Heimsljós
veftímarit um þróunar- og mannúðarmál
10. árg. 343. tbl.
29. nóvember 2017
Tvíhliða þróunarsamvinna:
Góður árangur af samstarfsverkefni Íslands og Úganda í Buikwe héraði
Starfsmenn íslenska sendiráðsins í Kampala lögðu nýlega land undir fót og fóru í vettvangsferð í öll þorp, skóla og heilsugæslustöðvar í Buikwe héraði, þar sem unnið hefur verið að verkþáttum og uppbyggingu á síðustu þremur árum í héraðsþróunarverkefni sem Íslendingar vinna með héraðsstjórninni. Það voru æði margir staðir sem voru heimsóttir, því verkefnin hafa komið víða við og uppbyggingin margþætt:
  • Byggðar 15 vatnsveitur með borholum, dæluhúsum og dreifikerfi með samtals 51 AQTap vatnspóstum í 16 þorpum;
  • Grafnir 15 brunnar með handælum og tæknibúnaður til vatnstöku settur upp við 17 vatnslindir;
  • Byggðar 137 salernisblokkir við skóla, heilsugæslustöðvar og til almennra nota með aðskildri aðstöðu fyrir karla og konur og sérstöku hreinlætisherbergi fyrir konur;
  • Byggðar 19 kennslubyggingar við 10 grunnskóla með samtals 57 kennslustofum og 11 skólaskrifstofum;
  • Byggð 13 kennarahús með samtals 39 kennaraíbúðum;
  • Unnið að endurbótum á 15 starfsmannahúsum með 24 íbúðim fyrir kennara;
  • Byggð 18 skólaeldhús með orkusparandi eldstæðum og nægu geymslurými fyrir matvæli.
Hérðasverkefni með fiskisamfélögum
Buikwe hérað er um 50 km austan við höfuðborgina Kampala og liggur þjóðbrautin frá Rúanda til strandar í Kenía um héraðið. Buikwe er frjósamt og landbúnaður helsta atvinnugreinin, en þar eru einnig tvö stærstu raforkuver landsins á ánni Níl og talsverður iðnaður hefur byggst upp í nágrenni við þau. Fiskveiðar og fiskverkun eru einnig mikilvægar atvinnugreinar, enda liggur héraðið að Viktoríuvatni að sunnanverðu. Íbúafjöldi héraðsins er um 440.000 og þar af búa 50.000 manns í 39 fiskiþorpum við strendur vatnsins.

Árið 2014 var undirritað samkomulag milli stjórnvalda á Íslandi og í Úganda, sem beinir íslenskri þróunaraðstoð við Úganda að margvíslegri uppbyggingu og bættum lífskjörum í  fiskisamfélögunum í Buikwe héraði (Buikwe District Fishing Community Development Programme eða BDFCDP). Framkvæmd verkefnastoðarinnar hófst fyrir um það bil þremur árum með vatns- og hreinlætisverkefin í 19 fiskiþorpum og síðan menntaverkefin í grunn- og framhaldsskólum á sama svæði sem hófst fyrir einu og hálfu ári. Framkvæmdir hafa gengið vel og verulegur hluti af þeirri uppbyggingu sem áætluð var er nú vel á veg komin eða þegar lokið - og komin í fulla notkun.

Árni Helgason við nýja vatnspóstinn.
Að sögn Árna Helgasonar verkefnisstjóra í sendiráði Íslands í Kampala er yfirmarkmið verkefnisins að stuðla að betri lífskjörum fyrir íbúana í fátækum fiskiþorpum Buikwe héraðs, en hann segir þau víðast hvar bágborin og í ýmsu tilliti verri en gengur og gerist í landinu.  "Við undirbúning verkefnisins var mikið verk unnið við að greina stöðuna og ákveða hvar ætti að bera fyrst niður. Af nógu var að taka því í fiskiþorpunum vantar nær allt grunnvirki og samfélagslega þjónustu sem sjálfsagt þykir að sé til staðar í hverju samfélagi. Eftir ítarlegt samtal við héraðsyfirvöld og fólkið í fiskiþorpunum var ljóst að í forgangi væri að bæta aðgengi að neysluhæfu vatni, bæta almenna hreinlætisaðstöðu fyrir þorpsbúa, byggja upp kennsluaðstöðu í grunnskólum á svæðinu og standa fyrir ýmiskonar þjálfun og fræðslu hjá héraðs- og skólayfirvöldum til að tryggja eðlilegan rekstur og viðhald á mannvirkjum og betri þjónustu á sviði menntunar og vatns- og hreinlætismála," segir Árni.

Vatns- og hreinlætisverkefnið lengst komið
Vatns- og hreinlætisverkefnið í Buikwe er lengst á veg komið og verklegum framkvæmdum fyrsta áfanga að mestu lokið. Allar 137 salernisblokkirnar eru þegar komnar í fulla notkun og á næstu vikum verða vatnsveitur í 16 þorpum komnar í notkun. Margvíslegt þjálfunar- og fræðslustarf verður unnið með samfélögunum  á næstu misserum, sem vonandi mun tryggja sjálfbærni og varanleika í rekstri í framtíðinni.

Menntaverkefninu er skemmra á veg komið en þó er talsverður hluti af byggingaframkvæmdum þegar lokið og kennslublokkir með 57 kennslustofum og 11 skólaskrifstofum þegar komnar í notkun, bygging 12 kennarahúsa með 36 íbúðum og skólaeldhúsa við 14 grunnskóla á lokastigi.  Auk nauðsynlegra innviða, sem lýst er hér að ofan er einnig í gangi margvísleg starfsþjálfun í þágu skólastjórnenda og kennara í skólunum, efling foreldrafélaga og stofnun þorpsráða, sem munu veita skólastjórnendum aðhald og vinna með þeim að frekari eflingu skólastarfsins.
Nkombwe
"Nkombwe í vesturhluta Buikwe er gott dæmi um fiskiþorp sem hefur notið stuðnings frá BDFCDP verkefninu og árangurinn þar sýnilegur," segir Árni. Íbúafjöldi í Nkobwe eru tæplega 1.200 manns og flestir hafa lífsviðurværi sitt af störfum tengdum fiskveiðum og verkun auk ræktunar til heimabrúks. Í þorpinu er einn grunnskóli, sem í upphafi var með um 150 nemendur, en er í dag með nær 600 nemendur, og er hann einn  af 14 skólum sem valdir voru fyrir víðtækan stuðning frá menntaverkefninu.  Nú þegar hafa verið byggðar tvær kennslublokkir með samtals sex fullbúnum kennslustofum, skrifstofuhúsnæði fyrir skólastjórnendur og kennara og bygging íbúðarblokkar með íbúðum fyrir allt að sex kennara er á lokastigi. Nýtt skólaeldhús mun komast í gagnið á næstu vikum og skólinn mun síðan tengjast vatnsveitunni sem byggð var fyrir þorpið."

Að sögn Árna leynir sér ekki af samtölum við þorpsbúa, skólastjórnendur, kennara og nemendur að stuðningur BDFCDP verkefnisins hefur breytt miklu fyrir þetta litla samfélag. "Áður sóttu þorpsbúar óhreint vatn til heimilisnota í Viktoríuvatn en hafa nú aðgang að hreinu vatni á vægu verði úr AQtap vatnspóst á þremur stöðum í þorpinu. Áður var engin almenn hreinlætisaðstaða til staðar, en nú eru fjórar salernisblokkir, sem allir hafa aðgang að.

Í Nkombwe skólanum voru áður um 150 nemendur og öll aðstaða til kennslu afar bágborin. Skortur var á kennsluhúnæði og kennslugögnum, og erfiðlega gekk að ráða kennara við skólann vegna þess hversu afskekkt Nkobwe þorpið er og allur aðbúnaðar fyrir kennara var lélegur.

Í dag er skólinn fullmannaður ungum og frískum kennurum, sem greinilega hafa áhuga á sínu starfi og geta nú búið á staðnum í nýjum kennaraíbúðum með sínar fjölskyldur. Aðstaða til kennslu hefur stórbatnað með tilkomu nýrra kennslubygginga og allir nemendur fá nú skólabækur í öllum aðalfögum til eigin nota, í stað þess að vera allt að 10 nemendur um hverja skólabók. Nemendafjöldi við skólann hefur fjórfaldast á framkvæmdatíma verkefnisins, því foreldrar í þorpinu eru nú mun áfjáðari um að halda börnum sínum í skólanum og foreldrar í nærliggjandi þorpum sækast eftir því að senda sín börn þangað sem aðstaða til kennslu er nú mun betri en gengur og gerist," segir Árni.

Þótt fyrsta áfanga vatns- og hreinlætisverkefnisins sé nú nær lokið er þegar hafinn undirbúningur að öðrum áfanga. Áformað er að halda áfram á sömu braut og byggja vatnsveitur og almenna hreinlætisaðstöðu í þeim 20 fiskiþorpum sem ekki voru valin í fyrsta áfanga. Menntahluta verkefnisins er um það bil hálfnaður, en að sögn Árna er þegar farið að huga að frekari uppbyggingu við grunnskólana sem þjóna fiskisamfélögunum í Buikwe héraði að honum loknum.
Fjölbreyttari leiðir flótta- og farandfólks til Evrópu:
Talið að þrjú þúsund manns hafi farist á Miðjarðarhafi á þessu ári
© UNHCR/Achilleas Zavallis

Flótta- og farandfólk fer nú fjölbreyttari leiðir en áður til þess að komast til Evrópu, segir í nýrri skýrslu frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Þar kemur fram að á síðustu mánuðum hafi fleiri en áður farið sjóleiðina til Grikklands, fækkun hafi orðið á fólksflutningum til Ítalíu, og almennt velji flótta- og farandfólk fjölbreyttari leiðir að landamærum Evrópu en áður hafi tíðkast, eins og haft er eftir Pascale Moreau, framkvæmdastjóra Evrópuskrifstofu Flóttamannastofnunar í frétt UNHCR.

Ríflega tuttugu þúsund manns komu sjóleiðina frá Líbíu til Ítalíu á tímabilinu frá júlí til september á þessu ári, færri en dæmi eru um á síðustu fjórum árum. Samkvæmt skýrslunni voru flestir þeirra sem komu á þriðja ársfjórðungi þessa árs til Ítalíu að ferðast frá Túnis, Tyrklandi og Alsír, meirihlutinn Sýrlendingar, Marokkóbúar og Nígeríumenn.

Sífellt fleiri hafa fyrstu viðkomu í Grikklandi, samkvæmt skýrslunni, og stöðugur straumur hefur legið þangað frá því í sumar. Tæplega fimm þúsund manns komu að landi í Grikklandi í september, fleiri en dæmi eru um á einum mánuði frá því í mars 2016. Átta af hverjum tíu sem komu til Grikklands voru Sýrlendingar, Írakar eða Afganar, þar af konur og börn í miklum meirihluta.

Einnig varð mikil aukning á straumi flótta- og farandfólks til Spánar, 90% aukning á þriðja ársfjórðungi borið saman við sama tíma fyrir ári. Flestir þeirra tæplega átta þúsund einstaklinga sem komu til Spánar voru frá Marokkó, Fílabeinsströndinni og Gíneu en þorri þeirra sem komu landleiðina voru Sýrlendingar.

Þá segir einnig í skýrslunni frá því að flóttafólk hafi farið frá Tyrklandi til Rúmeníu gegnum Svartahafið sem ekki séu dæmi um síðan í febrúar 2015 og ennfremur hefur orðið mikil fjölgun á komu flótta- og farandfólks til Kýpur allt þetta ár.

Mikið mannfall og mörg börn ein
Moreau segir að þrátt fyrir að flótta- og farandfólki hafi fækkað sem haldið hafi í örvæntingu yfir Miðjarðarhafið á síðustu mánuðum sé sjóleiðin sem fyrr yfir til Evrópu afar hættuleg. Hún segir að á árinu séu talið að nálægt þrjú þúsund einstaklingar hafi farist eða týnst á þessari sjóleið og 57 til viðbótar hafi látist eftir að hafa náð til Evrópu. Hún segir að því miður megi telja fullvíst að þessar tölur séu of lágar.

Í skýrslunni kemur eru einnig undirstrikaðar erfiðar aðstæður margra kvenna og stúlkna sem eru fórnarlömb mansals, auk aðstæðna þeirra rúmlega fimmtán þúsund barna sem hafa komið án foreldra eða fylgdarmanna til Evrópu á þessu ári.

Sextán daga átak gegn kynbundnu ofbeldi hafið:
Engin samræmd alþjóðalög til gegn kynbundu ofbeldi
Í 150 löndum er að finna lög þar sem konum og körlum er mismunað og í 63 löndum er slíka mismunun að finna í fleiri en fimm lögum. Í nýlega útgefnum "Atlas" um Heimsmarkmiðin frá Alþjóðabankanum segir að slík kerfisbundin mismunun viðhaldi kynjamun sem birtist meðal annars í því að konur hafi síður en karlar rétt til eigna. Einnig er á það bent að þessi mismunun viðhaldi því órétti að konur vinni ólaunuð heimilisstörf í miklu meira mæli en karlar sem dragi úr efnahagslegri valdeflingu kvenna. Í fimmta heimsmarkmiðinu eru tækifæri til þess að grípa aðgerða til umbreytinga til að takast á við þessi mál og flýta framförum í átt að sterkara hagkerfi, eins og segir í formálanum.

Í tilefni af upphafi sextán daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi rýndi Heimsljós í Atlasinn frá Alþjóðabankanum um fimmta markmiðið - Jafnrétti kynjanna -  en á þessum vef er að finna tölfræðilegar upplýsingar um hvert og eitt markmiðanna sautján.

"Öll mismunun gagnvart konum og stúlkum verði afnumin alls staðar," segir orðrétt í undirmarkmiði 5.1. Í Atlasinum segir að útbreiddur kynbundinn lagalegur munur geri konum erfitt fyrir að eiga húseignir, opna bankareikning, stofna fyrirtæki og starfa í tilteknum atvinnugreinum. Þjóðir í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku hafi að meðaltali sextán lagabókstafi í tengslum við starfshætti og frumkvöðlastarf sem feli í sér ólík ákvæði eftir því hvort í hlut eigi karl eða kona, í Suður-Asíu séu slík ákvæði í 8 lagagreinum og í 6 lagagreinum meðal þjóða í sunnanverðri Afríku, en færri í öðrum heimshlutum.

Í undirmarkmiði 5.2 segir að a llt ofbeldi gagnvart konum og stúlkum á opinberum vettvangi sem og í einkalífi, þar með talið mansal og kynferðisleg misneyting og misneyting af öðru tagi, verði afnumið. Í Atlasinum segir að lög gegn kynbundnu ofbeldi séu ekki alþjóðleg. "Í 49 löndum eru engin sérstök lög gegn heimilisofbeldi, í 45 löndum eru engin lög gegn kynferðislegri áreitni, og í 112 löndum er nauðgun ekki saknæm innan hjónabands.

Í kafla sem fjallar um að brjóta upp vítahring fátæktar er bent á að aðgengi að menntun og atvinnutækfærum síðar á lífsleiðinni sé oft á tíðum ógnað með snemmbúnu hjónabandi. Þessi atriði eru undirstrikuð í undirmarkmði 5.3 þar sem segir að allir skaðlegir siðir, eins og barnahjónabönd, snemmbúin og þvinguð hjónabönd og sköddun kynfæra kvenna, verði afnumdir. Í Atlasinum segir að giftar barnungar stelpur sem hafi hrökklast úr námi skorti of þá þekkingu og færni sem krafist sé í atvinnulífi og þær neyðist því til þess að vinna erfiðari og oft hættulegri störf fyrir lægri laun en ella.

Þá er fjallað í riti Alþjóðabankans um ólaunuð störf og hvernig unnt sé að stuðla að því að deila ábyrgðinni milli kynjanna á slíkum störfum. "Konum verja að jafnaði mun meiri tíma en karlar í ólaunuð heimilsstörf og umönnunarstörf. Í undirmarkmiði 5.3 er nánar kveðið á um þessi atriði en þar segir að "ólaunuð umönnunar- og heimilisstörf verði viðurkennd og metin með því að tryggja opinbera félagsþjónustu, innviði og stefnumörkun á sviði félagslegrar verndar og að ýtt verði undir sameiginlega ábyrgð innan heimilis og fjölskyldu eins og við á í hverju landi." 

Með vísan í tölfræðilegar upplýsingar um þessi atriði segir Alþjóðabankinn að konur verji að jafnaði milli 13 (Tæland) og 28 (Mexíkó) prósentum af tíma sínum í ólaunuð heimilis- og umönnunarstörf en karlar allt frá 3 (Japan) prósentum upp í 13 (Svíþjóð) prósent. "Þessi ójafna skipting á ábyrgð tengist kynjamun hvað varðar efnahagsleg tækifæri, þar með talið dræma þátttöku kvenna á vinnumarkaði, mismunandi atvinnuþátttöku kynjanna og tekjumun," segir í Atlas Alþjóðabankans um fimmta Heimsmarkmiðið.

Sextán daga átakið hófst með Ljósagöngu UN Women
Mörg hundruð manns mættu í Ljósagönga UN Women sem fór fram síðastliðið laugardagskvöld á alþjóðlegum baráttudegi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi. Dagurinn markar upphaf 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi sem UN Women á Íslandi ásamt öðrum félagasamtökum hér á landi eru í forsvari fyrir.

Yfirskrift Ljósagöngunnar í ár var - Höfum hátt. Í frétt Landsnefndar UN Women á Íslandi segir:

"Kyndilberar Ljósagöngu UN Women í ár voru Anna Katrín Snorradóttir, Glódís Tara, Halla Ólöf Jónsdóttir og Nína Rún Bergsdóttir og flutti Nína Rún hugvekju fyrir þeirra hönd. Þær spiluðu aðalhlutverk í atburðarásinni sem leiddi til ríkisstjórnarslita og er þetta í fyrsta skiptið sem þær koma allar saman síðan #höfumhátt fór af stað í sumar eftir að Robert Downey var veitt uppreist æra af íslenskum yfirvöldum."

Í hugvekju Nínu Rúnar sagði meðal annars:
"Við vitum um fleiri brotaþola sem ekki hafa skilað skömminni og þessvegna höfum við hátt, og við munum hafa hátt þangað til að stjórnarskránni verður breytt og enginn þarf að ganga í gegnum það sama og við höfum þurft að ganga í gegnum. En Höfum Hátt er ekki bara okkar, heldur líka ykkar. Kvenna, karla, mæðra, feðra, systra og bræðra. Nú höfum við tækifæri til að breyta því hvernig samfélagið okkar tekur á kynferðisofbeldi... Hvernig samfélag viljum við fyrir börnin okkar?

Við brotnum ekki undan storminum og mótlætinu. Við viljum réttlæti! Við erum gosið! Við erum stormurinn!"
Fjárfest í framtíðinni... á þriðjudaginn í næstu viku!

Hvernig getur Global Compact, sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð og Heimsmarkmiðin 17 um betri heim opnað fyrirtækjum leið inn á nýja markaði á sama tíma og þau sýna samfélagsábyrgð í verki?

Opinn morgunfundur verður á Hilton Reykjavík Nordica, þriðjudaginn 5. desember kl. 8.30-10.

Boðið verður upp á hagnýta vinnustofu um Global Compact að loknum fundi kl. 10.15-12.
Allir áhugasamir velkomnir - ekkert þátttökugjald.
Vinsamlegast skráið þátttöku á vef SA.

DAGSKRÁ

Ábyrgt atvinnulíf  -  Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins

Ábyrgar fjárfestingar -  Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, forstöðumaður markaða hjá Landsbankanum

Heimsmarkmið SÞ og Ísland -  Hildigunnur Engilbertsdóttir, sérfræðingur á þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins

Hvers vegna Global Compact?
EFLA verkfræðistofa -  Ingunn Ólafsstjóri, mannauðsstjóri  Isavia
Hrönn Ingólfsdóttir, forstöðumaður Verkefnastofu.

Fundarstjóri er Ragna Sara Jónsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri FÓLK

VINNUSTOFA UM SAMFÉLAGSÁBYRGÐ KL. 10.15-12
Hagnýt tæki og tól til að vinna með Global Compact og samfélagsábyrgð fyrirtækja
Erika Eriksson frá sænska ráðgjafafyrirtækinu Enact stýrir vinnustofunni.

Samtök atvinnulífsins eru tengiliður Íslands við Global Compact.
Að fundinum standa Samtök atvinnulífsins, Íslandsstofa, Festa og Global Compact Nordic Newtwork.

Nánar á vef Samtaka atvinnulífsins
Heimsmarkmiðin á forsíðunni á nýjum vef stjórnarráðsins

"Heimsmarkmið um sjálfbæra þróun eru víðtækustu markmið sem ríki heims hafa komið sér saman um. Stefnt er að því að tryggja velmegun og mannréttindi um allan heim fyrir árið 2030," segir á forsíðunni á vef stjórnarráðsins. 

Þar segir enn fremur: "Áætlun þessi er framkvæmdaáætlun í þágu mannkynsins, jarðarinnar og hagsældar. Með henni er einnig leitast við að stuðla að friði um gjörvallan heim og þar með auknu frelsi. Ljóst er að útrýming fátæktar í öllum sínum myndum og umfangi, að meðtalinni sárafátækt, er stærsta verkefnið á heimsvísu og ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir sjálfbærri þróun. 

Öll lönd og allir haghafar munu, í gegnum samstarfsverkefni, hrinda þessari áætlun í framkvæmd. Við ásetjum okkur að losa mannkynið undan ánauð fátæktar og að græða jörðina og auka öryggi hennar. Við einsetjum okkur að stíga afgerandi skref til breytinga sem nauðsynleg eru í því skyni að koma veröldinni á braut sjálfbærni og auka viðnámsþol hennar. Þau 17 markmið sjálfbærrar þróunar og 169 undirmarkmið, sem sett eru fram í skjali þessu, vitna um umfang þessarar nýju, altæku og metnaðarfullu áætlunar. 

Með markmiðunum er leitast við að byggja á þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og ljúka því sem ekki náðist með þeim. Með þessum markmiðum er leitast við að tryggja öllum mannréttindi og ná fram kynjajafnrétti og efla vald kvenna og stúlkna. Þau eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli hinna þriggja stoða sjálfbærrar þróunar: hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. 

Vefur stjórnarráðsins

Heilbrigðisráðherra í Bangladess
Óttarr Proppé starfandi heilbrigðisráðherra er í Bangladess í fylgd fulltrúa Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) að kynna sér aðstæður flóttafólks og heimsækja flóttamannabúðir Róhingja í landinu. 

Hundruð þúsunda Róhingja hafa flúið þjóðernishreinsanir hersins í nágrannaríkinu Mjanmar síðustu mánuði. Í vikubyrjun hitti hann aðstoðar utanríkisráðherra í Dhaka, höfuðborg Bangladess, og ræddi við hann um nýtt samkomulag á milli Bangladess og Mjanmar um að flóttafólki verði heimilt að snúa aftur heim. Fréttastofa RÚV segir að Sameinuðu þjóðirnar, Rauði krossinn og fleiri hafa lýst yfir áhyggjum af því að öryggi og mannréttindi flóttafólksins séu ekki tryggð með samkomulaginu.

Í Fésbókarfærslu á sunnudag sagði Óttarr: "Það þarf aðkomu alþjóðasamfélagins að því að finna lausn sem tryggir fólki öryggi, mannréttindi og mannsæmandi framtíð. Við heimsækjum stofnanir Sameinuðu þjóðanna, Rauða krossinn og vonandi fleiri sem vinna mikið starf við mjög erfiðar aðstæður. Þau bjarga mannslífum og gera kraftaverk á hverjum degi en það þarf mikið meira til."

Í gær skrifaði Óttarr á Fésbók:
"Er loks kominn suður til Cox's Bazar í suðaustur Bangladesh næst landamærum Myanmar. Það er hér sem mesta neyðarhjálparstarfið fer fram en hundruð þúsunda Rohingya hafast við á þessu svæði í misformlegum búðum við mjög erfiðar aðstæður. Það er sérstakt áhyggjuefni hve gríðarlega stór hluti hópsins eru börn.

Ferðin er farin í samvinnu við Unicef á Íslandi og eftir þeirra skipulagi. Það auðveldar aðgang að svæðum og innsýn inn í þeirra starf og annarra stofnana Sameinuðu þjóðann a. Til þess að fyrirbyggja misskilning sem virðist hafa komið upp þá vil ég koma því skýrt fram að auðvitað ber Unicef engan kostnað af mínum ferðum. Ég er hér á eigin vegum þó ég fái að fylgja þeim.

Í dag vorum við í höfuðborginni Dhaka og þar hitti ég Shahriar Alam undirráðherra utanríkismála í Bangladesh. Við ræddum alvarleika flóttamannamálsins og ástandsins í Myanmar. Hann ítrekaði hvað það væri mikilvægt að njóta aðstoðar alþjóðasamfélagsins við þetta risaverkefni. Hann var vel meðvitaður um þátt litla Íslands, þakkaði og bað fyrir kveðjur. Það var ekki laust við að bráðnaði aðeins hjarta í þessum bráðum fyrrverandi ráðherra. Ást og friður!"

-
-

Áhugavert

Innovation Accelerator/ WFP
-
Patterns inherited from South Africa's colonial past still persist in sport, eftir Francois Cleophas/ TheConversation
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
Zero Hunger Film/ Heimsmarkmiðin
-
-
No hugs, no one to talk to: how Ugandan orphanages are harming a generation, eftir Helen Nianias/ TheGuardian
-
Zimbabwe: international donors should restart targeted finance, eftir Judith Tyson/ ODI
-
Infographics: climate change, migration and displacement/ ODI
-
PEACEBUILDING: Comprehensive approach eftir Monika Hellstern/ D+C
-
Photo Story: World pushing for faster climate action at Bonn conference/ UN
-
Globaliseringens nedfallsfrukt, eftir Bernt G. Apeland/ Bistandsaktuelt
-
Aid and multilateralism in an era of populist politics/ ODI
-
Food Festival gives French schoolchildren a taste of refugee life/ UNHCR

Þakkir til Íslendinga frá kennara í Kalangala
Að gera við skóla og byggja upp menntakerfi í fátæku landi er risavaxið verkefni. En þau kunna að meta aðstoð Íslands sem hana fá og hér með er þökkum komið til skila, skrifaði Stefán Jón Hafstein forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala á Fésbókarsíðu sína á dögunum og birti bréf kennarans:

,,Bridge of hope community based school Kalangala ssese islands, would like tp extends its joyful and thankful massage to the all Iceland community, for supporting our school, in books, water tank, latrine and now classroom block, which it could take this school more ten years to get such a standard buildings!! !!, you are really for Kalangala pupils!!!!,  we had buildings which when it rains water just wet pupils and teachers run for protection in the administration room and living the children to wet!!!, but, now if this on going classroom is completed, it will give children protection hence increase the quality of education at school.

So as the school staff, let me take this opportunity to thank you, for all who contributes to the underserved children of Uganda ,please thank you for loving us, mostly Bridge of hope school !!!! Be blessed as you have been a blessing to us. Lweera Lawrence (staff ) "


Energy Resilience Takes on Renewed Urgency/ Alþjóðabankinn
-
Nigeria: B/Haram Bombings Last Kicks of Dying Horse - Buhari/ AllAfrica
-
Antalya: UN-backed fund combatting poverty and hunger across Global South launches annual report/ UNNewsCentre
-
REAL INNOVATION: The UN is using ethereum's technology to fund food for thousands of refugees/ Qz
-
Ubrukt flyktningbistand omfordelt til Afrika og Midtøsten/ Bistandsaktuelt
-
Uganda: Doctors in Public Hospitals Suspend Three-Week Strike/ AllAfrica
-

Pogba og Sameinuðu þjóðirnar mótmæla þrælasölu/ UNRIC
-
Forced to have oral sex with a colleague: aid workers speak out on assault/ TheGuardian
-
Yemen civil war: First aid shipments arrive after ease of blockade amid famine warnings/ Independent
-
How Blockchain Technology Is Helping Syrian Refugees/ HuffingtonPost
-
Male rape and sexual torture in the Syrian war: 'It is everywhere'/ TheGuardian
-
After Mugabe, all eyes are on Uganda's Museveni: how long can he cling to power?/ Qz
-
Africa's future depends on education/ DW
-
Women Activists are Targets of Gender-Biased Violence/ IPS
-
How Zimbabwe gets out of its economic nightmare/ Qz
-
Government to send millions more in aid to British Overseas Territories hit by hurricanes/ Independent
-
Móttaka flóttamanna talin þróunarsamvinna/ Vísir
-
IOC launches campaign to bring light to refugee camps/ UNHCR
-
Rwanda Ramps up STEM Education for Girls/ VOANews
-
Resilient Transport Vital to Curb Disaster Losses in Small Island Developing States/ Alþjóðabankinn
-
Danmark støtter helt ny tech-drevet indsats til det humanitære arbejde/ Danska utanríkisráðuneytið
-
These charts show broadband internet is still too expensive for many Africans/ Qz
-
'I cannot do anything to save my baby boy'/ WFP
-
Nigeria: Govt Wants Italy to Prosecute Culprits of 26 Dead Nigerians/ AllAfrica
-
Kenía: Tension and polarisation after election result upheld/ Norræna Afríkustofnunin
-
Security lapses at aid agency leave beneficiary data at risk/ IRIN
-
Emmanuel Macron's mission in Africa: A new approach?/ DW
-
One Third of Food Lost, Wasted - Enough
-
Barn deyr í Jemen á 10 mínútna fresti/ UNRIC
-
Landet som ikke eksisterer, har netop gennemført et succesfuldt præsidentvalg - igen, igen, igen/ GlobalNyt
-
Easing of blockade enables UN aid to enter Yemen, but agencies say imports must also be allowed/ UNNewsCentre

Öðruvísi jóladagatal

Í  desember bjóða SOS Barnaþorpin nemendum í 1. - 7. bekk grunnskóla að taka þátt í verkefninu Öðruvísi jóladagatal en þetta er í annað sinn sem verkefnið fer fram.
Öðruvísi jóladagatal færir athyglina frá því að þiggja yfir í að gefa en nemendur horfa á eitt stutt myndband á dag, dagana 4.-15. desember, þar sem þeir kynnast lífi barna frá ýmsum löndum. Með myndböndunum fylgja upplýsingar fyrir kennara og hugmyndir að umræðuspurningum.


Íslensk viðvera í Mósambík í rúmlega tuttugu ár

Ljósmynd frá Mósambík: gunnisal
- eftir Vilhjálm Wiium forstöðumann sendiráðs Íslands í Mapútó

Skrefin til vinnu hafa verið ögn þyngri undanfarnar vikur heldur en venjulega. Nú hef ég nefnilega það verkefni með höndum að loka endanlega sendiráði Íslands í Mapútó. Markar það þáttaskil, en sendiráðið var á sínum tíma fyrsta sendiráð Íslands á suðurhveli jarðar og fyrsta sendiráð okkar í Afríku. Lokunin kemur í kjölfar ákvörðunar íslenskra stjórnvalda um að ljúka samstarfssamningi um þróunarsamvinnu við stjórnvöld í Mósambík. Formlega lýkur samstarfinu 31. desember næstkomandi. Þetta þýðir lok beins samstarfs, þar sem Ísland stýrir verkefnum og er með puttana í framkvæmd. Hins vegar verður áfram stutt við að minnsta kosti tvö verkefni í landinu sem stofnanir Sameinuðu þjóðanna framkvæma, annars vegar Unicef og hins vegar UN Women.

Ísland hefur haft samfellda viðveru í Mósambík frá 1995, mestmegnis í gegnum starf Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ), en frá 2016 í gegnum utanríkisráðuneytið eftir að starfsemi ÞSSÍ rann inn í ráðuneytið. Er ekki óvarlegt að áætla að einhver hundruð þúsunda manna hafi á einn eða annan hátt notið góðs af íslenskri þróunarsamvinnu í Mósambík. Stærstu verkefnin hafa verið tengd fiskimálum, t.d. var til margra ára unnið að uppbyggingu gæðaeftirlits með sjávarafurðum, með að markmiði að Mósambík gæti flutt þess háttar afurðir inn á markaði Evrópusambandsins. Mikið og fjölbreytt þróunarstarf var unnið í tengslum við fiskveiðar í Cahora Bassa lóninu og hin síðustu ár hefur Ísland átt í samvinnu við Noreg um almennan, og mjög fjölbreyttan, stuðning við fiskimál í Mósambík. Hluti af þeirri samvinnu var uppbygging rannsóknastöðvar í fiskeldi, sem nefnist CEPAQ (Centro de Pesquisa de Aquacultura). Hinn 9. nóvember síðastliðinn var stöðin vígð með pompi og prakt af forseta Mósambíkur, Filipe Nyusi. Er vel við hæfi að ljúka samstarfinu á þann hátt.

Auk fiskimála hefur Ísland stutt við margskonar önnur verkefni í Mósambík. Nefna má verkefni á sviði heilbrigðismála, fullorðinnafræðslu og menntamála almennt. Verkefni á sviði jafnréttismála vógu þungt um langt skeið og undanfarið hefur verið stutt við vatns- og salernismál við sveitaskóla og nærliggjandi samfélög.

Eins og eðlilegt er þykir okkur sem unnið hafa í landinu á vegum Íslands sárt til þess að hugsa að viðveru okkar sé að ljúka. En þó er huggun harmi gegn að í gegnum Unicef verður haldið áfram að vinna að vatns- og salernismálum í skólum og nýhafið er samstarf í landinu við UN Women. Það samstarf snýr að friði og öryggi fyrir konur og styður við framkvæmd ályktunar Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325. Þessi tvö verkefni verða unnin til að minnsta kosti árins 2020. Einnig má nefna að hjá Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna starfa um þessar mundir tveir íslenskir sérfræðingar og annar þeirra verður í Mósambík til 2019.

En þrátt fyrir allt er erfitt að loka sendiráðinu og hætta beinni aðstoð við Mósambík. Ég hugga mig við að hafa þó fengið tækifæri að búa í landinu og kynnast mósambísku fólki og mósambískri menningu. Hér hefur mér liðið vel.
facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105