Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
10. árg. 322. tbl.
5. apríl 2017
Tveggja daga ráðstefna í skugga efnavopnaárásar:
Utanríkisráðherra á ráðstefnu í Brussel um framtíð Sýrlands

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tekur í dag þátt í alþjóðlegri ráðstefnu um Sýrland sem fram fer í Brussel. Ráðstefnan, sem ber yfirskriftina "Stuðningur við framtíð Sýrlands og nágrannaríki þess" er haldin á vegum Evrópusambandsins, Sameinuðu þjóðanna, Bretlands, Katar, Kúveit, Noregs og Þýskalands.

Utanríkisráðherra á fundinum í morgun.
"Í ljósi þess að alþjóðasamfélagið er að koma saman á morgun til að ræða ástandið í Sýrlandi og viðbrögð við því, eru skelfilegar fréttir sem berast frá Sýrlandi um enn eina árás á óbreytta borgara; árás þar sem allt bendir til að efnavopnum hafi verið beitt," segir Guðlaugur Þór.

Á ráðstefnunni verður farið yfir árangur af starfi alþjóðasamfélagsins við að finna pólitíska lausn til að koma á friði í Sýrlandi og við alþjóðlegt mannúðarstarf á vettvangi. Ljóst er að betur má ef duga skal og er ráðstefnunni ætlað að vera vettvangur til að endurnýja stuðning alþjóðasamfélagsins við friðarferlið og mannúðarstarfið sem fram fer í Sýrlandi og nágrannaríkjum þess.

Stofnanir Sameinuðu þjóðanna og samstarfsaðilar þeirra hafa óskað eftir verulega auknum fjárveitingum til sýrlenskra flóttamanna í nágrannaríkjum Sýrlands. Alþjóðleg ráðstefna um stuðning við Sýrland og nágrannaríkin stendur yfir í Brussel í dag og á morgun. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tekur þátt í ráðstefnunni.

Fjárskortur ógnar hjálparstarfi
Stofnanir Sameinuðu þjóðanna og samstarfsaðilar þeirra hafa óskað eftir verulega auknum fjárveitingum til sýrlenskra flóttamanna í nágrannaríkjum Sýrlands. Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) og Þróunarstofnunin (UNDP) hafa fyrir hönd 240 alþjóðlegra og innlendra samstarfsaðila og ríkisstjórna nágrannaríkjanna lýst gríðarlegum áhyggjum af hversu lítils fjár hefur verið aflað til að sinna milljónum sýrlenskra flóttamanna í nágrenninu og styðja við bakið á þeim samfélögum sem skotið hafa skjólshúsi yfir þá. Í frétt Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (UNRIC) segir að talið sé að 4,63 milljarða bandarískra dala þurfi til að halda áfram að sinna fullnægjandi vernd og aðstoð við flóttamennina og samfélögin sem þá hýsa. Hingað til hafa aðeins borist fjárframlög að upphæð 433 milljóna dala, eða aðeins 9% af áætlaðri þörf.

Í fréttinni kemur fram að rúmlega fimm milljónir sýrlenskra flóttamanna séu í Egyptalandi, Írak, Jórdaníu, Líbanon og Tyrklandi, auk þeirra sem hafa lagt á sig lífshættulega ferð til Evrópu og jafnvel enn lengra.

Mesti mannúðarvandi heimsins
"Án frekari fjárveitinga, verður að draga úr allri aðstoð í ár. Matar- og fjárstuðning verður að minnka eða stöðva um mitt árið en slíkt felur í sér ógn við stöðugleika og öryggi í þessum heimshluta," segir í yfirlýsingu Flóttamannastofnunar SÞ (UNHCR) og Þróunarstofnunar SÞ (UNDP).

"Ástandið er orðið mjög alvarlegt," segir Filippo Grandi, flóttamannastjóri Sameinuðu þjóðanna. "Nú þegar horfum við upp á börn sem geta ekki sótt skóla og fjölskyldur sem hafa hvorki þak yfir höfuðið né geta séð sér fyrir brýnustu nauðsynjum."

"Það er sama sagan í öllum þessum heimshluta, það er mikið álag á vatns- og salernisaðstöðu, og vinnu- og húsnæðismarkaði," segir Helen Clark, forstjóri Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Ráðstefnan í Brussel um stuðning við framtíð Sýrlands og heimshlutans er haldin í dag og á morgun. Átökin í Sýrlandi eru mesti mannúðarvandi heims, segir í frétt UNRIC, en auk flóttamannanna þurfa 13,5 milljónir karla, kvenna og barna innan landamæra Sýrlands einnig á aðstoð að halda.

Svört skýrsla frá FAO:
Rúmlega hundrað milljónir manna  vannærðar - mikil fjölgun milli ára

Vannærðum í veröldinni fjölgaði mikið milli áranna 2015 og 2016. Þeim fjölgaði um 28 milljónir, samkvæmt nýrri úttekt Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO). Í lok síðasta árs voru vannærðir 108 milljónir en 80 milljónir árið á undan. Þessi mikla fjölgun fólks sem býr við matvælaóöryggi og fær ekki nóg að borða á sér margar skýringar en vopnuð átök eru meginskýringin í mörgum tilvikum.

Aðrar helstu ástæður sem skýra þessa miklu fjölgun eru hátt matvöruverð á staðbundnum mörkuðum og öfgar í veðurfari sem spillt hafa uppskeru, bæði þurrkar og flóð. Borgarastyrjaldir eru hins vegar lykilþáttur í níu af tíu heimshlutum þar sem neyðarástand ríkir og undirstrikar bein tengsl milli friðar og matvælaöryggis, eins og sagt er í skýrslunni: Global Report on Food Crisis 2017.

Óttast er að á þessu ári komi ástandið til með að versna enn frekar. Hungursneyð blasir við í fjórum löndum, Suður-Súdan, Sómalíu, Jemen og norðurhluta Nígeríu og nokkrar aðrar þjóðir þurfa á mikilli matvælaaðstoð að halda á næstu mánuðum eins og Írak, Sýrland og nágrannaríki sem hýsa flóttafólk, Malaví og Simbabve, að því er fram kemur í skýrslu FAO.

Bandaríkjastjórn hættir fjárhagslegum stuðningi við Mannfjöldasjóð SÞ:
Ákvörðunin byggð á röngum fullyrðingum, segir UNFPA

"Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna harmar þá ákvörðun Bandaríkjanna að veita ekki lengur nein framlög til lífsnauðsynlegra verkefna um heim allan. Ákvörðunin er byggð á röngum fullyrðingum þess efnis að UNFPA "styðji, eða taki þátt í að stýra verkefni um þvingandi þungunarrof eða óbeinar ófrjósemisaðgerðir" í Kína. UNFPA hafnar þessari fullyrðingu því í öllu starfi sjóðsins er stuðlað að mannréttindum einstaklinga og para sem taka sjálfstæðar ákvarðanir, án þvingana eða mismununar."

Á þennan hátt hljóðar yfirlýsing sem Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna gaf út í gær, degi eftir að ljóst var að ríkisstjórn Bandaríkjanna myndi hætta að styðja fjárhagslega við starfsemi sjóðsins.

RÚV sagði í frétt í gær að Bandaríkin veiti mannfjöldasjóði Sameinuðu þjóðanna ekkert fjármagn næstu ár. Þar segir að stofnunin styrki fjölskylduáætlanir í yfir 150 ríkjum. "Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna segir mannfjöldasjóðinn styðja við, eða taka þátt í  að neyða konur í fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðum án samþykkis. Stofnunin harmar ákvörðun Bandaríkjanna og segist engin lög hafa brotið, að sögn breska ríkisútvarpsins. Ákvörðunin er í samræmi við tilskipun Donalds Trumps, Bandaríkjaforseta, um að hætta fjárveitingum til alþjóðlegra stofnana sem veita fóstureyðingaþjónustu eða -ráðgjöf. Auk þess lofaði hann niðurskurði í fjárútlátum Bandaríkjanna til Sameinuðu þjóðanna og er þetta fyrsta skrefið í þeim niðurskurði," sagði í frétt RUV

Talsmenn UNFPA segja að með stuðningi Bandaríkjanna hafi sjóðnum verið gert kleift að bjarga lífi þúsunda kvenna á meðgöngu eða við fæðingu, koma í veg fyrir óviljandi meðgöngu og veita örugga fóstureyðingaþjónustu. RÚV segir að Bandaríkjastjórn ætli sjálf að úthluta því fé sem eyrnamerkt hafði verið Mannfjöldasjóði til heilbrigðisstofnana í þróunarlöndum.
Orkumálin á eftir áætlun í öllum meginþáttum, segir í skýrslu SÞ
Miðað við Heimsmarkmiðin í orkumálum eru framfarirnar á því sviði enn of litlar til þess að markmiðin muni nást fyrir árið 2030. Í nýrri úttekt Alþjóðabankans - Global Tracking Framework (GTF) - segir að þrjú meginmarkmiðin um aðgang að rafmagni, endurnýjanlega orkugjafa og skilvirkni séu öll á eftir áætlun.

Í skýrslunni segir að nýir rafmagnsnotendur séu færri en áætlanir gera ráð fyrir. Að óbreyttu geri spár því aðeins ráð fyrir að 92% jarðarbúa hafi aðgang að rafmagni árið 2030. Heimsmarkmiðin mæla hins vegar fyrir um að tryggja öllum aðgang að öruggri og sjálfbærri orku á viðráðanlegu verði fyrir þann tíma.

Þótt úttekt Alþjóðabankans leiði í ljós að flestar þjóðir séu á eftir áætlun í orkumálum er bent á að nokkrar þjóðir sýni framfarir til fyrirmyndar: Afganistan, Kenía, Malaví, Súdan, Úganda, Sambía og Rúanda. "Þessar þjóðir sýna að unnt er að hraða framförum í átt að aðgengi fyrir alla með réttri stefnumörkun, öflugri fjárfestingu opinberra aðila og einkageirans, og nýjungum í tækni," segir í skýrslunni.

"Ef við eigum að tryggja aðgang að hreinni, öruggri orku á viðráðanlegu verði þarf pólitíska forystu til að stýra aðgerðum," segir Rachel Kyte sérlegur erindreki framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um endurnýjanlega orku. "Þessi nýju gögn eru viðvörun fyrir leiðtoga heimsins til að grípa til markvissari aðgerða nú þegar um aðgang að orku og ómengandi eldstæði sem hefðu í för með sér aukna skilvirkni og nýtingu á endurnýjanlegri orku sem er takmarkið. Okkur miðar áfram en of hægt - tæknin er fyrir hendi og markmiðin skýr í mörgum tilvikum - en við skuldbundum okkur til að grípa til aðgerða. Og með hverjum deginum sem líður verður þessi vegferð bæði sársaukafyllri og kostnaðarsamari," segir hún.

Viðskipti kalla á hafnir: 
Landluktar þjóðir búa við verri lífskjör en þær sem búa við höf

Landluktar þjóðir búa við margskonar hindranir í þróun í samanburði við lönd sem liggja að hafi. Í nýju tölublaði þýska þróunartímaritsins, Development & Cooperation (D+C), er ítarlega fjallað í mörgum greinum um samfélög við strendur en þar er líka áhugaverð grein um þær þjóðir sem búa fjarri höfum. Þar kemur meðal annars fram að þriðjungur allra ríkja sem voru neðst á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna árið 2015 séu landlukt.

Lífslíkur íbúa umræddra þjóða voru minnstar, menntun minnst og tekjur lægstar. Þá segir að hagvöxtur landluktra þjóða hafi að jafnaði verið minni en þeirra þjóða sem búa við haf. Vísað er í rannsókn sem leiddi líkur að því að landlukt ríki búi vegna stöðu sinnar fjarri hafi við 1,5% minni hagvöxt en aðrar þjóðir.

Bent er á að landlukt ríki hafi sum hver nýtt tækifæri sín sem miðlægt sett í viðkomandi álfum og Rúanda nefnt sem dæmi um slíkt ríki. Það sé hins vegar í flestum tilvikum dýru verði keypt að hafa ekki aðgang að sjó eða eigin höfn. Viðskipti kalli á hafnir. Þjóðir án hafna greiða hærra flutningsgjald fyrir vörur, hafnir leggja á gjöld og oft bætast síðan vegatollar á varning með tilheyrandi kostnaðarhækkun fyrir neytendur.

Tímafrekur inn- og útflutningur
Í greininni er ennfremur bent á áhyggjur sem tengjast töfum á flutningi varnings til landluktra þjóða, ekki aðeins vegna lélegra innviða heldur líka vegna tollafgreiðslu og skattamála og annars skrifræðis. Vörur eins og grænmeti þoli ekki slíkar tafir. Fram kemur að hjá landluktum þjóðum taki að meðaltali 42 daga að flytja inn vörur og útflutningur taki að jafnaði 37 daga. Meðal þjóða sem búa við haf sé þessi tími helmingi styttri.

Fyrir þjóðir sem reiða sig á aðrar þjóðir við innflutning á vörum er mikilvægt að í síðara landinu ríki pólítískur stöðugleiki og þokkalegir stjórnarhættir. Komi upp óstöðugleiki eða átök þarf að finna nýjar hafnir og nýjar leiðir fyrir varninginn. Slíkt getur verið afar kostnaðarsamt með tilheyrandi vegagerð eða járnbrautarkerfi. Dæmi er tekið af tveimur samstarfslöndum okkar Íslendinga í þessu samhengi, Malaví og Mósambík, en stjórnvöld í Malaví neyddust til þess á tímum borgarastyrjaldarinnar í Mósambík að hætta innflutningi gegnum hafnirnar í Beira og Nacala og fá vörur til landsins gegnum Durban í Suður-Afríku og Dar es Salaam í Tansaníu.

Hár flutningskostnaður endurspeglast í háu vöruverði og þar á meðal háu verði á matvöru og almennt er því dýrara að lifa í landluktum löndum en þeim sem eru við haf. 

Langvarandi vannæring hefur áhrif á bæði andlegan og líkamlegan þroska
-  
250 milljónir barna undir fimm ára með vaxtarhömlun
Samkvæmt nýjum rannsóknum á þroska ungbarna eru um 250 milljónir barna undir fimm ára aldri, börn í lág- og meðaltekjuríkjum, með vaxtarhömlun (kyrking) vegna vannæringar sem hefur varanleg áhrif á bæði andlegan og líkamlegan þroska. Í Heimsmarkmiðunum eru skýr áform um að kveða niður vannæringu í hvaða mynd sem er, þar á meðal "verði árið 2025 búið að ná alþjóðlegum markmiðum um að stöðva kyrking í vexti og uppdráttarsýki barna undir 5 ára aldri, og hugað verði að næringarþörfum unglingsstúlkna, þungaðra kvenna, kvenna með börn á brjósti og aldraðra," eins og segir orðrétt í öðru undirmarkmiði Heimsmarkmiðs nr. 2 - Ekkert hungur.

 "Efnahagslegt tjón samfélaga af vaxtarhömlun getur verið mjög mikið," segir Asli Demirguc-Kunt forstöðumaður rannsókna hjá Alþjóðabankanum og bendir á að vaxtarhömlun hafi áhrif á þroska heilans, skerði andlega og félagslega færni og tilfinningaþroska og leiði til þess að börn nái minni árangri í námi sem síðan hefur áhrif á tekjur á fullorðinsárum.

Mikilvægast að ná til barna á viðkvæmasta þroskaskeiðinu
Emanuela Galasso hagfræðingur Alþjóðabankans og annar skýrsluhöfunda, bendir á mikilvægi þess að ná til barna á viðkvæmasta þroskaskeiðinu, fyrstu tveimur árum ævinnar, því náist ekki til barna á því tímabili sé skaðinn varanlegur. Hún segir að efnahagslega tjónið réttlæti frekara fjármagn til úrbóta á þessu sviði, ekki aðeins vannæringuna eina og sér, heldur þurfi líka að vernda börn gegn sýkingum og eiturefnum og skapa þeim örvandi uppvaxtarskilyrði.

Í skýrslunni eru tillögur um úrbætur miðaðar við fyrstu þúsund daga lífsins  og þær ná til 34 þjóðríkja. Mat skýrsluhöfunda á árangri af úrræðunum fela þó einungis í sér að unnt verði að fækka börnum með vaxtarhömlun um 20% fyrir árið 2025.

Heimsmarkmiðin sem tölvuleikur

Hjá bresku fræðastofnuninni ODI (Overseas Development Institute) hefur verið þróaður tölvuleikur um Heimsmarkmiðin. Hægt er að sækja snjallforrit ókeypis í App-store en leikurinn var frumsýndur í síðustu viku á sérstakri ráðstefnu í Þýskalandi um hugmyndir sem tengjast kynningu á Heimsmarkmiðunum. Leikurinn gerist í ímynduðu landi þar sem íbúarnir í rauntíma freista þess að ná öllum sautján Heimsmarkmiðunum og fá nægan stuðning meðal þjóðarinnar fyrir tilteknum aðgerðum. Leikmenn þurfa að velja á milli margra ólíkra stefna og líkt og nærri má geta geta verið ýmis ljón í veginum.

Vel metinn stuðningurinn við Kalangala
  
Bishop Dunstan gagnfræðaskólinn á Kalangalaeyjum er einn þeirra skóla í héraðinu sem hafa notið stuðnings með menntaverkefni Íslands.  Stuðningur við skólana á eyjunum er margvíslegur, byggt er við, kennarar fá þjálfun, heimavistir endurbættar, vatns- og hreinlætismálum sinnt, skólabækur útvegaðar.  Þessi stuðningur er vel metinn eins og sést af þessu bréfi frá skólastjórnendum Bishop Dunstan.  "Nú geta fleiri nemendur sótt sér menntun," segir í bréfinu, sem er ætlað að skila þakklæti til íslensku þjóðarinnar. Því er hér með komið á framfæri.

Þróunarsamstarf í Malaví: vatn, heilbrigði og valdefling stúlkna
Áhugavert

Our common goals, eftir António Guterres / Sustainablegoals.org
-
Why we gamified the Sustainable Development Goals, eftir Soumya Chattopadhyay/ ODI
-
How the refugee crisis is transforming the Middle East/ WashingtonPost
-
Trump's climate move will put rich and poor countries at odds, eftir Neil Bird/ ODI
-
The Truth About Development Aid, eftir Mark Suzman/ Project-Syndicate
-
Improving child survival, eftir Stefan Peterson/ SustainableGoals
-
International Mine Awareness Day 4 April/ SÞ
-
Poorer people in Africa face higher hurdles to access to justice, eftir Caroline Logan/ TheConversation
-
The new UNSG is poised to show the world what a feminist looks like/ OpenDemocracy
-
The UK is at sea, eftir Hans Dembowski/ D+C
-
The best Hans Rosling talks you've ever seen/ TED
-
Taking the Scalpel to Foreign Aid, eftir Jared Pincin & Brian Brenberg/ RealClearWorld
-
Can the relationship between Europe and Africa stand the test of time?/ TheConversation
-
The World Bank Open Knowledge Repository: Your Source for Publications and Research
-
New Gambia, new migration?/ IRIN
-
African countries say they support women's rights. But where's the money?, eftir Ashwanee Budoo/ TheConversation
-
Africa as you've probably never seen it before, courtesy of NASA/ Qz
-
Trapped: How northwestern Syria became a cage for hundreds of thousands of civilians/ IRIN
-
Take development off the Article 50 negotiation table, eftir David Watson/ ODI
-
12 ways to turn water from waste to resource/ TheGuardian
-
FROM SUBSISTENCE TO SUSTENANCE/ UNDP
-
6 things young people can do to change the world/ ONE
-
Why informal settlements are already smart, eftir David Dodman/ Devex
-
"The Development Dance": Q&A with Haley J. Swedlund/ MacMillan
-
What Food Means: Fighting Hunger in Ethiopia
What Food Means: Fighting Hunger in Ethiopia
-
Will the new Communication on resilience help to make EU external action more effective?/ ECDPM
-
Hope for a new generation, eftir Corrine Woods/ SustainableGoals
-
Trucking water to Uganda's refugee camps/ BBC
-
Integrated approaches: accelerating women's contribution to food security, reducing deforestation and sustainable cities, eftir Gabriella Richardson Temm og Soma Chakrabarti Fezzardi,/ GEF
-
May we participate in your lives?, eftir Mirja Michaelsheck/ D+C
-
Learning from Hawksbeard: Food and Nutrition Policy in the new Urban Landscape, eftir Lawrence Haddad/ GainHealth
-
Aid & Development Africa Summit 2017 - Highlights
-
The poverty trap in an era of inequality, eftir Jonathan Glennie/ Sustainablegoals
-
Losing ground in a warmer world, eftir N H Ravindranath/ TheGuardian
-
Technology can reinforce the global divide. Let's use it to bridge the gap, eftir Nial Dunne/ WEF
-
Amid Crisis, Global Partnerships Stand Test of Time, eftir Axel von Trotensburg/ EDA
-
Solar energy and salt water power vegetable farms in the desert/ Braced


World Bank Group Announces Record $57 Billion for Sub-Saharan Africa/ Alþjóðabankinn
-
The world has made great progress in eradicating extreme poverty/ Economist
-
3 continents, 3 lakes in danger/ UNDP
-
Danir ræða arfleifð þrælaverslunar/ UNRIC
-
Nya tolkningar av bistånd ger dragkamp om pengarna/ DN
-
Local fish production does not meet Tanzania's demand/ D+C
-
Kenya's tourism industry and conservation efforts are being threatened by drought-induced violence/ QZ
-
Hillary Clinton Warns President Trump Of 'Grave Mistake' On Foreign Aid | TIME
Hillary Clinton Warns President Trump Of 'Grave Mistake' On Foreign Aid | TIME
-
Why Malawi's case against the Tanzanian eight is a travesty of justice/ TheConversation
-
27 million people lack safe water in countries facing or at risk of famine/ UNICEF
-
Feature phones made a comeback in Africa as smartphone growth slowed last year/ Qz
-
Tanzania Struggles to End Child Labor/ VOA
-
African countries still can't raise enough capital to replace their bad roads/ Qz
-
Vítisvélar sem fara ekki í manngreinarálit/ UNRIC
-
Uganda: 500,000 People Living With Cancer Unknowingly in Uganda/ AllAfrica
-
Africa's most valuable startup ecosystem is also the least lucrative for software engineers/ Qz
-
Mugabe þótti efnilegur leiðtogi/ RÚV
-
School feeding schemes can fill children's tummies and farmers' pockets/ TheConversation
-
Sudan Opens New Aid Corridor to South Sudan/ AllAfrica
-
Uganda: Poor Getting Poorer, Rich Getting Richer - Report/ AllAfrica
-
New UN chief faces uphill battle on conflict prevention/ IRIN
-
Melinda Gates: Foreign aid cuts to contraceptives in Trump's budget hurt millions of women/ USAToday
-
Kuwait, UNHCR sign landmark agreement to aid Syrian refugees/ UNHCR
-
On second thought: UNESCO rescinds prize for scrutinized aid group/ RevealNews
-
The UN is pushing for a dual-track response to the food insecurity crises. Is this feasible?/ Devex
-
Brexit 'may mean huge loss for EU as global donor', Parliament report warns/ Euractiv
-
Some foreign aid firms' conduct 'appalling', MPs say/ BBC
-
US Wants 'Proof' of Progress by Sudan's Government on Darfur/ VOA

Ný bloggfærsla frá Pétri Waldorff, "Left Out to Dry? Gender and Fisheries on Lake Tanganyika"

Pétur Waldorff, rannsakandi við Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-GEST), birti á dögunum rannsóknarblogg í bloggritröðinni Gender Full Spectrum sem Jafnréttisskólinn stendur að í samvinnu við UNU-MERIT (Maastricht Economic and Social Research Institute on Innovation and Technology). Hann fjallar um rannsóknarverkefni sitt: Kynjuð virðiskeðjugreining fisks og fiskverkunar við strendur Tanganyikavatns í Tansaníu.
Svæðið einkennist af sárafátækt en íbúarnir við vatnið eru þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa aðgang að próteinríkum fiski. Rannsóknarverkefnið er unnið í samvinnu við Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-FTP).

Í grein sinni fjallar Pétur um reynslu sína í Tansaníu og beinir kastljósinu að ákveðnum þáttum úr vettvangsrannsókn sinni við strendur Tanganyikavatns þar sem hann og samstarfsmenn hans unnu í nánu sambandi við fiskimannasamfélögin við öflun gagna. Rannsóknin fjallar um mismunandi aðstæður kynjanna innan virðiskeðju fisks og hið mikilvæga framlag kvenna sem hefur í gegnum tíðina verið vanmetið. Pétur birtir rök fyrir því að "þar sem störf í fiski eru oft kynjaskipt getur virðiskeðjugreining hjálpað okkur að skilja, ekki einvörðungu viðskiptalega þætti virðiskeðjunnar, heldur einnig kynjaða verkaskiptingu, mismunun og félagsleg áhrif vegna breytinga innan virðiskeðjunnar. Einungis karlar stunda til dæmis veiðar við Tanganyika vatn á meðan að konur eru í meirihluta þegar kemur að fiskverkun, þurrkun, reykingu og sölu fisks".

Tvær konur sitjandi á vegkantinum að selja þurrkaðar og reyktar fiskafurðir. Ljósmyndir: PW.
Vinna kvenna álitin lítils virði
Pétur bendir m.a. á að "kynjamismunun innan virðiskeðjunnar má rekja til hversu lítils virði vinna kvenna er álitin [miðað við vinnu karla] - vandamál sem stigmagnast með tilliti til skerts aðgengis kvenna að fjármagni, fiskvinnslu- og fiskgeymslutækni, og starfsþjálfun. Því er staðreyndin sú að þó svo konur séu í lykilhlutverki í þessum geira, hafa þær takmarkað aðgengi að fjármagni, eignum og ákvarðanatöku sem að einskorða þær oft við neðstu hlekki virðiskeðjunnar og hinn svokallaða óformlega geira sem er að finna í þróunarlöndum."

Rannsókn Péturs sýnir að konur eru þær fyrstu sem hverfa af vettvangi og missa vinnuna þegar fiskveiði minnkar og þegar fiskvinnsla og -verkun er vélvædd. Við höfum séð slíka þróun meðfram strandlengju Viktoríuvatns (norðaustan við Tanganyikavatn) þar sem tæknivæðing og -þróun samhliða aukinni einkavæðingu hefur leyst fjölmargar fiskverkunar- og fisksölukonur af hólmi.

Finna má greinina í heild sinni hér og heimasíðu Gender Full Spectrum bloggsins má finna hér..
Innleiðing álfabikarsins í Úganda

- eftir Sigrúnu Björgu Aðalgeirsdóttur sérfræðing í sendiráði Íslands í Kampala

The Story of WoMena
Saga WoMena
Í haust stóð sendiráð Íslands í Kampala fyrir rannsókn á brottfalli nemenda í Buikwe, samstarfshéraði Íslands. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar komu ekki á óvart - nemendur flosnuðu helst úr námi vegna of hárra skólagjalda. Aðrar niðurstöður sem vöktu athygli okkar voru þær að 13% þeirra stúlkna sem tóku þátt sögðust hafa hætt í námi vegna kostnaðar sem fylgir blæðingum. Þetta er í takt við sambærilegar rannsóknir, en rannsókn í Rukungiri héraði í vestur Úganda sýndi sömuleiðis tengsl milli fjarveru stúlkna úr skóla og blæðinga þeirra. Rannsóknin sýndi einnig fram á að þær stúlkur sem mættu í skólann á meðan á blæðingum stóð áttu erfitt með einbeitingu vegna stöðugs ótta við að fá blóð í fötin.

Ástæður þessa eru margþættar, en einna helst má nefna mikla fátækt þar sem það er ekki í forgangi að kaupa hreinlætisvörur tengdar blæðingum. Þá eru blæðingar einnig tabú í úgönsku samfélagi sem gerir það að verkum að stúlkur fá takmarkaða fræðslu, bæði heima fyrir og í skóla, sem gerir þeim erfiðara fyrir að biðja um pening fyrir viðeigandi hreinlætisvörum. Þær grípa því til þeirra úrræða að nota meðal annars efnisbúta úr fötum, blaðsíður úr bókum, svampa úr dýnum og laufblöð til að hafa stjórn á blæðingum sínum, en allt getur þetta valdið sýkingum sem oft hafa langvarandi afleiðingar. Þá hefur þetta einnig í för með sér áhrif á andlega og félagslega velferð stúlknanna þar sem þær óttast stöðugt að tíðablóð leki og að þær verði sér til skammar. Þær kjósa því frekar að sitja heima á meðan á blæðingum stendur.

Í kjölfar rannsóknarinnar í Buikwe héraði hóf sendiráð Íslands í Kampala að grafast fyrir um þróunarverkefni sem taka á þessum vanda. Í ljós kom að blæðingar eru málefni sem frjáls félagasamtök og önnur þróunaraðstoð virðast eiga til að halda sig fjarri - sennilega vegna þess hversu erfið þau eru viðfangs í úgönsku samfélagi. Við komumst þó loks í kynni við dönsku frjálsu félagasamtökin WoMena.

WoMena starfa í Austur-Afríku og hafa það að markmiði að efla kynheilbrigði ungmenna. Samtökin vinna að því að opna umræðuna um blæðingar og veita ungum konum fræðslu um auðvelda og viðeigandi stjórnun blæðinga - en það hafa þau m.a gert með því að kynna konur fyrir álfabikarnum.

Álfabikarinn (e. menstrual cup) er sílíkon-bikar sem safnar tíðablóði. Bikarinn þarf yfirleitt ekki að tæma nema 2-3 á sólarhring og hentar því úgönskum skólastúlkum sem hafa takmarkaðan aðgang að snyrtingum og vatni afar vel. Að jafnaði endist bikarinn í u.þ.b. 10 ár og losar því stúlkurnar við allan kostnað sem fylgir blæðingum á meðan þær stunda nám, auk þess að vera afar umhverfisvænn.     

Samtökin hafa nú þegar úthlutað álfabikurum til stúlkna í nokkrum skólum í Úganda og veitt þeim kennslu í notkun bikarins ásamt fræðslu í kynheilbrigði. Könnun meðal  þátttakenda sýndi almenna ánægju með álfabikarinn. Stúlkurnar sögðust færar um að sinna daglegu amstri - ganga, hjóla, mæta í skóla - samhliða notkun bikarins, rétt eins og þegar þær voru ekki á blæðingum.  Þær fundu til öryggis, frelsis og þeim leið vel, samkvæmt könnuninni. Þá fengu þær stuðning frá vinum og fjölskyldu, en mikilvægt er að bikarinn sé samfélagslega samþykktur svo að stúlkurnar finni til öryggis.

Minnkar brottfall stúlkna úr skóla við að nota álfabikarinn? Enn er of stutt frá innleiðingu bikarins meðal þátttakenda WoMena til að fullyrða slíkt.  Þó var þegar í stað ljóst að mikil ánægja var með bikarinn á meðal stúlknanna og verður því áhugavert að fylgjast með framgangi rannsókna WoMena í úgönskum skólum og mögulega hægt að koma á samstarfi við samstarfsskóla Íslands í Buikwe.

 
facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105