir möguleika þeirra barna og eykur líkur á því að þau muni búa við fátækt í framtíðinni. Börn með fötlun, einkum stúlkur, eru líklegri til að vera utan skóla, ekki síst í fátækari löndum. Flóttabörn eru fimm sinnum líklegri til að vera utan skóla en börn sem eru ekki á flótta. Mörg börn eru utan skóla því þau þurfa að vinna til að sjá fjölskyldu sinni farboða og missa þá af því að þroskast í leik og fá gjarnan ekki næga hvíld.

Þessar ógnir barnæskunnar eru einnig til staðar í hátekjulöndum og í raun er ekkert land sem tryggir öllum börnum bernskuna. Ísland býr almennt vel að börnum sínum og kemur vel út í samanburði við önnur lönd. Ísland er í 8. sæti í skýrslunni af þeim þjóðum sem standa sig hvað best við verndun bernskunnar. Noregur er í 1. sæti og svo koma Slóvenía, Finnland, Holland, Svíþjóð, Portúgal og Írland.

Í Heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna, SDG2030, eru loforð um að börnum heims séu tryggð bernska. Þess vegna skora Save the Children samtökin á alþjóðasamfélagið og stjórnvöld hvers ríkis að tryggja öllum börnum bernsku sína.

facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105