Heimsljós
veftímarit um þróunar- og mannúðarmál
10. árg. 340. tbl.
1. nóvember 2017
Alvarlegur skortur á fagstéttum vegna fólksfjölgunar:
Börn fædd í Afríku helmingur allra barna í heiminum í lok aldar?

Hvergi í heiminum eru börn hlutfallslega jafn mörg og í Afríkuríkjum. Þar eru börn 47% allra íbúa. Fjölgun barna í álfunni hefur verið gífurleg á síðustu áratugum. Árið 1950 voru börn 110 milljónir í þessum heimshluta eða rétt ríflega 10% af öllum börnum i heiminum. Nú eru þau fimmfalt fleiri og samkvæmt nýjustu tölum eru börn í Afríku alls 580 milljónir talsins, fjórum sinnum fleiri en öll börn í Evrópu - og 25% allra barna í heiminum.

Frá þessu greinir í nýrri skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna - Generation 2030, Africa 2.0. Í skýrslunni segir að á árabilinu frá 2016 til 2030 sé reiknað með að börnum fjölgi um 170 milljónir og íbúafjöldi álfunnar verði 750 milljónir. Þegar horft er lengra inn í framtíðina blasir við að árið 2055 verði Afríka heimkynni eins milljarðs barna, eða 40% allra barna í heiminum. Og þegar reiknað er enn lengra inn í framtíðina er líkum leitt að því að helmingur allra barna verði í lok aldar afrísk.

"Mikil fjölgun barna í Afríku endurspeglar íbúafjölgun álfunnar sem kemur til með að tvöfaldast frá því núna og fram á miðja öldina. Á þessu tímabili fjölgar íbúum Afríku um 1,3 milljarð og íbúafjöldinn verður kominn í 2,5 milljarða árið 2050," segir í skýrslunni en tölurnar eru byggðar á reiknilíkönum um frjósemi í álfunni frá UN Population Division. Þar er tekið mið af horfum á minnkandi frjósemi í Afríku á næstu árum og spám um frjósemi í öðrum heimshlutum.

Skortir ellefu milljónir lækna, hjúkrunarfólks og kennara

Afríkuþjóðir þurfa vegna fjölgunar barna ellefu milljónir nýrra lækna, hjúkrunarfólks og kennara til að afstýra "félagslegum  og efnhagslegum hörmungum" sem gætu leitt til flóðbylgju farandfólks, að því er fram kemur í skýrslunni.

Mikill munur á velferð kvenna í heiminum:
Íslendingar í efsta sæti nýrrar vísitölu um konur, frið og öryggi

Ný alþjóðleg vísitala um konur, frið og öryggi (WPS) sýnir mikinn svæðisbundinn og alþjóðlegan mismun á velferð kvenna í heiminum en jafnframt víðtækan skort á kyngreinanlegum gögnum um lykilþætti. Samkvæmt vísitölunni eru Íslendingar í efsta sæti listans, Norðmenn og Svisslendingar sjónarmun á eftir. Í neðstu sætunum eru Sýrland, Afganistan og Jemen og þar búa konur við minnst öryggi, bæði innan og utan heimilis.

Nýja vísitalan er gefin út af hálfu Sameinuðu þjóðanna en þróuð af Georgetown Institute for Women, Peace and Security (GIWPS) og Friðarrannsóknarstofnuninni í Osló (PRIO).

WPS vísitalan mælir með víðtækari hætti en áður hefur verið gert velferð kvenna með áherslu á frið og öryggi. Undirliggjandi gögn ná til 153 ríkja og 98% jarðarbúa. Á sérstökum vef um nýju vísitöluna má sjá nákvæmar upplýsingar um hvert og eitt land.

Milljónir á barmi hungursneyðar vegna skálmaldar í Kongó:
Allt að 250 þúsund börn gætu dáið úr sulti á næstu mánuðum, segir WFP
Talið er að 3,2 milljónir íbúa Kasai héraðsins í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó (DRC) séu á barmi hungursneyðar og þurfi á brýnni aðstoð að halda. Þetta kemur fram í frétt frá Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna í framhaldi af fjögurra daga heimsókn David Beasley framkvæmdastjóra stofnunarinnar til þessa stríðshrjáða héraðs.

"Allt að 250 þúsund börn gætu orðið hungurmorða í Kasai á næstu mánuðum berist þeim engin næringarrík fæða innan tíðar," segir David Beasley í frétt frá WFP. "Við verðum að ná til þessara barna og við þurfum fjármagn - strax," bætti hann við.

Langvinn vannæring hefur verið í Kasai héraði um árabil en ástandið versnaði mjög á síðasta ári þegar skálmöld hófst milli kynþátta með morðum, eyðileggingu margra þorpa og árásum á sjúkrahús og skóla. Að mati WFP eru 40% vannærðra í landinu í þessu eina héraði.

Unnið hefur verið að skipulagningu neyðaraðstoðar á svæðinu af hálfu WFP frá því í ágústmánuði en stofnunin væntir þess að ná til hálfrar milljóna íbúa í héraðinu fyrir miðjan desembermánuð - og enn fleiri í upphafi næsta árs. Tugir starfsmanna hafa verið ráðnir til verkefnisins, bætt hefur verið við 80 stórum flutningabílum til að flytja matvæli til afskekktra svæða og aukið hefur verið við matvælasendingar með flugi en WFP rekur svokallaða UN Humanitarian Air Service til að fljúga með vistir og fólk á neyðarsvæði.

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna vekur athygli á því í fréttinni að neyðaraðstoðin er veitt með lánsfé því alþjóðasamfélagið hafi til þessa aðeins veitt til verkefnisins sem nemur einu prósenti af þeim 135 milljónum bandarískra dala sem þörf er á samkvæmt mati stofnunarinnar. 

Fréttaskýringarmyndband WFP
Hægfara hörmungum lýst í nýrri skýrslu Alþjóðabankans: 
Djúpstæð, langvarandi og lamandi áhrif þurrka á samfélög og atvinnulíf

Hver eru áhrif þurrka og flóða á samfélög, fjölskyldur og fyrirtæki? Áhrifin eru alvarlegri og flóknari en áður hefur verið vitneskja um, segir í nýrri skýrslu Alþjóðabankans - 'Uncharted Waters - The New Economics of Water Scarcity and Variability'.

Í skýrslunni segir að ný gögn sýni hvernig sífellt óreglulegri úrkoma, lélegar vatnsveitur og langvarandi skortur á vatni geti haft alvarleg áhrif á líf fólks, skaðað býli og skóga og haft vond áhrif á fyrirtæki og borgir. Þar segir ennfremur að síendurteknir þurrkar víðs vegar um heiminn hafi gífurlegar og oft á tíðum ósýnilegar afleiðingar, meðal annars hafi þurrkar eyðilagt landbúnaðarframleiðslu sem hefði ella dugað til að fæða 81 milljón manna á hverjum degi í heilt ár. Einnig sé hætta á því að þurrkar leiði til þess að kynslóðir barna festist í viðjum fátæktar.

Niðurstaða skýrsluhöfunda er sú að þurrkar hafi djúpstæðari, langvarandi og lamandi afleiðingar, meiri en áður hafi verið talið.

"Þessi áhrif sýna að það er sífellt mikilvægara að meðhöndla vatn eins og þá dýrmætu viðkvæmu auðlind sem hún er," segir Guangzhe Chen hjá Alþjóðabankanum. "Við verðum að skilja vatnsskort betur en gert er og horfast í augu við að hann verður stöðugt alvarlegri vegna mannfjölgunar og loftslagsbreytinga."

Áhrif þurrka á fjölskyldur geta verið svo langvinn að margar kynslóðir verði fyrir skakkaföllum, segir í skýrslunni. Dæmi eru tekin af sveitafólki í Afríkuríkjum þar sem t.d. kona fædd á þurrkatímabili ber þess merki alla ævi, vex úr grasi vannærð og veikluleg með vaxtarhömlun sem nær bæði til líkamslegs og andlegs þroska. Fram kemur í skýrslunni að ný gögn sýni að konur fæddar á þurrkatímum fái jafnframt minni menntun og minni tekjur en aðrar konur, þær eignist hins vegar fleiri börn og verði frekar fyrir heimilisofbeldi. Þjáningar þeirra berast síðan oft til næstu kynslóðar sem eignast að líkindum lasleg börn með vaxtarhömlun - og þannig sé viðhaldið vítahring fátæktar.

Í skýrslu Alþjóðabankans koma fram tillögur um það hvernig takast á við þessar brýnu áskoranir og eins er kallað eftir nýrri stefnumörkun, nýsköpun og samstarfi - og ekki síst öryggisneti fyrir fátækar fjölskyldur sem verða fyrir tjóni, hvort heldur er vegna þurrka eða flóða.

Rauði kross Íslands með neyðarsöfnun vegna Róhingja:
Stjórnvöld veita 15 milljónum króna til Róhingja í flóttamannabúðum  Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur veitt 15 milljónum króna til aðstoðar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna við Róhingja múslima, sem búa við afar erfiðar aðstæður í flóttamannabúðum í Bangladess. Tilkynnt var um framlögin á ráðstefnu sem haldin var í síðustu viku í Genf á vegum Samhæfingarskrifstofu aðgerða SÞ í mannúðarmálum, Flóttamannastofnunarinnar og Alþjóða fólksflutningastofnunarinnar þar sem óskað var eftir stuðningi ríkja við Róhingja. Þá hefur Rauði krossinn á Íslandi ákveðið að hefja neyðarsöfnun fyrir Róhingja frá Mjanmar í flóttamannabúðum.

Aðbúnaður flóttafólksins í Bangladess er mjög slæmur og mikill skortur á allri mannúðaraðstoð, s.s. skýlum, matvælaaðstoð, hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu. Unnið er að því í samstarfi við stjórnvöld í Bangladess að koma upp flóttamannabúðum á nýju landsvæði sem getur tekið á móti vaxandi fjölda flóttafólks og þar sem aðgengi að lífsnauðsynlegri aðstoð verður í boði. 

Róhingja múslimar hafa sætt ofsóknum frá því Mjanmar öðlaðist sjálfstæði árið 1948. Í ágúst síðastliðnum brutust út átök í Rakhine-héraði þar sem flestir þeirra hafa verið búsettir og hefur um hálf milljón Róhingja flúið yfir til Bangladess undanfarna tvo mánuði. Mjög stór hluti flóttafólksins eru börn, eða um 250 þúsund. Fyrir í flóttamannabúðunum í Bangladess eru um 300 þúsund Róhingjar sem komu þangað í kjölfar átaka á tíunda áratugnum.


Neyðarsöfnun Rauða krossins
Rauði krossinn á Íslandi hefur ákveðið að fara af stað með neyðarsöfnun fyrir  Róhingja, flóttafólk frá Mjanmar, sem farið hefur yfir landamærin til Bangladess. Yfir hálf milljón einstaklinga hafa þurft að flýja blóðug átök.
 
Flóttafólkið þarf að ferðast nokkur hundruð kílómetra til þess að komast yfir landamærin, langflestir fótgangandi, oft og tíðum berfætt, með aleiguna og börn meðferðis.

Lilja Óskarsdóttir sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi sem verið hefur á svæðinu sl. mánuð lýsir aðstæðum svo:

"Í dag horfði ég á endalausa röð af uppgefnu fólki sem gekk hægum skrefum framhjá. Það var mikið af börnum, þeir fullorðnu voru með aleiguna á höfðinu eða hangandi á stöng sem lá á öxlunum. Konur báru yngstu börnin. Flestir gengu berfættir. Ég táraðist þegar ég horfði á röðina líða rólega hjá, fólk sem ekkert á og hvergi á heima. Í hvíldarbúðunum var hlúð að fólkinu, sumir voru skinnlausir á fótunum með flakandi sár eftir langa göngu. Allir þjáðir af hungri og vökvaskorti."
 
Alls 8 sendifulltrúar frá Rauða krossinum á Íslandi hafa verið að störfum á vettvangi og útlit er fyrir að fleiri fari út til aðstoðar. Tjaldsjúkrahúsi hefur verið komið upp þar sem heilbrigðisaðstoð til flóttafólks er veitt, auk matarúthlutunar og aðstoðar.
 
Hægt er að leggja sö fnuninni lið með eftirfarandi hætti:
  • Senda sms-ið TAKK í 1900 og styrkt söfnunina um 1900 kr.
  • Senda sms-ið HJALP í 1900 og styrkt söfnunin um 2900 kr.
  • Leggja inn á söfnunarreikning Rauða krossins 0342-26-12, kt. 530269-2649.
  • Fara inn á heimasíðuna, raudikrossinn.is
  • Hringja í síma - Söfnunarsímar 904 1500 (gefa 1500 kr.), 904 2500 (gefa 2500 kr.) og 904 5500 (gefa 5500 kr).  
  • Nota Kass appið frá Íslandsbanka og nota KassTag-ið takk@redcross
Landsnefndafundur UN Women haldinn á Íslandi

Á dögunum var haldinn landsnefndafundur UN Women hér á landi. Fulltrúar fimmtán landsnefnda um víða veröld ásamt starfshópi höfuðstöðva UN Women frá New York áttu fundi á Suðurlandi í þrjá daga. Farið var yfir aðgerðaráætlanir og stefnumótun í starfi landsnefndanna í starfi þeirra í þágu kvenna og kynjajafnréttis um heim allan.

Af því tilefni tóku Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Eliza Reid forsetafrú á móti fulltrúum UN Women og forsetinn ávarpaði hópinn með hvatningarræðu í tilefni Kvennafrídagsins, sagði frá tímamótum í jafnréttisbaráttunni og minntist þess sérstaklega þegar frú Vigdís Finnbogadóttir var kosin forseti og þar með fyrsti þjóðkjörni kvenleiðtogi heims.

Þess má geta að Landsnefnd UN Women á Íslandi legg­ur stofnun UN Women til hæsta fjár­fram­lag allra lands­nefnda, óháð höfðatölu.
Óskað eftir styrkumsóknum frá borgarasamtökum vegna mannúðarverkefna

Utanríkisráðuneytið óskar eftir styrkumsóknum frá íslenskum borgarasamtökum vegna mannúðarverkefna. Umsóknir skal senda á netfangið borgarasamtok.styrkir@mfa.is fyrir kl. 23:59 miðvikudaginn 29. nóvember næstkomandi.

Ákveðið hefur verið að veita allt að 100 milljónum króna til mannúðarverkefna borgarasamtaka sem bregðast við neyð fólks vegna ástandsins í Sýrlandi.

Við þessa styrkúthlutun verður farið eftir verklagsreglum frá 2015. Í reglunum er að finna vinnulag og önnur viðmið sem notuð eru við mat á umsóknum auk skilyrða sem borgarasamtök verða að uppfylla til að geta sótt um styrki.

Horft er til gæða og væntanlegs árangurs verkefna. Sérstök athygli er vakin á því að búist er við að verkefnin svari alþjóðlegum neyðarköllum (e. appeal), s.s. frá samræmingarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna vegna mannúðarmála ( UNOCHA  / ReliefWeb ) og Alþjóðaráði Rauða krossins og Rauða hálfmánans ( ICRC). Einnig er mikilvægt að inngrip og framkvæmd verkefna íslenskra borgarasamtaka sé samhæft aðgerðum annarra á vettvangi. Litið er á skilvirkni og kröfur gerðar um vönduð og fagleg vinnubrögð, sem eru lykilatriði við ákvarðanatöku um framlög. Við mat á umsóknum verður m.a. stuðst við viðmið SPHERE handbókarinnar til að tryggja lágmarksaðstoð við haghafa.

Verklagsreglur utanríkisráðuneytisins byggjast m.a. á alþjóðlegri stefnu og starfsaðferðum við styrkveitingar úr opinberum sjóðum og stefnumiðum

Einungis verður tekið við umsóknum sem skilað er inn á þar til gerðum eyðublöðum sem finna má á vef alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands, en þar má einnig finna nánari upplýsingar um verklagsreglur, sem og aðrar hagnýtar upplýsingar. 

Mat á árangri verkefna SOS Barnaþorpanna á Íslandi

Systurnar Hannah og Elizabeth. Ljósmynd:SOS
"SOS Barnaþorpin gera sér grein fyrir mikilvægi þess að sjá árangur," segir í frétt á vef SOS Barnaþorpa. "Ekki er nóg að einungis starfsfólk og skjólstæðingar sjái hann heldur er krafa um að töluleg gögn séu til og að þau gögn séu aðgengileg almenningi. Til að mæta þessum kröfum létu SOS Barnaþorpin meta árangur verkefna á nokkrum stöðum; Hawassa í Eþíópíu, Mbabane í Svasílandi, Abobo-Gare á Fílabeinsströndinni, Dakar í Senegal, Kara í Tógó, Surkhet í Nepal og Zanzibar í Tansaníu. Óháðir aðilar voru fengnir í verkið en starfsfólk SOS var þeim innan handar," segir í fréttinni.

Þar kemur fram að bæði hafi verið rætt við börn sem höfðu verið skjólstæðingar Fjölskyldueflingar og uppkomin börn sem höfðu fengið ný heimili í SOS Barnaþorpum. "Að jafnaði voru fyrrum SOS börnin eldri. Í báðum tilvikum voru átta þættir metnir; umönnun, lífsviðurværi, fæðuöryggi, húsaskjól, menntun, vernd, líkamleg heilsa og félagslegir þættir. Skor þáttanna var ákvarðað bæði eftir því sem skjólstæðingar sögðu en einnig því sem matsmenn sáu og heyrðu."

Síðan segir orðrétt:

"Niðurstöður sýndu að alls voru 79% fyrrverandi skjólstæðinga Fjölskyldueflingar með mjög gott skor í að minnsta kosti sex af þessum átta þáttum. 84% fyrrverandi SOS barna voru þá með mjög gott skor í að minnsta kosti sex þáttum. Þeir þættir sem komu best út hjá báðum hópum voru líkamleg heilsa og félagslegir þættir en lífsviðurværi var sá þáttur sem kom síst út hjá báðum hópum. Þá var öruggt húsaskjól sá þáttur sem fyrrum skjólstæðingar Fjölskyldueflingar skoruðu lægst í en 37% svarenda töldu sig ekki búa við góð húsakynni.

Ekki er mikill munur á milli kynja en þó skoruðu karlar hærri í báðum hópum. Af skjólstæðingum Fjölskyldueflingar voru 80% karla sem skoruðu hátt í að minnsta kosti sex þáttum og 78% kvenna. Aðeins meiri munur var hjá fyrrum SOS börnum þar sem 87% karla skoruðu hátt í að minnsta kosti sex þáttum en 80% kvenna. Að jafnaði fannst konum þær standa verr þegar kom að atvinnu og tekjum.

Þessar niðurstöður sýna að mikill meirihluti skjólstæðinga SOS Barnaþorpanna er á góðum stað og líður almennt séð vel. Af niðurstöðunum má því ætla að árangur verkefna SOS í þessum löndum sé afar góður."
Iceland Airwaves og Sameinuðu þjóðirnar  taka höndum saman

Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves og Sameinuðu þjóðirnar hafa tekið höndum saman til stuðnings átaki í þágu farand- og flóttafólks og gegn útlendingahatri og mismunun. Átakið nefnist Saman eða Together og var ýtt úr vör af aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal Íslandi, á sérstökum leiðtogafundi samtakanna í september 2016.

"Það er okkur hjá Iceland Airwaves mikil ánægja að gerast aðilar að þessu átaki. Okkur er málið skylt enda eru margir þeirra listamanna sem koma fram á hátíðinni úr hópi þessa fólks," segir Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Iceland Airwaves. 

Tilgangur Saman er að efla virðingu, öryggi og reisn flóttamanna og farandfólks. Undanfarin tvö ár hafa aðildarríki, einkageirinn, borgaralegt samfélag og einstaklingar fylkt liði undir merki átaksins í því skyni að breyta neikvæðri umræðu um fólksflutninga og efla félagslega samheldni á milli gistiríkja og flóttamanna og farandfólks.

Iceland Airwaves hátíðin hefst í dag, 1. nóvember og stendur til 5. nóvember. Ein helsta stjarna hátíðarinnar Lido Pimienta er fædd í Kólombíu og á rætur að rekja bæði til afrískra Kólombíumanna og Indíana, en hún býr í Kanada. Breski söngvarinn Micahel Kiwanyuka er Úgandamaður að uppruna en foreldrar hans flúðu ógnarstjórn einræðisherrans Idi Amin til Bretlands. Landi hans, söngkonan Nilüfer Yanya er svo af tyrknesku bergi brotin og bandaríska listakonan Káryyn er af sýrlensk-armenskum uppruna.

"Við Íslendingar þekkjum vel jákvætt framlag flótta- og farandfólks á íslenskt samfélag og ekki síst íslenska tónlist og menningu," segir Árni Snævarr, upplýsingafulltrúi Sameinuðu þjóðanna. "Það nægir að nefna  allt það hæfileikafólk sem flúði til Íslands fyrir síðari heimsstyrjöldina, að ekki sé minnst á Vladimir Azhkenazy." 
 
"Fólk á faraldsfæti hefur líka sest hér að og auðgað menningu okkar. Það væri að æra óstöðugan að nefna alla. Þeir bræður Tolli og Bubbi Morthens eru þannig danskir í móðurættina, og nær okkur í tíma eru hinir hálf-angólsku  Stefánssynir í  Retro Stefson, auk þess sem John Grant heiðrar okkur með búsetu sinni.  Og í myndlistinni skulum við ekki gleyma Svisslendingnum Dieter Roth, Barböru Árnason hinni bresku og Katalónanum Baltasar Samper sem hefur átt hér glæstan listaferil sem og ættbogi hans allur í myndlist, kvikmyndagerð og leikhúsi."


Herferðin #CleanSeas

Að óbreyttu verður meira plast en fiskar í sjónum eftir þrjátíu ár, að mati Sameinuðu þjóðanna. Þrjátíu strandríki hafa nú tekið höndum saman í baráttu gegn plastmengun í höfunum og nota myllumerkið #CleanSeas. Þau leggja áherslu á tvennt: bann við einnota plasti og bann við að fleygja plasti í sjóinn.

Í frétt Om Världen í Svíþjóð kemur fram að á hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna síðastliðið vor hafi komið fram að óbreytt plastnotkun og ofveiði myndu leiða til þess að árið 2050 yrði meira plast í sjónum en fiskar. Frá því ráðstefnan var haldin hafa þrjátíu strandríki bundist samtökum um herferðina #CleanSeas sem á að fanga athygli allrar heimsbyggðarinnar


Vefur herferðarinnar

Starfsmenn GDC í Kenía í starfsþjálfun á Íslandi
Nemandi við borholumælingar við holu HS-51 að Minna Mosfelli í Mosfellsdal. Ljósmynd: BS

Í nýliðnum mánuði voru staddir á Íslandi nítján starfsmenn frá Geothermal Development Company í Kenía. Þeir tóku þátt í starfsþjálfun í tengslum við samstarfsverkefni Íslands og Kenía í jarðhitaþróun. 

Starfsmennirnir hlutu þjálfun á sérfræðisviðum sínum hjá ólíkum íslenskum fyrirtækjum og stofnunum sem tóku þátt í verkefninu. Þar má nefna ÍSOR, Verkís, Mannvit, Vatnaskil, Matís og Háskóla Íslands. Þjálfunarverkefnin sem unnið var að voru m.a. innleiðing gæðastaðla á rannsóknarstofum, hönnun og rekstur gufuveitna, dreifilíkön fyrir loftmengun og borholumælingar. Verkefni voru sértæk fyrir hvert teymi sérfræðinga og miðuðust við vandamál og verkefni sem þau fást við í störfum sínum í Kenía með það að markmiði að þessu þjálfun nýtist beint við úrlausn og frekari framgang í þróun jarðhita í landinu. 

Hér er um að ræða áhugaverða samstarfstilraun á sviði jarðhitaþjálfunar og töldu hlutaðeigandi að almennt hefði tekist vel til.

Áhugavert

-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-

-
-

Málstofa um stíflur og þróun á Nílarsvæðinu

Á morgun, fimmtudaginn 2. nóvember, standa Norræna Afríkustofnunin (Nordic Africa Institute) og Háskóli Íslands fyrir málþingi um stíflur og þróun í þeim löndum sem liggja að Níl, sem löngum hefur verið talin lengsta á heims. Málstofan gengur undir nafninu: Dams, decisions, discourses and developments in Nile Basin Countries og hefst í Norræna húsinu klukkan 9. Mæting á málþingið er gjaldfrjáls og öllum opin. 

Stíflur og áveitukerfi hafa á síðustu misserum hlotið aukinn pólitískan forgang í þróunarmálum í mörgum löndum Afríku. Fjölmargar ástæður eru fyrir þessu. Afrískar þjóðir hafa verið í vandræðum við að 1) sjá þegnum sínum fyrir nægu magni heilsusamlegrar og næringarríkrar fæðu, og 2) útvega orku til að svara kalli aukinnar iðnvæðingar og hraðrar borgvæðingar innan álfunnar. Þar að auki kallar loftlagsbreytingar á breytingar landbúnaðkerfa. Með tilliti til þessa hafa áherslur á grænar umhverfisvænar lausnir með áherslu á viðnám við umhverfisbreytingum verið haldið á lofti sem helsta stefnumáli í þessum málum. Þar af leiðandi hafa afrískar þjóðir stóraukið fjárfestingar í vatns innviðum með það að markmiði að styrkja hagkerfi sín. Stórar og fjölnýtanlegar stíflur og áveitukerfi eru því á teikniborðinu og í byggingu í álfunni. 

Markmið málstofunnar er að 1) dýpka skilning á hlutverki stíflna í þróunaráætlunum afrískra ríkja og 2) taka fyrir helstu þekkingargloppur á þessu sviði og fjalla um af hverju sumar virkjanaáætlanir eru framkvæmdar og aðrar ekki, og rökin sem notuð eru í ákvörðunartökuferlum þegar valið er að virkja orku úr fallvatni, byggja áveitukerfi og fjölnota stíflur. Málstofan leiðir saman rannsakendur sem skoða stíflur út frá fræðilegu sjónarhorni og frá mismunandi löndum í Nílardalnum, sem eiga það sameiginlegt að hafa mikla reynslu af stórtækri stíflugerð og viðamiklum áveitukerfum.

Dagskrá:

09.00-0930: Welcome and opening

Opening welcome by Ambassador, Mrs. Sigríður Snævarr

Opening remarks by Iina Soiri, director of the Nordic Africa Institute

Introduction by Kjell Havnevik, Terje Oestigaard, Atakilte Beyene and Helga Ögmundardóttir

09.30-10.00: What are rivers for? Some theoretical issues of building dams and nations - Dr. Helga Ögmundardóttir

10.00-10.30:The Old Aswan Dam in Egypt - A useful pyramid? Imperialists and archaeologists, cotton and complaints - Dr. Terje Oestigaard

10.30-11.00:Coffee *

11.00-11.30:Storing Nile waters upstream: the hydropolitical implications of dam building in Sudanand Ethiopia - Dr. Ana Cascão

11.30-12.00:Large-scale irrigation dams and collective management: the case of Koga Damand Irrigation scheme, Ethiopia - Dr. Atakilte Beyene

12.00-13.30:Lunch

Venue Part 2: Conference hall at the National museum (Þjóðminjasafnið)

13.30-14.00:A billion dollar ritual? Diviners, disputes and spirit appeasement ceremonies behind the Bujagali Dam, Uganda - Dr. Terje Oestigaard

14.00-14.30: The Stiegler's Gorge Dam in Tanzania - the dam that never was built - Prof. Kjell Havnevik

14.30-15.00:Coffee

15.00-16.00: Round table discussion - Dr. Pétur Skúlason Waldorff, Dr. Jón Geir Pétursson, Dr. Sanna Ojalammi and Dr. ShilpaAsokan/

16.00-16.30: Summary and conclusions - Kjell Havnevik, Terje Oestigaard, Atakilte Beyene and Helga ÖgmundardóttirFrumkvöðlaþing í Barein
Ljósmynd frá Barein:  ITU/I. Wood

Þessa dagana stendur yfir í Barein á Persaflóa ráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna, samtaka frumkvöðla og ríkisstjórnar Barein, um Heimsmarkmiðin með áherslu á frumkvöðla og nýsköpun. Ráðstefnuna, sem hófst í gærmorgun, sækja rúmlega eitt þúsund fulltrúar viðskiptalífsins, ríkisstjórna og fræðafólks. Ráðstefnan ber yfirskriftina World Entrepreneurs Invest Forum.

"Eftir því sem heimurinn verður samtvinnaðri getur ekkert eitt land eða einn heimshluti brugðist við áskorunum um þróun upp á eigin spýtur," segir Miroslav Lajčák forseti Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna en hann situr ráðstefnuna í Barein. "Þessi vettvangur gefur okkur einstakt tækifæri til að efla frumkvöðla og nýsköpun sem hvoru tveggja getur stuðlað að því að við náum Heimsmarkmiðunum," er haft eftir honum í frétt á fréttaveitu Sameinuðu þjóðanna.

Ráðstefnunni lýkur á morgun.DAC HIGH LEVEL COMMUNIQUÉ: 31 OCTOBER 2017
-
Stor splittring inför ödesmöte för biståndet/ OmVärlden
-
Syria war: Aid reaches starving Eastern Ghouta civilians/ BBC
-
Milljónir í hættu vegna loftslagsbreytinga/ RÚV
-
Security Council debate on 'women, peace and security' spotlights prevention and gender equality links/ UNNewsCentre
-
Pastoralism and its future/ IRIN
-
Ugandan lawmakers are being "bribed" to extend president Museveni's rule/ Qz
-
How Europe exported its refugee crisis to north Africa/ TheGuardian
-
No Foreign Office takeover of international aid budget, says Priti Patel/ TheGuardian
-
IMF says rising debt, political risk dim sub-Saharan Africa's economic outlook/ Reuters
-
Guide: Här är länderna som får mest bistånd/ Sydsvenskan
-
UN Women convenes Champions group to support Women, Peace and Security agenda/ UNWomen
-Africa trip illustrates Haley's trusted, unusually direct relationship with Trump/ WashingtonPost
-
Rohingya girls under 10 raped while fleeing Myanmar, charity says/ TheGuardian
-
Berlin security staff pushed young refugees into prostitution/ DW
-
U.N. Ambassador Nikki Haley Was Evacuated From a South Sudan Displacement Camp/ TIME
-
Sea levels to rise 1.3m unless coal power ends by 2050, report says/ TheGuardian
-
Time Running Out for Somaliland's Crumbling and Neglected Treasures/ IPS
-
Trump flyttar bistånd för att hjälpa Mellanösterns kristna/ VärldenIDag
-
South Africa: SA Warned to Be On High Alert for 'Black Death' Plague/ AllAfrica
-
Hurricane Irma: Aid rule change to be considered/ BBC
-
UK aid provides lifeline to defenceless and wounded Syrians to help them return to a liberated Raqqa/ Breska ríkisstjórnin
-
AP FACT CHECK: Trump's not-so-big deals on opioids, aid/ NJHerald
-
Bilden av arabiska män nyanseras i ny studie/ SIDA
-
How do you drop food from 17,000 feet into a conflict zone? Watch our video/ WFP
-
Rapport: Dine rådne bananer kan blive byggesten til dit nye hus/ GlobalNyt
-
Wrapping up visit to Yemen, UN aid chief stresses need for all parties to facilitate humanitarian work/ UNNewsCentre
-
-The Gambia is now free and democratic so Europe is pushing its migrants to go home/ Qz
-

Kenya's Tumultuous Election Process Could Influence Other African Democracies/ VOA

Sjöundu hverja mínútu deyr barn af völdum ofbeldis

Ofbeldisverk gegn börnum, allt niður í eins árs, eru útbreidd á heimilum, skólum og öðrum stöðum um allan heim, segir í nýrri skýrslu frá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna sem kom út í morgun. Á síðasta ári létust 82 þúsund börn og ungmenni yngri en 19 ára af völdum ofbeldisverka, ýmist í stríði, vopnuðum átökum eða að þau voru myrt. Nánar í Heimsljósi í næstu viku.


Heimsmarkmið um sjálfbæra þróun

Árið 2015 samþykktu leiðtogar heimsins metnaðarfyllstu og stórfenglegustu framtíðaráætlun sem nokkurn tíma hefur komið fyrir augu heimsins. Á fimmtán árum - fram til ársins 2030 - á að uppræta fátækt og hungur. Öll börn eiga að fá góða menntun, berjast á gegn óréttlæti milli karla og kvenna, fátækra og ríkra, borga og landsbyggðar, útrýma á HIV, malaríu og berklum í heiminum. Öll framleiðsla og neysla á að verða sjálfbær og umhverfisvæn.

Þúsaldarmarkmiðin voru fyrsta sameiginlega tilraunin til að gera hnattræna áætlun um þróun. Á tímabilinu 1990 til 2015 átti meðal annars að helminga fátækt, veita öllum börnum tækifæri til að ganga í skóla og draga úr dánartíðni barna um tvo þriðju (hægt er að sjá hvernig gekk á bls. 26-30 í bókinni). 

Þúsaldarmarkmiðin áttu ekki að vera lokamarkmið. Umræður um framhald Þúsaldarmarkmiðanna tóku mörg ár áður en niðurstaðan var endanlega samþykkt í september 2015.

Nýju markmiðin eru enn víðtækari og metnaðarfyllri en Þúsaldarmarkmiðin voru. Nýja áætlunin felur í sér 17 ný markmið og 169 hlutamarkmið sem eiga að nást fyrir árið 2030. Þar er meiri áhersla lögð á hugtakið sjálfbæra þróun og markmiðið er að uppræta fátækt í öllum myndum og að bæta lífskjör fyrir alla íbúa jarðarinnar.

Að samningaferlinu vegna nýju þróunaráætlunarinnar komu fleiri en vegna Þúsaldarmarkmiðanna eða nokkru öðru alþjóðlegu samkomulagi. Samráðsfundir, áköll úr öllum heimshlutum og víðtækar umræður áttu sér stað fyrir opnum tjöldum á meðan á ferlinu stóð. Aldrei áður hafa svo margir tekið þátt í alþjóðlegu ákvarðanaferli.

Kennslubókin Verður heimurinn betri? kom út öðru sinni á íslensku fyrr á þessu ári. Textinn í þessari grein er upp úr einum kafla bókarinnar sem fjallar um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Engin markmið fjarlægð
Öll þau svið sem Þúsaldarmarkmiðin náðu til eru enn til staðar. Á sviðum þar sem hafa náðst, eins og að helminga fátækt og helminga hlutfall þeirra sem skortir hreint drykkjarvatn, er haldið áfram og stefnt að því að framfarirnar nái til allra íbúa jarðarinnar árið 2030. Á sviðum þar sem árangur hefur náðst en markmiðin ekki náðst að fullu, eru sett fram ný og metnaðarfyllri markmið. Að vísu voru þrjú markmið um heilbrigðismál sameinuð í eitt, en inntak Þúsaldarmarkmiðanna er enn á sínum stað.

Aukin áhersla á sjálfbæra þróun
Undanfarin 25 ár hefur minnstur árangur náðst varðandi sjálfbæra þróun. Eins og kemur fram í kaflanum hér á undan er það einkum varðandi hlýnun jarðar sem ákvarðanataka á heimsvísu hefur brugðist. Á sama tíma og framfarir hafa orðið á félags- og efnahagssviði í flestum löndum og fyrir flest fólk, hafa aðgerðir gegn loftslagsbreytingum verið fjarri því að nægja til að draga úr losun í heiminum. Margir hafa einnig haldið því fram að umhverfismál hafi orðið útundan í Þúsaldarmarkmiðunum, hlutamarkmið séu fá og veik og framsetning óskýr. Þetta er allt öðruvísi í nýju markmiðunum. Sex af sautján markmiðum tengjast sjálfbærri þróun beint og eru mun ítarlegri en áður. Nú er sérstakt markmið um loftslagsbreytingar, eitt fyrir sjálfbærar borgir, eitt fyrir sjálfbær vistkerfi á landi og eitt fyrir lífkerfi hafsins og að auki sérstakt markmið sem snýr að sjálfbærri neyslu.

Aukin áhersla á misskiptingu
Í almennri umræðu um hnattræna þróun hefur lítið verið fjallað um misskiptingu - sem hindrun í vegi þróunar, orsök fátæktar og annarra vandamála, og sem sjálfstætt vandamál. Nú er aukinn jöfnuður, jafnt innanlands sem milli landa, í fyrsta sinn gerður að opinberu markmiði.

Meiri áhersla á orsakir fátæktar og hagvaxtarbrests
Nýju markmiðin fela í sér, auk heildarsýnar um hversu langt við ætlum að hafa náð eftir 15 ár, skýr markmið þar sem bent er á hvernig á að ná þeim. Eða öllu heldur, markmið sem beinast að því að sigrast á hindrunum í vegi þróunar. Þau snúast um góð störf og hagvöxt, fjárfestingar í nauðsynlegum innviðum en einnig ójöfnuð. Þetta er sömuleiðis nýnæmi. Áður var litið á mörg þessara sviða sem möguleg verkfæri til að ná markmiðunum.


facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105