Heimsljós
veftímarit um þróunar- og mannúðarmál
10. árg. 334. tbl.
6. september 2017
Meðal tillagna í skýrslu um utanríkisþjónustu til framtíðar:
Breytt verksvið sendiráða Íslands í Úganda og Malaví

Meðal þeirra breytinga sem boðaðar eru í skýrslu um utanríkisþjónustu til framtíðar, sem kynnt var í síðustu viku, er breytt verksvið núverandi sendiráða í Úganda og Malaví. 

Ætlunin er að færa út verksviðið, fyrst með skipun sendiherra í Úganda, þannig að það nái meðal annars til pólítískra og viðskiptalegra viðfangsefna. Í tillögunum segir að í Úganda verði fyrirsvar gagnvart þessum tveimur ríkjum og öðrum ríkjum í álfunni sem og svæðisbundnum samtökum. Um leið verði kjörræðismönnum í Afríku fjölgað.

Í tengslum við þróunarsamvinnu eru einnig tillögur í skýrslunni um að bæta við útsendum fulltrúum við fastanefndina í New York og sendiráðið í París sem sinni málefnum á sviði þróunarsamvinnu. Fulltrúinn í París myndi einnig sinna verkefnum á sviði mannúðaraðstoðar hjá fastanefndinni í Genf, segir í skýrslunni.

Ennfremur er lagt til að gangskör verði gerð að aukinni upplýsingamiðlun hérlendis og erlendis um tilgang, tilhögun og árangur í íslenskri þróunarsamvinnu. Miðað sé við að 1% af heildarframlögum til utanríkisráðuneytisins á sviði þróunarsamvinnu verði notuð í þessu skyni.

Með þessum tillögum eins og öðrum í skýrslunni fylgja ítarlegar greinargerðir.

Myndin er af sendiráðsbyggingunni í Kampala, höfuðborg Úganda, þar sem sendiráð Dana og Íslendinga deila húsnæði. 


Ákvörðun ríkisstjórnarinnar:
Fimmtíu flótta­menn til Íslands árið 2018, flestir frá Jórdaníu og Líbanon
  
Íslensk stjórnvöld hafa tekið ákvörðun um móttöku fimmtíu flóttamanna árið 2018. Ríkisstjórnin samþykkti tillögu þessa efnis á fundi sínum í síðustu viku. Ákvörðunin byggist á tillögum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og íslensku flóttamannanefndarinnar.

Miðað er við að stærstur hluti flóttafólksins sem tekið verður á móti komi úr flóttamannabúðum í Líbanon og Jórdaníu en einnig verði tekið á móti fimm til tíu hinsegin flóttamönnum sem dvelja í flóttamannabúðum í Kenía, eins og segir í frétt frá velferðarráðuneytinu. Þar segir líka að staða hinsegin flóttafólks sé sérstaklega viðkvæm "þar sem fordómar gagnvart hinsegin fólki eru almennt miklir í Afríku og því algengt að þetta fólk og fjölskyldur þess sæti einnig ofsóknum og ofbeldi þegar í flóttamannabúðirnar er komið."

Í fréttinni segir ennfremur:

"Stríðsátökin í Sýrlandi hafa nú staðið frá því í byrjun árs 2011 og eru afleiðingar þeirra víðtækar, bæði fyrir sýrlenska borgara, nágrannaríki og flóttafólk um heim allan. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) skilgreinir alls 22,5 milljónir einstaklinga sem flóttamenn, þar af er 5,1 milljón Sýrlendingar og eru flestir þeirra staðsettir í nágrannaríkjum Sýrlands.

Á undanförnum árum hefur mikil áhersla verið lögð á að aðstoða sýrlenskt flóttafólk enda hlutfall Sýrlendinga meðal flóttamanna á heimsvísu mjög hátt. Þá er mikill ótti við að átökin í landinu breiðist út til nágrannaríkjanna og því hefur verið reynt að létta álagi af þeim ríkjum. Af þeim 125.835 einstaklingum sem fluttust sem svokallað kvótaflóttafólk til öruggra ríkja árið 2016 voru Sýrlendingar 47.930 eða 38% alls kvótaflóttafólks.

Í ljósi þess mikla neyðarástands sem hefur myndast vegna stríðsátaka í Sýrlandi hefur flóttafólk frá öðum ríkjum lent í enn frekari biðstöðu en í því sambandi má nefna að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar að 1,2 milljónir einstaklinga þurfi að komast til öruggs ríkis á næsta ári, þar af um 530.000 frá Miðausturlöndum og 545.000 frá Afríku.

Með framangreint í huga fór flóttamannanefnd þess á leit við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna að koma með tillögur til íslenskra stjórnvalda um hvar framlag Íslands vegna móttöku flóttafólks myndi nýtast best á komandi ári. Niðurstaða flóttamannanefndar og ákvörðun stjórnvalda um móttöku flóttafólks á næsta ári byggist á þeirri tillögu.

Næstu skref felast í því að upplýsa Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna um ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Stofnunin leggur í framhaldi af því fram upplýsingar um þá einstaklinga sem hún telur koma til greina að bjóða til Íslands og er unnið úr þeim upplýsingum hér á landi, meðal annars með aðkomu Útlendingastofnunar. Þegar fyrir liggur hvaða einstaklingum verður tekið á móti og þar með upplýsingar um samsetningu hópsins, aldur, fjölskyldusamsetningu og fleira tengt aðstæðum þeirra og þörfum semur velferðarráðuneytið við tiltekið sveitarfélag eða sveitarfélög um móttöku fólksins.

Stefnt er að því að því flóttafólki sem boðið verður til landsins komi hingað snemma á næsta ári."

Stuðningur Íslendinga við kvennasamtök í þorpum við Cahora Bassa uppistöðulónið:
Þær eru kallaðar fiskdrottningar á markaðnum í héraðshöfuðborginni

Konurnar frá Nova Chikoa við Cahora Bassa uppistöðulónið eru kallaðar fiskdrottningar á markaðnum í héraðshöfuðborginni Tete í samnefndu fylki í Mósambík. Þær koma langt að með fiskinn ísaðan og ferskan á markaðinn - og þar sem Mósambíkanar vilja ferskan fisk á diskinn sinn fá þær gott verð fyrir tilapíuna. Þannig hefur það ekki alltaf verið: sú var tíð að þær fóru þessa tvö hundruð kílómetra leið í 35 til 40 stiga hita með fiskinn í strigapokum; þá var verðið í samræmi við útlit og óþef. Nú bjóða fiskdrottningarnar upp á gæðavöru, hafa í kringum sig unga aðstoðarmenn, en semja sjálfar um verð og taka á móti peningum.

Við Íslendingar eigum drjúgan þátt í þessu ævintýri með konunum frá Nova Chikoa. Hluti af þriðja og síðasta áfanganum í Cahora Bassa verkefni okkar með mósambískum stjórnvöldum er að styrkja atvinnuþátttöku kvenna sérstaklega í fiskisamfélögum við lónið. Vandinn sem þær glímdu við var að koma fiskinum ferskum á markað. Vegna skorts á frysti- og kæliaðstöðu skemmdist fiskurinn á leiðinni til Tete-borgar. Ákveðið var að styrkja þrjú kvenfélög í þorpum við lónið og veita þeim styrki til kaupa á stórum plastkössum til að flytja ísaðan fisk á markaðinn; sjálfar fengu þær síðan smálán til kaupa á frystikistum.

Á ferð okkar um Cahora Bassa lónið tökum við land í grennd við Nova Chikoa. Skammt frá þorpinu er verið að þurrka tilapíur sem seldar eru til útflutnings: þessi fiskur fer að sögn heimamanna yfir landamærin til Sambíu, Simbabve, Kongó og jafnvel alla leið til Angóla. Á heimamarkaði er eftirspurnin eftir ferskfiski hins vegar mikil og kælikassarnir hafa gerbreytt lífi kvennanna; þær líta til okkar sem velgjörðarmanna og undirbúa veislu með nýveiddri tilapíu sem elduð er á hlóðum við hús sem eitt kvenfélagið rekur, bæði sem matstofu fyrir fiskimenn og ferðalanga - og litla nýlenduvöruverslun. Hér selja konurnar mat- og drykkjarvörur, sápur, olíur, salt og margt annað smálegt.

Súaria er formaður 1. júní félagsins með tíu konur innan sinna vébanda. Hún segir að viðskiptin hafi blómstrað, salan aukist mikið og sölustöðum fjölgað, eftir að kælikassarnir og frystikistur komu til sögunnar. Í hverjum mánuði selji þær um tvö tonn af fiski. Nú hafi þær peninga til að kaupa föt á börnin og greiða fyrir menntun þeirra, eins hafi þær byggt lítið hús í Tete-borg og komið þar fyrir frystikistu, að ógleymdri uppbyggingunni í atvinnurekstrinum hér heima í þorpinu. Hún nefnir að þær nýti ferðirnar til stórborganna til að kaupa inn fyrir bæði heimilið og verslunina. Hún segir þær stórhuga, hafa mikinn áhuga á því að koma fiskinum til annarra fylkja í Mósambík og einnig yfir til nágrannalanda, en flutningar á vörunni sé óleystur vandi. Hún segir konurnar afskaplega ánægðar með stuðninginn og þakkar fyrir þeirra hönd.

Rúmlega hundrað starfsmenn hjálparsamtaka myrtir á síðasta ári

Rúmlega eitt hundrað starfsmenn hjálparsamtaka voru myrtir á síðasta ári í 158 árásum. Í þessum árásum særðust 98 og 89 var rænt. Í nýrri samantekt samtakanna Aid Workers Security kemur fram að árásum á starfsfólk hjálparsamtaka hafði fjölgað lítillega frá árinu áður en þeir sem drepnir voru fækkaði örlítið, úr 109 í 101.

Annað árið í röð var Suður-Súdan hættulegasta landið fyrir starfsfólk hjálparsamtaka sem endurspeglar átökin í landinu og refsileysi fyrir vopnaðar sveitir. Flestar árásirnar voru gerðar af innlendum vopnuðum samtökum sem berjast fyrir völdum í viðkomandi ríki og þjóna því tilgangi þeirra að hrella þjóðina og lítillækka valdhafa.

Stærri vígasveitir eins og Íslamska ríkið og Al Qaeda voru ábyrgar fyrir færri árásum en meira mannfalli. "Tilgangur þeirra er að myrða marga og þær beina spjótum sínum oftar að alþjóðlegum starfsmönnum hjálparsamtaka," segir í skýrslunni.

Þegar mannfallið er hins vegar greint með tilliti til gerenda kemur í ljós að ábyrgðin er mest hjá ríkisvaldi. Á árunum 2015 og 2016 féllu 54 starfsmenn hjálparsamtaka vegna aðgerða ríkja, flestir í loftárásum Rússa og Bandaríkjamanna á Sýrland og Afganistan.

Fram kemur í fréttaskýringunni að aldrei í sögunni hafi samtímis verið jafn margar, flóknar og langvarandi hörmungar eins og núna, allt frá Vestur-Afríku til Asíu. Alls hafa um 40 milljónir manna flosnað upp og flóttafólk telur 20 milljónir. Frá síðari heimsstyrjöld hafa viðlíka tölur ekki sést.

Aid Worker Security Report 2017: Behind the attacks: A look at the perpetrators of violence against aid workers/ AidWorkersSecurity
Samráðsfundur með UNFPA og UNICEF í Úganda um tilraunaverkefni í Buikwe
Frá fundi fulltrúa sendiráðs Íslands með fulltrúum UNFPA og UNICEF.

Íslenska sendiráðið í Kampala hefur fylgst vel með starfi Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) og Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) í Úganda sem berjast gegn limlestingum á kynfærum kvenna og barnahjónaböndum. Í framhaldi af ráðstefnu fyrr á árinu um þessi málefni ákváðu sendiráðið og UNFPA að hittast og fara nánar yfir stöðu mála, sérstaklega vegna þess að Ísland hefur stutt þennan málstað svo eftir hefur verið tekið. 

Ísland styður tilraunaverkefni dönsku samtakanna WoMena í Buikwe héraði sem er hluti af menntaverkefni Íslendinga með héraðsyfirvöldum en um er að ræða verkefni sem snýr að kynheilbrigði og aðstoð við unglingsstúlkur að stjórna blæðingum. Markmið verkefnisins er að gera stúlkum kleift að mæta í skóla allan ársins hring, óháð tíðahring þeirra.

WoMena fjallaði nýlega á vef sínum um verkefnið.

Sextán milljónir barna og fjölskyldur þeirra í mikilli neyð vegna flóða
Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) áætlar að um 16 milljón börn og fjölskyldur þeirra þurfi á lífsnauðsynlegri hjálp að halda eftir mikil flóð af völdum monsúnrigninga í Suður-Asíu undanfarnar vikur. Milljónir fleiri eru í hættu að mati samtakanna.

Í frétt íslensku landsnefndarinnar segir að frá því um miðan ágúst hafi að minnsta kosti 1288 manns látið lífið í miklum flóðum í Nepal, Indlandi og Bangladess og óttast sé að ástandið eigi enn eftir að versna.  Hundruð þúsunda heimila hafi skemmst eða eyðilagst og skólar séu á kafi í vatni. Um sé að ræða ein mestu flóð í Suður-Asíu í áratugi. 

"Flóðin hafa gengið yfir svæði sem eru viðkvæm fyrir og munu hafa langvarandi áhrif, meðal annars vegna eyðileggingar á uppskeru. Mörg svæði eru enn óaðgengileg þar sem vegir, brýr og flugvellir hafa eyðilagst í hamförunum," segir í fréttinni.

Heimsforeldrar hjálpa á flóðasvæðunum

"UNICEF er á staðnum og vinnur náið með ríkisstjórnum og samstarfsaðilum í Nepal, Indlandi og Bangladess við að veita neyðaraðstoð. Með hjálp  heimsforeldra hefur UNICEF náð að útvega hjálpargögn, meðal annars vatnshreinsitöflur, mat og teppi, og vinnur nú að því að setja á fót tímabundna kennsluaðstöðu þar sem þarf til þess að skólastarf raskist sem minnst.

Börn eru hvað viðkvæmust gagnvart náttúruhamförum sem þessum og mikilvægt að tryggja þeim nauðsynlega læknisaðstoð, næringu, ómengað drykkjarvatn og vernd. UNICEF leggur nú áherslu á að bregðast við brýnustu þörfum barnanna á svæðinu - tryggja hreint vatn og hreinlætisvörur til að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma - auk þess sem starfsfólk vinnur að því að dreifa matvælum og koma á fót öruggum neyðarskýlum sem börn og fjölskyldur þeirra geta leitað til.

Aðstæður eru erfiðar og eyðileggingin mikil og þörf er á að auka neyðaraðgerðirnar," segir í frétt UNICEF.

Flóð í Afríku kostuðu 25 sinnum fleiri mannslíf en Harvey
Þegar aðeins er horft til dauðsfalla af völdum flóða í Afríku í nýliðnum ágústmánuði kemur í ljós að flóð í álfunni kostuðu 25 sinnum fleiri mannslíf en fellibylurinn Harvey í Texas. Qartz fréttaveitan vekur athygli á þessari staðreynd og segir í frétt að fjölmiðlar hafi ekki gert þessum hamförum hátt undir höfði. Sama gildi um alvarleg flóð í sunnanverðri Asíu sem hafi valdið miklu manntjóni.

Þótt tæplega hefði verið unnt að afstýra eyðileggingunni í Houston gildir annað um hamfarirnar í Afríku sem urðu verri vegna þess hversu skipulag frárennslismála er slæmt, segir í fréttinni. Þá megi líka benda á að björgunarsveitir hafi bjargað ófáum mannslífum í Houston en engum slíkum sveitum hafi verið til að dreifa víðs vegar í Afríku og aukið á mannskaðann.

Alls hafi 50 manns farist í Texas en flóð og aurskriður hafi orðið 1.240 að aldurtila í Afríku í ágústmánuði.

Myndin sýnir gerð fjöldagrafar í Afríkuríki - ljósmynd: Reuters/  Afolabi Sotunde

Dönsk stjórnvöld: 0,7% af þjóðar-tekjum til þróunarmála næstu 3 árin

Samkvæmt danska fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram í síðustu viku vilja dönsk stjórnvöld að framlög til þróunarmála verði nákvæmlega 0,7% af þjóðartekjum næstu þrjú árin. Það þýðir að á næsta ári ætla Danir að verja 15,9 milljörðum danskra króna - 275 milljörðum íslenskra króna - til málaflokksins. Heildarfjárhæðin er nýtt í  baráttunni gegn fátækt, til að fyrirbyggja að fólk fari á vergang og til þess að aðstoða flóttafólk, segir í tilkynningu frá danska utanríkisráðuneytinu.


Áhugavert

-
-
-
-
-
-
-
Uganda Film Festival 2017
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-


Nordic Climate Facility presented in Iceland/ NDF
Australia's decreasing foreign aid budget offers chance for private companies to cash in/ ABC
-
Hundreds of children lose lives on desperate sea journeys/ UNHCR
-
Oxfam IBIS: Flere midler fra asylbehandling tilbage til udviklingsbistanden/ GlobalNyt
-
What happens now that Kenya has annulled its presidential election/ Qz
-
Burundi officials should be tried for "crimes against humanity": UN commission/ IRIN
-
GCF launches its first climate gender manual/ GreenClimateFund
-
Interactive: What's DFID planning through 2019?/ Devex
-
- Inn med utviklingsministeren, ut med egeninteressene/ Bistandsaktuelt
-
H.M. Dronningens statsbesøg til Ghana i spidsen for dansk erhvervsdelegation den 23.-24. november 2017/Danska utanríkisráðuneytið
-
U.S. warns South Sudan: Continued chaos is not acceptable, aid may be pulled/ WashingotnPost
-
Showdown looms between Kenya opposition, ruling party over election board/ Reuters
-
Global Survey: Generosity Declines Worldwide, But Africa Saves Day/ VOA
-
Kenya school fire that killed nine girls 'not an accident'/ BBC
-
Rwanda: Medical Drone Delivery System Wins Prestigious Global Award/ AllAfrica
-
UN commission: Burundi commits crimes against humanity/ AlJazeera
-
In Palestine's first One Stop Centre, women survivors of violence feel safe, protected and empowered/ UNDP
-
Coverage: UN Secretary-General visits One Stop Centre in Palestine to meet survivors of violence/ UNWomen
-
Amnesty Report: Boko Haram Killings Have Doubled in 5 Months/ VOA
-
Same old problems for Kenya's newest refugee settlement/ IRIN
-

Veftímarit D+C, september 2017
-
Tackle Middle East water scarcity to save money, boost stability - World Bank/ Reuters
-
Automation will disrupt the future of work - but also the future of global development/ Devex
-
UN agriculture chief says Uganda 'leading example' of sustainable refugee response/ AfricaRenewal

Aukinn áhugi á vatns- og salernismálum

Að mati sérfræðinga sem sóttu heimsþing um vatn í Stokkhólmi í síðustu viku gætir meiri áhuga en áður meðal stjórnmálamanna og fólks úr viðskiptum og fjármálum fyrir því að ná alþjóðlegum mælikvörðum Heimsmarkmiðanna um vatns- og salernismál. Þeir bentu reyndar einnig á skort á fjármagni og takmarkaðri heildarsýn þeirra sem koma að þessum málum í þróunarríkjunum auk þess sem sérfræðingarnir telja of litla áherslu lagða á það að ná til fátækasta fólksins.

Stockholm World Water Week stóð yfir alla  síðustu viku í höfuðborg Svíþjóðar. Þátttakendur voru 3,200 talsins frá 133 þjóðlöndum.


Umsóknir um kynningarstyrki til 15. september

Utanríkisráðuneytið vekur athygli á því að umsóknarfrestur fyrir styrkumsóknir frá íslenskum borgarasamtökum vegna fræðslu- og kynningarverkefna um þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð er til og með 15. september 2017.

Farið verður eftir  verklagsreglum utanríkisráðuneytisins um samstarf við borgarasamtök frá 2015 við úthlutun styrkja. Í reglunum er að finna vinnulag og önnur viðmið sem notuð eru við mat á umsóknum auk skilyrða sem borgarasamtök verða að uppfylla til að geta talist styrkhæf. Verklagsreglurnar byggjast m.a. á alþjóðlegri stefnu og starfsaðferðum við styrkveitingar úr opinberum sjóðum og stefnumiðum ráðuneytisins í samstarfi við íslensk borgarasamtök í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð 2015-2019. 


Sendifulltrúar Rauða krossins í Úganda

Sálfræðingarnir og sendifulltrúarnir Jóhann Thoroddsen og Elín Jónasdóttir eru stödd í Úganda þar sem þau þjálfa sjálfboðaliða og starfsfólk Rauða krossins í Úganda í sálrænum stuðningi og að bregðast við áföllum, en mikill fjöldi flóttamanna hefur leitað skjóls í Úganda síðastliðna mánuði. Þau hafa lagt áherslu á kynjajafnrétti í fræðslu sinni og hvernig eigi að mæta fólki sem orðið hefur fyrir kynferðislegri áreitni.

Á vef Rauða krossins kemur fram að þau fóru til Úganda í apríl síðastliðnum og eru nú að fylgja þeirri ferð eftir, kanna hvernig áætlanir hafa gengið eftir, auk þess hvað megi betur fara. Leiðbeinendur sem þau hafa hitt undanfarið höfðu allir þá sögu að segja að námskeiðið sem þau héldu í maí hefði styrkt þau sem manneskjur og sjálfboðaliða og gert þeim auðveldara að mæta flóttafólkinu og takast á við þær erfiðu áskoranir sem því fylgja. Jóhann segir þau Elínu "hafa verið eins og stolta foreldra þegar sjálfboðaliðarnir voru að segja frá, því þau voru svo flott og við sáum að þetta hafði breytt þeim."

Með stuðningi utanríkisráðuneytisins og Mannvina hefur Rauði krossinn á Íslandi styrkt Rauða krossinn í Úganda við að taka á móti hundruð þúsunda flóttamanna í samvinnu við stjórnvöld og aðra aðila. 

"Takk fyrir ykkar stuðning utanríkisráðuneytið og Mannvinir."


Þróunarsamvinna sem fjárfesting og framlag til framtíðar

"Meginmarkmið þróunarsamvinnu Íslands er að draga úr fátækt og stuðla að almennri velferð á grundvelli jafnréttis og sjálfbærrar þróunar. Miklu fé er varið í þennan málaflokk á heimsvísu og skilvirk þróunarsamvinna er, þegar öllu er á botninn hvolft, fjárfesting til framtíðar. Frá aldamótum hefur þróunarsamvinna skilað árangri sem er að verulegu leyti byggður á skuldbindingum þúsaldarmarkmiða SÞ sem Ísland var aðili að. Sárafátækt hefur minnkað um meira en helming, mæðra- og barnadauði hefur stórminnkað, aðgangur að hreinu vatni stóraukist og fleiri börn njóta nú skólagöngu en nokkru sinni fyrr. Hagvöxtur í þróunarlöndum hefur á þessu tímabili verið meiri en í efnameiri löndum og ný millistétt hefur orðið til. Árin frá aldamótum fram til 2015 eru þannig talin eitthvert mesta framfaraskeið sem orðið hefur í fátækum löndum. Þótt ekki sé hægt að þakka þróunarsamvinnu allan þann árangur er almennt viðurkennt að hún skiptir miklu máli, einkum í fátækari löndunum."

Þannig hefst kafli um þróunarsamvinnu í skýrslunni "Utanríkisþjónusta til framtíðar" sem utanríkisráðherra kynnti síðastliðinn föstudag. Skýrslan er unnin af stýrihóp sem ráðherra skipaði fyrr á árinu til að fara í saumana á skipulagi og starfsemi utanríkisþjónustunnar, utanríkisráðuneytisins og sendiskrifstofanna, og gera tillögur um það sem betur mætti fara.

Þróunaraðstoð framtíðarinnar snúist um Afríku
Í kaflanum um þróunarsamvinnu er sérstaklega fjallað um Afríku, hún sögð vera fátækasta heimsálfan og sú sem mesta þörf hefur fyrir aðstoð. "Af þeim liðlega þrjátíu ríkjum sem OECD hefur skilgreint sem bágstödd og hafi þörf fyrir langtíma þróunaraðstoð eru nær öll í Afríku. Þróunaraðstoð framtíðarinnar þarf því í vaxandi mæli að snúast um Afríku, eftir því sem lönd í öðrum heimsálfum ná bjargálnum. Álfan dregur minna einkafjármagn til sín en aðrar álfur, m.a. vegna skorts á menntuðu vinnuafli, vöntunar á efnahagslegum innviðum og vegna veikleika í stjórnarfari, sem m.a. skapa mikla óvissu fyrir fjárfesta."

Loftslagsbreytingar og ófriður
Þá er vikið að þeim erfiðu tímum sem framundan eru, lofslagsbreytingum sem ógna meðal annars fæðuöryggi, og ófriði á viðkvæmum svæðum, sem ýtir undir stórvaxandi flóttamannavanda. "Í fyrsta sinn um langt árabil hefur vannærðum fjölgað í fátækari ríkjum heimsins. Vaxandi skortur á vatni er einnig áhyggjuefni. Innan tveggja áratuga verða, samkvæmt úttekt Barnahjálpar SÞ (UNICEF), um 600 milljónir barna í heimshlutum þar sem sárlega skortir vatnsauðlindir og barist verður um hvern dropa. Alþjóðastofnanir telja vaxandi fjölda flóttafólks vera einhverja stærstu áskorun sem heimurinn stendur frammi fyrir um þessar mundir. Þörf fyrir mannúðaraðstoð hefur aldrei verið meiri. Áætlað er að yfir 65 milljónir manna séu á hrakhólum, annað hvort innan landamæra eigin ríkja eða hafi neyðst til þess að flýja til annarra ríkja."

Krefst meira fjármagns
Í skýrslunni segir að ljóst sé að við þessum nýju áskorunum verði ekki brugðist nema með samræmdum aðgerðum alþjóðasamfélagsins og með samstöðu um sanngjarna dreifingu fjárhagsbyrða af þeim kostnaði sem aðgerðum fylgir. "Heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun, Parísarsamkomulagið um baráttu gegn loftslagsbreytingum og Addis Ababa-samkomulagið um fjármögnun þróunar frá 2015 er nú sá rammi sem afmarkar aðgerðir, með svipuðum hætti og þúsaldarmarkmið SÞ gerðu á sínum tíma. Ljóst er að barátta gegn fátækt og hungri samhliða aðgerðum til að draga úr og takast á við áhrif loftslagsbreytinga krefst mun meira fjármagns en áður.

Kallað á einkageirann
Fram kemur að þar sem opinberir fjármunir duga engan veginn til að standa straum af nauðsynlegum aðgerðum í fátækum löndum hafi alþjóðasamfélagið kallað á einkageirann/atvinnulífið í efnaðri löndum til að gera meira í formi fjárfestinga og viðskipta við þróunarlönd. "Til viðbótar við opinbert þróunarfé (ODA) þarf einnig að stuðla að auknum fjárfestingum í lág- og millitekjulöndum og gegnir atvinnulífið/einkageirinn þar lykilhlutverki. Opinber þróunaraðstoð mun þó áfram vera miðlæg, einkum í fátækustu löndunum, því hún stuðlar að uppbyggingu vinnuafls með fjárfestingum í menntun, vatni og heilbrigðismálum, bætir efnahagslega innviði, einkum rafmagn og samskipti, og styrkir starfsumhverfi atvinnulífsins með því að styðja við umbætur í stjórnsýslu," segir í skýrslunni.


Utanríkisþjónusta til framtíðar; hagsmunagæsla í síbreytilegum heimi/ Utanríkisráðuneytið
facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105