Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
9. árg. 305. tbl.
16. nóvember 2016
Ungmenni í fátækrahverfum Kampala markhópur í nýju verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar:
Verst setti þjóðfélagshópurinn í Úganda að mati fulltrúa kirkjunnar

Utanríkisráðuneytið veitti fyrir nokkru Hjálparstarfi kirkjunnar tæplega 40 milljóna króna styrk til að styðja við bakið á ungu fólki í fátækrahverfum Kampala, höfuðborgar Úganda, en verkefnið nær til þriggja ára og hefst í ársbyrjun 2017. Hvergi er fátækt jafn bersýnileg og í skítugum óskipulögðum hverfum stórborga eins og í Kampala - og samt er ljótasti hluti hennar ósýnilegur: unga fólkið sem ánetjast fíkniefnum, vændi og glæpastarfsemi.

Queen of Katwe - kynningarmyndband
Queen of Katwe - kynningarmyndband
Ný Disney kvikmynd er sprottin uppúr þessum jarðvegi: myndin um skákdrottninguna frá Katwe, þessu fátækrahverfi í Kampala, sagan af Phionu Mutesi,ungri stúlku sem ólst upp við aðstæður sem þessar og reyndist búa yfir miklum skákhæfileikum. Margir vænta þess að vinsældir myndarinnar leiði til þess að fátækrahverfi stórborga fái meiri athygli og sett verði meira fjármagn í verkefni til að bæta lífskjör íbúanna.     

Verkefnið verður unnið í þremur fátækrahverfum Kampala og umsjón verður í höndum samtakanna Uganda Youth Development Link.

Í meðfylgjandi myndbandi segir Paul Onyait á skrifstofu Lútherska heimssambandsins í Kampala að líkast til sé unga fólkið í fátækrahverfunum verst staddi þjóðfélagshópurinn í öllu landinu. Hann segir ungmennin upp til hópa ómenntuð, flest hafi þau sjálfsagt reynt fyrir sér í skóla annað hvort í Kampala eða í sveitaþorpum, en í þessu umhverfi sé enga atvinnu að hafa nema fyrir þá sem kunni eitthvað fyrir sér; aðeins þeir geti séð fyrir sér með því að bjóða fram starfskrafta sína og þekkingu. Komi ungmennin í fátækrahverfin án nokkurrar menntunar séu þau ákaflega varnarlaus og auðveld bráð fyrir þá sem vilja nýta sér bágindi þeirra. Þau ánetjist auðveldlega eiturlyfjum, vændi og glæpum - og því séu þau miklu berskjaldaðri en ungmenni í sveitaþorpum.

Samtökin UYDEL sem koma til með að hafa umsjón með verkefninu hafa rúmlega tuttugu ára reynslu af því að vinna með ungu fólki í fátækrahverfum Kampala. Samtökin reka verkmenntabúðir þar sem unglingarnir geta valið sér ýmiss konar svið til að öðlast nægilega hæfni til að vera gjaldgeng á vinnumarkaði, eins og hárgreiðslu, matreiðslu, rafvirkjun, skapandi listir og fleira. Diana Namwanje félagsráðgjafi lýsir því að ungmennin fái gegnum samtökin starfsnemastöður sem oft leiði til atvinnutækifæra. Linda Samúel ungmennaleiðtogi segir krakkana lenda auðveldlega í misnotkun af ýmsu tagi, margir komi til höfuðborgarinnar úr sveitunum með miklar væntingar en veruleikinn sé allt annar og verri.

Eins og nærri má geta er fótbolti vinsæl íþrótt meðal unga fólksins í fátækrahverfunum og þar mátti sjá ungan mann í rauðum íþróttabúningi merktum Gudjohnsen og tölustöfunum 22; það gladdi okkur Íslendingana.

Paul Onyait segir verkefnið ná til þriggja hverfa í Kampala og ætlunin sé að valdefling nái til 1500 ungmenna - 500 í hverju hverfi - með áherslu á starfsþjálfun. Markhópurinn er á aldrinum 12 til 24 ára. Um 77% íbúa Úganda eru yngri en þrjátíu ára, atvinnuleysi er mikið í hópi ungs fólks eða yfir 60% - og meira meðal stúlkna en pilta. Af þeim 1500 ungmennum sem koma til með að fá sérstakan stuðning í verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar verða kynjahlutföllin þau að stelpur verða 60% en strákar 40%.

Í myndbandinu reka tvær stúlkur sögu sína og ástæður þess að þær höfnuðu í fátækrahverfi Kampala.
UNICEF: Allt kapp lagt á að ná til vannærðra barna í Vestur- og Mið-Afríku 


Allt kapp er nú lagt á að koma í veg fyrir frekari hörmungar í Vestur- og Mið-Afríku þar sem hálf milljón barna er í lífshættu vegna vannæringar. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur stóraukið aðgerðir sínar og er með mikinn viðbúnað á svæðinu.

UNICEF á Íslandi hóf á mánudag neyðarsöfnun vegna ástandsins í Nígeríu og nágrannaríkjunum. Viðbrögðin voru afar sterk og mörg þúsund manns studdu söfnunina strax í gær, að því er segir í frétt frá samtökunum. Ástandið er grafalvarlegt en í norðausturhluta Nígeríu látast fleiri en 200 börn á dag vegna vannæringar og með réttri meðhöndlun má koma í veg fyrir 99% dauðsfallanna.

Eitt sms jafngildir sem dæmi vikulangri meðferð fyrir vannært barn. Hægt er að styrkja söfnunina með því að senda sms-ið BARN í númerið 1900 (1.000 kr).


65.000 manns svelta
Tölur frá Borno-héraði í norðausturhluta Nígeríu benda til þess að ástandið jaðri við hungursneyð á ákveðnum svæðum. Borno-hérað er á stærð við Ísland og um það bil 65.000 manns búa þar við aðstæður sem svipa til hungursneyðar, þótt hungursneyð hafi ekki verið formlega lýst þar yfir. Það þýðir að fjöldi manns er í raunverulegri hættu á að deyja vegna matarskorts - nokkuð sem sjaldan sést í heiminum.
Til að hungursneyð sé formlega lýst yfir þurfa til dæmis tveir fullorðnir eða fjögur börn á hverja 10.000 íbúa að deyja á dag og 20% fólks að líða mjög alvarlegan matarskort.

Börn á aldrinum 6 mánaða til 5 ára eru í mestri hættu. Þar af eru börn 6 mánaða til 2 ára viðkvæmust og fyrst til að láta lífið. Barn sem þjáist af alvarlegri bráðavannæringu er margfalt líklegra til að deyja af völdum sjúkdóma en önnur börn sem veikjast, til dæmis af malaríu, lungnabólgu og niðurgangspestum.

Ótrúlegur árangur
UNICEF leggur nú allt kapp á að ná til barna sem þjást af vannæringu. "Með þremur pökkum á dag af vítamínbættu jarðhnetumauki, ásamt saltupplausnum og lyfjum ef þess þarf - ná flest börn sér á einungis fáeinum vikum. Það er magnað að sjá árangurinn," segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

"Tíminn er hins vegar naumur og við verðum að bregðast hratt við. Við heyrum í gegnum samstarfsfólk okkar á vettvangi af dauðsföllum þar sem börn hafa hreinlega soltið til dauða. Nauðsynlegt er að fara hús úr húsi til að finna börn og koma þeim í meðferð. Sem betur fer eru 15.000 sjálfboðaliða á svæðinu með okkur í þessu."

Hægt er að styrkja neyðarhjálp UNICEF með því að senda sms-ið BARN í númerið 1900 (1.000 kr).
Einnig er hægt að styrkja neyðarsöfnunina hér eða með því að leggja inn á neyðarreikninginn: 701-26-102050 (kt. 481203-2950).

Vannærð börn í lífshættu/ UNICEF
Ekki horfa, eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur/ Fréttablaðið
25 milljónir til Neyðarsjóðs SÞ vegna Haítí og Sýrlands

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra hefur ákveðið að veita 25 milljónum króna til Neyðarsjóðs Sameinuðu þjóðanna, m.a. vegna hamfaranna á Haítí og afleiðinga átakanna í Sýrlandi. Fyrr á árinu veittu íslensk stjórnvöld 10 milljón króna framlag til neyðarsjóðsins. Með þessu framlagi leggja íslensk stjórnvöld sitt af mörkum til að mæta mikilli og sívaxandi þörf fyrir mannúðaraðstoð en mjög er lagt að ríkjum heims að hækka framlög til Neyðarsjóðsins.

Tilgangur Neyðarsjóðs SÞ er að tryggja að neyðar- og mannúðaraðstoð berist fórnarlömbum náttúruhamfara og átaka tímanlega og á sem skilvirkastan hátt. Í kjölfar afleiðinga fellibylsins Matthew sem gekk yfir Haítí fyrr í mánuðinum, hefur sjóðurinn þegar veitt fimm milljónum Bandaríkjadala til mannúðaraðstoðar og 8 milljón dala lán til Barnahjálpar SÞ til að berjast gegn kólerufaraldri í landinu. Samkvæmt sameiginlegu mati stofnana Sameinuðu þjóðanna á Haítí er þörf á allt að 119 milljónum dala í mannúðaraðstoð fyrir 750 þúsund manns næstu þrjá mánuðina. Þá hefur Neyðarsjóður SÞ veitt há framlög til mannúðaraðstoðar vegna átakanna í Sýrlandi og til neyðaraðstoðar í Chad, Mið-Afríkulýðveldinu og Jemen.

Þeim sem þarfnast mannúðar- og neyðaraðstoðar hefur fjölgað mjög á síðustu árum og gert er ráð fyrir að sú tala muni halda áfram að hækka. Fórnarlömb vopnaðra átaka og hamfara eru fleiri en nokkru sinni. Í lok september sl. hafði neyðarsjóðurinn veitt 360 milljónum dala í mannúðaraðstoð í 43 löndum þar sem ástandið var talið alvarlegast. Í septembermánuði einum var 69 milljónum dollara veitt til aðstoðar í tíu löndum.
Ný skýrsla Alþjóðabankans:
Alvarlegar afleiðingar náttúru-hamfara, sérstaklega fyrir fátæka

"Ofviðri, flóð og þurrkar hafa bæði skelfilegar afleiðingar fyrir fólk og efnahag og fátækir verða oftast verst úti," segir Jim Young Kim forseti Alþjóðabankans í tilefni af útgáfu nýrrar skýrslu um áhrif náttúruhamfara á efnahag og lífsafkomu fólks.

Í skýrslunni - Unbreakable: Building Resilience of the Poor in the Face of Natural Disasters - kemur fram að efnahagstjón af völdum alvarlegra náttúruhamfara er metið á 520 milljarða bandaríkjadala árlega. Þá leiða hamfarirnar til þess að 26 milljónir manna bætast í hóp fátækra ár hvert.

Eins og nafn skýrslunnar gefur til kynna leggur Alþjóðabankinn höfuðáherslu á að auka viðnámsþrótt gegn hamförum og Jim Young Kim segir það ekki aðeins efnahagslega skynsamlegt heldur líka siðferðilega mikilvægt. "Alvarlegar náttúruhamfarir vegna loftslagsbreytinga gætu svipt burt framförum síðustu áratuga í baráttunni gegn fátækt," segir hann.

Disaster resilience measures could unlock US$100 billion in developing economies, World Bank says
Loftslagsráðstefnan í Marrakesh:
Nánari útfærsla á ýmsum ákvæðum Parísarsamningsins

Frétt Euronews um ráðstefnuna og áhersluna á vatn.
Þessa dagana stendur yfir 22. aðildarríkjaþing Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar í Marrakesh í Marokkó. Það verður jafnframt fyrsta aðildarríkjaþing Parísarsamningsins, en hann er byggður á grunni Rammasamningsins, sem hefur að geyma almenn ákvæði um losunarbókhald og skyldu ríkja heims að bregðast við loftslagsbreytingum af manna völdum.

Fyrir þinginu liggur meðal annars að útfæra nánar ýmis ákvæði Parísarsamningsins, svo sem um bókhald ríkja varðandi losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis með skógrækt og öðrum aðgerðum, aðlögun að breytingum, fjármál og fleira, að því er fram kemur á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytis.

Ríkisstjórnin samþykkti sóknaráætlun í loftslagsmálum í aðdraganda Parísarfundarins 2015 til að efla starf í loftslagsmálum. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur tekið saman yfirlit yfir framkvæmd sóknaráætlunar. Áætlunin byggir á sextán verkefnum, sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka kolefnisbindingu, efla þátttöku í alþjóðlegum verkefnum og styrkja innviði loftslagsmála til að takast á við hertar skuldbindingar. Áætlunin gildir til þriggja ára og er starf undir hennar hatti hugsað sem viðbót við fyrri áætlanir og markmið. Sóknaráætlun er fyrsta heildstæða áætlun Íslands í loftslagsmálum sem byggir á fjármögnuðum verkefnum og er ekki síst ætlað að virkja fleiri til góðra verka á því sviði - fulltrúa atvinnulífs, vísindamenn, stofnanir og almenning, segir í fréttinni.

World to Cut Gas Emissions by 25 Percent More Than Paris Agreement/ IPS
Africa: After Years of Delay, Climate Talks Face a New Problem - Speed/ AllAfrica
Skýrsla: Scaling Up Climate Action to achieve the SDGs/ UNDP
Parísarsamkomulagið í uppnámi eftir kjör Trumps/ Kjarninn
4 Big Questions For This Year's Climate Change Conference, eftir Nick Visser/ HuffingtonPost
MARRAKECH: UN climate conference to continue momentum after Paris Agreement comes into force
Vefur ráðstefnunnar: The world's youth gathered in Marrakech for the occasion of COY12
12 ways environment and development sectors can collaborate to meet the SDGs
'Climate action starts in the kitchen,' says UN, launching #Recipe4Change campaign/ UN
2016: World Bank Group Moves Fast to Support Stepped Up Global Climate Ambition/ Alþjóðabankinn
Ólafur Elíasson einn þriggja frumkvöðla að UN Live safni:
Sameinuðu þjóða safn í Kaup- mannahöfn á teikniborðinu 
UN Live safnið byggir á þremur stoðum: gagnvirkri og stafrænni virkni á netinu, útstöðvum um allan heim og safni sem mun rísa í Kaupmannahöfn. "Ætlunin er að skapa vettvang þar sem fólk getur fræðst um starf og markmið Sameinuðu þjóðanna, átt í innbyrðis samskiptum og við Sameinuðu þjóðirnar sjálfar um þessi markmið og gildi," segir Jan Mattsson, forstjóri safnsins í viðtali við norrænt fréttabréf UNRIC
 
Í fréttabréfinu kemur fram að stafrænt starf hefjist strax á næsta ári þótt byggingin rísi síðar. Fjársöfnun stendur enn yfir en fimm ára fjárhagsáætlun hljómar upp á 350 milljónir evra, þar á meðal byggingin í Kaupmannahöfn.

Þrír menn úr ólíkum áttum eru forsprakkar verkefnisins. Svíinn Jan Mattsson fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og forstjóri UNOPS, danski kaupsýslumaðurinn Henrik Skovby formaður Dalbert og íslensk-danski listamaðurinn Ólafur Elíasson sem stýrir hönnun verkefnisins. 

Það er ekki síst sú staðreynd að heimsþekktur listamaður, Ólafur Elíasson, er á meðal þátttakenda, sem vekur athygli, segir í frétt UNRIC. "Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ólafur fylkir sér að baki hugsjónum Sameinuðu þjóðanna og nægir að nefna frægt verk hans og Grænlendingsins Minik Rosing, Ísúrið, í París í tengslum við COP21, loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna fyrir ári."

"Sameinuðu þjóðirnar hafa unnið stórvirki á síðustu 70 árum, en almenningur virðist ekki lengur geta tengt sig tilfinningalega við þessi útbreiddu samtök," segir Ólafur. "Þau eru svo stór og þau miðast við samskipti á milli þjóða, með þeim afleiðingum að einstaklingar hafa ekki raunverulegan aðgang, og það hefur í för með sér að fólki finnst það ekki hafa nein áhrif og verður sinnulaust.Það verður rými þar sem gestir og notendur geta fræðst, átt í samskiptum og verið virkir í krafti UN Live, en jafnframt nýst Sameinuðu þjóðunum í því að hlusta á og læra af fólkinu."

Sameinuðu þjóðirnar eru ekki aðilar að verkefninu, en í hópi á þriðja hundrað manns sem eru virkir, eru margir núverandi og fyrrverandi starfsmenn Sameinuðu þjóðanna. Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna fagnaði tilkynningunni í yfirlýsingu.

"Aðalframkvæmdastjórinn hlakkar til samvinnu Sameinuðu þjóða-kerfisins og safnsins í viðleitni til að auka vitund um og afla stuðnings við Heimsmarkmiðin og starf okkar við að skapa betri framtíð fyrir alla," sagði hann.

Vefur verkefnisins
Samstarfssamningur við Mangochi hérað framlengdur

Á myndinni skiptast James Manyetera héraðsstjóri í Mangochi og Guðmundur Rúnar Árnason verkefnastjóri á undirrituðum samningum. Aðrir á myndinni eru Stuart Ligomeka ráðuneytisstjóri og Ágústa Gísladóttur forstöðukona sendiráðsins í Lilongwe.
Fulltrúar sendiráðs Íslands í Lilongwe, fyrir hönd íslenskra stjórnvalda, skrifuðu á dögunum undir samning um framlengingu á verkefnum sem íslenska ríkið hefur verið að styrkja í Mangochi héraði í suðurhluta Malaví síðan árið 2012.

Sveitastjórnarráðuneyti Malaví er einnig aðili að samningnum, fyrir hönd malavíska ríkisins, ásamt héraðsstjórn Mangochi.

Í maí 2012 samþykktu þessir aðilar fjögurra ára verkefnaáætlun sem miðaði að bættri getu héraðsstjórnar Mangochi til að stuðla að auknu aðgengi íbúa héraðsins að menntun, heilbrigðis-þjónustu og hreinu vatni. Því verkefni lauk þann 30. júní síðastliðinn en af óviðráðanlegum orsökum var ekki hægt að skrifa undir nýja fjögurra ára áætlun á þeim tíma og því var ákveðið að framlengja hluta verkefnisins sem var að klárast um eitt ár eða fram til 30. júní 2017.


Rosling fjölskyldan auðveldar fólki að skilja heiminn á myndrænan hátt:
Dollar street: þar sem staðalímyndir hrynja

Sænska baráttukonan Anna Rosling Rönnlund segir að persónulegt markmið hennar með starfi sínu hjá hinu fræga frumkvæði Rosling-fjölskyldunnar, Gapminder, sé að auðvelda fólki að skilja heiminn á myndrænan hátt. Fjallað er um "Dollar street" nýtt netverkefni fjölskyldunnar í nýju norrænu fréttabréfi Upplýsingaskrifstofu SÞ, UNRIC.

Þar segir að Anna, eiginmaður hennar Ola Rosling, og tengdafaðirinn Hans Rosling séu kjarninn í  Gapminder, óháðri sænskri stofnun sem hefur það að markmiði að "berjast gegn skaðlegum misskilningi um þróun heimsins með staðreynda-miðaðri heimssýn sem allir geta skilið."

"Læknirinn, samstarfsmaður hennar og tengdafaðir, Hans Rosling, er orðinn heimskunnur sem ræðumaður og er frægð hans ekki síst að þakka framúrskarandi myndrænni matreiðslu ýmissa staðreynda. Þetta er einmitt helsta hlutverk Önnu í starfi Gapminder hópsins, sem hefur unnið mikið með Sameinuðu þjóðunum, háskólasamfélaginu, ríkisstjórnum og almannasamtökum. Anna er sjálf heilinn á bakvið Dollar Street verkefnið sem hóf göngu sína á netinu nú í október.

"Markmið okkar með Dollar Street er að gera öllum kleift að sjá hvernig fólk lifir raunverulega í heiminum," segir Anna Rosling. "Við reynum að sjá í gegnum staðalímyndir og klisjur. Við vinnum úr tölfræði á þann hátt að enginn þarf að lesa talnarunur. Myndirnar leika hlutverk talnanna, ókeypis fyrir alla sem vilja nota og skoða."

Dollar Street er netsíða þar sem safnað er myndum af heimilum um víða veröld. Sýnd eru 200 heimili í um 50 löndum eða í allt 30 þúsund ljósmyndir og 10 þúsund myndbönd af heimilum. Hún segir að þetta verkefni eigi erindi við Sameinuðu þjóðirnar sem samþykktu Heimsmarkmiðin fyrir ári.
Utanríkisráðuneytið styrkir fræðsluverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar

Hjálparstarf kirkjunnar hefur hlotið 500 þúsund króna styrk vegna fræðsluverkefnisins Stefnumót við fólk frá Eþíópíu. Verkefnið snýr að því að fólk frá Eþíópíu komi til Íslands til að hitta og uppfræða íslensk ungmenni um líf, aðstæður og menningu í Eþíópíu. Einnig gera gestirnir grein fyrir því hvernig þróunarsamvinnuverkefni getur skilað árangri og eflt samfélög. Stefnt er að því að gestirnir hitti allt að tvö þúsund íslensk ungmenni í fermingarfræðslu, auk ungmenna í framhaldsskólum og fullorðna.

Fræðslu- og kynningarstyrkir utanríkisráðuneytis um þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð eru liður í viðleitni ráðuneytisins til að auka stofnanafærni íslenskra borgarasamtaka og efla faglega þekkingu þeirra á málaflokknum. Enn fremur er þeim ætlað að auka þekkingu almennings á þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð og aðkomu borgarasamtaka á þeim vettvangi.

Tekið er við umsóknum vegna fræðslu- og kynningarstyrkja tvisvar á ári og er umsóknarfrestur til miðnættis 15. mars og 15. september ár hvert. Að þessu sinni bárust þrjár umsóknir um styrk vegna fræðslu- og kynningarverkefna og þótti ein umsókn uppfylla öll skilyrði sem gerð eru samkvæmt stefnumiði og verklagsreglum utanríkisráðuneytisins um samstarf við borgarasamtök.

Nánari upplýsingar um umsóknarferlið sem og öll viðvíkjandi stuðningsgögn má finna á vef alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands.
Endurfjármögnun IDA á lokametrunum:
Rík áhersla Íslands að fátæku ríkin séu ávallt í forgrunni

IDA er sú stofnun Alþjóðabankans sem vinnur með fátækustu ríkjunum og veitir þeim styrki og lán á hagkvæmum kjörum. Stofnunin er endurfjármögnuð á þriggja ára fresti og eru samningaviðræður vegna 18. endurfjármögnunarinnar nú á lokametrunum, en síðasti samningafundurinn fer fram 14. - 15. desember næstkomandi.

Hefð hefur skapast fyrir því að drögin að lokaskjali samningafulltrúanna sé birt og tekið á móti athugasemdum frá almenningi. Opið var fyrir athugasemdir til 11. nóvember en samantekt samningaviðræðna síðastliðna 9 mánuði er hægt að nálgast hér.

Að sögn Þórarinnu Söebech leiðandi sérfræðings á þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins er á 18. endurfjármögnunartímabilinu gert ráð fyrir nokkuð svipuðum áherslum og á því 17. en lögð verður áhersla á fimm málaflokka: loftslagsbreytingar, jafnrétti kynjanna, atvinnumál og hagþróun, stjórnsýslu og stofnanir auk óstöðugra ríkja. "Hvað fjármögnunina áhrærir er þó gert ráð fyrir sögulegum breytingum, enda hafa meiriháttar breytingar átt sér stað á umliðnum árum hvað varðar þörf á fjármagni, markmið sem sett hafa verið á alþjóðavettvangi og framboð af opinberri þróunaraðstoð," segir hún.

"Frá upphafi hefur IDA verið fjármögnuð með framlögum gjafaríkja í formi styrkja og endurgreiðslum af útistandandi lánum auk millifærslna frá öðrum stofnunum bankans (IBRD og IFC). Þar sem ljóst þykir að fjármagnið sem þörf er á verður ekki sótt eingöngu til þessara gátta er í 18. endurfjármögnunni að finna tillögur um sögulegar breytingar á fjármögnun stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir svipuðum framlögum frá gjafaríkjum í IDA18 og IDA17, en til þess að auka vogarafl sjóða stofnunarinnar hefji stofnunin útgáfu skuldabréfa á almennum markaði og fjölgi lánum með hærri vexti sem veitt eru til burðugri ríkja innan IDA. Þess ber að geta að stofnunin hefur nýlega hlotið lánshæfiseinkunnina AAA frá matsfyrirtækjunum Standard and Poor´s og Moody´s."

Ætlunin að auka framlög til fátækustu þjóðanna
Þórarinna segir að með auknu fjármagni verði stofnuninni svo gert kleift að takast á við þær áskoranir sem blasa við og uppfylla loforð sem gefin hafa verið í tengslum við Heimsmarkmiðin, enda gert ráð fyrir að í stað þess að einn bandaríkjadalur framlagsríkja verði að tveimur í meðferð stofnunarinnar verði hann að þremur með nýjum fjármögnunaraðferðum. "Með auknu fjármagni er ætlunin að auka framlög til fátækustu þróunarríkjanna, tvöfalda framlög til óstöðugra ríkja, veita fjármagni til þróunarlanda til að takast á við flóttamannavandann og auka framlög til sjóðs vegna hamfara. Þá mun fé verða varið til Alþjóðalánastofnunarinnar (IFC) og Fjölþjóðlegu fjárfestingaábyrgðarstofnunarinnar (MIGA) til að auka þátttöku einkageirans í uppbyggingu í þróunarlöndum og auka þannig fjárfestingu á því sviði í fátækustu löndunum og þeim óstöðugu. Í umræðunni hefur Ísland, líkt og önnur ríki, hrósað IDA, enda hafi stofnunin sýnt bæði frumkvæði og metnað með tillögunum. Á sama tíma þurfi að stíga varlega til jarðar og vera sveigjanleg þegar kemur að framkvæmdinni. Þá sé nauðsynlegt að framkvæma endurmat og gera breytingar ef þörf er á og skoða fjármögnun bankans og dótturstofnana hans á heildstæðan hátt sem allra fyrst. Ísland hefur jafnframt lagt ríka áherslu á að fátækustu ríkin séu ávallt í forgrunni og aukinn metnaður sé lagður í jafnréttismál og hefur fylgt þessu eftir á öllum fundunum sem fram hafa farið."

Ísland áttunda árið í röð í efsta sæti í kynjajafnrétti
 
Áttunda árið í röð eru Íslendingar í efsta sæti á lista yfir þjóðir heims þegar horft er til jafnréttis kynjanna. Samkvæmt árlegri skýrslu - Global Gender Gap Report 2016 - hafa Íslendingar náð að draga að mestu úr kynjamismun, eða um 87%. Launamunur kynjanna ræður mestu um að árangurinn er þó ekki meiri. Norðurlandaþjóðirnar raða sér í efstu sæti listans, að Dönum undanskildum, en athygli vekur að Afríkuríkið Rúanda er í fimmta sæti.

Haldi þróun í jafnréttismálum áfram með sama hætti og verið hefur getur stúlkubarn sem fæðist í dag vænst þess að jafnrétti kynjanna verði að fullu náð þegar hún verður 83 ára.

Jemen, Pakistan og Sýrland eru í neðstu sætum listans.
 
Áhugavert
Ending Energy Poverty/ Alþjóðabankinn
-
Aid workers talk endlessly about capacity building - but what does it really mean?/ TheGuardian
-
Achieve Real Gender Equality For Adolescent Health, eftir Ayah Nayfeh and Montasser Kamal/ HuffingtonPost
-
Call to World Leaders: Girls and Women Must Be at the Center of Your Refugee Response/ WomenDeliver
-
Áfallasérfræðingur: "Börn verða fyrir mestum áhrifum af stríði" - SOS Barnaþorpin
-
Universaling Effective Development Coopereation
Universaling Effective Development Coopereation

Photographer Giles Duley and Massive Attack team up to stand #WithRefugees/ UNHCR
-
RUN THE WORLD - Six countries' efforts to drive adaptation action through gender equality in leadership and equitable control over resources/ UNDP
-
Population growth is not necessarily a disaster, if we handle it right/ TheGuardian
-
Understanding Africa's diverse gene pool can help fight lifestyle diseases/ TheConversation
-
The fig-leaf approach to human rights/ D+C
-
Adaptive Farms, Resilient Tables: Building secure food systems and celebrating distinct culinary traditions in a world of climate uncertainty/ UNDP
-
Countries Transitioning From Donor Health Aid: We Need A Common Research Agenda And Mechanisms For Action, eftir Robert Hecht and Sara Bennett/ HealthAffairsBlogg
-
Why African States Are Refusing to Sign On to EU Trade Deals, eftir Stephen R. Hurt/ WorldPoliticsReview
-
Do unskilled migrants push down living standards in the OECD?/ DevPolicy
-

Urban futures: how cities can deliver global goals/ ODI
-
H&M Foundation/ UNHCR
-
For Melinda Gates, Birth Control Is Women's Way Out of Poverty/ NYT
-
How to make services work for the poor?, eftir Maria Jones/ Alþjóðabankinn
-
Working to address gender-based violence in fragile situations, eftir Diana J. Arango/ Alþjóðabankablogg
-
Dagur umburðarlyndis í dag: International Day for Tolerance 16 November

Fræðigreinar og skýrslur
Sigur Trumps og alþjóðleg þróunarsamvinnaÓhætt er að segja að sigur Donald Trumps í forsetakosningunum í Bandaríkjunum mælist misjafnlega fyrir meðal þeirra sem horfa til Afríku og þróunarsamvinnu. Talsvert af greinum hafa birst í fjölmiðlum frá því niðurstaða kosninganna varð ljós og flestar gefa til kynna ótta um að Trump dragi úr þróunarsamvinnu við ríki Afríku. Kjör hans sé því ekki fagnaðarefni fyrir álfuna. Aðrir segja hins vegar að þótt áhrifa Bandaríkjanna gætti minna í Afríku gæti slíkt slíkt í raun verið ágætis hugmynd. Heimsljós tók saman nokkrar krækjur á greinar um Trump og þróunarsamvinnu.

Will Trump honour pledge to 'stop sending aid to countries that hate us'?/ TheGuardian
-
Why a Trump victory bodes ill for Africa/ TheConversation
-
Donald Trump's foreign policy on Africa is likely to be: 'Where's that?'/ TheConversation
-
Does Trump's election mark the end of compassion in aid?/ TheGuardian
-
Opinion: Seeing past the shock of the Trump victory/ Devex
-
The development sector must heed domestic issues after Brexit and Trump, eftir Jonathan Glennie/ TheGuardian
-
US envoy says climate deal is bigger than any one head of state/ BBC
-
Africa's cautious welcome for Trump/ DW
-
What Donald Trump's presidency means for Africa/ AfricaReport  
-
What does Trump mean for development aid?
-
What happens now? 5 questions about US aid under Trump/ Devex

IKEA STYRKIR NEYÐARAÐSTOÐ BARNAHEILLA

IKEA Foundation hefur skrifað undir samning við Barnaheill - Save the Children og samtökin Lækna án landamæra um fjárstuðning við neyðaraðstoð í kjölfar hamfara sem dynja yfir samfélög. Í þeim aðstæðum eru börn hvað viðkvæmust og mannúðarsamtök á borð við Barnaheill - Save the Children þurfa að geta brugðist við án tafar til að koma börnunum til hjálpar. Samtökin geta nálgast fjármagnið strax í kjölfar slíkra hamfara.

Barnaheill - Save the Children vinna í rúmlega 120 löndum víða um heim við að hjálpa börnum að njóta réttinda sinna til verndar, heilbrigðisþjónustu, menntunar og til leikja á öruggum svæðum.  Samkomulagið felur í sér að IKEA Foundation styður hjálparstarf samtakanna um allt að tvær milljónir evra innan 72 klukkustunda frá því að alvarlegar hamfarir hafa dunið yfir samfélög þar sem meira en milljón börn verða fyrir áhrifum þeirra og eyðilegging hefur orðið á stóru svæði.

Barnaheill - Save the Children munu nýta fjármagnið fljótt og vel til að hjálpa börnum og fjölskyldum þeirra að komast af og ná bata á næstu mánuðum þar á eftir.
Læknar án landamæra munu að sama skapi njóta allt að þriggja milljóna evru styrks eftir slíkar hamfarir til að hjálpa börnum og fjölskyldum þeirra að lifa af.

Nánar

Fréttir og fréttaskýringar

Sat saklaus í fangelsi í tíu ár/ Kastjós
-
Health and environment ministers pledge climate actions to reduce 12.6 million environment-related deaths/ WHO
-
Nigeria: Officials Abusing Displaced Women, Girls/ Mannréttindavaktin
-
Canada broadens aid horizons as focus falls on women and girls in Mozambique/ TheGuardian
-
Wonder Woman: Not the Hero the UN Needs/ IPS
-
World Bank Provides Hope to Drought Stricken Malawi/ Alþjóðabankinn
-
Rural Malawians About to Go Online/ IPS
-
Frequently asked questions on climate change and disaster displacement/ UNHCR
-
Open data aims to boost food security prospects/ BBC
-
UNICEF Goodwill Ambassador Liam Neeson meets with Syrian children and youth in Jordan/ UNICEF
-
 Overcoming challenges to a TB epidemic/ Devex
-
Enhancing the Climate Resilience of Africa's Infrastructure: The Roads and Bridges Sector/ Alþjóðabankinn
-
Flóð af blóði og peningum"/ RÚV
-
Stunting and poverty 'could hold back 250m children worldwide'/ TheGuardian
-
Everything you ever wanted to know about the U.S. foreign assistance budget/ WashingtonPost
-
Þúsundir barna deyja vegna loftmengunar/ RÚV
-
Contraceptive rates in poorest countries leap by 30 million users in four years/ TheGuardian
-
A Cashless Economy in Zimbabwe? With Little Cash, There's Little Choice/ NYTimes
-
Africa Still in the Crosshairs as Land Grabs Intensify/ CommonDreams
-

Tímaritið D+C, nóvember 2016
-
#CarFreeDay in Rwanda
-
-This Map shows Where the World's Most Generous People Live/ GlobalPolicyJournal
-
Off-grid solar power - Africa unplugged/ Economist
-
Kenya Defies Global Economic Headwinds to Register Solid GDP Growth/ Alþjóðabankinn
-
Panamaskjölin: Veiðar lífeyrissjóðanna í Afríku í gegnum skattaskjól enduðu með stórfelldu tapi/ Fréttatíminn
-
What Life Is Like In The Worst Country For Girls/ HuffingtonPost
-
Centre advocates policy framework to protect rights of girls/ Graphic
-
Uganda farming classes transform refugees into entrepreneurs/ UNHCR
-
Can a new sweet potato help tackle child malnutrition?/ BBC

1,4 millioner barn døde av lungebetennelse og diaré i fjor/ Bistandsaktuelt
-
'Marshall Plan' for Africa meets with skepticism/ DW

Áskorun borgarasamtaka til nýrrar ríkisstjórnar

Í morgun birtu framkvæmdastjórar níu borgarasamtaka sem starfa að alþjóðlegu mannúðar- og hjálparstarfi grein í Fréttablaðinu með áskorun til nýrrar ríkisstjórnar um hærri framlög til þróunarsamvinnu.

"Um áratugaskeið hafa íslensk stjórnvöld stutt markmið Sameinuðu þjóðanna um að velmegunarríki verji sem samsvarar 0,7% af vergum þjóðartekjum til að styðja við fátæk og óstöðug ríki. Á síðasta ári vörðu íslensk stjórnvöld hins vegar 0,24% af vergum þjóðartekjum til málaflokksins og 0,23% árið 2014. Hæst var framlag Íslands 0,37% árið 2008.

Markmið með þróunarsamvinnu Íslands er tvíþætt: Í fyrsta lagi að "styðja stjórnvöld í þróunarlöndum við að útrýma fátækt og hungri, stuðla að efnahags- og félagslegri þróun, þ.m.t. mannréttindum, menntun, bættu heilsufari, jafnrétti kynjanna og sjálfbærri þróun" og í annan stað að "tryggja öryggi á alþjóðavettvangi, m.a. með því að stuðla að friði og gæta hans, vinna að uppbyggingu og veita mannúðar- og neyðaraðstoð."

Það eru viðsjárverðir tímar. Átök geysa víða og af þeim sökum neyðist fólk jafnvel til að flýja heimili sín. Náttúruhamfarir, fátækt og skortur á menntun (einkum stúlkna) verða til þess að ástandið versnar. Ein afleiðing er aukinn fjöldi flóttafólks sem leitar til Evrópu og þar með talið Íslands. Er ekki kominn tími til að snúa vörn í sókn?

Við undirrituð, sem erum í forsvari fyrir hjálpar- og mannúðarsamtök í alþjóðlegu hjálparstarfi, skorum á verðandi ríkisstjórn og nýkjörið Alþingi að verða við yfirlýstum vilja þings og þjóðar og hækka framlög Íslands til þróunarsamvinnu þannig við getum aðstoðað fólk á heimslóðum þess, greitt götu kynjajafnréttis og eflt menntun stúlkna og drengja sem er forsenda aukinnar velferðar og velmegunar. Enginn vill þurfa að flýja, hvorki heimili sitt né heimaland, og hvað þá að láta lífið vegna fátæktar, hungursneyðar eða hamfara sem má koma í veg fyrir með aukinni samvinnu ríkra þjóða og fátækra.

Standið við stóru orðin. Það er löngu orðið tímabært - og aldrei þarfara en nú."

Bergsteinn Jónsson
frkvstj. UNICEF á Íslandi
Bjarni Gíslason
frkvstj. Hjálparstarfs kirkjunnar
Erna Reynisdóttir
frkvstj. Barnaheilla - Save the Children á Íslandi
Fríður Birna Stefánsdóttir
frkvstj. ABC barnahjálpar
Inga Dóra Pétursdóttir
framkvæmdastýra Landsnefndar UN Women á Íslandi
Kristín S. Hjálmtýsdóttir
frkvstj. Rauða krossins á Íslandi
Ragnar Gunnarsson
frkvstj. Kristniboðssambandsins
Ragnar Schram
frkvstj. SOS Barnaþorpa
Selma Sif Ísfeld Óskarsdóttir
formaður Alnæmisbarna

SOS barnaþorpin:
Börnin búa í leiguhúsnæði í Juba eftir að hafa hrakist úr þorpinu
Fjórum mánuðum eftir að rýma þurfti Barnaþorpið í Juba, Suður Súdan, vegna átaka er lífið aftur komið í nokkuð eðlilegt horf fyrir börnin og ungmennin úr þorpinu sem búa nú í leiguhúsnæði í borginni. Í frétt á vef SOS barnaþorpanna segir að börnin gangi í skóla og hafi fengið föt og aðrar nauðsynjar. Nú deili 100 börn og ungmenni tveimur húsum.

"Ástandið í Juba er kyrrt þessa stundina og fjölskyldur og börn eru ánægð og róleg," segir verkefnastjóri SOS í Suður Súdan. "Það er lítið pláss fyrir fjölskyldurnar í samanburði við þorpið en við erum núna í einum af öruggustu hlutum Juba og fjölskyldurnar hafa fengið föt, lyf og matarbirgðir."

Skipuleggja byggingu á nýju Barnaþorpi
SOS Barnaþorpin eru nú að leita að landi fyrir nýtt Barnaþorp ef ekki verður mögulegt að snúa aftur til þorpsins sem var rýmt í átökunum í júlí síðastliðnum. Gamla Barnaþorpið varð fyrir miklum skemmdum í átökunum og sem stendur er svæðið sem þorpið er á ekki öruggt. Þó er möguleiki að nýta byggingarefni og birgðir úr gamla þorpinu til að byggja nýtt þorp á nýjum stað.


Nesti fyrir alla - matreiðslubók til styrktar neyðaraðstoð UNICEF

Nemendur í Verzlunarskólanum gáfu nýlega út matreiðslubók sem ber heitið "Nesti - fyrir alla" en allur ágóði bókarinnar rennur í neyðaraðstoð UNICEF fyrir börn frá Sýrlandi.

"Nesti - fyrir alla" er matreiðslubók sem státar af fjölbreyttum og ódýrum uppskriftum sem er hvort tveggja auðvelt og fljótlegt að útbúa. Bókin var gefin út í upphafi þessa árs en er í dag uppseld. Enn er þó hægt að nálgast bókina rafrænt með því að leggja inn pöntun á  Facebook-síðu bókarinnar.

Það voru Verzlunarskólanemendurnir Sigríður Karlsdóttir, Þórdís Una Arnarsdóttir, Anna Hlín Sigurðardóttir, Eyleif Ósk Gísladóttir, Ásthildur Margrét Jóhannsdóttir og Íris Emma Gunnarsdóttir sem skrifuðu, hönnuðu og gáfu bókina út.

Fiskur á disk landsmanna! Markmið tilapíufiskeldis í Mósambík með stuðningi Íslands og Noregs

Myndir frá CEPAQ.
- eftir Lilju Dóru Kolbeinsdóttur verkefnastjóra og Önnu Guðrúnu Aradóttur starfsnema í Mósambík
 
Þann 27. september síðastliðinn héldum við í sendiráði Íslands í Maputo í eftirlitsferð til Gaza fylkis, nánar tiltekið til Chokwe héraðs, til að fylgja eftir framvindu framkvæmda og uppbyggingar rannsóknar- og fiskeldisstöðvarinnar, CEPAQ, verkefnis sem Ísland styður ásamt Noregi í fiskimálum í Mósambík. Ferðin var farin með aðilum úr norska sendiráðinu ásamt ráðgjöfum frá CDCF (e. Centre for Development Cooperation in Fisheries), Norges Vel og Norad (e. Norwegian Agency for Development Cooperation) frá Noregi. Rannsóknar- og fiskeldisstöðin er tilbúin til afhendingar svo tilgangur ferðarinnar var að skoða aðstæður og kynnast því hvað verður gert á næstu misserum. Við fengum leiðsögn um ræktunarsvæðið og kíktum inn í sjálfa rannsóknarstöðina, og hlustuðum á kynningu um áætlun ræktunarinnar. Einnig heimsóttum við bónda sem rekur fyrirtækið Papa Pesca, sem upphaflega var ætlað til fiskeldis en eins og stendur er þar kjúklingaræktun, á landsvæði nálægt sem kallast "terra morta" eða dauða jörðin. Það landsvæði er talið hafa mikla möguleika fyrir þróun fiskeldis, en landið er ekki gott sem ræktunarland þar sem jarðvegurinn er saltur. Áætlað er að tilapíuræktunin verði á sex hektara landsvæði.
 
CEPAQ stöðin hefur verið kölluð "climate smart facility" þar sem hún er hönnuð með tilliti til loftslags- og umhverfis-aðstæðna. Upplýsingar frá veðurstofunni í Chokwe voru greindar áður en stöðin var hönnuð og þróuð, og má til dæmis sjá pumpu, stíflu og vara orkugjafa ef ske kynni að rafmagn fari af vegna flóða eða annara áhættuþátta.
 
Upphaf CEPAQ má rekja til ársins 2012 þegar ráðgjafar hjá CDCF voru beðnir um að gera úttekt á yfirstandandi verkefnum skipulögðum undir Áætlun fiskimálaráðuneytisins (e. Fisheries Master Plan). Á þessum tíma voru þrjú rannsóknar- og fiskeldis/þróunar-setur (R&D centres) hluti af Áætluninni, eitt í Marracuene og tvö í Gaza. Rannsóknar- og fiskeldisstöð í Gaza, sú sem núna er CEPAQ, var komin lengst á veg hvað framkvæmd varðar en það vantaði þó ýmislegt upp á. CDCF var því beðið um að aðstoða fiskimálaráðuneytið við að þróa nýtt plan fyrir CEPAQ og skilgreina hlutverk þess í þróun fiskeldis til skamms og lengri tíma litið. Með hliðsjón af úttekt CDCF var ný áætlun gerð fyrir CEPAQ stöðina. Nýja áætlunin lagði til að aðeins verði ræktuð tilapía á ræktunarstöðinni en ekki margar tegundir í einu þar sem mikill skortur var á mannauð, þekkingu og reynslu, auk þess sem að stafaði mikið óöryggi af því að rækta fleiri en eina fiskitegund í sömu stöðinni. Hugsunin var sú að það þarf að byrja að læra að ganga áður en farið væri að hlaupa, það er, að ætla sér ekki of mikið í einu.

Fiskur og næring 
  Ræktun og þróun fiskeldis er eitt af forgangsatriðum fiskimálaráðuneytisins og er samkvæmt mósambískum stjórnvöldum mikilvægur liður í að efla heilbrigði landsmanna þar sem mikil næring fæst með því að leggja sér fisk til munns.
 
Tíu milljón seiði er nóg til að framleiða þrjú til fimm þúsund tonn af tilapíu. Í öðrum orðum er það fimmtán sinnum meira en árleg framleiðsla í öllu landinu er núna. Þannig að framleiðslan sem nú er í bígerð á eftir að hleypa tilapíu framleiðslu af stokkunum á "terra morta" svæðinu í Chokwe.
 
CEPAQ er ætlað að vera "three-in-one"[1] aðstaða sem hefur að minnsta kosti 50 ára líftíma ef það verður almennilegt viðhald á stöðinni. Í grundvallaratriðum er enginn hátæknibúnaður til staðar og flestur tækjabúnaðurinn er keyptur á staðnum með staðbundinni þjónustu og ábyrgu fyrirkomulagi - sem er liður í að þróa samfélagið í kringum stöðina.
 
Tegundirnar af tilapíu sem verða ræktaðar eru Mossambicanus og Niloticus. Ástæðan fyrir því er að sérstök áhersla verður lögð á ræktun Mossambicanus er sú að hún er innfædd (staðbundin) tegund í Mósambík svo ræktunarskilyrðin eru góð, hún hefur mikið salt þol og það er markaður fyrir hana bæði innanlands og í nágrannalöndunum. Mossambicanus finnst villt á tveimur stöðum í Inhambane fylki - í Govuro ánni og Ximite vatni í Vilankulo, í Gaza fylki, í Bilene vatni sem er ekki svo langt frá Chokwe, og svo í Maputo fylki, í Pandejne vatni, Catuane ánni. Eins á svæðum norðan Zambéziu árinnar, en sökum pólitísks ástands í landinu verður byrjað að safna villtum fiski í suðurhluta landsins.
 
Mökunarferlið á Mossambicanus verður í lotum þ.e.a.s. þrjár samsetningar verða í hverri lotu og tíu fjölskyldur í hverri samsetningu. Það eru 50 seiði í hverri fjölskyldu. Seiðin eru valin eftir frammistöðu og út frá DNA og merkinga (e. PIT tags). Reynt er að varast innrækt eða skyldraæxlun. Markmiðið er að fá góðan grunnstofn með erfðafræðilega fjölbreytni og til að fá fram góða og söluvæna vöru/stofn. Ef þörf er á væri einnig hægt að framleiða seiði sem væru síðan dreifð út til gróðrastöðva/fiskræktenda. Slík seiði er auðveldlega hægt að flytja á milli langar vegalengdir í bíl, rútu eða flugvél. Það er aðeins spurning um þjálfun og stjórnun á CEPAQ.
 
Helstu verkefni og deildir innan CEPAQ stöðvarinnar eru; genastyrking (e. genetic enhancement), ræktunarmarkmið (e. breeding objectives), og fiskeldisstöð (e. hatchery) sem krefst starfsfólks allan sólarhringinn til að framleiða kynbreytt hágæða seiði, auk ræktunarstöðvar (e. grow-out area) þar sem verður aðstaða til þjálfunar bænda og prófunar á aðferðum sem og rannsóknaraðstaða fyrir nemendur, flóðavarnir, og lífvarnir (e. biosecurity). Stöðin er hönnuð með það í huga að allar deildir starfa sjálfstætt og það eru háar öryggis lífvarnir svo ekki sé hætta á að smit berist milli deilda.
 
Tæknilega er stöðin einföld þar sem að hún var hönnuð út frá tækni sem hefur sýnt árangur í marga áratugi aðallega í Asíu. Áherslan hefur því verið á að þróa sterkbyggt kerfi sem nýtist í Afríku og sérstaklega fyrir mósambískar aðstæður.
 
Sjálfstæð stofnun? 
Það er einhljóma álit fiskimálaráðuneytisins og samstarfsaðilanna að CEPAQ eigi að vera sjálfstæð stofnun sem sér um eigið starfsfólk og sjái til þess að einhver standi vaktina allan sólarhringinn í fiskeldinu. Aftur á móti samþykkti fjármálaráðuneyti Mósambíkur ekki CEPAQ sem sjálfstæða stofnun og þar af leiðandi hefur starfsemin ekki farið af stað samkvæmt áætlun. Upphaflega var CEPAQ ætlað að framleiða sex milljón seiði árið 2015 og svo 30 milljón árið 2017. Fjármálaráðuneytið hefur verið að taka fiskimálaráðuneytið í gegn sem hefur í för með sér fækkanir á sjálfstæðum stofnunum og fékk CEPAQ að gjalda þess. Núna hefur CEPAQ einhverskonar sjálfræði en það þarf að skila skýrslum og þess háttar til yfirmanna sem þýðir að stjórnunin og ákvarðanir fara í gegnum fleiri stig sem eykur skrifræði og hægir á framleiðsluferlinu. Ákveðið hefur verið að bjóða rekstur CEPAQ út til einkaaðila til að koma seiðaframleiðslunni af stað, en stöðin mun þurfa fjárstuðning næstu fimm til tíu árin ef vel á að takast að þróa tílapíu iðnað í Mósambík.
 
Stefna stjórnvalda er að einbeita sér algjörlega að tilapíu rækt fyrir framtíðina. Unnið er að gerð aðgerðaráætlunar fyrir fiskeldi og að því að gera lagarammann aðlaðandi fyrir fjárfesta úr einkageiranum. Mósambísk stjórnvöld munu þróa "terra morta" svæðið enn frekar þar sem það er talið að um mikla möguleika sé að ræða fyrir þróun fiskeldis fyrir bændur, eða svokallaða "aquaparks". Hlutirnir eru því loksins farnir að þokast í rétta átt eftir þó nokkuð langa biðstöðu sem stafaði meðal annars af endurskipulagningu í fiskimálaráðuneytinu.
 

[1] "Three-in-one" aðstaða þýðir að CEPAQ er "climate smart", "bio-secure", og "robust facility", byggt til að endast í 50 ár.
Hvers vegna hætta úgandskir unglingar námi? 
 
eftir Sigrúnu Björgu Aðalgeirsdóttur starfsnema í Úganda 

Í sendiráðum Íslands í Malaví, Mósambík og Úganda starfa þrír starfsnemar sem líkt og undanfarin ár hafa fallist á beiðni Heimsljóss um pistlaskrif þann tíma sem þeir dvelja í samstarfslöndum Íslendinga.  
 
Fjárskortur, þunganir og blæðingar ástæður brottfalls ungra stúlkna úr skóla. Ljósmynd: gunnisal
Aðeins níu af hverjum hundrað nemendum í Úganda ljúka framhaldsskóla. Hinir flosna úr námi. En hvaða ástæður gefa fyrrum nemendur fyrir brottfallinu? Í lok síðasta mánaðar hélt ég til fjögurra samstarfsskóla í Buikwe héraði. Markmiðið var að ræða við nemendur sem höfðu hætt námi á aldrinum 13 -18 ára, sem telst framhaldsskólaaldur í Úganda. Viðmælendur voru 76 talsins, hver með sína sögu af brotinni skólagöngu.
 
Skólagjöld voru sá þáttur sem nemendur nefndu oftast; ríflega 76 prósent aðspurðra hættu vegna fjárhagserfiðleika. Þar er ekki um eiginleg skólagjöld að ræða - en þau eru ekki til staðar í opinberum skólum í Úganda - heldur ýmsan kostnað á borð við skólabúninga, mat, bækur o.fl. sem flestar fjölskyldur hafa einfaldlega ekki efni á. Eitt af verkefnum sendiráðsins er að lækka þessi skólagjöld í samstarfsskólunum með ýmsum sjálfbærum leiðum og er því von á að þetta breytist á komandi árum.
 
Að skólagjöldum undanskildum er ljóst að það eru fleiri áhrifaþættir á brottfall stúlkna heldur en drengja og eru afleiðingarnar oft meiri fyrir þær. Af þeim 36 drengjum sem ég talaði við höfðu 86 prósent hætt skólagöngu vegna skólagjalda og hafði brottfallið leitt til þess að 8 þeirra eignuðust börn. Af þeim 40 stúlkum sem ég talaði við höfðu 70 prósent þurft að hætta vegna skólagjalda, 6 þurftu að hætta vegna þess að þær urðu ófrískar og 5 hættu vegna annarra gjalda. Helmingur stúlknanna höfðu eignast barn fyrir 18 ára aldur og 9 þeirra voru þegar í hjónabandi.
 
Það sem kom mér mest á óvart voru þessar 5 stúlkur sem sögðust hafa þurft að hætta vegna annarra gjalda. Þegar ég spurði nánar út í hver þau gjöld væru kom í ljós að þau eru kostnaður í tengslum við blæðingar.
 
Talið er að ein af hverjum 10 stúlkum í Afríku sunnan Sahara missi úr eða hætti í skóla vegna blæðinga. Samkvæmt rannsókn sem gerð var á skólastúlkum í Úganda kom í ljós að þær missa að meðaltali af 24 skóladögum á ári, eða um 11 prósent af skólaárinu, vegna blæðinga. Þá kom í ljós í áðurnefndri rannsókn - nokkuð sem ég greindi einnig hjá mínum viðmælendum - að það tíðkaðist að ungar stúlkur skiptu á kynlífi fyrir dömubindi eða giftust til að eiginmaðurinn gæti séð þeim fyrir dömubindum, í sumum tilfellum að frumkvæði foreldra þeirra.
 
Helsta ástæða þess að stúlkurnar missa úr eða hætta í skóla vegna blæðinga er skortur á aðgengi að hreinlætisvörum sem tengjast blæðingum. Í dreifbýlum Úganda er langt að fara í næstu matvörubúð til að kaupa viðeigandi hreinlætisvörur og þar kostar pakki af dömubindum um 150 íslenskar krónur, sem getur hreinlega verið of mikið fyrir bændur sem hafa lítið á milli handanna. Það er því ekki óalgengt að stúlkur bjargi sér með því að nota einhverskonar efnisbúta, sem geta valdið miklum sýkingum. Þar að auki er efnisbúturinn ekki alltaf nóg til að koma stúlkunum í gegnum daginn og búa þær því við þann stöðuga ótta að blóðblettur myndist í fötunum þeirra í skólanum með tilheyrandi niðurlægingu vegna þess hversu mikið tabú blæðingarnar eru.
 
Önnur ástæða þess að stúlkurnar geta ekki mætt í skólann á meðan blæðingum stendur er skortur á salernisaðstæðum til að þvo sér almennilega, skipta um dömubindi eða skola efnisbútinn sem er notaður. Þetta er eitthvað sem sendiráðið hefur verið að vinna að með því að láta reisa kynjaskipt salerni, útbúin rými fyrir stúlkur til að sinna þessum þörfum. Nú þegar er búið að reisa nokkur slík rými og fleiri á teikniborðinu.
 
Það er því ljóst að áhugaleysi er ekki eingöngu um að kenna þegar kemur að fámennum útskriftarárgöngum í Buikwe héraði. Sendiráð Íslands hefur þannig einbeitt sér að áhrifaþáttum á borð við skólagjöld og bættri salernisaðstöðu til þess að jafna tækifæri barna og unglinga í héraðinu til menntunar.
 
Eyðing skóga í Malaví

- eftir Ásu Maríu H. Guðmundsdóttur starfsnema í Malaví


Í sendiráðum Íslands í Malaví, Mósambík og Úganda starfa þrír starfsnemar sem líkt og undanfarin ár hafa fallist á beiðni Heimsljóss um pistlaskrif þann tíma sem þeir dvelja í samstarfslöndum Íslendinga. 

Síðustu viku eyddi ég í Mangochi, samstarfshéraði Íslands í Malaví. Tilgangur heimsóknarinnar var að hitta sviðsstjóra þeirra sviða sem samvinnuverkefnin okkar snúa að og ræða við þá um stöðu mála. Þó nokkur vegalengd er á milli höfuðborgarinnar Lilongwe og Mangochi, aksturinn tekur um þrjár klukkustundir en á þeirri keyrslu gefst manni tækifæri á að sjá mikið af hinu fjölbreytta og fallega landslagi Malaví. Allt frá kröppum beygjum upp og niður brött fjöll til beinna og að því er stundum virðist óendanlegra vegakafla á víðum sléttum - margt grípur augað og manni þarf ekki að leiðast ferðalagið. Það er þó þannig, því miður, að náttúran lætur alvarlega á sjá vegna mikillar skógaeyðingar í landinu.
 
Eyðing skóga er alvarlegt vandamál, ekki bara í Malaví heldur í heiminum öllum. Tréin eru okkur lífsnauðsynleg, ekki einungis framleiða þau súrefnið okkar heldur geta þau hjálpað til við að milda loftslagsbreytingar með því að draga í sig og geyma koltvíoxíð sem annars færi út í andrúmsloftið. Tré gegna einnig því hlutverki að binda jarðveginn þannig að minni hætta er á t.d. flóðum og aurskriðum. Ekki má gleyma því heldur að skógar og tréin sjálf eru heimili og "vinnustaðir" óteljandi dýrategunda og eru þau því mikilvæg fyrir afkomu fjölbreyttrar flóru dýraríkisins. Því meira sem tré eru höggvin til að nýta sem eldsneyti eða til að rýma fyrir landbúnaði t.d., því meiri áhrif hefur það á framtíð jarðarinnar okkar og framtíð þeirra sem hana byggja.
 
Skógaeyðing er mikil í Malaví og nokkuð hröð. Viður og viðarkol eru afar mikið notuð, t.d. við eldamennsku en stór hluti heimila í Malaví notar enn hefðbundna eldunaraðstöðu búna til úr steinum yfir eldi. Viðurinn og kolin eru einnig notuð til að brenna múrsteina sem eru aðal byggingarefnið í Malaví. Tréin eru svo höggvin og brennd til að búa til land fyrir ræktun og það skilur jarðveginn eftir viðkvæman og næringarlausan. Öll þessi eyðing hefur orðið til þess að landið er nú enn viðkvæmara, t.d. fyrir áhrifum loftslagsbreytinga. Í byrjun árs 2015 urðu svakaleg flóð í suðurhéruðum landsins og hluti af ástæðunni fyrir því að þau urðu jafn alvarleg og raun bar vitni var að rótarlaus jarðvegurinn var óbundinn og viðkvæmur fyrir þungri rigningunni.
 
Malavar eru háðir trjánum á svo margan hátt en lítið er um áætlanir til að koma í veg fyrir eyðingu skóga né til að efla skógrækt. Sala á viðarkolum er bönnuð í Malaví og hefur verið síðan landið öðlaðist sjálfstæði en því banni er lítið fylgt eftir og eitt af því sem algengt er að sjá á ferðalaginu milli Lilongwe og Mangochi er fólk í vegaköntum að selja kol. Kolasalan, þrátt fyrir að vera bönnuð, er stór iðnaður og sér mörgum heimilum fyrir lífsnauðsynlegri innkomu.
 
Þetta er risavaxið vandamál og á sér margar víddir sem mikilvægt er að taka tillit til þegar lausna er leitað. Hröð fólksfjölgun og hraðar breytingar á loftslaginu gera vandamálið enn meira aðkallandi og erfitt er að sjá fyrir hvað verður ef ekki verður á þessu tekið.
 
facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105