Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
10. árg. 314. tbl.
8. febrúar 2017
Marshall aðstoð með Afríku:
Evrópusambandssríki boða upphaf að nýju samstarfi við Afríkuþjóðir

Aðildarríki Evrópusambandsins vilja endurskilgreina grundvöll samvinnu Evrópuþjóðanna við Afríkuríki með nýjum samstarfssamningi sem kynntur var á dögunum og kallast Marshall aðstoð með Afríku. "Núna er tíminn til að finna nýjar lausnir með nýjum áskorunum," segir í inngangi að viðamikilli skýrslu sem þýska þróunarsamvinnustofnunin, BMZ, gefur út og ber yfirskriftina: Afríka og Evrópa - nýtt samstarf um þróun og frið.
 
Í inngangi skýrslunnar er fjallað um hugmyndafræðina að baki nýja samstarfinu og minnt á að álfurnar tvær séu nágrannar, bundnar sameiginlegri sögu og íbúar beggja álfanna séu ábyrgir fyrir því að ákvarða hvernig sameiginleg framtíð er mótuð. "Hvernig okkur tekst til með helstu áskoranir sem framundan eru mun ekki aðeins marka framtíð og örlög Afríku - íbúa og umhverfi - heldur einnig framtíð Evrópu. Og þessar áskoranir má leysa með árangri - og með því að færa samstarf okkar upp í nýjar víddir sem gagnast báðum heimsálfunum."
 
Fram kemur að bæði Þýskaland og Evrópusambandið beina kastljósinu að Afríku á þessu ári. Þjóðverjar setji álfuna í forgang á þessu ári þegar þeir gegna formennsku í G20 ríkjahópnum. Og Evrópusambandið vinni að nýrri Afríkustefnu.
 
"Það er engin ein lausn, engin ein áætlun, engin besta leið til að bregðast við þeim áskorunum sem Afríka stendur frammi fyrir. Þessar aðstæður eru að sjálfsögðu ekki alveg sambærilegar við þær áskoranir sem við blöstu í Evrópu eftir síðari heimsstyrjöldina. En þær eiga það sameiginlegt að kalla á sameiginlegt átak," segir í skýrslunni.
 
Þá segir að með þessari Marshall aðstoð sé einnig látinn í ljós vilji og bjartsýni um að finna leið til friðar og þróunar í samvinnu Evrópu og Afríku. Aðstoðin verði að vera heildstæð og samþætt stefnu Evrópusambandsins og aðildarríkja þess og ríkja Afríkusambandsins. Áhersla verði lögð á heiðarleg viðskipti, meiri fjárfestingu einkafyrirtækja, meiri efnahagsþróun frá grasrótinni og upp samfélagsstigann, meiri frumkvöðlastarfsemi og umfram allt annað fleiri störf.
 
"Eignarhald Afríku þarf að styrkja og dagar "þróunaraðstoðar" og "veitenda og viðtakenda" eru að baki. Evrópusambandið og aðildarríki þess vilja taka þátt í þessu samstarfi á jafningjagrunni. Það merkir að ná nýju samkomulagi um pólítíska, efnahagslega, félagslega og menningarlega samvinnu. Upphafsreiturinn markast af þróunaráætlun Afríku: African Union´s Agenda 2063.

Hans Rosling látinn

Hinn heimskunni læknir og fyrirlesari, Hans Rosling, lést í gærmorgun af völdum krabbameins, 68 ára að aldri. Hans varð heimsþekktur fyrir sjónræna framsetningu tölfræðigagna um þróun heimsins.


Margir Íslendingar minnast hans frá haustdögum 2014 þegar hann fyllti Eldborgarsal Hörpu og flutti erindi um heimsmynd byggða á staðreyndum. Rosling var afburða fyrirlesari en hann gerði  einnig allmarga sjónvarpsþætti og stofnaði fyrirtækið Gapminder með syni sínum og tengdadóttur. 

Margir hafa síðasta sólarhringinn minnst þessa mikla frumkvöðuls og mannvinar. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri skrifaði til dæmis á Facebook í gær:
 
"Sorglegt að lesa að sá mæti læknir, mannvinur og málsvari réttlætis í heiminum, Hans Rosling, hafi látist í morgun. Öllum sem hittu hann var ljós snilld hans í að setja flóknar en mikilvægar upplýsingar og samhengi heimsmálanna við lýðheilsu og heilbrigði fram á hátt þannig að allir skildu. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að bjóða honum í hádegismat þegar hann heimsótti borgina 2014. Hann var ekki síður eftirminnilegur í mínum huga fyrir þá ríku réttlætiskennd og mannúðlegu sýn sem nánast var áþreifanlegt að dreif hann áfram og maður fann að bjó að baki lífsstarfi hans. Blessuð sé minning Hans Rosling!"

Myndirnar eru teknar í Íslandsheimsókninni fyrir tveimur og hálfu ári, á efri myndinni eru Rosling hjónin, Agneta og Hans, ásamt Geir
Gunnlaugssyni þáverandi landlækni og Jónínu Einarsdóttur prófessor. Ljósmyndir: gunnisal

Fyrirlesturinn í Hörpu má sjá í heild sinni hér til hliðar.


Malí horfið úr fréttum:
Neyðarsjóður Sameinuðu þjóðanna kemur bágstöddum til bjargar
 
Á nýjum lista breska utanríkisráðuneytisins er Malí í níunda sæti yfir hættulegustu lönd heimsins. Í umsögn segir að þar sé gríðarleg hryðjuverkaógn og hætta á mannránum, einkum í norðurhluta landsins, þótt ógnin sé raunar hvarvetna í landinu. Malí er eitt af þeim "gleymdu" átakasvæðum heims sem Neyðarsjóður Sameinuðu þjóðanna (CERF) ætlar að veita mannúðaraðstoð á þessu ári.

Nýleg frétt um sprengju í Gao sem varð sextíu manns að aldurtila/ CGTN
Samkvæmt áætlun sjóðsins fara 7 milljónir bandarískra dala - rúmlega 800 milljónir íslenskra króna -  til nauðstaddra í Malí en þeir búa einkum í mið- og norðanverðu landinu. Talið er að 3,7 milljónir manna þurfi á mannúðaraðstoð að halda á þessu ári. Af rúmlega 3,5 milljónum sem þurfa matvælaaðstoð eru tæplega hálf milljón manna við hungurmörk. Þá er 442 þúsund börn yngri en fimm ára alvarlega vannærð, að mati CERF.

Stuðningur CERF mun einkum beinast að því að mæta þörfum 40 þúsund nauðstaddra íbúa á svæðum þar sem átök og ofbeldi eru daglegt brauð. Ætlunin er að ná til samfélaga þar sem matvælaóöryggi er mikið, vannæring algeng og þar sem fólk fær ekki grunnþjónustu, skjól og vernd. Sérstaklega munu bágstaddir í Timbuktu, Gao, Ménaka, Kidal, Mopti og Ségou njóta aðstoðarinnar.

Starfsmenn hjálparsamtaka eru fráleitt óhultir á þessum slóðum. Vopnaðar vígasveitir hafa bæði stolið bílum og búnaði en einnig ráðist gegn fólki. Í byrjun árs var starfsmaður hjálparsamtaka drepinn af í Gao og vígasveitir AQIM tóku hjálparstarfsmann í gíslingu í Gao á aðfangadag jóla sem er enn í haldi mannræningjanna. Ljóst er að hryðjuverkaógn og ofbeldisverk hamla hjálparstarfi á þessum slóðum, sérstaklega í Sikasso héraði.

Eins og margir muna náðist friðarsamkomulag milli stríðandi fylkinga sumarið 2015 en þá hafði borgarastríð staðið yfir á þriðja ár með mannskæðum átökum í Malí. Upphafið má rekja til sjálfstæðisbaráttu Tuareg fólksins í héraði sem það kallar Azawad og nær meðal annars til Kidal, Gao og Timbuktu.
 
Friðarsamkomulagið heldur tæpast nema að nafninu til og ofbeldisverk eru algeng. Þannig féllu á tveimur mánuðum síðastliðið sumar rúmlega 70 manns í ýmsum átökum og árásum í norðanverðu landinu.

Ofbeldisverkin í Malí ná hins vegar sjaldnast inn í fréttir fjölmiðla og þess vegna er Malí á listanum hjá Neyðarsjóði Sameinuðu þjóðanna (CERF)  og fær hluta af þeim 100 milljónum dala sem sérstaklega eru ætlaðir "gleymdum" átakasvæðum á þessu ári.


Þjóðhöfðingjar á leiðtogafundi Afríkusambandsins í Addis Ababa í Eþíópíu skrifuðu á dögunum undir sögulega skuldbindingu um bólusetningar fyrir alla íbúa álfunnar, óháð kynþætti eða búsetu. Samkomulagið er kennt við fundastaðinn og kallast "Addis yfirlýsingin."
 
Í frétt frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) segir að þótt mikill árangur hafi náðst hvað varðar aðgengi að bólusetningum í Afríku á síðustu fimmtán árum sé nú svo komið að stöðnun blasi við og hætta sé á því að markmið fyrir álfuna náist ekki. Nefnt er sem dæmi að eitt barn af hverjum fimm fái ekki lífsnauðsynlegar bólusetningar. Af því leiði að mörg dauðsföll megi rekja til þess að fólk fær banvæna sjúkdóma þar sem bólusetningar myndu bjarga lífi. Mislingar eru dæmi um slíkan sjúkdóm en afstýra mætti 61 þúsund dauðsföllum með bólusetningum á ári hverju, segir í frétt WHO.
 
Með Addisar-yfirlýsingunni eru þjóðir Afríku hvattar til að auka ónæmisaðgerðir heima fyrir, bæði með pólítískum áherslum og fjármagni. Tíu skuldbindingar er að finna í yfirlýsingunni, meðal annars um fjármögnun aðgerða til að fjölga bólusetningum, styrkingu verkferla hvað varðar framboð og dreifingu, og mikilvægi þess að setja aðgang að bóluefni í öndvegi á sviði lýðheilsu og þróunar.
Flestar fóstureyðingar meðal þjóða sem banna fóstureyðingar

Ný rannsókn sýnir að meðal þjóða sem viðhafa bann og refsingar við fóstureyðingum eru fóstureyðingar fleiri en meðal þjóða sem leyfa og styðja slíkar aðgerðir.

Læknaritið The Lancet birti ekki alls fyrir löngu grein sem sýndi að fóstureyðingum hefur fækkað stórlega í þróuðum ríkjum þar sem slíkar aðgerðir eru heimilaðar. Hins vegar eru fóstureyðingar áfram gerðar í svipuðum mæli og áður í þróunarríkjum þar sem viðurlög eru við aðgerðunum og þær oft framkvæmdar ólöglega við hættulegar aðstæður.

"Margt bendir til þess að aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu og nútíma getnaðarvörnum séu mikilvægustu þættirnir til að draga úr fóstureyðingum," segir Gilda Sedgh í viðtali við SciDev fréttaveituna en hún leiddi rannsóknarteymi Gutthacher stofnunarinnar sem vann rannsóknina. "Okkur sýnist að í þróunarríkjunum sé ófullnægjandi þjónusta varðandi fjölskylduáætlanir miðað við vaxandi löngun fyrir færri börn í fjölskyldu. Rúmlega 80% af óviljandi þungunum gerast hjá konum sem myndu vilja getnaðarvarnir en hafa ekki kost á þeim. Margar þessara óæskilegu þungana leiða til fóstureyðinga," segir hún.

Rannsóknin leiddi í ljós að í fátækum ríkjum þar sem litið er á fóstureyðingar sem glæp eru um 37 konur af hverjum 1000 sem fara í fóstureyðingu á ári hverju. Þetta hlutfall hefur verið nánast óbreytt frá árinu 1990.
 
Í Evrópu og Bandaríkjunum hefur hins vegar þróunin verið sú að fóstureyðingar eru orðnar hluti af almennri heilbrigðisþjónustu og þar hefur fóstureyðingum fækkað verulega frá árinu 1990. Þá fóru að meðaltali 35 konur af hverjum 1000 í fóstureyðingu á ári en árið 2014 var hlutfallið komið niður í 25 konur.
 
"Augljós túlkun þessara niðurstaða er sú að refsiverðar fóstureyðingar koma ekki íveg fyrir slíkar aðgerðir heldur reka konur af stað í leit að ólöglegri þjónustu," segir Diana Greene Foster sem starfar að heilsurannsóknum við Kaliforníuháskóla í frétt SciDev.
Ert þú á listanum?
Opið fyrir umsóknir á viðbragðslista Friðargæslunnar
Opið er fyrir umsóknir á viðbragðslista Íslensku friðargæslunnar allan febrúarmánuð. Opið er fyrir umsóknir á listann tvisvar á ári, í febrúar og september. Athygli er vakin á því að þeir sem samþykktir eru á viðbragðslistann þurfa að staðfesta áframhaldandi skráningu árlega. Að öðrum kosti fellur skráningin úr gildi.

Í gegnum Mínar síður hafa umsækjendur aðgang að eigin skráningu og geta uppfært hana eftir hentugleika. Þeir sem hafa búið til aðgang eru hvattir til að endurskoða reglulega og uppfæra skráðar upplýsingar eftir því sem við á. 

Íslenska friðargæslan er hluti af þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins sem annast alþjóðlegt samstarf og þátttöku Íslands í störfum í þágu friðar og mannúðaraðstoðar. Íslenska friðargæslan heldur utan um lista sérfræðinga á ýmsum sviðum sem hafa sótt um og verið valdir á viðbragðslista friðargæslunnar.  Íslenska friðargæslan velur fólk til þátttöku í verkefnum og hefur umsjón með undirbúningi þeirra og þjálfun. 
Útsendir sérfræðingar sem starfa á vegum Íslensku friðargæslunnar eru borgaralegir sérfræðingar á ýmsum sviðum. Þeir eru valdir í krafti  reynslu af störfum erlendis, sérstakrar hæfni  eða  þekkingar sem nýtist í starfi á vettvangi. Ekki er um fjölskyldustöður að ræða, þ.e. engar greiðslur fylgja vegna fjölskyldu þess sem ráðinn er. 

33 milljónir kvenna skornar:
Alþjóðadagur gegn limlestingum á kynfærum kvenna

Síðastliðinn mánudag var alþjóðlegur dagur gegn limlestingu á kynfærum stúlkna (FGM - Female Genital Mutulation). Rúmlega 130 milljónir stúlkna og kvenna eru á lífi í dag sem hafa orðið fyrir slíkri limlestingu. Þessi útbreidda og hræðilega aðgerð er algengust í 29 ríkjum Afríku og Miðausturlanda og felur í sér skýlaust mannréttindabrot á stúlkum. Þær eru flestar skornar fyrir fimm ára aldur.

Að óbreyttu bætast 86 milljónir stúlkna við þennan hóp fyrir árið 2030 samkvæmt útreikningum Sameinuðu þjóðanna. "Limlestingar á kynfærum kvenna og stúlkna ræna þær virðingu, valda óþarfa sársauka og þjáningu með óbætanlegum og jafnvel banvænum afleiðingum fyrir lífstíð," sagði Antóníó Guterres í yfirlýsingu í tilefni dagsins.

Samkvæmt einu af undirmarkmiðum fimmta Heimsmarkmiðsins á að afnema fyrir árið 2030 alla skaðlega siði, eins og barnahjónabönd, snemmbúin og þvinguð hjónabönd og sköddun kynfæra kvenna.

Fyrirlestur um Heimsmarkmiðin og kynjajafnrétti

Keiko Nowacka heldur annan fyrirlestur vormisseris í fyrirlestraröð RIKK og Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna fimmtudaginn 9. febrúar, í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, kl. 12-13. Fyrirlestur hennar nefnist: Að ná heimsmarkmiðum SÞ um kynja-jafnrétti: Starf þróunarsamvinnu-nefndar Efnahags og framfara-stofnunarinnar (OECD) að félags-legum viðmiðum, kynjatölfræði og umbreytandi stefnumótun.
 
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem öll aðildarríki eiga að vinna að til ársins 2030 gefa góð fyrirheit um að hægt sé að ná fram jafnrétti kynjanna.

Heimsmarkmiðin eru sautján, með 169 undirmarkmiðum og gilda fyrir öll 193 aðildarríki SÞ Þau marka mikil tímamót þar sem ríki heims hafa ekki fyrr sett sér svo víðtæk, sameiginleg markmið. Fimmta heimsmarkmiðið snýr að því að tryggja jafnrétti kynjanna og valdeflingu allra kvenna og stúlkna, og hafa mælikvarðar verið settir sem taka tillit til þeirra kerfisbundnu hindrana í lífi stúlkna og kvenna sem varða jafnrétti, tækifæri og velferð þeirra. Mikilvægar umbætur má sjá í heimsmarkmiðunum frá þúsaldarmarkmiðunum sem unnið var að fram til 2015 en heimsmarkmiðin fela í sér viðurkenningu á að félagsleg  viðmið og aðstæður séu mikilvægir áhrifavaldar fyrir réttindi og velferð stúlkna og kvenna.

Undirmarkmið heimsmarkmiðs númer fimm er varða ólaunuð umönnunarstörf, skaðlega siði og snemmbær hjónabönd eru dæmi um samþættingu félagslegra viðmiða inn í þróunarrammann. Mælingar og eftirlit með þeim breytingum sem verða á tímabilinu eru lykilatriði til að ná slíkum félagslegum viðmiðum.

Keiko Nowacka hefur frá árinu 2013 starfað fyrir þróunarsamvinnunefnd Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) og stýrir nú því starfi sem snýr að málefnum kynjajafnréttis, þar á meðal  Social Institutions and Gender Index (SIGI) og  Wikigender . Áður en hún hóf störf hjá OECD var hún ábyrg fyrir kynjasamþættingu á menningarsviði Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) og ritstýrði einnig fyrstu skýrslunni um kynjajafnrétti og menningu (Global Report on Gender Equality and Culture) sem kom út árið 2014. Hún hefur einnig starfað hjá frjálsum félagasamtökum í sunnanverðri Afríku sem vinna að menntun stúlkna. Nowacka lauk doktorsprófi frá Cambridge-háskóla og er ástralskur ríkisborgari.

Fyrirlesturinn, sem haldinn er á ensku, er öllum opinn.

Hádegisfyrirlestraröð RIKK og Jafnréttisskólans á vormisseri 2017 er haldin  í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.

UNICEF segir milljónir barna í lífshættu vegna vannæringar

Milljónir barna á átakasvæðum - eða á öðrum svæðum þar sem kreppuástand ríkir - eru í alvarlegri hættu að deyja af vannæringu fái þau ekki lífsnauðsynlega læknisaðstoð, segir í  tilkynningu frá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF). Samtökin birtu á dögunum ákall um 3,3 milljarða dala fjármögnun - sem svarar til 380 milljarða íslenskra króna - vegna lífsnauðsynlegrar aðstoðar við 81 milljón manna í 41 þjóðríki. Af þessum fjölda er meirihlutinn börn en um er að ræða neyðarsvæði ýmist vegna stríðsátaka eða náttúruhamfara.
 
Af þessum fjármunum er ætlunin að 160 milljarðar ísl. króna fari til 17 milljóna flóttamanna frá Sýrlandi sem hafast við í fimm nágrannaríkjum: Tyrklandi, Jórdaníu, Líbanon, Írak og Egyptalandi.
 
Í ákalli beina fulltrúar UNICEF athyglinni sérstaklega að "þögulli ógn" vannæringar. Að mati samtakanna eru 7,5 milljónir barna í bráðahættu vegna vannæringar í 48 löndum þar sem neyð ríkir. Ástandið er verst í Nígeríu, Jemen, Suður-Súdan og Sómalíu.
 
Í tilkynningu UNICEF segir að hartnær fjórða hvert barn í heiminum búi við átök, þ.e. í löndum eins og Sýrlandi, Jemen, Írak, Suður-Súdan og Nígeríu. Í öllum þessum löndum séu börn í stöðugri hættu á að árásir séu gerðar á heimili þeirra, skóla eða samfélög.


Áhugavert

-
-
-
-
-
-
-
-
Why people are moving to the city/ Norræna Afríkustofnunin
Why people are moving to the city/ Norræna Afríkustofnunin
-
CrisisWatch - Tracking Conflict Worldwide
-
Women refugees and migrants/ UNWomen
-
FUTURE DEVELOPMENT: How to end poverty? Give the poor cash and access to mobile money and text them reminders to save and take their meds-not, eftir Indermit Gill/ Brookings
-
The Wrong Way to Stop Terrorism, eftir Claire L. Adida/ FA
-
"The History of Supporting Development is a History of Learning" - Podcast with New CGD President Masood Ahmed/ CGDev
-
How can the poorest increase the influence of their climate diplomacy?, eftir Brianna Craft/ IIED
-
Made in Africa - the future of production on the continent/ WEF
-
Africa to speak in one voice on key issues to boost women's economic empowerment at CSW61/ UNWomen
-
Rekindling interest in effectiveness, eftir Peter Lanzet/ D+C
-
Tech folk: 'Move fast and break things' doesn't work when lives are at stake/ TheGuardian

Alþjóðlegt öndvegissetur um loftslagsmál rís í Hollandi

Hollensk stjórnvöld greindu frá því á mánudag að þau myndu í samstarfi við japönsku ríkisstjórnina og Umhverfissstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) setja á laggirnar alþjóðlegt öndvegissetur. Tilangurinn er að styðja við bakið á þjóðum, stofnunum og öðrum í viðleitni við að bregðast við hlýnun jarðar sem í auknum mæli leiðir til náttúruhamfara.
 
Öndvegissetrið - The Global Centre of Excellence on Climate Adaptation - verður miðstöð alþjóðlegra samstarfsaðila, fræðastofnana, borgarasamtaka og fjármögnunarfyrirtækja. 


Gísli Pálsson fallinn frá

Gísli Pálsson, einn reyndasti starfmaður íslenskrar þróunarsamvinnu, lést í síðustu viku eftir erfið veikindi, rétt liðlega fimmtugur að aldri. Gísli starfaði á sviði íslenskrar þróunarsamvinnu bæði erlendis og á Íslandi í 22 ár. Þar af starfaði hann í 18 ár á vettvangi í þróunarríkjum, lengst af sem umdæmissstjóri Þróunarsamvinnustofnunar.
 
Á ferlinum starfaði hann á Grænhöfðaeyjum, í Mósambík, Namibíu, Níkaragva og Úganda. Lengst af vann hann fyrir  Þróunarsamvinnustofnun Íslands en síðasta starfsárið hjá utanríkisráðuneytinu, í kjölfar skipulagsbreytinga í þróunarsamvinnu.
 
Útför Gísla fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík á morgun, fimmtudag, og hefst klukkan 15:00.


DfID tries to justify its existence/ Economist
-
Signs of peace in former Boko Haram hotspot/ BBC
-
Blocked by Trump, unwanted by Kenya, Somali refugees face new crisis as famine looms/ IRIN
-
Malawi Farmers Apply New Methods to Increase Yield/ VOA
-
World must implement pledges on women's empowerment and rights - UN Women deputy chief/ UN
-
Warning of dire food shortages in Horn of Africa, UN agriculture agency calls for urgent action/ UN
-

Febrúarhefti D+C
-
Fueled by Bribes, Somalia´s Election Seen as a Milestone of Corruption/ NYT
-
Expressing concern about planned Israeli settlements, UN urges return to negotiations/ UN
-
Closure of conflict camps tests CAR reconciliation/ IRIN
-
Clean cookstoves may reduce high blood pressure risk in pregnant women/ CleanCookstoves
-
Burundi: Measures being used to 'criminalize' work of human rights defenders, warn UN experts/ UNNewsCentre
-
Lake Chad: 'Countries need to recognize the gravity of the crisis'/ DW
-
Malawi: Tanzania Owns Part of Lake Malawi, Minister Says After Meeting President Mutharika/ AllAfrica
-
How much worse are African droughts because of man-made climate change?/ IRIN
-
EU strategy stems migrant flow from Niger, but at what cost/ IRIN
-
Viet Thanh Nguyen on being a refugee, an American - and a human being, eftir Viet Thanh Nguyen/ FT
-
Afríkukeppnin í Gabon - Spilling, mannréttindabrot og fótbolti/ Kjarninn
-
One of Africa's longest-serving dictators steps down voluntarily/ NewsOftheEU
-
If we fail in Africa, we will fail in the world, António Guterres tells UN staff/ AfricaRenewal
-
Fighting Boko Haram leaves far eastern Niger in a state of humanitarian emergency/ Oxfam
-
Saudi Arabia celebrates first ever Women's Day to fight for gender equality/ FT
-
How Trump's policies could hurt African mining/ HowWeMadeItInAfrica
-
Tørnæs samler europæisk alliance for kvinders rettigheder/ GlobalNyt
-
Cameroon Beats Egypt To Lift #AFCON2017 Title/ AllAfrica
-
Somali lawmakers poised to elect new president/ DW
-
"EXCEPT GOD, WE HAVE NO ONE": LACK OF DURABLE SOLUTIONS FOR NON-SYRIAN REFUGEES IN TURKEY/ RefugeesInternational

Heimsmarkmiðin og umbætur á kerfi Sameinuðu þjóðanna rædd á fundi NORDIC+

Fundur ráðuneytisstjóra Nordic Plus ríkjanna fór fram í London dagana 6. og 7. febrúar. Nordic Plus hópurinn samanstendur af átta líkt þenkjandi ríkjum á sviði þróunarsamvinnu, Norðurlöndunum, ásamt Bretlandi, Írlandi og Hollandi.  

María Erla Marelsdóttir, skrifstofustjóri á þróunarsamvinnuskrifsstofu var staðgengill ráðuneytisstjóra í London og tók þátt í fundinum fyrir Íslands hönd. Umræður á fundinum fóru um víðan völl þar sem snert var á hinum ýmsu málefnum líðandi stundar á sviði þróunarsamvinnu og farið yfir helstu áskoranir og tækifæri sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir. 

Fulltrúar ríkjanna sögðu frá helstu áherslum sinna ríkja á sviði þróunarsamvinnu og deildu reynslu hvert með öðru. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna voru áberandi í allri umræðu og umbætur á kerfi Sameinuðu þjóðanna skipuðu stóran sess í dagsskrá fundarins. Þá voru umræður um það helsta á sviði jafnréttis- og lofslagsmála og rætt var um hlutverk og mikilvægi einkageirans í þróunarsamvinnu.
  
"UN Delivering As One"
 
eftir Ragnhildi Ernu Arnórsdóttur sérfræðing á þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins
 
Hugmyndin að UN Delivering As One eða One UN, eins og það er einnig kallað, varð til árið 2006 í kjölfar pallborðsumræðna nefndar hátt settra embættismanna um aukið samræmi innan Sameinuðu þjóða kerfisins. Pallborðsumræðurnar voru að frumkvæði aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna á  þeim tíma, Kofi Annan, í samræmi við niðurstöður lokaskýrslu leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna árið 2005. Í skýrslunni ályktaði Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna um mikilvægi kerfislægra breytinga og aukinnar samhæfingar til að styrkja hæfni Sameinuðu þjóðanna til að bregðast við áskorunum 21. aldarinnar.

Niðurstöðurnar sýndu að þörf var á heildrænni stjórnun á sviði þróunar, mannúðaraðstoðar og umhverfismála og var ráðlagt að Sameinuðu þjóðirnar ættu að vinna sem ein heild í hverju landi, með einn leiðtoga, eina áætlun, eina fjárhagsáætlun og eina skrifstofu. Átta lönd lýstu yfir áhuga á að prófa verkefnið: Albanía, Grænhöfðaeyjar, Mósambík, Pakistan, Rúanda, Tansanía, Úrúgvæ og Víetnam og lauk tilraunaferlinu árið 2012 með óháðri úttekt á verkefninu.

Löndin átta samþykktu að vinna með Sameinuðu þjóðunum að því að færa í nyt styrkleika og hlutfallslega yfirburði einstakra Sameinuðu þjóða stofnana og í sameiningu var reynt að komast að því hvernig auka mætti áhrif stofnana og minnka kostnað með því að auka samhæfingu.
Niðurstöðurnar sýndu fram á góðan árangur, hagkvæmni og góða aðlögun í ólíkum löndum og safnaðist dýrmæt reynsla og lærdómur í hverju landi. UN Delivering as One var í kjölfarið viðkennt af aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna sem vel ígrunduð nálgun og árangursríkt viðskiptamódel.

Í kjölfar úttektarinnar árið 2012 voru þróaðar staðlaðar verklagsreglur (e.Standard Operative Procedures) byggðar á reynslu landanna átta sem eiga að aðstoða önnur lönd við innleiðinguna á UN Delivering As One. Í verklagsreglunum má meðal annars finna ráðleggingar um sameiginlegan útgjaldaramma stofnana Sameinuðu þjóðanna á landsgrundvelli, m.a. til að auka gagnsæi, yfirsýn og kostnaðarhagkvæmni.

UN Delivering as One
UN Delivering as One
Stofnanir Sameinuðu þjóðanna sem starfa á sviði þróunarsamvinnu eru margar og sérhæfðar og hver og ein samanstendur af einstakri samsetningu hæfileika, sérhæfingar og samstarfsaðila. One UN leitast við að samræma störf ólíkra stofnana SÞ og straumlínulaga verkferla til að koma í veg fyrir tvíverknað og hámarka afköst mannauðs og fjármagns í þeim tilgangi að hámarka heildarárangur á sviði þróunar.
Lykillinn að góðum árangri er náið samstarf Sameinuðu þjóðanna við stjórnvöld og aðra innlenda aðila og sterkt eignarhald stjórnvalda í markmiðasetningu er einnig mjög mikilvægt.

Sameiningarhlutverk Sameinuðu þjóðanna í UN Delivering As One nálguninni auðveldar aðgengi allra viðeigandi hagsmunaaðila að samstarfinu og eykur samhæfingu milli hefðbundinna stofnana Sameinuðu þjóðanna, sérhæfðari stofnana, borgarasamtaka og stofnana Sameinuðu þjóðanna sem starfa í löndunum. Með því að sameina sérþekkingu stofnananna og setja á laggirnar sameiginlega aðgerðaráætlun þar sem stjórnvöld og sveitarfélög, borgarasamtök, samfélög og einkageirinn vinna öll saman að sameiginlegu markmiði og tala einni röddu eru lönd betur undir það búin að takast á við margþætt og flókin forgangsverkefni. Það hefur sýnt sig að leiðtogahæfileikar og reynsla stjórnanda samræmingasskrifstofu hvers lands geta skipt sköpum þegar kemur að árangi One UN þar sem um er að ræða samhæfingu marga ólíkra aðila með mismunandi markmið og áherslur.  

Í dag er UN Delivering as One orðinn mikilvægur partur af umbótaferli Sameinuðu þjóðanna, sérstaklega á sviði þróunarsamvinnu, sem eykur gagnsæi og fyrirsjáanleika í kerfinu. Framkvæmd hinna metnaðarfullu Heimsmarkmiða krefst sameiginlegs og þverfaglegs átaks fjölda aðila og er One UN nálgunin því mjög viðeigandi í því samhengi.

Fjölmörg lönd hafa bæst í hóp One UN landa, í september 2016 höfðu 55 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna óskað opinberlega eftir því að Sameinuðu þjóðirnar innleiði UN Delivering As One nálgunina í sínu landi og enn fleiri lönd hafa innleitt aðferðafræði One UN að einhverju leyti. Langstærstur hluti One UN landa halda því fram að nálgunin hjálpi Sameinuðu þjóðunum við að skilgreina betur forgangsröðun og þarfir landanna á sviði þróunar og mörg lönd hafa einnig lýst því yfir að nálgunin auðveldi samskipti og samvinnu stjórnvalda við Sameinuðu þjóðirnar. Reynslan sýnir að þó að enn séu einhverjir flöskuhálsar til staðar og enn sé verið að læra af reynslu nálgunarinnar, sé One UN vel til þess fallið að auka heildaráhrif Sameinuðu þjóðanna á sviði þróunar. 

facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105