Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
10. árg. 325. tbl.
3. maí 2017
Lýðheilsa í Manghochi:
Gerbreytt aðstaða fyrir fæðingar-hjálp og verðandi mæður 
 
Biðskýlið í Mtimabi er reist eftir staðlaðri teikningu. Þar eru tvö herbergi, auk eldhússins lengst til vinstri. Annað herbergið er ætlað sængurkonum en hitt aðstandendum. Undanfarin ár hafa verið reist 16 slík biðskýli.
Í mjög afskekktum hluta Mangochihéraðs í Malaví þar sem íslensk stjórnvöld vinna með héraðsyfirvöldum að umbótum í grunnþjónustu eru þrjár heilsugæslustöðvar, syðst og vestast. Á regntímanum er oft ófært á þessa staði svo vikum skiptir í senn, að minnsta kosti akandi. Því er mikilvægt að hægt sé að veita sem mest af almennri heilbrigðisþjónustu á stöðunum sjálfum. 

Undanfarin misseri hefur verið unnið að bættri aðstöðu fyrir verðandi mæður og fyrir fæðingarhjálp. Á þessum stöðum hafa verið reistar tvær fæðingardeildir og þrjú biðskýli, auk þess sem gerðar hafa verið fylgjuholur, brennsluofnar og salerni fyrir íslenskt þróunarfé.

Eldhúsið í biðskýlinu er raunverulegt "eldhús", með opnum eldstæðum. Ljósmyndir: GR
Við heilsugæslustöðina í Mtimabi hefur verið tekin notkun glæsileg fæðingardeild. Þar fæðast nú að sögn
Guðmundar Rúnars Árnasonar verkefnastjóra um 130 börn á mánuði, sem annars hefðu fæðst við mun frumstæðari aðstæður. "Biðskýlið tryggir aðstöðu fyrir verðandi mæður á meðan þær bíða. Þær þurfa oft að ferðast um langan veg til að fæða, fótgangandi eða fluttar á reiðhjóli. Í biðskýlinu er auk þess aðstaða fyrir aðstandendur kvennanna, sem sjá um að elda fyrir þær og þvo og veita þeim annan stuðning," segir hann.

Samskonar einingar eru tilbúnar til notkunar á sjö öðrum afskekktum stöðum í héraðinu. Verið er að ráða starfsfólk og þær verða opnaðar að því búnu. Gera má ráð fyrir að um allt að tíu þúsund börn fæðist á þessum fæðingardeildum en í héraðinu öllu fæðast um 30 þúsund börn á ári.  
Stella Samúelsdóttir ný framkvæmda-stýra UN Women á Íslandi

Stella Samúelsdóttir.
Stella Samúelsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastýra landsnefndar UN Women á Íslandi. Hún tekur við starfinu af Ingu Dóru Pétursdóttur.

Stella er mannfræðingur en er einnig með menntun á meistarastigi í opinberri stjórnsýslu, alþjóðasamskiptum og hagfræði. Auk þess hefur hún D vottun í verkefnastjórnun. Hún hefur víðtæka starfsreynslu bæði á sviðum þróunarsamvinnu, reksturs og viðskipta. Hún starfaði í fimm ár á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Malaví þar sem hún meðal annars stjórnaði verkefnum er lutu að jafnréttismálum og valdeflingu kvenna, starfaði sem sérfræðingur hjá fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York þar sem hún hafði umsjón með þróunarverkefnum, stofnunum og sjóðum Sameinuðu þjóðanna, jafnréttismálum og umhverfismálum. Þess má geta að hún tók þátt í hinum ýmsu samningaviðræðum fyrir hönd Íslands í allsherjarþingi SÞ, þar á meðal var hún þátttakandi í samningaviðræðum um stofnun UN Women. Hún hefur einnig starfað sem sjálfstæður ráðgjafi í þróunarmálum. 

Síðastliðin þrjú ár hefur hún rekið eigið fyrirtæki í Bandaríkjunum sem flytur út Saltverk sjávarsalt frá Íslandi til Bandaríkjanna og er saltið nú til sölu í Whole Foods Market, á Amazon, hjá smærri sérverslunum og á veitingastöðum.
 
Starfsemi landsnefndar UN Women á Íslandi hefur vaxið ört á undanförnum árum. Síðasta ár var engin undantekning og jukust framlög landsnefndarinnar um 41% á milli áranna 2015 og 2016. Stella tekur við góðu búi Ingu Dóru Pétursdóttur sem leitt hefur landsnefndina undanfarin sjö ár og snýr sér nú að öðrum verkefnum í Mósambík.
 
UN Women er eina stofnun Sameinuðu þjóðanna sem vinnur eingöngu í þágu kvenna og jafnréttis um allan heim. Landsnefndir UN Women starfa í fimmtán löndum að því að vekja athygli almennings á þörfum kvenna í fátækum löndum og starfi UN Women, afla fjár til starfsins og hvetja ríkisstjórnir sínar til að taka þátt í því. Landsnefnd UN Women á Íslandi er ein slíkra landsnefnda.
Góðar horfur á fæðuöryggi næsta árið:
Mestu matvælaaðstoð í Malaví lokið og uppskerutími hafinn
Hlér Guðjónsson fer sem sendifulltrúi Rauða krossins til Sómalíu

Hlér Guðjónsson.
Hlér Guðjónsson sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi hélt til Næróbí í Kenía um helgina og þaðan til Sómalíu á vegum Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans. 

Hlér er þaulreyndur sendifulltrúi og var valinn úr hópi umsækjenda til að sinna störfum í Sómalíu vegna yfirvofandi hungursneyðar þar í landi. Hlér mun meta þarfir og greina hvernig skipuleggja skuli áframhaldandi hjálparstarf með hliðsjón af vaxandi neyð vegna óvenjumikilla þurrka og hungurs. 

Hlér hefur undanfarin tvö ár starfað í Peking í Kína sem upplýsingafulltrúi á vegum Alþjóða Rauða krossins en þar áður meðal annars í Síerra Leone, Palestínu og víðar.

"Hlér er mjög reyndur sendifulltrúi Rauða krossins og við vitum að reynsla hans og þekking mun nýtast sómalska Rauða hálfmánanum og Alþjóða Rauða krossinum vel í þessu erfiða verkefni sem við stöndum frammi fyrir að afstýra hungursneyð í Sómalíu," segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri Rauða krossins. "Það gerir Rauði krossinn samt ekki einn, allir þurfa að leggjast á eitt en munum að saman getum við unnið að kraftaverki og bjargað hundurðum þúsunda eða jafnvel milljónum manna frá hungri og vannæringu og þannig að auki fjárfest í framtíðinni. Rauði krossinn á Íslandi mun fyrir sitt leyti ekki láta sitt eftir liggja og við hvetjum almenning til að leggja okkur lið með því að senda sms í númerið 1900 og leggja þannig kr. 1900 af mörkum en sú upphæð dugar til að bjarga tveimur börnum frá alvarlegri vannæringu." 

Rauði krossinn á Íslandi er með neyðarsöfnun í gangi vegna ástandsins í Afríku og er starf Hlés einn liður í framlagi Rauða krossins á Íslandi vegna ástandsins.
Ársskýrsla landsnefndar UN Women komin út:
Konur á flótta meginviðfangsefni UN Women á síðasta ári

Aldrei hafa fleiri manneskjur neyðst til að flýja heimkynni sín líkt og nú. Um þessar mundir eru 65 milljónir manna á flótta og á vergangi í heiminum. Því miður virðist ekkert lát vera á þeirri þróun. Fyrir vikið beindi landsnefndin fyrst og fremst sjónum að konum á flótta á árinu.

Þannig hefst frétt landsnefndar UN Women þar sem tilkynnt er um útgáfu á ársskýrslu félagsins fyrir árið 2016.
 
Þar segir ennfremur: 
"Árið var viðburðaríkt og hófst á neyðarsöfnun fyrir konur á flótta í Evrópu. Dyggur stuðningur landsmanna lét ekki á sér standa var fjármununum varið í setja upp örugg athvörf fyrir konur og börn þeirra á landamærastöðvum í Makedóníu og Serbíu. Í ljósi harkalegra átaka í Írak, seinni hluta árs, efndi landsnefndin til neyðarsöfnunar fyrir konur á flótta frá Mósul, höfuðvígi vígasveita íslamska ríkisins í Írak. Átakinu var gríðarlega vel tekið hér á landi en við lok árs dreifði UN Women í Írak sæmdarsettum til kvenna að andvirði sex milljóna króna sem söfnuðust með neyðarsöfnuninni og sölu á jólagjöf UN Women á Íslandi.

Árið 2016 var einnig stórt HeForShe ár og efndi landsnefndin til átaks á vordögum í samstarfi við KKÍ og Domino´s á Íslandi. Átakið miðaði að því að hvetja karlmenn til að skrá sig á HeForShe.is en rúmlega fjögur þúsund manns skráðu sig og hétu því að beita sér fyrir kynjajafnrétti í sínu nærumhverfi. Landsnefndin blés einnig til HeForShe - fræðslu átaksins #Ekkihata í október sem miðaði að því að vekja fólk til vitundar um alvarlegra afleiðinga netofbeldis gegn konum og stúlkum. Þess má geta að starfskonur og ungmennaráð UN Women á Íslandi héldu einnig úti öflugu kynningarstarfi um verkefni og starfsemi UN Women árinu auk þess sem fastir viðburðir áttu sér stað; Milljarður rís, Hvatningarverðlaun jafnréttismála og Ljósaganga.

Starfsemi landsnefndarinnar hefur vaxið ört á undanförnum árum. Síðasta ár var engin undantekning og jukust framlög landsnefndarinnar um 41% á milli áranna 2015 og 2016. Um helmingur af heildarframlagi landsnefndarinnar rann til verkefna sem miða að því bæta lífsgæði og öryggi kvenna á flótta. Þá hafa aldrei fleiri styrkt samtökin með mánaðarlegu framlagi og aldrei áður hafa jafn margir karlmenn tilheyrt þeim hópi.
Við hjá UN Women á Íslandi færum öllum þeim sem studdu við starf landsnefndarinnar á árinu kærar þakkir fyrir að taka þátt í að bæta við líf kvenna og stúlkna um allan heim."
Veit granni þinn eitthvað um Heimsmarkmiðin?

"Ég get ekki sagt að ég þekki nágrannakonu mína. Ég veit þó að hún getur orðið dálítíð pirruð þegar börnin mín eru of hávaðasöm. Ég veit líka að hún notar endurvinnslutunnuna. En hvað finnst henni um Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun? Ég hef ekki grænan grun um það. Því verður að breyta."

Þannig hefst í lauslegri þýðingu grein Felix Zimmermanns hjá DevCom sem eru samtök á vegum Þróunarmiðstöðvar OECD í París um kynningarmál í þróunarsamvinnu. Hann segir í greininni - sem birtist á bloggvefnum Development Matters - að brýnt viðfangsefni sé að fá almenna borgara til að grípa til aðgerða í tengslum við Heimsmarkmiðin.

"Ef það á að vera einhver von um að ná Heimsmarkmiðunum fyrir árið 2030 þurfum við að fá alla borgara til þess að breyta hegðan sinni og gildir þá einu hvar þeir búa. Áherslur Heimsmarkmiðanna eru ólíkar frá einni þjóð til annarrar en við þurfum að fá alla borgara í öllum löndum til þess að hvetja ríkisstjórnir, fyrirtæki - og nágranna - til aðgerða.

Lesið endilega hvatningarorð Felix í Deveopment Matters.
Verkefni SOS Barnaþorpanna í Gíneu-Bissá fær lofsamlega umsögn

Afar gott og vel unnið verkefni, segir í úttekt Geirs Gunnlaugssonar prófessors og fyrrverandi landlæknis um verkefni SOS Barnaþorpanna í Gíneu-Bissá. Hann segir í úttekt að starfsfólk SOS bæði hér heima og úti í Gíneu-Bissá hafi staðið mjög faglega að verki og umfram allt, að hjálpin frá Íslandi hafi skilað sér. Athugasemdir voru þó gerðar við að mögulega hafi markmið verkefnisins verið full háleit þegar litið er til lengdar verkefnisins og fjármagns.

SOS Barnaþorpin á Íslandi hafa undanfarin fjögur ár fjármagnað fjölskyldueflingu í Bissá, höfuðborg Gíneu-Bissá þar sem fátækar barnafjölskyldum fá aðstoð til sjálfshjálpar. Nú er verkefninu lokið og Geir Gunnlaugsson var fenginn sem óháður aðili til að meta árangurinn, aðallega fyrir samtökin sjálf, en einnig fyrir utanríkisráðuneytið sem hefur styrkt verkefnið. Geir var fenginn í verkið en hann þekkir vel til Gíneu-Bissá þar sem hann starfaði í landinu í nokkur ár og heimsækir það reglulega.

Í frétt SOS Barnaþorpanna segir að Geir hafi farið til Bissá í byrjun mars til að taka út verkefnið og að hann hafi skilað af sér skýrslu undir lok aprílmánaðar. "Skýrslan gaf góða mynd af verkefninu, hvað var vel gert og hvað hefði mátt betur fara. Um er að ræða fyrsta fjölskyldueflingarverkefnið sem SOS á Íslandi fjármagnar alfarið og því er afar gagnlegt að fá svo ítarlega og góða greiningu á því," segir í fréttinni.

Fram kemur að samtöl skýrsluhöfundar og skjólstæðinga gefi til kynna að mikið traust ríki á milli starfsfólks verkefnisins og íbúa á svæðinu. Þá sinni starfsfólk SOS í Bissá starfinu vel og heiðarlega. Skýrsluhöfundur metur það þó þannig af samtölum sínum við starfsfólk að of mikill tími hafi farið í pappírsvinnu og skýrslugerðir og mögulega sé hægt að einfalda verkferla.Í heildina sé verkefnið gott og hafi bætt aðstæður skjólstæðinga. Hann telur að SOS á Íslandi hafi sýnt hugrekki á sínum tíma þegar ákveðið hafi verið að byrja með fjölskyldueflingu í Bissá þar sem aðstæður þar eru erfiðar. Hugrekkið hafi skilað sér þó svo að áskoranirnar hafi verið margar, t.d. ebóla og órói í stjórnarháttum landsins.

Síðan í lok árs 2012 hafa yfir 400 börn í 100 fjölskyldum fengið aðstoð í gegnum fjölskyldueflingu SOS í Bissá. Um mitt ár 2016 voru 66% fjölskyldnanna orðnar fjárhagslega sjálfstæðar en að öllum líkindum er hlutfallið enn hærra núna við lok verkefnisins.

Úttektarskýrslan er opin öllum og má nálgast  hér.
Umsóknarfrestur um þróunarsamvinnuverkefni til 1. júní

Utanríkisráðuneytið vekur athygli á  því að samkvæmt verklagsreglum um samstarf við borgarasamtök frá árinu 2015 er umsóknarfrestur fyrir þróunarsamvinnuverkefni til miðnættis 1. júní ár hvert. Umsóknir skulu vera á íslensku og skilað á þar til gerðum eyðublöðum á netfagnið borgarasamtok.styrkir@mfa.is. Fylgiskjöl mega vera á íslensku eða ensku. 

Ráðuneytið hefur á síðustu misserum veitt styrki til langtímaþróunarsamvinnuverkefna og eru því að þessu sinni allt að 62 milljónir króna til úthlutunar. Allar frekari upplýsingar má finna á vef alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands, 
Auglýst eftir verkefnastjóra í Malaví

Utanríkisráðuneytið auglýsir eftir verkefnastjóra til starfa í þróunarsamvinnu í Malaví. Starfið felst í stuðningi við héraðsstjórn Mangochi-héraðs í suðurhluta Malaví þar sem íslensk stjórnvöld styrkja verkefni í lýðheilsu-, vatns- og menntamálum, auk stjórnsýslu.

Starfsmaður vinnur undir stjórn forstöðumanns sendiráðsins í Lilongwe og er búsettur þar, en starfið krefst mikillar viðveru í Mangochi sem er 260 km fjarlægð frá Lilongwe. Ráðið verður til tveggja ára með möguleika á framlengingu og er reiknað með að starfsmaðurinn hefji störf eigi síðar en í september nk.

Nánar á  Starfatorgi

Íslenskir sálfræðingar til Bidibidi
Þrír sendifulltrúar Rauða krossins á Íslandi fóru til Úganda í lok aprílmánaðar, sálfræðingarnir Jóhann Thoroddsen, Elín Jónsdóttir og Matthías Matthíasson . Þau munu þjálfa sjálfboðaliða og starfsfólk Rauða krossins í Úganda í sálrænum stuðningi og viðbrögðum við áföllum vegna mikils fjölda flóttamanna sem leitað hefur skjóls í landinu undanfarna mánuði.

Flóttafólk frá Suður-Súdan auk annarra landa hefur streymt til Úganda vegna átaka og fæðuskorts og flóttamannasamfélög hafa verið reist á nokkrum stöðum í Yumbe héraði, m.a. í Bidibidi í þar sem sendifulltrúarnir verða við störf. Það fylgir því gríðarlegt andlegt álag að flýja heimili sitt, jafnvel eftir átök, hungur, missi ástvina og búa í flóttamannasamfélögum í nýju landi.
 "Sendifulltrúunum er ætlað að leiðbeina starfsfólki og sjálfboðaliðum við að styðja við fórnarlömb og þolendur og takast á við erfiðar aðstæður í kjölfar flóttans og svo nýrra aðstæðna," eins og segir í frétt frá Rauða krossinum á Íslandi.

Með stuðningi utanríkisráðuneytisins hefur Rauði krossinn á Íslandi styrkt Rauða krossinn í Úganda við að taka á móti hundruðum þúsunda flóttamanna í samvinnu við stjórnvöld og aðra aðila. Eitt af því sem Rauði krossinn gerir er að framleiða gríðarlegt magn af drykkjarvatni fyrir flóttafólkið, meðal annars með því að dæla því upp úr ánni Níl.

Áhugavert

Barbershop at Nordic House in Reykjavík/ Utanríkisráðuneytið
-
We Must be Serious About Untying Aid for the Sake of Credibility and Private Sector Engagement, eftir Charlotte Petri Gornitzka/ Linkis
-
Women's Economic Empowerment Means Access to Family Planning Too, eftir Amanda Glassman og Rachel Silvermann/ CGDev
-
Trump's proposed cuts to foreign aid: Why care beyond our borders?, eftir Anna Beucler / Collegiatetimes
-

Les Amazones d'Afrique, a Supergroup For Female Empowerment/ Okayafrica
-
Rural electrification in Africa: An economic development opportunity?, eftir Jean-Michel Huet And Aurelien Boiteau / HowWeMadeItInAfrica
-
So we slash US foreign aid. But why?/ PRI
-
Macron vs Le Pen: how the next French president will tackle international development, eftir Raphaelle Faure
-
Hear PJ Harvey on War Horrors in Raw New Song 'I'll Be Waiting'/ RollingStone
-
France at the Crossroads: What the Election Could Mean for International Development, eftir Anita Käppeli/ CGDev
-
It's time to decide what being middle class in Africa really means, eftir Henning Melber/ Qz
-
Everything we knew about sweatshops was wrong, eftir Christopher Blattaman og Stefan Dercon/ NYTimes
-
Our World Under Threat: Forging A Better Future Together/ LinkedIn
-
Kristin Davis On Women Refugees Becoming The Boss/ Forbes
-
Universal health-care coverage is feasible, eftir Rezaul Haque/ D+C
-
Shirin Ebadi: 'Almost a fourth of the people on Earth are Muslim. Are they like each other? Of course not'/ TheGuardian
-
Could unemployed youth solve the health care worker crisis?, eftir Gabriella Józwiak/ Devex
-
Blog post of the month: Strengthening governance is top-of-mind for opinion leaders in developing countries, eftir Jing Guo/ Alþjóðabankablogg
-
Our First Peek at Trump's Aid Budget: Big Changes, but Will Congress Play Along?, eftir Jeremy Konyndyk/ CGDev
-
Where chickens and women rule: ACGG rolls out gender awareness campaign/ AfricaCGG
-
FGE Thematic Factsheet/ UNWomen
-
The economies with the best education systems, according to expats/ WEForum
-
Everyday Emergency: The MSF Podcast/ MSF
-
Trump's Proposed Budget Would Slash Funding to Developing Countries/ TeenVogue
-
Jemen: A case of now, not later/ WFP
-
Sudan: Starred By Angelina Jolie, Film On Sudan Ancient Civilization Now in the Making/ AllAfrica
-
Time to deliver: governments must make good on their commitments and Stand Up for Education, eftir Camilla Croso/ GEM
-
'Leaving no one behind' in action/ Deliver2030
-
UK general election: six global priorities for parties' manifestos, eftir Alix Thier ofl./ ODI
-
The scientists who had to start over: 'five years of my career have been wiped out'/ TheGuardian
-
A Nutrition Revolution for Africa: How Can African Agriculture Play a Greater Role?/ CGIAR
-
Technology can help us to save our oceans. Here are three reasons why, eftir Jim Leape/ WEForum
-
Smartphones are child's play, but what about the child labour?, eftir Roel Nieuwenkamp/ OCEDInsight
-
Poverty: More than a lack of money, eftir Sebastian Rewerski/ D+C
-
Who goes to school? Here's what Afghanistan's Provincial Briefs tell us about primary school attendance, eftir CHRISTINA WIESER/ Alþjóðabankablogg
-
Should Africa 'hurry up and wait' amid development crisis?, eftir Raj Kumar/ Devex


-
-
-

Ross Kemp: Libya's Migrant Hell - Opening
-
Chinese migrants have changed the face of South Africa. Now they're leaving/ Qz
-
Sri Lanka: Såren som inte läker/ Fréttaskýring OmVärlden
-
14 sykehusangrep i Syria i april - minst/ Bistandsaktuelt
-
20 Million People Could 'Starve to Death' in Next Six Months/ IPS
-
Mystery deaths in Liberia linked to funeral - WHO
-
DONALD TRUMP VS. MICHELLE OBAMA: THE PRESIDENT ROLLS BACK FORMER FIRST LADY'S INITIATIVES/ Newsweek
-
Uganda to declare state of emergency as hunger crisis worsens/ TheUgandan
-
Child Malnutrition Mounts in Afghan Province/ IWPR
-
Janet Museveni: I want to control distribution of sanitary pads/ TheGuardian
-
Yemen aid not reaching intended recipients, say activists on ground/ TheGuardian
-
'Hvilken familie skal spise i dag?'/ Information
-
'The people we treat have nothing' - caring for the victims of a forgotten conflict/ Breski Rauði krossinn
-
Looming 'catastrophe' in East Africa proves why world must tackle climate change, says Oxfam/ Independent
-
End of Joseph Kony hunt breeds frustration and fear/ IRIN
-
Are locals starting to push back in the "best place in the world for refugees"?/ AfricanArguments
-
World Bank grants US$1.7 billion to fund private sector in Mozambique/ Alþjóðabankinn
-
Malawi: MHRRC Says Corruption Causing Poverty, Misery in Rural Communities/ AllAfrica
-
Opportunities and Challenges towards achieving SDG1 and SDG2: experiences from China, Kenya and Chile/ FAO
-
Satellite images trigger payouts for Kenyan farmers in grip of drought/ TheGuardian
-

D+C maí 2017
-
African Union must act to stop South Sudan violence, says civil society/ RFI
-
Kenya Is Doing Its Part to Battle Drought, We Must Too/ IPS
-
DR Congo: UN seeks $64 million to tackle humanitarian crisis in Kasaï region/ UNNewsCentre
-
Africa rejects Europe's 'dirty diesel'/ DW
-
People of African descent: doing more time for less crime/ UN
-
Uncatchable: the fruitless quest for Kony - in pictures/ TheGuardian
-
UK overseas aid budget fraud levels do not seem credible, watchdog says/ TheGuardian
-
Double standards: Do all journalist lives matter?/ IPS
-
Ekkert spurst til barnanna í Damasak/ Mbl.is
-
The island where Africa's rich get richer/ Qz
-
How to save Mozambique from disasters/ UNDP
-
Development aid in danger of losing to bombast and bombs/ NCR

Alþjóðabankinn: lykilstofnun í fjölþjóðlegu samstarfi í þágu sjálfbærrar þróunar

- eftir
Emil Breka Hreggviðsson, fulltrúa Íslands á skrifstofu aðalfulltrúa kjördæmis Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í stjórn Alþjóðabankans


Alþjóðabankinn var settur var fót í kjölfar hörmunga síðari heimstyrjaldarinnar en stofnun hans var undirbúin á ráðstefnu í Bretton Woods í New Hampshire árið 1944. Tilgangur ráðstefnunnar var að greiða fyrir efnahagslegri endurreisn Evrópu og Japan og ásamt því að stuðla að aukinni samvinnu ríkja á milli.  Ísland var stofnaðili að Alþjóðabankanum líkt og að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og þáðu íslensk stjórnvöld lán frá Alþjóðabankanum á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar til styrkingu innviða á Íslandi (meðal annars á sviði landbúnaðar og hitaveituframkvæmda).

Alþjóðabankinn (World Bank Group) samanstendur í dag af fimm stofnunum en hver þeirra gegnir sérstöku og afmörkuðu hlutverki í baráttunni gegn fátækt og bættum lífskjörum á alþjóðavísu. Þetta eru:

- Alþjóðabanki til enduruppbyggingar og framþróunar (International Bank for Reconstruction and Development, IBRD),
- Alþjóðaframfarastofnunin (International Development Association, IDA),
- Alþjóðalánastofnunin (International Finance Cooperation, IFC),
- Fjölþjóðlega fjárfestingarábyrgðarstofnunin (Multilateral Investment Guarantee Agency, MIGA) og
- Alþjóðastofnun um lausn fjárfestingardeilna (International Center for Settlement of Investment Disputes, ICSID).

Í dag eru aðildarríki Alþjóðabankans 189 talsins. Höfuðstöðvar Alþjóðabankans eru í Washington D.C. en um það bil helmingur starfsmanna bankans er staðsettur í þróunarlöndunum.

Alþjóðabankinn er lykilstofnun í fjölþjóðlegu samstarfi í þágu sjálfbærrar þróunar en hann er einn helsti fjármögnunaraðili fátækustu þróunarlandanna. Áherslur hans hafa tekið breytingum í tímans rás en með nokkurri einföldun má segja að meginverkefni Alþjóðabankans í dag sé að stuðla að efnahagslegri og félagslegri uppbyggingu þróunarlandanna - að útrýma sárafátækt í heiminum.

Ársgamalt viðtal við Emil Breka um starfsemi Alþjóðabankans og tengslin við Ísland.
Ársgamalt viðtal við Emil Breka um starfsemi Alþjóðabankans og tengslin við Ísland.
Alþjóðabankinn veitir þróunarríkjum margþætta aðstoð í formi lána á lágum vaxtakjörum, styrkja og ráðgjafar. Lánveitingar og styrkir Alþjóðabankans eru meðal annars á sviði styrkingar innviða, menntamála, félagslegra stuðningsneta, heilbrigðisþjónustu, umbóta á samgöngukerfum, aðgerða í þágu bættrar stjórnsýslu, umbóta í landbúnaði ásamt því að styðja aukna aðkomu einkageirans að fjármögnun þróunar og uppbyggingu í þróunarlöndunum svo að dæmi séu nefnd.

Stigvaxandi alþjóðavæðing efnahagskerfa heimsins hefur á undanförnum árum leitt til áherslubreytinga innan Alþjóðabankans sem miða að því að stofnunin geti betur brugðist við áskorunum líðandi stundar og náð settum markmiðum. Núverandi forseti Alþjóðabankans, sem kemur frá Bandaríkjunum, Dr. Jim Kim, hefur þannig lagt ríka áherslu á að Alþjóðabankinn verði í auknum mæli lausnamiðaður, praktískur og skilvirkur í starfi sínu við að styrkja innviði í þróunarlöndunum og að tryggja sjálfbæran hagvöxt í sessi til lengri tíma. Alþjóðabankinn sé alþjóðleg lausnaveita fyrir styrkingu innviða í þróunarlöndunum.

Styrkileiki Alþjóðabankans að þróa lausnir
Styrkleiki Alþjóðabankans felst meðal annars í getu hans til að þróa lausnir til að koma til móts við þarfir þróunarlandanna og þær áskoranir sem þau þurfa að takast á við að tryggja þegnum sínum bætt lífskjör. Þetta starf byggir á traustum grunni þeirrar gífurlegu uppsöfnuðu reynslu og sérþekkingar sem í bankanum býr. Nefna má að heildarlánveitingar bankans hafa farið vaxandi undanfarin ár en eftirspurn eftir lánum og sérfræðiþekkingu Alþjóðabankans hefur sjaldan verið meiri. Hér gegnir sú tæknilega aðstoð til handa þróunarlöndum sem fylgir lánveitingum frá Alþjóðabankanum afar þýðingarmiklu hlutverki og má telja einn helsta styrkleika hans.

Á vorfundi Alþjóðabankans í apríl síðastliðnum var áréttað að styrkja þurfi bankann enn frekar fjárhagslega til að hann geti gegnt hlutverki sínu og tekist á við þær áskoranir sem blasa við. Rík áhersla var á að efla hlutverk einkageirans í fjármögnun þróunarverkefna til að skapa ný störf og leggja grunn að auknum hagvexti til framtíðar, ekki síst í Afríku. Í því samhengi gegnir Alþjóðalánastofnunin, IFC, lykilhlutverki innan Alþjóðabankahópsins.

Ársskýrsla Alþjóðabankans árið 2016.
En nánar um skilgreind markmið Alþjóðabankans. Á ársfundi bankans árið 2013 varð samkomulag um að endurskilgreina markmið hans sem eru nú eftirfarandi:

Binda enda á sárafátækt í heiminum þ.e. að hlutfall heimsbyggðar sem lifir á minna en 1.25 bandaríkjadölum á dag verði lækkað í 3% árið 2030.

Stuðla að aukinni hagsæld og velmegun fyrir þá fátækustu (e. Promote shared prosperity) - þ.e. að hlutfallslega meiri tekjuhækkun verði á meðal þeirra 40% sem eru hvað fátækastir í þróunarlöndunum.

Auk samþykktar ofangreindra meginmarkmiða áttu sér stað skipulagsbreytingar innan bankans og margvíslegar endurbætur á innri verkferlum í því skyni að gera starf hans hnitmiðaðra og skilvirkara auk þess að minnka skrifræði og tilkostnað. Breytingarnar miða að því að gera bankann árangursmiðaðri og afkastameiri.

Samstarf við fjölþjóðlegar fjármálastofnanir og Sameinuðu þjóðirnar.

Ofangreind markmið Alþjóðabankans eru afar metnaðarfull og njóta víðtæks stuðnings allra aðildarríkja hans.  Ljóst er þó að þeim verður ekki náð nema með nánu samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar og aðrar fjölþjóðlegar fjármálastofnanir sem sinna þróun og fjármögnun innviðauppbyggingar í þróunarlöndunum.

Skilvirk samvinna Alþjóðabankans við Innviðafjárfestingarbanka Asíu (Asian Infrastructure Investment Bank, AIIB) sem stofnaður var árið 2015 er afar þýðingarmikil. Mikilvæg skref voru stigin í þessa átt á vorfundi Alþjóðabankans í apríl sl. með undirritun viljayfirlýsingar um aukið og dýpkað samstarf bankanna vegna verkefnaþróunar. Þegar þetta er ritað hafa verið samþykkt fimm sameiginlega fjármögnuð þróunarverkefni bankanna beggja í Pakistan, Aserbaídsjan og Indónesíu.

Náið samstarf Alþjóðabankans við stofnanir Sameinuðu þjóðanna er mikilvægur þáttur í starfi bankans á sviði þróunarmála og órjúfanlegur hluti af samþykktri framtíðarsýn bankans (Forward Look). Hér liggja Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og Parísarmarkmiðin til grundvallar og þar er fullur samhljómur með markmiðum bankans.

Þegar litið er til samvinnu Alþjóðabankans og stofnana Sameinuðu þjóðanna þá hefur hún á undanförnum árum farið stigvaxandi á fjöldamörgum áherslusviðum. Hún hefur jafnframt orðið dýpri, hagnýtari og skilvirkari. Alþjóðabankinn hefur lagt áherslu nýta styrkleika sína er byggja á sérfræðiþekkingu, rannsóknar- og greiningarvinnu,  magni lánveitinga ásamt vogarafli hans til að koma aðilum að borðinu. Skilvirkt samstarf stofnananna í þróunarlöndunum er nauðsynlegt  til að tryggja betri árangur þeirra á vettvangi og koma í veg fyrir mögulega samkeppni og tvíverknað.

Áhersla á samvirkni og tengsl þróunar- og neyðaraðstoðar
Dæmi um málefnasvið sem eru áberandi í umræðu innan Alþjóðabankans og vitna um lausnamiðaða nálgun, aukna samvinnu við kerfi Sameinuðu þjóðanna og samvirkni þróunar- og mannúðaraðstoðar, eru aðgerðir Alþjóðabankans til að efla framlag sitt til að tryggja stöðugleika í fátækum og óstöðugum ríkjum, aukin aðstoð vegna flóttamannavandans í heiminum og á sviði mannúðaraðstoðar líkt og í tilfelli ebólu-faraldursins. Á þessum sviðum leggur bankinn áherslu á að nýta sérþekkingu sína, rannsóknar- og greiningargetu og fjárhagslegt bolmagn í náinni samvinnu við viðeigandi stofnanir Sameinuðu þjóðanna - undirbyggja og styðja starfsemi þeirra, þróa ný úrræði, án þess að til tvíverknaðar komi. 

Alþjóðabankinn leggur þannig áherslu á samvirkni þróunar- og neyðaraðstoðar til að takast á með fyrirbyggjandi hætti við þau verkefni sem skapast á hvoru sviði fyrir sig. Ekki sé hægt að líta þessa málaflokka sem aðskilda. Átjánda endurfjármögnun Alþjóðaframfarastofnunar, IDA, sem samþykkt var í desember sl. gegnir hér mikilvægu hlutverki en IDA er sú stofnun bankans sem vinnur með fátækustu ríkjunum, veitir þeim styrki og lán. Þar var framlag Alþjóðabankans til óstöðugra ríkja og flóttamannavandans í heiminum aukið verulega, auk þess sem lögð var áhersla á loftlagsbreytingar, jafnrétti kynjanna, atvinnumál og hagþróun ásamt stjórnsýslu og stofnanir. Lögð er áhersla á að nýta með skipulagðari og skilvirkari hætti sérþekkingu og landaskrifstofur Alþjóðabankans í óstöðugum ríkjum í nánu samstarfi við viðeigandi stofnanir Sameinuðu þjóðanna.

Þegar kemur að viðbrögðum við flóttamannavandanum í heimunum leggur Alþjóðabankinn áherslu á rannsóknir, kerfisbundna söfnun og greiningu upplýsinga um ástæður og þróun vandans auk þess að veita ríkjum ráðgjöf um úrræði sem og að veita fjármagni til aðstoðar við flóttamenn í móttökulöndum. Alþjóðabankinn hefur þannig í stefnuáætlun sinni gagnvart Mið-Austurlöndum þróað hugvitsamleg fjármögnunartæki (WBG Global Concessional Facility) til að aðstoða stjórnvöld í Jórdaníu og Líbanon við að hýsa og mennta flóttamenn frá Sýrlandi en þessi ríki hafa ekki verið í aðstöðu til að taka lán á markaðsvöxtum til að fjármagna aðstoð við flóttamenn. Við þróun slíkra úrræða vinnur Alþjóðabankinn í náinni samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNCHR).

Á sviði mannúðar- og neyðaraðstoðar hefur Alþjóðabankinn á þessu ári varið 1.6 milljörðum bandaríkjadala til stuðnings við aðgerðir Sameinuðu þjóðanna til að stemma stigu við hungursneyð í Austur-Afríku og Jemen. Einnig ber að nefna sértækt starf bankans að fjármögnun vegna hættulegra faraldra og heilbrigðisógna í þróunarlöndunum. Vinna er í undirbúningi sem miðar að því að gera bankanum kleift að veita fjármagn með skjótvirkari hætti til neyðarsvæða blasi alvarlegur faraldur við í þróunarlöndunum.

Alþjóðabankinn gegndi þannig mikilvægu stuðningshlutverki í fjármögnun aðgerða alþjóðasamfélagsins gegn ebólu-faraldrinum sem kostaði þúsundir mannslífa og lamaði efnahags- og atvinnulíf í Líberíu, Síerra Leóne og Gíneu. Alþjóðabankinn varði meira en milljarði Bandaríkjadala úr neyðarsjóðum bankans til að stemma stigu við útbreiðslu  ebólu, með því að styðja við og undirbyggja aðgerðir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) gegn ebólu.

Áherslur Íslands innan Alþjóðabankans
Alþjóðabankinn er ein af fjórum áherslustofnunum Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Ísland hefur ávallt tekið virkan þátt í stefnumótun bankans með reglulegri stjórnarsetu og þátttöku í starfi kjördæmis Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í bankanum. Í hnotskurn má segja að Ísland hafi lagt áherslu á jarðhita, fiskimál, jafnréttis- og mannréttindamál og veitt eru framlög til sjóða innan bankans á þessum sviðum.

Ísland og Alþjóðabankinn hafa átt farsælt samstarf í jarðhitamálum um nokkurt skeið og beitt sér fyrir því að bankinn hefur gert stuðning við jarðhitanýtingu að forgangsverkefni. Ísland er virkur þátttakandi í ESMAP verkefninu (Energy Sector Management Program) sem hefur það hlutverk að veita þróunarríkjum tæknilega ráðgjöf á sviði orkumála.

Ísland leggur ríka áherslu á jafnréttismál í allri starfsemi Alþjóðabankans og til að styðja framgang þeirra hefur Ísland veitt framlög til verkefnis um kynjajafnrétti og málefni kvenna (UFGE). Meginmarkmið þess er að auka þekkingu á jafnréttismálum innan bankans og efla samþættingu jafnréttissjónamiða í verkefnum á hans vegum.

Að síðustu má nefna áherslur Íslands á sviði fiskimála í því skyni að styrkja sjálfbæra fiskveiðistjórnun, vinna að efnahagslegum og félagslegum framförum, byggja upp fiskistofna og auka afrakstur þeirra. Nánari umfjöllun um áherslur Íslands innan Alþjóðabankans má finna í Heimsljósi 22. febrúar síðastliðinn.

facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105