Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
10. árg. 323. tbl.
12. apríl 2017
Tuttugu milljónir manna svelta:
Neyðarsöfnun UNICEF fyrir vannærð börn í fjórum löndum
Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) á Íslandi hóf á mánudag neyðarsöfnun fyrir vannærð börn í Suður-Súdan, Jemen, Nígeríu og Sómalíu. Nærri 1,4 milljónir barna eru í lífshættu í löndunum fjórum og gætu dáið af völdum alvarlegrar vannæringar. Ástandið nú má að miklu leyti rekja til stríðs og átaka en einnig til mikilla þurrka.

Alls ógnar hungursneyð nú lífi allt að 20 milljóna manna.  Ástandið er það versta frá stofnun Sameinuðu þjóðanna fyrir rúmum 70 árum, segir í frétt frá UNICEF, og raunveruleg hætta er á fjórum hungursneyðum í heiminum á sama tíma. Það hefur aldrei gerst áður frá stofnun SÞ.

UNICEF er á vettvangi í öllum fjórum ríkjunum og heldur úti gríðarlega umfangsmiklum neyðaraðgerðum, bæði með hjálp heimsforeldra og þeirra sem styðja neyðarsöfnun UNICEF.

Yngstu börnin berskjölduðust

"Þegar hafa fjölmargir hér á landi stutt við neyðaraðgerðir UNICEF í Suður-Súdan og það veitir okkur von að finna þann mikla stuðning. Þar sem hungursneyð vofir nú yfir í þremur ríkjum til viðbótar höfum við ákveðið að blása til sérstakrar neyðarsöfnunar til að bregðast við þessum fordæmalausu aðstæðum," segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Barn sem þjáist af alvarlegri bráðavannæringu - hættulegasta formi vannæringar - er níu sinnum líklegra til að deyja af völdum sjúkdóma en önnur börn sem veikjast. Þetta geta til dæmis verið malaría, lungnabólga og niðurgangspestir.

Niðurgangspestir og mislingar voru megindánarorsökin í hörmungunum í Sómalíu fyrir sex árum þar sem börn voru helmingur þeirra sem létust. Það sama á við nú og þá að börn deyja ekki einungis vegna skorts á mat. Þau látast einnig vegna þess að þau drekka mengað vatn sem orsakar niðurgangspestir, hafa ekki aðgang að heilsugæslu og missa af lífsnauðsynlegum bólusetningum. Allt gerir þetta þau útsettari en ella fyrir margvíslegum sjúkdómum.

"UNICEF leggur af þessum sökum þunga áherslu á að veita margþátta neyðarhjálp: Bjarga lífi vannærðra barna með því að veita þeim nauðsynlega meðferð, dreifa hreinu vatni, bólusetja börn, tryggja þeim heilsugæslu og sjá til þess að hreinlætismál séu í lagi," segir Bergsteinn.

Hægt er að styðja neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi með því að senda sms-ið BARN í nr. 1900, gefa með kreditkorti hér og leggja inn á reikning 701-26-102050, kt 481203-2950.

Tvíhliða fundir utanríkisráðherra:
Fjárstuðningur við UNRWA og Líbanonsjóð SÞ

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra átti í síðustu viku tvíhliða fundi með Pierre Krähenbühl, framkvæmdastjóra Flóttamannastofnunar SÞ fyrir Palestínuflóttamenn (UNRWA), og Philippe Lazzarini, yfirmanni mannúðarmála SÞ í Líbanon.

Á fundinum með Krähenbühl lagði Guðlaugur Þór áherslu á mikilvægi stofnunarinnar og tilkynnti um 22 milljón króna framlag Íslands til UNRWA og áframhaldandi stuðning Íslands við hana. Krähenbühl þakkaði fyrir framlagið og stuðninginn sem væri vel metinn. Hann greindi ráðherra jafnframt frá stöðu mála hjá stofnuninni og ferð sinni til Aleppo í síðustu viku. Flóttamannabúðir Palestínumanna, sem hafa staðið í borginni áratugum saman, hafa að hluta verið jafnaðar við jörðu í stríðsrekstrinum. Af 450 þúsund Palestínuflóttamönnum sem bjuggu í Sýrlandi fyrir stríðið þurfa um það bil 95% af þeim nú að reiða sig á stofnunina með nauðþurftir. 

Á fundinum með Lazzarini tilkynnti ráðherra um 22 milljón króna framlag til Líbanonsjóðs SÞ sem er sjóður í umsjón Samræmingarskrifstofu SÞ í mannúðarmálum (OCHA), sem veitir styrki til mannúðarverkefna. Sjóðurinn veitir m.a. styrki til innlendra félagasamtaka sem vinna með flóttamönnum á vettvangi. Þeir ræddu mikilvægi slíkra sjóða fyrir framlagsríkin til að styðja við grasrótina á vettvangi með öruggum og ábyrgðarfullum hætti. Þá ræddu þeir stöðuna í Líbanon en þar er rúmlega ein milljón sýrlenskra flóttamanna, sem eru nú fimmtungur íbúa landsins. Lazzarini ítrekaði þakklæti fyrir stuðning Íslands til Líbanonsjóðsins og mannúðarmála í Líbanon undanfarin ár, sem væri mikils metinn. 

Á myndunum er ráðherra með Pierre Krähenbühl (efri myndin) og Philippe Lazzarini.
Nýjar áherslur í þróunarstefnu Norðmanna:
Tvöföldun framlaga til endurnýjanlegrar orku og aukið samstarf við einkageirann

Børge Brende utanríkisráðherra Noregs.
Ætlunin er að tvöfalda framlög til verkefna á sviði endurnýjanlegrar orku í nýrri þróunaráætlun Norðmanna. Norska ríkisstjórnin vill aukið samstarf við einkageirann, borgarasamtök, fjölþjóða stofnanir og innlend samtök í samstarfslöndum í baráttunni gegn fátækt og neyð. Þetta kom fram í skýrslu sem Børge Brende utanríkisráðherra Noregs gaf Stórþinginu í síðustu viku og fjallar um áherslur norskra stjórnvalda í alþjóðlegri þróunarsamvinnu.

Í stefnu-mörkun Norðmanna eru dregnar fram tengingar milli annarra þátta í stefnu stjórnvalda í utanríkis- og öryggismálum og lögð áhersla á að þróunarmál snúist ekki eingöngu um framlög til fátækra ríkja heldur séu þau ekkert síður viðfangsefni hefðbundins málsvarnarstarfs í samræmi við áherslur Heimsmarkmiðanna.

Gert er ráð fyrir að styrkja mannréttindaþátt stefnunnar í málaflokknum, meðal annars varðandi tjáningarfrelsi, stuðning við trúarlega minnihlutahópa og réttindi kvenna, sérstaklega kyn- og frjósemisréttindi. Ætlunin er líka að auka umtalsvert framlög til Norfund til að styrkja atvinnuskapandi verkefni í einkageira þróunarríkjanna. Áfram er lögð áhersla á heilbrigðismál, menntun, loftslagsmál og að viðhalda regnskógum. Auk þess er gert ráð fyrir að auka framlög til óstöðugra ríkja og til mannúðaraðstoðar.
Atvinnuleysi og eymdarlíf í fátækrahverfum Kampala
Ljósmynd: gunnisal

Hjálparstarf kirkjunnar hefur hafið fjársöfnun fyrir verkefni í þágu barna og ungmenna í Kampala höfuðborg Úganda en þangað liggur þungur straumur ungs fólks í von um betra líf. "Því miður bíður flestra þeirra hins vegar atvinnuleysi og eymdarlíf í fátækrahverfum og mörg ungmenni leiðast út í smáglæpi og vændi til að lifa af," segir í  blaðinu Margt smátt sem Hjálparstarfið gefur út og var dreift með Fréttablaðinu á dögunum.

Kampalaverkefni Hjálparstarfsins er í þremur fátækrahverfum í höfuðborginni og stendur yfir í þrjú ár. Áætlaður heildarkostnaður er um 33 milljónir króna.

Kvikmyndabrot frá heimsókn í fátækrahverfi Kampala síðastliðið haust/ ICEIDA-UTN
Markhópurinn eru 1500 börn og ungmenni á aldrinum 13-24 ára en markmiðið er að unga fólkið öðlist verkkunnáttu sem það geti nýtt til að sjá sér farborða, að það taki þátt í uppbyggilegum tómstundum og námskeiðum sem styrkja sjálfsmyndina og að þau séu upplýst um kynheilbrigði og rétt sinn til heilbrigðisþjónustu.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Lútherska heimssambandið og samtökin UYDEL (Ugandan Youth Development Link) með góðum stuðningi utanríkisráðuneytisins.

UYDEL hefur rúmlega tuttugu ára reynslu af því að vinna með ungu fólki í fátækrahverfum Kampala. Þau reka verkmenntamiðstöðvar þar sem ungmennin  geta valið sér ýmis svið og öðlast nægilega hæfni til að verða gjaldgeng á vinnumarkaði svo sem við hárgreiðslu, matreiðslu, rafvirkjun, saumaskap og sápugerð.

Anna Nabylua félagsráðgjafi er aðstoðarframkvæmdastjóri Uganda Youth Development Link (UYDEL) og stýrir Kampalaverkefni Hjálparstarfsins. Hún hefur áralanga reynslu af starfi með börnum og unglingum sem eru í viðkvæmri stöðu í samfélaginu og útsett fyrir mansali og annarri misnotkun. Anna segir að til þess að ná mestum árangri í starfinu hafi reynslan kennt að best sé að virkja unglingana og efla sjálfsmynd þeirra með því að fá þeim viðráðanleg verkefni sem samt séu krefjandi. Hún leggur ríka áherslu á að unglingarnir læri um rétt sinn til heilbrigðisþjónustu og um kynheilbrigði. HIVsmit eru tíðari í fátækrahverfunum en annars staðar í Kampala og nýsmit eru tíðust meðal vændiskvenna. Anna og annað starfsfólk UYDEL leitast við að koma unglingunum sem hafa lokið námi í iðngrein í starfsnemastöður í fyrirtækjum en þannig á unga fólkið von um betra líf.
Ráðstefna UNFPA og UNICEF um barnahjónabönd og limlestingar á kynfærum stúlkna:
Berjast þarf gegn samþykktum viðhorfum og rótgrónum hefðum  

Frétt NTV í Úganda um ráðstefnuna
Frétt NTV í Úganda um ráðstefnuna
"Ljóst er að það mun taka nokkrar kynslóðir að breyta viðhorfum samfélaga til fullnustu og afnema barnahjónabönd og limlestingar á kynfærum stúlkna, ef marka má umræður á ráðstefnu um þessi mál sem nýlega var haldin í Kampala," segir Sigrún Björg Aðalgeirsdóttir sérfræðingur í sendiráði Íslands í Kampala. Í síðustu viku fór fram árleg ráðstefna Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) og Barnahjálpar Sameinuðu Þjóðanna (UNICEF) um aðgerðir gegn barnahjónaböndum og limlestingu á kynfærum stúlkna. (FGM/C).

Saman leiða þessar tvær stofnanir stærsta alþjóðlega verkefnið sem snýr að afnámi slíkra limlestinga og í ár var ráðstefna þeirra haldin sem hluti af árlegri ráðstefnu stofnanna um baráttuna gegn barnahjónabandi. Það var gert vegna tilkomu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, en undirmarkmið 5.3 segir að allir skaðlegir siðir, eins og barnahjónabönd, snemmbúin og þvinguð hjónabönd og sköddun kynfæra kvenna verði afnumdir.

Á ráðstefnunni var haldinn sameiginlegur fundur aðila sem vinna að báðum málaflokkum og var fulltrúum sendiráðs Íslands í Kampala boðið að sitja þann fund. Þar sátu einnig fulltrúar frá aðalskrifstofum UNICEF og UNFPA í þeim löndum sem verkefnin tvö ná til, en verkefnið gegn limlestingu á kynfærum stúlkna nær til 17 landa og verkefnið gegn barnahjónaböndum nær til 12 landa. Af samstarfslöndum Íslands falla Úganda og Mósambík undir þau lönd sem baráttan gegn barnahjónaböndum nær til, Úganda fellur einnig undir þau lönd sem baráttan gegn limlestingu á kynfærum stúlkna nær til.

Upplýsa og fræða
Að sögn Sigrúnar Bjargar gafst á fundinum tækifæri til að taka saman árangur undanfarinna ára. "Áhersla var lögð á hvað væri sameiginlegt með þessum málaflokkum og hvernig væri hægt að berjast gegn þeim báðum í einu. Ljóst er að báðir þættir eru keyrðir áfram af fátækt og skorti á tækifærum til menntunar meðal annars, en einnig spila samþykkt viðhorf og rótgrónar hefðir samfélaga inn í. Á fundinum var því talað um mikilvægi þess að stuðla að breyttum viðhorfum þeirra samfélaga þar sem barnahjónabönd og limlestingar á kynfærum stúlkna eru hvað algengust og hvaða leiðir væru líklegastar til árangurs. Þar er unnið að heildrænni nálgun á málefninu þar sem ekki einungis er barist fyrir því að löndin setji bann gegn þessum þáttum í lög, heldur er lögð áhersla á að grafa niður að rótinni - fara í samfélögin og upplýsa og fræða um skaðsemi limlestinga á kynfærum stúlkna og barnahjónabanda á ungar stúlkur. Þá var lögð áhersla á aukna félags- og heilbrigðisþjónustu til samfélaga, styrkingu kvenna og menntun stúlkna - það hefur sýnt sig að stúlkur í skóla eru ólíklegri til að giftast og menntaðar mæður eru ólíklegri til að láta skera dætur sínar. Mönnum hefur orðið ágengt en betur má ef duga skal," segir Sigrún Björg Aðalgeirsdóttir í Kampala.

UNICEF vill vernda réttindi barna sem neyðast til að flýja heimili sín vegna loftslagsbreytinga

Þeim börnum fjölgar ört sem neyðast til að yfirgefa heimili sín vegna loftslagsbreytinga. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) hefur með nýrri skýrslu - No Place To Call Home - í fyrsta sinni varpað ljósi á réttarstöðu barna sem þurfa að flýja heimili sín vegna loftslagsbreytinga.

Þar kemur fram að metfjöldi barna er á vergangi í heiminum. Eitt af hverjum 45 börnum hefur verið rifið upp með rótum af heimilum sínum vegna hættulegra aðstæðna. Loftslagsbreytingar koma sífellt oftar við sögu. Öfgar í veðurfari og bráðnun jökla eru dæmi um ástæður þess að fjölskyldur þurfa að flýja heimili. UNICEF minnir á að í öllum hörmungum séu börn sérstaklega berskjölduð.

Í skýrslunni er bent á að þrátt fyrir þá gífurlegu hættu sem börnum stafar af loftslagsbreytingum hafi algerlega verið horft framhjá smáfólkinu í orðræðu, rannsóknum og stefnumörkun um þessi mál. Í skýrslunni eru tillögur um mikilvæg skref sem ríki verða að innleiða í stefnumörkun á þessu sviði þar sem réttindi barna eru höfð í öndvegi.

Vatnsskortur alvarlegur vandi í stórborgum Afríku

Sífellt fleiri íbúar borga í Afríku hafa aðgang að kranavatni en á sama tíma fækkar íbúum borga hlutfallslega sem hafa aðgang að vatni á krana. Skýringin á þessari þversögn er einföld: fjölgun íbúa í borgum er langt umfram getu borgaryfirvalda til að bæta við vatnslögnum og tryggja íbúunum hreint og gott vatn.

Á árunum milli 2000 og 2015 fjölgaði borgarbúum í Afríku um 80%, úr 206 milljónum í 373 milljónir. Íbúum sem áttu þess kost að fá kranavatn í borgum fjölgaði á sama tíma úr 80 milljónum í 124 milljónir. Þrátt fyrir þessa fjölgun varð hlutfallsleg fækkun borgarbúa með aðgang að kranavatni sem sést á því að árið 2000 voru 40% með vatn en aðeins 33% árið 2015.

Samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóðabankans halda vatnsveitur borganna engan veginn í við fólksfjölgunina. Þær hafa takmarkað fjármagn til rekstrar og viðhalds hvað þá að auka við þjónustuna með lagningu vatns til nýrra hverfa. Fram kemur í skýrslu Alþjóðabankans að skortur sé á rannsóknum á þessu sviði.

Rauði krossinn á Íslandi:
Ellefu milljónir til viðbótar í neyðar-aðstoð vegna fæðuskorts í Sómalíu

Pastoralists in Somalia's Drought-stricken Puntland Fight for Survival/ VOA
Pastoralists in Somalia's Drought-stricken Puntland Fight for Survival/ VOA
Rauði krossinn á Íslandi hefur ákveðið að senda um ellefu milljónir króna í neyðaraðstoð til Sómalíu vegna alvarlegs fæðuskorts þar í landi. Langvarandi þurrkar og óreglulegar rigningar hafa haft ófyrirséðar afleiðingar á þessu svæði. 

Rauði krossinn á Íslandi hefur starfrækt verkefni í Sómalíu undanfarin ár, m.a. séð um uppbyggingu heimilis fyrir munaðarlaus börn og starfrækt færanlega heilsugæslu í Sómalílandi.

Um miðjan marsmánuð sendi Rauði krossinn á Íslandi um 16,5 milljónir til Jemen vegna sambærilegs ástands þar.

Enn hefur ekki verið lýst yfir hungursneyð í Sómalíu og standa vonir til þess að hægt verði að afstýra því að svo verði gert ef alþjóðasamfélagið bregst nógu hratt við. Nú þegar hefur verið lýst yfir hungursneyð á ákveðnum svæðum í Suður-Súdan, en það var gert í fyrsta sinn í heiminum í 6 ár nú í febrúar. Hungursneyð er skilgreind samkvæmt alþjóðlegu kerfi, en a.m.k. 20% mann­fjölda á ákveðnu svæði þarf að hafa mjög tak­markaðan aðgang að grunnmat­væl­um, þegar al­var­leg vannær­ing nær til um 30% mannfjölda og fleiri en tveir af hverj­um 10.000 deyja á hverj­um degi.

Rauði krossinn er einnig með neyðarsöfnun í gangi vegna þessa sem almenningur getur stutt við með því að senda SMS í númerið 1900 með orðinu TAKK og fara þá 1900 krónur af símreikningi. Auk þess er hægt að leggja inn á reikning 0342-26-12, kt. 530269-2649.

Alþjóðasamvinna á krossgötum: Hvert stefnir Ísland?

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og Norðurlönd í fókus í samstarfi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála og Félag stjórnmálafræðinga standa fyrir ráðstefnu í Norræna húsinu, miðvikudaginn 19. apríl 2017 frá kl. 9:00 -18:00.

Ráðstefnunni er ætlað að velta upp spurningum tengdum breyttu valdajafnvægi í heiminum og stöðu lítilla ríkja í alþjóðakerfinu í dag. Fjallað verður sérstaklega um nokkra málaflokka sem hafa verið mikið í umræðunni og eiga það sameiginlegt að fela í sér hnattrænar áskoranir sem krefjast aukins alþjóðlegs samstarfs.

Dagskráin er fróðleg og fjölbreytt en sem dæmi má nefna erindi um alþjóðlega og norræna samvinnu, popúlisma og lýðræði, öryggis- og friðarmál, fullveldi og peningalegt sjálfstæði, konur á flótta og loftslagsbreytingar, svo að eitthvað sé nefnt.

Nánari upplýsingar og dagskrá má nálgast á vefsíðu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands  www.ams.hi.is og á vef Norræna hússins. Einnig má nálgast frekari upplýsingar á Facebook síðum skipuleggjenda ráðstefnunnar.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir en vinsamlegast skráið ykkur til þátttöku á vef Alþjóðamálastofnunar.

Malala boðberi friðar hjá Sameinuðu þjóðunum

Malala Yousafzai var á mánudaginn útnefnd af hálfu António Guterres aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna sem boðberi friðar með sérstaka áherslu á menntun stúlkna. Malala er sem kunnugt er yngst allra sem hlotið hafa friðarverðlaun Nóbels en þessi tvítuga pakistanska stúlka hefur verið ötull talsmaður aukinnar menntunar stúlka.

Malala var eins og flestum er í fersku minni skotin í höfuðið haustið 2012 fyrir andóf sitt gegn takmörkunum Talibana á menntun stúlkna. Eftir að Malala var formlega tilnefnd sem boðberi friðar ræddu þau Antóníó Guterres saman í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York um menntun stúlkna að viðstöddum fulltrúum ungmenna víðs vegar að úr heiminum.

Malala og Guterres í aðalstöðvum SÞ á mánudag. Ljósmynd: SÞ


Framlög til þróunarmála aldrei hærri en á síðasta ári

Opinber framlög til þróunarsamvinnu námu á síðasta ári 142,6 milljörðum bandarískra dala og hafa aldrei verið hærri. Milli ára hækkuðu framlög um 8,9%. Fram kemur í frétt OECD, sem birti tölur frá árinu 2016 í gær, að framlög vegna flóttamanna í gistiríkjunum hafi hækkað heildartöluna um 7,1%. Það þýðir að raunhækkun til þróunarmála var engu að síður talsverð.

Framlög til tvíhliða þróunarsamvinnu drógust saman milli ára um 3,9% sem þýðir að fátækustu þjóðirnar í heiminum fengu minna í sinn hlut en árið áður og framlög til Afríkuríkja drógust saman um 0,5%.

Að meðaltali ráðstöfuðu DAC-ríkin, sem eru 29 talsins, 0,32% af vergum þjóðartekjum til þróunarmála.


Sérskólar fyrir óléttar stelpur   
Sérskólar fyrir barnshafandi stúlkur í Síerra Leone hafa verið gagnrýndir af mannréttindasamtökum. Slíkt úrræði hefur verið í gangi að frumkvæði stjórnvalda um tveggja ára skeið en áður höfðu óléttar skólastúlkur setið með jafnöldrum sínum í bekk.

Eftir að skólar opnuðu að nýju þegar ebólufaraldurinn var um garð genginn vorið 2015 fengu sjáanlega ófrískar stúlkur ekki lengur að sækja skóla eins og jafnaldrar þeirra því litið var á þær sem slæma fyrirmynd, að þær kynnu að hafa neikvæð áhrif á "saklausar stelpur" eins og menntmálaráðherrann orðaði það, samkvæmt frétt Al Jazeera.

Þess í stað var komið upp skólaúrræði af hálfu ríkisins með minni skólasókn og minni námskröfum fyrir barnshafandi stúlkur. Mannréttindasamtökin, Amnesty International, gagnrýna þá ráðstöfun og telja að farið sé á svig við mannréttindaákvæði með því að synja ófrískum stelpum um menntun í almennum skólum.

Menntamálaráðuneytið telur hins vegar að úrræðið hafi gefið góða raun. Af 14,500 stúlkum sem hafi sótt slíka skóla hafi 5 þúsund þeirra snúið til baka í almenna skóla eftir barnsburð. Þá segir ráðuneytið að um framfarir sé að ræða því ella hefðu stelpurnar líkast til hrökklast úr námi vegna þeirrar hneisu sem því fylgir að verða barnshafandi.

Áhugavert

5 MILESTONES TO TACKLE CHILD POVERTY/ Endchildpoverty.org
-
Uganda: Stella Nyanzi charged for calling President Museveni a "pair of buttocks"/ AfricanArguments
-
Námskeið: Transforming Nutrition: Ideas, Policies and Outcomes 2017/ IDS
-
U.N. creates striking graphic novel to spark empathy around South Sudan famine/ WFP
-
I act to end FGM/ BuzzNews
-
Can Cameroon Become an Upper-Middle Income Country by 2035?, eftir SOULEYMANE COULIBALY/ Alþjóðabankablogg
-
texti: OECD Global Forum on Development 2017
OECD Global Forum on Development 2017
-
Honey for peace in Darfur/ UNDP
-
African middle class still attracting private education companies - despite slower growth, eftir Kate Douglas/ HowWeMadeItInAfrica
-
Official Development Aid crucial for achieving Sustainable Development/ UNRIC
-
#Passion4Solidarity
#Passion4Solidarity
-
Sult og nød og menneskelig katastrofe i en regn af krudt og kugler. Kan det undgås?, eftir Lars Zbinden Hansen/ GlobalNyt
-
Are girls smarter than boys?, eftir MALEK ABU-JAWDEH/ Alþjóðabankablogg
-
How to win a feminist battle - six activists share their secrets/ TheGuardian
-
Secret aid worker: what I wish I could say to the people back home/ TheGuardian
-
How African feminism changed the world, eftir Aili Mari Tripp/ AfricanArguement
-
Businesses are from Mars, Development from Venus/ WLE
-
A way to reduce poverty that's so simple, it just might work, eftir Asheesh Advani/ WEF
-
What's the Best Strategy for Empathy?/ GreaterGood
-
Marine Conservation 2.0, eftir Steve Rocliffe/ SSIR
-
-
-
How to create more jobs in Africa/ ODI
How to create more jobs in Africa/ ODI
-
-
-
-
-
-
-


UPDATED: Mapped - a world at war/ IRIN
-
Breaking Bread - Coming together for Zero Hunger/ WFP
-
'Learn the lessons of Rwanda,' says UN chief, calling for a future of tolerance, human rights for all/ UNNewsCentre
-
Fler palestinska kvinnor ska få jobb/ OmVärlden
-
MALAWI: Activists Ask Government to Enact New Abortion Law/ MakeEveryWomenCount
-
Here's How Republicans Can Learn to Like Foreign Aid Again/ FP
-
Former Prime Minister of Denmark Says Australia Should Give More Aid/ GlobalCitizen
-
A NEW HOPE: There is still time to reverse some of the worst effects of global warming/ Qz
-
More than half of Iraqis at risk of food insecurity/ SÞ
-
Uganda Welcomes Refugees with 'Progressive' Policies/ VOANews
-
Surviving the Rwandan genocide/ Reuters
-

AFRICAN MIGRANTS SMUGGLED INTO LIBYA SOLD AT 'MODERN-DAY SLAVE MARKETS'/ Newsweek
-
Amnesty International: Death sentences on the rise in Africa/ DW
-
Green Power: Wave of the Future/ IPS
-
Why South Sudan continues to fall out of favour with its international partners/ TheConversation
-
More than 6,000 flee fresh South Sudan violence into Uganda/ UNHCR
-
Världsbanken anklagas ha mörkat vittnesmål om landgrabbing/ OmVärlden
-
CLIMATE CHANGE THREATENS SOME ANIMALS' EXTINCTION/ Newsweek
-
Trump administration 'to sell Nigeria planes' for Boko Haram fight/ BBC
-
PM dedicates £1bn in aid money for Syrian refugees and host countries/ Breska ríkisstjórnin
-
Uganda: Museveni's routes to staying in power beyond 2021/ AfricanArguements
-
Millions of children in Yemen vaccinated against polio through UN-backed campaign/ UNNewsCentre
-
Plastic No More... Also in Kenya/ IPS
-
Rwanda adds to energy mix with first peat-firedpower plant in Africa/ TheConversation
-
Uganda: This plot is not for sale/ GlobalNyt
-
Meningitis outbreak exposes FG's unpreparedness for epidemics/ Guardian
-
Västsahara: Nedskuret bistånd skapar heta känslor/ OmVärlden
-
Fisheries: Unsustainable business/ D+C
-
INTERVIEW-Beyond light, solar startup seeks to plug in rural homes in Africa/ Reuters

Matreiðslubók með breyttum þjóðlegum réttum vegna loftslagsbreytinga
Aðalfundur UN Women

Aðalfundur landsnefndar UN Women verður haldinn mánudaginn 24. apríl klukkan 20.00 í miðstöð Sameinuðu þjóðanna, Laugavegi 176, fimmtu hæð.

Fundurinn er opinn. Félagar UN Women sem hafa greitt félagsgjöld sl. ár eða eru í Systralagi UN Women á Íslandi og hafa greitt mánaðarlega í minnst sex mánuði hafa rétt á að bjóða sig fram til stjórnar og hafa atkvæðisrétt. Framboð til stjórnar þarf að berast þremur dögum fyrir aðalfund á unwomen@unwomen.is

Álfabikarinn nýr - og svolítið skrýtinn - en fellur undir jákvæða þróun

Fulltrúi WoMena á samráðsfundinum. 
Í héraðsþróunarsamstarfi Íslands og Buikwe héraðs er leitast við að innleiða lausnir og nýjungar samhliða hefðbundnum ,,stórum verkþáttum" eins og byggingum, kennaraþjálfun og vatnsmálum.  Eitt þessara verkefna snýr að kynheilbrigði og aðstoð við unglingsstúlkur að stjórna blæðingum, sem er eilíft vandamál hjá fátækum stúlkum.  Félagasamtökin WoMena hafa tekið þátt í undirbúningi verkefnis á þessu sviði með sendiráði Íslands og héraðsskrifstofunni og héldu þau nýlega samráðsfund á vettvangi til að kynna hugmyndina um innleiðingu álfabikarsins (e. menstrual cup).  Þar er miðað við framhaldsskóla héraðsins sem njóta stuðnings íslenska sendiráðsins í Kampala. 

Eins og Heimsljós greindi frá í síðustu viku komst sendiráðið í kynni við WoMena eftir að rannsókn á brottfalli framhaldsnemenda í Buikwe leiddi í ljós að blæðingar höfðu lamandi áhrif á aðsókn stúlknanna í skóla. Eitt af helstu markmiðum WoMena er að gera stúlkum kleift að mæta í skóla allan ársins hring, óháð tíðahring þeirra.

Fundurinn í Buikwe var vel sóttur af um 60 manns. Þar á meðal voru skólastjórar, kennarar, heilbrigðisstarfsmenn, fulltrúar héraðsyfirvalda og trúarleiðtogar. "Eins og við mátti búast mynduðust miklar og áhugaverðar umræður um álfabikarinn og hvort það væri mögulegt og jafnvel viðeigandi að kynna hann fyrir skólastúlkum héraðsins. Flestir voru jákvæðir í garð álfabikarsins og sögðu að stúlkur héraðsins ættu að fá tækifæri til að kynnast bikarnum sjálfar, með hjálp WoMena, og sjá hvort hann hentaði þeim. Þá sögðu fundarmeðlimir að þó að álfabikarinn væri nýr fyrir þeim - jafnvel svolítið skrýtinn - þá félli hann vissulega undir jákvæða þróun. Sögðu fundargestir þá að áður fyrr hefðu konur notað hluti á borð við lauf og pappír til að stjórna blæðingum sínum, og því bæri að taka nýjungum á borð við álfabikarinn fagnandi," segir Sigrún Björg Aðalgeirsdóttir sérfræðingur í sendiráði Íslands sem sótti fundinn.

Sigrún Björg segir að þær áhyggjuraddir sem heyrðust hafi aðallega snúið að hreinlæti og alls ekki af tilefnislausu. "Álfabikarinn samræmist því vel helstu verkefnum sendiráðs Íslands sem ganga út á að bæta hreinlæti, einkum aðgengi að vatni og tryggja viðeigandi salernisaðstæður í samstarfsskólum sínum," segir Sigrún Björg. Hún bætir við að þar að auki hljóti stúlkur og kennarar þeirra skóla sem fá álfabikarinn frá WoMena þjálfun og fræðslu í hreinlæti og viðeigandi notkun á álfabikarnum og það hafi, samkvæmt WoMena, gengið að óskum.

"Eftir þennan jákvæða og áhugaverða fund virðist því ekkert vera því til fyrirstöðu að skoða frekara samstarf WoMena, Buikwe héraðs og sendiráðs Íslands með það að markmiði að tryggja það að stúlkur geti sótt nám óháð blæðingum þeirra," segir hún. 

Nýlunda er að þessi mál eru nú stöðugt til umræðu í fjölmiðlum í Úganda eins og sjá má á meðfylgjandi mynd af nýlegri frétt í úgöndsku dagblaði. Þar segir Janet Muzeveni menntamálaráðherra og forsetafrú að ekki sé unnt að útvega ókeypis dömubindi eins og lofað var í kosningabaráttunni fyrir rúmu ári, engin efni væru á slíku hjá hinu opinbera. "Vænta má að þetta þýði að æ fleiri séu móttækilegir fyrir öðrum lausnum," segir Sigrún Björg.
Útflutningsvara nr. 1

- eftir Þorvarð Atla Þórsson sérfræðing í fastanefnd Íslands í New York 

Jafnrétti kynjanna er eitt áherslumál Íslands sem má finna í öllu starfi okkar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Jafnréttismál eru tekin upp hvort sem er í umræðum um öryggismál, þróunarmál eða hvar sem því er komið við. 

Þegar vinna hófst við ný markmið til að taka við þúsaldarmarkmiðunum var stefna Íslands því skýr, reynsla okkar og annarra hefði sýnt á skýran hátt að jafnrétti væri lykill að árangri á flestum sviðum sem voru til umræðu. Fastanefndin beitti sér því á markvissan hátt í samstarfi við Norðurlöndin, UN Women og önnur líkt þenkjandi ríki með atburðum tengdum jafnréttismálum, bakgrunnsskjölum öðrum ríkjum til upplýsinga, sameiginlegum yfirlýsingum og fleira.

Það var því mikil ánægja eftir margra ára vinnu til stuðnings því að jafnrétti yrði lykilatriði í nýju markmiðunum að ný heimsmarkmið voru samþykkt haustið 2015. Ólíkt þúsaldarmarkmiðunum þá er jafnréttið bæði með sitt eigið markmið og einnig þverlægt áherslumál í gegnum öll markmiðin. Var Íslandi þakkað sérstaklega af UN Women og mannfjöldasjóði SÞ (UNFPA) fyrir þrotlausa vinnu til stuðnings jafnrétti og sérstaklega áherslu okkar á kyn- og frjósemisheilbrigði og réttindi. Mikilvægi orðsporðs Íslands og sú reynsla sem við búum að skiptu hér höfuðmáli.

Einn sá atburður sem Ísland skipulagði til að hafa áhrif á umræðuna var rakarastofuráðstefnan (Barbershop). Þrátt fyrir að meginmarkmið ráðstefnunnar hafi verið að koma af stað umræðu um hlutverk karla í jafnréttisumræðunni þá hafði það einnig mjög jákvæð áhrif að þar komu saman rúmlega 100 sendiherrar víðs vegar að og ræddu opinskátt um mikilvægi jafnréttismála, aðeins örfáum mánuðum fyrir samþykkt nýrra markmiða. 

Rakarastofuráðstefnur hafa nú verið haldnar víðs vegar um heiminn og hefur verið einstaklega vel tekið af öllum sem hafa komið að eða tekið þátt í ráðstefnunum. Sú nálgun sem hugmyndin byggir á, að hvetja karla til samtals við aðra karla á jákvæðan hátt, passar einnig vel inn í framlag okkar til HeforShe átaksins.

Hluti af þessu framlagi okkar til HeforShe var að útbúa svokallaða verkfærakistu í samstarfi við landsnefnd UN Women á Íslandi til að leyfa öðrum að nota þau tól sem við og aðrir höfðu þróað til að skapa það umhverfi sem hvetur til umræðu á milli karla um jafnréttismál. Fyrir áhugasama þá má finna verkfærakistuna hér. 

Var hinni nýju verkfærakistu hleypt af stokkunum á alþjóðadegi 8. mars síðastliðinn af forsætisráðherra fyrir fullum sal fólks í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna hér í New York. Viku síðar á fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna kynnti velferðarráðherra hina nýju verkfærakistu, einnig við gríðarlega góðar undirtektir. Færri komust að en vildu og 600 manns höfðu horft á vefsendingu frá atburðinum örfáum tímum síðar. 

Líkt og í starfi okkar fyrir jafnrétti í hinum nýju markmiðum þá skipti orðspor og þekking Íslands gríðarlega miklu máli við þróun verkfærakistunnar og áhuga annarra á að byggja á okkar grunni. 

Er það ekki síst þar sem samstarfaðilar sjá það í öllu starfi okkar, hvort sem það er sú vinna sem ég hef minnst á hér á alþjóðavettvangi, stuðningur Íslands við stofnanir líkt og UN Women, mannfjöldasjóðinn (UNFPA), starf jafnréttisskóla SÞ á Íslandi og tvíhliða aðgerðir gegn t.d. mæðradauða á Monkey Bay svæðinu í Malaví og Mangochi héraðinu öllu, að Ísland er að meina það sem það segir þegar kemur að jafnréttismálum. 

Má því segja að þegar kemur að Íslandi og jafnréttismálum þá velti lítil þúfa þungu hlassi.
facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105