Heimsljós
veftímarit um þróunar- og mannúðarmál
10. árg. 330. tbl.
21. júní 2017
Niðurstöður jafningjarýni DAC kynntar í Safnahúsinu á mánudag:
Árangur, gagnsæi og ábyrgð einkenna þróunarsamvinnu Íslands
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Charlotte Petri Gornitzka formaður DAC áttu tvíhliða fund áður en skýrslan var kynnt formlega í Safnahúsinu.

Niðurstöður fyrstu jafningjarýni Þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar á íslenskri þróunarsamvinnu eru góður vitnisburður um framlag Íslands í málaflokknum. Í skýrslunni, sem kynnt var í dag, kemur fram að fyrirkomulag, aðferðir og stefnumið í þróunarsamvinnu Íslands séu til þess fallin að leiða til framfara í samstarfslöndum. Þetta  hámarki áhrif samvinnunnar auk þess sem árangur, gagnsæi og ábyrgð einkenni starfið.

"Þetta er jákvæð niðurstaða fyrir opinbera þróunarsamvinnu Íslands. Hún er góður vitnisburður um að í þessum málaflokki hafi Íslendingar margt fram að færa sem við megum vera stolt af en hún nefnir einnig atriði sem betur mega fara og við því munum við reyna að bregðast," segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, en hann tók þátt í kynningu skýrslunnar með Charlotte Petri Gornitzka formanni Þróunarsamvinnunefndarinnar. Þau áttu fyrr í morgun tvíhliða fund um niðurstöður rýninnar.

Í skýrslunni kemur jafnframt fram að þrátt fyrir að framlög Íslands séu ekki há í samanburði við önnur lönd hafi tekist að forgangsraða í þágu þeirra sem minnst mega sín og nýta styrkleika á sviði þróunarsamvinnu á skilvirkan hátt. Stjórnvöld hafi nýtt sér smæðina í stefnumótun og framkvæmd og því beri að hrósa. Í skýrslunni eru ennfremur gerðar tillögur um hvernig bæta megi íslenska þróunarsamvinnu enn frekar, m.a. hvernig megi efla almenna og pólitíska vitund um það sem Ísland hefur áorkað í þróunarmálum.

Ísland varð aðili að DAC árið 2013 að undangenginni sérstakri rýni á þróunarsamvinnu Íslands. Á síðasta ári var komið að fyrstu reglubundnu jafningjarýninni en aðildarríki nefndarinnar gera úttekt á þróunarsamvinnu hvers annars á fimm ára fresti. Rýniteymi DAC samanstóð af fjórum fulltrúum frá skrifstofu nefndarinnar og fulltrúum Slóveníu og Grikklands sem höfðu verið tilnefnd úttektarríki.

Frá fundinum í Safnahúsinu.
Áður en teymið kom til Íslands í september 2016 hafði utanríkisráðuneytið skilað inn ítarlegri greinargerð um skipulag, stefnumótun og framkvæmd alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands. Rýniteymið átti m.a. fundi með utanríkisráðherra, starfsmönnum utanríkisráðuneytisins og annarra ráðuneyta, fulltrúum þróunarsamvinnunefndar, borgarasamtaka og fleirum. Jafningjarýnin felur m.a. í sér skoðun á almennri stefnumótun í málaflokknum; skipulagi, fyrirkomulagi og stjórnun; pólitískri forystu; framlögum; verkefna- og fjármálastjórnun; árangursstjórnun; neyðar- og mannúðarmálum; samræmingu stefnumiða; mannauðsmálum; upplýsingagjöf og samstarfi við aðra aðila.

Skýrslan er ítarleg og skiptist í tvo hluta, hluta I, sem er stutt yfirferð og felur í sér tilmæli rýninefndar eftir úttekt, og hluta II, sjálfa úttektina, sem er lengri og ítarlegri. 

Alþjóðadagur flóttafólks í gær:
Aldrei fleiri á flótta í heiminum - 84% þeirra eru í fátækum ríkjum

Kynningarmyndband um skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.
Kynningarmyndband um skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.
Fjöldi þeirra sem þvingaðir hafa verið á flótta vegna stríðs, ofbeldis og ofsókna var sá mesti sem nokkru sinni hefur verið skráður árið 2016, samkvæmt skýrslu sem Flóttamannastofnun SÞ gaf út í gær, á alþjóðlegum degi flóttafólks.

Samkvæmt skýrslunni, Þróun á heimsvísu, árlegri könnun stofnunarinnar á fjölda fólks á flótta, voru í árslok 2016 um allan heim 65,6 milljónir einstaklinga sem þvingaðir höfðu verið á flótta - um 300 þúsund fleiri en árið áður. Þessi fjöldi er til vitnis um þann gríðarlega fjölda fólks sem þarfnast verndar um heim allan.

Talan 65,6 milljónir er samsett úr þremur mikilvægum þáttum. Í fyrsta lagi er það fjöldi flóttamanna, en 22,5 milljónir eru mesti fjöldi sem sést hefur. Af þeim eru 17,2 milljónir á ábyrgð Flóttamannastofnunar SÞ og hinir eru palestínskir flóttamenn sem skráðir eru hjá Palestínuflóttamannaaðstoð SÞ (UNRWA). Flestir flóttamenn koma vegna átakanna í Sýrlandi (5,5 milljónir), en árið 2016 var stærsta nýja uppsprettan í Suður-Súdan þar sem hörmuleg endalok friðaraðferlis í júlí sama ár leiddi til þess að 739.900 manns flúðu fyrir lok árs (1,87 milljónir til dagsins í dag).

Í öðru lagi er það fólk sem er á vergangi innan eigin lands, en það voru 40,3 milljónir í lok 2016 samanborið við 40,8 milljónir ári áður. Sýrland, Írak og umtalsverður fjöldi veglausra sem enn eru innan Kólumbíu, voru stærstu hóparnir, en veglausir í eigin landi er alheimsvandamál og á við um tvo þriðju allra þeirra sem þvingaðir eru á flótta. 

Í þriðja lagi eru það hælisleitendur, fólk sem hefur flúið land sitt og leitar alþjóðlegrar verndar sem flóttamenn. Í árslok 2016 var heildarfjöldi þeirra sem leitaði hælis 2,8 milljónir.

Að samanlögðu er þetta sá gríðarlegi mannlegi kostnaður sem hlýst af stríði og ofsóknum á heimsvísu: 65,6 milljónir þýðir að meðaltali að einn af hverjum 113 einstaklingum um allan heim í dag er veglaus - fleiri en íbúar Bretlands, sem er 21. fjölmennasta land heims

"Þetta er óásættanlegur fjöldi, sama hvernig á það er litið, og sýnir enn frekar en áður þörfina fyrir samstöðu og sameiginleg markmið við að koma í veg fyrir og leysa neyðarástand og tryggja í sameiningu að flóttafólk heimsins, veglausir í eigin landi og hælisleitendur, fái viðeigandi vernd og umönnun á meðan fundin er lausn," sagði Filippo Grandi, flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna. "Við verðum að gera betur fyrir þetta fólk. Heimur í átökum þarf ákveðni og hugrekki, ekki ótta."

Meginniðurstöður Þróunar á heimsvísu eru þær að ný tilfelli fólks á flótta er enn í hámarki. Af þeim 65,6 milljónum manna sem neyddust til að flýja lögðu 10,3 milljónir á flótta árið 2016, um það bil tveir þriðju þeirra (6,9 milljónir) eru á flótta innan eigin lands. Þetta jafngildir því að ein manneskja fari á flótta á 3 sekúndna fresti - sem er styttri tími en tekur að lesa þessa setningu.

Á sama tíma vöktu endurkomur flóttafólks og fólks sem var veglaust í eigin landi til upprunalands, ásamt öðrum lausnum svo sem búsetu í þriðja landi, vonir hjá sumum um að ástandið væri að batna árið 2016. Ein 37 lönd tóku á móti 189.300 flóttamönnum til búsetu. Um hálf milljón annars flóttafólks gat snúið til heimalands síns og um 6,5 milljónir veglausra í eigin landi til upprunasvæða sinna - þó að margir gerðu það við aðstæður sem ekki voru eins og best væri á kosið og framtíðarhorfur þeirra séu ótryggar.

Á heimsvísu voru flestir flóttamenn, eða 84%. í lág- eða meðaltekjumarlöndum í lok 2016 og einn af hverjum þremur (4,9 milljónir) er í fátækustu ríkjunum. Þetta mikla ójafnvægi endurspeglar nokkra hluti svo sem viðvarandi skort á samstöðu á alþjóðavettvangi þegar kemur að móttöku flóttamanna til búsetu og nálægð margra fátækra landa við átakasvæði. Það undirstrikar einnig mikilvægi öflugs stuðnings við lönd og samfélög sem styðja flóttamenn og annað veglaust fólk, því skortur á stuðningi getur valdið óstöðugleika, haft áhrif á mannúðarstarf sem bjargar mannslífum eða leitt til frekari flótta. 

Miðað við fólksfjölda er Sýrland enn helsta uppspretta fólks á flótta þar sem um 12 milljónir einstaklinga (um tveir þriðju hlutar íbúanna) eru annaðhvort veglausir í eigin landi eða hafa flúið erlendis sem flóttamenn eða hælisleitendur. Fyrir utan langvarandi ástand palestínskra flóttamanna eru Afganar næst fjölmennastir (4,7 milljónir) og síðan Írakar (4,2 milljónir) og Suður-Súdanar (sá hópur sem hraðast vex en 3,3 milljónir hafa flúið heimili sín í árslok).

Börn, sem eru helmingur flóttafólks í heiminum, bera enn óhóflega byrðar þjáningar, aðallega vegna þess hve varnarlaus þau eru. Það er átakanleg staðreynd að 75 þúsund beiðnir um hæli voru lagðar fram af börnum sem ferðuðust ein eða höfðu orðið viðskila við foreldra sína. Í skýrslunni kemur fram að jafnvel þessi tala sé líklega vanmat á raunverulegu ástandi.

Flóttamannastofnunin áætlar að í árslok 2016 hafi að minnsta kosti 10 milljónir verið án ríkisfangs eða í hættu á að missa ríkisfang sitt. Hins vegar ná gögn sem ríki miðluðu til Flóttamannastofnunar SÞ aðeins yfir 3,2 milljónir ríkisfangslausra einstaklinga í 74 löndum.

Þróun á heimsvísu er tölfræðilegt mat á umfangi flótta og sem slíkt nær það ekki yfir suma lykilþætti flóttamannavandans árið 2016. Þar á meðal er vaxandi notkun hælismála í pólitískum tilgangi í mörgum löndum og vaxandi takmarkanir á aðgangi að vernd á sumum svæðum, en einnig jákvæða þróun, svo sem sögulegar ráðstefnur um flóttamenn og innflytjendur í september 2016 og tímamóta New York-yfirlýsingin sem kom í kjölfar þeirra

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, gefur árlega út skýrsluna Þróun á heimsvísu byggða á eigin gögnum, sem hún fær frá samstarfsaðilanum sínum hjá Miðstöð um eftirlit með veglausu fólki í eigin landi, og gögnum sem hún fær frá ríkisstjórnum.

These charts break down the troubling trends with displaced people across Africa/ Qz
Ársfundur UNICEF:
Hlutfallslega hæsta framlag allra landsnefnda á Íslandi

Ársfundur UNICEF á Íslandi var haldinn á mánduag í fundarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þar kom fram að UNICEF á Íslandi safnaði alls rúmlega 630 milljónum króna árið 2016. Líkt og undanfarin ár safnaði íslenska landsnefndin hlutfallslega hæsta framlagi allra landsnefnda. Langstærsti hluti söfnunarfjársins, eða um 80%, kom frá einstaklingum sem láta sig málefni barna varða: Heimsforeldrum UNICEF

Dagskrá fundarins hófst  með því að Guðrún Ögmundsdóttir, formaður stjórnar UNICEF á Íslandi, bauð gesti velkomna.

Þá hélt Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF, tölu og fór yfir starf UNICEF á síðasta ári. Þar kom meðal annars fram að þjónustuver UNICEF var sett á laggirnar snemma á árinu, þar sem þjónustufulltrúar eiga í samskiptum við heimsforeldra og aðra sem láta sig málið varða.

UNICEF út skýrslu í upphafi árs um  efnislegan skort barna á Íslandi, en um hana hefur mikið verið fjallað í opinberri umræðu. Í henni kom fram að um 6,100 börn á aldrinum 1-15 ára líða efnislegan skort hér á landi. Höfundur skýrslunnar er Lovísa Arnardóttir en ritstjóri Sigríður Víðis Jónsdóttir.

Auk þess var tilraunaverkefninu  réttindaskólar komið á laggirnar á árinu með góðum árangri, en verkefnið felst í að þátttökuskólar leggja Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna til grundvallar í öllu sínu starfi. 

Bergsteinn sagði ennfremur frá vel heppnuðum söfnunarátökum ársins 2016. Þar á meðal var herferðin  Segjum stopp þar sem safnað var fyrir börn frá Sýrlandi og átakið  Ekki horfa  fyrir vannærð börn í Nígeríu. Þá gekk sala sannra gjafa fyrir jólin framar öllum vonum, en landsmenn keyptu sannar gjafir að andvirði rúmlega 24 milljóna króna. Það er um 71% vöxtur frá árinu 2015.

Ungmennaráð UNICEF réðst einnig í átak á árinu sem bar nafnið  #30sek þar sem þau vöktu athygli á því að á hálfrar mínútu frest neyðist barn til að leggja á flótta sökum stríðs, fátæktar eða umhverfisáhrifa. 

Fræðsluherferð um griðarstaði UN Women í flóttamannabúðum og námskeið um jafnrétti og loftslagsbreytingar í Úganda
-  meðal verkefna sem hlutu styrk úr Jafnréttissjóði Íslands

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, úthlutaði á mánudag  tæpum 100 milljónum króna í styrki úr Jafnréttissjóði Íslands. Veittir voru styrkir til 26 verkefna og rannsókna sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna. Jafnréttissjóður Íslands var stofnaður árið 2015 með ályktun Alþingis í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna. Hlutverk sjóðsins er að styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu.

UN Women hlaut meðal annars fimm milljóna króna styrk vegna verkefnisins " Kraftur til kvenna á flótta." Um er að ræða vitundarvakningarverkefni og fræðsluherferð um griðastaði UN Women í flóttamannabúðunum Za'atari í Jórdaníu. Tilgangur verkefnisins er að vekja landsmenn til vitundar um jaðarsetta stöðu kvenna á flótta í kjölfar stríðsins í Sýrlandi, fræða um alvarlegar afleiðingar ofbeldis og áfalla í kjölfar stríðsátaka en á sama tíma sýna fram á hvernig stuðla megi að valdeflingu kvenna á áhrifaríkan hátt. Um leið er markmiðið að vinna gegn fordómafullum hugmyndum um flóttafólk sem kunna að vera skjóta rótum hér á landi og mun fræðslugildi og hughrif verkefnisins aukast með því tefla saman íslenskum og sýrlenskum konum og sjá þær ræða saman á jafningjagrundvelli á griðastöðum UN Women í Za´atari.

Pétur Skúlason Waldorff fékk styrk upp á 3.6 milljónir króna en hann ætlar að skoða virðiskeðju í fiskeldisverkefni sem Íslendingar styðja í Gaza héraði í Mósambík út frá kynjasjónarhorni. Verkefnið nefnist á ensku: " Gender Focused Value Chain Development of Aquaculture in Gaza Province, Mozambique

Þá hlaut Erla Hlín Hjálmarsdóttir verkefnastjóri hjá Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna 700 þúsund króna styrk fyrir verkefið " Námskeið um jafnrétti og loftslagsbreytingar í Úganda."  Verkefnið byggir á námskeiðum sem mótuð voru og framkvæmd 2011-2013 í samvinnu við samstarfsaðila í Úganda og Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Árangurinn af námskeiðunum var umtalsverður. Árið 2015 sendu stjórnvöld í Úganda beiðni til Þróunarsamvinnustofnunar um áframhaldandi samstarf, sem ekki hefur reynst unnt að bregðast við fram að þessu. Tilgangur verkefnisins er að bregðast við þessari beiðni og byggja á þeirri vinnu sem þegar hefur farið fram. Meðal annars verður byggt á kennsluefni sem búið var til fyrir námskeiðin. Meginmarkmið verkefnis er að vekja þátttakendur til meðvitundar um jafnréttis- og loftslagsmál og að byggja upp getu á því sviði í Úganda en samkvæmt umhverfisáætlun SÞ er getuupbygging fyrsta skrefið til að samþætta jafnréttismál í stefnu og verkefnum sem tengjast loftslagsmálum, bæði þau sem miða að því að bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga, sem og koma í veg fyrir frekari loftslagsbreytingar. Verkefnið styður sér í lagi við tvö heimsmarkmiðanna, annars vegar við hið fimmta sem snýr að jafnrétti kynjanna og hins vegar við hið þrettánda sem miðar að verndun jarðarinnar.

Loks má geta þess að Arnar Gíslason hlaut sex milljóna króna styrk fyrir verkefnið " Íslenskar lausnir og alþjóðleg tækifæri". Í verkefnalýsingu segir: "Þátttaka karla á vettvangi jafnréttismála" Ísland hefur skapað sér talsverða sérstöðu á alþjóðavettvangi þegar kemur að árangri í jafnréttismálum og má þar nefna stöðu Íslands efst á heimslista WEF undanfarin ár þar sem jafnrétti kynjanna er mælt (World Economic Forum, 2016), og þá verðskulduðu athygli sem hið íslenska kvennafrí og áætlanir um jafnlaunavottun hafa vakið. En Ísland hefur einnig vakið athygli fyrir þær aðferðir sem beitt hefur verið til að virkja karla á vettvangi jafnréttismála. Þar má nefna fæðingarorlof feðra, rakarastofu ráðstefnu Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, og metþátttöku íslenskra karla í HeForShe átaki UN Women. Þá hefur þátttaka karla birst með ýmsum öðrum hætti á Íslandi, og er því gagnlegt að skoða vandlega þær aðferðir sem hafa verið teknar til gagns á Íslandi og hvernig hefur til tekist. Markmið þessa verkefnis er að bæta við þekkingu um þátttöku karla í jafnréttismálum, skoða hvernig framkvæmdin hefur verið, finna hagnýtar leiðir til að styðja við þessa þróun og kanna möguleika á nýtingu íslenskra lausna á alþjóðavettvangi. Ennfremur að gera grein fyrir þeim hröðu breytingum sem orðið hafa á vettvangi jafnréttismála þegar kemur að áherslu á karla og jafnrétti, og á aukna þátttöku karla og aðkomu þeirra að umræðu um jafnréttismál."

Hlauptu gegn ofbeldi

UN Women styrkir One stop athvörf Panzi spítalans í Austur-Kongó fyrir konur sem þolað hafa gróft kynbundið ofbeldi. Þar er bráðavakt sem veitir læknisþjónustu, áfallahjálp, sálfræðilega og lagalega þjónustu auk þess sem konur fá aðstoð við að fara aftur af stað út í lífið og aðlagast fjölskyldum sínum og samfélagi upp á nýtt.

Um 40-60% kvenna sem hlotið hafa aðhlynningu í One-Stop athvörfunum geta ekki snúið aftur heim í ofbeldið eða glíma við langvarandi veikindi í kjölfar ofbeldis. Þeim konum býðst að fara í árs langa meðferðá Panzi spítalanum þar sem þeim er úthlutað húsnæði, sjálfsstyrkingu, lestrar- og stærðfræðikennslu, atvinnuráðgjöf og jafnvel smærri styrki og lán sem gerir konum kleift að hefja rekstur sem skapar þeim lífsviðurværi.

Með því að hlaupa í nafni UN Women eða heita á hlaupara UN Women veitir þú konum í Austur Kongó sem beittar hafa verið ofbeldi nauðsynlega vernd, áfallahjálp, uppbyggingu og kraft til framtíðar. Hver króna skiptir máli.

Hlaupum gegn ofbeldi - hlaupum í nafni UN Women.
Þú getur skráð þig til leiks hér  eða heitið á hlaupara UN Women með því að smella á þennan hlekk..
Þinn stuðningur skiptir máli!

Bjór & bindi á Kex í kvöld

Malavíski rapparinn og HeForShe leiðtoginn Tay Grin kemur fram á styrktartónleikum ungmennaráðs UN Women á Íslandi í kvöld, miðvikudagskvöldið 21. júní, á Kex ásamt tónlistarkonunni Hildi og rapparanum Tiny. Viðburðurinn nýtur stuðnings breska sendiráðsins og ICEIDA, alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands.
 
Tónleikagestum verður einnig veitt innsýn í líf stúlkna og kvenna í Malaví og þeim áskorunum sem þær standa frammi fyrir.
 
Hátt brottfall stúlkna úr námi í Malaví má að hluta til rekja til tíðablæðinga og skorts á dömubindum. Malavískar stúlkur hafa takmarkaðan aðgang að dömubindum og öðrum hreinlætisvörum tengdar tíðablæðingum. Algengt er því að stúlkur mæti ekki í skólann og haldi sig heima fyrir  meðan á blæðingum stendur. Stúlkur sem missa mánaðarlega nokkra daga úr skóla eru líklegri til að hætta námi varanlega. Þar sem stúlkurnar hljóta ekki grunnmenntun aukast líkurnar á að þær verði giftar barnungar eldri mönnum og verða þar með berskjaldaðri fyrir ofbeldi, fátækt og mæðradauða. Því yngri sem þær eru giftar því líklegra er að þær eignist börn á barnsaldri en lífshættulegir fylgikvillar fylgja meðgöngu og fæðingum ungra mæðra.
 
Með því að mæta á tónleikana á Kex gefst almenningi kostur á að styðja við kaup á fjölnota dömubindum fyrir malavískar skólastúlkur  og upplifa um leið malavískt eðalrapp frá vinsælasta hip hop listamanni landsins.
 
Ekkert kostar inn á tónleikana en fólki er boðið að styrkja verkefnið um 1000 kr. sem jafngildir einum pakka af bindum fyrir eina stúlku.

Bresku sendiherrahjónin á Íslandi, Michael og Sawako Nevin, rappa með Tay Grin í þessu myndbandi frá Malaví.
Bresku sendiherrahjónin á Íslandi, Michael og Sawako Nevin, rappa með Tay Grin í þessu myndbandi frá Malaví.

Auk þess er aldrei að vita nema að breski sendiherrann á Íslandi og eiginkona hans rífí í hljóðnemann ásamt Tay Grin sem tróð nýverið upp á tónlistarhátíðinni Secret Solstice.

Hvað: Malavískt rapp og bjór til styrktar menntun stúlkna í Malaví
Hvar: Kex
Hvenær: 21. júní kl.19:30 - 22:00.
 
Hlökkum til að sjá þig!


Geta Heimsmarkmiðin bætt stöðu barna á Íslandi?

UNICEF, verkefnastjórn um heimsmarkmið SÞ, Hagstofa Íslands og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands standa fyrir opnum fundi um heimsmarkmiðin og börn í Öskju 132 í Háskóla Íslands á morgun, fimmtudaginn 22. júní frá kl. 12:00 til 13:15. 

Á dögunum kom út skýrsla UNICEF, Building the Future: Children and the Sustainable Development Goals in Rich Countries. Í skýrslunni er staða barna í efnameiri ríkjum skoðuð í samhengi við... heimsmarkmiðin. Ísland stendur sig vel á mörgum sviðum þegar kemur að velferð barna, en geta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna bætt stöðu barna á Íslandi enn frekar?

Á fundinum verður skýrsla UNICEF kynnt og fjallað verður sérstaklega um vinnu stjórnvalda í tengslum við heimsmarkmiðin, hvernig mælingar á lífsgæðum barna fara fram og hvernig heimsmarkmiðin og mælingar á þeim geta gagnast börnum.

Dagskrá
12:00 Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF
12:15 Héðinn Unnsteinsson, formaður verkefnastjórnar stjórnarráðsins um heimsmarkmið SÞ
12:30 Kolbeinn Stefánsson, sérfræðingur á Hagstofu Íslands
12:45 Erla Björg Sigurðardóttir, félagsráðgjafi og deildarstjóri gæða og rannsókna á velferðarsviði Reykjavíkurborgar
Fundarstjóri verður Katrín Oddsdóttir lögfræðingur

Áhugavert
-
-
-
-
-
Somaliland:The Somalis dying to get married
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-


BREAKING THE CYCLE OF CRISIS/ Alþjóðabankinn
-
Drive to get children back to school failing worldwide/ TheGuardian
-
Ships rescue some 730 migrants in Mediterranean/ DailyMail
-
Countries are progressing too slowly on green growth/ OECD
-
Er stat-til-stat-bistand i ferd med å dø ut?/ Bistandsaktuelt
-
Ugandan government runs out of passports/ DW
-
Til lítils að láta óttann ná tökum á sér - RÚV ræðir við Unu Sighvatsdóttur
-
More than 3,000 people killed in Congo's Kasai region - Catholic church/ Reuters
-
Ethiopia, Somalia to get £90m UK humanitarian aid/ AfricaNews
-
Housing Refugees of the Middle East Conflicts: Where Will They Go?/ IPS
-
Central African Republic signs 'immediate' peace deal with rebel groups/ DW
-
U.N. REFUGEE AGENCY WINS NOD TO USE ISLAMIC ALMS TO AID MIDDLE EAST'S NEEDY/ Newsweek
-
Global Coalition Calls for Withdrawal of SDGs Progress Report/ IPS
-
Is European demand putting Africa's wild superfood at risk?/ DW
-
South Sudan: Killings, mass displacement and systematic looting as government forces purge civilians from Upper Nile/ Amnesty International
-
Raped then rejected, stigma drives former girl soldiers back into Congo's militias/ Reuters
-
Helmingur aðstoðar í Nígeríu ekki skilað sér/ RUV
-
- Millioner av kvinneliv står på spill/ Bistandsaktuelt
-
School meals help children concentrate in class/ WVI
-
UN: Famine in Somalia Averted, For Now/ VOA
-
Exclusive: Priti Patel insists UK's aid influence is 'massive'/ TheGuardian
-
Land restoration in Ethiopia: 'This place was abandoned ... This is incredible to me'/ The Guardian

Valdefling stúlkna í Malaví

- eftir Guðný Nielsen verkefnastjóra á hjálpar- og mannúðarsviði Rauða krossins á Íslandi

Fyrir rétt tæpu ári síðan sat ég fund þorpsbúa lítils þorps í Chikwawa-héraði í Malaví þar sem ung móðir óskaði aðstoðar Rauða krossins við að fæða fjölskyldu sína. Hún hafði fundið sig knúna til þess að veita karlmönnum aðgang að táningsdóttur sinni í skiptum fyrir mat. Fleiri mæður stóðu upp og tóku undir. Það er sorgleg staðreynd að fátækt bitnar mest á stúlkum og konum. Þær eru líklegri til að lifa í fátækt, síður líklegar til þess að hljóta menntun, líklegri til að stríða við heilsufarsvandamál og ef þær fæðast í fátækt er mun erfiðara fyrir þær og fjölskyldur þeirra að vinna sig út úr henni. Melinda Gates hittir naglann á höfuðið þegar hún segir "Poverty is sexist". Á meðan Ísland trónir efst þjóða á lista yfir jafnrétti kynjanna situr Malaví í 67. sæti.

Hátt brottfall stúlkna úr skólum í Malaví er mikið áhyggjuefni. Vel hefur til tekist að fá foreldra til þess að skrá börn sín í skóla við sex ára aldur, bæði stúlkur og drengi. En eins og svo víða í þróunarlöndum er heimilið og fjölskyldan talin meginábyrgð kvenna og því til lítils talið að útvega stúlkum menntun. Malavískar stúlkur hætta oft skólagöngu fljótt og talið er að allt að 32% stúlkna séu hættar skólagöngu á tólfta aldursári. Táningsaldurinn reynist mörgum stúlkum erfiður því við kynþroska upplifa þær mikla skömm og fordóma. Stúlka á blæðingum er talin óhrein og má til dæmis ekki nota sama klósett og aðrar stúlkur. Þær þurfa að fara í sérstaka skúra til þess að komast á klósettið og þar er oft ekki eiginlegt klósett heldur þurfa þær að gera sitt á flatt moldargólf. Skúrarnir eru gluggalausir, dimmir og óhreinir. Svo hjálpar það ekki til við að aflétta skömminni að skúrarnir eru svo sérstakir og áberandi að það er augljóst hvaða stúlka er á blæðingum hverju sinni. Það gefur auga leið að stúlkur kjósa frekar að vera heima hjá sér en í skóla þá daga sem þær eru á blæðingum.

Skólaganga stúlkna
Konur og stúlkur í Malaví bera ábyrgð á því að útvega heimili sínu vatn og þurfa margar þeirra að ganga langar vegalengdir daglega til þess að sækja drykkjarhæft vatn á meðan bræður þeirra sækja skóla. Þær eyða þannig dýrmætum tíma í heimilishald sem annars gæti nýst til skólagöngu. Gönguleiðin getur verið hættuleg ungum stúlkum sem eru mjög berskjaldaðar einar á gangi með þungar vatnsfötur.

Mikil áhersla er lögð á það í skólum að stúlkur séu skírlífar fram að hjónabandi. Í skólastofum víða um Malaví hanga veggspjöld sem segja stúlkum við hverju þær megi búast ef þær verða þungaðar, s.s. að upplifa mikla depurð sem svo leiðir þær til sjálfsvígs eða þær muni neyðast til að hætta í skóla og lifa við mikla fátækt ef þær verði þungaðar. Fari þær í ólöglega fóstureyðingu eru skilaboðin yfirleitt þau að þær muni einfaldlega deyja. Drengjum er sjaldnast kennt að þeir beri ábyrgð. Fókusinn er ávallt á stúlkurnar og mikilvægi þess að þær viðhaldi hreinleika sínum. Algeng ástæða brottfalls stúlkna úr skóla er þannig þungun. Gríðarlega mikil skömm fylgir því fyrir ungar stúlkur að verða þungaðar og hætta þær flestar fljótt skólagöngu og snúa ekki aftur. Oft er eina leiðin fyrir þær að aflétta skömminni að giftast barnsföðurnum. Þungunarrof er ólöglegt í Malaví svo þær eiga engra annarra kosta völ en að ala barn. Þá eru ótalmargar stúlkur einfaldlega of ungar til að fæða börnin sín og deyja við barnsburð því oft er enga heilbrigðisþjónustu að fá. Malaví situr í 24. sæti yfir þau lönd þar sem mæðradauði er mestur.

Barnahjónabönd 
Malaví er eitt þeirra landa þar sem barnahjónabönd eru hvað algengust. Talið er að um 46% stúlkna í Malaví séu giftar fyrir 18 ára aldur og um 9% fyrir 15 ára aldur. Fátæktin er einn helsti drifkrafturinn í þessum hjónaböndum. Margar fjölskyldur hafa oft ekki efni á því að hafa öll börnin á heimilinu og bregða því á það ráð að gifta stúlkur frá sér. Í sumum héruðum er hefð fyrir því að láta ungar stúlkur ganga upp í skuld sem fjölskyldur geta ekki borgað og er stúlkan þá gefin lánadrottnum í hjónaband - sannkallað brúðkaup.

Þar til í febrúar 2017 heimilaði stjórnarskrá landsins foreldrum að gifta börn sín fyrir 18 ára aldur en forseti landsins, Peter Mutharika, hefur nú skorið upp herör gegn þessari venju. Hann fer persónulega fyrir baráttunni og má sjá myndir af honum á veggspjöldum víða um landið þar sem hann hvetur íbúa landsins til þess að láta af þessu. Þrátt fyrir að gjörningurinn sé orðinn ólöglegur mun það ekki eitt og sér koma í veg fyrir barnahjónabönd. Það mun taka tíma að vinda ofan af rótgrónum venjum og hefðum. Efla þarf eftirlit og grípa hratt inn í ef upp kemst um lögbrot. Viðurlög þurfa að vera afdráttarlaus og hjálpa þarf ungum stúlkum að hefja nám að nýju og vera aftur teknar í sátt í samfélaginu, sem oft hafnar þeim.

Guðný Níelsen.
Starf Rauða krossins 
Rauði krossinn í Malaví vinnur mikið og gott starf með skólum víða á strjálbýlum svæðum í Malaví. Með stuðningi Rauða krossins á Íslandi, fyrir tilstilli Mannvina og utanríkisráðuneytisins undanfarin ár, hefur landsfélaginu tekist að styðja hundruð stúlkna til skólagöngu. Rauði krossinn greiðir fyrir þær skólagjöld, skólabækur, skólabúninga og skó. Svo hafa þær einnig fengið vasaljós til þess að læra við og margnota dömubindi sem reynist mjög mikilvægur þáttur í því að viðhalda reisn þeirra.

Þá hefur Rauði krossinn einnig brugðið á það ráð að grafa vatnsbrunna og byggja vatnsdælur á skólalóðunum sjálfum. Það hefur reynst fjölskyldum hvatning til að senda stúlkur til náms því þær geta borið vatnið heim að skóla loknum. Rauði krossinn hefur hafið mikla uppbyggingu salerna með rennandi vatni á skólalóðum og er sérstaklega passað upp á að stúlkur á blæðingum hafi góða aðstöðu. Sjálfboðaliðar fara hús úr húsi, milli þorpa, í skóla og á fundi öldunga og yfirvalda til þess að sinna málsvarastarfi fyrir stúlkur og hvetja alla til þess að róa í sömu átt, skilaboðin eru að skólasókn stúlkna sé þjóðinni nauðsynleg.

Mikil áhersla hefur verð lögð á að veita stúlkunum sjálfum stuðning og hvatningu til þess að halda áfram námi með myndun svokallaðra stúlknaklúbba í skólunum. Klúbbarnir hittast daglega og er yfirsetukona sem stýrir dagskránni. Klúbbavinnan miðar að því að efla stúlkurnar, auka sjálfstraust þeirra og trú á því að þær séu færar um að stýra eigin lífi. Þær fá fræðslu um réttindi sín og áhersla er lögð á að þær njóti frelsis til þess að neita körlum um kynlíf og að fjölskyldur þeirra megi ekki gifta þær fyrir 18 ára aldur. Stúlkurnar veita hver annarri einnig mikinn stuðning. Líkt og annars staðar eru fyrirmyndir mjög mikilvægar, enda er erfitt fyrir stúlkurnar að sjá tilgang með námi þegar þær þekkja engin dæmi þess að kona hafi bætt líf sitt með menntun. Sjálfboðaliðum hefur tekist að finna nokkrar konur sem koma frá sömu svæðum og hafa gengið menntaveginn. Ein slík starfar sem læknir í Lilongwe, höfuðborg Malaví, og hefur hún verið reglulegur gestur stúlknaklúbbs í gamla skólanum hennar.

Í dag, 19. júní, fögnum við Kvenréttindadeginum. Við minnumst þess að eitt sinn þóttu konur ekki jafnar körlum. Þær höfðu ekki réttinn til að kjósa, þær máttu ekki sækja háskóla, þær höfðu ekki jafnan erfðarétt og karlar og þar langt fram eftir götunum. Baráttan fyrir jöfnum réttindum var löng og erfið. Við megum ekki gleyma því að þótt við Íslendingar stöndum öðrum þjóðum fremri núna þegar kemur að jafnrétti kynjanna er baráttan er ekki unnin. Hún verður ekki unninn fyrr en jafnrétti er komið á fyrir kynsystur okkar um allan heim. Við þurfum áfram að berjast.

Mannvinir Rauða krossins á Íslandi styðja starf Rauða krossins dyggilega með mánaðarlegum framlögum. Án þeirra væri þetta starf Rauða krossins ómögulegt.

Greinin er skrifuð í tilefni af Kvenréttindadeginum, 19. júní.
Ekki lengur fyrrum Sovétlýðveldi

eftir Magnús Geir Eyjólfsson, fulltrúa Íslands á skrifstofu NATO í Georgíu
 
Frá Tbilisi - Biltmore hótelið fyrir miðri mynd.

"Georgía er ekki lengur "fyrrum" ríki. Við verðum að losa okkur undan þessum "fyrrum" klisjum. Við erum einfaldlega Austur-Evrópu ríki". Þessi orð Giorgis Kvirikashvili, forsætisráðherra Georgíu, á ráðstefnu í Bratislava í lok maí vöktu mig til umhugsunar. Ég veit nefnilega upp á mig skömmina. Satt best að segja taldi ég mig vera setjast að í einhvers konar "diet" útgáfu af Sovétríkjunum þegar ég lagði land undir fót í september. Veruleikinn sem blasti við var allt annar.

Ég skil gremju forsætisráðherrans yfir því að landið hans skuli í sífellu vera tengt við kommúnískt ráðstjórnarríki sem leystist upp fyrir hartnær þremur áratugum. Svona eins og Mæja væri sífellt kölluð "Mæja hans Nonna" þótt hún hafi skilið við Nonna árið 1991 og vilji ekkert með hann hafa. Georgía er nefnilega þræláhugavert dæmi um (hingað til) farsæla þróun lýðræðis og markaðsbúskapar. Það sem gerir dæmið enn áhugaverðara er að þessar umbætur eru gerðar í trássi við vilja fyrrum drottnarans. Því, svo vitnað sé í dæmið hér að ofan, þótt Mæja vilji ekkert með Nonna hafa og reynir af öllum mætti byggja upp nýja tilveru eftir löngu tímabæran skilnað, þá gerir Nonni allt sem í hans valdi stendur til að bregða fyrir hana fæti á þessari nýju vegferð.

Blóðlaus bylting vendipunkturinn
Þessi vegferð hefur siður en svo gengið þrautalaust fyrir sig, bæði vegna utanaðkomandi afskipta og innanmeina. Rúmlega tveir áratugir eru síðan Georgía var á barmi þess að vera þrotríki ("failed state"). Blóðug borgarastyrjöld holaði innviði landsins að innan, íbúar máttu búa við viðvarandi rafmagnsleysi og glæpagengi réðu lögum og lofum hvort sem var á götunum eða við stjórn landsins. Enda var forsetinn, Eduard Shevardnadze, lítið annað en afsprengi Sovétríkjanna og fylgitungl ráðamanna í Kreml.
 
Eftir grímulaust kosningasvindl í þingkosningunum 2003 fengu íbúar landsins sig fullsadda af spillingu og vanhæfni Shevardnadzes og efndu til byltingar, Rósabyltingarinnar. Shevardnadze neyddist til að segja af sér og efnt var til kosninga þar sem leiðtogi byltingarsinna, hinn ungi og aðsópsmikli Mikheil Saakashvili, var kjörinn forseti. Saakashvili gjörbreytti stefnu landsins. Áherslan var sett á aðild að NATO og Saakashvili lagði mikla rækt við sambandið vid Bandaríkin, Rússum til megnrar óánægju.
 
Róttækar umbætur
Eitt helsta afrek Saakashvilis var án efa umbætur í stjórnsýslu landsins, einkum og sér í lagi löggæslunni. Hann skipti út umferðarlögreglunni eins og hún lagði sig, enda lögreglumenn þess tima lítið annað en fantar í einkennisbúningi. Fjöldi embættismanna hlaut sömu örlög. Þeir sem komu í staðinn fengu hærri laun og aukin fríðindi til að draga úr hvata til spillingar. Landið er nú í 44. sæti á spillingarlista Transparency International, samanborið við 133. sæti árið 2004. 
 
Efnahagsumbæturnar skiluðu sömuleiðis árangri því Georgía er í 44. sæti á lista Forbes yfir riki þar sem best er að stunda viðskipti.
 
Áhrifa umbóta Saakashvilis gætir vissulega enn, en öllu sýnilegri áhrif hafði sú undarlega árátta Saakashvilis að skilja eftir sig minnisvarða í formi skrautlegra bygginga. Smekkur Saakashvilis er í besta falli umdeilanlegur og víða í Tbilisi og Batumi má sjá byggingar sem eru algjörlega úr takti við umhverfið. Og veruleikann ef út í það er farið. Er nærtækast að nefna hið hryllilega Biltmore hótel sem gnæfir yfir borgina eins og turn Saurons, tónlistarhúsið sem stendur eins og rotþró við Mtkvari ána og síðast en ekki síst Hetjutorg, sem er í sjalfu sér ekki afleitt útlits, en algjörglega gagnlaust sem samgöngumannvirki.
 
Rússar minna á sig
En þessar umbætur Saakashvilis höfðu hliðarverkanir. "Zero Tolerance" stefna hans gagnvart glæpum þótti í besta falli harðneskjuleg og ýmsum meðölum var beitt til að þvinga fram játningar, jafnvel fyrir minnstu glæpi. Þeir sem voru leiddir fyrir dómara voru nær undantekningalaust sakfelldir enda urðu fangelsi landsins fljótt yfirfull.

Hvatvísi Saakashvilis kom honum einnig um koll þegar uppreisnarmenn i Suður-Ossetíu, dyggilega studdir af Rússum, hófu að herja á þorp innfæddra Georgíumanna. Saakashvili brást við af fullri hörku sem varð til þess að rússneski herinn, sem var grunsamlega reiðubúinn til innrásar hinu megin við landamærin, óð inn í Georgíu af fullu afli (Hvort sú staðreynd, að einungis nokkrum vikum áður hafði NATO gefið Georgíu vilyrði um aðild aðbandalaginu, hafi skipt sköpum þegar þarna var komið skal ósagt látið). Átökin stóðu fram í byrjun október þegar rússneski herinn dró sig til baka og með stuðningi Rússa lýstu Abkhazía og Suður-Ossetía yfir sjálfstæði, nokkuð sem enginn viðurkennir nema fjögur leppriki Rússa. 192 þúsund manns af georgískum uppruna voru hrakin frá heimilum sínum og hafa enn í dag stöðu flóttamanna.
 
Alla tíð síðan hafa Rússar leynt og ljóst hert tök sin á þessum tveimur héruðum sem ná yfir 20% landssvæði Georgíu. Rússneskum hermönnum á svæðunum fjölgar stöðugt og rússneskir landamæraverðir eru sífellt að færa til línuna sem aðskilur héruðin frá yfirráðasvæði Tbilisi. Mörg dæmi eru þess að bændur sem lögðust til hvílu í Georgíu hafa vaknað innan víggirtrar girðingar, á rússnesku yfirráðasvæði. Ekki er að sjá að Rússar græði mikið á þessu brölti sínu í Abkhazíu og Suður-Ossetíu, enda lítið þangað að sækja. Þeir sjá hins vegar mikinn pólitískan ávinning í að halda héruðunum þar sem þeir líta svo á að núverandi ástand geri Georgíu það ómögulegt að gerast fullgildur aðili að NATO og síðar meir Evrópusambandinu.
 
Tími Bidzina rennur upp
Vinsældir Saakashvilis minnkuðu ört eftir því sem leið á valdatíma hans og í árslok 2012 tók ný valdablokk, Georgíski draumurinn, við stjórnartaumunum. Stjórnarskiptin mörkuðu tímamót að því leyti að þarna urðu stjórnarskipti þar sem ríkjandi stjórn steig sjálfviljug til hliðar eftir tap í kosningum. Stjórnarskiptin höfðu hins vegar lítil áhrif á stefnu landsins. Efnahagsstefnan var og er enn nokkurn veginn sú sama og áfram var stefnt að virkri þátttöku í samfélagi vestrænna þjóða. Saakashvili flúði aftur á móti land þegar hin nýja ríkisstjórn hugðist sækja hann til saka fyrir spillingu.
 
Í stað Saakashvilis kom olígarki að nafni Bidzina Ivanishvili, sem er í meira lagi skrautlegur karakter. Hann auðgaðist gríðarlega í stjórnleysinu í Rússlandi á 10. áratug síðustu aldar, fyrst á takkasímum sem voru iPhone þess tíma og síðar á kaupum á rússneskum ríkisfyrirtækjum. Bidzina þessi er eins og klipptur út úr James Bond mynd, enda ekki aðástæðulausu sem Daily Mail gaf honum viðurnefnið "hinn georgíski Scaramanga". Hann býr í risavaxinni höll i hlíðinni fyrir ofan miðbæ Tbilisi, sankar að sér rándýrum listaverkum, hann á hákarla, mörgæsir og bleika flamingóa og hefur blæti fyrir trjám. Tveir sona hans eru albínóar og annar þeirra er frægur rappari.
 
Bidzina stofnaði Georgíska drauminn árið 2012 og varð sjálfur forsætisráðherra. Hann steig til hliðar ári síðar en andstæðingar hans vilja meina að ekkert gerist í georgísku samfélagi nema með hans samþykki.
 
Vin í eyðimörkinni
Heilt yfir má segja að framfarirnar í Georgíu á umliðnum árum hafi verið stórkostlegar. Georgía er orðin eins konar vin í eyðimörkinni þegar horft er til nágrannarikjanna, Armeníu og Aserbaídsjan, svo ekki sé minnst á héruðin Rússlandsmegin í Norður-Kákasusinu. Einkum og sér í lagi er lýtur að mannréttindum. En það er mikið verk óunnið. Fátækt er enn mikil og framundan er nauðsynleg uppbygging innviða. Lýðræðið er enn viðkvæmt - þingið stendur afar höllum fæti gagnvart framkvæmdavaldinu og eftirlitshlutverk þess er ekkert. Þetta á einkum við um leyniþjónustuna sem sætir litlu sem engu aðhaldi.
 
Persónulega er áhugavert að upplifa hversu gríðarlegan áhuga almenningur hefur á NATO og öðrum vestrænum stofnunum. 70 prósent landsmanna eru hlynnt NATO-aðild, nærri 80 prósent styðja aðild að Evrópusambandinu. Fjölmargir sækja þá viðburði sem NATO stendur fyrir. Þessi áhugi sprettur ekki upp af engu því í augum Georgíumanna er aðild að NATO eina leiðin til að losna undan oki nágrannans í norðri. 60 prósent þeirra líta á Rússa sem helstu ógnina við öryggi landsins og áróðursstarfsemi af hálfu Rússa og fylgihnatta þeirra færist sífellt í aukana og skipar æ veigameiri sess í starfsemi NATO í Georgíu.
 
Fyrir Georgíumenn skiptir mestu að sjá framfarir, að þeir finni á eigin skinni að þeir tilheyri samfélagi Evrópuþjóða en séu ekki bara einn eitt "fyrrum Sovétlýðveldið". Stór áfangi náðist í mars þegar opnað var fyrir ferðalög án vegabréfsáritunarinn á evrópska efnahagssvæðið. Því fögnuðu Georgíumenn eins og heimsmeistaratitli. Sýnilegur árangur er þess vegna besta vörnin gegn undirróðursstarfsemi Rússa. 

facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105