Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
10. árg. 313. tbl.
1. febrúar 2017
Guterres hrósar Afríkuríkjum fyrir að hafa landamæri opin fyrir flóttafólk
Stríðshrjáðir íbúar Suður-Súdan flýja yfir til Úganda.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hrósar Afríkuríkjum fyrir að opna landamæri sín fyrir flóttafólki og öðrum sem flýja ofbeldi á sama tíma og skellt er í lás og byggðir múrar í öðrum heimshlutum, þar á meðal í þróuðum ríkjum Vesturlanda.

Guterres lét þessi orð falla á mánudag í Addis Ababa þar sem tugir þjóðarleiðtoga Afríkuríkja eru saman komnir á leiðtogafundi Afríkusambandsins, að því er fram kemur í  frétt  frá AP.

"Afríkuþjóðir eru meðal þeirra þjóða í heiminum sem taka við flestum flóttamönnum og sýna mestu gestrisni," sagði Guteeres en hann sækir leiðtogafundinn í Eþíópíu í fyrsta sinn sem yfirmaður Sameinuðu þjóðanna. "Landamæri Afríkuþjóða standa opin fyrir þá sem þurfa á vernd að halda á sama tíma og mörgum landamærum hefur verið lokað, jafnvel meðal þróuðustu þjóða í heiminum."
 
Fram kemur í fréttinni að Guterres hafi ekki með beinum hætti vísað í tilskipun Bandaríkjaforseta um byggingu múrs á landamærunum við Mexíkó né ferðabannsins gegn fólki frá sjö múslimaríkjum, þeirra á meðal þremur í Afríku. Ummælunum var hins vegar afar vel tekið af þeim 2,500 þátttakendum sem sóttu leiðtogafundinum.
 
Kvikmyndabrot frá landamærastöðvum í Úganda í lok nóvember á síðasta ári/ ICEIDA
Rúmlega fjórðungur allra flóttamanna í Afríku
Á blaðamannafundi kvaðst Guterres vonast til þess að ferðabannið til Bandaríkjanna yrði aðeins tímabundið. "Það er alveg ljóst í mínum huga að vernd flóttamanna er eitthvað sem er algerlega ómissandi... og  það er löng hefð í Bandaríkjunum fyrir flóttamannavernd."
 
Fjölmennustu flóttamannabúðir í heiminum eru  í Dadaab í Kenía með álíka marga íbúa og á öllu Íslandi, rúmlega 300 þúsund manns, flestir frá nágrannaríkinu Sómalíu. Í sunnanverðri Afríku eru rúmlega 18 milljónir flóttamanna eða um 26% allra flóttamanna í heiminum, samkvæmt tölum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Flestir þeirra hafa flúið átök í Sómalíu, Miðafríkulýðveldinu, Nígeríu, Suður-Súdan og Búrúndí.
 
Á leiðtogafundinum í Addis var Moussa Faki Mahamat utanríkisráðherra Tjad kjörinn yfirmaður framkvæmdastjórnar Afríkusambandsins. Hann tekur við af Nkosazana Dlami-Zuma frá Suður-Afríku. Forseti Gíneu, Alpha Conde, hefur tekið við sem forseti Afríkusambandsins af Idris Deby, forseta Tjad. Beiðni Marokkó um aðild að sambandinu var samþykkt á fundinum í Addis.

"Neyðarsjóðurinn er líflína fyrir fólk sem lendir í hremmingum sem vekja litla eftirtekt þótt neyðin sé jafn mikil," sagði António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á mánudag þegar hann afhenti Neyðarsjóði samtakanna (CERF) 100 milljónir bandarískra dala - um 12 milljarða íslenskra króna - sem ráðstafað verður til stuðnings sex milljónum manna á átakasvæðum í níu löndum. 

Um er að ræða átakasvæði sem jafnan fer lítið fyrir í opinberri umræðu og CERF vísar einfaldlega til sem vanrækta neyð.

Mannleg þjáning á þessum svæðum er yfirþyrmandi en fjárhagslegur stuðningur við fólk af skornum skammti. Neyðarsjóðurinn mun ráðstafa umræddu fjármagni til sex milljóna manna í Nígeríu, Kamerún, Níger, Úganda, Líbíu, Malí, Sómalíu, Madagaskar og Norður-Kóreu.

Tvisvar á ári fær Neyðarsjóður Sameinuðu þjóðanna fjármagn sem sérstaklega er ætlað að fjármagna bráðnauðsynlega aðstoð við fólk á átakasvæðum sem býr við mikla neyð og fær minnstan stuðning. Af hálfu samræmingarstjóra Sameinuðu þjóðanna um neyðaraðstoð er metið á hvaða átakasvæðum brýnast er að veita aðstoð og byggir það mat á nákvæmri greiningu og samráði við ýmsa aðila.

Af þeim sex milljónum manna sem koma til með að njóta stuðnings Neyðarsjóðs SÞ á næstunni eru langflestir í löndunum þar sem vígasveitir Boko Haram hafa hrellt íbúana, þ.e. í Nígeríu, Kamerún og Níger en þúsundir flóttamanna í Úganda, Líbíu og Sómalíu fá einnig stuðning með fjárframlaginu.

Neyðarsjóður SÞ, CERF (Central Emergency Response Fund), var stofnaður 2006 til að gera SÞ kleift að bregðast annars vegar hraðar við neyðarástandi og hins vegar til að veita nauðsynlega aðstoð til mannúðarverkefna sem ná minni athygli umheimsins eða hafa ekki náð að laða að sér nægt fjármagn frá framlagsríkjum. Nefna má sem dæmi um viðbragðsgetu sjóðsins að aðeins liðu tíu klukkustundir frá því jarðskjálfti skall á Haítí árið 2010 þangað til sjóðurinn var búinn að veita fyrstu greiðslu til neyðaraðstoðar þar. Af dæmum um undirfjármagnaða neyð sem sjóðurinn hefur nýlega stutt við má nefna framlög í þágu flóttamanna í Úganda, Kenía og Tansaníu vegna átaka í nágrannaríkjum, í Suður-Súdan, Kongó og Búrúndí.

Frá upphafi var markmið sjóðsins að safna 450 milljónum Bandaríkjadölum á ári til að veita í mannúðaraðstoð en markmiðið var nýlega aukið í einn milljarð dala fyrir 2018. Gífurleg aukin fjárþörf til mannúðarmála kallar á þá hækkun.

35 milljónir frá Íslandi á síðasta ári
Frá upphafi hafa helstu framlagsríki CERF verið Norðurlöndin, Bretland, Holland, Kanada, Belgía og Írland. Ísland hefur veitt framlög til sjóðsins frá upphafi. Á síðasta ári nam framlag Íslands til CERF 35 milljónum króna.
 

Mótmæli víða um heim vegna tilskipunar Bandaríkjaforseta gegn flóttafólki og múslimum:
"Fjarri lagi að bann sé besta leiðin"
Frá mótmælum í vikunni í Washington.
 
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
"Ég tel það fjarri lagi að bann við komu flóttafólks og íbúa ákveðinna ríkja sé besta leiðin til að tryggja öryggi Bandaríkjanna, sem er yfirlýst markmið tilskipunarinnar," segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Í frétt á vef ráðuneytisins segir hann öryggissjónarmið skipta þegar miklu máli á sama tíma og hryðjuverkaógnin á Vesturlöndum fari vaxandi. "En að loka landamærum fyrir fólki sem er á flótta undan stríði, og gera upp á milli fólks á grundvelli þjóðernis eða trúar, getur ekki verið rétta leiðin og gefur röng skilaboð," segir Guðlaugur Þór. "Í innflytjendum og flóttafólki felst framar öðru mannauður og fjölbreytt reynsla sem er til þess fallin að auðga samfélög."
 
Í frétt Morgunblaðsins í vikunni kom fram að ut­an­rík­is­ráðherra ætl­ar að ræða við nor­ræna starfs­bræður sína næstu daga og ræða hvort til­skip­un Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seta um að banna fólki frá ákveðnum ríkj­um í Miðaust­ur­lönd­um að koma til Banda­ríkj­anna verði mót­mælt sam­eig­in­lega á nor­ræn­um vett­vangi.

Sýrlenskir flóttamenn til Íslands
 
Á sama tíma og Bandaríkjastjórn lokar landinu fyrir flóttafólki frá Sýrlandi tóku Íslendingar á móti fimm fjölskyldum, alls 22 einstaklingum. Guðni Th. Jóhannesson og eignkona hans, Eliza Reid, tóku á móti hópnum á Bessastöðum ásamt ráðherra velferðarmála og borgarstjóranum í Reykjavík, auk fulltrúa frá Rauða krossi Íslands.
Þúsundir álitsgjafa Alþjóðabankans:
Menntun hvarvetna talin mikilvægasta verkefni í þróunarstarfi

Á síðustu fimm árum hafa á vegum Alþjóðabankans verið gerðar kannanir meðal rúmlega 25 þúsund álitsgjafa á sviði þróunarmála í öllum ríkjum þar sem bankinn starfar.

Spurt var: Hvað er mikilvægasta svið þróunar í landi þínu?

Fulltrúar ríkisstjórna, sveitarstjórna, tvíhliða- og marghliða þróunarsamvinnustofnana, fjölmiðla, fræðafólks, einkageirans og borgarasamfélagins hafa verið spurðir og niðurstaðan er sú að "menntun" er hvarvetna talin meðal tveggja mikilvægustu þáttanna þegar kemur að þróun.

Eins og flestir vita er "menntun fyrir alla" fjórða Heimsmarkmiðið. Fyrsta undirmarkmiðið er orðað á þennan hátt: "Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allar stúlkur og drengir ljúki á jafnréttisgrundvelli gæðamenntun á grunnskólastigi  án endurgjalds sem leiðir til góðs námsárangurs miðað við stöðu hvers og eins."

Í aðdraganda Heimsmarkmiðanna fór fram viðamesta skoðanakönnun sem um getur með þátttöku hundruð þúsunda. Þar varð "menntun" einnig efst á blaði.

Aðgerðaáætlun SÞ fyrir Sýrland og nágrannaríkin

Finnsk stjórnvöld og Sameinuðu þjóðirnar boðuðu á dögunum til fundar í Helsinki þar sem aðgerðaáætlun um mannúðaraðstoð í nágrannaríkjum Sýrlands var kynnt, eins og fram í síðasta Heimsljósi. Fulltrúar nágrannaríkjanna og framlagsríkja - þar á meðal Íslands - og yfirmenn helstu undirstofnana SÞ sem vinna að mannúðarmálum sóttu fundinn.

Sameinuðu þjóðirnar gera tvær aðskildar aðgerðaáætlanir um mannúðaraðstoð fyrir Sýrland og nágrannaríki þess. Áætlunin fyrir Sýrland nefnist á ensku Syria Humanitarian Response Plan (HRP) og áætlunin um aðstoð vegna flóttamannavandans í nágrannaríkjum Sýrlands nefnist á ensku Regional Refugee and Resilience Plan (3RP). Áætlunin fyrir Sýrland var ekki opinberlega kynnt í Helsinki, þar sem beðið er samþykki stjórnvalda í Sýrlandi.

HRP aðgerðaáætlunin fyrir Sýrland gerir ráð fyrir að veita 13,5 milljónum Sýrlendinga innan landamæranna aðstoð en af þeim eru  4,6 milljónir á svæðum sem erfitt er að ná til, þ.m.t. svæðum undir yfirráðum íslamska ríkisins, og um 700 þúsund íbúar búa á umkringdum/lokuðum svæðum, m.a. svæðum í borgunum Aleppó, Idlib og Damaskus. Rúmlega 3,4 milljarða Bandaríkjadala þarf til að fjármagna alla áætlunina innan Sýrlands, þar af rúmlega 1,3 milljarða vegna matvælaaðstoðar, sem er langumfangsmesti málaflokkurinn.

86% undir fátæktarmörkum
Til marks um stærð vandans meðal íbúanna innan Sýrlands áætla Sameinuðu þjóðirnar að 86% landsmanna séu undir fátæktarmörkum, atvinnuleysi sé 57% og ekki minna en 7 milljónir þurfa á matvælaaðstoð að halda. Tæpar tvær milljónir skólabarna geta ekki sótt skóla og tæpar 13 milljónir þurfa aðstoð við heilbrigðisþjónustu eða lyf. Hjálparstarfi á svæðinu er gert erfiðara um vik þegar aðgengi SÞ og hjálparsamtaka er síendurtekið hindrað af bæði stjórnvöldum og uppreisnarmönnum.

Flóttamannastraumurinn til nágrannaríkjanna hefur haft gríðarlegar afleiðingar á samfélag og efnahag þeirra. Í Helsinki var kynnt aðgerðaáætlun SÞ (3RP) fyrir nágrannaríkin Líbanon, Tyrklandi, Jórdaníu, Írak og Egyptalandi. Áætlunin samþættir aðgerðir 240 samstarfsaðila en þar á meðal eru undirstofnanir SÞ, borgarasamtök, opinberir aðilar og aðrir aðilar sem veita mannúðaraðstoð. Áætlunin gerir ráð fyrir að ná til 9,3 milljóna manna sem þurfa á aðstoð að halda í nágrannaríkjunum, 4,8 milljónir eru sýrlenskt flóttafólk og 4,4 milljónir eru íbúar gistiríkjanna sem þurfa aðstoð vegna flóttamannavandans.

Tæplega 4,7 milljarða Bandaríkjadala þarf til að fjármagna 3RP áætlunina fyrir nágrannaríkin á árinu 2017: 2,6 milljarða til neyðaraðstoðar fyrir flóttafólk og 2,1 milljarða til að bregðast við efnahagslegum afleiðingum af átökunum í Sýrlandi og flóttamannastraumnum. Sex árum eftir að átökin í Sýrlandi hófust, hafa áhrifin einungis aukist og staða bæði flóttafólksins og íbúa gistiríkjanna hefur stöðugt versnað.
Aðgerðaáætlunina fyrir nágrannaríkin og frekari upplýsingar um hana má nálgast hér.

Vísindi fólksins og ebólufaraldurinn:
Samfélögin sjálf brugðust við sjúkdómnum og höfðu sigur
Þremur árum eftir að ebóla gaus upp í þremur ríkjum í vestanverði Afríku er enn verið að draga lærdóm af faraldrinum. Athygli er vakin á því í fréttaskýringu IRIN að óvæntustu tíðindin komi ekki frá vísindamönnum heldur innan úr samfélögunum sem verst urðu úti þegar faraldurinn geisaði; hvernig samfélögin, óstudd að mestu, brugðust við sjúkdómnum og höfðu sigur.
 
"Einn forvitnilegasti þáttur faraldursins sem geisaði í Gíneu, Líberíu og Síerra Leone, var sá hvernig smituðum tók að fækka áður en alþjóðasamfélagið brást við. Á einu svæði eftir öðru smituðust margir á skömmum tíma - og síðan gerðist það skyndilega að smituðum tók að fækka," segir í grein IRIN. "Ebólan lét fyrst á sér kræla í Gíneu og barst þaðan inn í Lofa sýslu í Líberíu í marsmánuði 2014. Skyndimeðferðarstöð í Foya, á landamærunum, varð fljótt sneisafull. Í september það ár voru þar sjötíu sjúklingar í senn. Síðla októbermánaðar var stöðin tóm."
 
Vísindi fólksins

IRIN vitnar til Paul Richards sem er breskur mannfræðingur og kennari við Njala háskólann í Síerra Leone. Í fréttaskýringunni segir að Paul sé sannfærður um að lykilatriðið við að draga úr úrbreiðslu sjúkdómsins hafi verið það sem hann kallar "vísindi fólksins", sú staðreynd að fólk á smituðu svæðunun hafi nýtt reynslu sína og brjóstvit til að skilja hvað væri að gerast og í beinu framhaldi byrjað að breyta hegðun sinni til samræmis.

Á fundi nýverið í Lundúnum sagði Paul Richards: "Eitt það helsta sem styður þá skoðun mína að viðbrögð heimafólks hafi verið mikilsverð er sú staðreynd að sjúkdómstilvikum fækkaði fyrst þar sem faraldurinn hófst, sem þýðir að því meiri reynsla sem fékkst af sjúkdómnum því meiri líkindi voru til þess að tölurnar færu lækkandi. Þannig að það var einhver að læra... Fólk spyr mig: hversu langan tíma tekur að læra? Við vitum ekki svarið en byggt á þessari reynslu þá eru það um sex vikur."


Skuldbinding stjórnvalda gagnvart hungri og vannæringu:
Malaví í öðru sæti á lista Afríkuþjóða á eftir Suður-Afríku
Verulegur munur er á viðleitni stjórnvalda í Afríkuríkjum þegar horft er til skuldbindinga sem þjóðirnar hafa gert til að binda enda á hungur og vannæringu. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem birt var á dögunum. Athygli vekur að Malaví er í öðru sæti á þessum lista. Suður-Afríka er sjónarmun ofar en Madagaskar hreppir þriðja sæti listans.

Listanum er ætlað að vekja þjóðarleiðtoga í álfunni til vitundar um stöðu þessa málaflokks en eins og alkunna er búa milljónir Afríkubúa við alvarlega vannæringu og jafnvel sult. Samkvæmt frétt á vefnum HANCI-Index -þar sem er að finna listann í heild og aðferðarfræðina að baki rannsókninni - kemur fram að 220 milljónir Afríkubúa líða fyrir varanlega vannæringu og 58 milljónir barna búa við vaxtarskerðingu.

Í umsögn um bæði Suður-Afríku og Malaví kemur fram að báðar þjóðirnar hafa stjórnarskrárvarinn rétt þegnanna til að njóta matar auk þess sem báðar þjóðirnar hafa stórbætt heilbrigðisþjónustu. Í Suður-Afríku er einnig almannatryggingakerfi. Hins vegar er aðgengi íbúa beggja þjóðanna að viðunandi salernisaðstöðu ófullnægjandi líkt og víða annars staðar en þriðjung íbúa þjóðanna sunnan Sahara skortir sómasamleg náðhús. Vakin er athygli á því að skuldbinding stjórnvalda í Malaví sé mikilvæg nú á tímum matvælaskorts af völdum gífurlega þurrka.


Mótmælum íslenskra stjórnvalda komið á framfæri
Benjamin Ziff og Guðlaugur Þór Þórðarson.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, kom í gær- morgun á framfæri mótmælum íslenskra stjórnvalda við tilskipun Bandaríkjaforseta um bann við komu flóttafólks og borgara sjö ríkja til Bandaríkjanna á fundi með Benjamin Ziff, aðstoðarráðherra í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, sem staddur er hér á landi. Gerði ráðherra meðal annars grein fyrir þeim afleiðingum sem bannið hefði hérlendis á íslenska ríkisborgara með tvöfalt ríkisfang sem eiga uppruna sinn að rekja til þeirra ríkja sem bannið nær til. 

"Bandaríkin hafa ætíð, og framar flestum öðrum, tekið opnum örmum á móti innflytjendum sem hafa mótað samfélagsgerðina þar í landi með mjög jákvæðum og afgerandi hætti. Tilskipun Bandaríkjaforseta er því mjög fjarri því sem við höfum átt að venjast frá Bandaríkjunum, og þeim gildum sem við eigum sameiginleg. Í því felast mikil vonbrigði og því var mikilvægt að koma skilaboðum á framfæri með skýrum hætti og milliliðalaust. Sá er vinur er til vamms segir," segir Guðlaugur Þór.

Utanríkisráðherra kom einnig á framfæri mótmælum við tilskipun Bandaríkjaforseta um að ekki megi veita fé til samtaka eða stofnana sem veita upplýsingar um fóstureyðingar eða veita aðgang að öruggum fóstureyðingum erlendis.

"Aðgengi að öruggum fóstureyðingum er mikilvægt mannréttinda- og heilbrigðismál og því veldur sú tilskipun Bandaríkjaforseta sömuleiðis miklum vonbrigðum," segir Guðlaugur Þór.

Nánar á vef utanríkisráðuneytis

Áhugavert

-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-

Kvenbændur í Austur-Kongó takast á við loftslagsbreytingar
Awa Ndiaye Seck/ Ljósmynd: UN Women DCR.

UN Women hefur sett á laggirnar verkefni í Austur-Kongó (DRC) sem er fyrsta sinnar tegundar. Markmiðið er að takast á við breyttan landbúnað vegna loftslagsbreytinga og um leið auka jafnrétti kynjanna með því að styðja við og valdefla kvenbændur í Austur-Kongó, fyrst og fremst með fræðslu- og leiðtogahæfnisnámskeiðum, að því er fram kemur á vef UN Women á Íslandi.

Einnig er markmiðið að þrýsta á lagaumbætur sem tryggja konum aðgang að ræktunarlandi, nýjustu tækni og upplýsingum. "Þannig geta þær orðið sér út um nýjustu ræktunaraðferðir og tækni, veðurspá og aðgang að lánsfé. Verkefnið verður starfrækt í sex héruðum landsins og hefur bein áhrif á líf 600 þúsund kvenna á næstu fimm árum. Beint verður sjónum að kvenbændum sem koma að ræktun fimm algengustu ræktunartegunda í Kongó; maís, cassava, baunir, hnetur og hrísgrjón," segir í fréttinni.

Awa Ndiaye Seck starfar fyrir UN Women í Austur-Kongó, hún segir konur verða verr fyrir barði loftslagsbreytinga en karlmenn, bæta þurfi ræktunaraðferðir, starfsumhverfi þeirra og síðast en ekki síst veita þeim sömu tækifæri til atvinnu og sjálfbærni. Efnahagur Austur-Kongó byggir fyrst og fremst á landbúnaði og skógrækt.

 Loftslagsbreytingar hafa leitt til hærra hitastigs í heiminum, aukinna flóða og þurrka sem hafa gríðarleg áhrif á uppskeru og fæðuöflun þar í landi sem og víðar, segir í frétt UN Women.


How technology can help disaster response/ TheGuardian
-
Civilian death toll in Yemen reaches 10,000, with 10 million in urgent need of aid/ LimaCharlieNews
-
Billion-dollar pledges to save the world mean little if governments don't pay up/ TheGuardian
-
"Trump förstör för miljontals kvinnor"/ OmVärlden
-
Zimbabwe: 70 Die in Floods, As Citizens Continue to Take Risks/ AllAfrica
-
Why Global Growth Is Still Feeble, in Eight Charts/ WSJ
-
Helen Clark stepping down from UN role/ RadioNZ
-
Ligestillingsminister vil skabe alliancer med afrikanske kollegaer/ GlobalNyt
-
Under cover of night, Syrian wounded seek help from enemy Israel/ Reuters
-
WFP Scales Up And Humanitarian Community Reduces Hunger In Northeast Nigeria/ WFP
-
Europe faces droughts, floods and storms as climate change accelerates/ TheGuardian
-
Basic Education in Sudan: The Long Road to Stability/ Alþjóðabankinn
-
Malawi's LGBT battle for healthcare/ DW
-
Mozambique may have a way out of its billion dollar secret debt-but it probably won't use it/ Qz
-
'Systemic corruption' in Africa, watchdog says/ DW
-
After Gambia's dictator, democracy?/ Economist
-
Gambia finally welcomes its first new president in two decades/ Quartz
-
All eyes are on Guterres as he appoints several women to top UN posts/ Devex
-
Óttast hungursneyð í Jemen/ Mbl.is
-
Africa's startups will build a stronger ecosystem with local funding/ Qz
-
Malawi: Pop Star Rihanna Meets Lilongwe Girls Secondary School Students During Malawi Charity Trip/ AllAfrica
-
WAR ORPHANS: Single refugee mothers/ D+C
-
The African towns falling into decline and poverty after mining companies use resources then exit/ TheConversation
-
Milljónir horfa fram á skort/ Mbl.is
-
9 maps and charts that explain the global refugee crisis/ Vox

Ekkert barn má svelta

Danska sjónvarpið og tólf stór dönsk hjálparsamtök standa fyrir söfnunarþætti á laugardaginn með þessari yfirskrift: að ekkert barn megi svelta. Ætlunin er að nota söfnunarféð meðal annars til þess að styðja við börn með fötlun í Himalæjafjöllum í vesturhluta Nepal. Þar eins og víðar eru fötluð börn falin, hvort heldur þau eru líkamlega eða andlega fötluð, vegna þess að fjölskyldurnar skammast sín fyrir börnin. Af þeirri ástæðu fá börnin líka mat af skornum skammti og þurfa oft að biðja um að fá eitthvað að borða, að því er fram kemur í frétt GlobalNyt.


Kjördæmisfundir Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna hjá alþjóðlegu þróunarbönkunum

Dagana 24. og 25. janúar voru haldnir í Helsinki fundir kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja hjá alþjóðlegu þróunarbönkunum. Fulltrúar frá þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins og fjármálaráðuneytinu sóttu fundina. Fyrri daginn fór fram yfirferð yfir stöðu þróunarbankanna þar sem árskoranir og tækifæri bankanna á alþjóðavettangi voru ofarlega á baugi. Seinni daginn sóttu fulltrúar þróunarsamvinnuskrifstofu fund kjördæmisins hjá Alþjóðabankanum sem er meðal annars liður í undirbúningi og samræmingarstarfi kjördæmisins fyrir vorfund Alþjóðabankans í Washington í apríl.

Þrjátíu sæta fall Mósambíkur á spillingarlista
 
eftir Vilhjálm Wiium forstöðumann sendiráðs Íslands í Mapútó
 
Fyrir örfáum dögum birti Transparency International - Alþjóðagegnsæissamtökin - spillingarlista sinn fyrir 2016. Listinn sýnir allflest lönd heims og er huglægur mælikvarði á spillingu. Huglægur, því hann byggir á skoðanakönnunum þar sem fólk, og forsvarsmenn fyrirtækja og stofnana, er beðið um álit á margskonar spillingu í sínu landi. Einhvers konar upplifunar- eða skynjunarmæling. Hæsta gildið á kvarðanum er 100 - engin spilling - og lægsta gildið er 0 - algjört spillingarbæli.

Mósambík hefur alltaf verið frekar neðarlega á listanum. Síðustu 4-5 ár hefur landið fengið annað hvort 30 eða 31 stig á spillingarkvarðanum. Spilling í landinu hefur verið álitin margskonar, t.d. svokölluð stórtæk spilling þar sem háttsettir embættis- og stjórnmálamenn hafa sankað að sér fúlgum fjár, iðulega með svindli í opinberum innkaupum. Svo er ýmisleg skriffinnskuspilling þar sem skriffinnar og möppudýr misnota aðstöðu sína og heimta peninga, mútur, fyrir að vinna vinnuna sína. Lögreglan er illa liðin af almenningi, en hún sektar fólk fyrir allskonar, t.d. að hafa olnbogann út um bílgluggann. Síðan eru allskonar vinargreiðar í gangi og þá skiptir máli að þekkja rétta fólkið.

Miðað við önnur lönd var Mósambík í 119. sæti á listanum 2013 og hafði mjakast upp í 112. sæti 2015. En á nýútgefna listanum fyrir síðasta ár þá hrapar Mósambík um heil 30 sæti og situr nú í 142. sæti.

Meginástæðan fyrir hrapinu er án efa sú að á síðastliðnu ári hafa komið í ljós gríðarleg spillingarmál fyrri ríkisstjórnar og forseta. Upphæðirnar sem um ræðir eru þvílíkar að fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa lýst því yfir að þeir hafi aldrei séð annað eins. Í stuttu máli voru ríkisábyrgðir veittar á lán þriggja einkafyrirtækja, ábyrgðir fyrir samtals um 2,2 milljörðum bandaríkjadala. Í okkar ástkæru krónum eru þessar ábyrgðir einhvers staðar á bilinu 250-300 milljarðar. Ekkert er vitað um hvert stærsti hluti þessara lána fór. Mósambíska þingið veitti ekki heimild fyrir ríkisábyrgðum og var lánunum haldið leyndum í á annað ár. Nú standa stjórnvöld frammi fyrir þeim veruleika að þurfa að borga og hefur ríkissjóður engin tök á því. Stjórnvöld hafa lýst yfir að þau geti ekki staðið skil á afborgunum og vilja endursemja við lánadrottna. Enginn veit hvernig þetta mun enda.

Út af þessu máli álíta fræðingar að fólk meti spillingu meiri en áður og það skýrir þetta 30 sæta fall.

Áleitin spurning er, hins vegar, hvort eitthvað raunverulegt hafi breyst frá síðustu mælingum. Nú veit fólk meira en áður. Ekki leikur efi á að þessi lán, sem eru kölluð leynilánin, hafa svift stjórnvöldum öllum trúverðugleika og því er ekki undarlegt að huglæg mæling á spillingu taki stórt stökk til hins verra.
En hvort spillingin sé í alvöru verri, veit ég hins vegar ekki.

facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105