Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
9. árg. 304. tbl.
19. október 2016
Skólabókardæmi um ójöfnuð: 
Dauðsföll vegna náttúruhamfara verða langflest í þróunarríkjum
Rúmlega 1,3 milljónir manna hafa farist í náttúruhamförum á síðustu tuttugu árum í rúmlega sjö þúsund hamförum. Athygli vekur að dauðsföllin verða fyrst og fremst í lág- og millitekjuríkum eða yfir níu af hverjum tíu dauðsföllum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem nefnist: Poverty & Disaster Mortality 1996-2015.

Greining á gögnum um náttúruhamfarir á þessum tveimur áratugum leiðir í ljós að manntjón er mest í jarðskjálftum og flóðbylgjum en dauðsföll af völdum hamfara sem tengjast loftslagsbreytingum sækja í sig veðrið og hafa tvöfaldast á tímabilinu. Slíkar hamfarir hafa raunar, eftir því sem skýrslan segir, leitt til flestra dauðsfalla á síðustu fimmtán árum. Þar er um að ræða dauðsföll af völdum þurrka, hitabylgna, flóða og fárviðris.

Ban Ki-moon aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir skýrsluna skólabókardæmi um ójöfnuð. Á sama tíma og ríkar þjóðir verði fyrir miklu eignatjóni vegna náttúruhamfara gjaldi fólk í fátækum ríkjum með lífi sínu.

"Það er kaldhæðnislegt að þær þjóðir sem eiga minnstan þátt í loftslagsbreytingum eru þær sem verða verst úti þegar litið er til manntjóns af völdum veðurfars, þessara ofsafengnu sívaxandi veðrabrigða sem tengjast loftslagsbreytingum," segir Robert Glass sérstakur erindreki aðalframkvæmdastjóra í viðbrögðum við náttúruvá.

UN: Most Deaths From Natural Disasters Occur in Poor Countries/ VOA
Afríkuþjóðir samþykkja aðgerðir til að berjast gegn ofbeldi í garð barna
End Violence Against Children Launch Film
End Violence Against Children Launch Film

Ofbeldi gegn börnum er enn útbreitt í Afríkuríkjum þrátt fyrir áralangar tilraunir til þess að uppræta það. "Mörg börn verða enn fyrir ofbeldi, þar með töldu banvænu ofbeldi, á heimilum, í skólum og einnig í samfélögunum þar sem þau búa og á vinnustöðum," segir í
yfirlýsingu fundar sem haldinn var í Addis Ababa í Eþíópíu nýlega.

Á þeim fundi voru ræddar leiðir til að herða baráttuna gegn ofbeldi í garð barna. Alls tóku þátt í fundinum 106 fulltrúar frá 32 löndum Afríku, fulltrúar ríkisstjórna, svæðasamtaka og borgarasamtaka sem láta sig málið varða. Fundurinn bar yfirskriftina - Committing Africa for Action for Ending Violence against Children. Í yfirlýsingu fundarins segir að ýmsir þættir stuðli að því ófremdarástandi sem ríki í þessum málum þar á meðal ófullnægjandi framkvæmd við stefnumörkun í málaflokknum, takmarkað fjármagn og takmarkaður mannauður, áhersla á skyndiviðbrögð fremur en forvarnir og skortur á því að ráðast að rót vandans, svo dæmi séu tekin.

Fundurinn samþykkti samhljóða að setja á laggirnar samstarfsvettvang "African Partnership to End Violence against Children" sem hefði það hlutverk að binda enda á ofbeldi gegn börnum í álfunni. Helstu áhersluþættir í aðgerðaráætlun og rekstarfyrirkomulagið voru einnig rædd svo og ákvæði í undirmarkmiðum Heimsmarkmiðanna (16.2) og þróunarmarkmiðum Afríkusambandsins, Agenda 2063, sem tengjast ofbeldi gegn börnum.

Vefsíða alþjóðasamtakanna End Violence Against Children - The Global Partnership
UNICEF to work with journalists to tackle violence against children/ ArabSpringNews
UK steps up support to end modern slavery and child exploitation globally/ Breska ríkisstjórnin
Vaxandi loftmengun í Afríku mikið áhyggjuefni  

Ljósmynd frá Úganda: gunnisal

Loftmengun í Afríku eykst jafnt og þétt og leiðir til heilsutjóns og efnahagslegs tjóns í síauknum mæli, segir í nýrri skýrslu Þróunarseturs OECD sem heitir einfaldlega: Cost of Air Pollution in Africa . Í frétt um útgáfu skýrslunnar segir að kostnaðurinn við loftmengun sé þegar orðinn hærri en kostnaður vegna óviðunandi salernisaðstöðu og vannærðra barna. "Án róttækra stefnubreytinga um þéttbýlismyndun í Afríku gæti þessi kostnaður orðið himinhár," segir í fréttinni.

Í skýrslunni kemur fram að á árabilinu frá 1990 til 2013 hafi dauðsföllum af völdum loftmengunar utanhúss fjölgað um 36% og farið í 250 þúsund. Á sama tíma hafi loftmengun innanhúss - vegna mengandi orkugjafa við eldun - aukist um 18% og dauðsföllin farið í 450 þúsund.

"Áætlaður fjárhagslegur kostnaður fyrir Afríku í heild vegna þessara ótímabæru dauðsfalla er um 215 milljarðar bandaríkjadala fyrir loftmengun utanhúss og 232 milljarðar bandaríkjadala fyrir mengun á heimilum. Og þetta gerist þrátt fyrir að iðnvæðingin sé hægfara og fari jafnvel í öfuga átt í mörgum löndum," segir í skýrslunni.The increased cost of air pollution in Africa calls for urgent mitigation action, says new OECD Development Centre study/ OECD
Heimsmarkmiðin kynnt fyrir skólabörnum:
Friðarleikarnir: Borðspil í þróun
Félag Sameinuðu þjóðanna er að vinna að borðspili sem nefnist Friðarleikarnir. Borðspilið er ætlað fyrir börn í 4 og 5. bekk og gefur þeim tækifæri til þess að leysa vandamál heimsins með hjálp Heimsmarkmiðanna.

Í fréttabréfi félagsins segir að á alþjóðadegi friðar í ár - 21. september - hafi verið lögð sérstök áhersla á Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem grunnstoð friðar. "Samkeppni um takmarkaðar auðlindir leiðir oft til átaka og til að fyrirbyggja slíkt og ná varanlegum friði í heiminum er sjálfbær þróun þar nauðsynlegur þáttur. Við þurfum að vernda jörðina okkar og aðeins með því að vinna saman getum við gert sameiginlegt heimili okkar öruggt fyrir komandi kynslóðir," segir í fréttabréfinu.
Þar segir ennfremur: "Við hvetjum alla til að kynna sér nánar Heimsmarkmiðin 17 því öll getum við tekið þátt í því að vinna að sjálfbærri þróun; að hver og einn lifi í jafnrétti og reisn, að enginn sé skilinn útundan og að vernda jörðina okkar. Í von um að kynna og kveikja áhuga á Heimsmarkmiðunum og hinum ýmsu heimsvandamálum er Félag Sameinuðu þjóðanna að vinna að borðspili sem nefnist Friðarleikarnir. Borðspilið er ætlað fyrir börn í 4 og 5. bekk og gefur þeim tækifæri til þess að leysa vandamál heimsins með hjálp Heimsmarkmiðanna.

Samvinna við Landakotsskóla
Verið er að þróa spilið í samvinnu við 4. bekk í Landakotsskóla og nú í síðastliðnum mánuði var það prufukeyrt í fyrsta skipti. Nemendur voru fengnir til að búa til land, sem þau nefndu Ævintýraland, og leysa vandamál með hjálp Heimsmarkmiðanna og stuðla að sjálfbærri þróun. Í Ævintýralandi hafði ekki verið hugsað til sorpvinnslu og því var landið hægt og rólega að fyllast af rusli. Nemendurnir ákváðu að fjárfesta í endurvinnslustöð og ruslafötum ásamt því að búa til störf í sorpvinnslu. Þar að auki komu upp hugmyndir um að endurvinna rusl í listaverk, steypu og ræktarland með hjálp sérfræðinga. Þessum lausnum átti síðan að ná fram með því að nýta menntakerfi og nýsköpun í landinu.

Í lokin tókst nemendunum að leysa sorpvandann í Ævintýralandi, hlúa að landinu sínu og þjóð og um leið stuðla að 12 Heimsmarkmiðum af 17. Fyrsta prufukeyrslan kom því afar vel út og stóðu nemendurnir sig einstaklega vel. Þau voru áhugasöm og frumleg í lausnum og var helsta vandamálið það að ekki náðist að vinna úr öllum hugmyndunum í tíma. Við hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna erum virkilega spennt fyrir áframhaldandi þróun á Friðarleikunum og vonumst til þess að vera komin með lokaútgáfu í hendurnar á næstu önn," segir í fréttabréfinu. 
Vetnisflúorkolefni á útleið: 
Sögulegt samkomulag í loftslagsmálum í Rúanda

Sögulegt samkomulag náðist á alþjóðlegum fundi í Rúanda á dögunum um að útrýma notkun efna í fjölda kæliskápa og loftkælikerfa sem skaðleg eru andrúmsloftinu. Útrýma á notkun vatnsflúorkolefna á næstu áratugum. Sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun sagði í frétt á Stöð 2 að mikilvægt skref hafi verið stigið í baráttunni gegn skaðlegum loftslagsbreytingum á jörðinni.

Samkvæmt samkomulaginu verða ríki flokkuð í þrjá flokka varðandi niðurskurð á notkun tækja sem nota vetnisflúorkolefni en það eru einkum kæliskápar og loftkælikerfi.

Þróuð ríki í Evrópu og Norður-Ameríku munu draga úr notkun hinna skaðlegu efna um 10 prósent fyrir árið 2019 og um 85 prósent fyrir árið 2036.

Sjóræningjum sagt stríð á hendur:
Söguleg samþykkt um hert öryggi í efnahagslögsögu Afríkuríkja
Afríkusambandið hefur samþykkt að auka öryggi og eftirlit í efnahagslögsögu álfunnar í baráttunni við útbreidda sjóræningjastarfsemi og ólöglegar fiskveiðar sem hafa kostað sjávarútveginn og efnahag þjóðanna tugmilljarða króna á undanförnum áratugum. Rúmlega fjörutíu þjóðir Afríku samþykktu bindandi samkomulag þessa efnis á fundi síðastliðinn laugardag en samningurinn er sagður sögulegur.

Óvenjumargir þjóðarleiðtogar, átján talsins, hittust á fundi í Lome, Tógó, um þetta brýna hagsmunamál álfunnar og fréttaskýrendur segja það til marks um mikilvægi málsins, að því er fram kemur í frétt DW. Erfiðlega hefur gengið að setja bönd á sjóræningjastarfsemi, ólöglegar veiðar, smygl og aðrir glæpi á sjó en 90% af inn- og útflutningi Afríkuþjóða fer sjóleiðina og því er siglingavernd afar mikilvæg efnahagslegri velgengni í álfunni. Af 54 aðildarríkjum Afríkusambandsins eiga 38 þjóðir landamæri að sjó.

Að minnsta kosti fimmtán ríki þurfa að fullgilda samninginn áður en hann kemst til framkvæmda. Samkvæmt samningnum þurfa ríki að greiða inn í sérstakan sjóð sem settur verður á laggirnar til að auka öryggi á hafi úti.
71% farandfólks sætir þrælkun eða mansali, segir í könnun IOM

Nærri þrír fjórðu hlutar þess farandfólks sem leitar yfir Miðjarðarhafið sjóleiðina í leit að betra lífi í Evrópu hefur sætt illri meðferð og í sumum tilfellum mansali, að því er fram kemur í viðamikilli könnun Alþjóða fólksflutningastofnunarinnar (IOM) sem birt er í dag og upplýsingaveita SÞ (UNRIC) greinir frá.

"Rannsóknin byggist á um 9 þúsund svörum farandfólks sem spurt var við komu til suður Ítalíu eftir ferð án tilskilinna leyfa yfir Miðjarðarhafið. Reynt var að komast að raun um hvort fólkið hefði sætt mansali eða verið beitt þvingunum svo sem að stunda vinnu án greiðslu eða verið haldið föngnu af öðrum en yfirvöldum.

Af þeim sem höfðu haldið yfir Miðjarðarhafið hafði nærri helmingur, 49%, verið haldið föngnum frá því fólkið lagði af stað úr heimahögunum við aðstæður sem flokkast undir mannrán enda fólkið krafið um greiðslu gegn því að fara frjálst ferða sinna.

Langflest tilvik slæmrar meðferðar af þessu tagi voru í Líbíu en þar hefur ríkt óöld um langt skeið," segir meðal annars í fréttinni.
Antonio Guterres nýr aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna:
Setur auðmýkt, samkennd og valdeflingu kvenna í öndvegi

Guterres: 'Moral obligation' to stop war in Syria/ CNN
Guterres: 'Moral obligation' to stop war in Syria/ CNN
Eins og áður hefur verið sagt frá tekur Antonio Guterres fyrrverandi forsætisráðherra Portúgals við af Ban Ki-Moon sem aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna frá og með byrjun næsta árs. Guterres verður níundi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna frá upphafi.

Í nýju fréttabréfi Sameinuðu þjóðanna er farið yfir ferlið um val á framkvæmdastjóra og þar segir: "Val á framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna fer þannig fram að Öryggisráðið mælir með frambjóðanda við Allsherjarþingið sem staðfestir valið með kosningu. Ekki er hefð fyrir því að Allsherjarþingið kjósi gegn meðmælum Öryggisráðsins. Þetta fyrirkomulag þýðir að fastaríkin fimm, Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Rússland, sem sitja í Öryggisráðinu hafa neitunarvald við val á framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Í gegnum tíðina hefur valið farið fram fyrir luktum dyrum og mikil leynd ríkt yfir því. Þetta er í fyrsta sinn sem að valið fer fram fyrir opnum dyrum og var öllum ríkjum boðið að tilnefna frambjóðanda. Allsherjarþingið hélt opna fundi í apríl með öllum frambjóðendum þar sem þeim gafst færi á að kynna sýn sína á starfið og aðildarríkjum gafst tækifæri til að spyrja þá spurninga.

Þrýstingur frá Austur-Evrópu
Það var mikill þrýstingur frá Austur-Evrópu blokkinni að næsti framkvæmdastjóri kæmi þaðan. Flestir framkvæmdastjórar hafa komið frá Vestur-Evrópu og er Austur-Evrópa eina svæðið sem ekki hefur átt framkvæmdastjóra. Það var einnig mikil pressa á að kona yrði fyrir valinu þar sem að engin kona hefur áður gegnt starfinu. Hvorugt varð þó raunin að þessu sinni og hafði Antonio Guterres betur í öllum sex óformlegu kosningunum í Öryggisráðinu. Þau ríki sem sitja í ráðinu mæla með, mæla gegn eða lýsa engri skoðun á frambjóðendum í þessum óformlegu kosningum og ekki er mælt með frambjóðanda fyrr en að ekkert ríki mælir gegn framboðinu. Því var náð þann 5. október og hlaut Guterres 13 meðmæli og 2 ríki lýstu engri skoðun.

Flóttamannafulltrúi
Antonio Guterres er fæddur 30. apríl 1949 í Lissabon, Portúgal. Hann útskrifaðist með gráðu frá Instituto Superior Técnico tækniskólanum í Lissabon árið 1971 og hóf feril sinn í opinberum störfum árið 1973. Hann gekk í flokk jafnaðarmanna og gegndi ýmsum stöðum innan flokksins, þar á meðal oddvitastöðu. Árið 1991 stofnaði Guterres flóttamannaráð Portúgals. Hann gegndi stöðu forsætisráðherra Portúgals frá 1995-2002 og var flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2005-2015. Talið er að reynsla hans sem flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna sé ein helsta ástæða þess að hann hafi nú verið kjörinn sem framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, enda hafi flóttamenn aldrei verið jafn margir á heimsvísu og er það eitt aðalmál Sameinuðu þjóðanna um þessar mundir. Guterres hefur lýst því yfir að eitt af hans megin stefnumálum sé að setja tímasetta aðgerðaráætlun til að jafna hlutfall kynjanna í æðstu stöðum Sameinuðu þjóðanna og verður spennandi að fylgjast með og þrýsta á að svo verði."
 
Fréttabréf Sameinuðu þjóðanna
Guterres: "Sigurvegarinn er trúverðugleiki SÞ"
New U.N. leader sets goals: Humility, empathy, empowering women
Fátækt viðheldur hungri og hungur viðheldur fátækt
Ljósm:gunnisal.
Spegillinn á Rás 1 fjallaði um fátækt og hungur á mánudaginn í tilefni af alþjóðlegum degi baráttunnar um útrýmingu fátæktar. Þar var rætt við Engilbert Guðmundsson ráðgjafa hjá utanríkisráðuneytinu og fyrrverandi framkvæmdastjóra Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Í máli hans kom fram að baráttan gegn fátækt hungri og næringarskorti sé flókin. Þar rekist menn á vítahringi sem þurfi að greiða úr. "Málið er auðvitað það að hungrið viðheldur fátæktinni og fátæktin viðheldur hungrinu. Þarna er vítahringur sem verður að rjúfa. Og ef það tekst að útrýma hungurtengdu fátæktinni mun allt hitt fylgja nokkuð vel á eftir," sagði Engilbert.

Fátæktinni tengist svo það að grunnþjónusta eins og menntun og heilbrigðisþjónusta er ekki í boði. Og jafnvel þótt einhver skólaganga bjóðist nýtist hún illa börnum sem þjást af næringarskorti. Það er þarna vítahringur líka, að mati Engilberts. "Það er oft talað um 1000 daga gluggann, það er að segja 1000 dagana frá getnaði og áfram. Það sé í rauninni mikilvægasti tíminn því þá sé lagður grunnur að því hvort viðkomandi nær fullum þroska, sleppur við þroskahömlun. Þetta þarf allt að tengja saman," sagði hann.

Loftslagsbreytingar ný ógn
Á vef RÚV segir: "Við allt þettta bætist svo ný ógn, sem stafar frá náttúrunni en ekki stríðsátökum. Sem dæmi má nefna að í samstarfslandi  Íslands, Malaví, hafa þurrkar valdið algjörum uppskerubresti og meginhluti þjóðarinnar er háður matvælaaðstoð. Þarna hefur El Nino bæst við gróðurhúsaáhrifin og afleiðingar þeirra. Þessa gætir einkum í austur og suður Afríku og suður Asíu. Þetta gerir baráttuna gegnt fátækt örðugri og því er mikilvægt að takast á við þessi vandamál á heimaslóðum því annars munum sjá stríða strauma umhverfisflóttafólks á næstu árum til viðbótar við straum þess flóttafólks sem er að flýja stríðsátök."

Nánar á vef RÚV
Eradicating Poverty - a Lofty Ideal or Achievable Goal?/ IPS
Viðræður nígerískra stjórnvalda um frelsun Chibok stúlknanna:
Á annað hundrað stelpur sagðar neita að yfirgefa Boko Haram

Frétt BBC í gær um endurfundi stúlkna frá Chibok við fjölskyldur og vini
Samningamenn nígerískra stjórnvalda sem ræða við hryðjuverkasamtökin Boko Haram um frelsun stúlknanna sem samtökin rændu fyrir tveimur og hálfu ári segja að viðræður standi yfir um frelsun 83 stúlkna til viðbótar en að rúmlega eitt hundrað stúlkur séu ófúsar að yfirgefa öfgasamtökin.

Talið er líklegt að skýringin felist í því að stúlkurnar hafi gerst málsvarar samtakanna eða skammist sín of mikið til að snúa heim eftir að hafa neyðst til að giftast meðlimum samtakanna eða eignast með þeim börn. Í frétt AP fréttastofunnar segir að stúkurnar sem voru leystar úr haldi samtakanna í síðustu viku komi til með að menntast erlendis því þær myndu að líkindum verða fyrir fordómum í heimalandinu. Þeim stúlkum, 21 að tölu, var sleppt lausum í framhaldi af samningaviðræðum stjórnvalda við fulltrúa Boko Haram.

Alls var 276 stelpum rænt frá Chibok í apríl 2014. Nokkrar náðu að flýja strax en langflestar hafa verið í haldi mannræningjanna allar götur síðan. Hermt er að sex stúlkur eða fleiri hafi látist í vistinni hjá Boko Haram.
Chibok girls give much-needed boost to Buhari's leadership/ DW
Chibok girls: Freed students reunite with families in Nigeria/ BBC
Wond­er Wom­an í stað fram­kvæmda­stjóra

"Sameinuðu þjóðirnar hafa nýlega hafnað sjö kvenkyns frambjóðendum sem gáfu kost á sér í leiðtogahlutverk samtakanna. Núna, í því skyni að efla konur og stúlkur, velja þau teiknimyndapersónu sem lukkudýr: Wonder Woman. Já, teikniblaðapersónu."

Þannig hefst grein í New York Times en Sam­einuðu þjóðirn­ar hafa verið gagn­rýnd­ar fyr­ir að velja of­ur­hetj­una Wond­er Wom­an til að leiða her­ferð sam­tak­anna um valdeflingu kvenna og stúlkna. Gagn­rýn­end­ur segja valið niðurlægjandi, að því er fram kemur í frétt á Mbl.is.

Þar segir að Ban Ki-moon, fram­kvæmda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna, muni á föstu­dag vera viðstadd­ur at­höfn þar sem Wond­er Wom­an verður form­lega út­nefnd heiðurs­sendi­full­trúi valdefling­ar kvenna og stúlkna.

"Valið var til­kynnt nokkr­um dög­um eft­ir að Ant­onio Guter­res, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra Portúgal, var út­nefnd­ur arftaki Ban. Sú út­nefn­ing olli ýms­um kvenna­sam­tök­um von­brigðum, þar sem von­ast hafði verið til að fyr­ir val­inu yrði fyrsta kon­an til að sinna starfi fram­kvæmda­stjóra," segir í fréttinni.

"Þetta er út í hött," seg­ir Shazia Rafi, einn leiðtoga She4SG her­ferðar­inn­ar og fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri Parlia­ment­ari­ans for Global Acti­on.

"Tákn­mynd her­ferðar­inn­ar fyr­ir efl­ingu kvenna er teikni­mynda­per­sóna, á meðan hægt var að velja á milli margra raun­veru­legra kvenna."

Rafi, sem hef­ur ritað Ban bréf og hvatt hann til að sniðganga at­höfn­ina, krefst þess að fallið verði frá ákvörðun­inni.
 
Alþjóðlegi matvæladagurinn: Loftslagsbreytingar

Bregðast verður við loftslagsbreytingum, hungri og fátækt heildstætt til þess að ná Heimsmarkmiðum alþjóðasamfélagsins, segir í skilaboðum Matvæla- og Landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) á Alþjóða matvæladeginum síðastliðinn sunnudag, 16. október.


José Graziano forstjóri FAO segir að hlýnun jarðar og óstöðugleiki í veðurfari sé nú þegar farin að grafa undan því mikilvægasta í landbúnaði og fæðuöryggi, þ.e. jarðvegi, skógum og úthöfum. "Eins og ævinlega eru það þeir fátæku og svöngu sem líða mest og þorri þeirra eru smábændur í dreifbýli þróunarríkjanna," segir Graziano í frétt frá FAO.

Bent er á að þurrkar og flóð séu tíðari og öfgafyllri en áður og vísað til áhrifa El Nino á svæðum í Afríku, Asíu og Mið-Ameríku, m.a. nýlegt ofsaveður af völdum fellibylsins Matthíasar á Haítí.

Yfirskrift dagsins er: Loftslagsbreytingar.

Nánar

Áhugavert

5 Reasons I'm Optimistic About the Future of Our Girls, eftir Melindu Gates/ GatesFoundation
-
The great escape, out of fragility: jobs, eftir Dani Clark/ Alþjóðabankablogg
-
Overcoming Fragility: Why Jobs are Key/ Upptaka frá ráðstefnu Alþjóðabankans
-
'Africa Rising'? 'Africa Reeling' May Be More Fitting Now, eftir Geffrey Gettleman/ NYT
-
Every Drought Need Not Be a Disaster/ WFP
-
"Biståndet måste våga prova nya idéer - och misslyckas"/ Sida
-
Housing is at the center of the sustainable development agenda, eftir Aisa Kirabo Kacyira/ Alþjóðabankablogg
-
Accelerating Innovation with Leadership, eftir Bill Gates/ GatesNotes
-
Slove'n'aid - One World [OFFICIAL MUSIC VIDEO]
-
Pivotal role midwives play in keeping mothers and newborns alive must be recognized - UN
-
Is there a limit to how long humans can live?/ Qz
-
Development and Humanitarian Aid - Working Together to Build Resilience/ Capacity4Dev
-
Criminal South Sudanese elite, eftir Sabine Balk/ D+C
-
Harnessing power to shift the economic balance toward equality for women, eftir Elise Young/ Devex
-
Building better cities, eftir Rudiger Ahrend/ TheObserver (OECD)
-
"What our daughter has done is a miracle" - the power of one adolescent girl/ UNFPA
-
Equal Access to Water -Improving gender relations around water access, use & governance in six countries/ UNDP
-
The Secret War Crime/ Time
-
Technology Enabled Girl Ambassadors (TEGA)/ GirlEffect
-
Our Stories Are Worth It, eftir Lupita Nyongo/ Medium
-
The African myth of 'interference in internal affairs', eftir Dirke Köpp/ DW
-
Problem of Child Marriage in Malawi Linked to Poverty / BorgenProject
-
Hacking for Change: Young Innovators Create Sustainable Development Solutions in Uganda, eftir Laura Richard/ AidData
-
EU Global Strategy blog series: Towards a European external human resources management system/ ECDPM
-
Nigeria's president says his wife 'belongs in the kitchen' after she criticized his leadership/ Qz
-
Accelerating Progress towards the SDGs: A Resource List for Scaling Up Quality Education, eftir Jenny Perlman Robinson ofl./ EducationInnovation
-
"It's a spiritual thing," Lekan Babalola on the power of jazz/ CNN
-
Congo Blues/ AfricaIsACountry
-
Why South Africa's funeral insurance industry is growing rapidly/ HowWeMadeItInAfrica
-
16 days of activism/ UNWomen
-
Why do rich countries think development should be only one way?, eftir Deborah Doane/ TheGuardian

Fræðigreinar og skýrslur
Kínverjar leiðandi í útrýmingu fátæktar 
Ljósm. Wenyong Li/World Bank.

Á mánudag, á alþjóðadegi um útrýmingu fátæktar, beindust augu margra að Kína og þeim árangri sem náðst hefur í því fjölmenna landi í baráttunni gegn fátækt. Engin þjóð hefur lagt jafn mikið af mörkum við að útrýma fátækt og Kínverjar. Þúsaldarmarkmiðin um að fækka um helming sárafátækum á tímabilinu frá 1990 til 2015 náðu Kínverjar þegar árið 2011. Þá hafði fækkað í hópi sárafátækra um 439 milljónir manna.

Kínverjar höfðu löngu fyrir daga Þúsaldarmarkmiða og Heimsmarkmiða sett sér eigin markmið um útrýmingu fátæktar. Chengwei Huang skrifar á bloggsíðu Alþjóðabankans í dag og rekur þessa sögu allt aftur til ársins 1982 þegar kínversk stjórnvöld kynntu "Sanxi áætlunina" en með henni hófst markviss útrýming fátæktar á landsvísu í fátækustu héruðum landsins, Gansu og Ningxia. Fjórum árum síðar voru skilgreind fátæk héruð og fátæktarmörk og sérstakir sjóðir fjármagnaðir til að draga úr fátækt.

Að mati Huang getur heimurinn margt lært af hugmyndafræði Kínverja í þessum efnum en pistilinn í heild má lesa hér..

Fréttir og fréttaskýringar

Hans Rosling slams false UN 'post-fact era' stats/ TheLocal
-
We're placing far too much hope in pulling carbon dioxide out of the air, scientists warn/ WashingtonPost
-
Tuberculosis kills three people a minute as case numbers rise/ TheGuardian
-
'Most people here die in silence': Inside the fight to save Yemen's health system/ BBC
-
'A famine unlike any we have ever seen' - As Nigeria battles Islamist terrorists, millions are at risk of starvation/ WashingtonPost
-
Danska vefritið um þróunarmál: Udvikling/ október-nóvember 2016
-
Viss um að ná loftslagsframlögum/ Mbl.is
-
Girl Effect's first CEO brings brand strategy to development/ Devex
-
Road that divides: Kenya slum braces for battle/ Reuters
-
Afrikabanken: Milliardsatsing på jobber for ungdom/ Bistandsaktuelt
Democratic Republic of Congo to push back elections despite outrage/ DW
-
BRICS development bank to lend $2.5 billion next year/ Reuters
-
Somalia's female presidential candidate: 'If loving my land means I die, so be it' / TheGuardian
-
UN warns of humanitarian crisis as 7,400 cross Afghan border each day/ UNNewsCentre
-
Habitat III: The 3rd United Nations Conference on Housing and Sustainable Urban Development - World Bank Participation/ Alþjóðabankinn
-
Emma Watson Helped Cancel Nearly 1,500 Child Marriages With the Help of Malawian Leaders/ Makers.com
-
Why Uganda is one of the world's most hospitable refugee destinations/ PBS
-
Empowering rural women, ensuring food security and ending poverty/ UNWomen
-
Putting gender equality at the heart of the New Urban Agenda/ UNWomen
-
21st Century Finance: A Buffer to Nature's Disasters or A Premium on Its Destruction?/ WorldBank
-
HABITAT III: Sustainable, inclusive cities 'can transform our world for the better,' Ban tells UN conference/ UNNewsCentre
-
Alliance Launches Woman Entrepreneur of the Year Award for Leaders Advancing Clean Cooking Solutions/ CleanCookstoves
-
Preventable blindness in children on the rise in poorer countries/ TheGuardian
-
Ritröð D+C: Urban agenda
-
Africa's population boom fuels "unstoppable" migration to Europe/ Reuters
-
UN pinpoints gender disparity in African farming/ BusiWeek
-
Big questions remain about global contraceptive access/ Devex
-
Rainforest Charity Asks Leonardo DiCaprio To Step Down From UN Position/ HuffingtonPost
-
Uganda: Water ATM Hits Market/ AllAfrica
-
Malawi's Mutharika 'not amused by 'nonsense' of wishing him dead'/ News24
-
Saved by the Black Mambas
-
FAO launches the first electronic voucher scheme in Mozambique/ FAO
-
"Take ownership of vital agenda" UN chief to world's mayors/ UNNewsCentre
-
Norfund-sjef om korrupsjon: - Vi må tåle feil/ Bistandsaktuelt

Málstofur um hnattræna heilsu

Málstofur um hnattræna heilsu verða haldnar í Hátíðasal Háskóla Íslands, föstudaginn 28. október nk kl. 13-17, á Þjóðarspegli Félagsvísindasviðs. Gestafyrirlesari er prófessor Cheikh Ibrahima Niang (sjá mynd), mannfræðingur við Cheikh Anta Diop háskólann í Dakar, Senegal, en hann var í ráðgjafahópi WHO um viðbúnað vegna Ebólufaraldursins í Vestur Afríku.

Heimsljós - tveggja vikna hlé

Heimsljós kemur ekki út næstu tvo miðvikudaga meðan ritstjóri aflar efnis í einu af samstarfslöndum Íslendinga, Úganda, og kynnir sér verkefni í opinberri þróunarsamvinnu, verkefni borgarasamtaka og verkefni alþjóðastofnana. Næsta Heimsljós kemur út miðvikudaginn 9. nóvember.

Jafnrétti á átakasvæðum
 
Myndin er tekin þegar þyrlufulgkonan Nadiya Savchenko var látin laus. Hún kom berfætt á Úrkaínska jörð enda varð hún þjóðhetja á meðan Rússar höfðu hana í haldi.
eftir Svanhvíti Aðalsteinsdóttur jafnréttisfulltrúa á skrifstofu sérstaks fulltrúa hjá NATO fyrir konur, frið og öryggi 

Jafnrétti og valdefling kvenna eru hornsteinar framfara í þróunarríkjum og lykilatriði að útrýmingu fátæktar. Konur sem hljóta menntun skila henni til barna sinna og huga betur að heilsu þeirra og varða þannig leiðina til aukins hagvaxtar og framfara. En raddir kvenna heyrast oft ekki.


"Ég hef upp raust mína - ekki til að hrópa, heldur til þess að bergmála raddir þeirra sem ekki heyrast. Við náum aldrei árangri ef haldið er aftur af helmingi okkar." -Malala Yousafzai

Í ríkjum þar sem stjórnarfar er veikt ,ríkir oft stöðnun og óvissa sem eru uppspretta ófriðar og þar eiga konur sérstaklega erfitt uppdráttar. Átök hafa ólík áhrif á konur og karla og sagt er að það sé erfiðara að vera kona á stríðstímum heldur en karl. Við heyrum allt of oft í fréttum hvernig ofbeldi og nauðganir eru markvisst notaðar til að brjóta niður samfélög; konum er beitt sem stríðstólum. Þar sem aðgangur kvenna að herjum er víða takmörkum háður fara karlarnir á vígvöllinn en konurnar reyna að halda daglegu lífi gangandi. Auk venjubundinna starfa sinna þurfa þær að bæta á sig þeim störfum sem karlarnir stunduðu.
Þessi veruleiki virðist oft fjarlægur á okkar afskekktu eyju en hluti af vandanum flyst heim til okkar með flóttamönnum sem yfirgefa heimalönd sín og reyna að byggja nýtt líf á Íslandi. Væru þau örugg í heimahögum sínum vildu þau síst af öllu flýja. Það er því liður í þróunarsamvinnu að styðja slík ríki og undanfarin ár höfum við beint stuðningi okkar til Afganistan og Palestínu.

Kynjajafnrétti og valdefling kvenna
Kynjajafnrétti og valdefling kvenna er gegnumgangandi í þróunarsamvinnu Íslands og undir hana fellur einnig friðargæsla. Um árabil hefur Íslenska friðargæslan sent sérfræðinga til starfa á hamfarasvæðum til að vinna með stofnunum sem falið er að gæta friðar eða eru lykilaðilar í uppbyggingu eftir hamfarir hvort heldur er af völdum manna eða náttúru. Fyrsta "1325" áætlun Íslands er frá árinu 2008 en nú fer fram önnur endurskoðun á framkvæmd áætlunarinnar. Öllum sérfræðingum friðargæslunnar ber skylda til að fylgja eftir því sem við köllum í daglegu tali "Ályktun 1325" í störfum sínum.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun nr. 1325 um konur frið og öryggi árið 2000, en þar var í fyrsta skipti viðurkennt lykilframlag kvenna við friðarumleitanir og friðarsamninga og uppbyggingu eftir átök. Ályktunin varð til fyrir áeggjan borgarasamtaka, ekki síst þeirra sem sinntu mannúðarstarfi og byggði reynsla þeirra af vanvirtu hlutskipti kvenna þegar "stóru" aðilarnir koma að samningaborðinu. Á þessum 16 árum sem liðin eru hafa sjö nýjar ályktanir verið samþykktar til að hnykkja á því að konur séu bæði fórnarlömb og gerendur í átökum, að þær hafi hlutverki að gegna sem karlmenn geta síður sinnt.

Árið 2012 tilnefndi framkvæmdastjóri NATO sérstakan fulltrúa sinn í málefnum kvenna, friðar og öryggis. Því starfi gegnir nú Marriet Schuurman sem er sendiherra frá hollensku utanríkisþjónustunni. Hún er málsvari NATO um málaflokkinn bæði út á við og inn á við, en að áætlun NATO um innleiðingu ályktunar Öryggisráðs SÞ um 1325 standa öll aðildarríki NATO auk 27 samstarfsríkja.

Íslendingar hafa löngum verið meðal dyggustu stuðningsmanna áætlunarinnar innan NATO og hafa sýnt stuðning sinn með framlögum til málaflokksins og sérfræðingum til starfa við innleiðingu áætlunarinnar. Starf mitt hjá NATO er í beinu samhengi við núverandi aðgerðaáætlun Íslands um Konur, frið og öryggi.  
Ýmsum kemur á óvart að NATO hafi slíka áætlun en það er ekki að ástæðulausu. Grunngildi stofunarinnar eru "að varðveita frelsi, sameiginlega arfleifð og menningu aðildarþjóðanna sem byggja á grunni lýðræðis, frelsi einstaklingsins og virðingu fyrir lögum og reglu". Hernaðarsamstarfinu fylgja tengsl við átakasvæði og þátttaka í uppbyggingu eftir stríð. Mönnum hefur orðið ljóst að það gerist ekki án þátttöku kvenna. Herir þátttökuríkjanna þufa að geta unnið saman og samhæfing staðla og áherslna auðveldar slíkt samstarf.

Í grunnin snýst þetta um jafnrétti kynjanna. Að konur hafa aðgang að störfum innan hersins til jafns við karla og að heraflinn fái til liðs við sig hæfileikafólk af ólíku tagi. Konur og karlar hafa msimunandi félagslegum hlutverkum að gegna og búa yfir ólíkum upplýsingum sem gagnast til að tryggja frið, og ógna síður hefðbundnu samfélagsmynstri. Á ófriðarsvæðum er lykilatriði að ná til heimafólks en slíkur aðgangur er oft kynbundinn.

Miðað við aðrar alþjóðastofnanir hefur NATO gengið vel að innleiða ályktun 1325, en betur má ef duga skal. Að hluta til er herskipunum fyrir að þakka. Þegar herforingjar skipa fyrir, hlýða undirmenn og framkvæma. Þannig að þrátt fyrir að 90% hermanna aðildarríkjanna séu karlmenn þurfa þeir að hlýða þessum sem öðrum samþykktum tilskipunum. Það er ekki þar með sagt að þeir séu sáttir eða skilji um hvað málið snýst, en reynslan á eftir að leiða það betur í ljós. Hjá NATO eru einnig borgaralegir starfsmenn sem ekki heyra undir herskipanir. Þar hefur verið á brattan að sækja að koma konum til æðstu starfa, en unnið er að því hörðum höndum að breyta því og aðferðirnar eru ýmiss konar og snúa meðal annars að foreldraorlofi, vinnutíma og starfsmati svo eitthvað sé nefnt. Næstu ár munu leiða í ljós hvernig til tekst að breyta "heimafyrir".

Úkraína
Meðal mikilvægustu samstarfsríkja NATO er Úkraína. Eitt af því merkilegra sem ég hef upplifað í þessu starfi er þátttaka í vinnustofu í Kiev sem átti að greina kynjajafnréttisstefnu stjórnvalda í tengslum við átökin í austurhluta landsins (Donbas héraði). Þar sást glögglega hvað átök hafa ólík áhrif á konur og karla ekki síst þar sem nútíma hernaður er mun víðtækari en vopnuð átök. Hann fer fram í netheimum og með óbeinum aðgerðum sem beinast að sjálfri samfélagsgerðinni.

Við mættum á hefðbundna ráðstefnu, ráðgjafar héðan og þaðan sem mættu til að segja Úkraínukonum og mönnum hvernig ætti að gera hlutina. En áberandi var að á fremstu bekkjunum annars vegar í salnum voru konur og fáeinir karlar í herbúningum. Þegar leið á ráðstefnuna fóru ýmsir af bekkjunum að biðja um orðið og á endanum röðuðu þau sér á pallborðið. Skemmst er frá því að segja að þau "rændu" fundinum. Erindi þeirra var að segja þessu alþjóðaliði að þau hefðu öll barist á vígvellinum í Donbas héraði en fengu enga viðurkenningu fyrir framlag sitt. Þetta voru mest konur sem sendar höfðu verið á vettvang sem bókarar eða hreingerningalið en þegar á hólminn var komið voru þeim fengin vopn í hendur og þau beðin að berjast. Þegar heim var komið voru ýmsir sárir bæði á sál og líkama en þar sem þau voru ekki formlegir "hermenn" var engar bætur að fá eða viðurkenningu á framgöngu. Flest vildu þau vera hermenn og fá þjálfun en vegna eldgamalla reglna voru flestar stöður í hernum lokaðar konum. Þær máttu t.d. ekki vera "lúðraþeytarar", en þó máttu þær fljúga þotum og þyrlum. Og fyrir nýgræðing í þessum heimshluta var áhugavert að heyra málflutning kvenna sem sögðust "hafa farið á vígvöllinn til að sinna þörfum hinna hraustu hermanna sinna" og karla sem sögðu að það væri ekki við hæfi að konur "tækju þátt í hernaði sem skaðað gæti hæfni þeirra til að eignast börn".

Á síðustu misserum hefur þessi hópur bundist böndum og kallar sig "Ósýnilegu hersveitina" (Invisible Battalion) og hefur með stuðningi UN-Women í Kiev unnið að skýrslu um hvernig unnið skuli gegn kynjamisrétti í úkraínska hernum.

Við munum eftir því hvað úkraínskar konur voru áberandi í átökunum á Maidan torgi 2014 og ljóst er að þær láta víða til sín taka, en samhliða þessu er ímynd úkraínskra kalrmanna mjög gamaldags og karlmennsku þeirra virðist ógnað. Kerfislægar breytingar þarf til að jafna þennan leik. Vandi vegna spillingar er kerfislægur og samstarfssamningurinn við NATO gengur mikið út á endurbætur í öryggismálum landsins. Kynjajafnréttið er liður í því og næsta atlaga er í undirbúningi að því að samþætta kynjajafnrétti í samstarfssamninginn við NATÓ.

Fésbókarsíða@NATO1325
Samstarf Alþjóðabankans og Íslands á sviði jarðhita

- eftir Þráin Friðriksson jarðhitasérfræðing hjá Alþjóðabankanum


gunnisal
Ljósmynd: gunnsal
Við Íslendingar þekkjum vel kosti jarðhitans sem orkugjafa enda hefur hann haldið á okkur hita, velflestum, áratugum saman og þar að auki er rúmur fjórðungur af öllu rafmagni sem framleitt er á landinu upprunninn frá jarðhitavirkjunum. Það eru heldur engin tíðindi að þessu er ekki allstaðar svona farið. Víða um lönd eru jarðhitaauðlindir sem eru ónotaðar eða vannýttar á meðan rafmagn er framleitt með jarðefnaeldsneyti sem er í öllum tilfellum skaðlegt vegna CO2 losunar og í mörgum tilfellum dýrt. Þó að vatnsaflsvirkjanir séu víða hafa þær í seinni tíð reynst ótryggar vegna breytinga á úrkomumynstri og þurrka. Kostir jarðhitans í samanburði við þessa orkugjafa, þ.e. lágur rekstrarkostnaður, hlutfallslega lítil losun gróðurhúsaloftegunda og áreiðanleiki eru ótvíræðir.

Á hinn bóginn eru tveir megin ókostir við jarðhitann sem hafa mjög hægt á nýtingu þessarar ágætu auðlindar. Í fyrsta lagi er hann ekki alls staðar að finna og í öðru lagi þarf miklar og áhættusamar fjárfestingar í jarðhitaleit og tilraunaborunum til að staðfesta að nýtanlegur jarðhiti sé til staðar og í hvað miklu magni og enn frekari fjárfestingar áður en hægt er að virkja. Hár fjárfestingakostnaður í upphafi með mikilli áhættu hefur orðið til þess að einkaaðilar og stjórnvöld í fátækum ríkjum hafa ekki bolmagn til að leggja út í virkjun jarðhita þrátt fyrir von um umtalsverðan ábata ef vel tekst til og nýtanleg auðlind reynist vera fyrir hendi. Við þessar aðstæður er gott tækifæri fyrir alþjóðlega þróunarbanka, eins og Alþjóðabankann, að koma að málum og aðstoða lönd við að rannsaka og nýta sínar jarðhitaauðlindir.

Rúmir fjórir milljarðar dala til jarðhitaverkefna í þróunarríkjum
Alþjóðabankinn hefur tekið þátt í fjármögnun jarðhitaverkefna í þróunarlöndum frá því á áttunda áratug síðustu aldar þegar bankinn lánaði fé til byggingar á Olkaria I orkuverinu í Kenía. Síðan þá hefur Alþjóðabankinn og aðrar sambærilegar stofnanir lánað sem nemur rúmum fjórum milljörðum Bandaríkjadala til jarðhitaverkefna í þróunarlöndum víða um heim og er hlutur Alþjóðabankans þar af rúmur helmingur. Framan af lánaði bankinn fyrst og fremst til áhættuminni þátta í uppbyggingu jarðhitavirkjana, þ.e. byggingu orkuveranna sjálfra og gufuveitna en vék sér undan því að veita lánsfé til borana en borkostnaður getur numið um 40% af heildarkostnaði við virkjun jarðhita og því er aðgengi að fjármunum til borana ein af megin forsendum þess að unnt sé að koma jarðhitavirkjunum á koppinn.

GGDP
Á síðustu árum hefur Alþjóðabankinn unnið að því að vekja athygli á því innan þróunarsamfélagsins að takmarkað aðgengi að fjármagni til borana, og þá einkum til rannsóknaborana, sé einn af megin flöskuhálsunum sem tefja vöxt á nýtingu jarðhita til rafmagnsframleiðslu í þróunarlöndum. Þetta hefur m.a. skilað sér í því að árið 2015 var fé til rannsóknaborana 17% af því fé sem alþjóðlegir þróunarbankar vörðu til jarðhita en árið 2012 var þetta hlutfall einungis 6%. Á alþjóðlegri jarðhitaráðstefnu í Hörpu í mars 2013 hleypti Alþjóðabankinn af stokkunum sérstöku átaksverkefni, the Global Geothermal Development Plan (GGDP), til að afla fjár til jarðhitaverkefna. GGDP verkefnið er rekið af ESMAP (Energy Sector Management Assistance Program). Um 250 milljónir bandaríkjadala hafa nú þegar fengist til þessa verkefnis frá CTF (Clean Technology Fund) og er þessu fé ætlað að örva fjárfestingu einkaaðila í jarðhitavirkjunum en gert er ráð fyrir að á móti þessu fé komi allt að 1,5 milljarðar dala frá einkageiranum. Þess skal getið að fleiri alþjóðlegir þróunarbankar svo sem Evrópski Þróunarbankinn (EBRD) og Ameríski Þróunarbankinn (IADB) geta einnig ráðstafað því fé sem safnast innan GGDP.

Stuðningur Alþjóðabankans við jarðhitaverkefni í einstökum löndum er sniðinn að aðstæðum í hverju landi. Í Tyrklandi þar sem jarðhitageirinn hefur verið í miklum vexti á síðustu árum með þátttöku fjölda innlendra fjárfesta kemur bankinn að því að fjármagna lánalínur fyrir innlenda banka sem framlána til vinnsluborana og byggingu orkuvera. Þar er einnig unnið að því að koma á fót sjóði, innan ramma GGDP, sem hefur það hlutverk að tryggja hluta af þeim fjármunum sem einkaaðilar leggja í rannsóknaboranir. Er þetta hugsað til að auka enn frekar áhuga einkaaðila til að fjárfesta í virkjun jarðhita. Alþjóðabankinn er einnig að undirbúa að setja á fót samskonar sjóð í Indónesíu. Í löndum þar sem jarðhitageirinn er ekki eins langt á veg kominn veitir Alþjóðabankinn fé til borana; í gegnum GGDP styrki eins og t.d. í Djibouti og í Armeníu eða með lánum til langs tíma og á lágum vöxtum, t.d. í Eþíópíu.

Ísland og Alþjóðabankinn
Ísland og Alþjóðabankinn hafa átt farsælt samstarf í jarðhitamálum um nokkurt skeið. Íslensk stjórnvöld hafa sem hluthafar í Alþjóðbankanum og aðilar að ESMAP beitt sér fyrir því að bankinn geri stuðning við jarðhitanýtingu að forgangsverkefni. Þannig studdu íslensk stjórnvöld undirbúning GGDP dyggilega. Alþjóðabankinn og Ísland gerðu einnig með sér samkomulag um samstarf í jarðhitamálum í Austur Afríku árið 2012. Það samstarf felst í því að Ísland fjármagnar yfirborðsrannsóknir í samstarfi við Norræna Þróunarsjóðinn en Alþjóðbankinn fylgir í kjölfarið og fjármagnar rannsóknaboranir. Þetta samstarf hefur heppnast sérlega vel í Eþíópíu þar sem undirbúningur að tilraunaborunum stendur nú yfir.

Íslensk stjórnvöld hafa ennfremur kostað stöðu jarðhitasérfræðings innan ESMAP síðan 2009. Íslenskir sérfræðingar innan ESMAP hafa stutt við starf verkefnisteyma sem vinna að jarðhitaverkefnum innan bankans og skrifað fagrit um jarðhitamál sem nýtast í starfi bankans svo sem handbók um skipulag og fjármögnun jarðhitaverkefna og nýlega skýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda frá jarðhitavirkjunum. Annar þessara sérfræðinga átti einnig drjúgan þátt í þeirri hugarfarsbreytingu varðandi stuðning bankans við boranir sem getið er að framan og mótun GGDP. Íslenska utanríkisráðuneytið og ESMAP vinna nú að mótun frekara samstarfs á sviði jarðhita á næstu árum.

Kosningaeftirlit í Georgíu

- eftir Snorra Matthíasson sérfræðing hjá Íslensku friðargæslunni

Snorri (l.t.v.) og samstarfsfélagar hans á neðri myndinni og á þeirri efri mynd frá kjörstað í Georgíu. 
Kosningaeftirlit er í dag mikilvægur hluti af starfsemi Íslensku friðargæslunnar og íslenskri þróunarsamvinnu. Eftirlitið, sem fer fram á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) er mikilvægur liður í lýðræðisþróun aðildarríkja ÖSE. Fyrir kosningar bjóða aðildarlöndin ÖSE að sinna kosningaeftirliti til þess að tryggja að kosningarnar fari fram með frjálsum hætti. ÖSE metur þá hvort nægilegt traust fyrir framkvæmd kosninga er til staðar hjá lykilhópum í samfélaginu, eins og stjórnmálaflokkum, fjölmiðlum, og frjálsum félagssamtökum. Ef efasemdir liggja fyrir boðar ÖSE í kosningaeftirlit og senda aðildarlöndin, á eigin kostnað, fulltrúa sem sinna annað hvort langtíma eða skammtíma kosningaeftirliti.

Undanfarnar vikur hefur Ísland sent fjóra fulltrúa í skammtíma kosningaeftirlit til Georgíu og Montenegró. Undirritaður fór til Georgíu ásamt Lilju Margréti Olsen, lögfræðingi. Við komu til landsins fengum við tækifæri til þess að skoða aðeins höfuðborgina Tbilisi og kynntumst yndislegri matarmenningu landsins.

En strax næsta dag hófst undirbúningur fyrir kosningaeftirlitið, í boði starfshóps ÖSE í Tbilisi. Kynningarnar voru ítarlegar og fóru yfir helstu þróanir í stjórnmálum, fjölmiðlum og kosningalögum landsins. Næsta dag voru nánari kynningar um framkvæmd kosningaeftirlitsins, og notkun á sérstökum rafrænum penna sem er notaður til þess að fylla út form á kjörstað. Penninn sendir (með Bluetooth) upplýsingar um það sem maður skrifar á sérstök form yfir í snjallsíma, sem svo notar farsímanet til þess að senda upplýsingarnar beint til Tibilisi þar sem tölfræðingar ÖSE geta strax rýnt tölurnar.

Að kynningu lokinni hittum við okkar samstarfsfélaga í eftirlitinu. ÖSE hefur í sínu kosningaeftirliti þá reglu að einn karl og ein kona sinna eftirliti saman, og að þau eru aldrei frá sama landi. Með sér í för hafa þau túlk og bílstjóra, helst frá svæðinu þar sem eftirlitið fer fram. Minn samstarfsfélagi var kona frá Bandaríkjunum sem hafði farið í margar slíkar eftirlitsferðir áður og gat leiðbeint mér vel í gegnum verkefnin. Við nýttum daginn fyrir kosningar í að kynna okkur svæðið þar sem við áttum að sinna eftirliti (vestan við borgina Gori, fæðingarstaður Stalínar), og gerðum áætlun um hvaða kjörstaði átti að heimsækja.

Í kosningaeftirliti er mikilvægt að fylgjast grannt með á kjörstað, hafa augu fyrir smáatriðum, og halda fullkomnu hlutleysi í starfi. Verkefni eftirlitsmanns er aðeins eftirlit og skýrslugjöf til ÖSE, en alls ekki ráðgjöf, þrátt fyrir að margir starfsmenn á kjörstað líta oft til eftirlitsfulltrúa með spurningar um framkvæmd!

Við hófum kosningaeftirlitið klukkan sjö um morguninn og fylgdumst með kjörstað í sveitinni þegar opnað var fyrir kjósendur. Á kosningadegi heimsóttum við rúmlega 10 kjörstaði, og enduðum daginn á kjörstað númer 11 í Khashuri þar sem við fylgdumst með talningu. Við reyndumst vera heppin með kjörstað fyrir talningu, en hún fór fram með skipulögðum hætti og lauk rétt fyrir miðnætti eftir að kjörstaður lokaði á slaginu átta. Kosningaeftirlitsmenn ÖSE eiga að fylgjast með talningu á einum kjörstað til enda, og fylgja svo formanni kjörstaðs til yfirkjörstjórnar þar sem niðurstöður eru tilkynntar. Þar fylgdumst við nánar með framkvæmd talninga þangað til við fórum aftur á hótelið rúmlega klukkan þrjú - eftir 20 klukkustunda eftirlit.

Næsta dag var svo haldinn samantektarfundur með langtímaeftirlitsmönnum, og farið var yfir helstu niðurstöður. Á okkar svæði urðum við ekki vitni að neinum alvarlegum mistökum, kosningasvindli eða illgjörnum verkum. Helstu vandamál voru að eftirlitsmenn stjórmálaflokkana sem skiptu sér of mikið af framkvæmd kosninga og stjórn á kjörstað, sem reyndist vera vandamál um allt land. Síðasta daginn fyrir brottför var svo haldinn fundur og móttaka í Tbilisi fyrir alla eftirlitsmennina á vegum ÖSE, þar sem það kom fram að kosningar fóru friðsamlega fram og án alvarlegra athugasemda. Þá kom fram að sendiherra Bandaríkjanna sagði að hann vildi óska að kosningar í landi hans væru eins friðsamlegar og kosningar í Georgíu.

Af listum og menningu

Nelsa á myndinni til vinstri og verk eftir Gonza til hægri. Ljósm: AGA
- eftir Önnu Guðrúnu Aradóttur starfsnema í Mósambík

Í sendiráðum Íslands í Malaví, Mósambík og Úganda starfa þrír starfsnemar sem líkt og undanfarin ár hafa fallist á beiðni Heimsljóss um pistlaskrif þann tíma sem þeir dvelja í samstarfslöndum Íslendinga. 

Það er mikið um hina ýmsu menningarviðburði í Maputo - danssýningar, listasýningar og lifandi músík - viðburðir sem ég hef mjög gaman af að mæta á til að sýna mig og sjá aðra og kynnast því frekar hvað er á döfinni í mósambísku menningarlífi. Ég hef tekið eftir því að samtímalistamenn hérna eru margir hverjir umhverfisvænir og notast við efnivið í listsköpun sína sem aðrir myndu oft flokka sem drasl. Þannig leggja þeir sitt af mörkum til umhverfisverndar, á sama tíma og þeir vekja aðra til umhugsunar um slík málefni. Ég sá eina slíka sýningu um daginn þar sem listamaðurinn Gonza notar meðal annars málma, víra og dekk sem hann safnaði saman af götunni, endurnýtti og leyfir nú gestum og gangandi að njóta.

Mima-te er fatamerki sem er hugmyndasmíð mósambískra systra og er fyrsta mósambíska fatamerkið sem notast við endurunnin föt. Systurnar þræða markaði borgarinnar til þess að finna second-hand föt sem þær endurvinna svo úr verða nýtískulegar og einstakar flíkur. Með þessu vilja þær vekja athygli á endurvinnslu út frá umhverfissjónarmiðum sem og búa til nýja mynd af mósambískri tísku. Önnur systirin, Nelsa, er einnig myndlistakona og er með sýningu núna í október í fransk-mósambíska menningarsetrinu sem ég fór að sjá í síðustu viku. Sýningin, "Status Quo", er túlkun Nelsu á kreppunni og stjórnmálaástandinu í Mósambík og er hennar framlag til að vekja athygli á mikilvægi þess að leita sameiginlegra lausna á ágreiningi og öðrum samfélagslegum vandamálum.

Efnahagsástandið leikur margan Mósambíkan grátt þessa dagana þar sem verð á vörum og þjónustu fer sí hækkandi sem erfitt er fyrir meðalmanninn að eiga við. Stjórnmálaskandalar sem litið hafa dagsins ljós eru á allra vörum þó að fólk virðist halda ró sinni út á við. Almenn mótmæli gagnvart stjórnvöldum eru sjaldgæf þar sem það er ekkert sérstaklega vinsælt að vera opinberlega á móti yfirvöldum hérna.

Ég var hrifin af sýningu Nelsu en það sem vakti helst athygli mína var að með verkum sínum dregur hún upp mynd af áhrifum efnahagsástandsins á fólkið í landinu og beinir spurningum um næstu skref að yfirvöldum. Hún sýnir fram á þjáningu og skapraunir meðborgara sinna en á sama tíma jákvæðnina og gleðina sem ríkir og einkennir Mósambíka. Ég talaði við Nelsu sjálfa sem var á staðnum og hún útskýrði fyrir mér að henni finnst mikilvægt að sýna ekki aðeins neikvæðu hliðina á veruleikanum heldur að sýna einnig fram á vilja fólksins til að tjá sig og taka þátt í að breyta samfélaginu til hins betra.

Fólk talar nefnilega mikið sín á milli og hefur skoðanir sem komast ekki til skila þar sem lítið er um vettvang til að koma þeim á framfæri. Framtak Nelsu finnst mér því mikilvægt þar sem hún skapar vettvang fyrir þjóðfélagslega umræðu og fær fólk til þess að hugsa. Þó að listræn tjáning sé ekki allra er listin þó fjölbreytt, hún nær oft til ólíkra hópa og getur því verið gott tæki til að koma skilaboðum áleiðis ásamt því að skapa umræðu, hvort sem það er um umhverfisvernd og endurvinnslu, stjórnmál eða bara eitthvað allt annað.

facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105