Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
10. árg. 319. tbl.
15. mars 2017
Mesta neyð í sögu Sameinuðu þjóðanna:
Óttast að 70 milljónir manna þurfi á matvæla-aðstoð að halda á árinu

Á síðustu öld létust 75 milljónir manna vegna hungursneyðar en á síðustu áratugum hefur slíkt ástand afar sjaldan komið upp. Hungursneyðin sem lýst var yfir í einu héraði Suður-Súdan í síðasta mánuði var sú fyrsta í sex ár en skyndilega blasa við margir aðrir heimshlutar þar sem fólk sveltur og líklegt er að formlega verði lýst yfir að hungursneyð ríki. Verst er ástandið í Sómalíu, Nígeríu og Jemen - og Suður-Súdan.

Stephen O´Brian yfirmaður mannúðar- og neyðaraðstoðar hjá Sameinuðu þjóðunum lýsti yfir því á fundi með fréttamönnum um síðustu helgi að aldrei í 45 ára sögu samtakanna hafi sambærilegt ástand skapast þar sem rúmlega 20 milljónir manna líða sult. "Þetta er ögurstund í sögu okkar," sagði hann og benti á að án samstillts átaks alþjóðasamfélagsins myndi fólk einfaldlega svelta til bana.

Fréttaskýring Al Jazeera um ástæður hungursneyðarinnar í Afríku.
Fréttaskýring Al Jazeera um ástæður hungursneyðarinnar í Afríku.
Að mati O´Brians þarf 4,4 milljarða bandaríkjadala - tæplega 500 milljarða íslenskra króna - fyrir júnílok á þessu ári til að bjarga mannslífum í Jemen, Suður-Súdan, Sómalíu og norðausturhluta Nígeríu.

Athygli vekur að hungursneyðin í þessum fjórum heimshlutum er hvergi tilkomin vegna matarskorts heldur vegna átaka. "Öll þessi fjögur lönd eiga eitt sameiginlegt: átök," sagði Stephen O´Brian. "Það þýðir að við höfum möguleika á að koma í veg fyrir og binda enda á frekari eymd og þjáningu."

Ástandið versnar hratt í Jemen en þar hefur íbúum sem vita ekki hvenær þeir fá næstu máltíð fjölgað um þrjár milljónir frá því í janúar.

Stofnun sem heldur utan um fæðuskort í heiminum - Famine Early Warning System (FEWSNET) telur að 70 milljónir manna þurfi á mataraðstoð að halda á þessu ári. Þessi tala hefur lækkað um helming á innan við tveimur árum. Margir velta fyrir sér hver skýringin sé á þessum hörmugum í ljósi þess að á síðustu áratugum hafa orðið miklar framfarir og stöðug fækkun sárafátækra í heiminum - einn þeirra sem hefur nýlega skrifað áhugaverða grein um ástandið er Daniel Maxwell sem skrifar í tímaritið The Conversation - " Famines in the 21st century? It´s not for lack of food."

Í grein hans kemur meðal annars fram að stórfelldar hungursneyðir hafi verið á horni Afríku á árunum 1984 og 85, og aftur 1992, en síðan hafi aðeins einu sinni verið lýst yfir hungursneyð, í suður Sómalíu árið 2011 sem varð 250 þúsund manns að aldurtila.

Stuðningur íslenskra stjórnvalda við Matvælaáætlun SÞ (WFP)
Fyrr í mánuðinum ákvað Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra að fela Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) að ráðstafa 40 milljónum íslenskra króna, annars vegar til flóttafólks frá Suður-Súdan sem flúið hefur yfir landamærin til Úganda, og hins vegar til vannærðra íbúa Borno og Yobe héraðanna í norðaustur Nígeríu þar sem hryðjuverkasamtökin Boko Haram hafa tvístrað samfélögum. Af þessum 40 milljónum verður 23 milljónum varið til stuðnings flóttafólki frá Suður-Súdan og 17 milljónum til norðaustur Nígeríu. 

Útskrift Sjávarútvegsskólans í 19. sinn:
Ellefu nemendur skólans hafa lokið doktorsnámi á Íslandi
Í fyrradag útskrifaðist 19. árgangur Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna eftir sex mánaða nám á Íslandi. Með þeim sem útskrifuðust á mánudag hafa alls 347 sérfræðingar frá um 50 löndum lokið sex mánaða náminu á Íslandi og og rúmlega 1200 manns tekið þátt í styttri námskeiðum í samstarfslöndunum. Þá hafa 18 nemar lokið framhaldsnámi við Háskóla Íslands og frá Háskólanum á Akureyri, þar af hafa ellefu lokið doktorsnámi.

Markmið skólans er að aðstoða þróunarríki við að móta og hrinda í framkvæmd stefnu sinni um þróun á sjálfbærri nýtingu auðlinda sjávar og vatna. Að þessu sinni útskrifuðust 22  nemar frá 16 löndum. Þeir koma frá tíu Afríkulöndum (14), þremur eyríkjum Karíbahafs (3) og  þremur löndum í Asíu (5). Tíu konur eru meðal þeirra sem útskrifuðust, en að meðaltali er þátttaka kvenna í sex mánaða náminu á Íslandi  tæplega 40%. 

Guðlaugur Þór afhendir Isatou Tamba frá Gambíu prófskírteini sitt.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra var sérstakur gestur við útskriftina. Ráðherra sagði í ávarpi sínu við útskriftarnema að námið væri fjárfesting í framtíðinni, í framtíð nemendanna sjálfra og í framtíð sjálfbærra fiskveiða. Í samstarfi gætu nemendur og íslensk stjórnvöld lagt af mörkum þýðingarmikið framlag í átt að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Ráðherra hrósaði starfsfólki Sjávarútvegsskólans fyrir að bæta stöðugt námskrána og hvatti það sérstaklega til þess að halda áfram á jafnréttisbrautinni því kynjajafnrétti hefði lykilhlutverki að gegna í velmegun samfélaga.

22 nemar frá 16 löndum
Sex mánaða nám á Íslandi fyrir starfandi sérfræðinga í samstarfslöndum er helsta verkefni skólans, en markmið skólans er að aðstoða samstarfslönd við að móta og hrinda í framkvæmd stefnu sinni um þróun á sjálfbærri nýtingu auðlinda sjávar og vatna. 

Sjávarútvegsskólinn býður upp á sex sérsvið og voru þrjú þeirra kennd í ár; gæðastjórnun í vinnslu og meðhöndlun fisks, veiðafærafræði og veiðitækni, og veiðistjórnun og þróun sjávarútvegs. Helmingur námsins er einstaklings verkefni sem unnið er í nánu samstarfi með íslenskum sérfræðingum. Rannsóknarverkefnin spanna vítt svið, en öll tengjast þau með beinum hætti þeim viðfangsefnum sem nemarnir sinna í störfum sínum heima fyrir. Mörg lokaverkefnanna nýtast einnig beint við stefnumótun sjávarútvegs í heimalöndum þeirra.

Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna hefur vaxið og aukið starfsemi sína í samstarfslöndum sínum á undanförnum áratug. Styttri námskeið hafa verið þróuð og haldin í samstarfi við þarlenda sérfræðinga, fyrrum nema og samstarfsstofnanir og Sjávarútvegsskólinn styður einnig við þátttöku fyrrum nema í alþjóðlegum ráðstefnum  á sviði sjávarútvegs. Því til viðbótar styrkir Sjávarútvegsskólinn fyrrum nema skólans til framhaldsnáms hér á landi í greinum tengdum sjávarútvegi. Jafnframt því að styrkja sérfræðiþekkingu og færni í samstarfslöndum og sjávarútvegsstofnunum, þá leggur skólinn ríka áherslu á að afla og þróa þekkingu sem nýtist við stefnumótun í sjávarútvegsmálum.

Skólinn hluti af alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands
Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna er fjármagnaður af utanríkisráðuneytinu sem hluti af þróunarsamvinnu Íslendinga. Hann er rekinn af Hafrannsóknastofnun, í nánu samstarfi við Matís, Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Háskólann á Hólum, en auk þeirra koma fjöldi annarra stofnana og fyrirtækja að starfseminni með einum eða öðrum hætti. Velgengni Sjávarútvegsskólans í gegnum árin er ekki síst vegna góðrar samvinnu við fjölda stofnana á Íslandi og fyrirtækja í sjávarútvegi, og hefur sú samvinna í seinni tíð opnað í auknu mæli tækifæri íslenskra fyrirtækja og stofnana í samstarfslöndunum.
Jafnréttismál:
Forsætisráðherra afhenti og kynnti verkfærakistu HeForShe í New York
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra er einn tíu málsvara HeForShe átaks UN Women úr hópi þjóðarleiðtoga. Hann tók í síðustu viku þátt í viðburðum á vegum UN Women í New York og Washington.  HeForShe listaviku var formlega hleypt af stokkunum í Lincoln Center, með samtali forsætisráðherra, leikarans og góðgerðarsendiherrans Edgars Ramirez og leikstjórans Oskars Eustis um jafnréttismál og listir. 

Samkvæmt frétt á vef forsætisráðuneytisins lagði forsætisráðherra í máli sínu áherslu á þrennt: launajafnrétti, mikilvægi þess að brjóta niður staðalímyndir, og að virkja karla í jafnréttisbaráttunni.  
Síðar um morguninn flutti forsætisráðherra ávarp á sérstökum hátíðarfundi SÞ í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Þar voru einnig á meðal þátttakenda forseti allsherjarþings SÞ, varaframkvæmdastjóri SÞ, og framkvæmdastýra UN Women, ásamt leikkonunni Anne Hathaway góðgerðarsendiherra UN Women sem kynnti baráttumál sitt;  launað fæðingarorlof fyrir mæður og feður. 

Verkfærakista HeForShe 
Forsætisráðherra kynnti og afhenti svokallað " Barbershop Toolbox" á fundinum en Ísland skuldbatt sig gagnvart HeForShe til að þróa slíka verkfærakistu til að hjálpa öðrum að skipuleggja jafnréttisviðburði sem nái til karla og drengja. Bjarni lagði meðal annars áherslu á launajafnrétti kynjanna og mikilvægi jafnlaunastaðalsins í þeim aðgerðum.

Daginn eftir tók forsætisráðherra þátt í viðburði á vegum UN Women og Alþjóðabankans í Washington, þar sem forseti Alþjóðabankans, Jim Yong Kim, var boðinn velkominn í hóp HeForShe leiðtoga á vegum alþjóðastofnana. Forsætisráðherra, ásamt leikaranum og góðgerðarsendiherranum Edgar Ramirez og framkvæmdastýru UN Women, Phumzile Mlambo-Ngcuka, fluttu ávörp og buðu forsetann velkominn í hóp jafnréttisleiðtoga.

Í ávarpi forsætisráðherra lagði hann áherslu á Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og að kynjajafnrétti væri mikilvægur hlekkur við að þeim yrði náð. Alþjóðabankinn hefði mikilvægu hlutverki að gegna. Þá fjallaði hann um stöðu jafnréttismála á Íslandi og mikilvægi þess að gera enn betur. Bjarni átti einnig tvíhliða fund með Kim forseta Alþjóðabankans, þar sem farið var yfir gott samstarf, áherslur og stöðu mála. Þá var sérstaklega vikið að jafnréttismálum og mikilvægi þess að karlmenn tækju þátt í umræðunni og legðu sitt af mörkum.  

Þá átti forsætisráðherra tvíhliða fund með Phumzile framkvæmdastýru UN Women þar sem HeForShe átakið var efst á baugi.

Myndin er tekin í Alþjóðabankanum, t.f.v. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Jim Young Kim forseti Alþjóðabankans, Phumzile Mlambo-Ngcuka framkvæmdastýra UN Women og Edgar Ramirez góðgerðarsendiherra. 

Nýtt samstarfsverkefni með UN Women og stjórnvöldum í Mósambík á lokastigi
Sendiráð Íslands í Mósambík undirbýr þessa dagana viðamikið samstarfsverkefni með landsnefnd UN Women og ráðuneyti jafnréttis- og félagsmála. Verkefnið snýr að framkvæmd verkþátta í fyrstu aðgerðaráætlun mósambískra stjórnvalda um framkvæmd ályktunar Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Áætlað er að verkefnið hefjist á öðrum ársfjórðungi 2017 og verði til ársloka 2020.

Fyrsta aðgerðaráætlun Mósambíkur verður að sögn Lilju Dóru Kolbeinsdóttur verkefnastjóra í sendiráði Íslands í Mapútó líkast til samþykkt innan skamms af hálfu stjórnvalda. Hún segir að kallað hafi verið eftir slíkri áætlun í mörg ár, allt frá árinu 2012, bæði af hálfu UN Women og fulltrúum borgarasamtaka. "Vegna viðkvæmra friðarviðræðna milli stjórnvalda og RENAMO hreyfingarinnar hefur umræðan ekki fengið mikinn meðbyr. Þess vegna eru það ákveðin tímamót í Mósambík einmitt núna þar sem aðgerðaráætlunin er langt á veg komin og vilji stjórnvalda skýr til að vinna að áætlun og aðgerðum til framkvæmda," segir Lilja Dóra.

Hluti af undirbúningi verkefnisins var vinnustofa með hagaðilum fyrr í mánuðinum. Alls mættu um þrjátíu manns frá mismunandi stofnunum, borgarasamtökum, ráðuneytum og framlagsríkjum. Að sögn Lilju Dóra skapaðist lífleg umræða  um drögin að verkefninu bæði um innihald og framkvæmd.  "Viðstaddir voru sammála um að mikil þörf sé á verkefninu og mikilvægi þess að vinna að þátttöku kvenna í friðarviðræðum, öryggi kvenna og stúlkna á átakasvæðum ásamt því að sporna gegn mögulegum átökum í landinu í framtíðinni."

Unnið er að því að ljúka við verkefnaskjalið á næstu vikum.
Miðstéttarfólk meirihluti íbúa jarðar á allra næstu árum

Í lok síðasta árs voru 3,2 milljarðar jarðarbúa hluti af ört vaxandi miðstétt í heiminum. Haldi svipuð þróun áfram verður þess skammt að bíða að meirihluti jarðarbúa verði kominn í flokk með mið- eða hástéttinni. Í nýrri skýrslu Brookings stofnunarinnar er talað um tvö til þrjú ár. Aldrei í sögunni hefur miðstéttarfólki fjölgað jafn hratt.

Skýrslan nefnist The Unprecedented expansion of the global middle class. Eins og titillinn ber með sér hefur miðstéttarfólki fjölgað miklu hraðar en spár gerðu ráð fyrir. Fjölgunin er langt umfram væntingar - bæði í nýmarks- og þróunarríkjum og þar er rúmur hálfur milljarður íbúa þegar kominn í þennan þjóðfélagshóp. Hins vegar leiðir fjölgun miðstéttarfólks ekki endilega til þess að félagsleg velferðarþjónusta aukist eins og gerðist í Bandaríkjunum og Þýskalandi þegar þau ríki fóru í gegnum sambærilegar þjóðfélagsbreytingar.

Til lengri tíma litið er áætlað að fjölgun í miðstétt geti árlega verið nálægt 4 prósentum. Fjölgunin hefur mest verið í svokölluðum nýmarkaðsríkjum. Í þróuðum ríkjum fjölgar minna í miðstéttum eða einungis um 0,5-1,0% árlega. Spár gera hins vegar ráð fyrir að fjölgun miðstéttarfólks verði mest í þróunarríkjum á næstu árum eða um 6% að jafnaði árlega. Þar er uppsveiflan langmest í Asíuríkjum. Í skýrslunni segir að 88% af þeim sem koma nýir inn í miðstéttina á næstu árum verði Asíubúar.

Endurnýjaður samningur við Landsnefnd UNICEF á Íslandi
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Bergsteinn Jónsson framkvæmdastjóri Landsnefndar UNICEF á Íslandi.

Utanríkisráðuneytið og Landsnefnd Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) endurnýjuðu á dögunum samstarfssamning til næstu þriggja ára. Skrifað var undir samninginn í heimsókn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra til Miðstöðvar Sameinuðu þjóðanna að Laugavegi 176 í Reykjavík en þar eru til húsa Landsnefndir UNICEF og UN Women, auk Félags Sameinuðu þjóðanna.

"Landsnefndirnar hafa verið öflugir og góðir samherjar við upplýsingagjöf á starfi Sameinuðu þjóðanna og því mikilvæga fjáröflunarstarfi sem fram fer innanlands á málasviðum þeirra eins og þorri almennings hefur tekið eftir, nú síðast með árangursríkri herferð UNICEF í þágu barna í austurhluta Nígeríu og Suður-Súdan. Danshátíð UN Women, Milljarður rís, gegn ofbeldi í garð kvenna er öllum líka í fersku minni," segir Guðlaugur Þór.

Utanríkisráðuneytið, Landsnefndirnar tvær og Félag Sameinuðu þjóðanna gera með sér samstarfssamninga til þriggja ára um upplýsingagjöf og kynningarmál. Samningurinn sem undirritaður var í dag milli ráðuneytisins og UNICEF hefur það markmið að skapa grundvöll fyrir samráð og samvinnu utanríkisráðuneytisins og landsnefndarinnar, stuðla að umfjöllun um alþjóðamál með hugsjónir og markmið UNICEF að leiðarljósi, fjalla um þátttöku Íslands hvað varðar málefni barna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, efla umfjöllun á Íslandi um málefni barna í þróunarríkjum og efla þátt Íslands í málefnastarfi UNICEF.

Þríþættur stuðningur utanríkisráðuneytisins
Stuðningur ráðuneytisins við starfsemi Barnahjálpar SÞ er þríþættur, auk samningsins við Landsnefndina felur hann bæði í sér almenn og sértæk framlög til samtakanna. Almennu framlögin hækkuðu á síðasta ári um 16% og nema nú 875 þúsundum bandarískra dala á ári, eða jafnvirði 96 milljóna króna. Ennfremur er Ísland stærsti einstaki stuðningsaðili þriggja ára verkefnis í Sambesíufylki í Mósambík þar sem UNICEF byggir upp vatns-, hreinlætis- og salernisaðstöðu í sex héruðum sem eru meðal þeirra fátækustu í landinu. Sá stuðningur nemur á þremur árum 3,5 milljónum Bandaríkjadala eða tæpum 400 milljónum íslenskra króna. 
Neyðarsöfnun hafin á vegum Rauða krossins vegna alvarlegs fæðuskorts
Ljósmynd: Rauði krossinn

Rauði krossinn á Íslandi tók í vikunni ákvörðun um að senda um 16,5 milljónir króna til Jemen í neyðaraðstoð vegna alvarlegs fæðuskorts. "Jemen er það ríki sem býr við hvað verst mannúðarástand í heiminum öllum, en ástandið þar hefur ekki verið mikið til umfjöllunar undanfarið," segir á vef Rauða krossins á Íslandi.

Samhliða hófst í vikunni neyðarsöfnun fyrir Suður-Súdan og Sómalíu vegna alvarlegs fæðuskorts og yfirvofandi hungursneyðar, en þegar hefur verið lýst yfir hungursneyð á afmörkuðu svæði í Suður-Súdan. 

"Uppskerubrestur og fæðuskortur eru vegna óreglulegra rigninga og langvarandi þurrka en vopnuð átök sem geisað hafa í þessum löndum hafa einnig sín áhrif.
Rauði krossinn á Íslandi hefur átt í samstarfi við Alþjóða Rauða krossinn og aðstoðað við verkefni í Suður-Súdan og Sómalíu og þekkir því vel til aðstæðna í þessum ríkjum. Hjálparbeiðnir hafa verið sendar út frá Alþjóða Rauða krossinum þar sem landsfélög um allan heim voru beðin um að styðja við aðgerðir fyrir fólk sem býr við fæðuskort og hungur og tók Rauði krossinn ákvörðun um að svara því neyðarkalli," segir í fréttinni.

"Ástandið er afar slæmt og við verðum að bregðast við og styðja við þessi samfélög. Rauði krossinn á Íslandi hefur verið að byggja upp m.a. heimili fyrir munaðarlaus börn í Sómalíu og færanlega heilsugæslu og auk þess sent sendifulltrúa til Suður-Súdan sem hafa starfað þar við heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. barna- og mæðravernd. Núna þurfum við að gera enn meira og aðstoða fólk sem stendur frammi fyrir gríðarlegum erfiðleikum vegna fæðuskorts. Ég hef fulla trú á að Íslendingar sýni samstöðu og hjálpi bræðrum okkar og systrum, bæði í Sómalíu og Suður-Súdan. Hvert framlag skiptir mjög miklu máli og getur sannarlega bjargað lífi," sagði Kristín S. Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.

Hægt er að styrkja neyðarsöfnunina með því að senda SMS í númerið 1900 með orðinu TAKK og fara þá 1900 krónur af símreikningi. Auk þess er hægt að borga með AUR appinu í númer 123 788 1717.
Einnig er hægt að leggja inn á reikning 0342-26-12, kt. 530269-2649. 

Kvennanefnd SÞ ræðir efnahagslega valdeflingu 
Starfskonur landsnefndar UN Women á Íslandi sækja þessa dagana 61. fund Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (CSW61) í New York þar sem sjónum verður beint að efnahagslegri valdeflingu kvenna.

"Fundurinn er einn af fjölmennustu og viðamestu fundum heims þar sem þjóðarleiðtogar, frjáls félagasamtök, aðilar einkageirans, stofnanir SÞ og meðlimir grasrótarhreyfinga hvaðanæva úr heiminum koma saman, deila reynslu sinni og bera saman bækur sínar," segir í  frétt á vef UN Women. Í ár verður rætt um stöðu og réttindi kvenna á vinnumörkuðum og hvaða leiðir séu greiðfærastar við að tryggja konum óheft aðgengi að atvinnu, tekjuöflun og efnahagslegri valdeflingu.

"Efnahagsleg valdefling kvenna gerir ekki eingöngu konum og stúlkum kleift að blómstra heldur samfélaginu í heild sinni. Við lifum á breyttum tímum atvinnulífs og vinnumarkaða, á tímum nýsköpunar, alþjóðavæðingar og fólksflutninga. En á sama tíma stendur heimsbyggðin frammi fyrir loftslagsbreytingum, gríðarlegum fólksflótta og neyð, auknu vinnumansali og efnahagslegu kynjamisrétti. Það er allra hagur að skapa samfélög þar sem fullkomið kynjajafnrétti ríkir. Þar sem konur eru efnahagslega valdefldar og veitt jöfn tækifæri á við karlmenn er samfélagið heilbrigt og sjálfbært. Með því að útrýma kynbundnum launamun og dreifa þeirri ábyrgð sem felst í að sinna ólaunuðum umönnunarstörfum, sem yfirleitt falla í skaut kvenna og stúlkna, og fjárfesta í þeim mannauði sem konur búa yfir strax í dag - er talið að verg þjóðarframleiðsla heimsins muni aukast um 12 trilljónir bandaríkjadollara fyrir árið 2025," segir í fréttinni.

Hægt verður að fylgjast með framgangi mála á fundum á Facebook og Twitter-síðu UN Women. Myllumerkið fyrir fundinn er #CSW61


Nýir þingmenn í þróunarsamvinnunefnd

Töluverð endurnýjun varð á þróunarsamvinnunefnd eftir síðustu kosningar og nýir fulltrúar hafa verið skipaðir í nefndina frá öllum þingflokkum nema Vinstri hreyfingunni, grænu framboði. Steinunn Þóra Árnadóttir situr áfram í þróunarsamvinnunefnd fyrir VG en nýir fulltrúar eru Vilhjálmur Bjarnason, Sjálfstæðisflokki, Nichole Leigh Mosty, Bjartri Framtíð, Jón Steindór Valdimarsson, Viðreisn, Birgitta Jónsdóttir, Pírötum, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Framsóknarflokki og Guðjón Brjánsson, Samfylkingu.

Valgerður Sverrisdóttir fyrrverandi utanríkisráðherra er áfram formaður og fulltrúar borgarasamtaka, atvinnulífsins og fræðasamfélagsins eru þeir sömu og áður.
 
Áhugavert

Memorial ceremony for Professor Hans Rosling/ Karolinska Instituted
-
Tragedy to Triumph: How sewing lessons are changing the lives of women with fistula/ GirlsGlobe
-
Crucial knowledge, eftir Caroline Caesar/ D+C
-
FUTURE DEVELOPMENT: Draconian cuts to diplomacy and development: Unilateral disarmament or head fake, eftir George Ingram/ Brookings
-
Which are the world's strongest democracies?/ WEF
-
How to effectively manage metropolitan areas?, eftir EDE IJJASZ-VASQUEZ/ Alþjóðabankablogg
-
East Africa: States Should End Gender Discrimination/ AllAfrica
-
Girls robbed of their childhood in the Sahel, eftir Laurent Bossard/ OECD
-
Land, landlessness and the Namibian genocide, LEONOR FABER-JONKER/ AfricaIsACountry
-
How adult literacy programs are helping Maasai mothers in Kenya/ Brookings
-
How Your Company Can Advance Each of the SDGs/ UNGlobalCompact
-
100 Years Of Women Refugees In 63 Riveting Photos/ HuffingtonPost
-
3 Things You Should Know about Malnutrition in Mozambique, eftir Beatrice Montesi/ TheCicagoCouncil
-
World Development Report 2018: Realizing the Promise of Education for Development/ Alþjóðabankinn
-
How Safe Stoves Are Lifting Millions of Women Out of Poverty/ WFP
-
RESILIENCE:The rise of a concept/ D+C
-
The anti-princess book teaching girls to rebel/ BBC
-
Meet Esther, the first female commercial pilot in Rwanda/ ONE
-
The world's oldest population of humans is pushing back against unethical researchers/ Qz
-

Could Bill Gates' plan to tax robots really lead to a brighter future for all?, eftir Malcolm James/ TheConversation
-
PP39: Ambitious SDG goal confronts challenging realities: Access to justice is still elusive for many Africans/ Afrobarometer
-
Africa's biggest dams/ DW


White House Seeks to Cut Billions in Funding for United Nations/ FP
-
LAKE CHAD BASIN CRISIS/ FAO
-
CORRUPTION: Investigation into maize scandal/ D+C
-
As drought slashes rice harvest, 900,000 face hunger in Sri Lanka/ Reuters
-
Kynbundnum launamun útrýmt innan 5 ára/ UNRIC
-
Flooded schools send 23,581 learners home/ ReliefWeb
-
Mozambique: World Bank Supporting Project to Stem Deforestation/ AllAfrica
-
Besieged: A 360º experience in Sudan's Nuba Mountains/ IRIN
-
New EU recommendation on return procedures a "slippery slope" to solve European migration challenges - UN experts/ OHCHR
-
Malawi: U.S. Wants Malawi to Prosecute K800mil Health Scam Suspects/ AllAfrica
-
WFP Receives European Union Funding To Boost Nutrition In Burundi/ WFP
-
Young Gambians are abandoning their risky Europe migration dreams now Jammeh is gone/ Qz
-
'Where is the help?': black tea and dark despair as Somalia edges closer to famine
-
Þau vilja bara deyja/ Mbl.is
-
New Video Shows How Mobile Money Makes Inroads In Malawi
New Video Shows How Mobile Money Makes Inroads In Malawi
-
GETTING IT RIGHT: PROTECTION OF SOUTH SUDANESE REFUGEES IN UGANDA/ RefugeesInternational
-
Uganda's youth are addicted to gambling on English soccer, now the government wants to crack down/ Qz
-
Afhentu tæpar 600.000 krónur í hjálparstarf fyrir börn á flótta/ UNICEF
-
New head of AU commission/ DW
-
Peace efforts and sustainable development top agenda at UN agency's narcotics conference/ UN
-
How Liberian Women Delivered Africa´s First Female President/ NYT

Óskað eftir styrkumsóknum frá borgarasamtökum vegna mannúðarverkefna

Utanríkisráðuneytið óskar eftir styrkumsóknum frá íslenskum borgarasamtökum vegna mannúðarverkefna. Umsóknarfrestur er til og með 18. apríl 2017.

Ákveðið hefur verið að veita allt að 100 milljónum króna til mannúðarverkefna borgarasamtaka. Við úthlutun verður sérstaklega litið til verkefna sem bregðast við neyð fólks á flótta undan átökum, sem og verkefna tengdum ástandinu í Sýrlandi.
 

Viðskiptatækifæri í Níkaragva?
 
Sendiherra Níkaragva fyrir Ísland, Veronica Rojas, hefur verið hér á landi síðustu daga og tók þátt í kynningarfundi í gær um möguleg viðskiptatækifæri milli Íslands og Níkaragva. Á fundinum kynnti sendiherrann fyrir íslenskum fyrirtækjum möguleg viðskiptatækifæri í Níkaragva. Til Íslands er meðal annars flutt inn kaffi, ávextir og fatnaður. Í Níkaragva eru tækifæri til fjárfestinga í orku- og námavinnslu. Þá er landið vaxandi ferðamannastaður.

Veronica Rojas var vararáðherra viðskipta og iðnaðar í Níkaragva árin 2007-2016. Íslendingar tóku þátt í opinberri þróunarsamvinnu við Níkaragva á árunum 2006 til 2009.

Staða barna í Sýrlandi hefur aldrei verið jafnslæm og núna - sex árum eftir að stríðið hófst
 
Mynd UNICEF
Lífi barna í Sýrlandi hefur verið umturnað í stríðinu og þjáningar þeirra náðu nýjum hæðum í fyrra þegar ofbeldið í landinu stigmagnaðist. Nú sex árum eftir að stríðið hófst hafa aðstæður barna í landinu aldrei verið verri. Þetta segir Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) í frétt.
 
"Eftir sex ár af stríðsátökum þurfa nærri sex milljónir barna á mannúðaraðstoð að halda. Það er tólfföldun frá árinu 2012. Milljónir barna hafa þurft að flýja að heiman og dæmi eru um börn sem hrakist hafa allt að sjö sinnum á milli staða. UNICEF var í Sýrlandi fyrir stríðið og er þar nú. Neyðaraðgerðirnar í Sýrlandi og nágrannaríkjunum eru þær umfangsmestu frá stofnun UNICEF fyrir sjötíu árum.
 
UNICEF náði í fyrra að skima nærri eina milljón barna í Sýrlandi fyrir vannæringu. Þau 460.000 börn sem greindust vannærð fengu í kjölfarið meðferð. Fleiri en ein milljón barna fengu sálrænan stuðning og 3,6 milljónir barna fengu aðstoð til að halda áfram námi.
 
Hægt er að styðja neyðaraðgerðirnar með því að senda sms-ið STOPP í nr. 1900 (1.900 kr) og styrkja á heimasíðu UNICEF á Íslandi.
 
Alls búa 280.000 börn á 13 svæðum í Sýrlandi sem enn er haldið í herkví. Eina leið hjálparsamtaka til að ná til þeirra er með bílalestum með hjálpargögn. Dæmi eru um að þær hafi verið stöðvaðar og samtökum þannig meinað að veita særðum og sjúkum hjálp. Þrátt fyrir þetta náði UNICEF í fyrra að koma hjálpargögnum til 820.000 manna sem haldið er í herkví, í alls 86 aðgerðum.
 
Börn eru hvergi örugg
 
Milljónir barna líða fyrir stríðið á hverjum einasta degi og börn eru hvorki örugg heima hjá sér, í skólum, á leiksvæðum, né á sjúkrahúsum. Í fyrra voru að minnsta kosti 338 árásir gerðar á sjúkrahús í Sýrlandi og heilbrigðisstarfsfólk. Alls voru 255 börn drepin í og við skóla. Fleiri börn voru drepin í Sýrlandi í fyrra en áður og fleiri þvinguð til að taka þátt í stríðinu.
 
Fyrir utan þau börn sem láta lífið af sárum sínum deyja börn í Sýrlandi vegna sjúkdóma sem undir venjulegum kringumstæðum hefði mátt koma í veg fyrir.
 
"Ástandið er skelfilegt og allar aðstæður á vettvangi mjög erfiðar. Það veitir okkur hins vegar von að sjá árangurinn af hjálparstarfinu. UNICEF hefur þegar náð að hjálpa milljónum og aftur milljónum barna. Það hefur meðal annars verið gert með aðstoð tugþúsunda Íslendinga, bæði heimsforeldra og allra þeirra fjölmörgu sem stutt hafa neyðarsöfnunina okkar," segir Sigríður Víðis Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi.
 
"Þrátt fyrir hörmungarnar gerast kraftaverk í Sýrlandi á hverjum degi og börn þar í landi hafa sýnt ótrúlegt hugrekki. Fleiri en 12.000 börn fóru til dæmis í fyrra yfir átakalínurnar til að taka lokapróf í skólunum sínum. Mörg fóru um langan veg og ferðuðust í marga daga til að ná að taka prófin. Börnin vilja læra og hafa sýnt gríðarlega þrautseigju, hafa jafnvel lært í skólum sem komið hefur verið upp í göngum neðanjarðar."
 
Hættið að brjóta á börnum
 
UNICEF ákallar alla aðila stríðsins, þá sem hafa áhrif yfir þeim og alþjóðasamfélagið allt að tryggja tafarlausa pólitíska lausn á stríðinu í Sýrlandi. Enn fremur að hætta að brjóta á börnum - hætta að drepa þau, særa þau, fá þau til liðs við herflokka og hætta árásum á skóla og sjúkrahús. Hætta verður að halda byggðarlögum í herkví og veita þarf óheft aðgengi hjálparsamtaka að börnum í neyð, hvar sem þau eru í Sýrlandi.
 
UNICEF bendir enn fremur á mikilvægi þess að styðja við þau ríki og samfélög sem tekið hafa á móti flestu flóttafólkinu og halda áfram stuðningi við lífsnauðsynlegar aðgerðir UNICEF.
 
Ýmsar nýjungar og áherslubreytingar

- eftir Guðmund Rúnar Árnason verkefnastjóra í sendiráði Íslands í Lilongve

Vinna við nýtt verkefnaskjal vegna samstarfs við Mangochihérað í Malaví er nú á lokastigi. Í megindráttum er samstarfið á sömu sviðum og á sama grunni og á tímabilinu 2012-2016 (sem var framlengt til júníloka 2017). Þrátt fyrir það, er þar að finna ýmsar nýjungar og nýjar áherslur. Hér á eftir verður þeim að nokkru lýst, með þeim fyrirvara þó, að vinnunni er ekki lokið að fullu og ferli samþykkta allra hlutaðeigandi er eftir. Þótt eitthvað kunni því að breytast lítillega frá því sem nú er áformað, eru þau drög sem liggja fyrir að mestu byggð á óskum og hugmyndum heimamanna í Mangochi og náið samráð hefur verið haft við héraðsstjórnina við mótun verkefnisins á öllum stigum.
 
Ein mikilvæg breyting, sem þó lætur ekki mikið yfir sér, er að nú eru allar verkefnastoðirnar í einu skjali. Litið er á þær allar sem hluta af Grunnþjónustuverkefninu í Mangochi (Mangochi Basic Services Programme).
 
Mikil aukning í vatns- og hreinlætishluta
Í vatns-  og hreinlætisverkefninu var einungis unnið í einu Traditional Authority (TA Chimwala) á tímabilinu 2012-2016. Þar var áætlað að gera 350 vatnsveitur virkar, með nýjum borholum, haldgröfnum lokuðum brunnum og endurgerðum borholum. Niðurstaðan varð nær 380 (auk 120 í framlengingunni til árs). Í drögum að verkefnaskjali er miðað við 680 vatnsveitur, þar af 500 nýjar. Það er talið raunhæft, m.a. vegna þeirrar reynslu sem hefur byggst upp hjá vatnsskrifstofunni undanfarin ár.
 
Framgangur hreinlætishluta verkefnisins var ekki jafn góður og vatnshlutans. Aðgerðir héldu ekki í við vatnshlutann og það sem gert var, var ekki nægjanlega varanlegt í öllum tilvikum. Í framlengingunni var ákveðið að gera átak í að ljúka að mestu hreinlætisþættinum í TA Chimwala og jafnframt að flytja forræði hans frá vatnsskrifstofunni yfir til heilbrigðisskrifstofunnar, en það er sama fyrirkomulag og á landsvísu.
 
Næstu skref í lýðheilsu
Á tímabilinu 2012-2016 var mikið fjárfest í nýbyggingum. Byggð var stór fæðingardeild við héraðssjúkrahúsið, fjórar fæðingardeildir í dreifbýli, ellefu biðskýli fyrir verðandi mæður, tíu heilsuskýli í dreifbýli og tíu starfsmannahús við heilbrigðisstofnanir. Í framlengingunni var bætt um betur, byggðar fjórar fæðingardeildir til viðbótar í dreifbýli og fimm biðskýli.
 
Á komandi verktímabili verður áfram lögð áhersla á að efla þjónustu við mæður og börn og reynt að tryggja að í þeim heilbrigðisstofnunum sem hafa verið byggðar, verði veitt góð þjónusta. Nú er unnið að því að ráða fagfólk til starfa við fæðingardeildir og heilsuskýli sem reist hafa verið og byggð verða starfsmannahús víða í dreifbýli til að hýsa væntanlegt starfsfólk. Stærsta einstaka framkvæmdin verður að bæta verulega aðstöðu í heilsugæslustöðinni í Makanjira, m.a. með því að reisa skurðstofu. Makanjira er um 100 km frá Mangochibæ við austanvert Malavívatn. Þetta hefði í för með sér að ekki þyrfti að flytja eins marga til héraðssjúkrahússins í Mangochibæ og í dag, en leiðin er stundum ógreiðfær og erfið, einkum á regntímanum. Talið er að í dag þurfi sjúkrabílar að fara þessa leið með sjúklinga að jafnaði tvisvar á dag, en með þessu mætti fækka þeim ferðum verulega.
 
Gangi allt þetta eftir, ættum við að sjá stórfellda fækkun dauðsfalla mæðra og ungra barna í héraðinu á næstu árum. Þessar áherslur eru eðlilegt framhald af þeirri gríðarlegu uppbyggingu í innviðum sem samstarfið í lýðheilsu hefur gengið út á undanfarin ár.
 
Bryddað verður upp á ýmsum nýjungum, til að styðja enn frekar við markmiðin. Þannig er fyrirhugað að gera tilraun með að útbýta næringarviðbót fyrir 6-18 mánaða börn í öllum heilsugæslustöðvum og styrkja fræðslu um mikilvægi þess að draga úr fólksfjölgun og kynna aðferðir í því sambandi. Að lokum verður lögð aukin áhersla á að efla vitund og þekkingu fólks úti í dreifbýlinu á grundvallaratriðum í lýðheilsu.
 
Nýjar áherslur í menntahlutanum
Stórvægilegustu nýjungarnar og breytingarnar eru fyrirhugaðar í menntahluta verkefnisins, þótt þær byggi vissulega á því sem áður hefur verið gert. Áfram verður unnið í sömu 12 skólum og á árunum 2012-2016. Á því tímabili voru byggðar 52 kennslustofur, 36 kennarahús og 48 kamrar. Því til viðbótar var ýmiss konar þjálfun fyrir kennara og skólastjórnendur, kaup á kennslugögnum og skólaborðum og fleira sem er nauðsynlegt til að skólastarf geti gengið eðlilega fyrir sig.
 
Þegar verkefnið fór af stað, voru um 20.000 nemendur í þessum 12 skólum. Núna - tæpum fimm árum síðar - eru þeir um 25.000. Það er líklega ekki nema að litlu leyti vegna þess að skólunum haldist betur á nemendum sínum vegna þessara inngripa, heldur fyrst og fremst vegna risastórra nýrra árganga. Á sama tíma og nemendum fjölgaði um fjórðung, fjölgaði kennslustofum um 50%. Það þýðir, að væntanlega njóta fleiri börn þess að kennsla fer fram innandyra en áður, þótt óneitanlega gangi hægt að koma þeim öllum undir þak.
 
Áhersla á yngstu börnin
Nú er gengið út frá því, að höfuðáhersla verði lögð á yngstu börnin, fyrsta og annan bekk. Þannig verði byggðar fyrir þau skólastofur, tryggt að hvert og eitt fái í hendur nýja kennslubók í öllum greinum. Reynt verði að tryggja að þau læri að lesa, skrifa og undirstöðuatriði í reikningi á þessum fyrstu árum. Það muni síðan skila sér inn í efri bekkina í framhaldinu. Til að þetta verði hægt, þarf enn að byggja talsverðan fjölda kennslustofa. Í framlengingunni er verið að reisa 18 stofur og ekki ósennilegt að á komandi tímabili verði reistar a.m.k. tvöfalt fleiri til viðbótar. Jafnframt eru í skoðun möguleikar á að fjölga aðstoðarfólki í yngstu bekkjunum og skipta þeim og taka þannig upp tvísetningu eins og þá sem lögð var af á Íslandi fyrir nokkrum árum. Með því fengist betri nýting húsnæðis og starfsfólks. Þetta er þó ekki alveg eins einfalt og gæti virst, þar sem ná þyrfti sátt í samfélögunum um fyrirkomulagið, ekki síst við trúarleiðtoga. Ein nýjung til viðbótar, er að gera tilraun með forskóladeildir við tvo skóla, til að undirbúa börnin og til að bæta þjónustu í samfélögunum.
 
Aftur í skóla
Undanfarið hefur verið mikil umræða um ungmennahjónabönd í Malaví. Svo virðist sem það sé að verða vakning um mikilvægi þess að koma í veg fyrir þau, en hjónabönd ungmenna hafa verið mjög algeng og dragbítur á þróun og möguleika margra ungmenna til menntunar. Fyrir því liggja margvíslegar menningarlegar og efnahagslegar ástæður. Í komandi verkefni er gert ráð fyrir því að styðja við viðleitni til að koma í veg fyrir barnahjónabönd. Það verður m.a. gert í gegnum skólana 12 sem unnið er með, en einnig með stuðningi við héraðsyfirvöld, við að upplýsa höfðingja, mæðrahópa og aðra sem geta haft áhrif til góðs. Meðal annars er horft til fyrirmyndar Chief Kachindamoto, sem áður hefur verið sagt frá í Heimsljósi.
 
Fleira í deiglunni
Meðal annarra nýmæla í samstarfinu eru aðgerðir til valdeflingar kvenna og ungmenna. Undirbúningur þeirra er skemmra á veg kominn en ofangreint og fer væntanlega fyrst í stað í gang sem greiningarvinna. Gerð verður nánari grein fyrir þessum áhersluþáttum síðar.
facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105