Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
9. árg. 302. tbl.
5. október 2016
Ný skýrsla Alþjóðabankans:
Færri sárafátækir en áfram gríðarmikill ójöfnuður

Sárafátækum heldur áfram að fækka í heiminum. Um 767 milljónir manna drógu fram lífið á minna en 1,90 bandaríkjadölum á dag árið 2013 eða um 100 milljónum færri jarðarbúar en árið á undan.


 Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðabankans - Poverty and Shared Prosperity. Flestir þeirra sem hafa lyft sér upp úr sárri fátækt eru Asíubúar, fólk í Kína, Indónesíu og á Indlandi. Frá árinu 1990 hefur sárafátækum fækkað um 1,1 milljarð.

Flestir sárafátækra í sunnanverðri Afríku
Helmingur þeirra sem áfram býr við örbirgð er í sunnanverðri Afríku, þriðjungur í sunnanverðri Asíu. Í 60 löndum af 83 sem rannsókn Alþjóðabankans náði til hafa meðaltekjur fátækustu 40% íbúanna aukist á árunum frá 2008 til 2013.

Flestir sá rafátækra eru í hópi ungs fólks með takmarkaða menntun, með búsetu í sveitahéruðum og mörg börn á heimili.

"Það er eftirtektarvert að mörgum þjóðum hefur tekist að draga úr fátækt og stuðla að hagvexti á sama tíma og hagkerfi heimsins hafa verið að hægja á sér," sagði Jim Young Kim forseti Alþjóðabankans þegar hann kynnti skýrsluna. Hann sagði að þrátt fyrir framfarir byggju alltof margir enn við of þröngan kost. Stefna Alþjóðabankans væri skýr: að binda enda á fátækt.

"Ein öruggasta leiðin til að útrýma fátækt er að draga úr ójöfnuði, einkum  meðal þeirra þjóða þar sem fátækir eru flestir," sagði Kim.

Skýrsluhöfundar lýsa yfir áhyggjum af auknum ójöfnuði meðal margra þjóða, einkum í Suður-Ameríku og Afríku. Í 34 löndum af fyrrnefndum 83 löndum hækkuðu tekjur 60% þeirra auðugustu meira en meðal almennings.

Börn í meirihluta sárafátækra
Í sameiginlegri skýrslu Alþjóðabankans og Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) sem byggir á sömu rannsóknum kemur fram að börn eru tvöfalt líklegri en fullorðnir til að búa við sárafátækt. Árið 2013 voru 19,5% allra barna í þróunarríkjum á heimilum sem höfðu vart til hnífs og skeiðar og lifðu á 1,95 dölum eða minna en sambærilegt hlutfall fullorðinna var 9,2%. Í heiminum öllum voru 385 milljónir barna í hópi sárafátækra.

Nánar
Let's take on inequality seriously, seriously, eftir Mario Negre/ Alþjóðabankablogg
Nearly 385 million children living in extreme poverty, says joint World Bank Group - UNICEF study
Ending Extreme Poverty: A Focus on Children/ UNICEF
Tanzania ranked high in bridging economic inequality/ CCTV
How serious are the SDGs about tackling inequality?, eftir Sarah Colenbrander og Andrew Norton/ IIED Nearly half all children in sub-Saharan Africa in extreme poverty, report warns/ TheGuardian
To End Extreme Poverty by 2030, We Need to Tackle Inequality/ Alþjóðabankinn
The World Bank has a new way to measure inequality/ Alþjóðabankinn
WTO Warns That Trade And Globalization Are Slowing Down After Greatest Poverty Reduction In History/ Forbes
Um 600 börn hafa drukknað í Miðjarðarhafi það sem af er ári

Ljósmynd af vettvangi sem fylgdi grein Barnaheilla.

Að minnsta kosti 600 flóttabörn hafa látist á þessu ári við að reyna að komast yfir Miðjarðarhafið í leit að betra lífi í Evrópu. Barnaheill - Save the Children hafa tekið saman gögn sem sýna að tvö börn hafa að meðaltali látist eða horfið á hverjum degi frá upphafi árs til loka septembermánaðar.


Í frétt Barnaheilla á mánudag segir: "Tölurnar eru birtar í tilefni af því að í dag eru þrjú ár liðin frá því að rúmlega 300 flóttamenn og hælisleitendur létust í sjóslysi við strendur ítölsku eyjarinnar Lampedusa.

Meira en 3.500 manns hafa látist í Miðjarðarhafinu það sem af er árinu, næstum 600 fleiri en á sama tímabili á síðasta ári. Rúmlega 20.600 flóttabörn hafa komið til Ítalíu frá upphafi þessa árs, af þeim eru 18.400 ein á ferð.

"Það er óásættanlegt að tvö börn látist eða hverfi á hverjum einasta degi í Miðjarðarhafi. Alþjóðasamfélagið getur ekki haldið áfram að líta framhjá þeim hörmungum sem þar eiga sér stað. Við berum öll ábyrgð á því að vernda börn, hvort sem það er hér á Íslandi eða annars staðar þar sem þau eru á flótta undan ömurlegum aðstæðum," segir Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla - Save the Children á Íslandi.

"Í dag minnumst við 368 flóttamanna sem týndu lífi sínu í tilraun til að komast í öruggt skjól í Evrópu. Fyrir þremur árum lofuðu Evrópuleiðtogar því að aldrei aftur myndi þetta gerast þegar myndir af skipsflakinu og líkkistum voru birtar í fjölmiðlum sem vöktu heimsathygli. En síðan þá hafa meira en 10,400 menn, konur og börn týnt lífi eða horfið við að reyna að komast sjóleiðina til Evrópu," segir Kevin Watkins, framkvæmdastjóri Save the Children.

Barnaheill - Save the Children hafa unnið að hjálparstarfi við strendur Ítalíu í rúmlega átta ár, þar sem áhersla hefur verið lögð á að hjálpa börnum sem eru ein á ferð að fá þá hjálp sem þau þurfa. Í byrjun september tóku samtökin í notkun björgunarskipið Vos Hestia sem gert er út frá Sikiley og er ætlað að bjarga flóttafólki og hælisleitendum í neyð á Miðjarðarhafi. Skipið hefur nú þegar bjargað meira en 600 manns í neyð, þar af 85 börnum sem sum eru yngri en fimm ára að aldri.

Söfnunarsími Barnaheilla fyrir sýrlensk börn er 904-1900 fyrir 1.000 krónur."
Ósýnilegar stelpur:
Kallað eftir tölfræðigögnum um raunverulega stöðu stúlkna

Milljónir stúlkna eru "ósýnilegar" vegna þess að skortur er á tölfræðilegum upplýsingum um þær, segja samtökin Plan International og eiga við að hvorki stjórnvöld né aðrir sem koma að stefnumörkun í málaflokkum sem varðar stúlkur viti nákvæmlega um stöðu þeirra. Samtökin gáfu í vikunni út skýrsluna "Counting the Invisible" (Teljum þær ósýnilegu) til að vekja athygi á mikilvægi tölfræðilegra gagna um stúlkur í baráttunni fyrir réttlátari heimi og jafnrétti fyrir alla.


Í skýrslunni er rýnt í stöðu stúlkna og dregið fram í dagsljósið hvar skortur á tölfræðigögnum er áberandi. Fram kemur að gögn skorti um það hversu margar stelpur hrökklast úr námi vegna snemmbúinna giftinga, hversu margar stelpur eignist börn fyrir 15 ára aldur, hversu marga klukkutíma á dag þær þurfi að vinna, hvers konar vinna það er og hvort þær fái greitt fyrir þær vinnustundir.

Í formála skýrslunnar segir að miklar framfarir hafi almennt orðið í lífi stúlkna og kvenna á síðustu áratugum. Dregið hafi úr dauðsföllum af barnsförum, fleiri stelpur séu skráðar í grunnskóla, barnahjónaböndum fækki og kvenkyns þingmönnum fjölgi. "Og, dag hvern, bætast við nýjar raddir sem tala fyrir því ákveðið að ekki einungis verði tryggð staða kvenna og stúlkna í þróunaráætlunum heldur verði þær leiddar til öndvegis," segir skýrsluhöfundur og bætir við að leiðin hafi alls ekki verið greið. Enn eigi jafnrétti langt í land og valdefling kvenna og stúlkna sé enn fyrirheit sem ekki hafi verið staðið við í mörgum heimshlutum.

"Árið 2014 voru rúmlega 100 milljónir ungra kvenna í lágtekju- og millitekjuríkjum ólæsar. Stúlkur utan skóla eru líklegri en strákar að vera meinað um menntun. Konur hvarvetna í heiminum verja fleiri klukkustundum en karlar í ólaunuð störf við ummönnun eða heimilsverk eins og eldamennsku eða þrifnað sem leiðir til þess að þær fá minni tíma til náms, hvíldar og til að hugsa um sig sjálfar. Þá segja tölfræðigögn að hvarvetna í heiminum hafi konur lægri laun en karlar."

Ný áætlun í mótun um þróun stórborga:
Rúmlega sex af hverjum tíu íbúum borga í Afríku búa í fátækrahverfum

Á næstu áratugum verða nokkrar borgir í Afríku meðal þeirra þéttbýlisstaða sem stækka mest. Að mati Greg Fosters aðstoðarforstjóra samtakanna Habitat for Humanity blasir við að óbreyttu að milljónir manna flæði inn til borga og bætist við íbúafjöldann sem fyrir er í óskipulögðum yfirfullum fátækrahverfum. Síðar í mánuðinum verða þessi mál í brennidepli þegar Sameinuðu þjóðirnar efna til leiðtogafundar um húsnæðismál og sjálfbæra þróun í borgum sem kallast Habitat III - United Nations Conference on Housing and Sustainable Urban Development.

Slíkar ráðstefnur hafa verið haldnar á tuttugu ára fresti, sú fyrsta 1976. Þriðja ráðstefnan er boðuð í Quito, Ekvakdor, dana 17.-20. október og þar verður einkum rætt stefnumörkunarskjal um þróun borga, svokölluð New Urban Agenda.

Greg Fosters segir í grein sem birtist á vef OECD að markmiðin fyrir leiðtogafundinn Habitat III hljómi skynsamlega: að þróa vel skipulagðar og sjálfbærar borgir, uppræta fátækt og skapa atvinnu fyrir alla ásamt því að virða mannréttindi. Hann segir að í ört vaxandi borgarsamfélögum gegni þéttbýlisstaðir lykilhlutverki í sjálfbærri þróun. Á fundinum í Ekvador verði leitast við að sammælast um pólítískar skuldbindingar um þá sýn og niðurstaða fundarins geti skipt miklu máli fyrir þróun borga í Afríku.

Fram kemur í greininni að 62% íbúa í borgum Afríku búi í fátækrahverfum eða óskipulögðum hverfum og eigi vart til hnífs og skeiðar. Efnahagslega hafi álfan dregist aftur úr, einkum hvað iðnað áhrærir, og langt hagvaxtarskeið með háum prósentutölum sé liðið sem sjáist best á því að á síðasta ári hafi hagvöxtur verið kominn niður í 3,4%. Það endurspegli lægra vöruverð, alþjóðlegan samdrátt og óvissu í fjármálakerfinu. Mikill skortur sé á fjárfestingu í innviðum stórborga, atvinnuleysi mikið og stefna í húsnæðismálum víða í ólestri. Sama gildi um borgarskipulag sem að mati Fosters er forsenda þess að íbúar hafi rafmagn, hreint vatn- og salernisaðstöðu og viðunandi samgöngur. Slík skipulagsáætlun væri aukin heldur atvinnuskapandi og hvatning fyrir einkafyrirtæki að ógleymdum auknum lífsgæðum fyrir íbúana, færri veikindadögum, lægri lyfjakostnaði og hærri ráðstöfunartekna. Bættar og skilvirkar samgöngur myndu einnig leiða af sér tímasparnað og minni loftmengun sem víða er banvæn í stórborgum þróunaríkja.

Ráðstefna um tegundir í útrýmingarhættu:
Ásókn í fílabein veldur mikilli fækkun fíla í Afríku

Ólögleg viðskipti með fílabein hafa aukist á síðustu árum og leitt til þess að fílum hefur fækkað verulega í Afríku. Viðskiptin hafa verið blómleg í Kína en stjórnvöld þar í landi heita því að loka mörkuðum með fílabein. Alþjóðlegt bann með verslun fílabeina hefur verið í gildi um langt árabil.

Þessar upplýsingar komu fram á ráðstefnu um samninga sem tengjast alþjóðaviðskiptum með dýr og plöntur í útrýmingarhættu en sautjánda ráðstefna um það efni var haldin á dögunum í Jóhannesarborg í Suður-Afríku. Á ráðstefnunni voru ræddar leiðir til þess að sporna gegn slíkum viðskiptum og vernda tegundir í útrýmingarhættu.

Upplýst var á ráðstefnunni að tölur um stærð fílastofnsins í Afríkuríkjum bendi til þess að ásókn í fílabein hafi aukist og fílum hafi fækkað á tíu árum úr 526 þúsundum árið 2006 niður í 415 þúsund á þessu ári. Fækkunin er tilkomin að langmestu leyti vegna veiðiþjófa sem sækja í fílabein. Verslun með fílabein hefur verið mikil í Asíulöndum, einkum Kína, þar sem beinin eru eftirsótt verslunarvara og notuð í útskurði og skrautmuni. Kínversk yfirvöld hafa hins vegar ákveðið að grípa til aðgerða til að draga úr eftirspurninni, hefja lögsókn gegn þeim sem taka þátt í ólöglegum viðskiptum og loka smásölumörkuðum.

Lamine Sebago sérfræðingur samtakanna World Wide Fund for Nature segir í frétt DW að veiðiþjófar hafi fellt allar fílahjarðir í löndum Vestur-Afríku og útrýming bíði fíla í Miðafríkuríkjum nema því aðeins að stjórnvöld þeirra ríkja herði sóknina gegn veiðiþjófum, gegn þeim sem höndla með þennan varning og gegn þeirri spillingu sem viðheldur þessari glæpastarfsemi.

Africa's Elephant Ivory: Sell or Destroy?
Wildlife Convention Aims to Save Great, Small, Weird and Ugly / VOA
Illegal trade accelerates wild plant extinctions, more transparency needed/ UNCTAD
Burning Down the Ivory Trade/ ForeignAffairs
New data shows 'staggering' extent of great ape trade/ BBC
Ný herðferð WHO gegn banvænustu sjúkdómunum: hjarta- og æðasjúkdómum

Global Hearts: Confronting the Cardiovascular Disease Crisis I Council for Foreign Relations
"Global Hearts" er heitið á herferð sem hleypt var af stokkunum af hálfu Alþjóðaheilbrigðis-stofnunarinnar (WHO) og samstarfsaðila á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á dögunum. Markmiðið er að freista þess að draga úr hjarta- og æðasjúkdómum sem eru banvænustu sjúkdómar í veröldinni.

Alls deyja 17 milljónir einstaklinga árlega úr hjarta- og æðasjúkdómum, margir vegna óheilsusamlegra lífshátta eins og reykinga, hreyfingarleysis eða vegna þess að saltmikil matur er borðaður í óhófi. WHO segir í frétt um herferðina að mörgum mætti líka bjarga ef þeir hefðu betri aðgang að heilsugæslu til að fá blóðþrýsting mældn. Of hár blóðþrýstingur, hátt kólestról í blóði og fleiri þættir auka hættur á hjartasjúkdómum og heilablóðfalli.

Herferðin er hluti af átaki WHO til að auka forvarnir og fækka hjarta- og æðasjúkdómum, einkum í þróunarríkjum.New initiative launched to tackle cardiovascular disease, the world's number one killer/ WHO
Bæklingur um átakið/ WHO

Unnið að því að uppræta skaðlegan sið:
Ekki dóttir mín 

Ndyandin Dawara og dóttir hennar.
Ndyandin Dawara frá Gambíu tók nýlega þá örlagaríku ákvörðun að láta dóttur sína ekki ganga í gegnum það sama og hún sjálf þurfti að þola þegar hún var lítil stelpa, limlestingu á kynfærum sínum, segir í grein á vef UN Women á Íslandi. Þar segir ennfremur:
 
"Ég sat námskeið sem styrkt er af UN Women þegar það rann upp fyrir mér hve afleiðingar þessa skaðlega siðar eru hræðilegar. Í fyrstu vissum við ekki hvernig við áttum að ræða um þetta, því að limlesting á kynfærum er mikið feimnismál hér í Gambíu. Sem betur fer er búið að rjúfa þögnina og fyrsta skrefið er að breyta hugarfari fólks. Ég og maðurinn minn erum hjartanlega sammála um að dóttir okkur eigi ekki upplifa það sama og ég. Nú vinnur hann að því að uppræta þennan skaðlega sið með því að fræða karlmenn og stráka um alvarlegar afleiðingar hans," segir Ndyandin bjartsýn.

Ndyandin Dawara er í hópi 75% kvenna í Gambíu sem þurft hafa að þola limlestingu á kynfærum sínum. Heilar kynslóðir kvenna hafa lifað nánast allt sitt líf við sársauka vegna þessa skaðlega siðar, hafa ekki haft völd yfir eigin líkama og skort kynlífslöngun. Þar að auki búa konur við aukna hættu á hvers kyns heilsufarsvandamálum og jafnvel lífshættu. UN Women styrkir námskeiðið sem Ndyandin sótti og er hluti af baráttunni gegn limlestingum á kynfærum kvenna í Gambíu. Aukin fræðsla og umfjöllun um þennan skaðlega sið hefur orðið til þess að bann við limlestingu á kynfærum kvenna var fært í lög í desember 2015. Sú lagabreyting markar tímamót í baráttunni fyrir auknu kynjajafnrétti í Gambíu.

Undanfarið ár hafa þrjú hundruð konur setið námskeið UN Women og 64% þeirra mæðra sem sóttu námskeiðið sögðust ekki vilja láta dætur sínar ganga í gegnum það sama og þær þurftu að þola.
"Við þurfum að byrja á því að breyta hugarfari fólks," segir Ndyandin, þolandi limlestingar.

Til að gera líf kvenna eins og Ndyandin og dóttur hennar betra er hægt að gerast mánaðarlegur styrktaraðili UN Women á Íslandi.

Greinin á vef UN Women 
Kynning á bókinni "Verður heimurinn betri?"
 
Bókin "Verður heimurinn betri?" verður senn kynnt í framhaldsskólum og efri bekkjum grunnskóla um land allt. Bókin á að vekja börn og unglinga til umhugsunar um mikilvægi þróunar með því að útskýra hvað felst í "þróun", bera kennsl á vandamál sem standa í vegi fyrir þróun, ákvarða leiðir til þess að stuðla að þróun bæði heima fyrir og á heimsvísu og að lokum að kynna " Heimsmarkmiðin".

Kennslustund hefur verið útbúin fyrir kennara sem þeim er frjálst að nota en miklir möguleikar eru fyrir hendi við að kynna nemendum efni bókarinnar, til dæmis í tengslum við 70 ára aðildarafmæli Íslands að Sameinuðu þjóðunum í næsta mánuði.

Nánari upplýsingar um bókina og kennslustundina má finna á skólavef Félags Sameinuðu þjóðanna.

Landsfundur Framsóknar leggur áherslu á mannréttinda- og jafnréttismál í þróunarsamvinnu
 
"Mannréttinda- og jafnréttismál skipi áfram veglegan sess í utanríkisstefnu Íslands á vettvangi alþjóðastofnana og samskiptum Íslands við önnur ríki og ríkjasambönd. Því er mikilvægt að Ísland sýni gott fordæmi í þessum málarflokki á heimsvísu og beiti sér gegn mannréttindabrotum," segir í ályktun um utanríkismál frá landsfundi Framsóknarflokksins sem haldinn var um síðustu helgi.
 
Þar segir ennfremur að Ísland eigi að tala máli hinsegin fólks á alþjóðavettvangi og að Ísland eigi að vera virkt í samtali þjóða um framtíð heimsins. "Ísland ætti að stefna að því innan þróunarsamvinnu að miðla sem mest þeirri einstöku þekkingu sem byggð hefur verið upp innanlands á vettvangi Háskóla sameinuðu þjóðanna, í sjálfbærum sjávarútvegi, jarðhita, jafnrétti og landgræðslu. Unnið skal áfram að uppbyggingu í tvíhliða þróunarsamvinnu með fátækustu ríkjum heims. Ísland skal áfram beita sér í bættu aðgengi fátækra ríkja að alþjóðaviðskiptum og afnámi hindrana. Unnið verði að því að framlög Íslands til þróunarsamvinnu endurspegli markmið Sameinuðu þjóðanna," segir í ályktun fundarins.
 
Að lokum segir í ályktuninni að valdefling kvenna sé mikilvægt efnahagslegt baráttumál fyrir þjóðir heims. Sýnt hafi verið fram á aukinn efnahagslegan ávinning fyrir ríki heims með virkri þátttöku kvenna á öllum sviðum samfélagsins. "Mikilvægt er að Ísland beiti sér áfram fyrir þróunarsamvinnuverkefnum sem stuðla að jafnrétti kynjanna."

Nánar

Áhugavert

How can the development goals be achieved?, eftir Oliver Cann/ WEForum
-
Does political reform really reduce child mortality?, eftir Sam Watsons
-
Witness: "The Mining Company Brought Me Problems" - Unregulated Promotion of Mining in Malawi Causing Hazards and Hardships/ Mannréttindavaktin (HRW)
-
Malawi Girls Learn Self-Defense Tactics Against Sexual Abuse/ VOA
Malawi Girls Learn Self-Defense Tactics Against Sexual Abuse/ VOA

Winners of 2016 UNFCCC Momentum for Change Award Announced/ UNFCCC
-
Bomber, flykt och skolböcker/ URSkola
-
'We've made progress in education and gender equality - but more must be done, eftir Julia Gillard/ TheGuardain
-
Í dag: Managing global financial risks in uncertain times/ ODI
-
#ItsPossible to #EndPoverty Together/ Alþjóðabankinn
-
3 ways the world can do more and do better for refugees, eftir Annie Richard og Kathy Russell/ Devex
-
Getting the full picture on education finance/ GlobalPartnership
-
The 'Malala of Syria' Started a Girls Education Campaign/ Fusion
The 'Malala of Syria' Started a Girls Education Campaign/ Fusion

Why the 'loss of faith' in heroes like Mandela may not be such a bad thing, eftir Dion Forster/ TheConversation
-
Jargon detection in international development/ Econthatmatters
-
Data Revolutionaries: Routine Administrative Data Can Be Sexy Too, eftir Sebastian Bauhoff/ CGDev
-
IMF and World Bank Annual Meetings 2016: Leveraging Global Growth in Challenging Times, eftir Alan Gelb/ CGDev
-
Secret aid worker: It's ok to not love this job all the time / TheGuardian

Fræðigreinar og skýrslur
Stjórnarhættir hafa lítið breyst í Afríku síðasta áratuginn
Hvað mælir Mo Inbrahim vísitalan?
Hvað mælir Mo Inbrahim vísitalan?

Stjórnarhættir í Afríkuríkjum hafa lítið breyst síðustu tíu árin. Þetta er niðurstaða viðamikillar könnunar á vegum stofnunar Mo Ibrahim sem hefur um langt árabil rýnt í góða og vonda stjórnsýslu í álfunni. Á 100 stiga mælikvarða - svokölluðum Ibrahim Index of African Governance - hafa stjórnarhættir 54 ríkja álfunnar aðeins þokast upp um eitt stig á einum áratug.

Þótt meðaltalið hafi lítíð breyst hafa einstök ríki verið ofarlega á þessari vísitölu um langt árabil, eyjan Máritíus á Indlandshafi hefur verið í efsta sæti árum saman og Botsvana, Grænhöfðaeyjar, Seychelleseyjar, Namibía og Suður-Afríka fylgja þar á eftir. Mestu framfarirnar á síðasta ári voru á Fílabeinsströndinni. Í neðstu sætum vísitölunnar í ár eru hins vegar Sómalíla, Suður-Súdan, Miðafríkulýðveldið og Líbía.

Skortur á öryggi og hnignun réttaríkisins draga flest löndin niður, segir í niðurstöðum könnunarinnar. Þar segir ennfremur að jákvæð þróun hafi orðið á síðasta áratug hvað útbreiðslu farsíma og Internetsins áhrærir en meðal þess neikvæða er nefnt að aðgengi að rafmagni hafi minnkað frá árinu 2006.

Africa's Governments Improve Slightly, Survey Finds/ VOA
Rule of law declines for 70% of Africans over past decade, warns Ibrahim index/ TheGuardian

Fréttir og fréttaskýringar

More than 6,000 migrants plucked from sea in a single day, 22 dead/ Reuters
-
South Sudanese Say Refugees Dying in Ugandan Camps/ VOA
-
World Bank to name and shame countries that fail to prevent stunting in children / TheGuardian
-
Deyjandi börn látin liggja á gólfinu/ Vísir
-
What progress have we made towards ending child marriage? Girls Not Brides launches 5-year progress report/ GirlsNotBrides
-
World Bank issues warning on stunting in children, but points to Peru's success / TheGuardian
-
HKI Niger and the Lake Chad Crisis: Combating Malnutrition in a "Forgotten Emergency"/ HelenKellerInternational
-
Global warming to breach 2C limit by 2050 unless tougher action: study
-
Brexit could put lives of vulnerable at risk due to less charity funding - report/ Reuters
-
Afghans sceptical donor conference will improve their lives/ Reuters
-
Farmed fish could solve pending population crisis, food experts say/ USAToday
-
Revealed: the criminals making millions from illegal wildlife trafficking/ TheGuardian
-
Ban 'very pleased' by action to allow EU Member States to join Paris Agreement/ SÞ
-
Stjórn Súdan sökuð um efnavopnanotkun/ Mbl.is
-
Minister: Agriculture in Sierra Leone 'fully recovered' after Ebola ourbreak/ DW
-
Choosing the next UN secretary-general/ Devex
Choosing the next UN secretary-general/ Devex

UN refugee agency, African host countries agree on final steps on Rwandan refugees/ UNNewsCentre
-
World powers seek billions more dollars to keep Afghanistan running/ Reuters
-
Paris climate accord to go into force - but faces test of enforcement/ Reuters
-
Norge må åpne for flere flyktninger/ Bistandsaktuelt
-
How Kampala is building a culture of taxpaying/ CitiScope
-
Ásakanir um notkun efnavopna í Darfur/ RUV
-
Shortlist for Amnesty's Media Awards 2016 announced/ Amnesty
-
Cast out by custom - how one Kenyan widow won the right to own property/ Reuters
-
Burundi dismisses planned U.N. inquiry into killings and torture/ Reuters
-
Ebola made headlines, but Ebola recovery doesn't. Here's what it looks like/ ONE
-
In Geneva, Ban reiterates call to end Syrian conflict; reflects on tenure as UN chief/ UNNewsCentre
-
Learning Lessons from Ebola/ TheGlobalFund
-
Modernizing sub-Saharan Africa's farming systems can boost livelihoods, help feed the world - UN
-
Utdanningsbistand trolig budsjettvinner/ Bistandsaktuelt
-
UN reform could aid Africa/ TheAge
-
New partnerships for small island developing states to advance SDGs/ SÞ
-
Major Donation to Boost IAEA Efforts on Child Nutrition/ IAEA
-
ADB, Sweden Unveil Innovative Risk Transfer Arrangement for Expanded Lending/ ADB
-
Úr ljónaveiðimönnum í verndara/ Mbl.is
-
African trade integration most exciting whenever it creates more jobs/ UNCTAD

UNICEF vekur athygli á neyð í Nígeríu

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) segir að hungursneyð í norðausturhluta Nígeríu þar sem vígasveitir Boko Haram hafa ráðið ríkjum gæti orðið 75 þúsund börnum að aldurtila verði þeim ekki veitt aðstoð.

Í frétt Reuters kemur fram að um 15 þúsund einstaklingar hafi verið myrtir og 2 milljónir manna neyðst til að fara á vergang á þeim sjö árum sem íslömsku öfgasamtökin hafa vaðið uppi. Þar segir að Sameinuðu þjóðirnar hafi óskað eftir vernd hersins fyrir starfsmenn hjálparsamtaka til að komast inn í þau fylki þar sem ástandið er verst, Borno, Yobe og Admawa. Einnig er nefnt að matvælaverð hafi hækkað vegna uppskerubrests.

Samtökin telja að allt að 400 þúsund börn yngri en fimm ára geti liðið fyrir alvarlega vannæringu í fyrrnefndum fylkjum. Þá hafa samtökin óskað eftir meiri fjárhagsstuðningi því þau hafa aðeins fengið brot af því fé sem þarf til að forða börnunum frá því að vera hungurmorða.


Í Malaví er rafmagn munaður 
 
Ljósmynd frá Malaví: gunnisal
- eftir Guðmund Rúnar Árnason verkefnastjóra í Malaví

Þegar farið er inn á vefsíðu malavísku rafmagnsveitunnar, blasir við ljósmynd af upplýstum, nútímalegum skrifstofubyggingum. Á myndinni standa einkunnarorð rafveitunnar "Towards power all day every day", sem gæti útlagst einhvern veginn svona: Rafmagn allan daginn, alla daga. Þetta metnaðarfulla slagorð er a.m.k. eitthvað sem stefnt er að. Það er langt í land, því innan við 10% Malava hafa aðgang að rafmagni. Þeir sem eru tengdir fá skammtað rafmagn og þeim klukkustundum sem straumur er á dag hvern, fer ört fækkandi. Samkvæmt auglýsingu í dagblaði 4. október verður straumur tekinn af alla daga vikunnar - ýmist einu sinni í sex klukkustundir, eða tvisvar og þá samtals í tólf klukkustundir. Þetta er að lágmarki, en tekið er fram í auglýsingunni að hugsanlega verði rafmagnslaust lengur.

Um 95% af öllu rafmagni sem er framleitt í Malaví koma frá vatnsaflsstöð í Shire-ánni, sem rennur úr Malavívatni. Í eðlilegu árferði, er framleiðslugetan um 350 MW. Vegna vatnsleysis í kjölfar tveggja regntímabila sem brugðust að miklu leyti, er framleiðslugetan núna um 200MW. Samkvæmt upplýsingum rafmagnsveitunnar má búast við því að ástandið versni enn á næstu vikum, eða þar til regntíminn hefst í október/nóvember - að því gefnu að allt verði með felldu. Spár gera jafnvel ráð fyrir því að áður en regntíminn hefst, verði framleiðslugetan ekki nema um þriðjungur af getunni í eðlilegu árferði, eða um 120 MW.
 
Misjöfn áhrif rafmagnsskorts
Ef að líkum lætur, hefur rafmagnsleysið lítil sem engin áhrif á stærstan hluta Malava, því innan við tíundi hluti þjóðarinnar hefur aðgang að rafmagni, samkvæmt nýlegum upplýsingum Alþjóðabankans. Fólk er helst tengt í borgum og bæjum og nágrenni þeirra. En langflestir, eða um 90%, hafa ekkert rafmagn og hafa aldrei haft. Og það sem meira er, fátt bendir til að það breytist hratt í náinni framtíð. Þar kemur einkum tvennt til: Skortur á rafmagni og fátækt. Aðgangur að rafmagni er því munaður í fleiri en einum skilningi.

Þeir sem eru vanir að geyma matinn sinn í ísskápum, eða kaupa mat í verslunum með matarkælum, geta ekki lengur verið öruggir. Óstaðfestar sögur eru á sveimi um að tilvikum matareitrunar hafi fjölgað verulega undanfarið, enda er það ein vísasta leiðin til að eyðileggja mat að láta hann frjósa og þiðna á víxl - og það í yfir 30 gráðu hita.
 
Aðgerðir til úrbóta
Rafmagsnveitan er með ýmislegt á prjónunum til að bregðast við ástandinu, jafnt til skamms tíma, sem lengri tíma. Til skamms tíma eru nokkur inngrip í undirbúningi. Samningar eru í gangi um að kaupa 10 MW frá Mósambik. Áformað er að kaupa díselrafstöðvar með 26 MW framleiðslugetu. Fyrirtækið telur jafnframt að hægt verði að ná fram 40 MW sparnaði með því að innleiða sparperur.
Til lengri tíma er ráðgert að byggja 300 MW kolaraforkuver. Áætlað er að fyrsti áfangi verði tekinn í notkun árið 2019. Viðræður eru í gangi um kaup á raforku (10MW) frá nágrannaríkinu Zambíu, en mestar vonir eru bundnar við framfarir í raforkuframleiðslu með sólarorku. Samkvæmt upplýsingum frá rafmagnsveitunni, eru á þriðja tug fyrirtækja á sviði raforkuframleiðslu með sólarorku í landinu. Samningar við þrjú þeirra eru í burðarliðnum og aðrir í undirbúningi. Björtustu vonir gera ráð fyrir því að þessi fyrirtæki geti lagt 565 MW inn í kerfið.
Hvort þessi áform duga til að tryggja rafmagn allan daginn alla daga, er svo annað mál. Og hvort það dugar fyrir alla - líka 90 prósentin sem hafa ekkert rafmagn, er svo enn önnur spurning. Ein spurning til viðbótar er svo hvenær meirihluti Malava verður svo vel stæður að til greina kæmi að kaupa rafmagn, væri það til reiðu.

Svo er bara að vona að það rigni duglega yfir regntímann. Ekki bara út af rafmagninu.

Mótorhjólataxar í Kampala 

Ljósmynd frá Kampala: Egill Bjarnason.
- eftir Sigrúnu Björgu Aðalgeirsdóttur starfsnema í Úganda

Í sendiráðum Íslands í Malaví, Mósambík og Úganda starfa þrír starfsnemar sem líkt og undanfarin ár hafa fallist á beiðni Heimsljóss um pistlaskrif þann tíma sem þeir dvelja í samstarfslöndum Íslendinga. 

Fólksfjölgun í Úganda hefur verið gríðarleg síðustu ár, þá sérstaklega í höfuðborginni Kampala. Árið 2010 voru Úgandamenn 32,608 milljónir talsins en nú, sex árum síðar, telja landsmenn rétt tæplega 40 milljónir. Samgöngur hafa ekki þróast í takt við þessa miklu og hröðu fólksfjölgun og er ein afleiðing þess tíðar umferðarteppur í höfuðborginni sem geta valdið því að fólk situr fast í bílum sínum tímunum saman.
 
Boda Boda
Vegna þessara miklu umferðarteppa njóta móturhjólataxar, kallaðir Boda Boda, sífellt aukinna vinsælda og eru nú orðin ein helsta samgönguleið borgarbúa. Í Úganda eru nú skráð um 200 þúsund Boda Boda ökutæki og líklegt að ökumennirnir séu öllu fleiri. Meðal ungra karlmanna er starfið eitt það eftirsóttasta því þó vissulega séu bílstjórarnir margir, eru farþegarnir líka alltof margir og því þekkist það varla að bílstjóri fari auralaus heim í lok dags.  

Boda Boda eru þeim kostum gæddir að þeir komast hratt á milli staða, þrátt fyrir umferðarteppur, og þeir eru ódýr ferðamáti. Það er oft ótrúlegt að fylgjast með þeim smeygja sér á milli bíla þar sem bilið á milli er svo þröngt að maður heldur niðri í sér andanum og bíður eftir að þeir keyri niður bílspegil, sem þeir yfirleitt gera ekki. Að nota Boda Boda er því einkar hentugt í Kampala, en það getur líka verið sem rússnesk rúlletta. Samkvæmt rannsókn sem framkvæmd var af Makarere Háskólanum á Mulagi sjúkrahúsinu í Kampala er helsta ástæða þess að fólk sæki bráðamóttökuna þar ekki malaría eða aðrir sjúkdómar, heldur Boda Boda umferðarslys. Um 40% allra alvarlegra tilfella sem koma á tiltekið sjúkrahús eru vegna Boda Boda slysa og látast árlega þúsundir Úgandamanna í slíkum slysum eða hljóta alvarlega höfuðáverka og jafnvel aflimun.
 
World Health Organization (WHO) segir að árið 2030 verði umferðarslys líklegri dánarorsök í lágtekjulöndum heimsins heldur en HIV/alnæmi. Segja þeir jafnframt að notkun hjálms þegar á tveggja hjóla ökutæki í umferðinni geti minnkað líkurnar á dauða eða alvarlegum höfuðmeiðslum um 40% fyrir farþega og 70% fyrir ökumenn. Í Úganda eru lög sem segja að bæði farþegum og ökumönnum beri skylda til að nota hjálm þegar ferðast er um á móturhjóli. Þeim lögum er þó í fæstum tilfellum fylgt eftir og segir tölfræðin að í Kampala noti innan við 1% farþega og innan við 30% ökumanna hjálm. Það var þess vegna sem hugmyndin um Safe Boda kviknaði.
 
Snjallsímaappið Safe Boda
Safe Boda var stofnað í árslok 2014 og markmiðið er að bjóða upp á Boda Boda sem öruggan ferðamáta. Safe Boda er snjallsíma-app, en með því er reynt að höfða til yngri kynslóðar landsins. Úganda er ein yngsta þjóð í heimi - um 24% þjóðarinnar eru á aldrinum 10-19 ára og notast ungmenni borgarinnar mörg við snjallsíma. Með Safe Boda snjallsíma-appinu er pantaður Boda Boda ökumaður sem sækir þig hvert sem þú vilt, íklæddur appelsínugulu vesti merktu fyrirtækinu. Ökumennirnir nota alltaf hjálm og hafa meðferðis auka hjálm fyrir farþegana - þeir bjóða meira að segja upp á einnota hárnet fyrir þá allra pjöttuðustu sem vilja ekki setja upp notaða hjálma. Ökumennirnir hljóta allir þjálfun í umferðaröryggi og -reglum, ásamt kennslu á viðhaldi á hjóli. Þetta er gert í samstarfi við Rauða Kross Úganda og er svo fylgt eftir af yfirmönnum Safe Boda.
 
Appið nýtur nú mikilla vinsælda í höfuðborginni og samkvæmt vefsíðu Safe Boda voru ökumenn þess orðnir rúmlega 1000 talsins í lok ágústmánaðar og fer þeim stöðugt fjölgandi vegna mikillar eftirspurnar. Appelsínuguluklæddu ökumennirnir sem þeytast um götur borgarinnar virðast því vekja verðskuldaða athygli og verður það vonandi til þess að Safe Boda takist markmið sitt - að fækka umferðarslysum og bjarga lífum.

'Uber for motorbikes' - the smart way to get around in a bustling capital/ CNN
Safe Boda
Motorcycles set to become main mode of transport in Africa/ EastAfrican
Tölfræðigögn um Úganda/ Alþjóðabankinn

facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105