Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
10. árg. 317. tbl.
1. mars 2017
Svört skýrsla frá FAO:
Loftslagsbreytingar og þverrandi náttúruauðlindir ógna framtíð mannkyns
Kynningarmyndband frá FAO um skýrsluna
Kynningarmyndband frá FAO um skýrsluna

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) telur að framtíð mannkyns sé ógnað vegna þess að náttúruauðlindir fari þverrandi og breytingar á loftslagi skapi þær aðstæður að matvælaskortur gæti orðið að veruleika. Þessi sterka viðvörun er sett fram í nýrri skýrslu FAO -   The Future of Food and Agriculture: Trends and Challenges - þar sem lögð er áhersla á mikilvægi þess að grípa í taumana meðan jarðarbúar hafa enn möguleika á því að framleiða mat fyrir alla. Að mati skýrsluhöfunda þarf að gera gagngerar breytingar til að tryggja sjálfbæra framleiðslu á mat í þágu alls mannkyns.

Í skýrslunni segir að raunverulegar og marktækar framfarir hafi orðið á síðustu þrjátíu árum í baráttunni gegn hungri en þær framfarir hafa oft á tíðum verið á kostnað náttúrunnar. "Um það bil helmingur skóga sem eitt sinn klæddi lönd heimsins er horfinn. Ört er gengið á grunnvatnsbirgðir. Líffræðilegur fjölbreytileiki minnkar," segir í skýrslunni.

 Lorenzo Bellu einn af yfirmönnum WHO ræðir yfirvofandi ógn.
Mannfjöldaspár gera ráð fyrir að íbúar jarðarinnar verði 10 milljarðar árið 2050. Í ljósi þess segir FAO að þörfin í heiminum fyrir landbúnaðarafurðir gæti aukist um 50% miðað við framleiðsluna í dag. Það merkir hins vegar aukið álag á náttúruauðlindir sem þegar eru undir álagi.

Í skýrslunni segir ennfremur að þeim komi til með að fjölga sem borða minna kornmeti en meira af kjöti, ávöxtum, grænmeti og unnum matvælum. Þetta sé hluti af breyttu mataræði í heiminum sem auki álag á náttúruauðlindir, leiði til aukinnar skóga- og landeyðingar og aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda.

Að mati FAO er brýnt að fjárfesta í matvælaframleiðslu heimsins og endurskipuleggja hana því að óbreyttu fjölgi þeim sem svelta fram til ársins 2030, en það ár á samkvæmt Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna að vera búið að uppræta hungur í heiminum. 

Skýrsluhöfundar segja hins vegar að 600 milljónir manna verði enn vannærðar árið 2030 verði ekkert aðhafst til að styrkja matvælaframleiðsluna í heiminum.

Utanríkisiráðherra skrifar undir samninga um almenn framlög til UNHCR og OCHA:
Fimmtíu milljóna króna árlegt framlag til Flóttamannastofnunar
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Filippo Grandi framkvæmdastjóri Flóttamannastofnunar SÞ.
Íslensk stjórnvöld ætla að verja að minnsta kosti 50 milljónum króna árlega á næstu þremur árum í almenn framlög til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR). Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra skrifaði undir samkomulag þessa efnis á fundi með Filippo Grandi framkvæmdastjóra Flóttamannastofnunar SÞ á mánudag.

Áður hafa íslensk stjórnvöld gert sambærilega samninga við Matvælastofnun SÞ (WFP) og Barnahjálp SÞ (UNICEF) og á morgun skrifar ráðherra undir slíkan samning við Samræmingarskrifstofu SÞ í mannúðarmálum (OCHA). Almenn framlög, eða óeyrnamerkt kjarnaframlög, eru í samræmi við áherslur stjórnvalda í alþjóðlegri þróunarsamvinnu.

Þakklæti til Íslendinga
Grandi þakkaði á fundinum íslenskum stjórnvöldum fyrir þann mikla stuðning sem þau hefðu veitt undanfarið ár, meðal annars með 325 milljóna króna framlagi í fyrra sem var liður í aukafjárveitingum ríkisstjórnar og Alþingis til flóttamannavandans haustið 2015. Grandi sagði þennan stuðning mikils metinn, sem og móttaka Íslendinga á meira en eitt hundrað sýrlensku kvótaflóttafólki á undanförnu ári. Blikur væru á lofti í flóttamannamálunum og því væri mikilvægt að ríki eins og Ísland héldu ekki að sér höndum andspænis gríðarmiklum vanda, en 65 milljónir manna eru nú á flótta frá heimilum sínum í heiminum. Samkvæmt tvíti frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna greiddu Íslendingar 2,4 milljónir bandarískra dala vegna átakanna í Sýrlandi á síðasta ári og varð þar með sjöundi stærsti styrktaraðili samtakanna miðað við höfðatölu.

Utanríkisráðherra ávarpar Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna.
Guðlaugur Þór Þórðarson ávarpaði einnig Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna á mánudag og lagði áherslu á að mannréttindi væru hornsteinn í utanríkisstefnu Íslands. Þetta er í fyrsta sinn sem utanríkisráðherra Íslands sækir árlega ráðherraviku mannréttindaráðsins frá því að það var sett á fót í núverandi mynd fyrir um tíu árum.  Í ræðu sinni sagði Guðlaugur Þór að ekki væri hægt að ætlast til að mannréttindi séu virt í fjarlægum löndum ef ekki er hugað fyrst að stöðu mannréttinda heima fyrir. Þess vegna fögnuðu íslensk stjórnvöld því að fá tækifæri til að undirgangast þá jafningjarýni sem fram fer á vegum Mannréttindaráðsins, en Ísland var tekið fyrir í annað skipti hjá ráðinu sl. haust. Margar góðar ábendingar hefðu borist frá öðrum aðildarríkjum SÞ í jafningjarýninni, bæði nú og síðast þegar Ísland undirgekkst rýnina, árið 2011. 

Ráðherra átti einnig fund með Zeid Ra'ad Al Hussein mannréttindafulltrúa SÞ og þakkaði honum sérstaklega fyrir starf sitt í þágu mannréttinda í heiminum í ræðu sinni: "Þú hefur verið óhræddur við að varpa ljósi á mannréttindabrot hvar í heimi sem þau viðgangast og ljáð þeim rödd sem ekki hafa hana." 

Hækkun á almennum framlögum til OCHA
Í gærmorgun átti utanríkisráðherra svo fund í Genf með Rudolf Muller, framkvæmdastjóra UN OCHA, Samræmingarskrifstofu aðgerða SÞ í mannúðarmálum. Þeir skrifuðu á fundinum undir samkomulag um framlög Íslands til stofnunarinnar næstu þrjú árin. Á síðasta ári voru almenn framlög Íslands til OCHA 10 milljónir króna en jafnframt lagði Ísland til 36 milljónir króna í Sýrlandssjóð OCHA. 

Á árinu 2017 er gert ráð fyrir 25 milljónum króna í almenn framlög auk þess sem að minnsta kosti 50 milljónum króna verður ráðstafað í svæðisbundna sjóði samtakanna.
 
Í samningnum er einnig gert ráð fyrir árlegum samráðsfundum sem tengjast framlögum Íslands og samstarfinu við OCHA.

Ofbeldi daglegt brauð barna á leið þeirra til Evrópu

Börn á flótta, börn innflytjenda og konur verða reglulega fyrir kynferðisofbeldi, misneytingu og misnotkun, auk þess að vera sett í varðhald, þegar þau flýja frá Norður-Afríku, yfir Miðjarðarhafið og til Ítalíu. Við þessu varar UNICEF í nýrri skýrslu sem kom út í gærmorgun. 

Í frétt frá UNICEF segir að skýrslan veiti innsýn í þær hörmungar sem blasa við börnum á flótta og faraldsfæti á því hættulega ferðalagi sem þau takast á hendur þegar þau ferðast frá Afríku sunnan Sahara og þaðan sjóferðina til Ítalíu. Í ljós kom að þrjú af hverjum fjögur börnum sem rætt var við höfðu á einhverjum tímapunkti ferðalagsins orðið fyrir ofbeldi, áreitni eða yfirgangi af hálfu fullorðinna. Helmingur kvennanna og barnanna sögðu að þau hefðu orðið fyrir kynferðislegri misnotkun á leiðinni - í mörgum tilfellum oft og á mismunandi stöðum.

Að minnsta kosti 4.579 manns létust á síðasta ári við að reyna að komast yfir Miðjarðarhafið til Ítalíu, eða 1 af hverjum 40. Áætlað er að minnst 700 börn hafi verið meðal hinna látnu.

Neyð barnanna verður að féþúfu smyglara
"Leiðin yfir Miðjarðarhafið frá Norður-Afríku til Evrópu er meðal hættulegustu og mannskæðustu leiða í heiminum og sú hættulegasta fyrir konur og börn," segir Afshan Khan, svæðisstjóri UNICEF sem samhæfir aðgerðir UNICEF í flóttamannamálum í Evrópu. " Leiðinni er aðallega stjórnað af smyglurum, þeim sem stunda mansal og öðrum sem nýta sér neyð örvæntingarfullra barna og kvenna sem eru einfaldlega að leita hælis eða betra lífs. Við þurfum örugga og löglega leið, sem og öryggisráðstafanir til að vernda börn á flótta, tryggja öryggi þeirra og halda þeim í burtu sem ætla sér að níðast á þeim." 

Nýleg könnun sem gerð var á högum barna innflytjenda og kvenna í Líbíu árið 2016 afhjúpar skelfilegt ofbeldi á þessari leið. Þegar könnunin var gerð sýndu gögnin að fjöldi fólks á flótta í Líbíu var 256.000. Þar af voru 30.803 konur og 23.102 börn. Þriðjungur barnanna var fylgdarlaus. Raunverulegar tölur eru hins vegar taldar vera í það minnsta þrisvar sinnum hærri.

Flest börnin og konurnar gáfu til kynna að þau hefðu borgað smyglurum í upphafi ferðarinnar og voru því mörg þeirra skuldbundin þeim. Þetta er samningur sem kallast "pay as you go" sem setur þau í enn meiri hættu á að verða fyrir misnotkun, mannráni eða mansali. 

Konur og börn sögðu einnig frá harkalegum skilyrðum, þrengslum, skorti á næringarríkum mat og viðunandi aðbúnaði í skýlum í Líbíu sem rekin eru bæði af yfirvöldum þar í landi og herflokkum.

"Börn ættu ekki að vera neydd til þess að setja líf sitt í hendur smyglara vegna þess eins að það eru engin önnur úrræði," segir Khan hjá UNICEF. "Það þarf að takast á við þetta mál á heimsvísu og í sameiningu þurfum við að finna öruggt kerfi, kerfi sem tryggir öryggi og réttindi barna á ferðinni, hvort sem um ræðir börn á flótta eða faraldsfæti."

Aðgerðaáætlun UNICEF
UNICEF leggur til að gripið sé tafarlaust til aðgerða á sex sviðum:
  1. Verja þarf börn á flótta og faraldsfæti, sérstaklega fylgdarlaus börn, gegn ofbeldi og misneytingu.
  2. Hætta þarf að hneppa í varðhald þau börn sem sækja um stöðu flóttamanns eða eru á faraldsfæti.
  3. Halda þarf fjölskyldum saman en það er sterkasta vopnið til að tryggja öryggi barna, veita þarf fjölskyldunum síðan lagalega stöðu.
  4. Halda þarf öllum börnum á flótta og faraldsfæti í námi, og veita þeim heilbrigðisþjónustu sem og aðra grunnþjónustu.
  5. Þrýsta þarf á aðgerðir til að takast á við undirliggjandi orsakir hinnar stórfelldu aukningar flóttamanna og fólks á faraldsfæti í heiminum.
  6. Vinna þarf gegn útlendingahatri, mismunun og jaðarsetningu minnihlutahópa. 
UNICEF hvetur ríkisstjórnir heimsins og Evrópubandalagið til að styðja og tileinka sér þessa aðgerðaáætlun. 

Oslóarráðstefnan um Nígeríu og svæðið í grennd við Chad vatnið:
Fyrirheit um rúmlega 670 milljarða króna stuðning við bágstadda

The crisis in the Lake Chad region/ OCHA
Fjórtán framlagsríki hétu fjárstuðningi við sautján milljónir nauðstaddra íbúa svæðanna í grennd við Chad vatnið sem upplifa miklar hörmungar, mestanpart vegna ofbeldisverka vígasveita Boko Haram, á ráðstefnu sem haldin var í Osló í síðustu viku. Samkvæmt frétt Samræmingarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA) liggja fyrir fyrirheit eftir ráðstefnuna um 458 milljónir bandarískra dala á þessu ári - 50 milljarða íslenskra króna - og  214 milljónir dala - 23 milljarða íslenskra króna - á næstu árum.

Um 170 fulltrúar frá 40 þjóðríkjum, fulltrúar Sameinuðu þjóða stofnana, borgarasamtaka og svæðastofnana í umræddum heimshluta en ráðstefnan nefndist á ensku "Oslo Humanitarian Conference on Nigeria and the Lake Chad Region." Að henni stóðu stjórnvöld í Noregi, Nígeríu, Þýsklandi og Samræmingarskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (OCHA). Þjóðirnar fjórtán sem hétu fjárhagsstuðningi á ráðstefnunni voru Noregur, Þýskaland, Japan, Svíþjóð, Sviss, Frakkland, Ítalía, Írland, Finnland, Danmörk, Lúxemborg, Holland, Suður-Kórea og Evrópusambandið.

Hörmungarnar á þessu svæði eru með þeim alvarlegri sem sést hafa en álitið er að um 17 milljónir íbúa í Nígeríu, Tjad, Níger og Kamerún þurfi á mannúðaraðstoð að halda, þar af 11 milljónir sem eru í bráðri hættu. Í þeim hópi eru að minnsta kosti helmingurinn alvarlega vannærð börn. Auk neyðaraðstoðar var á fundinum lögð rík áhersla á langtíma stuðning við fólk á vergangi ásamt vernd fyrir konur, börn og ungmenni. Á fundinum var settur á laggirnar sérstakur sjóður fyrir íbúa norðurhluta Nígeríu - Nigeria Humanitarian Fund.

 "Evrópubúar geta trauðla skellt skolleyrum við neyðarástandi í norðurhluta Nígeríu," segir Toby Lanzer sem samræmir neyðaraðstoð á Sahel svæðinu fyrir hönd Sameinuðu þjóðanna. "Ríkisstjórnir landanna í þessum heimshluta eru ekki í stakk búna til að takast á við þann vanda sem felst í því að 11 milljónir manna þurfa á mannúðaraðstoð að halda, auk orsakanna sem eru loftslagsbreytingar, ofbeldi öfgaafla og fátækt."

Samkvæmt frétt Upplýsingaskrifstofu SÞ hafa um 2,3 milljónir manna neyðst til að flýja heimili sín vegna átaka eða matarskorts. Stór hluti hinna hrjáðu landsvæða eru í norðaustur Nígeríu þar sem hernaður Boko Haram hefur bæst ofan á efnahagsþrengingar og leitt til mikilla hörmunga og þjáninga.

"Við viljum koma fólkinu til hjálpar en við viljum líka sjá það rétta úr kútnum til þess að það þurfi ekki að flýja undan ofbeldi og leita sér tækifæra annars staðar," segir Lanzer. "Árið 2016 var mestur hluti þess farandfólks sem lenti á ströndum Ítalíu frá Nígeríu. Sum ríki gera sitt besta bæði í mannúðar- og þróunarmálum, en sum Evrópuríki hafa gert of lítið til að takast á við þessi vandamál, þótt hér gefist möguleiki til þess í einu vetfangi að láta gott af sér leiða í mannúðarmálum og takast á við fólksflutningavandann." 

Tuttugu milljónir manna í fjórum löndum við hungurmörk

"Rúmlega 20 milljónir manna í fjórum löndum eru við hungurmörk og grípa þarf strax til aðgerða til að forða miklum hörmungum," sagði Antonio Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á fundi með fréttamönnum í höfuðstöðvum samtakanna í New York á dögunum. Hann sagði að fjárþörfin fyrir lok marsmánaðar væri 4,4 milljarðar bandarískra dala, eða tæplega 500 milljarðar íslenskra króna.

Svæðin fjögur þar sem hungrið sverfur að eru 1) Unityríki í Suður-Súdan þar sem þegar hefur verið formlega lýst yfir hungursneyð, 2) norðausturhluti Nígeríu, 3) Sómalía og 4) Jemen.

Í þremur tilvikum er matarskorturinn tilkominn fyrst og fremst vegna vopnaðra átaka en í einu tilviki, Sómalíu, eru langvarandi þurrkar meginskýringin. Þurrkar eru reyndar einnig hluti af neyðarástandinu á hinum þremur svæðunum.

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) segir að 1,4 milljónir barna séu í bráðri hættu.

Afleiðingar banns Bandaríkjaforseta:
Um tuttugu þjóðir stofna sjóð um öruggar fóstureyðingar
Hollenska ríkisstjórnin kveðst vera vongóð um að Bretar taki þátt í samstarfi rúmlega 20 þjóða sem áforma að setja upp myndarlegan sjóð um öruggar fóstureyðingar. Hugmyndin er sú að fylla upp í gatið sem myndaðist þegar Donald Trump forseti Bandaríkjanna innleiddi tilskipun sem kennd er við "global gag" og felur í sér bann við að nota opinbera bandaríska fjármuni í verkefni sem tengjast á einhvern hátt fóstureyðingum.

Lilianna Poloumen, ráðherra þróunarmála í hollensku ríkisstjórninni, hefur verið í forystu alþjóðlegrar herferðar fyrir stofnun sjóðsins. Honum er ætlað að hafa til ráðstöfunar 600 milljónir bandarískra dala - 66 milljarða íslenskra króna - til að vega upp fjárhagstjónið sem tilskipun Bandaríkjaforseta gagnvart borgarasamtökum leiddi af sér.

Belgar, Danir og Norðmenn hafa líkt og Hollendingar heitið því að leggja sjóðnum til 10 milljónir dala hver þjóð - rúman milljarð íslenskra króna - og önnur lönd sem hafa lýst yfir stuðningi við sjóðinn eru meðal annars Kanada, Grænhöfðaeyjar, Eistland, Finnland og Lúxemborg.

Samkvæmt frétt The Guardian hafa bresk stjórnvöld enn ekki ákveðið hvort þau taki þátt í átakinu af ótta við að bann Bandaríkjaforseta geti grafið undan verkefnum DfID (bresku þróunarsamvinnustofnunarinnar) á sviði heilsu og menntunar í þágu fátækra kvenna víðs vegar um heiminn.

Fram kemur að 3 milljónir óöruggra fóstureyðinga séu gerðar ár hvert hjá ungum stúlkum á aldrinum 15 til 19 ára. Aðgerðin leiði oft til langvarandi heilsuvanda stúlknanna og í alltof mörgum tilvikum til dauða.

Á þessu ári verða þau tímamót í netvæðingu heimsins að meirihluti jarðarbúa er kominn með aðgang að Netinu. Mikill kostnaður við gagnaflutninga kemur hins vegar í veg fyrir að margir íbúar fátækra ríkja fái aðgang að internetinu. Samkvæmt nýrri skýrslu - 2017 Affordability Report - eru rúmlega fjórir milljarðar jarðarbúa án netsambands. Í þeim hópi eru konur í fátækum ríkjum langfjölmennastar, sér í lagi konur til sveita.

Tryggja átti öllum jarðarbúum netsamband fyrir árið 2020 en að mati skýrsluhöfunda eru íbúar lágtekju- og millitekjuríkja um tuttugu árum eftir áætlun sem þýðir að takmarkinu um netaðgang fyrir alla verður ekki náð fyrr en árið 2042.

Í Afríkuríkjum kostar eitt gígabæti af fyrirframgreiddu gagnamagni um farsíma að jafnaði 18% af meðaltekjum. Í Bandaríkjunum og í Evrópu greiða farsímanotendur að meðatali innan við 1% af tekjum sínum fyrir sambærilegt gagnamagn. Af 27 Afríkjuríkjum voru aðeins fimm þar sem eitt gígabæti kostaði innan við 2% af meðallaunum mánaðar.

Samkvæmt skýrslunni eru margir þættir sem hafa áhrif á hægari útbreiðslu Netsins en ráð hafði verið fyrir gert en einkanlega beina skýrsluhöfundar þó spjótum sínum að stjórnvöldum Afríkuríkja sem hafa ekki fjárfest í innviðum til að greiða fyrir aukinni netnotkun. Löndum eins og Benin og Botsvana er hrósað í skýrslunni fyrir umbætur í stefnumörkun á þessu sviði og frumkvæði í þá átt að gefa almenningi kost á netaðgengi, með til dæmis ókeypis wi-fi á opinberum stöðum eins og sjúkrahúsum, flugvöllum, strætisvagnastöðvum og skrifstofum stjórnarráðsins.

Þá er varað við þeirri þróun að sífellt fleiri ríkisstjórnir í Afríku grípa til skyndilokana á Netinu þegar það hentar þeim.

Matarskortur hjá 30% íbúa Úganda
Stjórnvöld í Úganda hafa tilkynnt að 30% þjóðarinnar búi við matarskort vegna þurrka, að því er fréttaveita BBC greindi frá í morgun. "Ljóst hefur verið í nokkrar vikur að umfang þessa vanda vex en ekki  hafa komið fram áður svo ógnvænlegar tölur", segir Stefán Jón Hafstein, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala. 
 
Stefán Jón segir að undanfarin ár hafi hinir hefðbundnu regntímar í Úganda breyst, regn verið óreglulegra og löng óvænt þurrkatímabil komið. "Í umræðunni er að Úganda, sem er ákaflega frjósamt land, geti ekki lengur byggt smábændalandbúnað sinn á úrkomu einni.  Áveitur þykja ákjósanlegur kostur fyrir bændasamfélögin en þar er langt í land ennþá.  Úganda hefur ekki farið að ráði sumra Afríkuríkja og bannað matvælaútflutning vegna ástandsins, enda býr landið við mikinn gjaldeyrisskort. Raddir um slíkt bann ágerast nú, og kröfur gerast háværari um að ríkisvaldið komi til hjálpar með því að úthluta matvælum," segir Stefán Jón.
 
Matvælaskortur er nú víða í austurhluta Afríku eins og fram kemur í annarri frétt í Heimsljósi.


35 milljónir í neyðarverkefni SOS Barnaþorpanna
SOS Barnaþorpin á Íslandi hafa ákveðið að senda 35 milljónir til neyðarverkefna samtakanna í sex löndum. Um er að ræða lönd þar sem neyðin er mikil; Suður-Súdan, Írak, Mið-Afríkulýðveldið, Ekvador, Nígería og Níger. Fimm milljónir fara til hvers lands nema til Írak, þangað fara tíu milljónir.

 
Áhugavert

-
-
-
-
-
-
-

-
-
-
-
-
-
-
-
-
Child Protection in refugee settlements- ADH Project/ World Vision

-
-
-
-
-
-
-
-

-
-
-


US foreign aid expected to be biggest casualty of Trump's first budget /TheGuardian
-
Hershöfðingjar mótmæla skertri þróunaraðstoð/ RÚV
-
'America first' shouldn't mean cutting foreign aid/ WashingtonPost
-
Nigeria: when the State fails to provide water, fetching water should not be a criminal act - UN expert warns/ OHCHR
-
FAO's Regional Initiatives in Africa: helping countries to meet their targets
FAO's Regional Initiatives in Africa: helping countries to meet their targets
-
Food insecurity and poverty, a major challenge to meeting SDGs target 2.1 in sub-Saharan Africa/ FAO
-
4 ways in which the Burundi crisis is far from over/ AfricanArguments
-
World's biggest oil exporter Saudi starts hunt for solar and wind firms/ PRI
-
Uganda receives 4,000 refugees daily - Minister/ DailyMonitor
-
World Bank pledges $60 mln to help fill Gambia's empty coffers/ Reuters
-
At least 65,000 children released from armed forces and groups over the last 10 years, UNICEF
-
Government dithering prevents millions of Africans from accessing the internet/ QZ
-
Leading investors and insurers join call for G20 governments to end fossil fuel subsidies by 2020/ ODI
-
Social media has become the media in Africa/ Qz
-
The tech solutions to end global hunger/ CNN
-
South African police break up anti-immigrant protests/ Reuters
-
Shipbnb? Tech entrepreneur floats idea of sheltering homeless on cruise ship/ TheGuardian
-
Somalia's new president declares drought emergency/ DW

HIV/Alnæmi: Mismunun þrífst í heilsugæslu í 60% Evrópuríkja

Dæmi eru um í 60% Evrópuríkja að fordómar og mismunun innan heilsugæslu komi í veg fyrir að lykilhópar njóti úrræða vegna HIV/Alnæmi. Alþjóðadagur engrar mismununar er í dag. 

Í frétt á vef Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu segir að tölur frá 50 ríkjum á lista samtaka fólks sem lifir með HIV sýni að áttunda hverjum manni sem smitaður er af HIV hafi verið neitað um heilbrigðisþjónustu. Í Evrópuríkjum - ESB og EES-ríkjum- komi fordómar og mismunun af hálfu heilbrigðisstarfsmanna í garð karla sem sænga hjá körlum og sprautufíkla, í veg fyrir að árangur náist.
"Heilsgæslan á að vera öruggt stuðnings-umhverfi. Það er ólíðandi að mismunun skuli enn hindra aðgang,"  segir Michel Sidibé, forstjóri Alnæmisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNAIDS).
"Það er brýnt að útrýma fordómum innan heilbrigðisþjónustunnar og við hljótum að krefjast þess að það verði gert."

Alþjóðadagur engrar mismununar var haldinn fyrst á síðasta ári, 2016. Deginum er ætlað að sameina hagsmunaaðila í því skyni að allir, alls staðar geti fengið þau úrræði sem þeir þurfa á að halda heilsu sinnar vegna án nokkurra fordóma.

Leiðtogafundur um höfin


Fjórði leiðtogafundurinn um hafið verður haldinn í október á þessu ári á vegum Evrópusambandsins á Möltu. Leiðtogafundirnir bera yfirskriftina "Our Ocean" (Höfin okkar) og meðfylgjandi kynningarmyndband er nýkomið út um leiðtogafundinn í haust. 

Markmið fundarins að er freista þess að ná fram skuldbindandi samningum um sjálfbærar fiskveiðar, viðnám gegn loftslagsbreytingum og vernd hafsins. 

Heimasíða ráðstefnunnar er hér.

Lýst yfir stríði gegn plasti í hafinu 

Tilgangurinn með því að lýsa yfir stríði gegn plasti í hafinu er að útrýma annars vegar plasteindum í snyrtivörum og hins vegar binda enda á notkun einnota plasts fyrir árið 2022, segir í frétt Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (UNRIC).

Herferðin #HreintHaf eða  #CleanSeas hefur að markmiði að fá ríkisstjórnir heims til að setja skýr markmið um að minnka plastnotkun, hvetja fyrirtæki til að draga úr notkun plastumbúða og endurhanna vörur. Þá eru neytendur hvattir til þess að hætta að fleygja hlutum umhugsunarlaust áður en óbætanlegur skaði hefur verið unninn á hafinu.

Erik Solheim, forstjóri Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UN Environment, segir: "Það er kominn tími til að við ráðust til atlögu við plastvandann sem er að eyðileggja höfin. Plastmengun er alls staðar, hvort heldur sem er á ströndum Indónesíu eða á hafsbotni á Norðurpólnum og fer upp fæðukeðjuna og endar á kvöldverðarborðum okkar. Við höfum staðið aðgerðarlaus of lengi á meðan vandinn hefur aukist. Þetta verður að stöðva."

Til ársloka mun verða tilkynnt á vettvangi herferðinnar #HreintHaf með reglubundnu millibili um aðgerðir ríkja og fyrirtækja um að stöðva notkun örplasts í snyrtivörum, bann við notkun einnota plastpoka og minnkandi notkun annars konar plastumbúða . Búast má við að margir noti tækifærið til að tilkynna um aðgerðir á Alheimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um hafið 5.-9. júní í New York.

Nánar

Öruggt leik- og íþróttasvæði opnað börnum í Jalazone flóttamannabúðunum í Palestínu

María Erla Marelsdóttir skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytis og sendiherra Íslands gagnvart Palestínu og Scott Anderson, yfirmaður UNRWA Operations í Palestínu (Vesturbakkanum).
Öruggt leik- og íþróttasvæði fyrir börn og ungmenni í Jalazone flóttamannabúðunum í Palestínu hefur verið tekið í notkun en framkvæmdirnar voru kostar af framlögum Íslands til þróunarmála. Samkvæmt lokaskýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínuflóttamenn (UNRWA) var með verkefninu unnt að skapa öruggt svæði fyrir börn og ungmenni innan Jalazone flóttamannabúðanna þannig að þau hafa nú tækifæri til ýmiss konar íþrótta og leikja sem stuðlar bæði að betri líkamlegri og andlegri heilsu.

Endurbætur á svæðinu fólu meðal annars í sér að reisa veggi umhverfis leiksvæðið, lagfæra vatns- og skólplagnir og byggja litla áhorfendastúku. Í umsögn UNRWA segir að endurbætur á íþróttasvæðinu gefi börnum og unglingum í Jalazone búðunum og foreldrum þeirra langþráð tækifæri til að eiga samverustundir, leika sér og taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi. Með þessa aðstöðu geti íbúarnir un stund gleymt daglegu amstri og erfiðleikum sem einkennir lífið í búðunum.

Ánægjulegt er að sjá hve mikil áhrif lítil verkefni, líkt og uppbygging á íþróttavellinum í Jalazone flóttamannabúðunum, geta haft fyrir stóran hóp fólks. Ljósmyndir: AH
Herseta í hálfa öld
Á þessu ári verður hálf öld liðin frá því herseta Ísraels hófst á Vesturbakkanum. Í fimmtíu ár hefur palestínska þjóðin verið í herkví og þurft að þola frelsisskerðingu, takmarkaða þjónustu og margvísleg mannréttindabrot. Samkvæmt nýjustu tölum býr meira en fjórðungur þjóðarinnar, 27%, við matvælaóöryggi.

Að því er fram kemur í skýrslunni um verkefni eru Jalazone búðirnar - sem eru meðal nítján flóttamannabúða á Vesturbakkanum - í hópi þeirra sem verða verst úti í átökum. Öryggissveitir Ísrala (ISF) beita iðulega skotvopnum við búðirnar og ungt fólk er meðal þeirra sem hafa fallið eða særst.

Palestína hefur verið skilgreint sem áhersluland Íslands á sviði þróunarsamvinnu frá því tillaga til þingsályktunar um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands var samþykkt á Alþingi 2011. Stuðningurinn er í gegnum fjölþjóðastofnanir og borgarasamtök m.a  á sviði jafnréttismála og  félagslegra innviða t.d. heilbrigðis- og menntamála. Hann takmarkast ekki við landamæri Palestínu heldur tekur einnig til palestínskra flóttamanna í nágrannaríkjunum Jórdaníu, Sýrlandi og Líbanon.
facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105