Heimsljós
veftímarit um þróunar- og mannúðarmál
10. árg. 337. tbl.
27. september 2017
Ræða utanríkisráðherra á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna:
Vandaðir stjórnunarhættir og frjáls viðskipti forsenda framfara

Utanríkisráðherra flytur ræðu sína á allsherjarþinginu. Ljósmynd: UN
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ávarpaði í dag allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York. Í ræðu sinni gagnrýndi Guðlaugur Þór meðal annars eldflauga- og kjarnavopnatilraunir Norður-Kóreustjórnar og efnavopnaárásir Sýrlandsstjórnar og lýsti áhyggjum af aðstæðum Rohingya í Myanmar. Þá lagði utanríkisráðherra áherslu á virðingu fyrir mannréttindum og valdeflingu kvenna á öllum sviðum samfélagsins. Sagði ráðherra mannréttindi samofin sjálfbærri þróun og undirstöðu friðar og því nauðsynlegt að gefa öllu fólki tækifæri á að lifa mannsæmandi lífi. Minnti ráðherra á framkvæmd Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í því tilliti.

Utanríkisráðherra gerði einnig áhrif loftslagsbreytinga að umtalsefni og áréttaði skuldbindingar Íslands um að standa við Parísarsamninginn. Sagði ráðherra loftslagsbreytingar mjög sýnilegar á norðurslóðum en minnti á að áhrifin næðu til alls heimsins. Utanríkisráðherra sagði jafnframt að helstu áskoranir okkar tíma væru til komnar af mannavöldum og því væru vandaðir stjórnunarhættir og frjáls viðskipti forsenda framfara. Benti ráðherra á gildi fríverslunar í baráttunni gegn fátækt, og sögu Íslands í því samhengi. "Á hverju ári komum við saman hér í höfuðborg frjálsrar verslunar og ræðum mikilvægi þess að binda endi á fátækt í veröldinni. Við getum endalaust rætt og lofað, en getum við fylgt orðum með gjörðum?", spurði Guðlaugur Þór í ræðu sinni og minnti jafnframt á bágbornar aðstæður flóttafólks. 

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna funduðu jafnframt fyrr í dag þar sem helstu viðfangsefni alþjóðastjórnmála voru til umræðu, þ.m.t. málefni Norður-Kóreu og Miðausturlanda. Einnig funduðu utanríkisráðherrar Norðurlandanna með utanríkisráðherrum Mið-Ameríkuríkja þar sem Heimsmarkmiðin og loftslagsmál, m.a. með hliðsjón af ofsaveðrum í þessum heimshluta, voru meðal umfjöllunarefna.

Utanríkisráðherra átti tvíhliða fund með starfsbróður sínum frá Singapúr þar sem viðskipti, samgöngur og norðurslóðamál voru á dagskrá. Ráðherra hitti einnig utanríkisráðherra Georgíu og undirrituðu þeir endurviðtökusamning milli ríkjanna, sem auðveldar samstarf vegna hælisleitenda sem þaðan koma. Þá hitti ráðherra fulltrúa UN Women til að ræða áframhaldandi leiðtogahlutverk Íslands í jafnréttismálum og frekari samvinnu, m.a. í gegnum HeForShe-verkefnið.

"Þær áskoranir sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir krefjast alþjóðlegrar samvinnu. Það á jafnt við um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og hryðjuverkum og baráttuna fyrir mannréttindum og gegn fátækt. Það hefur því aldrei verið mikilvægara að standa vörð um Sameinuðu þjóðirnar og gildi þeirra, og þar hefur Ísland ávallt hlutverki að gegna", segir Guðlaugur Þór Þórðarson.

Fimm umsóknir íslenskra borgarasamtaka um þróunarsamvinnuverkefni samþykktar:
Verkefnin unnin í þremur Afríkuríkjum, Kenía, Eþíópíu og Suður-Afríku
Fimm umsóknir íslenskra borgarasamtaka um styrki til þróunarsamvinnuverkefna hafa verið samþykktar í utanríkisráðuneytinu. Fjárhæð þeirra nemur 175 milljónum króna, þar af koma 56 milljónir til ráðstöfunar á þessu ári.

Verkefnin sem fengu úthlutun verða unnin af Hjálparstarfi kirkjunnar, SOS Barnaþorpunum á Íslandi, Enza, Sambandi íslenskra kristniboðssamtaka og styrktarfélaginu Brosköllum. Verkefnin verða unnin í þremur Afríkuríkjum, Eþíópíu, Kenía og Suður-Afríku.

Alls bárust tíu umsóknir frá sjö borgarasamtökum að þessu sinni. Verkefnin fimm sem samþykkt voru eru í einstaka tilvikum háð fyrirvörum ráðuneytisins um úttektir eða upplýsingar um árangur fyrri verkefna.

Verkefnin sem hljóta styrki eru þessi - en frásagnir um verkefnin verður bæði að finna í Heimsljósi í dag og í næstu viku:

Langtímaverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar um stuðning við sjálfbæra lifnaðarhætti og matvælaöryggi á afskekktum svæðum í Austur-Eþíópíu til þriggja ára að heildarupphæð 80,7 m.kr, þar af verði 20 m.kr. til úthlutunar árið 2017.

Langtímaverkefni SOS Barnaþorpanna á Íslandi til fjölskyldueflingar í Eþíópíu til fjögurra ára að heildarupphæð 67,6 m.kr., þar af verði 20 m.kr. til úthlutunar árið 2017.

Langtímaverkefni samtakanna Enza til valdeflingar og aukinnar atvinnuþátttöku kvenna í fátækrahverfum í Suður-Afríku að heildarupphæð 14,8 m.kr, þar af verði 4 m.kr. til úthlutunar fyrir árið 2017.

Verkefni Sambands íslenskra kristniboðssamtaka til menntunar á jaðarsvæðum í Kenía að heildarupphæð 8 m.kr.

Nýliðaverkefni Styrktarfélagsins broskalla til menntaverkefnis í Kenía að heildarupphæð 4 m.kr.  

Borgarasamtök - umsóknir/ ICEIDA
Ný skýrsla Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna:
Stuðningur við foreldra fyrstu árin skiptir mestu máli fyrir börn

Þ rennt skiptir mestu máli í stuðningi við foreldra kornabarna sem styður andlegan þroska þeirra, að mati Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF). Einungis 15 þjóðir í heiminum hafa innleitt þessi þrjú atriði og framfylgja þeim á landsvísu. Hins vegar eru 32 þjóðir með ekkert þessara þriggja atriða í framkvæmd og í þeim löndum býr eitt af hverjum átta börnum í heiminum.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu UNICEF -  Early Moments Matter for Every Child -  en þar er rýnt í opinberan stuðning við foreldra ungra barna sem stuðlar að heilbrigðum andlegum þroska barnanna. Umrædd þrjú atriði sem UNICEF telur mikilvæg til þess að foreldrar hafi tíma og tækifæri til að styðja við eðlilegan þroska heilans eru tveggja ára leikskólamenntun, sex mánaða brjóstagjöf á launum og fæðingarorlof: sex mánuðir fyrir móður og fjórar vikur fyrir föður. "Þessi atriði gefa foreldrum kost á að vernda barnið sitt og veita því betri næringu ásamt leik- og lærdómsreynslu á þessum mikilvægu fyrstu árum þegar heili barnsins þroskast hraðar en á nokkru öðru æviskeiði," segir í skýrslunni.
 
Meðal þjóðanna sem eru til fyrirmyndar að þessu leyti og uppfylla öll þrjú skilyrðin eru Kúba, Frakkland, Portúgal, Rússland og Svíþjóð. Í hópi hinna þjóðanna sem bjóða foreldrum og börnum þeirra ekkert þessara þriggja atriði eru 40% barnanna í aðeins tveimur ríkjum: Bangladess og Bandaríkjunum.
 
"Við þurfum að gera meira til að gefa foreldrum og þeim sem annast ung börn þann stuðning sem börnin þurfa á þessu mikilvægasta tímabili heilaþroska," er haft eftir Anthony Lake framkvæmdastjóra UNICEF.
Fram kemur í skýrslunni að milljónir barna yngri en fimm ára verja mótunarárunum í óöruggu umhverfi þar sem tækifæri til andlegs þroska eru af skornum skammti.

Stórátak gegn kynbundnu ofbeldi:
Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar taka höndum saman og leggja 65 milljarða króna í verkefnið

Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar hafa hleypt af stokkunum stórátaki til höfuðs ofbeldi gegn konum og verja til þess 500 milljónum evra, eða um 66 milljörðum íslenskra króna. António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir í frétt á vef upplýsingaskrifstofu SÞ (UNRIC) að aldrei fyrr hafi jafn miklum fjármunum verið varið til þessa málaflokks en ofbeldi gegn konum er talið til umfangsmestu mannréttindabrota í heiminum. Átakið nefnist Kastljós (Spotlight).  

"Umfangið er einnig fordæmalaust því hér er á ferð heildstætt átak sem nær jafnt til forvarna, sem verndar fórnarlamba og aðgangs að réttarkerfi," sagði Guterres þegar átakið var kynnt í tengslum við Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York. Evrópusambandið verður langstærsti bakhjarl verkefnisins.

"Fjöldi ríkja sem það nær til á enga hliðstæðu, en ætlunin er að hafa djúp og óafturkræf áhrif. Sá metnaður að ná varanlegum, langtíma árangri í þágu kvenna og stúlkna er einnig fordæmalaus," er haft eftir Guterres.

Federica Mogherini, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins sagði að Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar myndu sameinast um átakið en samtökin væru  "fullkomið par."   

"Við munum sameina alla okkar miklu krafta," sagði Mogherini . "Allar hinar ólíku stofnanir Sameinuðu þjóðanna og mismunandi starfssvið Evrópusambandsins munu leggjast á eitt. Þegar þessi vél hefur verið ræst er hún býsna kraftmikil."  

Á næstu árum verður heildstæðum áætlunum hrint í framkvæmd í því skyni að uppræta ofbeldi gegn konum og stúlkum, svo sem kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og skaðlegt framferði, mansal og efnahagslega misnotkun, stúlknadráp og heimilisofbeldi. Stefnt er að því að greiða fyrir lagasetningu, stefnumörkun og stofnanavæðingu, fyrirbyggjandi aðgerðir, aðgengi að þjónustu og upplýsingasöfnun í Afríku, Suður-Ameríku, Asíu, Kyrrahafinu og Karíbahafinu.

Guterres sagði að frumkvæðið myndi efla viðleitni til að hrinda í framkvæmd Heimsmarkmiðum um sjálfbæra þróun. Kastljós-frumkvæðið er "sannarlega sögulegt" sagði Guterres.  "Þegar við beinum kastljósi að því að auka völd kvenna, er framtíð allra bjartari." 

Íslensk landsnefnd UN Women undirbýr stórátak til stuðnings konum í Zaatari flóttamannabúðunum

Fulltrúar landsnefndar UN Women á Íslandi eru nýkomnir heim eftir vel heppnaða ferð í Zaatari flóttamannabúðunum í Jórdaníu þar sem tekið var upp efni í heimsóknum á griðastaði fyrir konur sem reknir eru af UN Women. 

Zaatari búðirnar eru aðrar stærstu flóttamannabúðir í heiminum og í griðastöðunum fá konur í búðunum atvinnuskapandi tækifæri til þess að geta séð fyrir sér og börnum sínum. 

"Við fengum innsýn inn í líf margra æðislegra kvenna og hvað UN Women er að vinna magnað starf í búðunum.  Hlökkum til að leyfa ykkur að sjá meira í nóvember," sagði í Fésbókarfærslu um helgina.

Utanríkisráðuneytið hefur um árabil stutt sérstaklega verkefni UN Women í þágu kvenna í Zaatari flóttamannabúðunum í Jórdaníu. Verkefnið felst m.a. í því að auka efnahagslegt sjálfstæði kvenna og veita þeim vernd og aðstoð hafi þær verið beittar ofbeldi.

Fjölskylduefling í Eþíópíu á vegum SOS Barnaþorpanna:
Flestar fjölskyldurnar í Tulu Moye lifa undir fátæktarmörkum
SOS Barnaþorpin fengu á dögunum styrk frá utanríkisráðuneytinu vegna fjölskyldueflingar í Tulu Moye í Eþíópíu. Styrkurinn er til fjögurra ára og verður framlag ráðuneytisins alls 67,6 milljónir króna.

Á síðasta ári styrkti utanríkisráðuneytið hagkvæmniathugun SOS á Tulu Moye svæðinu og er verkefnið núna beint framhald þeirrar athugunar, enda leiddi hún í ljós mikla þörf fyrir aðgerðir á svæðinu. Flestar fjölskyldurnar á svæðinu lifa undir fátæktarmörkum sem gerir það að verkum að vannæring barna er algeng ásamt því að þau eiga mörg hver ekki skó eða fatnað. Þá eru húsakynni fjölskyldna ekki góð.

HIV smit er algengt á svæðinu og þekking á sjúkdómnum ásamt smitleiðum er lítil. Þá eru siðir líkt og barnabrúðkaup og umskurður á kynfærum kvenna iðkaðir í samfélaginu.

Aðaláhersla samtakanna er að vinna náið með héraðsyfirvöldum, stofnunum, samtökum og öðru heimafólki við að efla hæfni og getu þeirra til að mæta þörfum barna þannig að fjölskyldur geti staðið á eigin fótum og tryggt velferð barna sinna til framtíðar. Verkefnið er þáttur í að byggja upp sterkara samfélag með sjálfbærum hætti sem getur brugðist betur við þörfum barna og bætt lífsviðurværi fjölskyldna svo þær geti einnig verndað börn sín og mætt þörfum þeirra.

Fjölskylduefling SOS Barnaþorpanna í Tulu Moye mun styðja við 1500 börn og forráðamenn þeirra á svæðinu sem berjast við fátækt. Áhersla er lögð á að efla börn, konur og ungmenni svo þau geti tekið fullan þátt í og notið góðs af félagslegum, hagrænum og pólitískum ferlum ásamt því að tryggja velferð og réttindi barna.

Skjólstæðingar verkefnisins fá meðal annars aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu, mataraðstoð, menntun og fræðslu ásamt því að þeir geta fengið örlán frá SOS Barnaþorpunum. Þá fá allar fjölskyldurnar í verkefninu sólarorkuknúið vatnshreinsitæki sem metur hvenær vatn er orðið drykkjarhæft. Starfsmenn SOS heimsækja fjölskyldurnar reglulega og útbúa áætlun í samráði við foreldrana. Áætlunin tekur mið af aðstæðum, þekkingu og hæfileikum hverrar fjölskyldu og tilgreinir í smáatriðum leið hennar til fjárhagslegs sjálfstæðis.
SOS Barnaþorpin hafa mikla reynslu af hjálparstarfi í Eþíópíu en fyrsta barnaþorpið þar í landi hóf starfsemi sína árið 1976. Fjölskylduefling SOS hefur verið starfandi síðan árið 2007 í Eþíópíu með góðum árangri en í dag eru tæplega 14 þúsund börn sem fá aðstoð í gegnum "Fjölskyldueflingu í Eþíópíu."

Sendifulltrúi frá Rauða krossinum til aðstoðar eftir Irmu

Sólrún María Ólafsdóttir.
Sólrún María Ólafsdóttir sendifulltrúi og starfsmaður Rauða krossins á Íslandi er á leið í Karabíska hafið þar sem hún mun starfa í svokölluðu FACT neyðarteymi (Field Assessment Coordination Team) á vegum Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans sem er nú að störfum á eyjunum sem verst urðu úti vegna fellibyljsins Irmu. 

Frá þessu segir á vef Rauða kross Íslands en þar kemur einnig fram að Sólrún María verði einnig í stuðningi við þær eyjar sem nú búa sig undir komu fellibylsins Maríu. Sólrún María mun sinna svokallaðri PMER stöðu (Planning, Monitoring, Evaluation and Reporting position) og verður starfsstöð hennar í Trinídad & Tóbagó.

Sólrún María er með mannfræði- og stjórnmálafræðimenntun auk mastersgráðu í alþjóðastjórnmálum með áherslu á þróunarsamvinnu. Hún starfaði lengi í Palestínu fyrir UNICEF og í Malaví bæði fyrir Þróunarmálastofnun SÞ og sendiráð Noregs í landinu. Þetta er fyrsta sendifulltrúaferð hennar fyrir hönd Rauða krossins á Íslandi en frá því í janúar 2017 hefur hún sinnt starfi verkefnastjóra á landsskrifstofu Rauða krossins á Íslandi. 

Að sögn Kristínar S. Hjálmtýsdóttur framkvæmdastjóra Rauða krossins verður ferð Sólrúnar að öllum líkindum fimm til sex vikur. "Sólrún er gríðarlega reynslumikil þegar kemur að mati á aðstæðum og skipulagningu hjálparstarfs á vettvangi" segir Kristín. "Rauði krossinn á Íslandi er þess fullviss að starfskraftar hennar verði fullnýttir í þágu þeirra sem standa höllum fæti í kjölfar þessara veðurhamfara."

Norðurlönd: alþjóðasamvinna, umbætur og viðskipti
Margot Wallström, utanríkisráðherra Svíþjóðar í ræðustól á allsherjarþinginu.

Norðurlöndin lýstu almennum stuðningi við fjölþjóðlega samvinnu, umbætur á starfi Sameinuðu þjóðanna, heimsviðskipti og áframhaldandi þróunaraðstoð í ræðum sínum í árlegum almennum umræðum á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem lauk í gær. 

Árni Snævarr hjá Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna tók saman pistil og birti á vef UNRIC þar sem hann rýndi í ræður norrænna ráðherra á allsherjarþinginu. 


Einar Gunnarsson stýrir nefnd á allsherjarþinginu

Einar Gunnarsson, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum stýrir mannúðar- félagsmála og menningarnefnd Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.
 Nefndin sem gengur undir heitinu "þriðja nefndin" kaus Einar formann síðastliðið vor en hann tekur við formennskunni nú þegar 72. þingið er hafið. 

Einar hefur verið fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum frá 2014 og var einn af varaforsetum Allsherjarþingsins 2014-2015. Áður var hann ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, og stjórnarerindreki í fastanefnd Íslands hjá stofnunum SÞ í Genf, hjá Evrópusambandinu í Brussel, auk starfa á viðskipta- og varnarmálaskrifstofum ráðuneytisins.  Einar er lögfræðingur frá Háskóla Íslands.

UNRIC greinir frá.

Áhugavert

-
-
-
-
-
-
-
-
-
-

-
-
-
-
-
-
-
-

Námskeið Landgræðsluskólans í Úganda

Mynd frá opnunarhátíð í Kampala vegna námskeiðs Landgræðsluskólans, Makerere háskóla og umhverfisstofnunar Úganda (NEMA) um landgræðslu, sjálfbæra landnýtingu og loftslagsmál sem hófst í síðustu viku.


Mozambique has highest rate of child marriages in SADC/ ClubOfMozambique
-
EU increases humanitarian aid budget for education of children in emergencies/ EU
-
Drones for Good: Disaster Management and Humanitarian Aid in Malawi/ DroneLife
-
Úganda: Þingmenn slógust/ Mbl.is
-
Everyone wants cobalt, but few want to get tangled up in the world's largest producing nation/ Qz
-
UN gathering on Hurricane Irma brings "loss and damage" to world stage/ Reuters
-
UNHCR calls for the EU relocation scheme to continue/ UNHCR
-
Gates, Plan-funded global gender data partnership takes shape/ Devex
-
Ugandan students who watched "Queen of Katwe" performed better on their national exams/ Qz
-
Global call for zero tolerance on food loss and waste/ FAO
-
In Their Own Words: Why Armed Fighters Attack Aid Workers/ NPR
-
Why Bill Gates thinks we shouldn't kill all the mosquitoes to end malaria/ Devex
-
9 Takeaways From The New U.N. Report Showing Hunger On the Rise/ WFPUSA
-
Exclusive: Africa to get state-of-art HIV drugs for $75 a year/ Reuters
-
Racism label should not deter British police from FGM fight, says officer/ TheGuardian
-
Uganda: Museveni again?/ DW
-
Countries agree on a landmark 2030 strategy to save fertile lands/ UNCCD
-
Ghana turns to community health workers in bid for universal coverage/ Devex
-
Education at risk for thousands of children after successive earthquakes in Mexico - UNICEF
-
WORLD LEADERS DON'T UNDERSTAND WOMEN-AND THAT'S HURTING GENDER EQUALITY, STUDY FINDS/ Newsweek
-
UNICEF emergency supplies for Rohingya refugee children arrive in Bangladesh/ UNICEF
-
High-level Panel on Water calls to action/ UNWater
-
Africa's universities are not preparing graduates for the 21st century workplace/ Qz
-
Dominica: A Caribbean island rebuilds "from zero"/ IRIN
-
Mass graves, missing bodies, and mysticism: Inside Congo's spiralling Kasai conflict/ IRINNews
-
FT Health: Dispatches from the United Nations/ FT
-
The world's unbanked, in 6 charts/ WEForum
-
The US has expanded its controversial travel ban with three more countries/ Qz
-
Nigeria's Amina Yuguda wins BBC World News Komla Dumor award/ BBC
-
Cameroon illegally deported 100,000 Nigerian refugees -rights group/ Reuters

Fiskveiðisafnið í Mapútó

Í heimsókn á Fiskveiðisafninu í Mapútó. Smellið á myndina til að horfa á kvikmyndabrotið .
Fiskveiðisafnið stendur við höfnina í Mapútó, höfuðborg Mósambíkur, og var formlega opnað í nóvember árið 2014 af forseta landsins. Byggingin sjálf er teiknuð af einum þekktasta arkitekt Mósambíkur, José Forjaz. Íslendingar og Norðmenn lögðu safninu til fjármagn á undirbúningstímanum sem hluta af verkefnastoð í fiskimálum en eftir opnun safnsins tók mósambíska ríkið alfarið yfir reksturinn. Safnið er það eina sem reist hefur verið á vegum stjórnvalda eftir sjálfstæði landsins.

Cassimo Marojo sýningarstjóri segir að sögu safnsins megi rekja rúmlega þrjátíu ár aftur í tímann. Sagan hefjist í raun fljótlega eftir sjálfstæði Mósambíkur þegar fyrsta ríkisstjórn hins nýfrjálsa lýðveldis ákvað að draga þyrfti fram í dagsljósið nýja hlið á fiskveiðum í landinu. Áherslan átti að vera á svokallaðar hefðbundnar veiðar í vötnum og við strendur landsins - og gæta þess að sýna ólíkar veiðiaðferðir og ólík veiðarfæri eftir landssvæðum, með öðrum orðum: menningu og sögu fiskveiða í landinu. Hann segir að nefndin sem fékk verkefnið hafi byrjað söfnun á munum og minjum sem tengdust fiskiveiðum landsmanna í þeim tilgangi að varðveita gamla muni áður en þeir glötuðust. Hann viðurkennir hins vegar að söfnunin hafi ekki verið forgangsmál í neinum skilningi, borgarastríðið og hörð lífsbarátta hafi sett strik í reikninginn, en smám saman hafi tekist að ná mikilvægum munum með sögulegt og menningarlegt gildi sem vísi að safni. Með samstarfi stjórnvalda við Noreg og Ísland hafi undirbúningur að formlegu fiskveiðasafni orðið að veruleika.

Auk þess að draga fram menningar- og sögulegar minjar um fjölbreytilegar fiskveiðar í landinu, og ekki síst fólkið sem kom að veiðum og verkun, er þar líka aðstaða til fundahalda og algengt er að skólar komi með barnahópa í safnið, að sögn sýningarstjórans. Samkvæmt TripAdvisor er Fiskveiðisafnið fimmta vinsælasta safnið í Mósambík.

Menntun í ferðatösku (Education in a Suitcase)

- eftir Gunnar Stefánsson og Önnu Helga Jónsdóttur hjá styrktarfélaginu Brosköllum

Styrktarfélagið Broskallar fékk á dögunum samþykki utanríkisráðuneytisins fyrir menntaverkefni í Kenía. Verkefnið nefnist Menntun í ferðatösku, eða "Education in a Suitcase" og markmið þess er að styrkja börn sem búa við sára fátækt á völdum svæðum í Kenía og aðstoða þau við að ljúka fyrst grunnskóla og síðan framhaldsskóla, þannig að þau eigi möguleika á að ná inntökuskilyrðum í háskóla.
 
Verkefnið á uppruna í rannsóknaverkefni um vefstudda kennslu, en vefkerfið "tutor-web" hefur verið notað við kennslu og sem rannsóknatæki um vefstudda kennslu á Íslandi og erlendis allt frá árinu 2004. Það vefkerfi var kynnt aðilum í Kenía á árunum 2010-2012, m.a. á ráðstefnu í Naíróbí og síðan þróað áfram með samstarfsaðilum, til að taka tillit til aðstæðna í Kenía. Um 2012 hófst samstarf við nokkra aðila í Kenýa, mest við hóp sem tengist háskólanum í Maseno, en sá hópur hefur verið aðalhvatinn að African Maths Initiative. Nemendur á Íslandi og í Kenía eiga margt sameiginlegt, m.a. þurfa allir nemendur aðgang að góðu námsefni sérstaklega kemur öllum til góða æfingakerfi, t.d. fyrir menntaskólastærðfræði en einmitt þar er sterkasta hlið "tutor-web". Niðurstöður rannsókna með "tutor-web" kerfinu hafa verið kynntar á ráðstefnum um menntamál og birtar t.d. í tímaritum um sálfræði, menntun, tölvumál og tölfræði. Sérílagi hafa niðurstöður verið kynntar oft á fundum og ráðstefnum í Kenía.
 
Augljóslega eru aðstæður samt um flest ólíkar á Íslandi og í Kenía, og alveg sérstaklega í fátækustu hlutum Kenía. Má nefna óstöðugt rafmagn og oft algeran skort á Internet aðgangi. Því hefur verið þróuð útgáfa af "tutor-web" kerfinu, sem má nota við slíkar aðstæður. Samstarfsaðilar í Kenía mæltu sérstaklega með því að fyrstu raunverulegu prófanir færu fram á eyjunni Takawiri í Viktoríuvatni, því þar hafa fæst hús rafmagn og hvorki er aðgangur að þráðlausu neti né Interneti og símasamband afar lélegt. Ummælin voru "ef þetta gengur á Takawiri þá gengur þetta alls staðar" (og þá líka t.d. í Tanzaníu, Gambíu, Eþíópíu og Gana). Eyjan er dæmigert lágtekjusvæði. Aðaltekjur fjölskyldna á Takawiri eru af fiskveiðum, fá atvinnutækifæri og afar fáir nemendur hafa komist áfram í langskólanám.
 
Áherslan í Kenía þarf að vera á stærðfræði framhaldsskóla því hún stendur nemendum einna mest fyrir þrifum hvað varðar aðgang að háskólanámi. Grunnskólamenntun er orðin skylda og þannig kunna allir nemendur að lesa og skrifa, en helsti vandi menntakerfisins liggur í framhaldsskólum þar sem m.a. vantar góða kennara og nemendur falla unnvörpum á inntökuprófum í háskóla.
 
Broskallar
Verkefnið fékk heitið Education in a Suitcase (EIAS) og er stundum kallað Menntun í ferðatösku. Styrktarfélagið Broskallar er almennt félag (non-profit) sem var stofnað árið 2015 til að sjá um fjársöfnun til verkefnisins. Styrkfé var safnað 2015-2016 og eingöngu notað til að kaupa spjaldtölvur til handa nemendum, tölvuþjóna fyrir fjóra skóla og til að setja upp endanlegar útgáfur af hugbúnaði. Kerfið var fyrst sett upp á Takawiri árið 2016 og síðan var verkefninu fylgt eftir 2017. Bæði árin styrktu HÍ og Félag prófessora verkefnið dyggilega og greiddu m.a. allan ferðakostnað.
 
Hugmyndafræðin byggir þannig á reynslu aðstandenda félagsins af kennslu og kennsluhugbúnaði ásamt samvinnu í Kenía. Kerfið í heild hefur verið þróað í samvinnu við Maseno og er nú þannig að það er vel nothæft þótt ekkert þráðlaust net sé fyrir hendi, ekkert Internet sé á svæðinu og rafmagn sé stopult.
 
Nemendur fá í hendur æfingakerfið "tutor-web", sem hópurinn hefur þróað, en það er öllum opið og aðgangur ókeypis. Að auki fylgir kerfinu öll Wikipedia, almennt námsefni frá Khan Academy og í ár verður bætt við Gutenberg bókasafninu sem inniheldur 50 þúsund bókatitla. Allt efnið og allur hugbúnaðurinn er afhent með opnu leyfi til almennrar notkunar og dreifingar.
 
Ýmis verkefni tengjast EIAS verkefninu. Má t.d. nefna rafmyntina Broskalla (Smileycoin eða SMLY), sem notuð er innan "tutor-web" kerfisins til að umbuna nemendum fyrir árangur. Myntin er aðallega til gamans, en er samt rafmynt eins og Bitcoin og Auroracoin, en hönnuð með "tutor-web" í huga.
 
Hingað til hefur framkvæmdin verið þannig að nemendum hafa verið gefnar spjaldtölvurnar. Með þessu er reynt að forðast þekkta tilhneigingu skólayfirvalda og kennara í sumum skólum til þess að einoka nýja tækni eða misnota aðstöðu á annan hátt. Þjónarnir eru hins vegar gefnir skólunum. Sama aðferð verður notuð áfram.

Tilraunin lofar góðu 
Þegar þetta er ritað er fyrsti árgangurinn kominn í framhaldsskóla og helsta niðurstaða tilraunarinnar var sú að hér gekk allt upp. Svo vitnað sé í kennarann: "Thank you very much for the project. My students are using the tutor web daily. I have seen a remarkable improvement in their performance in mathematics". Á árinu 2017 var farið með spjaldtölvur fyrir tvo árganga til að kanna, hver áhrifin verða af því að grunnskólanemendur hafi tölvurnar aðeins lengur. Síðan mun hitt koma í ljós á næstu árum, hvort og hvernig spjöldin nýtast þessum sömu nemendum í framhaldsskólum sínum.
 
Árið 2017 var einnig reynt að setja upp öflugra loftnet til að kanna hvort unnt væri að tengja þjóninn betur við farsímakerfið og ná þannig Internet tengingu. Þetta mun einfalda verulega gagnasöfnun því áður þurfti að fara með þjóninn með ferju í næsta þorp til að komast í Internetsamband og hlaða upp gögnum eða lagfæra hugbúnaðinn. Fyrstu prófanir bentu til að þetta væri vel gerlegt og verið er að vinna úr byrjunarhnökrum til að tölvuþjónn verkefnisins verði miðstöð Internetsins í skólanum. Sú nettenging verður alltaf mjög hægvirk og því er ekki hægt að sleppa þjóninum, sem gerir allar staðbundnar tengingar nothæfar.
 
Samstarfsaðilar í Kenía völdu næsta skóla fyrir verkefnið, en það er  Shivanga skólinn sem er verst staddi framhaldsskólinn í Kakamega héraði Kenía. Þar, eins og á Takawiri er samt til staðar áhugasamur kennari sem getur séð um að fylgja eftir notkun spjaldtölvanna og tengiliðir í Maseno/AMI þekkja vel til aðstæðna. Aðstæður eru um margt svipaðar og á Takawiri eyju, en hér er um framhaldsskóla að ræða, svo hér verður hægt að fylgja nemendum eftir alveg fram að umsóknum um aðgang að háskólum. Að auki er reiknað með því að bæta a.m.k. þriðja skólanum við árið 2018.
 
facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105