Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
9. árg. 307. tbl.
30. nóvember 2016
Rætt við einstæðar mæður meðal flóttamanna í Adjumani:
Ein milljón flóttamanna frá Suður-Súdan býr í Úganda

Allt frá því átök brutust út í Suður-Súdan í desember 2013 hafa íbúarnir, einkum konur og börn, flúið yfir til nágrannaríkja, flestir til Úganda. Ófriðurinn magnaðist í júlí á þessu ári og síðan þá hafa hundruð þúsunda lagt á flótta. Nú er svo komið að ein milljón flóttamanna frá Suður-Súdan hefst við í Úganda.

Ný flóttamannasamfélög rísa í Yumbe héraði, en í Adjumani héraði ( sjá myndband) býr flóttafólk sem kom yfir landamærin á síðasta ári eða fyrr. Þótt stjórnvöld og héraðsyfirvöld í Úganda fái hrós fyrir móttöku flóttamanna og velvild í þeirra garð er lífið fjarri því að vera dans á rósum: lífsbaráttan er hörð og flestar kvennanna eru einstæðar mæður með mörg börn. Komið hefur fram að um 85% flóttamanna eru konur og börn.

Með níu börn á framfæri
Achol Anuol kom í Pakele flóttamannabyggðirnar í nóvember fyrir einu ári, hrakin á flótta vegna átakanna með sjö börn - án eiginmannsins. Hún kveðst ekkert vita um afdrif hans, hvort hann sé lífs eða liðinn. Hún segist líka hafa tekið að sér tvö munaðarlaus börn og því séu börnin á hennar framfæri alls níu talsins. - Hún segir stuðning alþjóðastofnana og héraðsins við flóttafólk af skornum skammti, fjölskylda hennar hafi átt kýr í Suður-Súdan og átt auðvelt með að fá fiskmeti en hvorki nautakjöt né fiskur sé á boðstólum fyrir flóttafólk í Úganda. Hún kveðst ánægð með að börnin geti gengið í skóla en kvartar undan því að þau fái of lítið að borða, matarskammtarnir séu of litlir. Þá segir Achol að hún óttist að hún snúi ekki aftur heim til Suður-Súdan á næstu árum; meðan ófriðurinn geisar sé betri kostur að búa í Úganda.

Í nágrenninu býr Martha Nyapot sem kom yfir til Úganda í febrúar. Hún hefur komið sér upp afdrepi fyrir sjálfa sig og fimm börn en hún flúði átökin í Suður-Súdan eftir að eiginmaður hennar var myrtur. -Hún segir að lífsbaráttan sé hörð og miklu erfiðari en hún hafi áður kynnst, einkum vegna þess að hún eigi enga peninga og stuðningurinn sé takmarkaður. Hún lýsir hins vegar yfir ánægu með skólana sem börnin sækja. Martha segir aðspurð að hún geti ekki hugsað til þess að fara aftur heim til Suður-Súdan fyrr en tryggt sé að hún geti boðið börnum sínum öruggt umhverfi - því miður séu engar líkur á því að það gerist í bráð.
Aid Zone: Training for refugees in Uganda, a model of integration / EuroNews
Aid Zone: Training for refugees in Uganda, a model of integration / EuroNews

Landið afhent gjaldfrjálst til flóttafólks
Jacob Opiyo sem stýrir neyðaraðstoð UNICEF segir að landið þar sem flóttamannasamfélögin rísa sé ekki í eigu ríkisins heldur séu það héruðin sjálf sem eigi landið og látið það af hendi gjaldfrjálst til flóttafólks. Hins vegar stýri skrifstofa forsætisráðherra aðgerðum á vettvangi og hlutist til um að fá land til umráða en þess séu líka dæmi að héraðsstjórnir bjóði landið að fyrra bragði í þágu flóttamanna.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og fjölmargar aðrar alþjóðastofnanir koma síðan að framkvæmdum við að undirbúa landið undir komu flóttamanna, búa til vegi, skilgreina landskika fyrir hverja fjölskyldu, reisa heilsugæslustöðvar og skóla, byggja varanleg almenningssalerni og vatnsveitur, svo dæmi séu nefnd.

Stefán Jón Hafstein forstöðumaður sendiráðs Íslands í Úganda hreifst af skipulagningu heimamanna þegar hann kynnti sér flóttamannasamfélögin á dögunum eins og fram kemur í meðfylgjandi kvikmyndabroti.

South Sudanese Flee One of Country's Last Peaceful Towns/ VOA
Ending South Sudan's Civil War / CFR
Sendiráð Íslands í Úganda:
Mikil samvinna norrænu sendiráðanna í Kampala

Íslenska sendiráðið í Kampala er í sambúð með danska sendiráðinu. Þar blaktir íslenski fáninn við bláan himin flesta daga því veðursæld er mikil í þessari perlu Afríku eins og heimamenn kynna landið sitt gjarnan. 

Íslenska sendiráðið er í miðborg höfuðborgar Úganda, Kampala, og ber ábyrgð á alþjóðlegri þróunarsamvinnu milli Íslands og Úganda sem felur fyrst og fremst í sér samvinnu við tvær héraðsstjórnir í landinu, í Buikwe og Kalangala. Þar er um að ræða stuðning við grunnþjónustu héraðanna við íbúana sem flestir hverjir lifa á fiskveiðum úr Viktoríuvatni.

Starfsmenn sendiráðsins eru níu talsins og þeir kynna sig með nafni og starfsheiti í meðfylgjandi myndbandi auk þess sem rætt er við Stefán Jón Hafstein forstöðumann sendiráðsins um sambúðina við Dani og norrænt samstarf í Úganda.

Fésbókarsíða sendiráðsins í Kampala
Sextán daga átak gegn kynbundnu ofbeldi:
Afnám ofbeldis gegn konum og stúlkum - konur á flótta aldrei fleiri

Ljósaganga UN Women var farin síðastliðinn föstudag á alþjóðlegum baráttudegi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi sem einnig markaði upphaf 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi. Yfirskrift Ljósagöngunnar í ár var - Konur á flótta. Samkvæmt upplýsingum frá UN Women eru 65 milljónir manna á flótta í heiminum núna og konur á flótta hafa aldrei verið fleiri. "Við þær hörmulegu aðstæður og neyð sem fólk býr við eru konur og stúlkur berskjaldaðri en nokkru sinni fyrir ofbeldi," segja fulltrúar UN Women.

Ofbeldi gegn konum eitt útbreiddasta mannréttindabrotið
Ofbeldi gegn konum er eitt útbreiddasta mannréttindabrot í heiminum en ein af hverjum þremur konum hefur orðið fyrir ofbeldi á lífsleiðinni. Hvert einasta samfélag í heiminum er þjakað af kynbundnu ofbeldi - á meðan það viðgengst og refsileysi ríkir munu framfarir í jafnréttisbaráttunni ekki eiga sér stað. Kynbundið ofbeldi hefur víðtæk áhrif á samfélög í heilsufarslegu-, efnahagslegu- sem og félagslegu tilliti en þegar konur eru heilbrigðar eru samfélög heilbrigð.

Landsnefnd UN Women á Íslandi styrkir Styrktarsjóð Sameinuðu þjóðanna ( UN Trust Fund to End Violence against Women). Sjóðurinn hefur starfað undanfarin tuttugu ár um allan heim að upprætingu á ofbeldi gegn konum og stúlkum. Helstu áherslur sjóðsins eru að koma í veg fyrir ofbeldi gegn konum, tryggja þolendum viðeigandi aðstoð og stuðla að sterkari löggjöf og framfylgd laga um ofbeldi gegn konum.

Styrktarsjóðurinn hefur alla tíð lagt ríka áherslu á að styrkja grasrótarsamtök sem berjast fyrir bættri stöðu kvenna. Sjóðurinn styður starf frjálsra félagasamtaka og samstörf félagasamtaka og stjórnvalda víða um heim. Árlega berast sjóðnum yfir tvö þúsund umsóknir um styrki til verkefna en aðeins 25 verkefni hljóta styrk. Um þessar mundir er 33 virk verkefni starfrækt, segir á vef UN Women á Íslandi.

UN Women starfar í þágu kvenna um allan heim og styður m.a. við konur á flótta. UN Women dreifir t.d. sæmdarsettum til kvenna sem innihalda helstu nauðsynjar. UN Women á Íslandi hvetur alla til að senda sms-ið KONUR í 1900 (1.490 kr.) og veita konum á flótta frá Mosul vasaljós, dömubindi og sápu.

Sameiginleg yfirlýsing á Alþjóðadegi gegn kynbundnu ofbeldi, 25. nóvember 2016/ Framkvæmdastjórn ESB I Kjarninn
Violence against Women and Girls and Climate Change/ UNESCO
Invest and mobilize to end violence against women/ UNWomen
Increase in Laws Protecting Women Against Violence/ MoIbrahim
Neyðarsöfnun UNICEF stendur enn yfir: 
200 börn deyja á dag, segir Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna

Frétt DW: Boko Haram insurgency leaves children malnourished
Hálf millj­ón barna í Níg­er­íu er í lífs­hættu vegna vannær­ing­ar og stór hluti þeirra gæti látið lífið á næstu mánuðum ber­ist ekki hjálp. Fleiri en 200 börn lát­ast nú á dag á svæðinu. Þetta kem­ur fram í ákalli UNICEF á Íslandi sem stend­ur fyr­ir neyðarsöfn­un vegna hörm­ung­ar­ástands­ins í Níg­er­íu og ná­granna­ríkj­un­um.

Yfir 130.000 börn í norðaust­ur­hluta Níg­er­íu, þar sem ástandið er verst, hafa fengið meðferð við vannær­ingu síðastliðna mánuði. Börn sem eru vannærð eru marg­falt lík­legri til að deyja af völd­um sjúk­dóma en önn­ur börn sem veikj­ast, til dæm­is af malaríu, lungna­bólgu og niður­gangspest­um.

Til að mæta þessu hef­ur UNICEF með hjálp heims­for­eldra og þeirra sem stutt hafa söfn­un­ina lagt áherslu á að styrkja grunn­heil­brigðis­kerfið á svæðinu, svo fólk geti sótt sér hjálp þegar börn þess veikj­ast. Slík þjón­usta, studd af UNICEF, nær nú til yfir 3,3 millj­óna manna, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá UNICEF.

Mörg þúsund manns hafa stutt neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi vegna hörmungarástandsins í Nígeríu og nágrannaríkjunum þar sem hálf milljón barna er í lífshættu vegna vannæringar. Fjölmargir hafa auk þess skipulagt viðburði til styrktar neyðaraðgerðum UNICEF. 

"Hingað á skrifstofuna hefur fólk komið með stórar gjafir sem smáar, sem er ákaflega gleðilegt. Hvert einasta framlag skiptir máli. Sá elsti sem hefur heimsótt okkur er 87 ára og sá yngsti í leikskóla," segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Neyðarsöfnunin stendur enn sem hæst. Hægt er að styrkja hana með því að senda sms-ið BARN í númerið 1900 (1.000 kr) - sem jafngildir vikulangri meðferð fyrir vannært barn. Þörf er á að stórauka neyðaraðgerðir UNICEF á vettvangi.

Tölfræðin segir ekkert um sorgina
Nærri hálf milljón barna í fjórum ríkjum í Vestur- og Mið-Afríku er í bráðri hættu vegna vannæringar og stór hluti þeirra gæti látið lífið á næstu mánuðum berist ekki hjálp.

"Tölurnar eru sláandi: Mörg hundruð þúsund börn í lífshættu vegna vannæringar og 65.000 manns sem búa við aðstæður sem svipar til hungursneyðar. En tölfræðin segir þér aðeins hvert umfang vandans er, ekkert um mannlegu hliðina á honum, sorgina eða angistina," segir Arjan de Wagt, yfirmaður næringarmála hjá UNICEF í Nígeríu. 

"Tölurnar segja þér ekki hvernig það er að vera inni í sjúkratjaldi þar sem mæður eru með veik og vannærð börn sín. Í yfirfullu tjaldi halda tugir örvilna mæðra á veikburðum börnum sínum með vonarblik í auga. Ég hef verið í hundruðum slíkra tjalda og í hvert einasta sinn snertir það mig. Ég hugsa um mín eigin börn og hvernig það væri að vera í jafnmikilli örvæntingu. Hugsa um sívaxandi skelfinguna sem ég myndi upplifa ef ég horfði upp á börnin mín léttast og léttast þangað til þau væru einungis skinn og bein." 
 
Grunnheilsugæsla stórefld
Börn sem eru vannærð eru margfalt líklegri til að deyja af völdum sjúkdóma en önnur börn sem veikjast, til dæmis af malaríu, lungnabólgu og niðurgangspestum. Til að mæta þessu hefur UNICEF með hjálp heimsforeldra lagt áherslu á að styrkja grunnheilbrigðiskerfið á svæðinu, svo fólk geti sótt sér hjálp þegar börn þess veikjast.

Slík þjónusta, studd af UNICEF, nær nú til yfir 3,3 milljóna manna.

Ástandið hvað varðar vannæringu barna er verst í norðausturhluta Nígeríu þar sem talið er að nærri 75.000 vannærð börn muni láta lífið fái þau ekki meðferð. Það eru fleiri en 200 börn á dag. 
Hægt er að styrkja neyðarhjálp UNICEF með því að senda sms-ið BARN í númerið 1900 (1.000 kr). 
Eitt erfiðasta hlutskipti heims að fæðast í Miðafríkulýðveldinu?

Central African Republic: One in five children is a refugee or internally displaced/ SÞ 
Hætta er við hvert fótmál á þroskaskeiði barna og unglinga: frá því að lifa af barnasjúkdóma, ganga í skóla, sleppa við þjónustu við vígamenn, og kynferðislegt ofbeldi, svo eitthvað sé nefnt. Heilbrigðiskerfið er að hruni komið, rétt eins og nánast öll opinber þjónusta, sem varð illa úti í ofbeldisöldunni sem gekk yfir landið á árunum 2012-2014.

Þannig hefst frásögn á vef Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna um Miðafríkulýðveldið. Þar segir ennfremur:

"Ofbeldi hefur ekki verið með öllu upprætt þrátt fyrir beitingu alþjóðlegs herafla og lýðræðislegra kosninga fyrr á þessu ári.

Fyrsta þolraunin á æviskeiðinu er að lifa af fæðingu. Samkvæmt tölum frá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, deyja 9 af hverjum þúsund konum af barnsförum og eitt barn af hverjum sjö deyr fyrir fimm ára aldur. Þetta er ein hæsta dánartíðni á þessu aldursbili í heiminum.

Af þeim sem lifa til fimm ára aldurs þjást 41% af vannæringu en slíkt hefur varanlegar afleiðingar og skaðar jafnt líkamlegan sem vitsmunalegan þroska. Landið allt glímir við fæðuóöryggi og börn eru fyrstu fórnarlömbin.

Versti staðurinn að alast upp?
Hundruð þúsunda barna alast upp fjarri heimahögum og hafa bæst í hóp uppflosnaðra, annað hvort innan landamæra ríkisins eða hafa flúið til nágrannaríkjanna. Um hálf milljón íbúa Mið-Afríkulýðveldisins búa utan landamæranna og nærri fjögur hundruð þúsund eru á vergangi innanlands.

Jafnvel áður en síðasta vargöldin gekk í garð gekk aðeins þriðjungur barna í skóla samkvæmt tölum frá 2011-12. Stúlkur ganga sjaldnar í skóla en drengir. Þær sæta of ofbeldi, eru giftar á unga aldri og eignast börn enn á barnsaldri. Nærri þriðjungur stúlkna giftast fyrir fimmtán ára aldur.

Þúsundir barna eru þvingaðar til að þjóna í vígasveitum. 2,679 börn voru þvinguð til slíkrar "herþjónustu" á síðasta ári að því er fram kemur í skýrslu aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna á síðasta ári.

Mið-Afríkulýðveldið var í síðasta sæti á lista yfir þau lönd þar sem best væri - og verst- að alast upp, sem skrifstofa breska samveldisins gaf út.

Þetta kemur fram í athyglisverðri grein IRIN, fréttastofu mannúðarmála, þar sem þeirri spurningu er velt upp hvort versti staður í heimi til að alast upp sé Mið-Afríkulýðveldið.

Stofnanir Sameinuðu þjóðanna veita ríkisstjórn landsins stuðning í viðleitni sinni til að hlúa að ungu kynslóðinni.

Fyrr í mánuðinum var haldin í Brussel ráðstefna og fjáröflunarsamkoma sem Evrópusambandið skipulagði.  Sameinuðu þjóðirnar tóku þátt í henni og forseti Miðafríkulýðveldisins, Faustin Archange, kynnti Landsáætlun u m endurreisn og friðaruppbyggingu sem talið er að muni kosta þrjá milljarða bandaríkjadala næstu fimm árin."

Fréttaskýring IRIN: Central African Republic: The worst place to be young?

Héraðshöfðingi í Malaví öflugur andstæðingur barnahjónabanda


"Í dag fóru starfsmenn sendiráðsins á fund með Theresu Kachindamoto en hún er héraðshöfðingi í Dedza. Kachindamoto er öflugur andstæðingur barnahjónabanda og hefur komið í veg fyrir og ógilt yfir 1000 giftingar á þeim tíma sem hún hefur verið héraðshöfðingi.

Barnahjónabönd eru alvarlegt og algengt vandamál í Malaví en samkvæmt UNICEF eru allt að helmingur malavískra stúlkna giftar áður en þær ná 18 ára aldri. Í þróunarsamvinnu sinni við Malaví leggur Ísland áherslu á valdeflingu ungs fólks og kvenna og er þessi barátta mikilvægur liður í því. Héraðshöfðingjarnir spila stórt hlutverk í því að vinna gegn barnahjónaböndum og því er það frábært skref að fá konu eins og Kachindamoto til liðs við okkur."

Þetta skrifaði Ágústa Gísladóttir forstöðumaður sendiráðs Íslands í Malaví í Fésbókarfærslu á dögunum og birti eftirfarandi mynd með.

Á myndinni eru t.f.v. Ágústa Gísladóttir, Theresu Kachindamoto, Guðmundur Rúnar Árnason og Ása María H. Guðmundsdóttir.

Vinir Little Bees á Íslandi

Vinir Little Bees eru íslensk hjálparsamtök sem styðja við bakið á samnefndum skóla í fátækrahverfi í Næróbí.

 Í stöðufærslu á Fésbókinni birtist á dögunum þessi texti: "Little Bees skólinn á marga góða vini á Íslandi. Einn þeirra er Bjarni Hákonarson. Hann átti frumkvæði af því að safna saman fartölvum sem hætt var að nota á vinnustað hans, hlóð niður í þær þroskandi kennsluhugbúnaði fyrir börn á öllum aldri og gaf skólanum. Little Bees skólinn er því loksins kominn með lítið tölvuver :) Kærar þakkir Bjarni fyrir þessa höfðinglegu gjöf sem á eftir að auðga líf og menntun hjá hundruðum barna.

Bjarni Hákonarson svaraði af hógværð: "Látum lofið beinast þangað sem það á heima. Ég fullyrði að þetta verkefni er það mest gefandi sem við starfsmenn Kópavogsbæjar ásamt frábærum sjálfboðaliðum Little Bees höfum tekið þátt í. Við vonum að þessi littla gjöf geti orðið til þess að hjálpa "Littlu Flugunum" okkar að skapa sér góða framtíð. Við erum þakklát fyrir að hafa fengið að taka þátt." Og hjarta fylgdi með.
  
Áhugavert

-
-
-
-
-
-
-
Africa's health won't improve without reliable data and collaboration, eftir Tolullah Oni ofl./ TheConversation
-
Statement on the International Day for the Elimination of Violence Against Women/ UNODC
-
What more boy births could reveal about South Africa's health status, eftir Gwinyai Masukume/ TheConversation
-
Op-ed: Women powering a clean future. eftir Lakshmi Puri ofl./ UNWomen
-
Tax treaties: Boost or bane for development?, eftir Jim Brumby/ Alþjóðabankablogg
-
Tiny stories - writers unite for children´s rights/ UNICEF
-
Aðgerða þörf í loftslagsmálum, eftir Soffíu Sigurgeirsdóttur/ Kjarninn
-
Climate Action in Uganda/ FAO
Climate Action in Uganda/ FAO

"Män gör kvinnor gravida för att bevisa sin fertilitet," eftir Cuthbert Maendaenda / OmVärlden
-
Global Governance: "Historically unprecedented"/ D+C
-
In Rwanda, this sisterhood of farmers is banding together to beat poverty, eftir Maria Rosso/ ONE
-
Family planning for married girls: lessons learned from ICFP 2016/ GirlsNotBrides
-
How to Feed the World, eftir Bjorn Lomborg/ Project-Syndicate
-
Útrýmum fátækt, eftir Petrínu Ásgeirsdóttur/ Vísir
-
The Clock is Ticking - Keeping South Africa in the ICC is a Tall, but Not Impossible, Order/ JusticeInConflict
-
Gender and Climate Change all over the world/ ClimateTracker

Fræðigreinar og skýrslur

More aid urgently needed as southern Africa hunger crisis deepens - agencies/ Reuters
-
Southern Africa cries for help as El Niño and climate change savage maize harvest/ TheGuardian
-
At least 62 killed in Uganda fighting, tribal king Mumbere in custody/ DW
-
Scores of pro-Biafra separatists protesters killed in Nigeria/ CCTV
-
Seven charities breached fundraising code when working with defunct agency, regulator finds/ ThirdSector
-
Dateline Abuja: N.East Humanitarian Crisis; One Of The Worst In Africa UNHCR Rep Pt.1
Dateline Abuja: N.East Humanitarian Crisis; One Of The Worst In Africa UNHCR Rep Pt.1

Ugandan farmers praise UN report citing flaws with Bidco/ Africa-Newsroom
-
Ulla Tørnæs tilbage som udviklingsminister/ GlobalNyt
-
Financing the SDGs in cities: Innovative new approaches/ OECD
-
International Criminal Court Fears Exodus of African States
International Criminal Court Fears Exodus of African States
-
RWANDA: Relief for Working Mothers As Maternity Leave Benefits Scheme Comes Into Force/ MakeEveryWomanCount
-
Walking the SDG talk: Are we ready to change the way we do development?, eftir Doug France/ OECD
-
Five ways to help migrant children settle in your class, eftir Helen Hanna and Stefan Kucharczyk/ TheGurdian
-
UK watchdog calls for clearer picture of how aid investments benefit the poor/ TheGuardian
-
Who owns this land? A question that matters for climate change and COP22/ Devex
-
Climate change in the era of Trump/ Economist
-
How Solar is Changing the Climate Game/ Alþjóðabankinn
-
Vokser opp uten muligheter/ Bistandsaktuelt
-
Rwanda genocide: French officials face investigation/ BBC
-
Southern Africa cries for help as El Niño and climate change savage maize harvest/ TheGuardian
-
Why does it still take so long to drive across Africa?/ TheGuardian
-
Madagascar drought: 330,000 people 'one step from famine', UN warns/ TheGuardian
-
The flatpack water tank: 'a micro solution with a macro impact' / TheGuardian
-
2 Female Artists Blazing Trail in African Pop Music/ VOA
-
Gambian presidential election must be free and fair, says opposition candidate/ RFI
-
Modu's big dreams: Back to school in north-east Nigeria/ UNICEF
-
Yemen Is Only Hopeless If the World Gives Up/ HuffingtonPost
-
Climate action gathering shakes off the Trump effect/ IRIN
-
East Africa's booming camel trade/ Economist
-
Rwanda is a landlocked country with few natural resources. So why is China investing so heavily in it?/ Qz
-
From cashew nut to steak: combating poverty in Guinea-Bissau | Business/ DW
From cashew nut to steak: combating poverty in Guinea-Bissau | Business/ DW

A new data tool is arming Africans with statistics to keep their governments in check/ Qz
-
New support boosts Britain's lead in global drive to tackle violence against girls and women/ Breska ríkisstjórnin
-
The World Must Not Forget Chad's Refugees, UN Agencies Warn/ Matvælaáætlun SÞ, WFP
-
The small African region with more refugees than all of Europe/ TheGuardian

Jákvæð frétt frá Afganistan

eftir Hildi Hjördísar- Sigurðardóttur friðargæsluliða í Kabúl

 
Negin Khpalwak er eini kvenkyns hljómsveitarstjóri í Afganistan, aðeins nítján ára/ ODN 
Þær fáu fréttir sem berast frá Afganistan eru oftar en ekki neikvæðar; sjálfsmorðsárásir, vaxandi áhrif uppreisnarmanna, valmúarækt og bág staða kvenna. Þegar fjallað er um konur, sérstaklega konur á suðurhveli jarðar, er í mörgum tilfellum fjallað um konur sem einsleitan hóp: undirokaðar, fórnarlömb aðstæðna, trúarbragða, landsvæðisins sem þær búa á eða slæðunnar sem þær bera, fremur en gerendur í eigin lífi. Ætlunin er ekki að mála hér einhverja glansmynd af stöðu mála. Afganistan á enn langt í land og margt þarf að breytast: enn er gjá á milli stöðu kvenna í borgum og hinum dreifðari byggðum, stór hluti afganskra kvenna verður fyrir kynbundnu ofbeldi á lífsleiðinni, almenningsálit er oft óvægið: konur sem hætta sér inn á hið almenna svið þurfa ekki einungis að kljást við viðhorf sinna nánustu og samfélagsins, heldur mæta oft áreitni frá karlkyns vinnufélögum eða á götum úti. Þetta gerir afganskar konur ekki sjálfkrafa að fórnarlömbum, margar afganskar konur eru ekki aðeins gerendur í eigin lífi, heldur fulltrúar breytinga sem láta raddir sínar óma, hvort sem er í sínu nánasta umhverfi eða á öðrum og stærri vettvangi.

Unnið að því að bæta hlut kvenna
Alþjóðasamfélagið hefur undanfarin ár unnið að því jöfnum höndum að stuðla að öryggi og þróun í Afganistan, þ.m.t. að auka hlut kvenna í afgönsku samfélagi, sú vinna skilar sér ekki á einni nóttu. Það er sýnilegur og merkjanlegur árangur af þessari vinnu og auðvelt er að þylja upp tölur því til stuðnings. Mæðradauði og ungbarnadauði hefur lækkað verulega, meðalaldur hefur hækkað, hlutfall stúlkna í skólum landsins hefur margfaldast. Stúlka sem hlýtur menntun er mun líklegri til að styðja og stuðla að menntun sinna barna og þá sérstaklega dætra síðar meir. Þetta segir þó einungis hluta sögunnar, sú breyting sem er hvað mikilvægust og verður ekki mæld í tölum eða fjárframlögum eru smitáhrifin: fjárfesting í einni stúlku eða konu getur haft margföld áhrif umfram þau augljósu og mælanlegu til lengri tíma. Breytingar á viðhorfum sem verða fyrir tilstilli þeirra fjölmörgu kvenna og manna, sem hafa á einn eða annan hátt haft hag af þessari vinnu verða seint mæld. Einstaklingar sem storka algengum viðhorfum og gildum samfélagsins og þar með feðraveldinu sjálfu.

Kyndilberar breytinga
Konan sem starfar í hefðbundnum karllægum geirum, t.d. lögreglu eða her, á ekki eingöngu þátt í að stuðla að auknu öryggi og hreyfanleika kvenna í nærumhverfi sínu heldur storkar hún hugmyndum um hefðbundin kynjahlutverk og þar með hugmyndum þeirra drengja og stúlkna sem verða á vegi hennar um hvað konur eigi, geti og megi. Faðirinn sem ákveður að leyfa unglingsdóttur sinni að halda áfram menntun sinni, þrátt fyrir ákúrur karlkyns ættingja og vina um að slíkt sé ekki viðeigandi. Hópur ungra manna í Kabúl sem gengur um götur og mótmælir kynbundnu ofbeldi og áreitni gegn konum. Þetta fólk er dæmi um hina raunverulegu kyndilbera breytinga, nýrra hugmynda og vonandi nýrrar framtíðar í Afganistan. Fræunum hefur verið sáð, þetta fólk ber þau áfram og plantar, stundum í móttækilegan svörð og stundum ekki - en garðurinn sprettur ekki á einni nóttu.

Þetta er hluti þess fólks sem hefur orðið á vegi mínum hér í Kabúl undanfarna mánuði. Þetta er jákvæð frétt frá Afganistan.

Ahlan wa sahlan - Velkomin
 
eftir Védísi Ólafsdóttur friðargæsluliða í Jórdaníu

Amman í Jórdaníu. 
Konungsríkið Jórdanía kúrir í eyðimörkinni og teygir anga sína í átt til nágrannaríkjanna. Landið, sem er tæpir 90 þúsund ferkílómetrar að stærð og er örlítið minna en Ísland, á syðsta hluta sinn að Rauðahafi, vesturhlutinn liggur að Palestínu og Ísrael, norðurhlutinn að Sýrlandi og Írak og austurhlutinn að Sádí Arabíu. Jórdanía er lognið í storminum á þeim ófriðartímum sem ríkja árið 2016 og erfitt að ímynda sér hörmungar nágrannaríkjanna á hversdagslegu vappi um höfuðborgina Amman.

Aðstæður konungsríkisins Jórdaníu eru vissulega athyglisverðar. Í Jórdaníu er stöðugleiki sem er annar en í nágrannaríkjunum. Jórdaníu er stjórnað af konunginum Abduallah II sem tók við af föður sínum Hussein árið 1999. Abduallah II er virtur í ríki sínu sem og í alþjóðasamfélaginu. Þrátt fyrir ríkjandi stöðugleika í Jórdaníu ógna honum átök nágrannaríkjanna og gríðarlegur straumur fólks á flótta.  Í manntali Jórdaníu árið 2015 voru 9,5 milljónir manna en þar af eru einungis 6,6 milljónir með jórdanskt ríkisfang. Af 6,6 milljónum einstaklinga með jórdanskt ríkisfang eru 2,2 milljónir skráðir palestínskir flóttamenn. Jórdanía hýsir 42% af öllum skráðum palestínskum flóttamönnum hjá Flóttamannaaðstoð Sameinuðu Þjóðanna fyrir Palestínumenn (58% í Palestínu, Líbanon og Sýrlandi). Þær 2,9 milljónir manna sem dvelja í Jórdaníu og eru ekki með jórdanskt ríkisfang eru bæði einstaklingar sem eru skráðir hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu Þjóðanna en einnig aðrir einstaklingar með erlend ríkisföng. Stærsti hluti þeirra 2,9 milljóna útlendinga sem eru í Jórdaníu eru Sýrlendingar, næstflestir eru Egyptar, svo Palestínubúar (sem ekki eru skráðir sem flóttamenn eða flóttamenn sem komu til Jórdaníu eftir 1967) og Írakar.

Mynd frá hinni sögufrægu borg, Petra. 
Aukin spenna vegna flóttamanna
Mikil aukning á íbúafjölda Jórdaníu á undanförnum árum hefur skapað spennu í landinu bæði efnahagslega og pólitíska. Samkeppni um störf eykst sem og ágangur á náttúruauðlindir landsins. Jórdanía býr ekki að olíuuppsprettum eins og olíuauðug nágrannaríkin. Lengi gátu Jórdanir keypt ódýra olíu frá Írak en viðskiptunum lauk í kjölfar innrásarinnar í Írak árið 2003. Þrátt fyrir næstum 3000 sólskinsstundir á ári (meira en tvöfalt fleiri en á Íslandi) þá nýtir Jórdanía ekki sólarorkuna og landið er háð nágrannaríkjum sínum um aðgengi að orkugjöfum. Á síðustu árum hafa stjórnvöld þó lækkað skatta á vörum tengdum sólarraforku til að hvetja til endurnýjanlegrar orkunýtingar en einnig til að auka sjálfstæði landsins í orkuframleiðslu. Jórdanía er eitt þurrasta land í heimi og lítið er eftir af vatni í vatnsbólum landsins.

Með auknum fjölda fólks í landinu, eykst samkeppni um atvinnu, sérstaklega á meðal yngri kynslóða. Einn helsti atvinnuvegur Jórdaníu var lengi vel ferðaþjónusta en nú eru helstu ferðamannastaðir Jórdaníu tómir. Hin sögufræga borg Petra sem 3000 ferðamenn heimsóttu daglega, telur daglegar heimsóknir sínar nú í tugum eða hundruðum. Það sama má segja um Wadi Rum, þar sem Arabíu Lawrence fór um í hinni frægu kvikmynd frá 1962.

Leitast við að halda stöðugleika
Stjórnvöld Jórdaníu verja miklu fjármagni í öryggis- og varnarmál landsins enda leitast þau við að halda stöðugleika í landinu, bæði fyrir Jórdaníu og alþjóðasamfélagið. Þrátt fyrir að óöldur nágrannaríkjanna hafi ekki flætt til Jórdaníu þá hafa ýmis atvik skapað ólgu. Menntamálaráðuneytið kynnti nýlega endurskoðaða námskrá sem dregur meðal annars úr trúartilvitnunum og leggur aukna áherslu á skilning á umburðalyndi og fjölbreytileika. Breytingarnar voru gagnrýndar víða um land, bæði á götum úti og á samfélagsmiðlum þar sem bent er á að námskráin stígi frá íslamskri menningu og þjóðararfi. Nýr samningur Jórdaníu við Ísrael um gasinnflutning  varð til þess að mikið var mótmælt sem og þingkosningar í september en líkt og fram hefur komið á stór hluti fólks í Jórdaníu ættir sínar að rekja til Palestínu. Í september var virtur rithöfundur myrtur við dómshúsið í Amman en hann hafði birt teiknimynd af Múhammed spámanni og DEASH liðum á facebook síðu sinni. Morðið olli ugg í Jórdaníu sem og víðar og sjónir alþjóðafjölmiðla beindust að Jórdaníu. Eftir stöðugt flæði fólks frá Sýrlandi til Jórdaníu frá árinu 2011 hefur landamærum Jórdaníu og Sýrlands nú verið lokað eftir að jórdanskir hermenn dóu í sjálfsmorðsárás á landamærunum í júní síðastliðnum.

En dagarnir líða einn af öðrum og hversdagsleikinn hefur yfirhöndina. Með auknum fjölda flóttamanna eykst einnig fjöldi hjálparstarfsmanna og þrátt fyrir gríðarlega fólksfjölgun í landinu er aðkomufólki að mestu tekið með bros á vör. Skilaboð heimamanna eru yfirleitt þau hin sömu: "Velkomin".

Plastflöskuhús í Úganda

eftir Sigrúnu Björgu Aðalgeirsdóttur starfsnema í Kampala

Í sendiráðum Íslands í Malaví, Mósambík og Úganda starfa þrír starfsnemar sem líkt og undanfarin ár hafa fallist á beiðni Heimsljóss um pistlaskrif þann tíma sem þeir dvelja í samstarfslöndum Íslendinga.

Á undanförnum mánuðum hef ég kynnst ótal ólíkra verkefna og samtaka í Úganda sem öll hafa það að markmiði að gera landið að betri stað að búa á.
 
Þá eru ein samtök sem ég tel að séu sérstaklega til eftirbreytni en þau kallast SINA (The Social Innovation Academy). Samtökin byrjuðu upphaflega sem frjáls félagasamtök sem veittu munaðaralausum börnum fjárhagslegan stuðning til að ljúka framhaldsmenntun. Eftir að börnin luku framhaldsmenntun héldu þau út á vinnumarkaðinn, án árangurs-en Úganda er ein yngsta þjóð í heimi með um 77% íbúa landsins undir 30 ára aldri. Atvinnuleysi er eftir því, en 83% úganskra ungmenna á aldrinum 15-24 ára eru án vinnu.
 
Þegar ljóst var hversu erfitt ungmennin áttu með að fá vinnu að loknu námi urðu samtökin að því sem þau eru í dag; vettvangur til að veita ungu fólki sem kemur úr erfiðum aðstæðum tækifæri til frumkvöðlastarfs með því að skapa sér vinnu í stað þess að leita að vinnu.
 
Ástæða þess að ég tel SINA skera sig frá flestum öðrum samtökum sem ég hef kynnst er hversu umhverfismiðuð þau eru. Þau nota umhverfið sem innblástur með því að líta á umhverfisleg vandamál sem vettvang til að skapa störf.
 
Besta dæmið úr starfi SINA tel ég vera endurnýtingu þeirra á plastflöskum. Í Úganda er endurvinnsla lítil sem engin en áætlað er að einungis um 1% plasts sé endurunnið. Algengast er að plastið sé brennt með tilheyrandi loftmengun sem ekki einungis er slæm fyrir umhverfið, heldur getur slík loftmengun haft mjög skaðleg áhrif á heilsu fólks.
 
Það sem SINA gerir er að þau safna plastflöskum sem liggja á víð og dreif um allt landið og byggja úr þeim hús. Að sögn SINA eru hús byggð úr plastflöskum jafn sterkbyggð og þau sem byggð eru úr múrsteinum; þau þola jarðskjálfta og eru skotheld, ásamt því að eiga að endast í 2000 ár. SINA hefur nú þegar byggt nokkur plastflöskuhús og rekur meðal annars gistiheimili þar sem gestir geta sofið í húsi byggðu úr plastflöskum.
 
Helstu umhverfislegu áhrif þess að nýta plastflöskur til að byggja hús eru augljós; að endurnýta plast í stað þess að brenna það og þar af leiðandi að minnka loftmengun.
 
Önnur jákvæð umhverfisleg áhrif eru að skipta múrsteinum, sem eru eitt algengasta byggingarefnið í Úganda, út fyrir plastflöskur. Múrsteinar eru búnir til úr leir sem er brenndur með við sem fæst úr skógum landsins. Eyðing skóga er stórt vandamál á heimsvísu og þar er Úganda engin undantekning, en talið er að ef ekki verði gripið inn í eyðingu skóga landsins verði þeir svo gott sem horfnir eftir um 50 ár.
 

facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105