Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
9. árg. 301. tbl.
28. september 2016
Íslenska jarðhitaverkefnið fær góða umsögn:
Verkefnið mikilvægt, vel undirbúið og framkvæmt

Óháðir úttektaraðilar bera lof á íslenska jarðhitaverkefnið í Afríku. Ljósm. gunnisal
Fjögurra ára samstarfsverkefni um jarðhitaleit í austanverðri Afríku milli utanríkisráðuneytisins og Norræna þróunarsjóðsins (NDF) lýkur á næsta ári. Verkefnið fær prýðisgóða einkunn í óháðri úttekt. 

"Meðal þess sem fram kemur í úttektinni er að verkefnið svarar augljósri og brýnni þörf landa í Austur-Afríku, þjálfunarþátturinn hafi gengið mjög vel og mælst vel fyrir meðal þátttakenda,  jarðhitaleit og yfirborðsrannsóknir hafi verið í háum gæðaflokki og góðar líkur séu taldar á því að markmið verkefnisins náist, þótt óvissa sé um jarðhita og magn hans í flestum landanna," segir María Erla Marelsdóttir skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytis.

Íslenska jarðhitaverkefnið - Geothermal Exploration Project - hófst árið 2013 í samfjármögnun með Norræna Þróunarsjóðnum (NDF) en það er líka tengt viljayfirlýsingu Íslands og Alþjóðabankans í jarðhitamálum (Geothermal Compact).  Í verkefnisskjali við upphaf verkefnis var gert ráð fyrir áfangaúttekt og samið var við  Nordic Consulting Group að loknu alþjóðlegu útboði. Úttektaraðilar heimsóttu Ísland og þrjú landanna sem njóta stuðnings frá verkefninu, Eþíópíu, Kenía og Rúanda, og áttu fundi með fjölda aðila sem að verkefninu koma með einum eða öðrum hætti, auk þess að meta ýmis verkefnisgögn.

"Þessi áfangaúttekt skilar traustum niðurstöðum og tillögum varðandi stöðu jarðhitaverkefnisins og framkvæmd þess til verkefnisloka. Í úttektinni segir að verkefnið sé mikilvægt, vel undirbúið og framkvæmt. Engin umtalsverð gagnrýni er sett fram og góðar líkur taldar á því að markmiðin náist," segir María Erla.

Um óvissuna varðandi jarðhita og magn hans segir María Erla að frá upphafi hafi ætlunin verið að leiða í ljós hversu mikinn nýtanlegan jarðhita væri að finna í löndum í sigdalnum í Austur-Afríku og því komi ekki á óvart að háhita hafi ekki verið að finna í mörgum landanna eins og Úganda, Rúanda, Búrúndi, Sambíu og Mósambík. "Því er svo við að bæta að vel heppnuð jarðhitaleit í Eþíópíu mun að öllum líkindum mjög fljótlega verða grunnur að jarðhitaborunum með fjármögnun frá Alþjóðabankanum," segir hún.

Í úttektinni kemur fram að nokkrar  breytingar hafa orðið á verkefninu í framkvæmd, borið saman við upprunalegt verkefnisskjal. Allar falli þær þó vel að verkefnishugmyndinni og  það er mat úttektaraðila að breytingarnar séu jákvæðar. Þá telja þeir að vinnan við að koma á laggirnar þekkingarsetri um jarðhita í Kenía - African Geothermal Center of Excellence - sé mikilvæg.

Samstarfssamningur við Matvælaáætlun SÞ sem miðar að útrýmingu hungurs

Frá undirritun samningsins í New York.
Lilja Alfreðsdóttir utanríkis-ráðherra og Ertharin Cousin, framkvæmdastjóri Matvæla-áætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP), undirrituðu í gær samning um framlög Íslands til verkefna WFP sem miða að því að ná öðru Heimsmarkmiðinu, um útrýmingu hungurs fyrir árið 2030. WFP er áherslustofnun Íslendinga í mannúðarmálum og samstarfssamningurinn er sá fyrsti sem Ísland gerir við stofnunina.

"Með þessum samningi við Matvælaáætlunina erum við að fylgja eftir skuldbindingum Íslands um að veita fyrirsjáanleg og sveigjanleg framlög sem miða að því að bjarga mannslífum og styðja þá sem mest þarfnast mannúðaraðstoðar," sagði Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra. "Mikilvægast er að ná til þeirra hópa sem standa veikast og tryggja að jafnrétti kynjanna og réttindi kvenna verði mikilvæg í öllu mannúðarstarfi. Þessi samningur er liður í því," sagði utanríkisráðherra.

"Þegar neyðarástand skapast þá metur WFP það mjög mikils að eiga samstarfsaðila eins og Íslendinga sem gera okkur kleift að bregðast skjótt og vel við neyð allra þeirra milljóna manna sem búa við átök eða náttúruhamfarir," sagði Ertharin Cousin, framkvæmdastjóri WFP.

Á næstu fimm árum greiðir Ísland á grundvelli samningsins að minnsta kosti 250 milljónir króna (2,2 milljónir bandaríkjadala) í almenn framlög. Samningurinn gerir einnig ráð fyrir eyrnamerktum framlögum í samræmi við áform íslenskra stjórnvalda um beinar greiðslur til viðbótar við almennu framlögin. Einnig snýst samningurinn um fæðuöryggi og næringu bæði í neyðartilvikum og langvinnum kreppum, þar á meðal leiðir sem stuðla að auknum tækifærum til að bæta lífsafkomu fólks. Jafnframt er þar að finna ákvæði um jafnréttismál og ábyrgðarskyldu viðkomandi samfélaga.

WFP hefur frá árinu 2003 notið góðs af viðbragðssamningi við Íslensku friðargæsluna sem hefur ráðið íslenska sérfræðinga til starfa hjá stofnuninni. Með nýja samstarfssamningnum verður viðbragðssamningurinn útvíkkaður til að auka getu WFP til að bregðast við hættuástandi og styrkja aðgerðir í tengslum við matvælaaðstoð.

Hvernig stendur Ísland sig í alþjóðlegri þróunarsamvinnu?
Rýniteymi frá DAC í vikulangri heimsókn í Reykjavík

Í mars á næsta ári verður birt fyrsta heildstæða jafningjarýnin á þróunarsamvinnu Íslands. Það er þróunarsamvinnunefnd Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD-DAC) sem stendur að rýninni. Nefndin er mikilvægur fjölþjóðlegur samstarfsvettvangur um þróunarmál og setur til dæmis viðmið um það hvað megi telja fram sem þróunaraðstoð.

Einn af grunnþáttunum í starfi nefndarinnar er jafningjarýnin. Hvert ríki fer gegnum hana á um það bil fimm ára fresti og tilgangurinn er einkum tvíþættur: Að tryggja ábyrgð framlagsríkja og að stuðla að gagnkvæmum lærdómi aðildarríkja nefndarinnar.

Ísland fer nú í gegnum jafningjarýni OECD-DAC í fyrsta sinn, þótt upphitun hafi átt sér stað 2012-2013 með svokallaðri sérstakri rýni í aðdraganda þess að Íslendingar gerðust aðilar að nefndinni. Niðurstaða jafningjarýninnar núna verður upphafsgildi sem nefndin mun miða frammistöðu Íslands við í framtíðinni.

Rýnin er heilmikið ferli og verður hápunktur hennar heils dags fundur í París þann 8. mars 2017, þar sem öll þróunarsamvinnunefnd OECD mun fjalla um frammistöðu Íslands í þróunarmálum ásamt íslenskri sendinefnd.

Ein stærsta varðan á leiðinni var þó heimsókn sex manna rýniteymis til Reykjavíkur á dögunum. Teymið varði heilli viku í að velta við öllum steinum og hitta alla sem eitthvað hafa að gera með þróunarsamvinnu Íslands. Má þar nefna fulltrúa Alþingis, borgarasamtaka, samstarfsaðila í Malaví, þróunarsamvinnunefndar, Háskóla Sameinuðu þjóðanna, Ríkisendurskoðunar, fjármálaráðuneytis, velferðarráðuneytis, umhverfis- og auðlindaráðuneytis og innanríkisráðuneytis auk að sjálfsögðu fjölda starfsmanna utanríkisráðuneytisins. Ráðherra og ráðuneytisstjóri hittu rýniteymið tvisvar. 

Á myndinni má sjá rýniteymið á vinnufundi með ráðherra. 

Þróunarsamvinnu Íslands hrósað í fjölmiðlum í Úganda:
Þakka Íslandi góðan árangur nemenda í Kalangala

Eitt skólabarnanna í Kalangala héraði. Ljósmynd: gunnisal
Námsárangur grunn- og framhaldsskólanema í Úganda er afspyrnu slakur og sýna kannanir að ofan á mikið brottfall skólabarna læra þau fátt og illa, kunna mörg varla að draga til stafs eða stauta eftir marga ára skólaveru.  Eitt hérað í landinu hefur þó skorið sig úr hvað varðar sókn í skólamálum, Kalangala eyjasamfélagið á Viktoríuvatni þar sem Ísland hefur stutt við skólastarf á liðnum árum og gerir enn.  Blaðafregnir í landinu greina frá afar slökum árangri í ensku, lestri og stærðfræði á almennu prófi menntaeftirlits-stofnunar landsins, en Kalangala trónir efst í ensku.  Hvert er leyndarmál Kalangala?  spyr "National News" og fær svarið: "Þökk sé stuðningi ICEIDA" (alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands) "með því að leggja okkur til bækur og fleira."

Þetta segir Emmanuel Nseko, yfirmaður menntaskrifstofu héraðsins. Fyrri kannanir hafa sýnt að Kalangala nemendur hafa mjög sótt í sig veðrið í fleiri námsgreinum, fyrir nokrum árum voru þeir langt fyrir neðan landsmeðaltal í grunngreinum á samræmdum prófum, nú komnir vel yfir meðaltalið.

Stefán Jón Hafstein, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Úganda segir þetta afar ánægjulegt og gaman að sjá Ísland nefnt í sérstökum dálki þar sem fjallað er um árangur í landi þar sem heildarmyndin sé mjög hryggileg. "Við vitum að einkunnir barna í Kalangala hafa færst mikið uppávið á undanförnum árum, og það er ástæða þess að við höfum nú undirbúið og hafið enn frekari stuðning við fátæk fiskimannaþorp í tveimur héruðum á næstu fjórum árum. Við ætlum að styðja við Kalangala áfram, og hefjum nú samstarf við Buikwe hérað," segir Stefán Jón. 

Verkefnin eru unnin af héraðsstjórnum með íslenskum stuðningi. Stefán Jón segir að verkefnin taki á mörgum þáttum menntamála, beinum stuðningi við nemendur, þjálfun kennara, námseftirliti, námsbókum og skólaeldhúsum og skólagörðum svo dæmi séu tekin.  Þetta er fjölþættur stuðningur. "Þá lukum við nýlega ítarlegri úttekt á því hvers vegna fátæk börn hrekjast úr skóla vegna gjalda sem lögð eru á foreldra þótt grunnmenntun eigi að vera ókeypis. Við munum nú reyna að fá skólana til að lækka gjöldin gegn því að fá stuðning í ýmsu formi, og þannig auka líkurnar á því að brottfall minnki. Þessar fréttir hleypa okkur kapp í kinn."

Stefán Jón nefnir einnig að nýlega hafi komið út skýrsla um menntun og færni kennara sem sé svört, allt upp í 80% kennara hafi ekki grunnfærni í þeim námsgreinum sem þeir eiga þó að kenna.  ,,Ég hef sagt að skólakerfið í Úganda sé eins og svarthol, það er sama hvernig maður snýr sér, alltaf blasir svartnætti við.  Það er því eins og að fá ljósgeisla að sjá svona frétt þar sem heimamenn sjálfir þakka okkur áberandi góðan árangur í samfélögum sem þó eiga mjög undir högg að sækja," segir Stefán Jón Hafstein.  
Áherslur norskra stjórnvalda í þróunarmálum:
Stúlkur og flóttafólk í forgang hjá Norðmönnum

Málefni stúlkna í öndvegi í norskri þróunarsamvinnu. Ljósmynd frá Mósambík: gunnisal
Norska ríkisstjórnin áformar að tvöfalda framlög til menntunar á kjörtímabilinu og setja stúlkur og flóttafólk í forgang. Þetta kemur fram í grein Børge Brende utanríkis- og þróunarmálaráðherra Noregs í Dagens Næringsliv sem birtist á dögunum.

Brende segir í greininni að áherslur ríkisstjórnarinnar eins og þær birtist í fjárlögum næsta árs séu eftirfarandi: Mannúðaraðstoð, menntun, heilbrigðismál, viðskiptaþróun og loftslags- og umhverfismál. Hann segir einingu ríkja í grófum dráttum um þessar áherslur á Stórþinginu og meðal þeirra sem láti sig málaflokkinn varða. Hann skrifar jafnframt að verið sé að vinna heildarstefnu fyrir stuðning við veikburða ríki, að stefnt sé að því að tvöfalda framlög til menntamála á kjörtímabilinu, með áherslu á menntun stúlkna, flóttafólks og barna á átakasvæðum og að aukin áhersla sé á heilbrigðismál.

Áhersla sé einnig á verðmæta- og atvinnusköpun, meðal annars með auknum framlögum til Norfund, sem ætlað er að stuðla að hagvexti, en sá vöxtur verði að vera í sátt við umhverfið. Ráðherrann segir að fimm milljörðum norskra króna verði varið árlega til aðgerða í loftslagsmálum í þróunarríkjum og til að berjast gegn eyðingu regnskóga. Hann skrifar að bróðurpartur framlaga Noregs til þróunarmála renni til þessara fimm málaflokka, auk þess sem stutt sé við borgaraleg samtök í þróunarríkjum.

Fram kemur í greininni að stjórnvöld hafi fækkað samstarfsríkjum úr 113 í 88 á kjörtímabilinu og að samningum um þróunarverkefni hafi fækkað úr 6000 í 4500. Hann nefnir í lok greinarinnar að þróun sé ekki bundin við þróunarsamvinnu og því hafi verið ákveðið að samþætta málaflokkinn utanríkisstefnunni með skýrari hætti en fyrri ríkisstjórnir hafi gert. Þess vegna styðji stjórnvöld sem dæmi þróunarríkin á vettvangi alþjóðlegra viðskiptasamninga, við að byggja upp skattakerfi og fjárfesti af þunga í friðarferlum, kynjajafnrétti stuðla að stöðugleika í veikburða ríkjum.


Frumbyggjar og fátækir hraktir burt af jörðum sínum

Smellið á forsíðumynd skýrslunnar til að lesa nánar
Milljónir manna horfa fram á að vera flæmdar burt af heimilum sínum eftir að jarðir þeirra hafa verið seldar. Samkvæmt nýjum gögnum sem mannúðarsamtökin Oxfam vísa til eru komnir á samningar um sölu á landi sem eru á stærð við Þýskaland að flatarmáli - 360 þúsund ferkílómetrar. Salan er í flestum tilvikum á kostnað fátækra bænda, hirðingja, skógafólks, fiskimannasamfélaga og frumbyggja, "þeirra sem þurfa mest á landinu að halda og eru best í stakk búnir til að vernda það," eins og fulltrúar Oxfam orða það í frétt.

Samtökin hafa frá árinu 2009 varað við þeirri þróun að sífellt verður algengara að jarðir séu keyptar af fjárfestum til að mæta vaxandi spurn eftir matvælum og lífrænu eldsneyti, eða einfaldlega af hreinni spákaupmennsku. Rannsókn Oxfam og félagsins Land Matrix Initiative leiðir í ljós að nýir eigendur eru að hefjast handa um framkvæmdir á jörðum í 75% tilvika af þeim 1500 samningum um sölu jarða sem gerðir hafa verið frá aldamótum. Um 60% af umræddu landrými eru svæði frumbyggja og fámennra samfélaga þar sem hefðbundið eignarhald hefur í fæstum tilvikum verið formlega viðurkennt af stjórnvöldum. Samningaviðræður við íbúana hafa í undantekningartilvikum verið haldnar.

Oxfam segir í fréttinni að morð og ofbeldisfullar aðgerðir til að hrekja fólk burt af jörðum færist í aukana.


Óttast að sýklaónæmi leiði til fjölgunar fátækra:
WHO spáir því að tíu milljónir deyi árlega úr sýkingum árið 2050

Why antibiotic resistance has become a problem/ Newsy
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin spáir því að árið 2050 dragi sýkingar af völdum ónæmra baktería tíu milljónir jarðarbúa til dauða árlega, fleiri en deyja úr krabbameini. Stofnunin segir að lyfjafyrirtæki sjái sér lítinn hag í að þróa ný sýklalyf.

RÚV greindi frá og sagði að ofnotkun sýklalyfja væri ein helsta skýringin á því að sífellt fleiri bakteríustofnar væru ónæmir fyrir þeim. Sérfræðingar Alþjóðaheilbrigðis mála-stofnunarinnar óttast að vandinn sé að verða óviðráðanlegur. Haft var eftir Keiji Fukuda, aðstoðarframkvæmdastjóra hjá WHO og sýklafræðingi, að sífellt erfiðara væri að lækna sýkingar vegna sýklalyfjaónæmis.

"Útlit er fyrir ískyggilega þróun á næstu áratugum, árið 2050 er búist við að tíu milljónir jarðarbúa muni árlega deyja vegna sýkinga, fleiri en af völdum krabbameins. Fukuda óttast að þetta eigi eftir að bitna sérstaklega hart á fátækari hlutum heimsins þar sem heilsugæsla er mun lakari en í iðnríkjunum," sagði í fréttinni.

Samkvæmt yfirlýsingu sem samþykkt var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna skuldbinda þjóðir sig til þess að vekja athygli almennings á hættunni sem stafar af sýklaónæmi. DV sagði frá og upplýsti að þá verði þrýst á aukna nýsköpun í lyfjaiðnaði sem hafi það að marki að þróa ný lyf sem gagnast í baráttunni gegn sýklaónæmi. Loks verði miðlægum gagnagrunni komið upp svo hægt verði að halda betur utan um þróunina í þessum efnum.


FEST AFRÍKA hefst í dag í Reykjavík:
Afrísk list og menning í höfuðborginni næstu daga

FEST AFRÍKA REYKJAVÍK 2016 hefst í dag í Norræna húsinu með dagskrá frá 16:30 til 18:30  þar sem fram koma m.a. Cheick Bangour, Menard Mponda & Cheza Ngoma og Skuggamyndir frá Býsans. Meðal gesta á hátíðinni eru afrískir tónlistarmenn frá Norðurlöndunum, Gíneu og Gíneu-Bissá, auk íslenskra tónlistarmanna. Hátíðin verður haldin í Norræna húsinu, Tjarnarbíói, Gamla bíó og lokatónninn verður sleginn með dagskrá í Iðnó sunnudaginn  2. október.

FEST AFRÍKA REYKJAVÍK heldur upp á sjöunda starfsár sitt í ár.   Þessi árlegi viðburður samanstendur af fjölbreyttum dagskrárliðum, þ.m.t. námskeiðum fyrir börn og fullorðna, ráðstefnur í samstarfi við Reykjavíkurborg, tónlistarviðburði frá afrískum og norrænum listamönnum, trommuleikurum og danshópum. Á Fest Afríka Reykjavík verður boðið upp á fjölbreytta viðburði eins og tónleika, danssýningar, ljósmyndasýningu, afríska matarmenningu og afrískan markað.

Megin markmið Fest Afríka Reykjavík er að kynna afríska list og menningu í gegnum skemmtilega viðburði og námskeið og efla þannig þekkingu á afrískri menningu í íslensku samfélagi sem og minni samfélagshópum. 

Hægt er að kaupa helgarpassa á 9.900 krónur sem gildir á alla viðburði. Einnig verður hægt að kaupa miða á stakt kvöld á 3.900 kr. Frítt verður á viðburð í Norræna húsinu í kvöld.

Allar nánari upplýsingar má finna inn á  vef Fest Afríka.
Skrifað undir rammasamning við UNICEF í New York
Anthony Lake og Lilja Afreðsdóttir eftir undirritun samningsins í New York.

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Anthony Lake framkvæmdastjóri Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna formfestu samstarf íslenskra stjórnvalda og UNICEF með undirritun rammasamnings í höfuðstöðvum UNICEF í New York í lok síðustu viku.

UNICEF er ein af fjórum áherslustofnunum Íslendinga í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands og íslensk stjórnvöld hafa veitt framlög til Barnahjálpar SÞ um árabil, ýmist í formi almennra framlaga, eyrnamerktra framlaga sem renna til fyrirfram skilgreindra verkefna, eða útsendra starfsmanna.

Samkvæmt samningnum nær stuðningurinn bæði til starfsemi UNICEF á sviði þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar, en samtökin eru öflug á báðum sviðum um heim allan.

Í rammasamningnum felst yfirlýsing um stuðning Íslands við stofnunina, en samningurinn veitir enn fremur heildræna umgjörð utan um samstarf Íslands og stofnunarinnar þar sem jafnframt er gerð grein fyrir verklagi um skýrslugjöf, eftirlit og úttektir, svo dæmi séu tekin.

Upplýst veröld

Norðmenn kynntu Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna fyrir þjóðinni með frumlegum og einstaklega fallegum hætti aðfaranótt 17. september þegar 5000 manns fóru í fjallgöngu á Gaustoppen. Fjallið var lýst upp á 17 stöðum, jafnmörgum Heimsmarkmiðunum og meðfylgjandi myndband lýsir þessum gjörningi betur en þúsund orð.

Nýting jarðhita umræðuefni á fundi utanríkisráðherra 

Möguleikinn á frekari nýtingu jarðvarma til húshitunar og raforkuvinnslu var umræðuefnið á fundi sem fulltrúar Íslands, Kenía og IRENA, alþjóðastofnunar um endurnýjanlega orkugjafa, stóðu fyrir í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna (SÞ) í síðustu viku. Á fundinum hvatti Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra til aukins samstarfs á þessu sviði og bauð fram sérfræðiþekkingu Íslands, gæti hún orðið að gagni fyrir aðrar þjóðir. Þá ræddi hún um mikilvægi endurnýjanlegra orkugjafa í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og vísaði m.a. til Parísar-samningsins sem miðar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ísland hefur fullgilt samninginn og utanríkisráðherra afhenti Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóra SÞ, fullgildingarskjal Íslands því til staðfestingar í síðustu viku eins og áður hefur komið fram.

Nú hafa um 60 ríki fullgilt samninginn og er sá fjöldi ríkja samanlagt ábyrgur fyrir um 48% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda. Til að samningurinn taki gildi þarf fullgildingu frá ríkjum sem samanlagt losa a.m.k. 55% af gróðurhúsalofttegundum.


Áhugavert

Refugee Crisis: enough words, now it is time for action, eftir Angel Gurria/ Linkedin
-
What the 'Uber-isation' of domestic work means for women, eftir Abigail Hunt/ Development Progress
-
'This is no longer a time for promises,' Cameroon President tells UN, urging action on Global Goals/ UNNewsCentre
-
Dear President Obama/ Snappytv
-
Memory Banda 'leads like a girl' in fearless fight against child marriage/ Mashable
-
The world's fastest-growing population needs our help, eftir Carolyne Miles/ Devex
-
#ItsPossible to #EndPoverty Together/ Alþjóðabankinn
-
Refugees and migrants: the view from this week's New York summits, eftir Marta Foresti/ ODI
-
Educate refugee children or lose them forever, eftir Bassam Khawaja/ AlJazeera
-
Numbers in Action/ Heimsmarkmiðin
Numbers in Action/ Heimsmarkmiðin
-
Global poverty and national inequality: What's the connection?, eftir Andy Sumner og Chris Hoy/ TheBroker
-
Economies of empathy: The moral dilemmas of charity fundraising, eftri Iason Gabriel/ Alþjóðabankablogg
-
#IMAGINE a better future for all children I UNICEF
#IMAGINE a better future for all children I UNICEF
-
Charts: Where do Refugees Originate From and Where are they Hosted?, eftir TARIQ KHOKHAR/ Alþjóðabankinn
-
Hvar er eiginlega best að hjálpa fátæku og stríðshrjáðu fólki?, eftir Atla Viðar Thorsteinsson/ Fréttablaðið
-
Å vinne freden, eftir Frida Skjæraasen/ NORADblogg
-
Rwanda Development Not That Great/ D+C
-
'We've made progress in education and gender equality - but more must be done', eftir Julia Gillard/ TheGuardian
-
Why do we need the African Union?/ ECDPM
-
Robert S. McNamara (RSM) Fellowships Program Seeking Scholarship Applicants for PhD Research on Development/ Alþjóðabankinn
-
Tanzanian children are the world's fittest while American kids are among the least/ Qz
-
The Minister of Foreign Affairs and External Trade of Iceland urges world leaders to safeguard the rights and interests of LGBT+ groups around the globe/ GayIceland
-
Six ways to turn education spending into investments with high returns, eftir HARRY A. PATRINOS/ Alþjóðabankablogg
-
How the Clinton Global Initiative Changed the World By Changing Corporate Philanthropy/ TriplePundIt
-
Ending hunger and malnutrition: How to leverage partnerships that work, eftir Laté Lawson-Lartego/ Devex
-
Bør vi satse mindre på læring for å nå utdanningsmålene?, eftir Ragnhild Dybdahl/ NORADblogg
-
Voices of the poor/ DevelopmentProgress
-
Viðburður í næstu viku: Poverty and Shared Prosperity 2016: Taking on Inequality/ Alþjóðabankinn
-
DfID 'should have done more' to give poor countries a voice on tax evasion, eftir Karen McVeigh/ TheGuardian
-
Netákall Amnesty: ELT UPPI TIL AÐ NÁ LÍKAMSHLUTUM HENNAR
-
Why the World Bank needs to ask Jim Kim some tough questions in his Job Interview, eftir Nadia Daar/ Oxfamblogg
-
Music for a better future/ D+C
-
Using data to fight world hunger, eftir Nilam Prasai and Indira Yerramareddy/ IFPRI
-
EMERGENCY HOUSEHOLD WATER FILTER CHALLENGE/ HIF
-
A development data revolution needs to go beyond the geeks and bean-counters, eftir Jonathan Glennie/ TheGuardian

Fræðigreinar og skýrslur
Fréttir og fréttaskýringar

Kim mun áfram stýra Alþjóðabankanum/ Mbl.is
-
Hope fades in Malawi as severe drought leaves millions suffering/ ABC
-
INVISIBLE MAJORITY: HELPING INTERNALLY DISPLACED PERSONS"- An open letter by OCHA, UNDP, IRC, NRC and the Special Rapporteur on the Human Rights of Internally Displaced Persons/ UNOCHA


Tímaritið Udvikling/ Danska utanríkisráðuneytið
-
Ingen lærdom fra Afghanistan/ NRK
-
UN Secretary-General: It is all our Responsibility to Ensure that the World Humanitarian Summit Leads to Change/ ReliefWeb
-
Transforming agriculture to address climate change and other global challenges/ FAO
-
Nigeria: 'Boko Haram caused trauma' becoming unbearable/ AfricaNews
-
Sköpunarglaðir frumkvöðlahugar í Rúanda/ SOS Barnaþorpin
-
Murder and eviction: the global land rush enters new more violent phase/ Oxfam
-
What Does Leaving No One Behind Really Mean?/ IPS
-
Poor food 'risks health of half the world'/ BBC
-
The U.S. foreign-aid budget, visualized/ WashingtonPost
-
Tímarit: In power - with power?/ FOKUS - Forum for women and development
-
Solheim í stríði gegn skammstöfunum/ UNRIC
-
The buzz from New York #GlobalDev Week 2016/ Devex
-
Inside Eritrea's exodus/ TheAfricaReport
-
Child TB deaths set to fall as Kenya launches new drugs/ Reuters
-
Íslandi gengur best að ná lýðheilsumarkmiðum/ RUV
-
Rwanda: Media for the Deaf (M4D) | DW
Rwanda: Media for the Deaf (M4D) | DW
-
At 50, Botswana discovers diamonds are not forever/ Reuters
-
Africa's portable solar revolution is thwarting thieves/ TheGuardian
-
Election process for the new WHO Director-General/ WHO
-
OECD warns weak trade and financial distortions damage global growth prospects/ OECD

Heimsmarkmiðaverðlaun Sameinuðu þjóðanna veitt 

Yusra Mardini. einn _riggja ver_launahafa.

Heimsmarkmiðaverðlaun Sameinuðu þjóðanna voru veitt í fyrsta skipti í síðustu viku, en verðlaunin hljóta þau sem þykja hafa skarað fram úr í baráttu fyrir réttindum kvenna og stúlkna. Verðlaunin eru samstarfsverkefni UNICEF, Project Everyone og Unilever.

Í ár féllu þau í skaut ungrar stúlku sem bjargaði flóttafólki frá drukknun, lögfræðings sem hefur náð miklum árangri í baráttu gegn giftingu barna auk pakistanskra samtaka sem veita konum og stúlkum í sveitum nauðsynlega heilsugæslu.

Nánar á vef UNICEF á Íslandi

Menntun öflugasta vopnið til að breyta heiminum

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra í ræðustól á Allsherjarþinginu. Ljósmynd: SÞ
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra gerði menntun og baráttuna fyrir bættu stjórnarfari og virðingu fyrir réttarríkinu að meginefni ræðu sinnar á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York í síðustu viku.
 
Í upphafi gerði utanríkisráðherra fólksflutninga að umtalsefni og rifjaði upp reynslu Íslendinga frá síðustu öld þegar fjórðungur landsmanna hélt til vesturheims í leit að betra lífi. "En Íslendingar voru ekki flóttamenn. Þeir flúðu ekki stríð og hörmungar heldur voru þeir að leita betra lífsviðurværis fyrir sig og fjölskyldur sínar," sagði utanríkisráðherra. Í dag hefðu hins vegar tugmilljónir manna neyðst til að flýja stríð og ofbeldi í heiminum og langtímamarkmið alþjóðasamfélagsins yrði að vera að breyta átökum í frið og skapa efnahagleg tækifæri þar sem engin væru fyrir. Þannig mætti koma í veg fyrir að mannauður glatist.

Átökin í Sýrlandi
Í þessu samhengi vék utanríkisráðherra að átökunum í Sýrlandi og framlagi Íslands til flóttamannavandans. Lilja fordæmdi harðlega árásir á bílalest Sameinuðu þjóðanna, sem var að flytja hjálpargögn, og árásir og mannfall í Aleppo. Þá ítrekaði ráðherra nauðsyn þess að friðsamleg lausn næði fram að ganga og kom jafnframt á framfæri þakklæti til grannríkjanna Tyrklands, Líbanon og Jórdaníu sem hefðu axlað byrðar vegna þeirrar neyðar sem skapast hefur vegna fólks sem flýr átökin í Sýrlandi.
Mannréttindi og réttaríkið
Þá vék utanríkisráðherra að mannréttindum og réttarríkinu og sagði að ef lög byggðu ekki á mannréttindum myndu þau aldrei njóta stuðnings almennings til langframa, heldur sá fræjum misréttis og grafa undan samfélagsgildum. Þannig gætu slæmir stjórnarhættir ógnað öryggi þjóða og valdið óstöðugleika. Ekkert ríki væri eyland í alþjóðasamfélaginu. Sagði ráðherra jafnframt að alþjóðalög væru undirstoðir samskipta á milli ríkja og stöðugleika í alþjóðasamfélaginu. "Fyrir friðsama smáþjóð eins og Ísland eru alþjóðalög okkar sverð, skjöldur og skjól," sagði Lilja.

Í þessu samhengi gerði Lilja Kóreuríkin að umtalsefni og sagði það sláandi að á sunnanverðum Kóreuskaga væri eitt fremsta og þróaðasta hagkerfi heims sem risið hefði úr mikilli fátækt fyrir um hálfri öld. Norður-Kórea væri hins vegar ein fátækasta þjóð heims, þar sem einræðisstjórn ríkir, landsframleiðsla væri 5% á við Suður-Kóreu og fátækt og hungur viðvarandi. Lilja sagði kjarnorkuáætlanir Norður Kóreu valda miklum áhyggjum. "Með áætlunum sínum ógnar stjórnin í Pyongyang öryggi eigin þjóðar, stöðugleika í Asíu og í raun heimsbyggðarinnar," segir Lilja og fordæmdi kjarnorkutilraunir Norður Kóreu, sem eru í trássi við alþjóðalög og samninga.

Menntun og góðir stjórnarhættir
Utanríkisráðherra vitnaði í orð Nelsons Mandela sem sagði að menntun væri öflugasta vopnið til að breyta heiminum. Sagði hún þessi orð og þessa hugsun endurspegla forsendur fyrir góðum stjórnarháttum. "Ef fólk þekkir ekki rétt sinn og virðir ekki skoðanir annarra þá verður erfitt að byggja upp friðsamleg og samstillt samfélög." Hún sagði menntun vera leiðarljós í þróunarsamvinnu Íslands. Íslendingar hefðu reynt það sjálfir á síðustu öld þegar þjóðin reis til bjargálna. "Þessum árangri hefði aldrei verið unnt að ná án öflugs skólakerfis og óheftu aðgengi almennings að æðri menntastofnunum."

Ennfremur sagði utanríkisráðherra menntun hafa tryggt konum aukinn rétt sem birtist meðal annars í auknum fjölda kvenna sem eru utanríkisráðherrar. Baráttunni væri þó fráleitt lokið og víða í heiminum væri réttur kvenna fyrir borð borinn sem kæmi niður á jafnt konum, körlum og samfélaginu í heild sinni. 
Í lok ræðu sinnar þakkaði utanríkisráðherra aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, fyrir störf sín á undanliðnum áratug og nefndi sérstaklega jafnrétttsmál og baráttuna gegn loftslagsbreytingum.

Réttindi kvenna til afnota af landi

Ljósmynd frá Mósambík: gunnisal.
- eftir Önnu Guðrúnu Aradóttur starfsnema í Mósambík

Í sendiráðum Íslands í Malaví, Mósambík og Úganda starfa þrír starfsnemar sem líkt og undanfarin ár hafa fallist á beiðni Heimsljóss um pistlaskrif þann tíma sem þeir dvelja í samstarfslöndum Íslendinga. 

Fyrr á þessu ári gerði ég vettvangsrannsókn fyrir mastersverkefnið mitt í Niassa fylki í norður Mósambík þar sem ég skoðaði hvaða áhrif innleiðing Jarðalaganna (e. Land Law - Lei de terra) hefur haft á réttindi kvenna til afnota af landi. Jarðalögin voru samþykkt árið 1997 og fela í sér að allt land sé eign ríkisins og geti því hvorki gengið kaupum né sölum. Lögin leitast við að tryggja heimamönnum og konum afnotarétt af landinu á sama tíma og erlendum fjárfestum er gert kleift að tryggja sér landsvæði.  Jarðalögin eru áhugaverð í ljósi þess að íbúunum er tryggður rétturinn af landinu á samfélagsgrundvelli þar sem samfélög í dreifbýlum sveitum eru afmörkuð og kortlögð (e. delimited) og allir innan þess svæðis, bæði karlar og konur, hafa jafnan rétt til afnota af landinu. Þessi samfélagslegi réttur til landsins er jafnframt byggður á hefðbundnum siðum og venjum samfélaga (e. customary law) og viðurkenna Jarðalögin slíka siði svo lengi sem þeir stangast ekki á við stjórnarskrána, sem meðal annars kveður á um kynjajafnrétti.

Spurningin um réttinn til afnota af landi er mjög mikilvæg í Mósambík í ljósi þess að um 80 prósent af þjóðinni stunda akuryrkju og íbúar í dreifbýlum sveitum hafa lífsviðurværi sitt af þeirri iðju. Þar fellur það jafnframt aðallega í hlut kvenna að rækta akrana og fæða fjölskylduna og er því mjög mikilvægt að tryggja þeim rétt til þess að nota landið og njóta góðs af því. Stóra spurningin er hvort réttindi kvenna til afnota af landi séu tryggð með þessum hætti, það er, með því að viðurkenna hefðbundna siði og venjur samfélaga. Hvernig ætli útlitið sé í dreifbýlum sveitum landsins?

Niassa fylki er áhugavert í ljósi þess að þar eru ættir raktar í kvenlegg sem þýðir að erfðir, það að erfa jörð í þessu tilfelli, ganga frá móður til dóttur (e. matrilineal). Niðurstöður úr rannsókninni minni benda til þess að konur í Niassa hafa greiðan aðgang að landi fyrir tilstilli ættarkerfisins en það kemur aftur á móti yfirleitt í hlut karlmannanna í fjölskyldunni að taka ákvarðanir í sambandi við landið, hvað eigi að rækta, selja og svo framvegis, þó að það séu konurnar sem vinna vinnuna og að það séu þær sem hafa erft jörðina. Af veru minni í sveitum Niassa var augljóst að kynjahlutverk eru mjög aðskilin. Það er í verkahring kvenna að vera heima og hugsa um börnin, vinna á ökrunum og fæða fjölskylduna á meðan karlar leita leiða til að afla peninga og þeir hafa jafnframt meiri frítíma á höndum sér.

Þó að þátttöku kvenna sé krafist í atburðum tengdum ferlinu að afmarka og kortleggja samfélögin eru það karlmennirnir sem taka virkari þátt og hafa áhrif á ferlið þar sem það er jú ekki í verkarhing kvenna að skipta sér af slíkum formlegheitum. Þó svo að hefðbundnir siðir og venjur samfélaga megi ekki stangast á við stjórnarskrána er erfitt fyrir konur að framfylgja stjórnarskrárlegum réttindum sínum þar sem þekkingin á þeim er ekki til staðar meðal þeirra. Menntun og læsi er í miklu lágmarki á dreifbýlissvæðum og er því augljóslega erfitt að hafa aðgang að og þekkingu á stjórnarskránni og formlegum lögum og þar af leiðandi framfylgja rétti sínum. Í litlum samfélögum í sveitunum eru það því hefðbundnu reglurnar sem gilda. Það er mikilvæg áminning að þó að kynjajafnrétti ríki í lögum er raunin oft önnur þegar öllu er á botninn hvolft þar sem erfitt er að breyta ríkjandi hefðbundnum siðum og venjum. 

Heimildir:


facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105